Saturday, November 10, 2012

Hernaðarútrás USA og ESB til austurs


(Flutt á landsráðstefnu SHA. Birtist á eggin.is 14. des. 2009)

Í fyrri hluta þessa erindis kom eftirfarandi fram: Eftir að Sovétríkin hurfu af sjónarsviðinu, og þar með helsta réttlætingin fyrir hernaðarstefnu vestrænna heimsvaldasinna undir forustu Bandaríkjanna, fóru bandarískir hermálafræðingar, stjórnmálamenn og spunadoktorar að leita að „nýjum djöflum“. Sú leit skilaði m.a. kenningu Huntingtons um „árekstur menningarheima“, tali um „þrjótaríki“, hryðjuverkamenn, eiturlyfjasmyglara o.fl. Í skjóli þessara „skrímsla“ hafa heimsvaldasinnar síðan skákað til þess að réttlæta stríð sem raunverulega voru háð vegna beinharðra hagsmuna.

11. september

Það tókst eiginlega ekki að búa til nógu hættulega óvini úr mönnum eins og Milosévits og Saddam, jafnvel með útsmoginni notkun skrímslafræðanna. Í Bandaríkjunum varð erfiðara að koma gegnum þingið nýjum framlögum til hermála. Það leit jafnvel út fyrir hernaðarsamdrátt. Hergagnaframleiðendur, olíuauðhringar o.fl. vöruðu mjög við slíkri þróun – og ekki síður samtökin Project for the New American Century. Þau viðurkenndu að veikasti hlekkurinn gagnvart því mikla verkefni að efla aftur herinn væri hugarfar hins almenna manns heima fyrir í Bandaríkjunum. Í áðurnefndri skýrslu samtakanna frá árinu 2000 stóð skrifað um endursköpun hersins: „Umbreytingaferlið, jafnvel þó það hafi í för með sér róttæka breytingu [hersins] mun líklega taka langan tíma, nema til komi hamfaraatburður sem virkar sem hvati, líkt og nýtt Pearl Harbor.“ (Wikipedia, „Project for the New American Century“)

Og nýtt Pearl Harbor kom 11. september ári síðar. Annað hvort komu þeir atburðir sem happdrættisvinningur sem landvinningahaukarnir höfðu beðið eftir og beðið guð sinn um eða þá að viðburður þessi rann undan rifjum þeirra sjálfra. Síðari skýringuna tel ég miklu sennilegri enda fjölmargt í sjálfum kringumstæðum atburðanna sem a.m.k. útilokar hina opinberu og vel kunnu skýringu á þeim.
Bush-kenningin var nú lögð fram, um einhliða rétt Bandaríkjanna til að heyja svonefnd „fyrirbyggjandi stríð“. Enn fremur kom í ljós að þegar lágu fyrir áætlanir um hernaðarleiðangra og einnig stefnuna sem taka skyldi. Það var alveg sama meginstefna og bandarísk stjórnvöld höfðu fylgt á 10. áratugnum, nema hvað nú var gengið nokkrum skrefum lengra og ofbeldisfyllri aðferðum beitt. T.d. hafa lekið út ítarlegar áætlanir um innrásina í Afganistan sem lagðar voru fram tveimur dögum fyrir 11. september og var síðan fylgt. Heildarstefnan fylgdi þeirri leið sem Cheney, Brzezinski og aðrir spámenn heimsvaldasinna höfðu varðað í áætlunum sínum og áður er minnst á. „Stríð er framhald stjórnmálanna með öðrum meðulum“ eins og áður segir. Meginlínan var sú að tryggja yfirráð vestrænna heimsvaldasinna á olíuauðugustu svæðum jarðarinnar og flutningaleiðum gass og olíu þaðan, og ná jafnframt herfræðilegum undirtökum í Evrasíu fyrir átök framtíðarinnar.

Innrásin í Asíu

Stefnan var tekin um Balkanskaga og þaðan til Mið-Austurlanda, sunnanverðrar Asíu og einnig inn á svæði gömlu Sovétríkjanna, ekki síst Kákasussvæðið og kringum Kaspíahafið. Að hluta hefur þessi útþensla farið fram í gegnum NATO og ESB. Að öðru leyti hefur hin ameríska vígvél tekið að sér verkið. Það verður að undirstrika það að í meginatriðum hafa Bandaríkin haft fullt umboð annarra vestrænna heimsvaldaríkja við þennan hernað – rétt eins og var á dögum kalda stríðsins. Yfirleitt er hernaðurinn rekinn með einhverri þátttöku vestrænna bandamanna, svo sem í Írak og Afganistan, auk þess sem Bandaríkin hafa sent vestrænum bandamönnum og Japan háa reikninga fyrir viðvikið. Enda er starfið mikilvægt, nefnilega það að tryggja með valdi arðránskerfið mikla og þá miklu heimsvaldahagsmuni sem vestrænir heimsvaldasinnar eiga sameiginlega þrátt fyrir sívaxandi hagsmunaandstæður, samkeppni og togstreitu þeirra á milli.
Eftir fall Sovétríkjanna og með hinni nýju heimsskipan var endurskipulagning herja og herstöðvanets eðlilegur. Mikilvægustu herstöðvar Bandaríkjanna fluttust frá Vestur-Evrópu og inn á hin nýju áhrifasvæði. Í framhjáhlaupi vil ég segja: Við máttum vissulega gleðjast yfir brottför Keflavíkurhersins en ég hef aldrei talið sérstaka ástæðu til að hrósa miklum sigrum í sambandi við flutning hergagna frá Íslandi þegar það er liður í mestu herflutningum síðari tíma sem eru, vel að merkja, herflutningar heimsvaldasinna til nýrrar stórsóknar.
Ég mun nú nefna bara örfá atriði í sambandi við hina vestrænu hernaðarútráas eftir lok kalda stríðsins.
Nokkrum mánuðum eftir fall múrsins og frammi fyrir hrynjandi Sovétblokk fór „Operation Desert Shield“ í gang í Írak, sem startskot fyrir tveggja áratuga innrás vestrænna heimsvaldasinna inn í Suðvestur- og Suður-Asíu að viðbættum Balkanskaga og hlutum af Afríku. George Bush eldri lýsti yfir „nýrri heimsskipan“. Og síðan hafa hátt í 800 þúsund vestrænir hermenn tekið þátt í þessari innrás væddir sprengjum og fullkomnustu hernaðartækni í viðbót við það að heimsvaldasinnar hafa rekið og reka mörg stríð gegnum staðgengla.
Stríðin í Júgóslavíu á 10 áratugnum höfðu sem einn megintilgang að aðlaga herstyrkina í Evrópu að nýjum aðstæðum eftir fall múrsins, flytja bandaríska heri til Austur-Evrópu og búa til réttlætingu fyrir áframhaldandi tilveru og eflingu NATO. Frá lokum kalda stríðsins hefur bandalagið síðan tvöfaldað fjölda aðildarlanda sinna. Þess má geta að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn gegndu lykilhutverki í því að koma á upplausnarástandi í Júgóslavíu á 10. áratugnum.

Tvær leiðir frá Kaspíahafinu

Ég ætla ekki að fjalla um stríðið í Írak. Það snýst fyrst og síðast um olíu eins og allir hér þekkja. Að vísu fóru hagsmunir Bandaríkjanna og helstu ESB-veldanna ekki saman í því máli og eftir að stríðið byrjaði fóru fram mikilvægir samningar milli þeirra um aðkomu ESB-ríkja að hernáminu og skiptingu hins dýrmæta herfangs.
Eitt stærsta vannýtta olíusvæði heims er svæðið við og kringum Kaspíahafið. Kaspíahafið er innhaf og þetta mikla olíusvæði er landlukt. Auk þess liggja að því tvö lönd sem eru strategískir andstæðingar Bandaríkjanna, Rússland og Íran. Önnur strandríki Kaspíahafs eru þrjú: Azerbædjan, Kazakstan og Túrkmenistan. Til að koma á olíuflutningum frá Kaspíska svæðinu og sniðganga um leið andstæðingana í Rússlandi og Íran var hægt að leggja leiðslurnar til austurs eða vesturs. Ef leggja skyldi í austur þurfti að fara um Afganistan og Pakistan en ef leggja skyldi í vestur þurfti að fara um Azerbædjan og Georgíu til Tyrklands. Eftir fall Sovétríkjanna báru vestrænir olíufurstar og heimsvaldasinnar mjög fé á pólitískar elítur þessara landa. Ekki sístrann mikið gullæði á vestræna olíuauðhringa – Chevron, BP, Shell og Exxon Mobil, Unocal og fleiri. Hinar nýfrjálsu elítur reyndust þyrstar í meira lagi, bæði í erlendar fjárfestingar og mútur.
Skoðum vesturleiðina fyrst. Fyrir aldamótin 2000 hafði Clintonstjórnin komið á mikilli samvinnu við nýfrjálsu stjórnirnar í Azerbædjan og Georgíu, og hafinn var undirbúningur að nýrri olíuleið frá Kaspíahafi til Miðjarðarhafs, sk. Bakú – Tiblisi – Ceyhan leiðslu yfir Kaspíahafið frá Túrkmenistan til Bakú, gegnum Azerbædjan, Georgíu og Tyrkland, og eftir aldamótin varð sú samvinna hernaðarleg jafnhliða því sem þessi lönd fengu aukaaðild að NATO gegnum sk. Partnership for Peace. Árið 2002 hófst svo, undir forustu helstu ESB-veldanna undirbúningur að lagningu sk. Nabucco-leiðslu fyrir jarðgas, frá Kaspíahafi og allt til Austurríkis, aftur án viðkomu á rússnesku svæði. Þessi útþensla vesturveldanna hefur eðlilega leitt til árekstra við rússneska björninn sem hefur reynt að brölta á lappirnar aftur. Eftir dvala Jeltsíntímans vaknaði hann við að vestræn heimsvalda- og hernaðarstefna var bókstaflega komin upp að húsvegg. Átök vesturveldanna við Moskvu náðu hámarki hingað til í Georgíustríðinu fyrir ári síðan. Það stríð snérist um olíu og jarðgas, ekki um lýðræði eða þjóðernisminnihluta eins og íslenskir og vestrænir fjölmiðlar gáfu í skyn, nema að því leyti að sjálfstæði hinna Rússlandshollu Abkasíu og Suður Ossetíu – og mislukkuð tilraun Georgíu til að beygja þau undir sig – gengisfelldi Georgíu nokkuð sem framtíðarleið fyrir Kaspísku olíuna. Leiðin sem leiðslurnar liggja um getur því varla kallast traust yfirráðasvæði versturveldanna. Bæði Bandaríkin og Evrópuherinn eru nú með friðargæslusveitir við landamæri Abkasíu.
Í yfirlýsingu frá bandaríska orkumálaráðuneytinu í desember 2000 stóð eftirfarandi: „Mikilvægi Afganistan frá orkusjónarmiði liggur í landfræðilegri stöðu landsins sem möguleg flutningsleið olíu og jarðgass frá Mið-Asíu til Indlandshafs. Þetta mikilvægi felur einnig í sér margmilljarða flutningsleiðslur gegnum Afganistan, þótt þær áætlanir séu nú í mikilli hættu.” [„Gas, Oil and Afghanistan“]
Á 10. áratugnum hafði Bandaríkjastjórn og vestrænir olíuauðhringir veðjað mjög á Talibanastjórnina í Afganistan til að tryggja sér flutningsleið frá olíuauðugum Mið-Asíulýðveldum, Túrkmenistan, Kazakstan og Úzbekistan. Olíuhringurinn Unocal leiddi samningagerð á árunum 1997-98 og virtist vera að landa samningi. Varaforseti auðhringsins, John Maresca, vitnaði þá fyrir bandaríska þinginu og talaði um „nýja silkileið“ þar sem Miðasíulýðveldin yrðu aftur gatnamót Evrópu og Asíu (sama heimild).
Þegar til kom reyndust talíbanar ótraustir bandamenn og samningar við þá fóru út um þúfur á árunum 1999-2000. Og bandarísk stjórnvöld mátu það hreinlega svo að óviðunanlegt væri að þurfa að treysta á óstöðuga bandamenn á svo mikilvægu svæði svo nauðsynlegt væri fjarstýra landinu með gamla laginu, beint frá Washington. Það var ástæðan fyrir stríðinu í Afganistan. Ellefti september var annað hvort himnasend tylliástæða eða heimatilbúin átylla. En hann dugði til að koma bandarískum herstöðvum í nágrannalönd Afganistans eins og Úzbekistan, Tadsíkistan og Kirgistan og fleiri hafa bæst við síðan. Eins og áður sagði tengja heimsvaldasinnar við sig þá staðbundnu gerendur sem gagnast hagsmunum þeirra best á hverjum tíma. Og afar skyndilega breyttust afganskar frelsishetjur og samherjar í stríðinu við Rússa í terrorista og ótínda glæpamenn. (sjá hér).

Niðurstöður um vestræna hernaðarstefnu eftir 1990

Meginvígstöðvarnar í hinnu miklu vestrænu innrás í Asíu er nú í Afganistan. Fjöldi vestrænna hermanna i landinu er kominn yfir 100 000. Obama hefur þegar tvöfaldað bandaríska liðstyrkinn frá því hann tók við embætti og ef hann fær þá 30–40 000 manna fjölgun sem hann hefur boðað verður herinn kominn í um 140 þúsund, mun fjölmennari en Sovétherinn í Afganistanstríðinu um og upp úr 1980 sem komst hæst í 104 þúsund. Það er óhætt að tala um að tvö heimsveldi standi nú að innrásinni í Afganistan, Bandaríkin og ESB. Af 20 formlegum hernámsríkjum eru aðeins 3 þar fyrir utan: NATO-ríkin Kanada og Tyrkland og svo Ástralía. Heimsveldin tvö sameinast gegnum NATO.
Það ber vestrænni heilaþvottamaskínu öflugt vitni að vestrænir fjölmiðlar eru tregir til að kalla átökin í Írak og Afganistan stríð. Íslenska ríkisútvarpið lýsir átökunum þar helst sem baráttu innlendra stjórnvalda gegn hryðjuverka- og ofstækismönnum. Fyrir viku gerðist þó Ríkisútvarpið félagsfræðilega þenkjandi og flutti eftirfarandi frétt: „Fátækt og spilling er meginástæða ófriðarins í Afganistan. Þetta segir í skýrslu hjálparsamtakanna Oxfam, en hún er byggð á könnun sem gerð var nýlega í Afganistan.“ (ruv.is, 18. nóv.) Þetta er framför en þó gleymdist að nefna 100 þúsund manna hátæknivædda vestræna innrás sem hluta af ástæðunni. Að lokum set ég fram sjö tesur sem mega kallast niðurstöður:
1. Styrjaldir Bandaríkanna, NATO og vinaríkja eftir lok kalda stríðsins, styrjaldir sem kenndar eru við mannúð og lýðræði, eru í raun klassískir ránsleiðangrar.
2. Efnahagskerfi nútímans, oft kennt við hnattvæðingu, er enn sem áður af gerð heimsvaldasinnaðs einokunarauðvalds – af sömu megingerð og var alla 20. öldina.
3. Eftir hrun Sovétríkjanna og endurreisn kapítalisma í Kína, þ.e. með brotthvarfi „náttúrulegra óvina“, er skýrara en áður að hernaðarstefnan leiðir af útþensluhneigð heimsvaldastefnunnar.
4. Hernaðarlegir yfirburðir Bandaríkjanna samfara því að þau dragast aftur úr efnahagslega gerir þau sérlega herská og hættuleg.
5. Það er mikil samfella í utanríkisstefnu Bandaríkjanna eftir lok kalda stríðsins. Hún einkennist af útþenslustefnu með blöndu af efnahagslegum, diplómatískum og hernaðarlegum aðferðum – og ræðst ekki af því hvort demókratar eða repúblikanar eru við völd né af atburðum eins og 11. september.
6. Samstaða ríkir í meginatriðum milli vestrænna heimsvaldasinna um hernaðarstefnuna, þrátt fyrir vaxandi andstæður og hagsmunaárekstra þeirra á milli.
7. Sagan sýnir að efnahagskreppa gerir rándýrið hættulegra en ella.

No comments:

Post a Comment