Showing posts with label Afríka. Show all posts
Showing posts with label Afríka. Show all posts

Thursday, November 21, 2019

Samherji varla sértilfelli

(Birtist  á Neistum 20 nóvember 2019)


Ekki skal fella dóma fyrirfram í máli Samherja í Namibíu. En þáttur Kveiks og umfjöllun Stundarinnar um málið sýndist vel unnin, trúverðug og áhrifamikil. Málið er stórt hneykslismál í Namibíu ekki síður en hér og ráðherrar segja af sér svo það snýst áreiðanlega um raunverulega hluti. Hvað sem sannað verður um lögbrot og sekt í einstökum dæmum segir málið heilmikla sögu, m.a. um auð og arðrán, völd og valdaleysi.

Eftir því sem meira rúllast upp þetta mál mun íslenska eignastéttin kappkosta betur að stilla utanlandsrekstri Samherja upp sem algeru sértilfelli.

Ég er hvorki sérfóður um Namibíu né Samherja. En ég vil setja fram þá tilgátu að þær rekstraraðferðir Samherja í Namibíu sem kynntar voru séu e.t.v. ekki ýkja afbrigðilegar. Og að aðalatriði málsins sé ekki spilling. Fremur séu þessi Samherjarekstur í Afríku DÆMIGERÐUR. DÆMIGERÐUR kapítalismi. DÆMIGERÐ heimsvaldastefna. Og að hann endurspegli ríkjandi efnahagskerfi heimsins í dag (Íslands þar með).


Hið kapítalíska
DÆMIGERÐUR kapítalismi. Kapítalisminn byggir á gróðasókn – gróðasóknin er driffjöður kapítalismans. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Gróðinn er jákvæður segja menn – en græðgin er vond. Slík afstaða verður tvískinnungur af því gróðasókn sem aðaldriffjöður efnahagslífs hlýtur að leiða af sér græðgi. Þegar talað er um „spilltan kapítalisma“ er látið í veðri vaka að „sannur“ kapítalismi sé siðavandur. Sem hann hefur aldrei verið. Það er eðli hlutfjár að leita að hámarksgróða. Fyrirtæki með 5% arðsemi 2,6-faldar heildarfjármagn sitt á 20 árum en fyrirtæki með 10% arðsemi 6,7-faldar það. Þess vegna leitar hlutaféð á markaðnum skiljanlega yfir í 10%-fyrirtækið en 5% fyrirtækið dettur út. Í kauphöllinni er fyrst og síðast spurt um arðsemi, ekki aðferðir í rekstrinum eða samfélagslega nytsemd. Sá kapítalisti sem nær mestum arði út úr starfsmönnum sínum verður sigurvegari. Útkoman er m.a. eignasamþjöppun.

Aðferðir Samherja endurspegla ríkjandi frjálshyggjukapítalisma. Íslenskur sjávarútvegur var markaðsvæddur í upphafi nýfrjálshyggjubyltingar á Íslandi. Þegar aflaheimildir voru gerðar framseljanlegar og veðsetjanlegar 1990 fól það í sér einkavæðingu miðanna. Með því var útgerðin í reynd frátengd samfélaginu: líf og dauði sjávarbyggða réðist á hlutabréfamarkaðnum. Einkavæðing auðlinda árið 1990 var líka DÆMIGERÐ fyrir tíðaranda þess tíma. Margrét Thatcher var enn við völd, framstormandi nýfrjálshyggja á Vesturlöndum og hrynjandi sósíalismi. Markaðsvæðing sjávarútvegs leiddi á skömmum tíma til gríðarlegrar eignasamþjöppunar.

Samþjöppun er eitt af lögmálum kapítalismans. Samþjöppunin í íslenskum sjávarútvegi var hröð, en hún var lögmálsbundin kapítalísk þróun. Hún var DÆMIGERÐ í okkar heimshluta – og íslenskir kapítalistar telja hana mjög árangursríka. DÆMIGERÐ já, en hafði séríslenskt form, kvótakerfið var það form, með framseljanlegum kvóta og söfnun aflaheimildanna í örfá stórfyrirtæki.

Úr þessari keppni kom Samherji stærstur. Þar stjórna harðdrægir fjáraflamenn. Þeir hafa náð meiri arði út úr starfsfólki sínu en aðrir og orðið eitt stærsta útgerðarfyrirtæki í Evrópu. Harðdrægir en ekkert sértilfelli, DÆMIGERÐIR sigurvegarar líklega frekar. Kunna „the name of the game“. Harðdrægnin hefur ekki verið lögð fyrirtækinu til lasts af eftirlitskerfinu. Matsfyrirtækið Creditinfo útnefndi Samherja í efsta sæti „framúrskarandi fyrirtækja“ á Íslandi bæði árið 2017 og 2018!

Thursday, April 10, 2014

Dæmisagan falska um Rúanda

Birtist á fridur.is og attac.is í febrúar 2014 
TheNewScrambleforAfrica 298x268.jpg

Fyrst: um Bosníu og Kosovo

Í fyrri grein var minnst á nokkur þau voðaverk á undanförnum áratugum sem eru notuð til réttlætingar hinnar vestrænu íhlutana- og hernaðarstefnu, sem "múrbrjótar" gegn fullveldismúrnum. Það er rík ástæða til að skoða þau dæmi vel.
NATO réttlætti aðgerðir sínar í Bosníu 1995 og Kosovo 1999 með "þjóðernishreinsunum" þar, "skipulegum hópnauðgunum" og "fjöldamorðum". Í vestrænni pressu er goðsögnin um bæinn Srebrenica skóladæmi um fjöldamorð í "óþokkaríki". Þar áttu 7-8 þúsund múslimar að hafa verið myrtir í miklu fjöldamorði en rannsóknir eftir á sýndu að í kringum Srebrenica féllu um 2000 manns sem að stærstum hluta voru hermenn í bardögum, úr báðum fylkingum stríðsins. (Sjá grein eftir Edward S Herman um Srebrenica.)
NATO hóf loftásrásir sínar á Júgóslavíu í Kosovo-stríðinu 1999 eftir ótal uppslætti í vestrænni pressu um "þjóðarmorð" eða "Holocost". Bandaríski sendiherrann í landinu hafði t.d. sagt að 100-250 þúsund Kosovoalbanir væru "horfnir" og líklega "myrtir". Ári síðar upplýsti Alþjóðlegi glæpadómstóllinn í Hag eftir vettvangskannanir sínar að fundist hefðu 2788 lík í "fjöldagröfum" Kosovo. Í þeirri tölu var meirihlutinn stríðsmenn frá báðum hliðum og flestir höfðu fallið á svæðum þar sem Frelsisher Kosovo (studdur af Vesturveldunum) hafði verið virkastur. (Sjá grein John Pilger um áróðurinn og raunveruleikann).