Showing posts with label leyniþjónusta. Show all posts
Showing posts with label leyniþjónusta. Show all posts

Wednesday, March 21, 2018

Leyniskjöl - "vestræna stjórnlistin" í Sýrlandi



Stríð Vestursins í Sýrlandi er leynistríð. Vissulega var „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“ undir forustu Bandaríkjanna stofnað 2014 og hóf lofthernað á Sýrland, opinberan hernað þó að hann stríði gegn alþjóðalögum. En hinn óopinberi hernaður Vesturvelda (USA fremst) og staðbundinna bandamanna þeirra gegnum leppheri og staðgengilshernað, hernaðarráðgjöf og stjórnun skiptir þó meira máli. Vopnun, kostun, mönnun stríðsins – sem oftast er kallað „uppreisn“.

En þau afskipti eiga og þurfa að vera leynileg og þess vegna er afar lítið um þau rætt í hinni miðstýrðu opnu orðræðu á Vesturlöndum. Vestræn meginstraumspressa er stórkostlega miðstýrð og í málefnum stríðs er henni stýrt beint frá Pentagon. Í valkvæðum miðlunum (fjölmiðlum gegn straumnum) koma hins vegar oft fréttir af slíku, en þá er það gjarnan eitthvað sem hefur „lekið út“, utan dagskrár. Með því að hlusta bara á fjölmiðla eins og RÚV – sem aldrei nefnir vestrænt baktjaldamakk og leyniskjöl – fáum við einfaldlega kolrangan skilning á stríðinu. Ég ætla að tiltaka hér tvö dæmi um brölt vestrænu strategistanna að tjaldabaki.

Fyrra dæmið: Árið 2015 unnu hin íhaldssömu bandarísku baráttusamtök um upplýsingafrelsi Juridical Watch dómsmál og fengu aflétt leynd á ákveðinni skýrslu bandarísku stofnunarinnar Department of Intelligence Agency (DIA) frá 2012, stofnunar sem heyrir undir bandaríka hermálaráðuneytið. Skýrslu um „uppreisnina“ í Sýrlandi. Þar segir berum orðum: „Salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI [Al-Qaeda í Írak] eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi.“ Og ennfremur: „Ef greiðist úr stöðunni er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (í Hasaka og Deir ez-Zor) og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja, til að einangra Sýrlandsstjórn sem líta má á sem hluta af sjía-útþenslunni (Íran og Írak).“ Á öðrum stað í skýrslunni er AQI nefnt „ISI“ og það er alveg ljóst að um er að ræða hið verðandi ISIS. Til að útskýra hverja átt er við með „stuðningsveldin við andspyrnuna“ segir skýrslan: „Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja uppreisnina á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“ Sjá umrætt skjal.

Þessi áform frá 2012 gengu eftir á næstu misserum, með gríðarlegri styrkingu „uppreisnaraflanna“. Það var sérlega dularfullt mál hvernig hin þungvopnuðu ISIS og önnur útibú Al-Kaida (sem allt eru salafí-súnnítar) gátu yfirbugað Sýrlandsher (og Íraksher) á einu svæðinu á eftir öðru, einni borginni á eftir annarri, og árið 2014 stofnað „kalífat“ í Sýrlandi og Írak. Þá þróun mála notuðu svo Bandaríkin (og Vestrið) sem yfirvarp fyrir áðurnefndri opinskáu íhlutun – sem opinberlega beindist „gegn ISIS“ (!) – þegar þau sama ár stofnuðu „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“.

Seinna dæmið: Breskur diplómat fyrir Miðausturlönd, Benjamin Norman, staðsettur í USA, sendir leynilegt símskeyti 12. janúar 2018 sem lekur samt út og er fyrst birt í líbönsku blaði, Al-Akhbar. Það segir af fyrsta fundi í „The Small American Group on Syria“ höldnum í Washington 11. janúar og öðrum slíkum fundi áformuðum í París 12 dögum síðar. Þessi grúppa lykilaðila setur sér að stjórna þróun Sýrlandsstríðsins bak við tjöldin. Það segir sína sögu að miðað við upphaflega kjarnann í Vestur-bandalagainu (Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland) er Tyrkland nú ekki haft með í hópnum. Fulltrúarnir í „The Small Group“ eru frá Bandaríkjunum (David Satterfield, aðstoðar-utanríkisráðherra fyrir Miðausturlönd), Bretlandi, Frakklandi, Sádi-Arabíu og Jórdaníu. Þarna kemur fram núverandi „strategía Vestursins“: „skipting landsins [Sýrlands], ónýting Sochi-viðræðnanna, hindranir gagnvart Tyrklandi“ (“partition of the country, sabotage of Sochi, framing of Turkey“). Einnig kemur fram að Trumpstjórnin ætlar nú USA langvarandi hernaðarviðveru í Sýrlandi þrátt fyrir sigrana yfir ISIS, og að megintilgangur þeirrar viðveru er að hindra Íran í að ná of mikilli fótfestu í landinu. Fyrstu skref í baktjalda-diplómatíinu eru annars vegar að spilla tilraunum Rússa og Tyrkja til friðarviðræðna í Sochi sem haldnar voru í lok janúar og „styrkja Genfar-ferlið“, að senda „leiðbeiningar“ og „stuðning“ til Staffan de Mistura yfirmanns viðræðnanna í Genf á vegum SÞ. Þarna kemur líka fram vilji Bandaríkjanna að taka með kúrda í „Genfar-ferlið“ þó það skapi erfiðleika gagnvart Tyrkjum. Sjá grein um símskeytið.

Monday, January 23, 2017

Trúir Obama á Rússalekann?

(birt á fésbók SHA 21. jan 2017)

Obama herti refsiaðerðirnar gegn Rússum í desember og fullyrti þá að „á grundvelli samhljóða leyniþjónustumats báru Rússarnir ábyrgð á að hakka sig inn hjá DNC (landsnefnd Demókrataflokksins)... upplýsingarnar komust í hendur Wikileaks“. Engar slíkar sannanir hafa þó verið lagðar fram, og fyrrverandi CIA-sérfræðingur Ray McGovern tekur hér fyrir yfirlýsingu Obama frá 18. jan þar sem forsetinn viðurkennir að út frá því efni sem leyniþjónustan situr með sé „ekki hægt að álykta“ hvort Wikileaks hafi fengið efnið frá Rússum. Og í yfirlýsingunni talar Obama líka um „leka“ ekki „hakk“. Og þar með er grunnurinn fyrir ákærunni gegn Rússum (og þar með gegn Donald Trump) dottin dauð. Þó mun meginstraumspressan varla láta málið niður falla. Sjá hér.

Þegar Obama kallar það "leka" hefur það þýðingu þar sem það er í samræmi við staðfastar fullyrðingar Julian Assange frá byrjun að þetta hafi verið innri leki og komi ekki frá Rússum (Obama vill kannski samvisku sinnar vegna ekki að síðasta orð hans í málinu sé lygi). En CIA og valdaelítan ákváðu að búa til mál um árás frá Pútin sem vildi koma að "sínum manni", Trump. Tilgangurinn: að grafa undan Trump strax við innsetningu. Kvennagöngurnar "Women´s March on Washington" gætu verið efni í bandaríska"litabyltingu". Frá sjónarhóli valdaelítunnar eru glæpir Trumps þó ekki karlrembutaktarnir alræmdu. Reginglæpur hans er að tala eins og hann ætli að aflýsa stríðsundirbúningnum við Rússa. Hann hefur líka sagt að það sé ekkert að marka CIA sem hafi logið vísvitandi um gjöreyðingavopn Iraka. Slíkt tal verðandi forseta verður ekki fyrirgefið.

Friday, February 20, 2015

Sviðsett hryðjuverk. Verkfæri stríðs og yfirdrottnunar



Við erum kaffærð í fréttum af hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum. Það sem af er árinu 2015 hafa fjölmiðlar verið bólgnir af skelfingarsögum af Íslamska ríkinu í Arabalöndum, samtökum sem ku ógna vestrænni siðmenningu; einnig bólgnuðu þeir vegna morðanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París. Bræðurnir Kouachi voru nýkomnir úr stríðinu í Sýrlandi og ekki langsótt að tengja þá við Íslamska ríkið.  Mikið kastljós beindist í framhaldinu að varðstöðu vestrænna leiðtoga um tjáningarfrelsið og hertan lofthernað þeirra gegn hryðjuverkamönnunum í Sýrlandi og Írak. Þegar þessi grein er send til birtingar berast fréttir af hryðjuverki í Kaupmannahöfn, fréttir segja það líklega undir áhrifum frá morðunum í París. Alls staðar eru íslamskir hryðjuverkamenn strax hafðir fyrir sök. Á Íslandi er ein afleiðing þessa umræðan um ”forvirkar rannsóknarheimildir” á borgurunum og stofnun íslenskrar leyniþjónsutu er í kortunum.
Vestrænir heimsvaldasinnar valda mestu um styrjaldir okkar daga. Þetta sem ég nefni vestræna heimsvaldasinna mætti eins kalla „hnattræna elítu“ ef menn frekar vilja, eða „ránskerfi hnattræns fáveldis“. Umrædd elíta er þröngur hópur og þjappast stöðugt saman, 1%, 0,1%, 0.01% íbúa í viðkomandi ríkjum.... Lögmál „frjálsrar samkeppni“ krefjast stöðugrar útþenslu, og arðránskerfi þessarar elítu teygist um heim allan. Hún berst stöðugt fyrir heimsyfirráðum. Til þess þarf mikla valdbeitingu – og tilefni til valdbeitingar. Kosnar ríkisstjórnir þurfa ákveðið samþykki frá almenningi,  og helst virkan stuðning, til að heyja styrjöld, og það er flóknara að tryggja stuðning almennings þegar stríðin snúast ekki um landvarnir heldur hernað í fjarlægum heimshornum. Vestrænir heimsvaldasinnar geta ekki með góðu móti rekið ránsstyrjaldir sínar í krafti kynþáttahyggju eigin landsmanna líkt og var á 19. öld þegar þeir undirokuðu „villtar“, „heiðnar“ eða „óæðri“ þjóðir. Eftir seinni heimsstyrjöld barðist vestræn heimsvaldastefna, undir bandarískri forustu,  einkum gegn grýlu kommúnismans um heim allan og þróaði til þess hernaðarkerfi sem enn er við lýði þó kommúnisminn sem slíkur sé ekki fyrir hendi. Til að tryggja arðránskerfið með valdi eftir það þurfti nýjar réttlætingar og meiri hyggindi.

Saturday, July 26, 2014

MH17 grandað yfir Úkraínu


20. júlí. Útvarpið kemur nú með frétt, að mestu gamla, um upptökur sem Pentagon og Kerry segja sanna að "aðskilnaðarsinnar" hafi skotið niður MH17. Þá er sannleikurinn líklega þveröfugur, en nú er vissulega vont að greina ljósið í áróðursmoldviðri Vestursins. Moldviðri sem minnir allmikið á annað slíkt út af eiturgasárás við Damaskus í fyrra sem notað var til að reyna að undirbyggja NATO-íhlutun. Seymour Hersh, sem áður afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai, skar sundur það lyganet og sýndi hvernig Tyrkir og Sádar veittu Al Nusra terroristum hjálp og útbúnað til að framleiða sarín. Aðstæður eru að því leyti líkar að leppum Pentagon í Kiev gengur illa í stríðinu eins og uppreisnarmönnum í Sýrlandi.. Auk þess hefur USA gengið heldur illa að fá samstöðu um viðskiptabannið. Gasárásin var örþrifaráð til að byggja upp stemningu og sprenging MH17 gæti verið það líka. Pentagon og NATO vita að þeir hafa vestræna pressu einróma á bak við sig. Paul Craig Roberts, áður aðstoðarráðherra og aðstoðarritsjóri Wall Street Journal skoðar málið skarplega.

Craig Roberts segir þetta um youtube-myndbandið sem ég nefndi í byrjun og átti að "sanna" málið ": „According to reports, expert examination of the code in the video reveal that it was made the day before the airliner was hit." Sem væri þá allgóð vísbending um plottið. Mér sýnist þetta youtube-myndband vera mikilvægt. Úkraínsk leyniþjónusta birti það nánast strax á netinu. Rússneskir sérfræðingar dæmdu það fljótt sem fals þar sem sýna mætti fram á að það væri samsett úr nokkrum upptökum og aldursgreindu það degi eldra en árásin á MH-17. Þetta geta vonandi fleiri rannsakað. Annað atriði: sprengjusagan í vestrænni pressu í kjölfar New York Times, Wall Street Journal og Washington Post gengur út á að Rússar hafi aðstoðað uppreisnarmenn með Buk-loftvarnarkerfi og síðan jafnvel dröslað því til baka yfir landamærin. En sú hugmynd að rússneski herinn hafi af vangá skotið niður (eða hjálpað til) farþegaþotu er ekki mjög sannfærandi!

25. júlí. Þann 20. júlí sagðist Kerry hafa „gríðarlegt magn sönnunargagna“ um ábyrgð Rússa á því að granda MH17. Þegar svo skyldi leggja fram það efni var ekkert haldbært lagt fram sem benti á Rússa. Engin sönnunargögn voru heldur lögð fram gegn „aðskilnaðarsinnum“. Pentagon og CIA létu nægja að vísa til Twitter, Youtube og samfélagsmiðla. Rússar höfðu hins vegar lagt fram mikið efni af gerfihnattamyndum af svæðinu kringum flugslysið og beindu 10 ákveðnum spurningum til bandarískra og úkraínskra yfirvalda. Tvær spurningar snertu Buk-loftvarnarflaugar sem sáust á myndum af úkraínskum stjórnarherdeildum staðsettum í Donetskhéraði í nágrenni slyssins slysdaginn og 3 dögum fyrr. Ein spurning Rússa er: Til hvers þurfti Úkraínuher Buk-flaugar í stríði við „aðskilnaðarsinna“ án flugvéla? Engum spurningum Rússa hefur verið svarað. En bandaríski blaðamaðurinn Robert Parry hefur það eftir nokkrum CIA-sérfræðingum að bandarískar gerfihnattamyndir sýni að batteríið sem skaut vélina niður hafi tilheyrt Úkraínuher og altént að hermennirnir sem mönnuðu það hafi verið í búningum Úkraínuhers. Parry er enginn nobody, hann varð frægur fyrir að afhjúpa Íran-Contras hneykslið á sínum tíma. Sjá nánar:

Skortur Kerrys á sönnunargögnum og úkraínsku einkennisbúningarinr, og margt fleira, bendir í átt að hannaðri atburðaarás sem á að koma sök, og þungu höggi, á Pútín. Góðir rannsóknarblaðamenn geta vissulega rakið upp eitt og annað lyganet. En líklega breyta allar afhjúpanir litlu. Vestræn pressa fór á fyrsta degi yfir í sefasýkisfalsettu út af "rússneskri árásarhneigð" án þess að hirða um sönnunargögn. Eftir MH17 hafa Bandaríkin komist nokkur skref áfram í einangrun Rússlands, hafa dregið hin tregari ESB-ríki með í refsiaðgerðirnar - og NATO nær að flytja fleiri eldfaugaskotpalla og nýjan árásarútbúnað að landamærum Rússlands.

Wednesday, July 9, 2014

Sérstakar aðerðir gegn sósíalistum. Skrif Þórs Whitehead og Guðna Th. Jóhannessonar um efnið

(birtist í Tímariti Máls og menningar 4. hefti nóv. 2007)

Þór Whitehead um „öryggisþjónustuna“

Íslensk leyniþjónusta og hleranir á róttæklingum voru stóra bomban í sagnfræði ársins 2006. Fyrst kom fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar á Söguþingi um efnið, þá grein Þórs Whitehead í tímaritinu Þjóðmál um haustið og litlu síðar bók Guðna Th., Óvinir ríkisins.
            Í fyrirlestri Guðna Th. á Söguþingi hafði óþægilegt ljós beinst að innstu og myrkustu herbergjum valdsins og fyrirsjánlegt var að margt misjafnt yrði nú grafið upp. Þá reis upp Þór Whitehead, kommúnismasagnfræðingur Íslands, og gekk fram fyrir skjaldborg sinna manna. Í Þjóðmála-grein hans, „Smáríki og heimsbyltingin. Öryggi Íslands á válegum  tímum“, birtist nýtt efni um íslenska „öryggisþjónustu“ sem starfaði frá 1948 að skráningu og njósnum um íslenskra sósíalista og hafði náin tengsl við bandaríska sendiráðið og FBI (Þjóðmál, bls. 68-73).   
Þór Whitehead birti grein sína skömmu eftir fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar í maí. Það er athyglisvert að hann styðst í greininni lítið við upplýsingar Guðna. Hann styðst einkum við viðtöl við gamla kunningja úr Sjálfstæðisflokknum, ýmist menn sem hafa staðið nærri þessum sögulegu atburðum sem trúnaðarmenn flokksins (Ásgeir Pétursson), menn sem hafa hafa starfað hjá NATO (Róbert Trausti Árnason), hjá útlendingaeftirlitinu (Jóhann G. Jóhannson) eða lögreglustjóraembættinu í Reykjavík (Bjarki Elíasson, Sævar Þ. Jóhannesson). Það nægir honum alveg til að bregða dágóðu ljósi á „öryggisþjónustuna“. Af þessu mætti ráða að greinarhöfundur hafi í stórum dráttum vitað þetta áður þótt hann teldi ekki ástæðu til að fara með það á prent fyrr en nú.  
Þór Whitehead útskýrir tilkomu „öryggisþjónustu“ í samhengi íslenskrar stjórnmálasögu. Hann rennir sér yfir hita- og átakapunkta hennar ca. 1920–70. Aðferð hans er vel kunn. Hann forðast eins og heitan eldinn að kalla stéttaátök séttaátök. Hann setur sig ekki úr færi að stilla kommúnistum og fasistum upp saman sem „alræðissinnum“ og bræðrum. Þegar hann beinir kastljósi sögunnar að íslenskum vinstri sósíalistum hefur hann alltaf samtímis annan ljósgeisla á Stalín bónda í Kreml. Þegar róttækir sósíslistar sögðust vera að berjast um laun, verkfallsrétt, þjóðaratkvæðagreislu og annað slíkt voru þeir fyrst og fremst að reka erindi Stalíns og vera „fimmta herdeild“ í áformum hans gagnvart Vesturlöndum – og Íslandi sérstaklega.