Samkvæmt boðskap vestrænu heilaþvottavélarinnar, sem endurvarpað er samviskusamlega af íslensku fréttastofunum, eru stjórnvöld Norður Kóreu stórhættuleg umheiminum fyrir brjálsemi sakir. Þó eru þau, eftir að þau misstu bakhjarl sinn, heimskommúnismann, fyrst og fremst til að hlæja að, skv. sama boðskap. Samt er það svo að það er ekki brjálsemi og árásarhneigð Norður-kóreskra leiðtoga sem veldur spennunni þar. Ekki heldur leifar af „gagnkvæmri tortryggni“ Kalda stríðsins. Heldur hefur meginorsökin alla tíð verið botnlaus yfirgangur forysturíkis Vestursins gagnvart þessu litla landi, Norður-Kóreu, og Kóreu allri.

Til að skilja ástandið á Kóreuskaga er óhjákvæmilegt að seilast aftur í og aftur fyrir Kóreustríðið (1950-53). Jaltasamningurinn undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari gerði ráð fyrir sameiginlegu hernámi Kóreu af hálfu Bandaríkjanna og Sovétríkjanna meðan hernám Japans væri upprætt. Kórea hafði þá verið undir grimmdarlegu japönsku hernámi frá 1910. En þegar Japanir höfðu gefist upp og áður en til hernáms landsins kom hafði þjóðfrelsishreyfing Kóreu komið upp ákveðnu stjórnkerfi sem borið var uppi af sk. „alþýðunefndum“ og miðstjórn þeirra, og stefndi á fullt sjálfstæði.
Sovétmenn sendu her inn í landið frá norðri en Bandaríkin sendu skömmu síðar miklu stærri her inn að sunnan og hernámu beinlínis suðurhluta landsins. Bandarísk herstjórn beitti strax yfirdrifnum herstyrk af því hún óttaðist hið pólitíska ástand innan landsins, nefnilega mikinn styrkleika kommúnista og eindreginna þjóðernis- og andheimsvaldasinna í þjóðfrelsishreyfingunni, ástand sem einkenndi flest hernámssvæði Japana í Austur-Asíu í stríðslok (eins og reyndar líka hernámssvæði Þjóðverja í Evrópu). Það gilti m.a. um Kóreu, allt Indó-Kína, Filipseyjar og ekki síst Kína.