Showing posts with label Vestur-blokkin. Show all posts
Showing posts with label Vestur-blokkin. Show all posts

Tuesday, July 16, 2019

Friðarvonin í Miðausturlöndum

(birtist á Neistum 30. júní 2019)
                                         Íran ógnar Bandaríkjunum? Fánarnir sýna bandarískar herstöðvar umhverfis Íran


Valdahlutföll í heiminum eru að breytast. Írandeilan sýnir það skýrt. Bandaríkin sögðu sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Íran 2018 og settu viðskiptaþvinganirnar aftur á landið, enn harðari en fyrr. Síðan boðaði Pompeo Íran til samningaviðræðna, ekki bara um kjarnorkusamninginn heldur einnig um skotflaugaeign þeirra og mannréttindi o.fl., til að tryggja að Íranir myndu örugglega hafna boðinu. Íranir sáu ekki ástæðu til að svara. Frú Merkel sendi Maas utanríkisráðherra sinn til Teheran til að fá Írani að samningaborðinu með USA, en Íranir sendu Maas heim. (Merkel brást við með því að segja að „miklar líkur“ væru á að Íranir hefðu staðið að árásunum á olíuskipin á Omanflóa!). Trump tísti: „Það eina sem Íranir skilja er styrkur og máttur, sem bandaríski herinn hefur nóg af... Öllum árásum þeirra gegn Bandaríkjunum verður svarað af hörku og í einhverjum tilfellum með gjöreyðingu.“

Íran í herfræðilegri lykilstöðu

En Íranir hrökkva ekki undan slíkum hótunum og beygja sig ekki neitt. Þeir segjast geta lokað Hormuz-sundi samdægurs ef til átaka kemur – og margt bendir til að þeir séu einmitt færir um það. Sjá nánar Um sundið fer 40% af olíuútflutningi heimsins. Ef þessi olíustraumur verður stöðvaður fer efnahagskefi heimsins á hliðina. Hinn þekkti heimsmálagreinir Pepe Escobar á Asia Times Online segir að enginn sendi olíuskip inn á stríðsátakasvæði. Í greininni „Iran goes for “maximum counter-pressure”“ skrifar hann: „Jafnvel áður en neistarnir fara að fljúga gæti Íran lýst Persaflóa sem stríðssvæði, lýst yfir að Hormuzsund sé stríðssvæði; og bannað síðan alla fjandsamlega umferð á sínum helmingi sundsins. Án þess að hleypt væri af einu skoti mundi öll flutningaskipafélög á hnettinum hætta að senda olíuskip um Persaflóa.“ Meira um það hér.
Bandarísku stríðsherrarnir hafa átt upptök að allnokkrum styrjöldum í Austurlöndum nær frá 2001 (öllum þeim stærstu). En þeir hafa þar alltaf átt í höggi við miklu veikari andstæðinga en nú. Þeir hafa t.d. getað sent skotflaugar á skotmörk í Sýrlandi, Írak eða Afganistan án þess að reikna með gagnárás. Gagnvart Íran gildir það ekki lengur. Íran mun svara af fullum styrk, og trúlega fá aðstoð bandamanna sinna (Hizbolla, Sýrlands, Rússlands, Kína...). Sem sagt árás sem hefur afleiðingar fyrir árásaraaðilann. Þetta blasir við og þetta sjá bandamenn Bandaríkjanna í NATO, ESB og víðar. Það er auðséð að árás mun hafa gríðarlegar afleiðingar – svo það hillir undir þriðju heimsstyrjöldina. Í þessu samhengi er auðskilið að það er herstyrkur Írans sem helst tálmar árásarstríði, íhlutunum og valdaskiptaaðgerðum heimsvaldasinna í Austurlöndum nær. Það haggar ekki þeirri staðreynd þótt klerkaveldið í Íran sé ólýðræðislegt auðræði. Íranska byltingin hefur til þessa beinst gegn heimsvaldastefnunni.

„Andspyrnuöxullinn“ hefur styrkst

Annað er það sem hefur breyst á síðustu 5 árum. Sýrlandsher er kominn langt með að vinna stríð sitt gegn innrásarherjunum. Að lama og eyðileggja Sýrland (líkt og Líbíu) eða mögulega að sundurlima ríkið var í herstjórnarlist heimsvaldasinna hugsað sem nauðsynlegt skref í því að einangra og umkringja höfuðbandamann Sýrlands, Íran – sem aftur er liður í enn stærra heimsvaldatafli – og að brjóta um leið upp „andspyrnuöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum: Íran, Sýrland, líbanska Hizbolla. Af því að „leiðin til Teheran liggur gegnum Damaskus“. Sjá nánar
Þessi áform þóttu líta vænlega út framan af staðgengilsstríðinu gegn Sýrlandi (háð af broguðum her málaliða og jíhadískra vígamanna, vopnuðum og fjárhagsstuddum af USA, NATO, ESB, Sádum, Ísrael, Tyrkjum...). En frá 2015 hefur Sýrlandsher í samvinnu við meðbræður sína frá Íran og Hizbolla og með lofthernaðarðastoð frá Rússlandi snúið dæminu við og frelsað aftur meirihluta þess lands sem tapast hafði. Stríðið sem átti að slá út „andspyrnuöxulinn“ í Miðausturlöndum hefur orðið til að styrkja hann stórlega. Og síðustu misserin hefur Írak mikið til gengið til liðs við sama „andspyrnuöxul“. Þannig að markmið heimsvaldasinna að umkringja og grafa undan Íran hefur færst heldur fjær en hitt. Þess vegna má slá því föstu – þótt einhverjum friðarsinna sýnist það þversögn – að herstyrkur Sýrlands, hefur verið mikilvægasta aflið í því að hindra enn miklu stórfelldari átök í Miðausturlöndum. Sjá hér nánar um átökin í Austurlöndum nær í samhengi heimsvaldastefnunnar: Sjá hér

Vestrið klofið
Vestrið er nú klofið í afstöðu sinni til Írans. Mikilvægasta ástæða þess er áðurnefnt mat á hernaðarlegum styrk Írans, að hernaðaríhlutun gegn landinu sé afar áhættusöm og útkoman óviss. Við það bætist svo að bandamenn BNA (ekki síst í Evrópu) áttu þegar mikla viðskiptahagsmuni í Íran þegar BNA sagði sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Teheranstjórnina. Samanlögð útkoma þessara þátta er að þeim Trump og Pompeo gengur nú bölvanlega að safna í nýtt „bandalag viljugra“ gegn Írönum. Helsta von okkar hinna er þá sú að í stað einangrunar Írans komi vaxandi einangrun Bandaríkjanna. Gallinn er sá að þar í landi er það hernaðar-iðnaðarsamsteypan sem ræður ríkjum, „the military–industrial complex, USA“.

Saturday, October 22, 2016

Ísland og umheimurinn - engin andstaða

(Birt á fésbókarsíðu SHA 21. okt 2016)
Horfði í gærkvöld á frambjóðendur tala um umheiminn (Ísland og umheimurinn, 20. okt). Þar var ekki mikið fjallað um ófriðarútlitið mikla í heiminum árið 2016. Sókn NATO í austur, inn að stofuglugga Rússa? - Ha? Stofuglugga? Um innikróun Kína með perlufesti kjarnorkuherstöðva og flotauppbyggingar á Kyrrahafi? - Perlufesti hvað? Eða um styrjaldaseríu og valdaskiptaaðgerðir Bandaríkjanna og Vestursins í Miðausturlöndum? Nei, þáttastjórnendur nefndu aðeins styrjaldirnar sem einn þátt í því að skapa flóttamannavanda en tóku fram að ekki þyrfti að tala um þær. Ekki var heldur minnst á þá yfirvofandi ógn að fá einn harðvítugasta hernaðarsinna okkar daga, Hillary Clinton, í Hvíta húsið? 

Sko, þáttastjórnendurnir gáfu sér þær forsendur að helsta ógn í alþjóðamálum stafaði af framferði Rússa á Krím. Þessu mótmælti enginn þátttakandi. Þeir studdu allir viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum, nema Inga Sæland, Flokki fólksins, sem hafnaði okkar þátttöku í þeim á grundvelli viðskiptahagsmuna okkar. Í samhengi við "meiri fyrirferð Rússa en áður" og "loftrýmisgæsluna", var Ari Trausti (VG) spurður,um þá afstöðu VG að vilja slíta samstarfinu við NATO. Hann sagði ekkert ljótt um NATO en bara: "Það hefur verið á dagskránni, já." Bætti svo við: "En klárt mál að það er meirihlutaafstaða innan VG og þar við situr." Aumlegt var það og tannlaust. Það er greinilega engin stjórnarandstaða í utanríkismálum meðal flokkanna á Alþingi. Og að frátalinni Alþýðufylkingunni, er engin andstaða heldur hjá nýju framboðunum,

Saturday, July 23, 2016

Valdaránstilraun merki um klofning

Birtist á fésbókarsíðu SH 17. júlí 2016
Recep Erdogan

Robert Fisk skrifar að Tyrkland sé á barmi upplausnar (þó Erdogan herði sín einræðistök) og hann leitar skýringa í því hlutverki sem Tyrkland hefur tekið sér, að vera svæðisbundið verkfæri USA og Vestursins í hnattræna taflinu þar sem valdi er beitt: "Recep Tayyip Erdogan had it coming. The Turkish army was never going to remain compliant while the man who would recreate the Ottoman Empire turned his neighbours into enemies and his country into a mockery of itself." Og Fisk líkir þessu við eldra dæmi um sama hlutverk, hjá Pakistan: "When Turkey began playing the same role (as Pakistan) for the US in Syria – sending weapons to the insurgents, its corrupt intelligence service cooperating with the Islamists, fighting the state power in Syria – it, too, took the path of a failed state, its cities torn apart by massive bombs, its countryside infiltrated by the Islamists. The only difference is that Turkey also relaunched a war on its Kurds in the south-east of the country where parts of Diyabakir are now as devastated as large areas of Homs or Aleppo.

Saturday, June 25, 2016

Vesturblokkin og Sýrlandsstríðið

Birtist í Fréttablaðinu 23. júní 2016

Fáni Sýrlands í sprengdri borg

Alla 21. öld hefur Vesturblokkin stundað hernaðaríhlutanir í Miðausturlöndum og nærsveitum. Stríð í seríu: Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi, en valdaskiptaáformum í Íran hefur verið vikið til hliðar, rétt í bili.

STRÍÐSMARKMIÐ: Að tryggja full yfirráð á þessu efnahagslega og hernaðarlega kjarnasvæði. Framantalin lönd höfðu af ólíkum ástæðum ekki látið nógu vel að stjórn USA og Vestursins, sem settu þess vegna „valdaskipti“ þar á dagskrá. Þeirri dagskrá er fylgt fast þótt það kosti stríð, rústun ríkjanna og/eða sundurlimun.

„MANNÚÐARÍHLUTUN“: Yfirskriftir styrjaldanna eru mismunandi. Yfirskrift innrásar í Afganistan var að „ná hryðjuverkamönnum“ en í Írak að „finna gjöreyðingarvopn“. Hvort tveggja er löngu afhjúpað sem uppspuni. Stríð NATO-velda í Líbíu hafði vandaða og söluvæna yfirskrift: „íhlutun í mannúðarskyni“, vegna árása Gaddafís á þegna sína!

EN SÝRLANDSSTRÍÐIÐ? Afskipti Vestursins af Sýrlandi eru sett í flokk „mannúðaríhlutana“. Sagan sem sögð er á Vesturlöndum er að misþyrmingar Assad-stjórnarinnar á eigin þegnum hafi kveikt „borgarastríð“ – vestræna fréttaveitan malar þá frétt í sífellu, en talar líka stundum um átökin sem „trúardeilur“. „Alþjóðasamfélagið“ ku því hafa „verndarskyldu“, ástandið kalli á íhlutun í mannúðarskyni. Þó yfirskriftir fyrri íhlutana hafi augljóslega reynst fals gengur furðu vel að selja stríðið með þessari yfirskrift. Vesturlönd standa þarna sameinuð, nema helst í afstöðunni til sýrlenskra flóttamanna. Íslensk pressa tekur svo vel undir söng Vestursins að aldrei heyrist mishljómur. Aldrei.

FJÓRSKIPT STRATEGÍA Í SÝRLANDI: Aðferð Vestursins til að brjóta andstöðu Sýrlands er fjórskipt: Viðskiptabann, diplómatísk einangrun, stuðningur við „uppreisn“, hernaðarinnrás.


a) Viðskiptabann. Bandaríkin lögðu viðskiptabann á Sýrland frá 2004 (hafa hert það síðan) en ESB gerði hið sama 2013. Þetta á stóran þátt í þjáningum Sýrlendinga og landflótta. Ísland gengur í sama takt og hefur engin viðskipti við Sýrland (en hefur t.d. veruleg viðskipti við Tyrkland, Sáda og Ísrael).

b) Diplómatísk einangrun. Íslenska vinstri stjórnin, líkt og Vesturblokkin öll, viðurkenndi árið 2012 „Þjóðareiningu“ uppreisnarhópa – National Coalition – sem lögmætt stjórnvald Sýrlands. Þessi viðurkenning þýðir að Vestrið – Ísland með – stillir sér á bak við annan aðilann í sk. borgarastríði, gefur grænt ljós á uppreisn gegn stjórnvöldum sem viðurkennd eru af SÞ sem lögmæt. Þessi afstaða Íslands þýðir einnig að hjálparstarf héðan fer til uppreisnarafla og er því undir formerkjum „valdaskipta“.

c) Stuðningur við uppreisn. Á pappírnum heitir það stuðningur við „hófsama uppreisnarmenn“ en Joe Biden, varaforseti USA, sagði það skýrt: „Hófsöm miðja var aldrei til“ í sýrlensku uppreisninni. Uppreisnin er frá byrjun borin uppi af trúarvígamönnum. „Borgarastríð“ og „uppreisn“ eru auk þess rangnefni, í fyrsta lagi af því að stór hluti andstöðunnar eru erlendir vígamenn (Wikipedia áætlar að þeir „may now number more than 11.000“). Í öðru lagi eru hryðjuverkaherirnir (og sk. uppreisn) fjármagnaðir utanlands frá, eru „staðgenglar“ erlendra velda. Frá upphafi hefur NATO-landið Tyrkland lagt „uppreisninni“ til aðflutningsleiðir og aðdrættina, ekki síst vopnasendingar, en Sádar og Persaflóaríkin sjá mest um fjármögnunina. Að baki stendur Vestrið, enda Sádar og Tyrkir (auk Ísraels) mikilvægustu bandamenn Vesturblokkarinnar í Miðausturlöndum.

d) „Alþjóðlega bandalagið gegn ISIS“ hóf lofthernað yfir Sýrlandi (og Írak) í desember 2014, gegn vilja sýrlenskra stjórnvalda og þ.a.l. gegn alþjóðalögum. Aðilar bandalagsins eru Bandaríkin og Evrópustórveldin, ásamt helstu stuðningsríkjum ISIS, Tyrklandi og Persaflóaríkjum. Skal því ekki undra að þetta „stríð“ hafði þveröfug áhrif í því að veikja ISIS. Ekki fyrr en Rússar mættu á svæðið til aðstoðar við sýrlenska herinn tók ISIS að láta undan síga. Viðbrögð Vestursins núna við sókn Sýrlandshers eru endurskipulagning: Styðja við sveitir Al Kaída/Al Nusra (sem reynt er að skíra „hófsama“) og einnig sveitir Kúrda á ákveðnum svæðum jafnframt því að senda inn eigin sérsveitir, bandarískar, franskar, breskar og þýskar. Öll áhersla er lögð á að hindra að Sýrlandsher skeri á aðflutningsleiðir „uppreisnarinnar“ frá Tyrklandi, einkum að hann nái aftur borginni Aleppo, sem gæti ráðið úrslitum í stríðinu. Stríðsmarkmið Vestursins eru þau sömu, hafa þó hliðrast frá „valdaskiptum“ í Damaskus yfir í sundurlimun Sýrlands í a.m.k. þrennt eftir þjóðernis- og trúarlínum, líkt og Írak.

Thursday, May 22, 2014

Blokkin og járntjaldið

Birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2014
Járntjaldið er komið upp aftur – á nýjum stað. Það var tekið niður skamma stund meðan Rússland lá í djúpri kreppu með Jeltzín við völd, enda var hann handgenginn vestrænu auðmagni. NATO-blokkin náði þá stöðu sem nálgaðist heimsyfirráð og neytti nú yfirburða sinna. Blokk sú er fulltrúi auðhringja Bandaríkjanna og ESB fremur en fulltrúi þjóðanna. Ég kalla hana bara Blokkina. Hún notaði lægð Rússlands til að þenja NATO í austur. Hvert af öðru fengu fyrrverandi Varsjárbandalagsríki „samstarfsaðild“ að NATO til aðlögunar, svo fulla aðild. Síðar gerðist það sem hlaut að gerast – Rússland reis upp og leitaði hefðbundinnar stöðu sem stórveldi. Þá var járntjaldið sett upp aftur: Blokkin var nú langt komin með að girða Rússland vestrænum herstöðvum: í nýju Kákasusríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri með „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO). Blokkin hefur þróað langdrægt skotflaugakerfi á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Rússar hafa fengið járntjaldið aftur, utan við stofugluggann.

Froða um lýðræði
Varnarsamstarf var snar þáttur í margfrægum samstarfssamningi Úkraínu við ESB. Hann átti að stuðla að „aðlögun“ og „dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. Sem þýðir á mannamáli? Aðild að NATO. Að stærsti granni Rússa í vestri gengi formlega yfir til andstæðinganna. Þá loks barði Pútín í borðið og fór að gera neyðarráðstafanir. Þá kom næsta skref: Í pressu sinni málar Blokkin upp skrímslið Pútín. Eins og hún málar alla andstæðinga sína; Milosévits, Saddam, Gaddafí, Assad… áður en hún greiðir höggið. Svo kemur viðskiptabann, diplómatísk einangrun, efldar NATO-„varnir“. „Varnir“ segja menn og gefa sér að Blokkin vinni að friði. En framanskráð heruppbygging lýsir engri friðsemd. Blokkin er jú árásaraðilinn í öllum helstu styrjöldum frá falli Múrsins. 

Með froðuna um lýðræði og mannréttindi vellandi úr báðum munnvikum beitir Blokkin fasistum og pólitískum terroristum til skítverka sinna í Kænugarði. Svipað og í Líbíu og Sýrlandi. Hið nýja er hins vegar það að gengið er yfir „rauða strikið“, þolmörk Rússlands. Man einhver viðbrögð Kennedys þegar Sovétmenn ætluðu með skotpalla yfir „rauða strikið“ í Kúbudeilunni? Ef Blokkin heldur áfram sturluðum heimsyfirráðamarsi sínum í sömu átt endar hún í stórstríði við Rússa sem yrðu váleg tíðindi fyrir Evrópu. Að vanda fylgir Ísland Blokkinni sjálfkrafa og vélrænt – nema skynugt fólk fari að tjá sig.