(Birtist á eggin.is 13. ágúst 2010)
Í áramótaávarpi
sínu sagði Jóhanna Sigurðardóttir
m.a.: „Hugmyndir eru máttugar, bæði til góðs og
ills…. Þannig hefur sú hugmynd leikið okkur grátt að gróði og arður til
hluthafa sé helsta stýriafl og drifkraftur fyrirtækja.“ Hún talaði eins og þetta væri hugmynd sem hefði nýlega orðið til á
Íslandi, í aðdraganda hrunsins og hefði svo leitt til hrunsins. En hún var í
raun að lýsa hversdagslegri hegðun dæmigerðustu kapítalista um heim allan.
Eldri samfélög
manna framleiddu út frá þörfum sínum, út frá notagildi framleiðslunnar. Aftur á
móti eru það sögulelgar forsendur auðvaldsskipulagsins að kapítalistinn
framleiðir fyrst og síðast til að græða peninga. Hann horfir ekki á notagildi
framleiðslunnar heldur skiptagildi hlutanna, markaðsgildi þeirra, af því hann
framleiðir vörur fyrir markað. Vöruframleiðslan er kjarni auðvaldsskipulagsins
og varan er grunneining (fruma) þess, samkvæmt skilgreininu Karls Marx.
Fókus auðherrans á peningana hefur orðið
eindregnari í tímans rás. Í upphafi iðnaðarkapítalismans var var auðherrann gjarnan
uppteknari af framleiðslunni sem slíkri og hægfara uppbyggingu fyrirtækis en
með þróun hlutabréfamarkaða urðu peningarnir eina áhugasvið hans. Hvað
framleitt er skiptir hann þá litlu máli. Í þessum forsendum liggja spírur
kreppunnar. Marx orðaði það svo:
„Framleiðsluferlið er
fyrir kapítalistann aðeins óhjákvæmilegur milliliður, ill nausyn til að hann
geti grætt peninga. Allar auðvaldsþjóðir eru þess vegna á tímabilum undirlagðar
örvæntingarfullum tilraunum til að græða peninga án þess að leggja leið gegnum
framleiðsluferlið.“ (Capital, volume II, bls. 58, Moskva 1971)
Móthverfan milli framleiðslukerfis
(raunhagkerfis) og fjármálageirans er ein af mörgum móthverfum kapítalismans. Hún
birtist t.d. þannig að framleiðslugreinar flytjast burt frá þróuðum (vestrænum)
auðvaldslöndum en á móti kermur vöxtur fjármálageirans þar. Fjármálageirinn
tekur til sín sístærri hluta af sameiginlegum gróða efnahagaskerfisins, ekki
síst á kostnað framleiðslugeirans. Hin gríðarlega þensla fjármálageirans er mesta
og mikilvægasta breyting sem orðið hefur á kapítalismanum á síðustu 3-4
áratugum. Þetta nefna ýmsir, m.a. margir marxistar, fjármálavæðingu. Móthverfan
bistist einnig þannig að gömul og gild fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu háþróaðra
auðvaldsríkja verða að eignarhalds- og fjárfestingarfélögum. Það að fjárfesta
og eiga verður aðalverkefni þeirra í stað framleiðslu og rekstrar. Dæmi um
slíkt úr íslensku efnahagslífi eru fjárfestingafélagið Exista, sem þróaðist upp
úr fiskvinnslufyrirtækinu Bakkavör og varð svo stærsti eigandi í Kaupþingi
banka. FL group og seinna Stoðir voru fjárfestingarfyrirtæki sem þróuðust upp
úr flugrekstrarfélaginu Flugleiðum.
Samkvæmt Wikipediu er fjármálavæðingin fólgin í „..vaxandi
yfirdrottnun fjármálageirans í efnahagslífinu í heild…, drottnunarstöðu
verðbréfa á markaði og hlutabréfa meðal heildarfjármagnseigna, yfirráðum
hlutabréfamarkaðarins yfir fyrirtækjum…“ Annað einkenni fjármálavæðingar er
sprengjukenndur vöxtur einkaskulda sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Sístækkandi
hluti af efnahagskerfum heims gengur fyrir lánum og skuldum.
Ofangreind móthverfa
er ekki sú eina í efnahagskerfinu enda er auðvaldskerfið allt krossprungið af
innri móthverfum. Hún er ekki heldur sú mikilvægasta. En á ríkjandi
þróunarstigi, við ríkjandi
fjármálavæðingu, er þessi móthverfa mikilvæg og verkar á margar aðrar.
Ein mikils
háttar móthverfa er sú á milli hraðvaxandi afkastagetu framleiðslukerfisins og
kaupgetu þegnanna sem vex miklu hægar. Í þessari móthverfu liggur grunnurinn að
þeirri krepputilhneigingu auðvaldskerfisins sem sífellt vofir yfir því og á
tímabilum ríður því eins og mara. Ýmsir spekingar – hagfræðingar sem aðrir –
tala um fjármálavæðinguna sem orsök núverandi kreppu. Aðrir benda á
nýfrjálshyggjuna. Það er misskilningur. Orsakir kreppunnar liggja í nokkrum
eðlislægum móthverfum kerfisins, ekki síst þeirri sem hér var nefnd.
Frjálshyggjubyltingin kringum 1980 var hugmyndafræðileg viðbrögð auðstéttarinnar
við samdrætti og lækkandi arðsemi fjárfestinga þegar svonefnd „gullöld“
eftirstríðsáranna var liðin hjá. Fjármálavæðingin var viðbrögð við hinu sama. Af
þessum tveimur systrum var fjármálavæðingin djúptækari af því hún fól í sér
breytingu á efnahagskerfinu á meðan frjálshyggjan er hugmyndafræðilegs eðlis. Hvorug
þeirra systra er nýfædd – þær hafa báðar lengi gegnt hlutverki í kapítalismanum
– en vöxtur þeirra felur í sér áherslubreytingar og formbreytingar í auðvaldskerfinu.
Fjármálavæðingin
er afleidd beint af áðurnefndri móthverfu milli afkastagetu og kaupgetu: Þegar
eftirspurn þegnanna dregst saman eða hefur ekki undan hraðvaxandi afkastagetu
er hægt að halda henni uppi með því að bjóða þegnunum lán – vafninga, afleiður,
kúlulán… Fjármálageiri nútímans byggist á að hirða gróða beint af persónulegum
tekjum vinnandi fólks og annarra samfélagsþegna, gegnum lán, vexti, þóknanir og
gjöld. Þetta þenur út markaðinn tímabundið en til lengdar kemur þetta niður á
kaupgetu þegnanna og skerpir umrædda móthverfu enn frekar.
Þenslan var fyrst
og fremst rekin áfram af græðgi fjármálaauðvaldsins. Á þensluárunum eftir
aldamótin 2000 tók við villt spákaupmennska – þetta sem Marx í fyrrnefndri
tilvitnun kallaði „örvæntingarfulla tilraun til að græða peninga án þess að
leggja leiðina gegnum framleiðsluferlið.“ Til varð bóla – á hefðbundnum sviðum:
á hlutabréfamarkaði og á húsnæðismarkaði. Hún var drifin áfram á uppskrúfuðum
væntingum og skuldsetningu – lengra en svo að nokkur von væri um endurgreiðslu.
Tryllt lánaþenslan endaði svo óhjákvæmilega á að reka fjármálakerfin fram af
hengifluginu.
Fjármálavæðingin
er sem sagt tilraun auðvaldsins til að þenja út markaðina. Hún er hugsuð sem
úrlausn úr vanda efnahagslegs samdráttar. Hún getur skapað tímabundna þenslu. En
kaup og sala á hlutabréfum og skuldavafningum skapa engin verðmæti. Eins og
aðrar greinar efnahagslífsins lifir fjármálageirinn einvörðungu af verðmætasköpun
þess launafólks sem vinnur framleiðin störf. Þensla fjármálageirans er merki um
að stig arðráns á því fólki hafi hækkað, og afætum fjölgað. Í stað þess að leysa vanda auðvaldsins
skerpir fjármálavæðingin krepputilhneigingu kerfisins. Tilraunir auðvaldsins
til að búa til peninga úr loftinu takast ekki til lengdar. Fjármálakreppan síðan
2008 staðfestir það. Í stað þess að leysa vandann skerpir fjármálavæðingin
krepputilhneigingu kerfisins.
Loks er að nefna
það að fjármálavæðingin opinberar og skerpir mikilvægustsu móthverfu
kapítalismans – á milli félagslegs eðlis framleiðslunnar og einkaeignar
á framleiðslutækjum. Í fyrsta lagi fylgir fjármálavæðingunni meiri samþjöppun
eigna og auðmagns en nokkru sinni áður – innan einstakra landa og ekki síður á
heimsvísu gegnum hnattvæðinguna. Auðhringarnir stækka hratt. Yfirþjóðlegar
stofnanir (AGS, Heimsviðskiptastofnunin, OECD, NATO..) taka að sér meira og
meira vald til að reyna að hemja stjórnleysi markaðarins – og hefta sjálfstæði
þjóðríkja. Það sést jafnvel vísir að einni alheimsstjórn þrátt fyrir samkeppni
einstakra eininga. Hins vegar birtist í fjármálavæðingunni morgunljóst og skýrt
afætueðli austéttarinnar. Einmitt í fjármálavæðingunni kemur stéttin nakin fam:
sem gráðug og spillt þjóðfélagsstétt sem mergsýgur fólk og náttúru.
Samfélagslega nytjalaus skepna. Sú var tíðin að borgarastéttin var kennd við
sparsemi og meinlætalifnað. En það var á 17 og 18. öld. Nú hefur stéttin svipuð
afætu- og úrkynjunareinkenni og franski aðallinn í aðdraganda frönsku
byltingarinnar.
Ég skrifaði
bækling um fjármálavæðinguna á Íslandi (Fjármálavæðingin
á Íslandi. Dæmigerð þróun frekar en undantekning). Það sem bæklingurinn
sýnir er tvennt: Annars vegar að íslenska þróunin er í fyllsta samræmi við
ríkjandi þróunarstefnu vestræns kapítalisma. Hins vegar að sú þróun sprettur
beint af innbyggðum móthverfum auðvaldskerefisins. Þessar tvær niðurstöður mæla
sterklega gegn ríkjandi skýringu á fjármálakreppunni, nefnilega þeirri að
kreppan sé „séríslenskt klúður“. Að baki kenningunni um „séríslenska klúðrið“
búa nokkrar aðrar kenningar og meginályktanir.
a) af því kreppan á Íslandi stafaði af
mannlegum mistökum er hún auðvaldskerfinu óviðkomandi.
b) hún varð vegna óskynsamlegrar
efnahagsstjórnar, með skynsamlegri stjórn í landinu má komast hjá kreppum.
c) Auðstéttin skal áfram ráðskast með
atvinnutækin, en hún þarf bara að standa sig betur.
d) Brýnasta verkefnið er að endurreisa
fjármálakerfið. Svo brýnt er það á alþjóðlega vísu að það opinbera fé sem dælt
hefeur verið inn í bankakerfið í Bandaríkjunum, Bretlandi og evruríkjunum frá
2008 nemur 14.000 milljörðum dollara. Það mun tilsvara ¼ af vergri
þjóðarframleiðslu allra landa heims.
Auðvaldskreppur hafa
oft reynst tími endurmats – ekki síst hjá auðstéttinni sjálfri. Í kreppunni á
4. Áratugnum fæddist Keynesisminn, sem tók stefnu á skynsemisstýrðan
velferðarkapítalisma. Eftir samdráttinn á 8. áratugnum kenndan við olíukreppu
fæddist pólitísk bylting
nýfrjálshyggjunnar – og samtímis því byrjaði fjármálavæðingin. En í núverandi
kreppu hefur ekki verið fitjað upp á neinu nýju svo séð verði. Nýsköpunin í
hagstjórn og þjóðfélagsmálum er jafnlítil hvort heldur menn tala út um hægra
eða vinstra munnvikið. Það undirstrikar væntanlega sögulegt úrræðaleysi
auðstéttarinnar, þótt auðvitað sé of snemmt að afskrifa alveg andans getu
hennar.
No comments:
Post a Comment