Showing posts with label fjármálaauðvald. Show all posts
Showing posts with label fjármálaauðvald. Show all posts

Monday, September 7, 2020

Heimsvaldastefnan – með meginfókus á þá bandarísku. Fyrri grein

 (birt á Neistum 6. ágúst 2020)

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá glæpnum gegn mannkyni þegar bandarískri kjarnorkuspregju var varpað á Hírósíma. Glæpurinn var réttlættur með endalausum lygum og skipulegum stríðsáróðri. Sami stríðsáróður frá sama stríðsaðila beinir nú spjótum sínum skipulega að nýjum andstæðingi – Kína. Bandaríkin hafa komið fyrir yfir 400 herstöðvum umhverfis Kína auk gríðarlegrar og hraðvaxandi flotauppbyggingar á Kyrrahafssvæðinu. Samhliða þessari uppbyggingu hefur „stríðið langa“ í Austurlöndum nær geysað það sem af er 21 öldinni. Bandaríkin hafa (2019) einhliða sagt sig frá samningum um takmörkun kjarnorkuflauga (INF, frá 1987). Alls 30 aðildarlönd SÞ stynja nú undan bandarískum efnahagslegum refsiaðgerðum af einhverju tagi. Formlega snúast þær um „lýðræði“ en raunveruleikinn er keppnin um heimsyfirráð.

Hvað hreyfiöfl knýja slíka atburðarás? Í tveimur greinum verður hér fjallað um heimsvaldastefnuna, hæsta stig auðvaldsins – og beina þær ljósinu sérstaklega á þá bandarísku, samt alls ekki eingöngu. Fyrri greinin fjallar einkum um efnahagslega hlið málsins en sú síðari um pólitíska og hernaðarlega hlið. Hryggjarstykki greinarinnar er fyrirlestur sem fluttur var á fundi hjá Sósíalistaflokknum að Borgartúni 1, fjórða júlí sl.


Hugtak sem hvarf

Þegar Bandaríkin herjuðu í Víetnam og Indó-Kína kringum 1970 hrópuðu vinstri menn um allan heim vígorð gegn „heimsvaldastefnu Bandaríkjanna“. Árið 1970 var íslenska Víetnamhreyfingin stofnuð og lýsti yfir á stofnfundi: „Víetnamhreyfingin styður þjóðfrelsisbaráttu Víetnama og baráttu gegn heimsvaldastefnunni um allan heim.“ Árið 1972 breyttist hún í Víetnamnefndina með víðtæku samstarfi vinstri hreyfinga. Fyrsta kjörorð hennar var: „Fullur stuðningur við Þjóðfrelsishreyfinguna (FNL)!“ og annað kjörorð var „Berjumst gegn bandarísku heimsvaldastefnunni!“ Málið var stuðningur við „þjóðfrelsisbaráttu“ þjóða undan heimsvaldastefnu. Þetta var róttæk og framsækin hreyfing..

Á 9. áratug hélt stuðningsstarf við þjáðar þjóðir áfram en innihaldið breyttist. 1985 hófust „Life aid“ tónleikarnir með söfnunarstarfi vegna hungurs í Afríku. Þá fóru jafnvel róttæklingar á Vesturlöndum að syngja „We are the world.. so let´s start giving“ eða „Búum til betri heim, sameinumst hjálpum þeim, sem minna mega sín“. Andheimsvaldabaráttu var skipt út fyrir BORGARALEGT LÍKNARSTARFF sem minntist ekki á heimsvaldastefnuna.

Þegar Bandaríkin réðust á Írak 2003 með stuðningi „viljugra ríkja“, þ.á.m. Íslands, var andstaða vinstri manna mjög massíf, en hugtakinu „heimsvaldastefna“ var þá almennt sleppt. Þegar hins vegar NATO, vestrænir herir og staðbundnir bandamenn hafa ráðist á Afganistan, Líbíu eða Sýrland á 21. öldinni hafa vinstri menn vítt um heim veitt því litla mótstöðu, og vestræn friðarhreyfing sömuleiðis. Íslensk stjórnvöld hafa stutt þessi stríð alveg óháð því hvort ráðherrarnir eru til hægri eða vinstri.

Í inflytjendaumræðunni er sama borgaralega líknarhugsun ráðandi. Góðir og „líknsamir“ vinstri menn og andrasistar sjá nú helstu von fyrir íbúa Afríku í leyfi þeirra til að flýja til Evrópu.


Klassísk greining á heimsvaldastefnunni

Í sögulegu samhengi er áhrifamesta ritið um heimsvaldastefnuna bók Leníns frá 1917 (rituð 1915), Heimsvaldastefnan: hæsta stig auðvaldsins. Í apríl í vor voru 150 ár liðin frá fæðingu Leníns. Í þessari bók dró hann saman meginþætti heimsvaldastefnunnar/ imperíslismans í eftirfarandi skilgreiningu: „Imperíalisminn er kapítalismi á því þróunarstigi er drottinvald einokunar og fjármálavalds festir sig í sessi, þegar fjármagnsútflutningur hefur öðrast áberandi áhrif, þegar hafin er skipting heimsins milli alþjóðlegra hringa og lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Heimsvaldastefnan... bls 117) Lenín nefndi heimsvaldastefnuna „einokunarstig auðvaldsins“ sem komin var í stað kapítalisma frjálsrar samkeppni. Annað grundvallareinkenni hennar var fjármagsútflutningurinn, erlendar fjárfestingar. Tilvitnun: „Vöruútflutningur var einkenni gamla auðvaldsins þegar frjáls samkeppni var alls ráðandi. Útflutningur fjármagns er orðið einkenni nútíma kapítalisma þar sem einokun drottnar“ (Heimsvaldastefnan.. bls. 79).

Heimsvaldastefnan. Hæsta stig auðvaldssins.
Lenín 150 ára í ár. Höfundur klassísks rits um efnið.

Samkvæmt þessari greiningu var heimsvaldastefna/imperíalismi orðin ríkjandi formgerð kapítalismans um aldamótin 1900. Og samkvæmt þessum skilningi er heimsvaldastefnan í grundvallaratriðum EKKI HUGMYNDALEGS EÐA SIÐFERÐILEGS EÐLIS HELDUR ER HÚN SJÁLFT EFNAHAGSKEFI KAPÍTALISMANS á ákveðnu þróunarstigi, „it's way of life“. Og hún er skilgreind sem „HÆSTA STIG AUÐVALDSINS“ sbr. titil bókarinnar.

Þessi greining varð klassísk meðal marxista, og heimsvaldastefnan í þessari merkingu varð algert lykilhugtak í sósíalískri og andkapítalískri baráttu á 20. öld. Barátta gegn henni varð ANNAR AF TVEIMUR MEGINÞÁTTUM BYLTINGARSINNAÐS STARFS gegn kapítalismanum og fól öðru fremur í sér stuðning við baráttu í 3. heiminum til að losna úr arðránskerfi heimsvaldastefnunnar. Skýringarlíkan Leníns reyndist öðrum skýringum frjórra við að greina hreyfiöflin að baki heimsstyrjöldunum tveimur. Á eftirstríðsárunum og enn frekar frá og með sjöunda áratugnum var þessi klassíska greining á heimsvaldastefnunni í mikilli almennri notkun, á vinstri væng stjórnmála og ekki síður í „þriðja heiminum“ þar sem frelsisstríð og byltingar geysuðu og beindust gegn fjötrum nýlendutímans.

Thursday, June 18, 2020

Bandaríkin: Stéttaandstæður þungvægari en rasismi

(birtist á Neistum.is 12. júní 2020
 
Í mótmælaólgunni miklu í Bandaríkjunum eftir dráp lögreglunnar á George Floyd í Minneapolis felst augljóslega gríðarmikil grasrótaruppreisn gegn ríkjandi kerfi. Sterk öfl reyna þó mjög að koma því til leiðar að broddur mótmælanna sneiði framhjá valdakerfi bandaríska auðvaldsins. Hér verða settar fram nokkrar ályktanir um mótmælahreyfinguna.

 

Rasismi – ofbeldi – misskipting

rasismi
Frá kynþátta- og stéttaátökum í Chicago 1919
  • Í Bandaríkjunum eru svartir hlutfallsega miklu oftar drepnir en hvítir.
  • Svartir íbúar í Bandaríkjunum eru að jafnaði miklu fátækari en hvítir og hafa verið það allt frá dögum þrælasölu og þrælahalds.
  • Í bandarískum fangelsum eru 33% vistmanna svartir, sem er nærri þrefalt hlutfall þeirra af þjóðinni (12%).
  • Ofbeldisglæpir í Bandaríkjunum eru mjög bundnir fátækrahverfum borganna. Þar búa hlutfallslega margir svartir.
  • Blökkumenn sem drepnir eru í BNA eru langoftast drepnir af öðrum blökkumönnum.
  • Þeir sem drepnir eru í Bandaríkjunum – af lögreglu og öðrum – eru fátækir.
Þessi tölfræði er tiltölulega óumdeild. En ef út frá henni er reiknuð sú rökrétta niðurstaða að aðalvandi Bandaríkjanna sé stéttaandstæðurnar væri slík fullyrðing fáséð í stóru fjölmiðlunum. Fátækt á þriðjaheimsstigi er útbreidd í þessu ríkasta landi heims þar sem auðurinn safnast á fáar og sífærri hendur með hverju ári. Rasisminn þar í landi er ærinn en stéttaandstæðurnar eru þó miklu þungvægari og meira böl.

Af fréttum frá BNA má skilja að grundvallarvandamál samfélagsins vestan hafs sé rasisminn og hann er skoðaður sem sjálfstætt og einangrað þjóðfélagsböl. Í því formi er kynþáttavandamálið raunar notað í stjórnmálabaráttunni í BNA.