Showing posts with label Brzezinski. Show all posts
Showing posts with label Brzezinski. Show all posts

Tuesday, April 26, 2022

Rússnesk öryggismálastefna frá Lenín til Pútíns

 (birtist á Neistum 22. mars 2022 og 4. apríl 2022)

 


[Fyrri hluti]

Einkennist utanríkispólitík Pútíns af útþenslustefnu? Því verður ekki svarað nema skoða hana í samhengi við pólitík annarra heimsvelda. Það þarf jafnframt að skoða öryggismálastefnu Rússlands í sögulegu samhengi – og þar birtist furðu mikil söguleg samfella þrátt fyrir ólíkt stjórnarfar í Kreml á ólíkum tímum.

Það er ljótt og það er ógnvænlegt stríðið sem geisar í Úkraínu. Eins og stríð eru yfirleitt. Samt er þetta stríð ekki orðið verulega blóðugt ennþá. Miðað við BNA/NATO-stríð eins og t.d. í Írak x 2, Líbíu, Sýrlandi... En það eru talsverðar horfur á að það eigi eftir að verða mun blóðurgra. Dánartölur munu hækka. Samningsvilji beggja stríðsaðila er takmarkaður og skilyrtur.

Það er mjög takmarkað gagn að hafa af fréttum frá Úkraínu í íslenskum fréttamiðlum. Að vanda eru þar aðeins þýddar fréttir vestrænna fréttastöðva, einkum bandarískra og breskra. Fréttastöðvar þær tryggja að «rétt saga» sé sögð. Við heyrum t.d. aðallega um árásir á borgaraleg skotmörk í Úkraínu, ekki á hernaðarleg. Samkvæmt upplýsingum frá Pentagon gefur það sjónarhorn þó ranga mynd af stríðinu. Sjá hér. Meginstef fréttastöðvanna er á þá leið að Rússum gangi stríðið afleitlega en Úkraínu gangi þeim mun betur að veita viðnám (sem tjáir líklega fyrst og fremst óskhyggju). Fyrir vikið, má skilja, komi heldur ekki til greina að semja við Rússa um neinar af meginkröfum þeirra. Þess vegna mun stríðið líklega dragast á langinn.

Upp á umfang stríðsins og yfirstandandi mannúðarkrísu gúgla ég um mannfall almennra borgara í Úkraínu, og þann 23. mars eftir eins mánaðar stríð taldi Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna 977 almenna borgara fallna, eftir eins mánaðar stríð. Til samanburðar má nefna að í Persaflóastríði, líka samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna, drápu efnahagslelgu refsiaðgerðirnar einar og sér 500 þúsund börn. Madeleine Albright nýlátinn utanríkisráðherra var spurð 1996 hvort þær aðgerðir hefðu þá svarað «svo háum kostnaði» og hún taldi svo vera. https://www.youtube.com/watch?v=omnskeu-puE Við heyrðum hins vegar afskaplega lítið í fréttum um öll þessi dánu börn í Írak. Það er af því fréttastofurnar vestrænu passa sig að segja «rétta sögu.»

Úkraínustríðið tekur líka á sig þessa mynd efnahagslegra refsiaðgerða. Innrásinrásin varð startskot fyrir kannski mestu efnahagslegu refsiaðgerðir sögunnar, einkum frá hendi BNA og Evrópuríkja á hendur Rússlandi. Þær eru af sama meiði og áðurnefndar refsiaðgerðir gegn Írak eða aðgerðirnar gegn Íran – stríð með öðrum aðferðum – en samt margfaldar í umfangi. Rússland mun í samvinnu við Kína o.fl svara því með eigin ráðstöfunum, að henda dollarnum sem gjaldmiðli í sínum viðskiptum (og æði margir munu fylgja dæmi þeirra). Rússland mun beina viðskiptum sínum frá Vestrinu. Það mun hafa gríðarlegar afleiðingar í öllum heimsviðskiptum.

Efnahagslega stríðið gegn Rússlandi er stutt af flestum Evrópulöndum, Norður-Ameríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi, S-kóreu og Japan, en yfirleitt ekki af öðrum ríkjum heimsins. Úkraínustríðið snýst ekki um Úkraínu. Við horfum fram á mjög djúptækan klofning, gjá, milli austurs og vesturs. Og vaxandi matarskort á heimsvísu, og fátækt. Og margt fleira sem ekki verður fjallað um hér.

Kröfur Pútíns

Úkraína á 21. öld er ógæfusamt land, land sem er samt ekki einu sinni aðalatriði þessarar deilu. Fyrir Pútín er ekki Úkraína sjálf aðalmálið heldur vonast hann til að geta gegnum Úkraínustríðið komið á einhverju fyrirkomulagi um «sameiginlegt öryggi” við vesturlandamæri Rússlands sem Rússar geti búið við. Öryggi gegn hverju? Jú, öryggi gegn útþenslu hernaðarbandalagsins NATO upp að húsvegg Rússlands.

Kröfur Pútíns eru ýmist á hendur Úkraínu eða á hendur NATO. Og aðalatriði þeirra lágu fyrir þegar stríðið hófst: Úkraína verði hlustlaus (utan NATO), Krímskagi verði áfram rússneskur, sjálfstæði fyrir sauðausturhéruð Úkraínu (Donbass). Þessar þrjár kröfur eru í samræmi við vígstöðuna í heild, og gætu líklega verið fljótleystar. Svo er enn annað markmiðið Pútíns: af-nasismavæðing. Það sýnist manni erfiðara mál. Og kostar örugglega meira blóð.

Bandarísk plön: «að teygja Rússland»

Úkraína er ekki aðalmálið fyrir Pútín, ekki fyrir BNA/NATO heldur. Hlutverk Úkraínu í þeirra tafli er að vera staðgengill í staðgengilsstríði, í raun fyrst og fremst fallbyssufóður. Og hlutverk Úkraínumanna er þá að deyja, helst með harmkvælum, og vera lengi að því. Markmið stríðsflokksins í Bandaríkjunum (þar sem flokkslínur ganga þvert á formlegar flokkslínur) er ekki frjáls Úkraína heldur hitt að Úkraína nýtist til að «teygja Rússland» (láta það yfirteygja sig), koma Rússlandi á kné svo skipt verði um stjórnvöld í Moskvu. Og að stríðið nýtist til að selja vopn.

Fremsta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna, RAND-Corporation lagði 2019 fram skýrslu um viðureignina við Rússland sem nefndist “Að teygja Rússland” (Extending Russia) og gengur út á að láta “reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda, heima og utan lands... og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega.” Hernaðaraðstoð við Úkraínu er þarr efst á blaði, en önnur atriði í því að «teygja Rússland» eru að auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn, stuðla að valdaskiptum í Hvítrússlandi, hagnýta spennuna í Suður-Kákasus, minnka áhrif Rússa í Mið-Asíu, bjóða nærveru Rússa í Moldóvu birginn, ennfremur að «hindra olíuútflutning og uppbyggingu gasleiðslna.” Sjá hér: https://neistar.is/greinar/rand-stofnunin-og-austfirdir-stridsaaetlanir-gegn-russlandi/

Stríðið í Úkraínu er sem sagt staðgengilsstríð eins og Neistar hafa áður slegið föstu milli Rússlands og BNA/NATO. https://neistar.is/greinar/sta%C3%B0gengilsstr%C3%AD%C3%B0-r%C3%BAssa-og-nato/ Það mótar eðlilega stríðið að Rússar (segjum stjórnvöld í Moskvu) líta á stöðu Úkraínu sem algerlega «tilvistarlega» spurningu fyrir Rússland. En hvorki BNA né NATO halda slíku fram fyrir sína parta, skiljanlega. NATO ætlar sér ekki í beint stríð við Rússa um Úkraínu. Og allt bendir til að stjórnvöld í Washington séu einmitt ánægð með að stríðið haldist sem staðgengilsstríð. Og að það dragist á langinn. Að barist verði gjarnan til «síðasta Úkraínumanns» en vona að það verði um leið Rússum og Pútín botnlaust pólitískt/hernaðarlegt kviksyndi. Af því markmiðið er að brjóta niður Rússland mun það líklega taka sinn tíma.

Eins og ég sé málið núna er það líkast því að strategistum BNA (undir leiðsögn m.a. RAND corporation) hafi með margvíslegum ögrunaraðgerðum sínum einmitt tekist að egna Pútín út í það stríð sem þeir óskuðu sér, þjóðréttarlega löglaust og pólitískt íþyngjandi stríð (Pútín fái sitt Víetnam). Ég segi þetta með þeim fyrirvara að mögulega geta átt eftir að koma fram fleiri þungvægar upplýsingar varðandi forsendurnar fyrir rússnesku innrásinni – til þess að maður «skilji» hana sem er ekki það sama og að «verja» hana.

Gamlar átakalínur

Það er enginn vegur að skoða eða skilja stríðið í Úkraínu sem einangraðan atburð, atburð sem hófst 24. febrúar sl. Hvað þá að skoða hann sem afleiðingu af einhverju sem gerðist í heilabúi þess manns sem hleypti af startskoti innrásarinnar þann dag, Vladimír Pútín. Að gera það lýsir ekki aðeins mikilli söguleysu, algerri vitleysu líka. En slík er samt einhvers konar ríkjandi túlkun atburðanna hjá okkur.

Það er fyrst til að taka að hinar sögulegu átakalínur kringum Úkraínudeiluna, og þó enn frekar átakalínur milli Rússlands og Vestursins, eru langar. Þar dugar alla vega ekki minna en ein öld til skoðunar. Í öðru lagi er ekki ráðlegt – til skilnings á deilunni – að einblína á Úkrínu eina og sér. Eins og þegar hefur komið fram: Fyrir hina raunverulelgu deiluaðila, Rússa og hins vegar BNA/NATO er Úkraína sjálf ekki einu sinni aðalatriði málsins.

Fyrst þarf að minnast á heimsvaldastefnuna. Í upphafi 20. aldar hafði keppni stórvelda um nýlendurnar breyst í baráttu nýs eðlis: baráttu á milli ríkja ásamt auðhringum þeirra, ekki fyrir afmörkuðum heimsveldissvæðum og yfirráðasvæðum á sama hátt og áður heldur baráttu fyrir hnattrænum yfirráðum í sífellt samþættaðra heimsvaldakerfi. Það er sú kapítalíska heimsvaldastefna sem ennþá ríkir, þó ýmsir telji slíka greiningu merki um «gamaldags hugsun».

Í þessu heimsvaldakerfi í upphafi 20. aldar hafði Bretland ennþá ríkjandi stöðu. Halford Mackinder var leiðandi breskur kenningasmiður um hnattræn stjórnmál (geopolitics). Í bókinni Democratic Ideals and Reality (1919) ritaði hann: „Hinar miklu styrjaldir sögunnar eru bein eða óbein niðurstaða af ójafnri þróun landa.“ Verkefni kapítalískra hnattrænna stjórnmála væri að örva „vöxt heimsvelda“ sem myndi enda með „einu heimsveldi“. Mackinder varð frægur fyrir kenningu sína um Kjarnalandið: Yfirráð yfir því sem hann kallaði „ heims-eyjuna“ (hin samföstu meginlönd Evrópu, Asíu og Afríku) og gegnum það yfirráð í öllum heiminum gætu að hans sögn aðeins fengist með því að ráða yfir Kjarnalandinu – hinum miklu löndum Evrasíu sem ná yfir Evrópu, Rússland og Mið-Asíu. Á hinni nýju öld Evrasíu yrðu völd yfir landi – ekki völd yfir sjó – úrslitaatriði. Eins og Mackinder orðaði það: „Sá sem ræður Austur-Evrópu ræður yfir Kjarnalandinu: Sá sem ræður Kjarnalandinu ræður yfir Heimseyjunni: Sá sem ræður Heimseyjunni ræður yfir heiminum.“ https://neistar.is/greinar/hnattraen-herstjornarlist-og-gagnbylting/

1991: Kaldastríðsheimur verður „einpóla heimur”

Í bók frá 1943 viðurkenndi Halford Mackinder að Bandaríkin hefðu tekið við hinni leiðandi stöðu í kapítalískum hnattrænum stjórnmálum, «geópólitík», af Bretlandi og hann lýsti jafnframt yfir að „landsvæði Sovétríkjanna jafngildir Kjarnalandinu“. Úrslit Seinni heimsstyrjaldarinnar leiddu hins vegar til skiptingar heimsins í Vesturblokk undir forustu BNA og svo Austurblokk þar sem Sovétríkin réðu mestu. Ris og hnig þýska nasismans hafði enn fremur leitt til þess að minna fór fyrir kenningum um heimsyfirráð og “geópólitík” en áður. Nú kom kaldastríðstríðstíminn, 40 ára tímabil þar sem heimsvaldasinnum þótti illt til fanga, bæði vegna þjóðfrelsisbaráttu nýlendna og hins vegar vegna herstyrks og pólitísks styrks Sovétríkjanna.