Monday, April 26, 2021

Úkraína: Hver byggir upp spennuna?

(Birtist á Neistum  22. apríl 2021)

Spennustig er hátt í Úkraínudeilunni. Diplómatísk samskipti Rússa og Bandaríkjanna hafa líklega ALDREI verið verri. Rússar hóta árásaröflum öllu illu. Samkvæmt NATO stunda þeir «óréttlætanlega hernaðaruppbyggingu». Það gera þeir þó innan eigin landamæra. Hver magnar upp spennuna?

Sagan harkalega

Rússar eru stærsta þjóð í Evrópu. Þeir hafa ráðið stóru evrópsku austurléttunni vestan Úralfjalla og lengst austur um Síberíu nokkurn veginn óslitið í á fjórðu öld, frá dögum Péturs mikla, og raunar alveg frá því þeir hrintu í áföngum af höndum sér útþensluríki Mongóla, Gullnu hordunni.

Í Rússlandi ræður ríkjum mjög samþjöppuð auðstétt, kennd við fáveldi, óligarkí. Eignaskiptingin harla ójöfn – mætti að því leyti samlíkjast við stórþjóð í Vesturheimi, Bandaríkin. Ráðandi hugmyndafræði (eftir að Rússar létu af hvers konar sósíalisma) er þjóðernissinnuð íhaldssöm austurkristni. Réttindi minnihlutahópa eins og samkynhneigðra og hinseginfólks eru heldur bágborin, og félagafrelsið og útgáfufrelsið mættu vera betri, hafa þó æði oft verið verri. Eiríkur Bergmann kallar Rússland „valdboðsríki“ og mótmæli ég því ekkert.

Svo eru það utanríkis- og varnarmálin. Rússar og þjóðarleiðtogar þeirra búa á margan hátt í óblíðu ytra umhverfi. Þeir búa við harkalegan utanríkispólitískan veruleik. Eitt atriði er sléttlendið, landið er opið og berskjaldað í vesturátt. Útþenslusinnuð veldi hafa notfært sér það, og eftir miðaldir hafa allar innrásir í Rússland komið einmitt úr vestri. Pólsk-litháíska samveldið réðist þar inn í byrjun 17. aldar (hertók Moskvu 1610), Karl 12. Svíakóngur réðist þar inn á 18. öld, Napóleon hundrað árum síðar og Þjóðverjar bæði 1914 og 1941. Sovétríkin misstu a.m.k. 25 milljónir þegna sinna í seinni heimsstyrjöld, og eftirá var vesturhluti landsins eitt blæðandi flagsæri.

Áherslur Rússa í utanríkismálum byggja á þessari sögu. Eftir síðastnefnda hildarleikinn gripu þeir, Sovétrússar, til nokkuð harkalegra ráðstafana, og komu sér upp „stuðpúðabelti“ vestan við sig. Þeir áskiluðu sér þann rétt að tryggja að í belti ríkja vestan þeirra sætu þeim „vinsamleg“ stjórnvöld. Og „vinsamleg“ túlkun á því er sú að það hafi verið meiri öryggisráðstöfun en útþensluráðstöfun. Hafa má líka í huga að lönd eins og Búlagía, Rúmenía, Ungverjaland og einnig Finnland höfðu verið í bandalagi við Hitler á stríðsárunum. En svarið kom: í beinu framhaldi af stríðslokunum var NATO stofnað til höfuðs Sovétrússum árið 1949, undir bandarískri forustu.


Einstefnan eftir 1990

Síðan liðu fjórir áratugir. Þegar svo „stuðpúðabeltið“ og Warsjárbandalagið var að leysast upp 1990 og semja skyldi um sameiningu Þýskalands aftur og inngöngu þess í NATO voru Sovétleiðtogum gefin hátíðleg loforð: „Þannig verður það með sameinað Þýskaland í NATO. Sú staðreynd að við ætlum ekki að staðsetja NATO-heri handan við landsvæði Sambandslýðveldisins gefur Sovétríkjunum traustar tryggingar um öryggi“, lýsti aðalritari NATO Manfred Wörner yfir 17. maí 1990. https://www.nato.int/docu/speech/1990/s900517a_e.htm

Já, um hvað var samið við endalok Kalda stríðsins 1990? Der Spiegel skrifaði 26. nóvember 2009:

«Eftir að hafa talað við marga þá sem voru þarna viðriðnir og lagt mat á áður leynileg bresk og þýsk skjöl í smáatriðum hefur DER SPIEGEL komist að þeirri niðurstöðu að enginn vafi sé á að Vestrið gerði allt sem það gat til að gefa Sovétmönnum þá vissu að NATO-aðild væri útilokuð fyrir lönd eins og Pólland, Ungverjaland eða Tékkóslóvakíu». Sjá t.d. hér: https://consortiumnews.com/2016/07/10/europes-nato-ambivalence/

En eftir stutta bið – bið til ársins 1999 – var NATO-ríkjum í Evrópu skjótlega fjölgað um nákvæmlega helming (úr 14 í 28), alveg upp að vesturgluggum Rússlands! Þetta er það sem ég kalla „harkalegan utanríkispólitískan veruleik“, séð frá Moskvu. Valdakerfið í heiminum var „einpóla“, risaveldið aðeins eitt, NATO gleypti „stuðpúðabeltið“. En þegar stærsti granninn á vesturlandamærum Rússlands og næststærsta land Evrópu, Úkraína, gerði sig líklegt til að ganga í NATO ákvað Pútín Rússlandsforseti að reka hnefann hart í borðið og segja hingað og ekki lengra. Gerði það þó ekki fyrr en eftir að valdaskiptin í Úkraínu voru staðreynd.

Valdaskipti sem voru valdarán, litabylting af bandarísku vörumerki með bandarísk stjórnvöld djúpt innblönduð í uppþotið sjálft og takandi ákvarðanir um nýja ráðamenn. Victoria Nuland aðstoðarutanríkisráðherra heimsótti Kiev þrisvar á þeim fimm vikum sem mestu mótmælin stóðu, og stærði sig af margmilljón dollara stuðningi við stjórnarandstöðuna. Ofbledi á Maidan-torgi vakti andúðarbylgju gegn Janukovitsj forseta. En traustar heimildir eru fyrir því að mesta ofbeldið á torginu kom frá „mótmælendum“ úr öflugum hópum fasista sem voru vel vopnaðir. Í „byltingunni“ var lýðræðislega kjörinn forseti hrakinn frá völdum. Það gerðist m.a.s. eftir að náðst hafði samkomulag milli forsetans og stjórnarandstöðunnar, um að skipa skyldi þjóðstjórn og flýta kosningum, samkomulag sem utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands og Póllands ábyrgðust. En næsta dag var valdaránið framið og samkomulaginu nýja hent út um gluggann eftir að vopnaðar sveitir frá Maidantorgi hertóku þingið og forsetinn flúði borgina, og landið. Sjá t.d. https://www.counterpunch.org/2015/04/14/ukraine-the-truth/

Pútín gat sem sagt ekki hindrað valdaskipti í Kiev, og til varð afar andrússnesk ríkisstjórn í Úkraínu. Fyrsta verk hennar var að afnema stöðu rússnesku sem annað opinbert tungumál í landinu (um þriðjungur þegnanna hefur rússnesku sem fyrsta mál, helmingur þegnanna í austurhéruðunum) og þremur mánuðum síðar var Kiev-stjórn komin í stríð við austurhéruðin Donetsk og Lugansk. En Pútín átti a.m.k. eitt svar: Innlimun Krímskaga í Rússland, frá Úkraínu. Þjóðaratkvæðagreiðsla var skipulögð í skyndi á skaganum, reynt var sem sé að framkvæma innlimunina í einhverju samræmi við þjóðréttarlegar reglur (sem vissulega leyfa ekki einhliða breytingar á landamærum). Íbúar Krím hafa undanfarnar aldir verið yfirgnæfandi Rússar og skaginn því sögulega rússneskur. Við upplausn Sovétríkja árið 1991 höfðu Krímbúar (94% þeirra) í þjóðaratkvæðagreiðslu kosið sjálfsstjórnarstöðu sér til handa gagnvart Úkraínu, og höfðu slíka stöðu í fjögur næstu ár þar til Úkraínustjórn felldi það einhliða úr gildi 1995. Það var því vitað mál hvað þeir kysu í mars 2014.


Allt breyttist með innlimun Krím“

Íslenska utanríkisráðuneytið skrifaði 2016 í skýringu á stuðningi sínum við refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi: „Innlimun Krímskaga af hálfu Rússlands í mars 2014 og aðgerðir rússneska hersins í austurhluta Úkraínu voru kaflaskil í samskiptum vestrænna ríkja við Rússland frá lokum Kalda stríðsins – og í raun frá lokum síðari heimsstyrjaldar.“ https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/utn-pdf-skjol/utn-hagsmunamat---thvingunaradgerdir.pdf Þessi staðhæfing utanríkisráðuneytisins er röng þegar gefið er í skyn að innlimun Krím hafi verið upphaf Úkraínudeilunnar og þess vegna verið „kaflaskil“. Innlimunin var ekki upphaf, hún var svar Rússa við því sem ég hef hér nefnt „harkalegan utanríkispólitískan veruleik“. Rússar eru aðþrengdir, umkringdir, höfuðsetnir. Síðasta ógnin var valdaránið í Kiev.

Staðhæfingin um innlimun Krím sem „kaflaskil“ er hins vegar rétt m.t.t. þess hvernig hún hefur síðan verið notuð af NATO-blokkinni. Innlimunin er helsta ástæða og yfirvarp þeirrar blokkar fyrir víðtækum efnahagslegum refsiaðgerðum sem og hernaðarlegri uppbyggingu gegn Rússlandi. Í hinum vestrænu herbúðum er það túlkað svo að innlimunin hafi fyrst og fremst verið merki um útþenslu- og árásarstefnu Rússa. Og þessi útþenslu- og árásarstefna er sögð ógna bæði nágrönnum Rússlands og Evrópu í heild. Að Pútin geri sig líklegan til að ráðast á Evrópu, hann ógni heimsfriði.

Obamastjórnin brást við hart. John Kerry mælti: „Á 21. öld haga menn sér ekki bara í 19. aldar stíl og ráðast á annað land á fullkomlega fölskum forsendum.“ Utanríkisráðherra BNA hafði efni á slíku tali! Á Krím var fengið efni í nýtt kalt stríð og Bandaríkin fóru að slá taktinn ákaflega. Nokkru síðar hældist Biden varaforseti yfir því að Bandaríkin hefðu neyðst til að kúska Evrópulönd til refsiaðgerða gegn Rússum: „Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarras Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði.“ http://eldmessa.blogspot.com/2016/01/russum-refsa-hfur-domari-rettmt-refsing.html


Hvernig getur litla Ísland hjálpað til?

Í miðjum herbúðum Vestursins standa Íslendingar. Getur litla Ísland lagt stríðinu gegn Rússum eitthvert lið? Jú, aðstöðuna! Á Íslandi er „herinn“ á leiðinni til baka, í Keflavík er að taka á sig mynd varanleg herstöð með sívaxandi herbúnaði og hreyfanlegum herafla frá Bandaríkjunum og NATO. Nokkur hunduruð manns með reglulegu millibili. Sveitir kafbátaleitarflugvéla koma og fara, flugskýli stækkuð og flughlöð. Gámaíbúðir og svefnskálar hermanna í byggingu, fyrir a.m.k. 1000 manns á næstu þremur árum. Árlegar flotaæfingar NATO við Ísland.

En Ísland á að geta lagt herbúðum vestursins til enn meiri aðstöðu í stríðinu við Rússa. Síðastliðið haust kom Robert Burke flotaforingi og yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu í heimsókn til Reykjavíkur. Burke segir bandaríska herinn vera að „..íhuga aukna fjárfestingu hér á landi... Hann segir herinn líta sérstaklega til Austurlands þar sem slíkur staður væri „hentugri“ fyrir hernaðaraðgerðr en t.d. höfuðborgarsvæðið, vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega... Ekki er búið að ræða við íslensk yfirvöld um þessi áform en hugmyndinni hefur verið velt upp, að sögn Burke.https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/10/30/skoda_varanlega_vidveru_bandarikjahers/

Flotaforinginn sagði sem sé að Bandaríkjaher liti sérstaklega til Austurlands „vegna nálægðar við svæðin sem rússneskir kafbátar athafna sig reglulega“. Þá er eins og við manninn mælt: Þremur mánuðum seinna hefur Guðlaugur Þór Þórarson utanríkisráðaherra samið frumvarp um breytingu á varnarmálalögum, um margfalda stækkun öryggissvæðisins á Gunnólfsvíkurfjalli niður í Finnafjörð. Tilefni þessarar breytingar á varnarmálalögum er „möguleg uppbygging stórskipahafnar“ í Finnafirði og auðvitað tekur frumvarpið „mið af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland“ https://neistar.is/greinar/ys-og-thys-ut-af-nato/

Ísland reynir alltaf að vera best í bekknum. Óskir Bandaríkjahers og viðbrögð íslenskra ráðamanna ríma alveg. Viðbrögðin fumlaus og hröð. Þau sýnast vera eftir pöntun. Andstaðan á þingi er engin. Svo er sálfræðihernaðurinn grundvallaratriði: Fjölmiðlarnir með RÚV í fararbroddi teikna upp óvinamyndina, stöðugt skýrari og stöðugt ljótari. Pútín er með Hitlersskegg. Xi Jinping er að fá það líka. Þetta er einfalt, bara að endurvarpa frá helstu fréttastöðvum Vesturblokkar, CNN, CBS, BBC... Þar fáum við NATO-veruleikann. Upplýsingastreymið er miðstýrðara en nokkru sinni. Enginn þarf að hugsa.

Ys og þys út af NATO

(Birtist á Neistum 13. apríl 2021

                                                 Bandarískir skriðdrekar á leið til Evrópu

Keflavík, Finnafjörður, Noregur, Úkraína. Jens Stoltenberg segir að Rússar verði að „hætta óréttlætanlegri hernaðaruppbyggingu í og við Úkraínu. NATO stendur með Úkraínu“. En NATO-myndin af yfirgangsstefnu Pútíns sem kjarna vandans er fölsk mynd.

Öryggissvæði við Finnafjörð

Nýtt stjórnarfrumvarp er flutt af Guðlaugi Þór utanríkisráðherra. Lagt er til að 12. gr. varnarmálalaga nr. 34/2008 verði breytt og mörk núverandi öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall, í landi ríkisins við Gunnólfsvík á Langanesi, endurskilgreind og útvíkkuð úr 93,5 hekturum í 771 hektara og nái niður í Finnafjörð sem liggur þar sunnan undir.

Í greinargerðinni segir: „Tilefni lagasetningarinnar má rekja til undirbúningsvinnu vegna mögulegrar uppbyggingar alþjóðlegrar stórskipahafnar í Finnafirði.“ Slík áform fjölþjóðlegra byggingarfélaga og sveitarfélaga m.m. hafa staðið yfir í nokkur ár. Staðsetningin þykir ákjósanleg fyrir umskipunarhöfn í Norður-Atlantshafi og tekur sérstaklega mið af opnun siglingaleiðar norðan Síberíu til og frá Kyrrahafi.

Í greinargerðinni segir ennfremur: „Þá tekur frumvarpið mið af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem samþykkt var á Alþingi á árinu 2016, sbr. þingsályktun nr. 26/145, þar sem áhersla er meðal annars lögð á að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og varnarsamstarfs við önnur ríki, þ.m.t. innlendan viðbúnað, og að til staðar séu varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.“

Stórbissnissmenn hafa sem sagt áform um byggingu risahafnar, og hugsunin með breytingunni á varnarmálalögum er skv. greinargerð að „tryggja heimild ríkisins til skipulagsþróunar út frá stefnu Íslands í málefnum norðurslóða og þjóðaröryggisstefnu Íslands.“

Í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar skrifar Stefán Pálsson 7. mars sl. fyrir hönd Samtaka hernaðarandstæðingar. "Sú hugsun flögrar að tortryggnum lesanda að markmið frumvarpsins sé einmitt ... að eyrnamerkja land til uppbyggingar framtíðarherskipahafnar þegar og ef stórframkvæmdir við höfn í Finnafirði verða að veruleika."

Rétt. Auðvitað hljótum við að skoða "leitar- og eftirlitstengda starfsemi" við Finnafjörð í samhengi við yfirstandandi framkvæmdir vegna „leitar- og eftirlitstengdrar starfsemi" á Öryggissvæðinu í Keflavík (meira um það aftar). Skylt er skeggið hökunni. Samkvæmt „þjóðaröryggisstefnu Íslands“ eru hornsteinar hennar tveir, varnarsamningurinn frá 1951 og aðildin að NATO. Breytingin á varnarmálalögum er komin frá Guðlaugi Þór, línuverði NATO-línunnar. Sú lína er lögð í Brussel og Washington. Ísland hefur sem kunnugt er ekki sjálfstæða utanríkisstefnu.


Endurvinnum yfirráðin á Norðurskautssvæðinu!“

En hver er þá stefnan í Brussel og Washington varðandi Ísland? Svo vel vill til að nú í mars gáfu höfuðstöðvar Bandaríkjahers út nýja skýrslu og stefnuyfirlýsingu um Norðurskautssvæðið. Yfirskrift hennar er: „Að endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“, Regaining Arctic Dominance. The U.S. Army in the Arctic“. regaining-arctic-dominance-us-army-in-the-arctic-19-january-2021-unclassified.pdf

Á síðunni Antiwar.com fjallar Rick Rozoff um yfirlýsinguna í grein sem nefnist „Bandaríkjaher skilgreinir Norðurskautssvæðið sem orrustuvöll við Rússland og Kína“. US Army Identifies Arctic as Battleground With Russia and China - Antiwar.com Original Í yfirlýsingunni segir nefnilega: „Norðurskautssvæðið hefur allt til að bera að verða svæði sem deilt er um, þar sem stórveldakeppinautar Bandaríkjanna reyna að nota hernaðarlegt og efnahagslegt vald til að ná og viðhalda aðgengi að svæðinu á kostnað bandarískra hagsmuna. Þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna leggur áherslu á að Norðurskautssvæðið sé leið/gangur fyrir útvíkkaða herstjórnarlega stórveldasamkeppni milli tveggja svæða – Evrópu og Indlands-Kyrrahafssvæðisins.“ Og áfram: „Á meðan flestar Norðurskautsþjóðir eru bandamenn Bandaríkjanna hafa helstu stórveldakeppinautar Bandaríkjanna – Rússland og Kína – þróað Norðurskautsstefnu með landfræðipólitísk markmið andstæð hagsmunum Bandaríkjanna.“

Á öðrum stað í skýrslunni stendur þetta: „Herinn [bandaríski] verður að mynda herstyrk sem er fær um að keppa á árangursríkan hátt með, við og gegnum bandamenn og samstarfsaðila, til að skapa vandamál fyrir andstæðinga þegar þeir reyna að fá aðgang og keppa á svæðinu.“ Í skýrslunni er algjörlega horfið það tungumál sem gjarnan hefur verið notað t.d. í Norðurskautsráðinu, að tala um „samvinnu“ norðurslóðaríkja í heild og í staðinn er í skýrslunni kerfisbundið talað um Rússland og Kína sem „andstæðinga“ (í 54 skipti alls), það er svo hluti af sama kerfisbundna málfari að fjalla um andstæðingana sem „valdboðsríkin í austri“ eða „alræðisríkin“.


Skilgreind fjögur svið árekstra

Norðurskautsstrategían frá Washington skilgreinir fjögur svið samkeppni og árekstra á Norðurskautssvæðinu: hernaðarsvið, orka og auðlindir, flutningar, matvælaöryggi. Þar kemur ennfremur fram: „Sem það ríki sem stærst landsvæði hefur norðan Heimskautsbaugs hefur Rússland það sem fyrsta forgangsmál að verja sögulegan rétt sinn til að stjórna Norðurskautssvæðinu og tryggja landfræðilega hagsmuni sína gagnvart bandalagsríkjum NATO... 75% af olíu Rússlands og 95% af jarðgasi er sótt á Norðursvæðin. Norðurskautssvæðið stendur fyrir 20% vergrar þjóðarframleiðslu Rússlands, 22% útflutnings og 10% allra fjárfestinga.“

Norðursvæðin eru auðug af olíu, jarðgasi, málmum og jarðefnum. Átök um þau eru auðsýnileg og fara í vöxt. Grænlendingar hafa samið við Kínverja um efnahagsstarfsemi á Grænlandi, en stjórnvöld í Kaupmannahöfn og Washington líta það mjög alvarlegum augum, og sem viðbrögð við því falaði Trump Grænland til kaups vorið 2019. Því var illa tekið en rök hans í málinu (á Twitter) voru hreint hernaðarleg og hann tísti einkum um „geoplitical importance“ Grænlands og „strategic value“. Svo þrýstingur frá Washington á Grænland og danska Grænlandspólitík mun nú aukast jafnt og þétt. Tilboð Trumps var bara fyrsta herópið.


Hernaðarsviðið mikilvægast

Varðandi hernaðarsviðið segir yfirlýsingin frá Pentagon: „Norðurskautssvæðið er grundvallaratriði í hernaðarmætti Rússlands.“ Skýrslan ræðir um nauðsyn þess að styrkja hernaðarnet Bandaríkjanna á Norðurskautssvæðinu: „Að styrkja þau net gerir hernum kleift að fylkja liði til að keppa við, fæla og, ef nauðsyn krefur, sigra andstæðinga Bandaríkjanna.“

Þegar þeir í Pentagon tala um að „endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“, líka yfirráðin yfir þessum umrædda norðlæga „ganginum milli Evrópu og Indlands-Kyrrahafssvæðisins“ verður að hafa í huga að þetta langa hafbelti norðan Evrasíu en sunnan þykkasta íssins, sem spannar 10 tímabelti (nærri hálfhringur umhverfis jörðina), og sem er líkleg siglingaleið innan skamms, er fyrst og fremst rússneskt innhaf, ýmist innan rússneskrar efnahagslögsögu ellar skammt utan hennar. Það væri hliðstætt bandarískum „yfirráðum“ á Suður-Kínahafi. Ellegar rússneskum og kínverskum „yfirráðum“ á Karabíahafi.

Samanber að þegar Sovétmenn fóru að setja upp skotflaugar á Kúbu 1962 þótti mörgum í BNA vera vá fyrir dyrum. Og eins er núna, það er engin leið fyrir Rússa að lesa stefnuyfirlýsingu sem þessa sem annað en mikinn váboða. Allt tal um að BNA og NATO-veldi ætli sér „yfirráð“ á því svæði er m.ö.o. afar herská orðræða. Á hinn bóginn: fyrir þann sem ætlar að sigra Rússa er líklega nauðsynlegt að geta sótt að þeim úr norðri.


Dæmið Noregur

Sú var tíðin að Noregur hafði eitthvað sem nálgaðist eigin sjálfstæða utanríkisstefnu. Landið hafði þá her sem byggði á almennri herskyldu, skipulagður sem heimastýrður landvarnarher. Við inngöngu Noregs í NATO 1949 var gefin út yfirlýsing (send Sovétríkjunum sérstaklega) um að Noregur skyldi aldrei hafa erlendar herstöðvar (né karnorkusprengjur) á norsku landi. Í Kalda stríðinu voru þar aldrei erlendar herstöðvar og landið hélt bærilegan frið við grannann stóra í austri.

Við fall Sovétríkjanna 1991 var herskyldan lögð af í Noregi. Margir spáðu friði. En í staðinn jókst hernaður BNA og NATO-veldanna: Persaflóastríð, Sómalía, Júgóslavía. Þegar NATO stóð á fimmtugu, 1999, breytti bandalagið eigin tilvistargrunni, lagði allan heiminn undir og tók að heyja árásarstríð utan eigin landsvæðis, það fyrsta stóð þá einmitt í Júgóslavíu. Noregur var með. Síðan hefur norski herinn verið byggður upp sem atvinnuher, felldur inn í hernaðarkerfi BNA og NATO og hefur sinnt léttaverkum fyrir heimsvaldasinna, m.a. í Júgóslavíu, Afganistan, Líbíu (Jens Stoltenberg var leiðandi í loftárásum NATO!) og Sýrlandi. Noregur er nú (líkt og flest önnur NATO-lönd) í stöðugu stríði undir fjarlægum himinskautum. Ill örlög. Hins vegar sinnir norski herinn lítt landvörnum Noregs, þeim hefur í meginatriðum verið útvistað til Bandaríkjahers, Breta, NATO. En það brölt hefur lítið með landvarnir Noregs að gera. Þvert á móti það er hluti af streði BNA/NATO að heimsyfirráðum – og Noregi náttúrlega stórhættulegt að efna til ófriðar við grannann í austri. https://www.derimot.no/norsk-forsvar-har-endret-innhold-oberstloytnantfra-vernepliktforsvar-til-del-av-natos-angrepstrategi/

Árið 2016 var norsk flotastöð í Værnes í Þrændarlögum gerð að bandarískri herstöð. Herstöðvapólitíkinni frá 1949 – aldrei erlend herstöð á norsku landi! – var þarmeð hent út um gluggann. Nú voru þarna 330 bandarískir hermenn að staðaldri. Frá 2018 var sá herstyrkur aukinn upp í 700 manns, með útibú á annarri herstöð í viðbót, Setermoen í Tromsfylki norðan heimskautsbaugs. Breskir hermenn æfa nú árlega vetrarhernað í Norður-Noregi. Í þeim landshluta þjálfuðu sig í fyrra 4.400 erlendir hermenn, einkum breskir og bandarískir.

Og árið 2021 gerir U.S. Air Force Ørland-flugvöll norðan Þrándheimsfjarðar frambúðarhervöll fyrir hinar ógurlegu B-1 Lancer kjarnorkusprengiflugvélar sínar. Í fyrra varð Tromsø að taka á móti bandarískum kjarnorkukafbátum og vista þá vikum saman í höfn bæjarins. Og norður í Vardø er í byggingu mikil norsk-bandarísk ratsjá, við rússnesku landamærin, skammt frá hinum hernaðarlega mikilvæga Kola-skaga. https://steigan.no/2020/07/statusrapport-fra-forsvaret/ Noregur hefur látið af hendi sjálfsforræðið í varnarmálum og Norður-Noregur er í vaxandi mæli gerður að herbúðasvæði og stökkpalli til austurs fyrir BNA og NATO í þeirra heimsyfirráðastrategíu. Frekari herstöðvaþróun á þeirra vegum er meira en líkleg, enda samræmist það vel stefnu þessara aðila um að „endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“.


Umsvif á öryggissvæðinu í Keflavík

Í júlí 2019 kom í RÚV frétt um komandi uppbyggingu á öryggissvæðinu á Keflavíkurfluvelli og aðrar framkvæmdir hérlendis á og vegum Bandaríkjahers og NATO.

Framkvæmdunum má skipta í tvo hluta. Annars vegar er uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbygging á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins... Bandaríski flugherinn ætlar svo að útbúa aðstöðu til búsetu í einskonar gámaíbúðum fyrir meira en þúsund hermenn inni á varnarsvæðinu. Íbúðirnar rísa ekki strax heldur verður lagt skólpkerfi í jörðu, raflagnir og annað slíkt.“ https://www.ruv.is/frett/14-milljarda-framkvaemdir-vid-varnarmannvirki

Á árinu 2020 var ekki að sjá að faraldurinn Covid-19 hefði afgerandi áhrif á hina stöðugt auknu virkni á öryggissvæðinu á Miðnesheiði 2020. Þar var liðssafnaður árið um kring og tala hermanna var sú næsthæsta sem verið hefur síðan farið var draga þangað herafla á ný. Þó var vegna Covid blásin af æfingin Norður-Víkingur í mars þar sem taka áttu þátt 1000 manns, en með henni hefði árið 2020 farið langt fram úr fyrri árum.

Þann 7. nóvember sl. haust fjölluðu Víkurfréttir um líflega uppbyggingu á öryggissvæðinu: umfangsmiklum endurbótum á ratsjárkerfum Atlantshafsbandalagsins hér á landi var nýlokið en verkefnið var framkvæmt af sérfræðingum Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, Lockheed Martin í Bandaríkjunum og Innkaupastofnun Atlantshafsbandalagsins í Lúxemborg. Svo kom haustið og var óvenju annasamt:

Í haust hafa verið við vinnu á öryggissvæðinu liðsmenn bandaríska sjóhersins við rekstur á stjórnstöð fyrir kafbátaeftirlit og við eftirlit og æfingar á hafinu sem er framkvæmt með nýju P-8A kafbátaeftirlitsflugvélunum. Hafa verið tólf kafbátaleitarflugvélar á Keflavíkurflugvelli frá bandaríska sjóhernum, auk tveggja frá kanadíska flughernum.

Bandaríkjamenn voru hérna [við loftrýmisgæslu í október] um 260 talsins frá flughernum. Því til viðbótar hafa verið hér 500 aðrir erlendir liðsmenn frá bandaríska sjóhernum við kafbátaeftirlit og áhafnaskipti sem hafa tekið óvenju langan tíma út af sóttvörnum,“ segir Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri Landhelgisgæslunnar í Keflavík, í samtali við Víkurfréttir... „Undanfarin ár hafa verið hér frá fjórum og upp í fjórtán orrustuþotur við loftrýmisgæsluna hverju sinni. Þær voru fjórtán núna.“

Eins og áður þá er og verður við vinnu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli alltaf einhver fjöldi erlends liðsafla og annarra verktaka og sérfræðinga og dvelur hluti þeirra á hótelum utan öryggissvæðisins. Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli standa yfir umfangsmiklar framkvæmdir á vegum Íslands, Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna. Helstu verkefni eru; viðhald og breytingar á flugskýli 831, bygging þvottastöðvar fyrir flugvélar, viðhald og endurbætur á flughlöðum, akstursbrautum flugvéla og tengdum ljósakerfum. Nú síðast var gerður samningur við Íslenska aðalverktaka um stækkun og bygging flughlaðs og undirstöðu fyrir gámabyggð [sbr. áðurnefndar gámaíbúðir fyrir yfir 1000 manns]. Til viðbótar er fjöldi annarra mannfrekra venjubundinna verkefna til framkvæmdar.“ sjá hér.

Fyrir utan umræddar gámaíbúðir/gámabyggð hófst nú í vetur bygging á varanlegri svefnskálum fyrir erlendan liðsafla, og eiga þeir að geta hýst 300 manns fyrir 2024. Það má sjá hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. sjá hér.

Bandaríski Atlantshafsherflotinn (United States Second Fleet ) hafði verið leystur upp til annarra verkefna árið 2011, en árið 2018 var hann endurræstur. Bandaríkjastjórn „ætlar honum hlutverk á hafsvæðum fyrir norðan Ísland. Viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli tekur mið af þessu“, skrifaði Björn Bjarnason (Mbl. 9. ágúst 2019). Rétt. Endurræsing Atlantshafsflotans, endurreisn Keflavíkurherstöðvar eftir tímabundinn dvala, sóknarmiðuð vígvæðing Noregs og stefnan um að „endurvinna yfirráðin á Norðurskautssvæðinu“ hangir allt náið saman.

Enduruppbygging herstöðvar á öryggissvæðinu á Keflavíkurfulugvelli hefur aldrei gengið hraðar en í stjórnartíð Katrínar Jakobsdóttur. VG andvígur NATO? Ja, VG-forustan vill alla vega ekki þvælast fyrir NATO-sinnum í gerðum þeirra. Þessi hluti stjórnmála gengur sinn gang óháð samsetningu ríkisstjórna á Íslandi. Enda hefur Ísland enga eigin utanríkis- og varnarmálapólitík, aðra en þá að taka við stefnunni frá höfuðstöðvum NATO. Sem aftur taka við stefnunni frá Washington.


Stóra samhengið

Eftir fall Sovétríkja og Sovétblokkar um 1990 varð hið alþjóðlega valdakerfi „einpóla“ og margir áttu von á friði, en friður fékkst ekki. Vestrænir heimsvaldasinnar (Vesturblokkin = NATO-blokkin = BNA + ESB = „Veldið“ = auðvaldsblokk með kjarna sinn í Wall Street) þurftu fyrst að éta sig inn á það stóra matborð sem var gamla áhrifasvæði Sovétríkjanna. Það fól í sér færslu NATO austur og suðaustur eftir Evrópu eftir að Warsjárbandalagið var lagt niður (og leiddi fljótt til stríðs á Balkanskaga). Það fól líka í sér baráttu fyrir fullum yfirráðim BNA/Vesturblokkar í Austurlöndum nær.

Áherslan á Austurlönd nær fékk framan af ákveðinn forgang, vegna olíuauðæfa og af því svæðið taldist lykilsvæði í heimsvaldataflinu, svo Vesturblokkin réðist þar á eitt landið af öðru undir ýmsum yfirskriftum (mest notaða yfirskriftin var „stríð gegn hryðjuverkum“). Svæðið hafði m.a.s. slíkan forgang að vestur í Pentagon töldu menn m.a. skynsamlegt í bili að leggja herstöðina á Íslandi í dvala og flytja heraflann þaðan til „heitari“ verkefna.

Eftir aldamótin olli hin ójafna þróun kapítalismans því hins vegar að ný efnahagsveldi náðu að efla sig og byrja að mynda aðra valdapóla – trufluðu með því „einpóla“ heimsvaldakerfið eftir kalda stríðið. Sovétlaust Rússland náði vissum efnahagsbata eftir hörmungar Jeltsínáranna og tók að verja svæðisbundna stórveldishagsmuni sína gegn yfirgangi Vesturblokkar. Skýrustu merki um það voru annars vegar innlinum Krímskaga í Rússland eftir CIA-stýrt valdarán í Úkraínu 2014 og hins vegar hernaðarstuðningur við bandamann Rússa í Sýrlandi frá 2015. Lengra í austri óx úr grasi nýtt iðnveldi sem tók að keppa óforskammað við gömlu heimsveldin um kapítalíska heimsmarkaðinn, og smám saman hefur Kína skotið keppinautunum ref fyrir rass og siglir fram úr þeim í efnahagssamkeppni. Keppinautarnir eiga ekki svar.


Friður óæskilegur

Jú, þeir eiga reyndar eitt svar – hernaðarlegt. Þeir hafa enn hernaðarlega yfirburði. Og vegna þessa „stóra samhengis“ sjá hinir spöku vestrænu strategistar (einkum þeir í Washington) fram á að friðsamleg efnahagsþróun ein og sér leiði til þess að Vesturblokkin verði varanlega undir í efnahagssamkeppni og heimsforræði hennar falli. Friðsamleg þróun er sem sé lífshættuleg! Vestræn yfirráð byggjast nú fyrst og síðast á hernaðarlegum yfirburðum. Þar að auki: Drottnunarstaða Bandaríkjanna INNAN EIGIN HERBÚÐA byggist á því hvað hinir bandamennirnir eru hernaðarlega háðir US Army. Vald BNA byggist sem sagt á því að EKKI VERÐI NEIN SLÖKUN.

Þetta „stóra samhengi“ skýrir þá líka það hvers vegna árásarhugur og allur fókus vestrænna heimsvaldasinna hefur beinst á æ beinni og opinskárri hátt að þessum (tveimur) rísandi keppinautum sjálfum með hverju árinu sem líður.

Þetta birtist í mörgum myndum á síðustu árum og mánuðum. Obama lýsti á sínum tíma yfir flutningi á „þungamiðju til Asíu“ (pivot to Asia) sem fól í sér flutning þungamiðju bandaríska sjó- og flugflotans til Asíu og Kyrrahafssvæðis, vegna Kína. Við fjöllum ekki um það hér. En í Evrópu eru merkin líka afar skýr: Joe Biden lýsir yfir að Krímskagi skuli aftur afhendast Úkraínu og BNA/NATO sendir herskip inn á Svartahaf (13 eru þar núna, skammt undan Krím) og lýsa yfir það það sé til stuðnings Úkraínu. Það gerist þegar Kiev-stjórnin blæs til gríðarmikillar sóknar gegn rússnesku aðskilnaðarhéruðunum í austri. Þungavopnaflutningarnir þangað undanfarnar vikur eru eins og fullnaðarstríð sé í uppsiglingu. Í Moskvu segja menn á móti að fullnaðarárás frá Kiev á þessi héruð myndi neyða Rússa til að verja íbúa Donbass. Að öðru leyti eru viðbrögð Rússa verulegir herflutningar hinum megin við landmærin. Hvers konar þátttaka Rússa í átökum þar er stórhættuleg, en plúsinn er að hún mun leiða af sér frekari refsiaðgerðir gegn Rússum og pólitíska einangrun þeirra. https://thesaker.is/is-the-ukraine-on-the-brink-of-war-again/

Utan Úkraínu er svo hin breiða sókn og vígvæðing NATO til austurs (sem hófst 1990) löngu komin fast að vesturgluggum Rússlands, með víglínu eldflaugaskotpalla (í Póllandi, Rúmeníu og víðar) og sívaxandi heræfingum. Þessa nánuðina, frá Lettlandi til Búlgaríu, frá mars og fram í júlí verður liðssafnaður og heræfingar á vegum NATO með 40.000 hermönnum og 15.000 herfarartækjum nærri landamærum Rússlands. Helmingurinn er frá Bandaríkjunum. https://steigan.no/2021/04/storste-nato-styrke-noensinne-ved-russlands-grenser/

Þrettán herskip á Svartahafi eru út af fyrir sig ekki alvarleg ógn við Rússland. Fjögurtíu þúsund hermenn kannski ekki heldur. En vopnaskakið og vígvæðingin kyndir undir væringum og stríðsmóðursýki í Evrópu og kemur í veg fyrir og eðlileg viðskipti og samskipti Rússlands við granna sína, og er um leið fóður fyrir harðari herstöðvapólitík á Íslandi og víðar. Það telst ákjósanlegt í Washington.

Joe Biden byrjaði Rússlandssamskipti sín sem forseti á því að kalla Vladimir Putin «drápsman» (a killer). Það er jú það sama og morðingi, og er skýrt merki um þá stefnu sem tekin er. Það styður það sem áður er sagt: friðurinn er óæskilegur, slökunin hættuleg. https://edition.cnn.com/2021/03/18/europe/biden-putin-killer-comment-russia-reaction-intl/index.html


Fréttir og sálfræðihernaður

Í viðbót við landher, flota og flugher er sálfræðihernaðurinn fjórða grein hernaðar nútildags og þáttur hans verður stöðugt stærri. Hlutverk hans er að prenta óvinamyndina í vitund þegnanna. Verkefnið felst öðru fremur í djöflagerðariðnaði í fjölmiðlum. Djöflarnir Milosevic, Saddam Hussein, Gaddafi og Assad voru allur málaðir sem Hitlerar áður en ráðist var á þá. Nú er Pútín djöfull númer eitt og Xi Jinping næstverstur, eða öfugt. Um þessar mundir fáum við í reglulegum skömmtum hjartnæmar sögur af illri meðferð á Úígúrum í Kína og Navalní í Rússlandi.

Öll stærri skref í vígvæðingu þarf þó að undirbyggja með því að sannfæra okkur fyrst um að óvinurinn boði okkur sjálfum lífshættu, og það verða sjálfsagt næg ráð til þess. Væntanlega þarf að sannfæra okkur um að Rússar hyggi á hernaðarútrás í vestur, gegn margfalt öflugri herjum NATO-velda. Það hæðir og spottar að vísu alla rökhugsun, en það er ekki aðalatriðið ef áróðurinn vinnur vel – og ef andróðurinn er lítill.

Og þar er af litlu að státa: Ísland hefur stutt öll stríð BNA og NATO á 21. öldinni, og efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússlandi, Sýrlandi, Venezúela og öllum þeim sem NATO vill refsa. Og andstaðan við það verður sífellt minni. Á Alþingi Íslendinga er engin sjáanleg andstaða í öryggis og utanríkismálum. Eitt sinn var andheimsvaldastefna stór þáttur vinstristefnu og sósíalisma en sýnist nú vera gleymd. Vestrænar heimsvaldabullur æða fram enn á ný og hrópa: America is back! Eigum við eitthvert svar?

Fjórða iðnbyltingin á leiðinni. Eru borgaralaun svarið?

(Birtist á Neistum 19. mars 2021)

 Fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína og Covid herðir á því ferli. Tæknin er tilbúin að leysa mannshöndina af hólmi í stórum stíl. Borgaralaun eru oft nefnd sem svar við þessu. Hér er því haldið fram að Fjórða iðnbylting kapítalismans horfi ekki til framfara fyrir almenning og borgaralaun séu alls ekki svarið við vandanum.

Fjórða iðnbyltingin

Stórauðvaldið boðar sína Fjórðu iðnbyltingu. Fremstur fer Silicon Valley og stafrænu tæknirisarnir. Tæknin til að framkvæma hina miklu umbyltingu er að mestu fyrirliggjandi nú þegar. Til dæmis sýndi rannsókn frá Oxford University 2017 að sjálfvirknivæða megi 67% af öllum störfum í Bandaríkjunum (og mun hærra hlutfall en það í t.d. veitingarekstri, afþreygingu, smásöluverslun, skrifstofuvinnu – róbótarnir taka við) sjá hér. Tækni- og upplýsingaiðnaður er semsé tilbúinn að ryðja út þessu mennska vinnuafli. Það hefur fyrst og fremst vantað öflugri eftirspurn til að koma tæknibreytingunum í kring. Umbyltingin hefur líka verið pólitískt erfið af því mikill samfélagslegur vandi blasir við við til að mæta því mikla atvinnuleysi sem af hlýst.

Kórónukreppan hefur reynst öflugt verkfæri til að koma breytingum í kring. Kröfur um vírusvarnir eru tilefni/átylla til að koma á breytingum sem stórkapítalið hefur beðið eftir, stafræn veröld, netverslun, heimaafhendingar og frekari sjálfvirknivæðing. Eins og efnahagskreppur gjarnan gera veldur kórónukreppan mikilli samþjöppun þegar aragrúi lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða gjaldþrota, og þessi kreppa mun slá fyrri kreppum við að því leyti. Við það fjölgar fjárfestingatækifærum fyrir þá stærstu sem eftir standa. Keppan flýtir um leið fyrir breyttum styrkleikahlutföllum milli atvinnugreina: Það eru einmitt stafrænu tæknirisarnir (Apple, Microsoft, Amazon, Google, Facebook, Visa m.m.) sem öðrum fremur lifa nú mikla gulltíma, en þeir eru orðnir ríkasti og voldugasti hluti stórauðvaldsins.

Á enn einn hátt er kórónukreppan verkfæri til að koma á samfélagsbreytingum: Hún lamar verkalýðsbaráttuna. Á kórónutímum á launafólk erfitt með að veita viðnám gegn vaxandi atvinnuleysi og öðrum neikvæðum hliðum þessara breytinga. Aðgerðir og mótmæli eru bönnuð í nafni sóttvarna, þannig að funda- og félagafrelsi virkar ekki og gagntækt eftirlitssamfélag er þróað á nýtt og áður óþekkt stig.

Ekki eru allar byltingar alþýðubyltingar. Wold Economic Forum (WEF), áhrifamesta auðmannasamkunda heims, hefur hugmyndfræðilega forustu í þeirri samfélagsbyltingu sem hér um ræðir og hefur boðað hana um nokkurra ára skeið, einmitt sem Fjórðu iðnbyltinguna (4IR). Þegar Covid-faraldur hófst breytti WEF snarlega „hugmyndafræði“ sinni yfir í „famkvæmdaáætlun“. Á grunni kórónukreppunnar – eftir lokanir hagkerfa, fjöldagjaldþrot, lömun verkalýðshreyfingar og tilheyrandi – á nú þessi mikla bylting að rísa, og er að rísa. Byltingaráætlunina kallar WEF „Endurstillinguna miklu“ eða Endurstillingu kapítalismans, á ensku Great Reset of Capitalism.

Það byltingarkenndasta og sögulegasta í umskiptunum er einmitt það að voldugustu samkundur auðmannanna og voldugustu hnattrænu stórfyrirtækin stíga nú út fyrir ramma efnahagslegrar starfsemi og hefja mjög virk og opinber afskipti af stjórnmálum og samfélagsþróun. Og þetta eru sömu menn og stjórnað hafa frjálshyggjuhnattvæðingaráhlaupi undafarinna áratuga.

Klaus Schwab, faðir og formaður WEF gaf út stefnurit, og í kynningu þess segir: „Enginn atvinnugrein eða atvinnurekstur sleppur við áhrif þessara breytinga. Milljónir fyrirtækja eiga á hættu að hverfa og margar atvinnugreinar eiga óörugga framtíð, fáeinar munu dafna.“ COVID-19's legacy: This is how to get the Great Reset right | World Economic Forum (weforum.org) Þeir „fáeinu“ sem standast þessa áraun verða eðlilega að miklum hluta stærstu einokunarhringar. Stórlaxarnir koma svo þar sem lítil og meðalstór sjálfstæð fyrirtæki liggja í valnum og tína úr honum það sem er hirðandi. Ekki nóg með þetta: Í bók sinni spyr Schwab hvort endurreisa eigi gamla kerfið eftir veiruna, og hann svarar eins og raunverulegur byltingarmaður: „Margir spyrja sig nú hvenær ástandið verði aftur eðlilegt. Stutta svarið er: aldrei. Ekkert mun aftur snúa til hinnar „eyðilögðu“ tilfinningar um eðlilegt ástand sem ríkti fyrir kreppuna, af því kórónuveirufaraldurinn markar grundvallarhverfipunkt á okkar hnattrænu braut.“ Sjá bókina hér.


Stéttabarátta

Á Davos-fund skömmu fyrir Covid var mættur ísraelski rithöfundurinn Yuval Noah Harari (höfundur metsölubókarinnar Sapiens). Hann reyndist vera skarpskyggn um framtíðarhorfurnar í Fjórðu iðnbyltingunni:. „Á meðan fólk áður varð að berjast gegn því að vera arðrænt beinist aðalbarátta fólks á 21. öld gegn því að það verði óþarft [aukaatriði]. Og það er miklu verra að vera óþarfur en að vera arðrændur. Þeir sem undir verða í þeirri baráttu verða „ónothæf stétt“ – ekki frá sjónarhóli fjölskyldu og vina heldur frá sjónarhóli efnahagslífs og stjórnmálakerfis. Og sú stétt verður aðskilin frá sísterkari elítu með stöðugt breikkandi gjá.“ https://www.weforum.org/agenda/2020/01/yuval-hararis-warning-davos-speech-future-predications/

Við skulum hafa það hugfast að hvati auðvaldsins með Fjórðu iðnbyltingunni er lækkun kostnaðar og aukið arðrán, en auðvitað er það markaðssett með samfélagslegum rökum, sem liður í aukinni sjálfbærni og „grænum samningi“ (Grean Deal) vegna minni ferðalaga bæði hinna starfandi launamanna og hinna „óþörfu“. Þetta er hatrömm stéttabarátta af hálfu kapítalsins, einstæður flutningur fjármuna frá almenningi til hinna allra auðugustu. Og áhlaup frá auðvaldinu kallar auðvitað á varnarviðbrögð frá alþýðunni, en vígstaða hennar hefur versnað um sinn.

Áhlaup fjármálaelítunnar (tæknirisanna m.m.) beinist jafnframt gegn hlutum eignastéttarinnar og felur í sér mikla samþjöppun innan hennar.


Sjálfvirknivæðing, líftækniiðnaður og gerfikjöt í nafni sjálfbærni

Ekki verður gerð hér ítarleg úttekt á birtingarmyndum Fjórðu iðnbyltingarinnar eða Great Reset, en vísa má til áður ritaðs á þessum miðli: https://neistar.is/greinar/world-economic-forum-og-endurstillingin-mikla/ Aðeins skulu nefndir nokkrir þættir hennar.

Klaus Schwab skrifar að kórónufaraldurinn muni „...hleypa af stað snöggri aukningu á vinnu-útskiptingu, sem þýðir að líkamleg vinna verður leyst af hólmi af róbótum og „greindum“ vélum sem munu svo valda varanlegum breytingum á vinnumarkaðnum“. Samkvæmt framtíðarsýn World Economic Forum mun fólk þar að auki vinna stærstan hluta starfanna sem eftir eru í fjarvinnu gegnum netið án snertingar við annað fólk. Fjarvinna, fjarnám t.d. gegnum Zoom og Skype, fjarfundir án þess að þurfa að ferðast o.s. frv. Auðvitað býður slík tækni upp á marga góða möguleika fyrir fólk sem býr dreift til að „koma saman“. En um leið hefur það þær afleiðingar að upp leysast margs kyns vinnusamfélög og náms- og stúdentasamfélgög sem hafa sjálfstætt gildi og gera mannfélagið að mannfélagi. Á marga vegu stríðir slík breyting gegn eðli mannsins sem félagsveru. https://consortiumnews.com/2020/11/24/diana-johnstone-the-great-pretext-for-dystopia/?fbclid=IwAR1jHFW14R3tIEfpeQIOxhWL8n6tJy8YSN_LxQ4ipUAONVxZArupdR1T8s8

Sjálfvirknivæðing í geirum eins og afþreygingargeiranum eða veitinga- og öðrum þjónustugreinum er ekki til komin vegna óska starfsfólks í þeim geirum né heldur óskum kúnnanna, heldur er frumkvæðið algerlega hjá kapítalinu í hinum nýja dásamlega gerfiheimi.

Annar angi af Great Reset er umbylting í landbúnaði, m.a. með umskiptum yfir í líftækni og verksmiðjuframleiðslu. Í bók sinni um Great Reset boðar Klaus Schwab það að líftækni og erfðabreytt matvæli þurfi að verða grundvallarstoð í baráttunni við fæðuöflunarvanda heimsins. Og bandamaður hans, Bill Gates gengur ennþá lengra: „Ég held að öll rík lönd ættu að skipta yfir í 100% gerfikjöt“, segir hann. https://www.climatedepot.com/2021/02/15/bill-gates-on-green-reset-its-an-all-out-effort-like-a-world-war-but-its-us-against-greenhouse-gases-urges-regulation-to-force-people-to-eat-synthetic-meat-links-covid-climate/ Þetta er auðvitað líka markaðssett sem hluti af sjálfbærni og „grænum samningi“ í baráttunni við kolefnisspor.

Dæmi um Green deal eru ný og róttæk landbúnaðarlög á Indlandi sem ríkisstjórn Narenda Modi þrykkti gegnum þingið sl. haust, einmitt fyrir bein áhrif frá WEF og Great Reset. Lögin hafa valdið gríðarlegum mótmælum og verkföllum í Indlandi síðan. Þau afnema hömlur gegn því að fjölþjóðleg stórfyrirtæki kaupi landbúnaðarland og sprengi verðtryggingu bændamarkaða og búvörulög með það að markmiði að brjóta upp það smábúakerfi indverskra bænda sem til þessa hefur verið ráðandi í landinu. Landbúnaðardeild Great Reset nefnist New Vision for Agriculture (NAV), og WEF hefur þrýst áhrifum sínum á Indland gegnum NAV India Business Council sem er dæmi um það „einka-opinbera samstarf“ sem WEF stendur fyrir (og er meginatriði í Gret Reset), samstarf milli inverskra auðmanna í búvörugeira og fjölþjóðafyrirtækja eins og Monsanto, Cargill, Nestle, Wal Mart pg Pepsi Cola. Stefnan yfir í yfirtöku stórfyrirtækja í landbúnaði sem WEF er fulltrúi fyrir, yfir í iðnbúskap og hnattvædda landbúnaðarframleiðslu sem mun leiða af sér gríðarlega uppflosnun indverskra smábænda (700-800 milljónir Indverja lifa af landbúnaði) sem hrekjast til borganna og bætast væntanlega að miklu leyti í raðir hinna „óþörfu“. https://www.globalresearch.ca/wef-agenda-behind-modi-farm-reform/5737472


Persónuverndin“

Kórónukreppan hefur líka hjálpað til við að skapa gegnumgrípandi eftirlitssamfélag sem er nú þróað á stig sem áður var óhugsandi. Stafrænu tæknirisarnir, voldugasti hluti auðvaldsins, eru nú færir um að stjórna hugsun okkar og skoðunum á mjög beinan hátt. Þeir „stíga út fyrir svið efnahagslegrar starfsemi“ eins og áður sagði. Hugmyndlegt og pólitískt gjörræði þeirra birtist nýlega á táknrænan hátt þegar sitjandi Bandaríkjaforseti var útilokaður af samskiptamiðlum. Og eins og skáldið sagði: „Hvað gera þeir þá við ræfil eins og mig?“

Google, Apple og fleiri bjóða fram rakningaröpp eða smáforrit í GSM-símum til „samskiptarakningar“, til að spora upp öll sambönd fólks. Það er löngu vitað að CIA og NSA eiga innangengt í bæði Google og Apple svo allar hátíðlegar yfirlýsingar um persónuvernd verða að takast með fyrirvara. Fyrir tæpu ári skrifaði ég á þessa síðu: „Næst má búast við að slíkt app í símanum verði forsenda fyrir ferðafrelsi!“ Nú er það að verða staðreynd. T.d. er stafrænn „grænn passi“ ESB á leiðinni.

World Economic Forum gengur á undan í áróðri fyrir ígræðslu persónuskilríkja undir húð. Sjá t.d. hér. Klaus Schwab útskýrði þetta fyrir þremur árum í bókinni Shaping the Future of the Fourth Industrial Revolution, og var þá að tala um baráttu gegn glæpum: „Eftir því sem geta á þessu sviði eykst vex freisting löggæslu og dómskerfis til að nota tækni til að meta líkindi á afbrotahegðun, meta sekt og jafnvel að sækja minningar beint frá heila fólks... Jafnvel það að fara yfir landamæri gæti dag einn haft í för með sér nákvæma heilaskönnun til að meta öryggishættuna af viðkomandi... Vissulega finnst sumum okkar nú þegar að snjallsímar okkar séu orðnir útvíkkun á okkur sjálfum. Útvortis búnaður nútímans – allt frá fartölvum til Virtual Reality Headsets – munu næstum örugglega verða ígræðanlegar í líkama okkar og heila.“ https://www.zerohedge.com/geopolitical/klaus-schwab-great-reset-will-lead-fusion-our-physical-digital-biological-identity

Ég sleppi að tala um hvernig Fjórða iðnbyltingin breytir forsendum hernaðar. Sjálfvirknin bætir stöðu þess sem heyr árásarstríð, hann þarf ekki að setja sig í hættu. Hins vegar versnar bara enn staða þeirra sem fá sprengjurnar yfir sig. Ég sný mér aftur að meginatriði sem er áhrif Fjórðu iðnbyltingar á vinnuna og „hinn vinnandi mann“.


Hverjir eru það sem boða borgaralaun?

Eru áhrif Fjórðu iðnbyltingarinnar rök fyrir borgaralaunum? Margir telja það vera. Á Íslandi eru það Píratar sem hafa farið fyrir um árabil, og þeir krefjast borgaralauna. https://www.althingi.is/altext/144/s/0204.html Víða um lönd hljómar sama kjörorð, um „algilda grunnframfærslu“ (universal basic income). Það kann að hljóma eins og mjög vinstri sinnuð krafa og margir telja hana vera það. Fyrir nokkrum árum kom út á íslensku bókin Rétturinn til letinnar eftir Paul Lafargue sem var tengdasonur Karls Marx. Það sem hann boðaði þar var reyndar ekki borgaralaun heldur stytting vinnuvikunnar, auk þess sem hann gagnrýndi almennt sóun og græðgi í auðvaldsþjóðfélagi.

En það er reyndar svo að kjörorðið um borgaralaun eða „algilda gunnframfærslu“ kemur hreint ekki fyrst og fremst frá verkalýðshreyfingunni. Mógúlar hins nýja tíma, t.d. í Silicon Valley, stíga fram og veifa þessu kjörorði. Mark Zuckerberg hefur stutt kröfuna um allsherjar grunnlaun frá árinu 2017. https://www.independent.co.uk/life-style/gadgets-and-tech/news/mark-zuckerberg-universal-basic-income-harvard-commencement-speech-facebook-president-bid-a7757781.html Litlu fyrr hafði Elon Musk sagt það sama. Þetta hefur álíka lengi verið stefna billjóneraklúbbsins World Economic Forum. Á vefsíðu samtakanna frá 2017 er útskýrt: „Why we should all have a basic income“: https://www.weforum.org/agenda/2017/01/why-we-should-all-have-a-basic-income

Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna er ekki langt frá þessum herramönnum (enda hafa SÞ gert „sögulegan samstarfssamning“ við WEF og byggja starf sitt æ meir á kostun billjóneranna) og á Allsherjarþingi í október 2018 bað hann ríkisstjórnir heims íhuga borgaralaun: “Sjálft eðli vinnunnar breytist. Ríkisstjórnir geta neyðst til að íhuga sterkari öryggisnet, og að lokum algilda grunnframfærslu." https://www.inverse.com/article/49371-secretary-general-guterres-pushes-for-basic-universal-income

Kórónukreppan kom hugmyndinni á dagskrá í stórum stíl. Á Capitol Hill sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar sl. vor að Covid gerði e.t.v. tímabært að fara fram á „algilda grunnframfærslu“: https://www.dailymail.co.uk/news/article-8265053/amp/Pelosi-says-time-consider-universal-basic-income-pushed-Andrew-Yang.html Á líkum slóðum voru menn í höfuðstöðvum ESB sem lögðu fram lagafrumvarp um samevrópsk lágmarkslaun sl. haust. Slíkt kerfi getur virkað jafnandi fyrir evrópskan vinnumarkað. Norrænni verkalýðshreyfingu líst hins vegar mjög illa á frumvarpið þar sem fyrirbærið ógnar grundvallarreglunni um samningsrétt stéttarfélaga án afskipta stjórnvalda og gerð heildarkjarasamninga: https://emag-loaktuelt.lomedia.no/ny-eulov-om-minstelonn-6.509.743233.b3ae46fde3

M.a.s. Frans páfi hefur stillt sér að baki kröfunni um „algilda grunnframfærslu“. https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2020-04/pope-letter-popular-movements-universal-basic-wage.html


Iðjuleysið eftirsóknarvert?

Við sjáum af þessu að krafan um borgaralaun er ekki frá verkalýðshreyfingunni komin, ekki frekar en fagnaðarboðskapur Fjórðu iðnbyltingarinnar. En auðvitað hefur hvort tveggja verið þar til umræðu. Róbótar yfirtaka störf; það getur vissulega verið framför að losna við rútínustörf, erfið störf, hættuleg störf. Fræðilega gefur það fólki færi á að vinna meira gefandi og skapandi störf í staðinn. En slíkt er bara ekki í boði. Fólk einfaldlega missir vinnuna.

Það er gömul staðreynd og ný að launafólki sem missir vinnuna í langan tíma gengur illa að finna tilgang og innihald í lífi sínu. Langtímaatvinnuleysi leiðir oftar en ekki til örorku. Fólk missir heilsu á sál og líkama. Ekki eingöngu vegna fátæktar, jafnvel ekki aðallega vegna fátæktar, frekar vegna tilgangsleysis og þeirra áhrifa sem það hefur á líðan og sjálfsmynd. Tengslin við vinnumarkaðinn eru grundvallaratriði í farsælu lífi alþýðu. Fólk á borgaralaunum er (endanlega) komið upp á bótakerfið, „sósíalinn“, og gegnir ekki lengur samfélagslegu hlutverki, breytist í hreinan þiggjanda og „ómaga“. Munurinn á atvinnuleysisbótum og borgaralaunum er að það fyrrnefnda skoðast sem tímabundið, óeðlilegt ástand en hið síðarnefnda sem varanlegt og „eðlilegt ástand“.

Með þátttöku í framleiðslu- eða þjónustustörfum leggjum við skerf okkar til samvinnunnar um samfélag manna. Þátttaka í því sem slík er ekki vandamálið. Hið EFTIRSÓKNARVERÐA er ekki að hætta að vinna heldur HÆTTA AÐ VINNA FYRIR AUÐVALDIÐ, í efnahagskerfi þar sem uppsöfnun auðæfa er lokamark vinnunnar. Framleiðslukerfi auðvaldsins er samfélagslegt að eðli þó að það sé á formi einkaeignar, það er hin mikla mótsögn kapítalismans, kerfis sem nú hótar meirihluta fólks því að gera það að „afgangsstærð“, óþarft. Hið eftirsóknarverða er að framleiðendurnir sjálfir yfirtaki stjórn á framleiðslunni og nýti hana til eigin frelsunar og vinnuna til uppfyllingar mannlegra þarfa. Til þess þarf að losna við auðvaldið og gera framleiðsluna félagslega að formi, ekki bara að eðli.

Launamaður sem fer á borgaralaun missir um leið helstu verkfærin til að breyta samfélaginu. „Launþegi“ á borgaralaunum missir sambandið við atvinnulífið og þar með samband við vinnufélaga og stéttarfélag. Sömuleiðis missir hann vopnið sem samstaðan gefur verkafólki til að bæta stöðu sína og breyta samfélaginu. Hann verður valdalaus (munið: samstaðan er auðmagn hins fátæka). Með yfir helming fólks á vinnualdri atvinnulausan (eða „á grunnframfærslu“) veikist verkalýðshreyfingin enn stórlega frá þeirri veikingu sem þegar er staðreynd í kjölfar afiðnvæðingar (flutnings iðnaðar austar og sunnar á hnöttinn) og flæðis ódýrs vinnuafls frá suðri og austri inn á svæði þar sem verkalýðshreyfning áður stóð sterkt. Það væri banabiti sömu hreyfingar að gangast inn á hugmyndina um borgaralaun.


Vinnan sem gerir okkur að mönnum

Hugmyndin um borgaralaun er engin sósíslísk hugmynd. Karl Marx lýsti manninum sem „hinum vinnandi manni“ eða homo faber og leit á vinnuna sem skilyrði mannlegrar tilveru. Hann taldi að með brotthvarfi stéttakúgunar breyttist vinnan úr „ráðstöfun til að halda í sér lífinu“ í það að vera „sjálf óhjákvæmilegasta þörf lífsins.“ Friedrich Engels skrifar þetta viðhorf hvað skýrast í greininni „Þáttur vinnunnar í þróuninni úr apa í mann“ (skrifuð 1876): „Vinnan er uppspretta allra auðæfa, segja þjóðhagfræðingar. Og hún er virkilega uppsprettan – ásamt náttúrunni sem leggur henni til efnið sem hún breytir í auðæfi. En hún er óendanlega miklu meira en það. Hún er fyrsta grundvallarskilyrði allrar mannlegrar tilveru og það að því marki að, á sinn hátt, verðum við að segja að vinnan hafi skapað manninn sjálfan.“ Hin líffræðilega mannshönd, segir Engels ennfremur, þróaðist með vinnunni og beitingu verkfæra og svo áfram í gagnvirku sambandi við hugann og tungumálið. Í þróuninni frá veiðimennsku til húsdýrahalds, beitingu elds, flutningi á kaldari svæði, akuryrkju til siðmenningar og iðnaðar varð þáttur vinnunnar sífellt stærri. Í stuttu máli er það vinnan sem gerir okkur að mönnum. https://www.marxists.org/archive/marx/works/1876/part-played-labour/

Frjálshyggjan og auðvaldssinnar (m.a. kratisminn, pólitísk meginstoð auðvaldsins) líta svo á að aukin hagræðing og afköst auðmagnsins horfi alltaf til framfara. En svo er ekki. Fjórða iðnvæðing kapítalismans ber ekki í sér þjóðfélagslega framför, ekki frekar en t.d. nýfrjálshyggjuvæðingin. Með allri sinni markaðsvæðingu, hnattvæðingu, útvistun til austurs og afiðnvæðingu til vesturs hafði nýfrjálshyggjan ekki heldur í för með sér framfarir fyrir alþýðu – þó svo að hún hámarkaði hagræðingu og afköst auðmagnsins.

Niðurstaðan er þessi: Fjórða iðnbylting kapítalismans hefur ekki í för með sér framfarir fyrir almenning heldur er árás á hann. Og krafa um borgaralaun er alveg glatað svar almennings við því.

Stríðslok og endurreisn í Sýrlandi – eða ekki?

(Birtist á Neistum 8. mars 2021)

                                                  Demókratinn Tulsi Gabbard fordæmir ríkjandi stefnu í Sýrlandsstríði

Sýrlandsstríðið varð að nýju dálítið fréttaefni í íslenskum fjölmiðlum um daginn þegar Bandaríski herinn kastaði sprengjum á landamærasvæðið milli Sýrlands og Írak 25. febrúar að skipun Joe Bidens. Heima fyrir fékk forsetinn reyndar dálitla gagnrýni fyrir að hefja loftárásir án þess að bera undir þingið. Einn forsetaframbjóðandi Demókrata gekk þó mun lengra í gagnrýni og fordæmdi þá stefnu sem málefni Sýrlands ætla að taka hjá nýjum húsbændum í Hvíta húsinu. Þetta er Tulsi Gabbard sem nú er nýhætt á þingi. Hún lýsir yfir:

Það gleður mig að heyra að nokkur fyrrum starfssystkini mín í Þinginu tala gegn nýlegum loftárásum í Sýrlandi sem stríða gegn stjórnarskrá okkar. En þau horfa samt framhjá stóra málinu. Valdaskiptastríðið sem Bandaríkin heyja áfram í Sýrlandi – og nota al Kaída, Al Nusra og HTS-hryðjuverkamenn sem staðgengils-landher, og sem hernema nú og stjórna Idlib-héraði, setja sjaríalög og hreinsa landið af flestum kristnum og trúarlegum minnihlutahópum. Bidenstjórnin heldur áfram að nota her okkar til að hertaka ólöglega Norðaustur-Sýrland, til að „taka olíuna“ eins og Trump svo groddalega en hreinskilnislega sagði, Sem þverbrýtur þjóðréttarreglur. Nútímalegt umsátur með grimmilegu verslunarbanni og refsiaðgerðum, líkum þeim sem bandalag Sáda notaði gegn Jemen, veldur dauða og þjáningu milljóna saklausra Sýrlendinga, sviptir þá nauðsymjum eins og mat, lyfjum, hreinu vatni, hita – og gera sýrlensku þjóðinni ómögulegt að reyna að endurreisa sitt stríðshrjáða land.“

Það var þegar orðið ljóst í lok Obamatímans að leiguherir Bandaríkjanna og Persaflóaríkja myndu ekki steypa Assasdstjórninni með sigrum sínum á vígvellinum – sérstaklega ekki aftir að Rússar komu þar að málum að beiðni Sýrlandsstjórnar. Þetta leiddi af sér áherslubreytingar í Washington. Eins og lesa mátti nýlega hér á Neistum: „Gagnvart Íran og Sýrlandi er stefnan nú að veikja þessi ríki og brjóta þau niður innan frá frekar en sigra þau hernaðarlega.“ https://neistar.is/greinar/heimsvaldastefnan-og-bandarisku-kosningarnar/

Blaðamaðurinn Aaron Maté hjá mótstraumsmiðlinum The Grayzone fer í fréttaskýringu á 23 mínútum yfir horfurnar varðandi stríðsreksturinn í Sýrlandi undir Biden-stjórn. Hann fer yfir ummæli og yfirlýsingar fólks úr báðum herbúðum bandaríska tvíflokksins, einkum þó fyrri ummæli frá nokkrum helstu nýju embættismönnum Biden-stjórnarinnar í utanríkismálum, ummæli sem segja þá sitt um hvers má nú vænta. Og Maté vekur athygli á ummælum frá þessu fólki sem viðurkenna algjörlega réttmæti lýsingar Gabbard hér að ofan, en ekkert þeirra sér þó ástæðu til að gagnrýna bandarísk stjórnvöld fyrir það. Hér er þessi yfirferð Matés.

Eitt dæmi: Í tölvupósti frá Jake Sullivan til Hillaray Clinton árið 2012, sem Wikileaks birti, má lesa: „AQ is on our side in Syria”, þ.e.a.s. Al-Qaeda er með okkur í liði í Sýrlandi. Og nú er sami Jake Sullivan kominn í það valdamikla embætti að vera öryggisráðgjafi forsetans Joe Bidens.

Annað dæmi: Þegar Tulsi Gabbard í forsetaframboði sínu fordæmdi valdaskiptastríðið gegn Sýrlandi og efnahagslegu refsiaðgerðirnar sömuleiðis afgreiddi Kamila Harris núverandi varaforseti hana einfaldlega sem „forsvarsmann Assads“.

Af mörgu ljótu tali sem Maté vitnar til eru hvað mest sláandi ræður Dana Stroul sem er nú staðgengill aðstoðarutanríkisráðherra Bidenstjórnar í málefnum Miðausturlanda. Dana Stroul fór áður fyrir hópnum The Syria Study Group sem skipaður var af Þinginu til að kanna Sýrlandsstríðið. Sem talsmaður hópsins lýsti hún stöðunni fyrir Þinginu og lagði áherslu á að ekki mætti draga úr hernaðarlegri viðveru Bandaríkjanna í Sýrlandi né efnahagslegum þvingunaraðgerðum. Alveg sérstaklega lagði hún áherslu á nauðsyn þess að hindra aðgengi Sýrlandsstjórnar að hinum efnahagslega mikilvægu norðausturhéruðum landsins. Álit hennar er að tíminn vinni með Bandaríkjunum og að þessi taktík, í meginatriðum óbreytt, muni duga til að koma Assadstjórninni á kné efnahagslega og þar með pólitískt. Stroul mælir svo:

Ástæða þess að Syria Study Group talaði um þörfina á að viðhalda hernaðarlegri viðveru í Sýrlandi snérist ekki bara um það að ljúka stríðinu við ISIS. Það snérist um breiðari áhrifamátt okkar í þessum þriðjungi Sýrlands sem er hinn auðlindaríki hluti landsins sem gaf okkur aðstöðu til að hafa áhrif á pólitísk úrslit í Sýrlandi.“ [Stroul segir ennfremur] „Þessi hluti landsins er efnahagsleg aflstöð Sýrlands. Það er þar sem kolvetnin eru [olía og jarðgas] – sem auðvitað er mjög um rætt hér í Washington – sem og aflstöð landbúnaðarins...“ „Það sem Rússarnir vilja og Assad vill er efnahagsleg endurreisn. En það er nokkuð sem Bandaríkin geta í raun stöðvað, gegnum alþjóðlegar fjármálastofnanir og samvinnu okkar við Evrópulönd... Svo við ættum að halda áfram stefnunni að hindra að endurreisnaraðstoð og tæknileg sérfræðiaðstoð komist aftur inn í Sýrland.“

Lífsbarátta sýrlensku þjóðarinnar verður bersýnilega ekkert auðveldari með þetta fólk í lykilstöðum vestan hafs. Bandaríkin munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra enduruppbyggingu, og það er ennþá margt. En tíminn vinnur samt ekki með heimsvaldasinnum.