Showing posts with label Íran. Show all posts
Showing posts with label Íran. Show all posts

Monday, December 14, 2020

Heimsvaldastefnan og bandarísku kosningarnar

 

(birtist á Neistar.is 12. 12. 20)


                                       Frelsisstyttan í útrás. Málverk Þrándar Þórarinssonar.

Trumpisminn sem pólitísk stefna tengist öðru fremur neikvæðri afstöðu til „hnattvæðingarstefnu“. Afstaða bandarískra stjórnvalda til þessa fyrirbæris er afgerandi hluti af stjórnmálum risaveldisins eina – og okkur hina jarðarbúana skiptir hún líka býsna miklu máli. „America is back“ hrópaði Joe Biden eftir kosninganóttina og vísaði til þess forustuhlutverks í alþjóðamálum sem Trumpstjórnin hefði sagt sig frá en skyldi nú tekið upp aftur.

Það er orðin viðtekin venja að kenna heimskapítalismann eftir 1990 við „hnattvæðingu“. Þetta er jafnframt það tímabil sem nýfrjálshyggjan/markaðshyggjan hefur mótað auðvaldskerfið – hnattvæðingin ruddi sér til rúms á grundvelli markaðshyggju og er hluti af henni. Samhliða einkavæðingu og markaðsvæðingu í einstökum löndum fól hnattvæðing í sér „opnun markaðanna út á við“, frjálst flæði fjármagns milli landa og heimshluta og með tilheyrandi athafnafrelsi auðhringa. Á þessu 30 ára skeiði hefur markaðsfrjálslynd hnattvæðingarstefna verið ríkjandi hugmyndafræði, a.m.k. um hinn vestræna heim.

Einnig marxistar nota hugtakið hnattvæðing – og tengja hana hugtakinu HEIMSVALDASTEFNA. Marxísk fræði hafa lengi bent á þá þætti sem einkennt hafa kapítalisma á stigi heimsvaldastefnu allt frá upphafi 20. aldar: samþjöppun og einokun auðmagnsins, drottnun risaauðhringa, aukið vægi fjármálaauðmagnsins, mikill fjármagnsútflutningur, átök heimsvelda um markaði og áhrifasvæði. Þróunin þessa þrjá áratugi hnattvæðingar sýnir einmitt öll þessi efnahagslegu einkenni – í öðru veldi. Hnattvæddur kapítalismi er form heimsvaldastefnunnar í nútímanum.

Jafnframt þessum efnahagslegu einkennum kapítalismans hefur sama tímabil kapítalismans ákveðin PÓLITÍSK einkenni. Eftir fall Sovétríkjanna og Austurblokkar um 1990 hefur megineinkenni alþjóðastjórnmála verið EINPÓLA HEIMUR með Bandaríkin sem eina risaveldið, og þau nýttu þá stöðu til að reyna að leggja heiminn allan undir sig.

Eftir aldamótin 2000 urðu samt til ný viðnámsöfl innan heimsvaldakerfisins og þeim öflum hefur vaxið fiskur um hrygg. Þau hafa styrkt sambandið sín á milli og komið fram sem mótpóll. Fremst í þessum andstöðuarmi eru Rússland og Kína, líka Íran ásamt smærri bandamönnum. En jafnframt hafa þesi lönd gengist inn á hið hnattvædda efnahagslíkan, ekki síst nýkapítalískt Kína sem kemur fram sem hratt rísandi keppinautur innan þess kerfis.

Hnattvæðingarferlið – nokkur einkenni

Skoðum fyrst nokkur einkenni hnattvæðingar sem EFNAHAGSLEGS FERLIS. Hnattvæðingaröflin leitast við að gera heiminn að einu opnu athafnasvæði auðhringa, með opnun markaða, frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls milli landa og heimshluta. Hnattvæðingarþróun felur í sér að ákvarðanavald um efnahagsmál færist í hendur á fjarlægum fjármálaelítum, burt frá almannavaldi og þjóðþingum einstakra landa, grefur undan lýðræði, grefur undan sjálfsákvörðunarrétti þjóða og ríkja.

Af helstu verkfærum og múrbrjótum hnattvæðingarinnar á umræddu hnattvæðingarskeiði ber að nefna GATT, WTO, ríkjabandalög eins og ESB/EES í Maastricht-búningi, NAFTA og ASEAN, viðskiptasamningar eins og TISA og TTIP og fjármálastofnanirnar AGS og Alþjóðabankinn. Ef benda skal á hugmyndalega forustu í ferlinu er eðlilegt að benda á samtökin World Economic Forum (WEF, með fundarstað í Davos í Sviss) samkundu hnattrænnar fjármálaelítu og 1000 helstu þungaviktarauðhringa heims.  

Friday, July 31, 2020

Stríðið gegn Sýrlandi – efnahagsvopnunum beitt


(birtist á Neistum.is 22. júlí 2020)
 

Stríðið gegn Sýrlandi hefur færst yfir á nýtt skeið. Á meðan dregið hefur úr hernaði heimsvaldassinna gegnum málaliða og trúarlega vígamenn hefur stórlega verið hert á efnahagshernaði gegn hinu stríðshrjáða landi.

RÚV: Rússland og Kína loka á mannúðaraðstoð til Sýrlands!

Í fyrri viku kom RÚV með nokkrar fréttir um að Rússar og Kínverjar hefðu í Öryggisráðinu lokað á innflutning hjálpargagna frá Tyrklandi til Sýrlands (nema gegnum eina landamærastöð) og þeir hefðu í raun „lokað á alla utanaðkomandi mannúðaraðstoð til Sýrlands“. Haft var eftir „ónafngreindum evrópskum diplómata“ að „markmið Rússa – og Sýrlandsstjórnar - sé að herða enn grimmdartök sín á stríðshrjáðri og aðframkominni sýrlenskri þjóð.“ Sjá hér: https://www.ruv.is/frett/2020/07/11/lokad-a-alla-utanadkomandi-mannudaradstod-til-syrlands og hér: https://www.ruv.is/frett/2020/07/09/tillaga-russa-um-ad-takmarka-neydaradstod-felld
Þetta er dæmigert fyrir fréttaflutning RÚV frá Sýrlandi. Í Öryggisráðinu fyrr í júlí var tekist á um innflutning inn í Idlibhérað, eina svæði sem hryðjuverkamenn (RÚV: „uppreisnarmenn“) halda í Sýrlandi, og eina svæðið sem flest verstæn hjálparsamtök hafa starfað á. RÚV talar hins vegar ekki um hjálpargögn, og skort á þeim, til svæða í Sýrlandi þar sem 95% Sýrlendinga býr. Þar ríkir nú aukinn skortur líka – sem hvorki Rússar né Kínverjar bera ábyrgð á.

„Sesars-lög“ gegn Sýrlandi

Fyrir rúmum mánuði síðan, 17 júní, gengu í gildi í Bandaríkjunum ný lög gegn Sýrlandi. Kallast þau Caesar Syria Civilian Protection Act (Sesars-lög um verndun sýrlenskra borgara) og herða á hinu banvæna umsátri um Sýrland. Tilvísunin til „Sesars“ í þessum lögum er ekki til rómverska keisarans heldur vísar til dulnefnis landflótta Sýrlendings sem hefur frá 2014 verið miðlægur í áróðursherferðum gegn Sýrlandi. Hann var sagður hafa lagt fram þúsundir ljósmynda frá líkhúsi í Damaskus þegar Sýrlandsstríð var í hámarki. Myndirnar voru sagðar vera af fólki sem Assad hefði pyntað og drepið. Þær fengu mikla dreifingu, m.a. gegnum Human Rights Watch sem hafa þó síðar viðurkennt að a.m.k. helmingur myndanna sýni sýrlenska hermenn sem lentu í höndum terrorista. Sjá grein The Greyzone um málið: https://thegrayzone.com/2020/06/25/us-qatari-intelligence-deception-produced-the-caesar-sanctions-syria-famine/amp/

Stríðið gegn Sýrlandi hefur færst yfir á nýtt skeið. Sú aðferð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra að styðja við hópa pólitískra vígamanna hefur ekki tekist, svo nú er veðjað á annað sóknarfæri og aðra aðferð, engu síður banvæna: að steypa efnahagnum og hindra enduruppbyggingu landsins. „Látið efnahagslífið kveina!“ (Make the economy screame!) voru skilaboð Nixons til CIA í Chile 1973. Efnahagslegt stríð til að steypa mótþróafullum ríkisstjórnum (sem þjóna ekki bandarískum hagsmunum) er ekki nýtt af hálfu Bandaríkjanna. Efnahagsþvinganir BNA gegn Norður Kóreu hafa staðið í 70 ár, gegn Kúbu í 60 ár, gegn Íran í 40 ár og Venesúela í 20 ár. Í Írak drápu efnahagsþvinganirnar milli stríðanna tveggja, 1991 og 2003, yfir milljón manns, helminginn börn.
Nýju Sesarslögin í Washington eru áþján sem bætast við 9 ára stríð gegn Sýrlandi, 9 ára harðar viðskiptaþvinganir (og minni þvinganir alveg frá 1979), hrun sýrlenska pundsins sem hefur hækkað matvöruverð í Damaskus 20-falt og nú síðast baráttu Sýrlendinga við Kovid 19. Lögin leitast við að banna Sýrlendingum allar bjargir, innflutning á nauðsynjum, meðulum eða orku, fjárfestingar, peningasendingar frá ættingju í útlöndum... Allt með þann yfirlýsta tilgang að „vernda“ þessa þjóð.
Almennur skortur sýrlensku þjóðarinnar, helst sultur, eru vopnin sem heimsvaldasinnar vona að bíti að lokum, með því að herða þumalskrúfuna og bæta nógu lengi á þjáningar þjóðarinnar svo að hún af alvöru snúist gegn ríkisstjórninni. Meðan hún snýst ekki gegn ríkisstjórn landsins skal hún heldur ekki fá að borða!

Tuesday, January 14, 2020

Pólitísk morð og ríkishryðjuverk – afleikur Trumps

(Birtist á Neistar.is 8. janúar 2020)
 

Abdul-Mahdi forsætisráðherra Íraks segir Soleimani yfirhershöfðingja hafa verið í opinberum erindagjörðum þar í landi þegar hann var myrtur, að Bandaríkin hafi óskað eftir milligöngu Mahdis í deilu BNA og Írans og Soleimani stefnt á hans fund af þeim ástæðum. Hann kom í venjulegu áætlunarflugi til Bagdad. https://www.unz.com/tsaker/the-us-is-now-at-war-de-facto-and-de-jure-with-both-iraq-and-iran/ Dráp á opinberum sendimanni er gróft brot á alþjóðalögum. Soleimani var næstvaldamesti maður í Írans og þjóðhetja. Það er erfitt að hugsa sér nokkra grófari ögrunaraðgerð gagnvart Íran né heldur grófari íhlutun í málefni Íraks. Þetta er utanríkisstefna sokkin niður í glæpamennsku.

Sama drónasprengja drap einnig Abu Mahdi al-Muhandis, foringja hinna áhrifamiklu sjía-hersveita Hashd al-Shaabi (eða PMU, Alþýðusveitirnar) sem njóta stuðnings stjórnvalda í Írak og áttu stærstan þátt í sigrinum yfir ISIS þar í landi.

Morð Soleimanis er stríðsaðgerð af hálfu Bandaríkjanna, ekki stríðshótun heldur stríð. Árásarstríð. Stjórnvöld í Teheran sögðust strax taka því sem stríðsyfirlýsingu. Það er staðfest með loftskeytaárás Íranska byltingarvarðarins á bandarísku herstöðina Ain al-Assad í Vestur-Írak 7. janúar. Íranir vísuðu til stofnsáttmála SÞ sem heimilar beitingu hervalds í sjálfsvarnarskyni. https://www.presstv.com/Detail/2020/01/07/615621/IRGC-Ain-al-Assad-airbase-Anbar-province-


Einbeittur fjandskapur síðan 1979
Drápin við Bagdadflugvöll voru stríðsaðgerð. Spennumögnun með fullri vitund og vilja. Í áratugi hefur BNA haft þá stefnu að ögra Íran, að hámarka spennu og árekstra gagnvart Íran, til að sá sundrungu í landinu, koma þar á valdaskiptum, með litabyltingu, stríðshótunum eða beinum stríðsátökum.

Íran hefur verið efst á óvinalista Bandaríkjanna frá 1979. Þjóðleg og andheimsvaldasinnuð bylting varð í Íran það ár. Íranska keisarastjórnin, sérstakur skjólstæðingur og bandamaður Vestursins (einkum Breta og síðan Bandaríkjanna), var sett af og klerkastjórnin svokallaða tók við. Olíuiðnaðurinn var þjóðnýttur en Exxon, Mobil, Shell o.fl. voru rekin út. Það var ekki fyrirgefið.

Gríðarleg hernaðaruppbygging Bandaríkjanna í þessum heimshluta voru öðru fremur viðbrögð við írönsku byltingunni. Pentagon setti árið 1983 á fót herstjórnarsvæðið CENTCOM. Það markaði nýjar áherslur í hnattrænni herstjórnarlist BNA, ekki síst út frá vægi olíunnar. Næstu tvo áratugi var byggt upp net herstöðva í Miðausturlöndum og kringum Íran. Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum en á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Endurtökum: á rúmum tveimur áratugum, 1983-2005, úr núll herstöð í 125 herstöðvar. Bandarísk heimsvaldastefna blómstraði, skákandi í skjóli þess að sovéski mótpóllinn hvarf. https://neistar.is/greinar/iran-heimsvaldastefnan-og-midsvaedid/

Tuesday, July 16, 2019

Friðarvonin í Miðausturlöndum

(birtist á Neistum 30. júní 2019)
                                         Íran ógnar Bandaríkjunum? Fánarnir sýna bandarískar herstöðvar umhverfis Íran


Valdahlutföll í heiminum eru að breytast. Írandeilan sýnir það skýrt. Bandaríkin sögðu sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Íran 2018 og settu viðskiptaþvinganirnar aftur á landið, enn harðari en fyrr. Síðan boðaði Pompeo Íran til samningaviðræðna, ekki bara um kjarnorkusamninginn heldur einnig um skotflaugaeign þeirra og mannréttindi o.fl., til að tryggja að Íranir myndu örugglega hafna boðinu. Íranir sáu ekki ástæðu til að svara. Frú Merkel sendi Maas utanríkisráðherra sinn til Teheran til að fá Írani að samningaborðinu með USA, en Íranir sendu Maas heim. (Merkel brást við með því að segja að „miklar líkur“ væru á að Íranir hefðu staðið að árásunum á olíuskipin á Omanflóa!). Trump tísti: „Það eina sem Íranir skilja er styrkur og máttur, sem bandaríski herinn hefur nóg af... Öllum árásum þeirra gegn Bandaríkjunum verður svarað af hörku og í einhverjum tilfellum með gjöreyðingu.“

Íran í herfræðilegri lykilstöðu

En Íranir hrökkva ekki undan slíkum hótunum og beygja sig ekki neitt. Þeir segjast geta lokað Hormuz-sundi samdægurs ef til átaka kemur – og margt bendir til að þeir séu einmitt færir um það. Sjá nánar Um sundið fer 40% af olíuútflutningi heimsins. Ef þessi olíustraumur verður stöðvaður fer efnahagskefi heimsins á hliðina. Hinn þekkti heimsmálagreinir Pepe Escobar á Asia Times Online segir að enginn sendi olíuskip inn á stríðsátakasvæði. Í greininni „Iran goes for “maximum counter-pressure”“ skrifar hann: „Jafnvel áður en neistarnir fara að fljúga gæti Íran lýst Persaflóa sem stríðssvæði, lýst yfir að Hormuzsund sé stríðssvæði; og bannað síðan alla fjandsamlega umferð á sínum helmingi sundsins. Án þess að hleypt væri af einu skoti mundi öll flutningaskipafélög á hnettinum hætta að senda olíuskip um Persaflóa.“ Meira um það hér.
Bandarísku stríðsherrarnir hafa átt upptök að allnokkrum styrjöldum í Austurlöndum nær frá 2001 (öllum þeim stærstu). En þeir hafa þar alltaf átt í höggi við miklu veikari andstæðinga en nú. Þeir hafa t.d. getað sent skotflaugar á skotmörk í Sýrlandi, Írak eða Afganistan án þess að reikna með gagnárás. Gagnvart Íran gildir það ekki lengur. Íran mun svara af fullum styrk, og trúlega fá aðstoð bandamanna sinna (Hizbolla, Sýrlands, Rússlands, Kína...). Sem sagt árás sem hefur afleiðingar fyrir árásaraaðilann. Þetta blasir við og þetta sjá bandamenn Bandaríkjanna í NATO, ESB og víðar. Það er auðséð að árás mun hafa gríðarlegar afleiðingar – svo það hillir undir þriðju heimsstyrjöldina. Í þessu samhengi er auðskilið að það er herstyrkur Írans sem helst tálmar árásarstríði, íhlutunum og valdaskiptaaðgerðum heimsvaldasinna í Austurlöndum nær. Það haggar ekki þeirri staðreynd þótt klerkaveldið í Íran sé ólýðræðislegt auðræði. Íranska byltingin hefur til þessa beinst gegn heimsvaldastefnunni.

„Andspyrnuöxullinn“ hefur styrkst

Annað er það sem hefur breyst á síðustu 5 árum. Sýrlandsher er kominn langt með að vinna stríð sitt gegn innrásarherjunum. Að lama og eyðileggja Sýrland (líkt og Líbíu) eða mögulega að sundurlima ríkið var í herstjórnarlist heimsvaldasinna hugsað sem nauðsynlegt skref í því að einangra og umkringja höfuðbandamann Sýrlands, Íran – sem aftur er liður í enn stærra heimsvaldatafli – og að brjóta um leið upp „andspyrnuöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum: Íran, Sýrland, líbanska Hizbolla. Af því að „leiðin til Teheran liggur gegnum Damaskus“. Sjá nánar
Þessi áform þóttu líta vænlega út framan af staðgengilsstríðinu gegn Sýrlandi (háð af broguðum her málaliða og jíhadískra vígamanna, vopnuðum og fjárhagsstuddum af USA, NATO, ESB, Sádum, Ísrael, Tyrkjum...). En frá 2015 hefur Sýrlandsher í samvinnu við meðbræður sína frá Íran og Hizbolla og með lofthernaðarðastoð frá Rússlandi snúið dæminu við og frelsað aftur meirihluta þess lands sem tapast hafði. Stríðið sem átti að slá út „andspyrnuöxulinn“ í Miðausturlöndum hefur orðið til að styrkja hann stórlega. Og síðustu misserin hefur Írak mikið til gengið til liðs við sama „andspyrnuöxul“. Þannig að markmið heimsvaldasinna að umkringja og grafa undan Íran hefur færst heldur fjær en hitt. Þess vegna má slá því föstu – þótt einhverjum friðarsinna sýnist það þversögn – að herstyrkur Sýrlands, hefur verið mikilvægasta aflið í því að hindra enn miklu stórfelldari átök í Miðausturlöndum. Sjá hér nánar um átökin í Austurlöndum nær í samhengi heimsvaldastefnunnar: Sjá hér

Vestrið klofið
Vestrið er nú klofið í afstöðu sinni til Írans. Mikilvægasta ástæða þess er áðurnefnt mat á hernaðarlegum styrk Írans, að hernaðaríhlutun gegn landinu sé afar áhættusöm og útkoman óviss. Við það bætist svo að bandamenn BNA (ekki síst í Evrópu) áttu þegar mikla viðskiptahagsmuni í Íran þegar BNA sagði sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Teheranstjórnina. Samanlögð útkoma þessara þátta er að þeim Trump og Pompeo gengur nú bölvanlega að safna í nýtt „bandalag viljugra“ gegn Írönum. Helsta von okkar hinna er þá sú að í stað einangrunar Írans komi vaxandi einangrun Bandaríkjanna. Gallinn er sá að þar í landi er það hernaðar-iðnaðarsamsteypan sem ræður ríkjum, „the military–industrial complex, USA“.

Ögrunaraðgerðir gegn Íran sýna alvöru Bandaríkjanna

(birtist á Neistum.is 20 júní 2019)

„Við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Þetta sagði Paul Wolfowitz þá vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna (síðar varnarmálaráðherra) árið 1991 á fundi með Wesley Clark yfirhershöfðingja NATO. Sjá hér
Sprengjum var skotið á tvö olíuskip á Persaflóa 13. júní, japanskt og norskt, og bandarísk stjórnvöld (og bresk, Ísraelsk, Sádísk m.m.) segja Írana hafa verið að verki. Núverandi átök Bandaríkjanna og Írans birta okkur óvenjulega skýrt um hvað taflið snýst: Um svæðisbundin yfirráð, um hnattræn yfirráð. Það sama og árið 1991. En það ár voru Bandaríkin einmitt að máta sig í hlutverkið „Risaveldið eina“, og flest sýndist mögulegt. Þau eru enn í þessu hlutverki árið 2019. Nú eru tilþrifin hins vegar orðin mjög krampakennd. Eins og við skrifuðum í greininni. „Íran, Miðsvæðið og heimsvaldastefnan“: „Bandaríkin (og Vestrið) eru hnignandi efnahagsveldi sem tapa í efnahagsáhrifum og markaðshlutdeild ár frá ári. Viðbrögð þeirra við þessu verða stöðugt meira einhliða: að beita þeim yfirburðum sem þau hafa: hernaðarmætti og ofbeldi.“ Sjá grein. Ætlun Donald Trump er skýr: „Make America great again“.

 Að útnefna „óvini“ og slá þá niður

Þessa tæpu þrjá áratugi frá 1991 hefur ákveðin mantra verið grundvallaratriði í stjórnstöðvum bandarískrar utanríkisstefnu. Það er listi yfir ákveðin lönd, „öxulveldi hins illa“ eða einfaldlega „óvinaríki“, ríki sem þarf að ráðast gegn, veikja, grafa undan og kalla þar eftir „valdaskiptum“. Hvaða lönd eru á þessum lista? Það eru einfaldlega lönd sem talin eru of óháð vestrænu valdi og eru á hernaðarlega mikilvægum og auðlindaríkum svæðum. Listinn breytist af og til, t.d. ef „valdaskipti“ hafa tekist einhvers staðar og önnur „óvinalönd“ verða mikilvægari. Hann breytist lítt eða ekki þótt vald færist milli demókrata og repúblíkana. Árið 2001 var listinn opinberlega tengdur „hnattrænu stríði gegn hryðjuverkum“ og fyrst og fremst miðaður á hin olíuríku Austurlönd nær.
Íran hefur alla tíð verið ofarlega á listanum (nánar tiltekið frá byltingunni 1979) vegna olíuauðs og andstöðu við vestræna heimsvaldastefnu. En Íran er hlutfallslega sterkt og vel fært um að bíta frá sér. Þess vegna hefur það tafist að BNA og bandamenn legðu í beint stríð við landið. Ennfremur: Íran býður upp á freistandi viðskipti og fjárfestingar. Þess vegna gerist það nú að BNA virðist vera að einangrast í sinni herskáu afstöðu til Írans. Að Bandaríkin skuli samt skora Írana á hólm er ekki merki um að Íran hafi veikst eða Bandaríkin styrkst. Það er fyrst og fremst merki um vaxandi örvæntingu í Washington.

Heimsvaldatafl og ójöfn þróun

Kapítalísku efnahagskerfin, og þar með heimsveldin, þróast ójafnt og sækja fram eða hopa á heimsmarkaði samkvæmt styrkleika sínum. Það er lögmál. Þróun auðvaldsheimsins er enn sams konar og sama eðlis og um og upp úr 1900 þegar Þjóðverjar sigldu upp að og fram úr Bretum og Frökkum í iðnaði en vantaði Lebensraum (eins og Lenín lýsti í bókinni Heimsvaldastefnan). Útkoman úr því varð tvær heimsstyrjaldir. Nú fer líku fram þegar nýtt efnahagsveldi, kapítalískt Kína, þrammar fram á heimsmarkaðsvöllinn. Frá 2013 hefur Kína lýst yfir uppbyggingu „nýja Silkivegarins“ (BRI, Belt and Road Initiative), efnahagsbeltis með háhraðaflutningum á landi og líka á sjó auk vöru- og fjárfestingaflæðis sem samtengja skal Kína og Evrópu og allt svæðið þar á milli. BRI nær nú yfir nærri 70 lönd og 40% af þjóðarframleiðslu heimsins. Mike Pompeo utanríkisráðherra hefur sagt að Kína sé höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og „geo-strategic threat“. Og Íran er lykilhlekkur í Silkiveginum. Sjá nánar
Bandaríkin urðu risaveldi í krafti öflugasta framleiðslukerfis heimsins. Nú hafa þau löngu staðnað sem iðnríki, þau hafa útvistað miklu af iðnaði sínum og hafa ekki lengur það framleiðslukerfi sem þarf til að „make America great“. Auk þess er olídollarakerfið að bresta. Í staðinn grípa Bandaríkin báðum höndum krampataki um sitt öflugasta vopn: hervald og ógnanir. Þau hafa langstærsta her heimsins og þau eyða trilljónum og aftur trilljónum dollara í stríð, valdarán, refsiaðgerðir og viðskiptastríð vítt um lönd og álfur. Bandaríkin eru gríðarlega ofbelsdissinnað heimsveldi og munu því ekki „stíga til hliðar“ með friðsemd. Því miður.

Fjandskapurinn við Íran er í alvöru

Í þessu ljósi verður að skoða atburðina á Persaflóa sl. 13. júní. Bandaríkin og nánustu fylgiríki skelltu óðara skuldinni á Írana. En það er of vitlaust til að það þurfi einu sinni að rannsaka það eða ræða sérstaklega. Fyrrverandi breski sendiherrann Craig Murray skrifar: „Ég reyni ekki að mæla dýpt þeirrar heimsku sem trúir því að Íran myndi ráðast á japanskt olíuflutningaskip samtímis því sem forsætisráðherra Japans sest niður, í óþökk Bandaríkjanna, til friðsamlegra samræðna um efnahagssamvinnu um það hvernig Íran megi komast í gegnum bandarískar refsiaðgerðir.“ Sjá hér
Bandaríkin byggja öll stríð sín á einhverri grundvallarlygi (og eru svo sem ekki ein um það). Æði oft þarf ögrunaraðgerðir, sviðssett hryðjuverk, stundum með hjálp staðgengla, til að koma stríðinu í gang. Tonkinflóa-atvikið 1964 var hryðjuverk undir fölsku flaggi og nýttist til fullrar innrásar í Víetnam, atburðirnir 11. september voru notaðir til að ráðast á Afganistan sem ekki tengdist þeim á nokkurn hátt, „gjöreyðingarvopn Saddams Hússein“ voru fölsk átylla notuð til að ráðast á Írak, „eiturefnaárásirnar“ notaðar til loftskeytaárása á Sýrland o.s.frv. Og sagan endurtekur sig enn.
Bandaríkin segja sig frá kjarnorkusamningnum við Íran og hefja nýjar og harðari refsiaðgerðir gegn landinu (og gegn þeim sem skipta við Íran), eins þótt það gangi gegn augljósum hagsmunum bandamannanna þeirra (ESB m.m.). Bandaríkin neita að draga sig út úr Sýrlandi þó að íslamistar séu þar sigraðir (enda var stríð BNA við ISIS yfirskin). Allt þetta sýnir alvöruna í fjandskap Bandaríkjanna við Íran, að þau veðji ennþá á stríðstrompið í þeirri von að stríð, stríðshótanir, efnahagslegar refsiaðgerðir og alþjóðleg áróðursherferð geti sáð sundrungu í Íran og veikt landið nægjanlega til að koma á hinum eftirsóttu „valdaskiptum“. Hin sviðsettu hryðjuverk í Persaflóa fyrir skemmstu eru enn ein vísbendingin um þessa miklu alvöru. Þess vegna: Búum okkur undir að þurfa að taka afstöðu til fleiri ögrunaraðgerða þar sem reynt verður að koma sök á Íran. Spurningin verður bara hvort heimsvaldasinnum og áróðursmaskínu þeirra takist að draga nógu marga „viljuga“ bandamenn með sér í hina komandi krossferð.

Sunday, June 2, 2019

Íran, heimsvaldastefnan og „Miðsvæðið“

(birtist á Neistar.is 1. júní 2019)
                                              US-CENTCOM, Miðsvæði bandarísks imperíalisma
„Ef Íran langar til að berjast verða það opinber endalok Írans“, tísti Donald Trump 19. maí sl.“ Viðskiptaþvinganir, stríðshótanir, hernaður eru kjarninn í bandarískri utanríkisstefnu. Undanfarna mánuði hafa spjótin og sviðsljósið beinst að Venesúela og Íran. Bandaríkin senda herflotafylki og kjarnasprengjuberandi flugvélar austur að Persaflóa. En nú bregður svo við að fáir taka undir bandarísku stríðsöskrin gegn Íran. Ekki hinir nánu bandamenn í Evrópu. ESB hefur tekið afstöðu gegn nýjustu refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Íran. Þær beinast ekki aðeins gegn Íran, heldur öllum þeim ríkjum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti við Íran. Sem stendur leiðir þessi stefna til einangrunar Bandaríkjanna. Ekki minnkar árásarhneigðin við það. Málið snýst um heimsvaldastefnu og yfirráðin í Austurlöndum nær. Lítum á baksviðið.

1985-2005, upp spruttu 125 herstöðvar

Bandaríkin hafa sem kunnugt er yfir 800 herstöðvar utanlands. Bandaríska Varnarmálaráuneytið í Pentagon skiptir nú hnettinum okkar í sex bandarísk herstjórnarsvæði: AFRICOM, CENTCOM, EUCOM, INDOPACOM, NORTHCOM, SOUTHCOM.Sjá nánar
 
Það var árið 1983 sem Reaganstjórnin setti á fót „Herstjórn Miðsvæðisins“, CENTCOM, í MacDill-herstöðinni við borgina Tampa í Flórída. Stofnun CENTCOM markaði nýjar áherslur í bandarískri hnattrænni herstjórn eftir hina alvarlegu ósigra Bandaríkjanna í Indó-Kína og Austur-Asíu. Strategistar utanríkisstefnunnar beindu nú sjónum sínum að orkuríkasta svæði heimsins, Miðausturlöndum og því sem USA skilgreindi sem „Miðsvæðið“ (Central Region) en það nær yfir Stór-Miðausturlönd: Miðausturlönd plús Mið-Asíu. Svæðið við og austur af Kaspíahafinu hafði þegar verið skilgreint sem eitt allra olíuríkasta svæði heims. Fróðir menn telja raunar umrætt svæði geyma meirihlutann af vinnanlegum olíuforða heimsins.

Fyrir stofnun CENTCOM 1983 fólst bandarísk „hervernd“ á Miðsvæðinu í mikilli viðverðu bandaríska flotans á svæðinu og herþjálfun og sameiginlegum heræfingum með fylgiríkjum BNA. En frá 1985 og áfram fór á skrið uppbygging herstöðva á svæðinu, fyrst í Sádi-Arabíu, skömmu síðar öðrum Persaflóaríkjum o.s.frv. Írski fræðimaðurinn John Morrissey birti nýlega niðurstöður sínar um þessa uppbyggingu:
„Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum. Á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENTCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Frá stofnun sinni hefur þessi herstjórn haft forustu í öllum meiriháttar bandarískum hernaðaríhlutunum utanlands, frá Olíuskipastríðinu (Tanker War) í Persaflóa á 9. áratug, frá Persaflóastríðinu á 10. áratug til Stríðsins gegn hryðjuverkum á seinni áratugum.“ Sjá nánar

Sem sagt, á tveimur áratugum, 1985-2005, hafði orðið á þessu svæði hreint ótrúleg breyting, án þess að nokkuð bæri á því í heimspressunni. Komandi umskipti voru einna fyrst orðuð opinberlaga í „State of the Union“-ávarpi Jimmy Carter í janúar 1980. Þá lýsti hann yfir að: "ef utanaðkomandi afl nær yfirráðum á Persaflóasvæðinu verður það skoðað sem árás á grundvallarhagsmuni Bandaríkjanna og slíkri árás verður mætt með öllum nauðsynlegum aðferðum, þ.á.m. með herafli." Sjá yfirlýsingu

Monday, March 11, 2019

Netárás á Venesúela?

 (birtist á fésbók SHA 11. mars 2019)
                                             Caracas myrkvuð - eftir netárás?
                                         
Nicolas Maduro fullyrðir að stórfelld netárás hafi verið gerð á rafkerfið í Venesúela, og bendir á USA sem líklegasta sökudólg. Kanadíski höfundurinn Stephen Gowans færir rök fyrir að ásökunin sé ekki langsótt. Hann vitnar í New York Times frá því fyrr í vetur. Þar kemur fram að USA hefði hernaðaráætlun um netárás á dreifikerfi rafmagns í Íran ef skerast skyldi í odda milli landanna. Ennfremur segir þar „Such a use of cyberweapons is now a key element in war planning by all of the major world powers.“ NYT minnir á að USA og Israel hafi þegar gert stórfelldar netárásir á rannsóknarstöðvar Írans fyrir auðgun úrans. Nú um stundir hefur USA ennþá meiri áhuga á Venesúela en Íran. Er þá ekki netárás þar nærtækt snjallræði?

Tuesday, January 2, 2018

Íran - leiðarvísir um valdaskipti

(birt á fésbók SHA 2. jan 2018)
                                           Ali-Khalmenei æðstiklerkur segir óvini Írans standa að baki mótmælum

Ekki skal draga í efa raunverulega óánægju í Íran með spillingu og ójöfnuð. En ekki heldur efast um að óvinveitt veldi standi að baki og leiði uppþotin þar, eins og Írönsk stjórnvöld segja. Minna skal á CIA-stýrt valdarán gegn þjóðhollri stjórn Mosaddeghs 1953. (sjá hér)

Skoðið síðan vel þennan leiðarvísi til uppþota og valdaskipta í Íran, samin í tengslum við mótmælaölduna þar 2009. Hann var útgefinn af Brookings-stofnuninni, voldugustu utanríkis-hugveitu Bandaríkjanna. Kaflaskipting leiðarvísisins: 1. "Dissuading Tehran: The Diplomatic options" 2. "Disarming Tehran: The Military options" 3. "Toppling Tehran: Regime Change". Það eru svo undirkaflar við þennan punkt: f. "The Velvet revolution" g. "Inspiring an insurgency" h. "The coup: supporting a Military Move against the regime". (sjá heimild) Þarna er ekki farið í felur með neitt, skipulagning innri andstöðunnar og alþjóðleg fjölmiðlaherferð, og loks skipulagning valdaránsins. RÚV lætur sitt ekki eftir liggja.

Sunday, June 11, 2017

Eldsmatur í "Katar-krísunni"

(Ég deili hér viðtali við Juniad Ahmad sem birtist á The Real News Network 9. Júní 2017 um „Katar-krísuna“. Úr umræðu á fésbók SHA sama dag)


Samkvæmt Junaid Ahmad vakir fyrir þessu bandalagi sem hann kallar „US-Saudi-Israeli-UAE nexus“ að magna deiluna við Írani og vill það þvinga Katar til að slíta sinni orkumálasamvinnu við þá. Og í þinginu í Washington er hafin umræða um að setja aftur refsiaðgerðirnar á Íran. En eldsmaturinn í deilunni sést á því að Tyrkir taka afstöðu með Katar og bjóða þeim bæði mat og hernaðaraðstoð. Þarna er þá samtímis alvarleg deila risin innan NATO (Innan sviga sjást önnur merki um alvarlegar sprungur innan NATO þegar Þjóðverjar draga 260 manna her sinn fráIncirlik-herstöðinni í Tyrklandi)


Ég hef ákveðið á tilfinningunni að þessi klofningur innan fylgiríkja Vestursins í Miðausturlöndum tengist mikið því að stríðin þeirra þar ganga mjög illa. Líbíustríðið gekk „vel“ og varð til að þétta raðirnar og menn fylktu sér fullir bjartsýni á bak við valdaskipta-"uppreisn" í Sýrlandi. En lengi hefur allt gengið á afturfótum í Sýrlandi og líka í Jemen og þá fer samstaðan að bila.

Saturday, November 10, 2012

Aðferðirnar gegn Íran og Sýrlandi – fyrr og nú


(Birtist á Gagnauga.is 13. febrúar 2012)

Vesturveldin fylkja nú liði sínu gegn Íran og helsta bandamanni þess, Sýrlandi, vegna „kjarnorkuvopna“ og „mannréttindabrota“. Beitt er margvíslegum alþjóðlegum refsiaðgerðum og hernaðaraðgerðir undirbúnar. Fyrirmyndin er fengin í Írak og Líbíu. Leiðtogar Íran og Sýrlands segja hins vegar að erlendur undirróður og íhlutanir kyndi undir ólgu á svæðinu í því skyni að fella þau tvenn stjórnvöld þessa svæðis sem óhlýðin eru Vesturlöndum. Þá er hollt og skilningsaukandi að vita að slík íhlutun er ekkert ný í sögunni. Miðausturlönd hafa verið á áhrifasvæði vestrænna heimsvaldaríkja frá seinni hluta 19. aldar. Áður hafði svæðið að miklu leyti tilheyrt Tyrkjaveldi en því hnignaði og það féll endanlega í fyrri heimsstyrjöldinni. Við tók heimsvaldakerfi Vesturveldanna. Undir því arðráns- og valdakerfi hafa Miðausturlönd (og aðrir heimshlutar) legið síðan. Aðeins með ógurlegum herkjum hefur einstaka ríki tekist að rísa upp og standa á eigin fótum, sum hafa reist sig upp á hné, önnur hafa risið en verið felld á nýjan leik.

Fréttaflutningur – eins og sá íslenski – sem fjallar um Miðausturlönd út frá þokukenndum hugtökum um „mannréttindi“ og „lýðræði“, án þess að horfa á hinn ytri ramma heimsvaldakerfisins sem skilorðsbindur allt stjórnmálalíf þessara landa, er afskaplega þröngsýnn og skilningshamlandi, eins og sýn þess manns sem skoðar umhverfi sitt út um þröngt rör – og umræðan eftir því forheimskandi.  

Sem lýsandi dæmi um vald og aðferðir Vesturveldanna í Miðausturlöndum fyrr og síðar má taka tvo stjórnmálaviðburði frá hinum tveimur umræddu löndum – Íran og Sýrlandi – báða frá 6. áratugnum.

I. Íran: Í upphafi 20. aldar hófst olíuvinnsla í Íran. Frá byrjun höfðu Bretar þar öll tögl og hagldir gegnum Anglo-Persian Oil Company. Pahlavi-ættin sat á keisarastóli 1925–1979 og var alla tíð handgengin heimsvaldasinnum. En á 5. áratug 20. aldar reis þjóðernis- og  þjóðfrelsisbylgja í Íran. Árið 1951 var þar kosinn til valda þjóðfrelsissinnuð stjórn undir forsæti Mohammad Mosaddegh.  Þjóðþing landsins ákvað nær einhuga að þjóðnýta olíuiðnað landsins – og svo var gert.

Þá var heimsvaldasinnum að mæta. Bretar settu olíusölubann á Íran, fylltu síðan Persaflóa af herskipum, lokuðu Hormúzsundi og tóku þannig efnahag landsins steinbítstaki. Bretar hertóku auk heldur olíuhreinsunarstöðina í Abadan, þá stærstu í heimi. Öngþveitið sem af hlaust var notað til að skipuleggja valdarán, og nú tóku Bretar og Bandaríkjamenn (Churchill og Eisenhower) höndum saman:

„Bretar og Bandaríkjamenn völdu Fazlollah Zahedi sem forsætisráðherra í herforingjastjórn sem skyldi taka við af stjórn Mosaddeghs. Því næst var gefin út tilskipun, samin af valdaránsmönnum og undirrituð af keisaranum, sem setti Mosaddegh af og skipaði Zahedi í hans stað. CIA hafði pressað hinn veika keisara til að taka þátt í valdaráninu en mútað glæpaflokkum, prestum, stjórnmálamönnum og herforingjum til að taka þátt í herferðinni gegn Mosaddegh og stjórn hans“ (Mark J. Gasiorowski, 1991, U.S. Foreign Policy and the Shah: Building a Client State in Iran, 237–39).

Í ágúst 1953 setti CIA á svið og fjármagnaði uppþot gegn Mosaddegh en til stuðnings keisaranum. Þau enduðu með því að stjórn Mosaddeghs var steypt og hann sat í fangelsi það sem eftir var. Þegar til kom varð Zahedi ekki hinn sterki maður landsins heldur keisarinn, Reza Pahlavi, sem varð „einvaldur“ leppur heimsvaldasinna allt fram að írönsku byltingunni 1979. Þetta var í fyrsta en ekki síðasta sinn sem Bandaríkin steyptu þjóðkjörinni stjórn, en meirihluti íranskra olíuvinnslusamninga gekk í framhaldinu til bandarískra fyrirtækja. 

II. Sýrland. Á heimsstyrjaldarárunum síðari vann Sýrland formlegt sjálfstæði eftir mörg og oft blóðug átök við Frakka sem höfðu landið sem „verndarsvæði“ frá friðarsamningunum 1918. Á eftirstríðsárunum voru stjórnmálin flókin en ríkjandi vindar meðal almennings voru vindar þjóðfrelsis og andstöðu gegn heimsvaldastefnunni. Sýrland var þá að verða – og hefur verið síðan – nokkurs konar holdgerfingur arabískrar þjóðernisstefnu. Sterkasti flokkur landsins var flokkur samarabískra þjóðernissinna, Bath-flokkurinn. Frá 1954 hafði hann stjórnað landinu með stuðningi Kommúnistaflokk Sýrlands og bandamanna úr hernum. Stjórnin hafði gott samband við Sovétríkin, en að auki lágu afar mikilvægar olíuleiðslur um Sýrland frá Írak til Miðjarðarhafs.

Árið 2003 fann rannsóknarstúdent í alþjóðasögu við Royal Holloway College í London skýrslu frá Sandys, breska varnarmálaráðherranum í stjórn Macmillans 1957. Innihaldið kom fram í grein í  The Guardian 27. sept. 2003 (www.guardian.co.uk/politics/2003/sep/27/uk.syria1). Þar skrifuðu Macmillan og Eisenhower Bandaríkjaforseti undir „áætlun frá CIA og bresku leyniþjónustunni MI6 um að setja á svið falska landamæraatburði sem átyllu til innrásar [í Sýrland] af vestrænt sinnuðum nágrönnum Sýrlands“ eins og segir í skýrslunni frá september 1957. Eitt meginatriði í áætluninni var launmorð þriggja manna sem taldir voru sterku mennirnir á bak við sýrlenska forsetann, Shukri al-Kuwatli. Í skýrslunni segir m.a. (tilvitnanir sóttar í grein, „SYRIA: CIA-MI6 Intel Ops and Sabotage“ eftir Felicity Arbuthnot á vefsíðunni  globalresearch.ca):

Þegar pólitísk ákvörðun er fengin um að valda innanlandstruflunum í Sýrlandi er CIA tilbúin, og SIS (MI6) mun leitast við að að setja upp minni háttar skemmdarverk og atburði í átt að skyndivaldaráni gegnum sambönd sín við einstaklinga... Aðgerðirnar ættu ekki að vera bundnar við Damaskus... nauðsynlegt óöryggi,... landamæraatburðir og átök... [myndu] skapa nauðsynlega átyllu til íhlutunar... [Sýrland skyldi] sýnast vera stuðningsaðili launráða, skemmdarverka og ofbeldis gegn nágrannastjórnvöldum... CIA og MI6 skyldu beita færni sinni bæði á sviði sálfræði og í beinum aðgerðum til að auka á spennu...

Árásir inn í Írak, Jórdaníu og Líbanon fælu í sér „skemmdarverk, samsæri og margvíslegar hernaðaraðgerðir“ og sökinni komið á Damaskusstjórnina. Og það voru Írak og Jórdanía – bæði löndin ennþá breskt „verndarsvæði“ – sem ásamt Tyrklandi skildu svo svara með hernaðaríhlutun í Sýrland.

Í Guardian-greininni segir síðan: „Áætlunin var aldrei notuð, aðallega af því að ekki tókst að sannfæra arabíska nágranna Sýrlendinga um að grípa til aðgerða og árás frá Tyrklandi einu þótti ekki ráðleg.“

Þetta var fyrir 55 árum. Heimsvaldakerfi Vesturveldanna stendur enn. Mesta breytingin á áratugunum síðan er brotthvarf Sovétríkjanna. Fyrir vikið hafa vesturveldin betri tök á stöðunni en áður. Eftir er aðeins eitt risaveldi, Bandaríkin, og mikilvægustu bandamenn þess í þessu samhengi eru Ísrael og samherjarnir í NATO, ESB-veldin. Leppríkjum og fylgiríkjum Vesturveldanna í Miðausturlöndum hefur fjölgað. Á hinn bóginn varð bylting í Íran 1979 og landið hefur síðan styrkt stöðu sína, efnahagslega og hernaðarlega, og hindrar full vestræn völd á svæðinu.

En nútíma hliðstæður við árið 1957 eru ríkulegar: Sem stendur heyja Bandaríkin og Ísrael leynilegt stríð gegn Íran með aðferðum leyniþjónustu, tölvuárásum, leynilegum áhlaupasveitum, ómönnuðum flugvélum, njósnurum, ögrunaraðgerðum, hryðjuverkum og spellvirkjum. Flest af því mikilvægasta gerist bak við tjöldin. Skýrslan um aðgerðaáætlun í Sýrlandi forðum komst í heimspressuna fyrir hreina tilviljun (og heimspressunni fannst hún ekki áhugaverð). Auðvitað kunna heimsvaldasinnar, eins og 1957, að nýta sér staðbundin vandamál og misklíð (m.a. trúardeilur) og vopna andófshópa til að hámarka öngþveiti. Verið er að búa til átyllu til NATO-innrásar, „mannúðarílutunar“. Samvinna Bandaríkjanna og Breta er áfram órofa. ESB leggur svo á olíuviðskiptabann. Þar við bætist að alveg eins og 1957 er það meginatriði í herstjórnarlist heimsvaldasinna að beita fyrir sig nágrönnum þessara ríkja og láta svo aðgerðirnar líta út sem „stuðning við heimamenn“. Þessu hlutverki gegnir Arababandalagið nú í aðgerðunum gegn Sýrlandi. Vitið þér enn eða hvað? spurði völvan.