Landið undir dönsku valdi. Íslandskort frá 1590
Síðastliðið haust sendi Axel Kristinsson frá sér bókina Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands.
Á bókarkápu stendur: „Um hríð hafa flestir Íslendingar trúað því að
miðbikið í sögu þeirra á árnýöld sé tími hnignunar, eymdar og volæðis...
Hér eru færð rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og
niðurlægingartímabil sé pólitísk goðsögn – mýta – sem var búin til í
sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og þjónaði þörfum hennar með því að mála
erlend yfirráð sem dekkstum litum.“
Í formála segir: „Þetta er deilurit fremur en eiginleg sagnfræðileg rannsókn og er ætlað að vekja umræðu og efasemdir, einkum meðal almennings.“ Axel er prýðsivel ritfær, stíll hans raunar alþýðlegur, hann þekkir fræðasviðið vel og skapar því breitt yfirlit. Sumum helstu niðurstöðum hans er ég þó alveg ósammála. Þessi ritdómur hér er innlegg í þessa „umræðu meðal almennings“, mætti kalla hann „deiluritdóm“ um „deilurit“.
Í formála segir: „Þetta er deilurit fremur en eiginleg sagnfræðileg rannsókn og er ætlað að vekja umræðu og efasemdir, einkum meðal almennings.“ Axel er prýðsivel ritfær, stíll hans raunar alþýðlegur, hann þekkir fræðasviðið vel og skapar því breitt yfirlit. Sumum helstu niðurstöðum hans er ég þó alveg ósammála. Þessi ritdómur hér er innlegg í þessa „umræðu meðal almennings“, mætti kalla hann „deiluritdóm“ um „deilurit“.
Nokkrum kenningum um hnignun hafnað
Nokkrar kenningar eru til um orsakir hnignunar. Axel hafnar þeim öllum (misharkalega), einfaldlega af því hann telur enga hnignun hafa átt sér stað. Langmest púður fer í að hafna kenningunni um stöðnun og hnignun landsins á árnýöld (sérstaklega á 17. og 18. öld) vegna erlendra yfirráða, viðhorf sem verið hefur fastur hluti af sjálfsmynd Íslendinga í meira en öld (sjá síðar).
Reyndar byrjar Axel á að fjalla um nýlega og öfgakennda útgáfu hnignunarkenningar: Að Ísland hafi fyrir aldamótin 1900 verið eitt fátækasta eða jafnvel „fátækasta land í Evrópu“. Sú útgáfa hefur talsvert verið notuð af stjórnmálamönnum og bloggurum eftir 2000 og hvað mest var hún viðhöfð á útrásarárunum fyrir hrun. Axel rekur notkun þessarar klisju í stórum stíl til afbökunar fólks á orðum Guðmundar Jónssonar, sérfræðings í hagsögu, sem komst að eftirfarandi niðurstöðu árið 1999 í bókinni Hagvöxtur og iðnvæðing: „Þjóðhagsreikningar sýna ótvírætt að Ísland var eitt fátækasta land Vestur-Evrópu á seinni hluta 19. aldar...“ Hér miðar Guðmundur Jónsson við landsframleiðslu á mann. Axel andmælir ekkert þessari niðurstöðu Guðmundar en bendir réttilega á að í þessu efni sé reginmunur á „Vestur-Evrópu“ og „Evrópu“. Hins vegar slær svo Axel nokkrum sinnum fram í bókinni því gagnstæða við niðurstöðu Guðmundar og segir: „Við höfum áður séð (í 1. Kafla) að miðað við landsframleiðslu á mann var Ísland alls ekki fátækt land á síðari hluta 19. aldar...“ (bls. 108).
Ein orsakakenningin er sú sem skýrir stöðnun/hnignun með hömlum á verslunar- og atvinnufrelsi. Áður kenndu sagnfræðingar einkum danska valdinu um það, en á seinni árum hefur orðið algengt að kenna um íhaldssemi í bændasamfélaginu sem hamlaði gegn þróun útgerðar og borgaralegra atvinnuhátta. Axel kallar þessa kenningu „frjálshyggjukenninguna“ og hafnar henni að miklu leyti.
Önnur vinsæl kenning segir að þjóðin hafi ofnýtt og rányrkjað landið, að landið á sínu lága þróunarstigi atvinnuhátta hafi ekki borið meira en 50.000 manns, þá verið fullsetið, og hafi það valdið landeyðingu ef mannfjöldinn fór hærra. Þessar tvær orsakakenningar (atvinnuhömlur, rányrkja) eiga það sammerkt að telja að íhaldssamir búskapar- og samfélagshættir hafi leitt til hnignunar. Í samfloti við Árna Daníel Júlíusson hafnar Axel því alveg að landbúnaðurinn hafi ekki getað brauðfætt fleira fólk og færir fyrir því ýmis sterk rök. Hann álítur að búandlýðurinn hafi einfaldlega framleitt eins mikið og hann hafði þörf fyrir en ekki meira, þar til búskapur fyrir markað tók sig upp á 19. öld. Og Árni Daníel hefur vissulega náð að sá efa um goðsöguna af stöðnun landbúnaðarins.
Eyjaáhrifin
Í stað þessara kenninga setur Axel fram aðra. Um mannfjöldaþróun sem afgerandi og sjálfstæðan orsakaþátt. Stöðnunina í mannfjöldaþróun á Íslandi í margar aldir telur Axel að rekja megi til drepsótta og þess sem hann kallar „eyjaáhrifin“ í munstri og virkni smitsjúkdóma: að sóttir komi sjaldnar í eyjar en geysi því skæðar þegar þær koma. Þetta hafi valdið mannfæð á Íslandi og síðan telur hann mannfæðina vera helstu skýringuna á hægri efnahagsþróun. Þar við bættist sterk staða bænda sem unnu gegn því að of margir fengju að stofna heimili. Og samanlagt: „Margt af því sem telja má til sérkenna Íslands og hefur gjarnan verið bent á sem hnignun er í raun ekkert annað en afleiðing af mannfæð tímabilsins“ (133).