Monday, January 23, 2017

Trúir Obama á Rússalekann?

(birt á fésbók SHA 21. jan 2017)

Obama herti refsiaðerðirnar gegn Rússum í desember og fullyrti þá að „á grundvelli samhljóða leyniþjónustumats báru Rússarnir ábyrgð á að hakka sig inn hjá DNC (landsnefnd Demókrataflokksins)... upplýsingarnar komust í hendur Wikileaks“. Engar slíkar sannanir hafa þó verið lagðar fram, og fyrrverandi CIA-sérfræðingur Ray McGovern tekur hér fyrir yfirlýsingu Obama frá 18. jan þar sem forsetinn viðurkennir að út frá því efni sem leyniþjónustan situr með sé „ekki hægt að álykta“ hvort Wikileaks hafi fengið efnið frá Rússum. Og í yfirlýsingunni talar Obama líka um „leka“ ekki „hakk“. Og þar með er grunnurinn fyrir ákærunni gegn Rússum (og þar með gegn Donald Trump) dottin dauð. Þó mun meginstraumspressan varla láta málið niður falla. Sjá hér.

Þegar Obama kallar það "leka" hefur það þýðingu þar sem það er í samræmi við staðfastar fullyrðingar Julian Assange frá byrjun að þetta hafi verið innri leki og komi ekki frá Rússum (Obama vill kannski samvisku sinnar vegna ekki að síðasta orð hans í málinu sé lygi). En CIA og valdaelítan ákváðu að búa til mál um árás frá Pútin sem vildi koma að "sínum manni", Trump. Tilgangurinn: að grafa undan Trump strax við innsetningu. Kvennagöngurnar "Women´s March on Washington" gætu verið efni í bandaríska"litabyltingu". Frá sjónarhóli valdaelítunnar eru glæpir Trumps þó ekki karlrembutaktarnir alræmdu. Reginglæpur hans er að tala eins og hann ætli að aflýsa stríðsundirbúningnum við Rússa. Hann hefur líka sagt að það sé ekkert að marka CIA sem hafi logið vísvitandi um gjöreyðingavopn Iraka. Slíkt tal verðandi forseta verður ekki fyrirgefið.

Thursday, January 19, 2017

Árið 2016 – ósigur hnattvæðingarinnar


(birt á heimasíða Alþýðufylkingarinnar 19. jan 2017)

Árið 2016 var merkisár, ár sviptinga í heimsmálum. Það var árið þegar vestræna
hnattvæðingareimreiðin – undir stjórn USA – tók að hósta alvarlega og missa ferð. Tvö mestu regináföllin sem hnattvæðingarstefnan varð fyrir á árinu voru Brexit í Bretlandi og kosning Donalds Trump í Ameríku. Á hernaðarsviðinu urðu atburðir sem draga í sömu átt.

„Hnattvæðingin“, hástig heimsvaldasinnaðs kapítalisma, er fyrirkomulag auðhringanna til að leggja undir sig markaði, auðlindir og atvinnulíf á heimsvísu. Stefna hnattvæðingarelítunnar var og er að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði auðhringanna. „Hnattvæðingu“ má lýsa sem hnattrænni kapítalískri verkaskiptingu á afar háu stigi, með sem frjálsast flæði fjármagnsins um lönd og álfur, ekki síst „útvistun“ iðnaðar í gróðaskyni til lágkostnaðarlanda en þar sem hönnun, vörumerki yfirstjórn og vald situr eftir sem áður á Vesturlöndum (aðallega) og sér um að gróðinn flæði í rétta átt. Takmarkanir landamæra eru eitur í beinum auðhringanna, og öll sjálfsákvörðun (minni) ríkja er eitur í beinum hnattvæðingarsinna.

Hnattvæðingin brast á af auknum þunga eftir fall Austurblokkar um 1990: GATT-viðræðurnar sem juku frelsi fjármagnsins og fóru fram í „lotum“, stofnun Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO), tilkoma NAFTA, þróun ESB með „frelsun“ markaðsaflanna og miðstýrðs fjármálavalds á kostnað sjálfsákvörðunar aðildarríkja – sálin í ESB, „fjórfrelsið“, er raunar kjarninn í reglum hnattvæðingarinnar, þá landfræðileg útþensla ESB í austur – og loks samningagerðin um TISA og TTIP.

Nýfrjálshyggjumenn og markaðskratar túlka þessa þróun sem efnahagslegt lögmál. Og jafnvel í augum andstæðinga þróunarinnar hefur skriðþungi þessarar eimreiðar verið eins og ósigrandi afl. „Lögmál“ er þetta þó ekki heldur birtist þarna fyrst og fremst sókn auðsins og markaðsaflanna en undanhald verkalýðs og alþýðu – undanhald sósíalisma/félagshyggju og þjóðlegrar sjálfsákvörðunar fyrir því sem kalla má alþjóðahyggju auðmagnsins.

Ekki breiðist hnattvæðingin einfaldlega um heiminn eins og sigrandi hugsun eða andans stormsveipur. Bandaríkin hafa með önnur Vesturlönd í eftirdragi leitast við að treysta ytri skilyrði hennar og hindra framrás keppinauta með valdi, hernaðarinnrásum, viðskiptaþvingunum og valdaskiptaaðgerðum – með sérstaka áherslu á Miðausturlönd og yfirráða- og áhrifasvæði gömlu Sovétríkjanna. Thomas Friedman, sem skrifar vikulega um alþjóðamál, efnahagsmál og hnattvæðingu í New York Times, segir:
„Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem hannaði F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“