Showing posts with label elíta. Show all posts
Showing posts with label elíta. Show all posts

Monday, December 30, 2019

Brexit og breyttar átakalínur í stéttabaráttunni

(birtist á Neistar.is 29. des 2019)


Bresku kosningarnar 12. desember snérust um Brexit og niðurstaðan speglaði stéttalínur. Alveg eins og Brexitatkvæðagreiðslan 2016 gerði það, þótt margur tregðaðist við að sjá það þá. Nú blasir þetta við, breskur verkalýður öskrar það svo skýrt að ekki verður misskilið. Verkalýðurinn segist tilbúinn að búa við stéttaróvin sinn Boris Johnson næstu fjögur árin til þess eins að reyna að tryggja að staðið verði við það Brexit sem hann valdi 2016.

Atkvæðagreiðslan 2016 opinberaði mikla gjá á milli valdakerfisins og kjósenda. Ekki bara hafði almenningur á móti sér stjórnmálastéttina, fjármála- og bankavaldið og alla voldugustu fjölmiðla landsins auk ESB-elítunnar heldur líka NATO, Obama forseta og leiðtogafund G7 ríkjanna. Auk þess opinberaði atkvæðagreiðslan regingjá á milli London annars vegar og ensku landsbyggðarinnar hins vegar. Á ensku landsbyggðinni kaus 55-60% útgöngu en 40-45% að vera áfram í ESB. Í London kaus 40% útgöngu en 60% vildi vera kyrr. Sjá hér.

Kosningarnar núna staðfestu þessa útkomu á sinn hátt. Aðalkjörorð útgöngusinna 2016 var „Vote leave – take back control!“. Sem sagt krafan um að taka löggjöfina aftur inn í landið. Og verkalýðurinn vildi störf sín til baka, störf sem hafa horfið fyrir tilstilli þeirrar efnahagslegu frjálshyggju og hnattvæðingarstefnu sem flutt hefur iðnaðarstörfin yfir á láglaunasvæði. Samkvæmt því stóðu átökin milli sigurvegara og tapara í hnattvæðingunni. Fylgjendur ESB og fjórfrelsinsins segja hins vegar að átökin séu fyrst og fremst með og móti „kynþáttahyggju“ eða „þjóðernishyggju“. Sótsvartur almúginn hafi verið afvegaleiddur og þurfi því að kjósa aftur. Þess vegna var krafa Brexitsinna núna krafa sem Boris Johnson tók upp af pólitískum hyggindum: „Get it done!“


Útreið Labour
Nú í desember tapaði Verkamannaflokkurinn víðast hvar stórt, ekki síst á sterku verkalýðssvæðunum í Norður-Englandi og Midlands þar sem hann hefur haft áskrift að meirihlutafylgi allt frá flokksstofnun, svæði sem oft er talað um sem „Rauða múrinn“ (Red Wall). Labour hafði þvælt málið og Brexitstefnu sína í 3½ ár. Fyrst í þá veru að England skyldi vera áfram á innri markaðnum (hugmynd um EES-lausn) og síðan – þegar Teresu May gekk ekkert að semja við ESB – að endurtaka þyrfti Brexit atkvæðagreiðsluna. Þar með settist flokkurinn á ækið með bresku stjórnmálastéttinni og London-elítunni sem jafn lengi hefur þæft málið og reynt á sinn hrokafulla hátt að kollvarpa lýðræðislegri ákvörðun frá 2016. Öskur verkalýðsins núna þýddi: Hættið að þæfa málið! Hlustið á okkur! Sjá nánar.

Útkoman árið 2016 var alveg skýr og afdráttarlaus, með sögulega hárri kosningaþátttöku (72%, alveg óvenjulegt í ESB-samhengi) og átti að vera bindandi. Formaður Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, er a.m.k. hálfvolgur Brexit-sinni sjálfur, en hann fór fyrir flokki sem lengi hefur verið kyrfilega ESB-sinnaður, NATO-sinnaður og inngróinn í markaðsfrelsi evrópumarkaðarins, hina frjálshyggjulegu hnattvæðingu og flest það sem verkalýðurinn hafnaði 2016. Hin loðnu viðbrögð og afstöðuleysi flokksforustunnar við útkomunni upplifðust því sem svik.

Mistök Corbyns voru auðvitað, í ljósi úrslitanna 2016, að virða ekki þá lýðræðislegu niðurstöðu sem fyrir lá og bjóða ekki síðan upp á útgönguprógram á forsendum verkalýðs og alþýðu. Með því að sleppa því lagði Corbyn allt Brexit eins og það lagði sig í hendurnar á refnum Boris Johnson, sem fékk fyrir vikið ótal „atkvæði að láni“.

Það blasir við að Verkamannaflokkurinn er ekki í tengslum við sína gömlu stéttarlegu umbjóðendur. Hann er orðinn miðstéttarflokkur, gegnsýrður af ESB-hagsmunum og viðhorfum hnattvæðingarelítu í London. Það breytir því ekki þótt flokkurinn hafi undir Corbyn haldi á loft ýmsum gömlum vinstri gildum og barist fyrir ýmsum þarflegum stefnumálum. Það breytir ekki heldur mati kjósenda þótt Boris Johnson hafi í kosningabaráttunni lofað ýmsum félagslegum umbótum sem hann er manna ólíklegastur til að efna. Hvernig og hvenær aðskilnaður stéttar og flokks verkamanna varð í Bretlandi er auðvitað lengri saga, talsvert lengri en nemur þessu 3½ ári, eins og enn mun sagt verða.

Niðurstaðan kosninganna speglar stéttarlínur sem áður segir. Í Bretlandi hafa stéttastjórnmál löngum verið skýr og línur hreinar, verkafólk kaus Labour og eignamenn og millistétt kusu Tories. En átökin um Brexit segja mikla sögu um nýjar í átakalínur stéttabaráttunni.

Hliðstæðar átakalínur birtast í Frakklandi í hreyfingu Gulu vestanna sem hefur nú mótmælt á götum borga og bæja um hverja helgi, einkum í minni og dreifðari borgum og bæjum Frakklands í á annað ár að mestu óháð hefðbundinni verkalýðshreyfingu og vinstri flokkum. Kröfur Gulvestunga eru m.a. gegn niðurskurðarstefnu, hækkun lágmarkslauna, bætt þjónusta á landsbyggðinni, aukið beint lýðræði gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur, gegn ESB-aðild.

Ég ætla nú að leyfa mér að vitna í þrjá höfunda sem komið hafa með áhugaverðar greiningar á einmitt „hinum nýju átakalínum stéttabaráttunnar“ í Bretlandi og Evrópu.


Almenn hnignun sósíaldemókrata
Athyglisverð grein eftir Jack Rasmus birtist á Global Research 18. desember sl. Hann stingur því vissulega ekki undir stól að úrslitin séu sigur fyrir þjóðernishyggju, enska jafnt sem skoska, og skrifar: „Í Bretlandi, líkt og í Bandaríkjunum, Evrópu og annars staðar, hefur auðvaldskerfið augljóslega gengið inn í tímabil „þjóðernislegs andsvars“ við minnkandi vaxtarhorfum alþjóðlegs kapítalisma. Þjóðernisstefna er andsvar við þeim samdrætti.“

Rasmus dvelur samt ekki lengi við þetta atriði til að skýra úrslitin í Bretlandi, en heldur áfram:

„Annað langtíma sögulegt hreyfiafl er hér líka að verki... Það er hnignun og hrun hefðbundinna sósíaldemókrataflokka. Sú hnignun er að hluta til vegna áratuga vondrar stjórnar af hálfu krataforustu sem hefur staðið með nýfrjálshyggjustefnu atvinnurekendaflokka í eigin löndum... Þegar verst lætur hefur þessi samvinna sósíaldemókrata við auðvaldssinnaða „andstæðinga“ sína síðustu 40 ár þýtt viðsnúinn fjöldainnflutning, þ.e.a.s. útflutning tugmilljóna af störfum iðnverkalýðs frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Evrópu og Japan til nýmarkaðslanda... Heilar kynslóðir verkalýðs í Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópu – sem nú eru skikkaðar í hlutastörf, skammtímastörf, ótrygg störf lítilla þjónustufyrirtækja og laus verkefni, án reynslu af að tilheyra stéttarfélögum – finna ekki lengur fyrir neinum skyldleika við hefðbundna sósíaldemókrataflokka... Sósíaldemókrataforingjar hafa á síðustu áratugum tekið þátt í, og haft umsjón með, eyðileggingu á eigin samtökum og fyrrverandi grunni undir eigin fylgi. Um leið og þeir leyfðu tortímingu eigin iðnverkalýðsstéttar þá fylgdi visnun og brotthvarf stéttarfélaga sem skipulagt stuðningsafl í kosningum.“

Greining Jack Rasmus segir heilmikið um stéttarlegt eðli hnattvæðingarinnar, hvernig hún er algjörlega á forsendum auðmagnsins og grefur kerfisbundið undan skipulegri og hefðbundinni verkalýðsbaráttu.


Tvöföld elíta
Franski þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty sló í gegn með bókinni Capital in the Twenty-First Century frá 2014. Í fyrra lagði Piketty fram aðra greiningu sem ennþá er miklu minna umtöluð og hefur ekki fengið þá dreifingu sem hún á skilið. Titillinn er Brahmin Left vs Merchant Right. Þar gerir hann mikla úttekt á kjörfylgi flokka í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á tímabilinu 1948-2017, og sýnir fram á ákveðna eðlisbreytingu sem orðið hefur á hefðbundinni skiptingu í vinstri og hægri: „Hnattvæðing og hækkað menntunarstig hefur skapað nýja vídd ójafnaðar og átaka og leitt til þess að fyrri bandalög byggð á stéttum og tekjuskiptingu hafa veikst og ný tvískipting hefur þróast...“ Piketty skrifar um „‘tilkomu fjölelítu flokkakerfis’; algera endurskipan flokkakerfisins út frá tvískiptingu á milli ‘hnattvæðingarsinna’ (hámenntun, hátekjur) og ‘heimalninga’ (lágmenntun, lágtekjur).“

[Nánari útfærsla Piketty á breytilegri tvískiptingu:] „Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar var stuðningur við „vinstri sinnaða“ (sósíalíska og sósíaldemókratíska) flokka í kosningum tengdur minni menntun og lágtekjuhópum. Þetta svarar til þess sem kalla má stéttbundið flokkakerfi: lágstséttakjósendur skilgreindir út frá mismunandi þáttum (lágmenntun, láglaunum o.s.frv.) hafa tilhneigingu til að kjósa sama flokk eða bandalag á meðan yfirstétta- og millistéttakjósendur út frá mismunandi þáttum hafa tilhneigingu til að kjósa hinn flokkinn eða bandalagið.

Frá og með áttunda áratug hafa „vinstri“ atkvæðin smám saman tengst einkum kjósendum með hærri menntun. Það er ástæða þess að ég kýs að kalla flokkakerfið á fyrsta og öðrum áratug 21. aldar „fjölelítu flokkakerfi“. Hámenntaelítan kýs nú „vinstri“ en hátekju- og stóreignaelítur kjósa ennþá „hægri“ (vissulega minna en áður).“

Menntaelítuna kallar Piketty „brahmína“ og vísar þar til hæstu stéttarinnar af fjórum innan hindúismans. Brahmínar eru þar prestar og fræðimenn. Samkvæmt þessu er menntaelítan orðin að prestastétt hnattvæðingarinnar, og vinstri flokkarnir orðnir að flokkum þessarar stéttar. Piketty notar enn fremur tilkomu þessarar tvöföldu elítu (kaupsýsluelítu og menntaelítu) til að skýra vöxt nýrra popúlískra flokka, og ekki síst færslu á verkalýðsfylgi sósíaldemókrata yfir til þeirra. Sjá hér.

Að þessu sögðu má ekk gleyma að hægripopúlistar hafa gegnt verulegu hlutverki í Bretlandi þar sem popúlískur UKIP-flokkur Nigel Farage var meginafl á bak við sigur Brexitsinna 2016 og Brexitflokkur sama Farage var sigurvegari kosninganna til Evrópuþingsins í maí í vor, en í kosningunum í desember dró hann framboð sitt tilbaka í flestum kjördæmum, studdi þar Íhaldsflokkinn og að kosningum loknum lýsti hann yfir sigri í „stríðinu um Brexit“.


Frakkland – metrópóll og jaðar
Víkjum sögunni til Frakklands. Franskur landafræðingur, Christopher Guilluy, vakti mikla athygli 2014 með bókinni La France périphérique, Jaðarsvæði Frakklands. Hún sýnir hvernig verkalýður Frakklands lifir að mestu utan stærstu borganna og er utangarðs í efnahags-, menningar- og stjórnmálalífi. Hins vegar situr hnattvædd stórborgarelíta í París og örfáum stórborgum (líkt og í London og New York). Nokkru eftir útkomu bókarinnar hefur hreyfing „Gulvestunga“ sýnt að elítan hefur slaka stjórnartauma á þessum umrædda lýð, sérstaklega í minni og dreifðari bæjum Frakklands. Guilluy útlistar greiningu sína frekar í Twilight of the Elites: Prosperity and the Future of France (2019).

Vefritið  spiked  birti viðtal við Guilluy sl. vor og hann ræðir þar niðurstöður sínar. Grípum niður í viðtalið:
„Tæknilega séð virkar hnattvædda efnahagslíkanið vel. Það gefur mikinn auð. En það hefur enga þörf fyrir meirihluta íbúanna til að það virki. Það hefur ekki raunverulega þörf fyrir verkafólk sem vinnur líkamlega vinnu eða annað verkafólk eða sjálfstæða smáatvinnurekendur utan við stærstu bæina, París skapar nægan auð fyrir Frakkland og London gerir það sama fyrir Bretland. En það er ekki hægt að byggja samfélag kringum þetta. Gulvestungar eru uppreisn vinnandi stéttanna á þeim stöðum.
Það er fólk í vinnu en á mjög lágum launum... Sumt er mjög fátækt og atvinnulaust. Sumt var eitt sinn millistétt. Það sem það á sameiginlegt er að þar sem það býr er varla neina vinnu að hafa. Það veit að þótt það hafi vinnu í dag getur það misst hana á morgun og þá ekki fengið aðra.“

Spurður um menningarlegt gildi Gulvestunga svarar Guilluy: „Ekki bara farnast fólki jaðarsvæðanna illa í efnahagskerfi nútímans, það er menningarlega misskilið af elítunni. Hreyfing Gulvestunga er sönn 21. aldar hreyfing að því leyti að hún er menningarleg ekki síður en pólitísk. Menningarleg staðfesting er afar mikilvæg á okkar tímum.

Eitt einkenni á hinni menningarlegu gjá er að flestar nútímalegar framsæknar hreyfingar og mótmæli nú um stundir eru aðlöguð hinum frægu, leikurunum, fjölmiðlunum og menntafólki. En enginn þessara aðila viðurkennir Gulvestunga. Tilkoma Gulvestunga hefur valdið andlegu áfalli hjá ráðandi menningaröflum. Það er sama áfall og breska elítan upplifði með Brexit-atkvæðagreiðslunni og sem þau eru enn í þremur árum síðar. Brexit-kosningin hafði mikið með menningu að gera, fjallaði um fleira en að yfirgefa ESB. Margir kjósendur vildu minna stjórnmálastéttina á tilveru sína. Til þess nota Frakkar gul vesti – til að segja að við erum til. Við sjáum það sama í popúlískum uppreisnum vítt um heim.

Við höfum nýja tegund borgarastéttar... Ekki bara hagnast hún gríðarlega á hnattvædda hagkerfinu en hún hefur einnig framleitt ríkjandi menningarlegt hugarfar sem útilokar verkalýðinn. Hugsið bara um þá „ömurlegu“ (deplorables) sem Hillary Clinton kallaði fram. Svipað er viðhorfið til verkalýðsstéttarinnar í Frakklandi og Bretlandi.“ Sjá hér.

Margar afleiðingar af Brexit
Við munum sjá margs konar afleiðingar af Brexit. Ein afleiðing verður vísast styrking á ensk-amerískri blokk, í aukinni andstöðu við ESB undir þýsk-franskri stjórn þar sem Austur-Evrópa teymist illa til aukins samruna. En kannski verða þó áhrifin meiri inn á við, á stéttabaráttuna. Þær þrjár greiningar sem hér hafa verið lítillega raktar (frá Rasmus, Piketty og Guilluy) hjálpa til að setja Brexit-kosningarnar í Bretlandi í samhengi og gefa innsýn í komandi stéttabaráttu með breyttum átakalínum.

Friday, April 26, 2019

Gelding stjórnmálanna og tvískipt elíta

(birtist á Neistar.is 24. apríl 2019)

                                         
                                                 Stjórnmálastéttin er sú starfsstétt sem hér er til umræðu

Í orkupökkunum er fjórfrelsi ESB innleitt í íslenska orkugeirann og þær reglur ýta til hliðar íslenskri orkulöggjöf. Í lögum sem afnema frystiskyldu á hráu kjöti er fjórfrelsið líka innleitt og ýtir til hliðar íslenskum fyrirvörum og íslenskri matvælalöggjöf. Íslenska stjórnmálastéttin er sameinuð um þetta að undanateknum Miðflokknum (og Flokki fólksins í orkupakkamáli). Í utanríkismálum undafarin ár hefur íslenska stjórnmálastéttin verið algerlega sameinuð í einni blokk: í refsiaðgerðum BNA og ESB gegn Rússum, flugskeytaárásum BNA & co á Damaskus, NATO-æfingunni Trident Juncture á Íslandi í haust, stuðningi við valdaránstilraun í Venesúela. Og fjölmiðlarnir: Í öllum þessum framantöldu málum og málaflokkum eru hinir ráðandi fjölmiðlar í landinu sameinaðir þessari í sömu fylkingu. Engin hjáróma rödd heyrist.

Það kostar sitt að vera stofuhæfur

Hlutskipti VG er hér umhugsunarefni. Ekki bara er flokkurinn formlega and-NATO og andsnúinn ESB-aðild. Miðað við alla ímynd VG fyrir nokkrum árum hefði talist óhugsandi að flokkurinn styddi nokkurt þessara mála. En alla þessa úlfalda hefur VG gleypt. Það var verðið sem flokkurinn þurfti að greiða til að geta talist stjórntækur og hæfur í „betri stofu“ stjórnmálanna.

Það hefur yfirleitt einkennt þessi framantöldu mál að þau hafa farið gegnum Alþingi nokkurn veginn sjálfkrafa og umræðulítið. Það á við um öll framantalin utanríkismál, þau fóru þegjandi í gegn. Þriðji orkupakkinn er að því leyti undantekning þar sem Miðflokkurinn og Flokkur fólksins veita mótspyrnu og eru enda óðara stimplaðir sem þjóðernispopúlistar, en það er einmitt einkunn sem skilgreinir fólk út úr „betri stofunni“.

Hvað er „betri stofan“? Hún er sá hugmyndalegi og pólitíski rammi sem leyfður er nú um stundir í íslenska valdakerfinu. Í efnahagsmálum markast ramminn af alþjóðavæddri frjálshyggju. Hafni menn þeim ramma, þeirri grundvallarforsendu, verða þeir utangarðsmenn, til hægri eða vinstri. Í alþjóðamálum er ramminn einfaldur: skilyrðislaus stuðningur við stefnu og aðgerðir NATO (stefnu sem stjórnað er frá Washington). Það skiptir engu máli hvort flokkarnir skilgreina sig til hægri eða vinstri eða hvort þeir styðja formlega tilveru NATO eða ekki.

Geldingin – valdaafsal stjórnmálanna

Við erum vitni að geldingu stjórnmálanna. Hún felst í því að nokkrir afgerandi málaflokkar eru teknir út fyrir sviga. Stjórnmálastéttin stendur í fyrsta lagi sameinuð um nokkur aðalatriði, og er sameinuð í því að taka þau „út fyrir sviga“, úr umræðunni. Í öðru lagi er hún sammála um að rífast heiftarlega um aukaatriðin.

Efnahagslega þungvægasta atriðið sem sameinast er um á þennan hátt eru reglur alþjóðavæddrar frjálshyggju. Þórlindur Kjartansson skrifar 12. apríl í Fréttablaðið greinina „Hvernig gat þetta gerst?“ Hann ræðst gegn þeim sem hafna vilja Þriðja orkupakkanum. Þetta séu „uppivöðsluseggir“ í ætt við Trump, þetta sé „afturhald“ og „andstaða við frjálsa verslun, alþjóðlega samvinnu og mannréttindi“ og þeir stefni á „upplausn“.

Þessu svaraði Gunnar Smári Egilsson samdægurs á fésbók Sósíalistaflokksins: „Það vantar eitt mikilvægt atriði í þessa greiningu á upplausn samfélagsins í kjölfar tímabils nýfrjálshyggjunnar, sem því miður virðist vera stjórnmálastefna og tímabil sem Þórlindur vísar til sem uppbyggingar frjálsra viðskipta, alþjóðlegs samstarfs og mannréttinda. Hið rétta er að undir slíkum slagorðum og yfirvarpi hafa völdin verið færð frá hinum pólitíska vettvangi út á hinn svokallaða markað á liðnum fjórum áratugum, færð frá vettvangi þar sem hver maður hefur eitt atkvæði yfir á vettvang þar sem hver króna hefur eitt atkvæði. Á þessum tímabili voru stjórnmálin skræld að innan allri merkingu og inntaki, eitt megin einkenni þessa tíma var sannfæring um að stjórnmálin væru ekki lausnin heldur vandinn, hinn svo kallaði markaður var bæði lausnin, leiðin og markmiðið. Það sem Þórlindur kallar frjáls viðskipti, alþjóðlegt samstarf og mannréttindi varð í reynd að markaðsvæðingu allra geira samfélagsins, alþjóðavæðingu sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja en braut niður réttindi launafólks og dró úr völdum hins lýðræðislega vettvangs...“

Þetta sem Gunnar Smári nefnir „valdaafsal hins lýðræðislega vettvangs til hins svokallaða markaðar“ er nokkurn veginn það sama og ég nefni geldingu stjórnmálanna. Það er þetta sem meira en nokkuð annað hefur holað innan lýðræðið á seinni árum. Gunnar Smári bendir á að þetta „valdaafsal“ sé tvíþætt: „markaðsvæðing allra geira samfélagsins“ og „alþjóðavæðing sem þjónaði hagsmunum alþjóðlegra fyrirtækja“. Frjálshyggjan og alþjóðavæðingin (hnattvæðingin) eru tvö ferli en þau ferli eru þó kyrfilega samofin. Í Evrópu fer alþjóðavæðingin helst fram þannig að skrifræðið í Brussel yfirtekur stjórn mála frá þjóðþingum álfunnar, í einum málaflokki af öðrum. Orkupakkarnir eru gott dæmi um það. Orkan er markaðsvædd, gerð að vöru á markaði hæstbjóðenda (aðrir málaflokkar skrifræðisvæðingar ESB eru t.d. fjármálaregluverk, fjármálaeftirlit, persónuvernd, innflytjendastefna, vinnumarkaðsmál, reglur um útboð verkefna, matvælalöggjöf).

Frá u.þ.b. 1990 (fall Sovétsins) hefur hnattvæðing kapítalismans stormað fram og hnattvæðingarhyggjan verið ríkjandi hugmyndafræði á heimsvísu. Auðvaldið í sóknarham. Opna skyldi lönd og álfur fyrir auðhringana: með stofnun NAFTA, Maastrichtsamkomulagi ESB, Úrúgvælotu GATT, stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar (WTO), TISA, TTIP; allt eru þetta verkfæri hnattvæðingar, hafa það meginhlutverk að tryggja frjálst flæði fjármagnins og takmarka sem mest möguleika þjóðríkja og þjóðþinga til að stjórna eigin efnahagsmálum. Kjarni og eðli hnattvæðingarhyggjunnar er efnahagsleg nýfrjálshyggja. En búningur og yfirskriftir hennar eru „alþjóðleg samvinna“, „viðskiptafrelsi“, „lýðræði“. Og markaðskratar hafa búið til sinn sérstaka „sósíalíska“ búning utan á sömu efnahagsstefnu.

ESB fékk núverandi form og nafn 1993 (í Maastricht), byggt utan um innri markað fjórfrelsisins. Það er kjarni þessa sambands. Samtímis var EES búið til sem forgarður þess og aðilum EES-samningsins gert að taka einhliða við megninu af lögum og tilskipunum Framkvæmdanefndarinnar í Brussel og undirgangast sama fjórfrelsi – með undanþágum varðandi sjávarútveg og landbúnað fyrir þá sem ekki voru tilbúnir til fullrar inngöngu strax.

Og ESB gekk skrefi lengra. Sambandið setti sér stjórnarskrá árið 2004. Það var fyrsta stjórnarskrá í heimi sem mælti fyrir um ákveðna efnahagspólitík – hvað annað en frjálshyggjuna, fjórfrelsið?! Þessi stjórnarskrá var að vísu felld af Hollendingum og Frökkum í þjóðaratkvæðagreiðslu. En þá var hún, eða 95% hennar, bara lögð fram aftur og löggilduð (þjóðaratkvæðagreiðslu sleppt!) en ekki kölluð stjórnarskrá heldur sáttmáli, Lissabonsáttmálinn. Og gegnum EES-samning gildir hann á Íslandi líka. Sem sagt markaðsvæðing og skrifræðisvæðing ESB er ekki sitt hvað, það er tvíeitt fyrirbæri. En stefnan er negld föst af skrifræðisbákninu og ekki á valdi kjósenda að breyta henni.

Íslenska stjórnmálastéttin hefur (nokkurn veginn heil og óskipt) gengist inn á grundvallarforsendur hnattvæddrar frjálshyggju, stefnu NATO í alþjóðamálum o.s.frv. Málpípur valdsins, eins og t.d. Þórlindur Kjartansson, búa svo til nýjar grundvallarandstæður í stjórnmálum í staðinn fyrir stéttaandstæðurnar: andstæðurnar á milli „framsækni“ og „afturhalds“, eftir því hvort menn styðja hið markaðsfrjálslynda „frjálsa flæði“ milli landa og svæða eða ekki. En í þessum grundvallarandstæðum er hefðbundið hægri (t.d. Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn) og hefðbundið vinstri (Samfylking og VG) saman í liði, fylgjandi „frelsi og fjölmenningu“ en hitt liðið kallast þá „þjóðernissinnar“, „ostopafullur minnihluti“, „uppivöðslusesggir“, „afturhald“, enda skal umræðan um „fjórfrelsið“ tekin út úr „betri stofunni“ og helst „út fyrir sviga“ stjórnmálanna.

Kerfisflokkarnir eru sem sagt orðnir að einni samsteypu í stóru málunum eins og efnahagsstjórn, og í öllum utanríkismálum. En auðvitað verður að fela þessa miklu samtöðu. Þess vegna verða flokkarnir fyrir kosningar að gera sem allra mest úr því sem á milli ber (þó það séu í raun aukaatriði) svo að kjósendur fái á tilfinninguna að þeir ráði einhverju um þá stjórnarstefnu sem verður ofan á.

Piketty um brahmínvinstri og markaðshægri

Franski þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty sló í gegn á heimsvísu með bókinni Capital in the Twenty-First Century frá 2014 (rannsóknir sem Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson kynntu og nýttu sér í bókinni Ójöfnuður á Íslandi). Í fyrra lagði Piketty fram aðra greiningu sem ennþá er miklu minna umtöluð, hefur enda ekki enn fengið mikla dreifingu, sem hún á þó skilið. Titillinn er Brahmin Left vs Merchant Right. Þar gerir hann mikla úttekt á kjörfylgi flokka í Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á tímabilinu 1948-2017, og sýnir fram á ákveðna eðlisbreytingu sem orðið hefur á hefðbundinni skiptingu í vinstri og hægri. Piketty skrifar í inngangi:

„Hnattvæðing og hækkað menntunarstig hefur skapað nýja vídd ójafnaðar og átaka og leitt til þess að fyrri bandalög byggð á stéttum og tekjuskiptingu hafa veikst og ný tvískipting hefur þróast“... [og áfram skrifar hann] „Á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar var stuðningur við „vinstri sinnaða“ (sósíalíska og sósíaldemókratíska) flokka í kosningum tengdur minni menntun og lágtekjuhópum. Þetta svarar til þess sem kalla má stéttbundið flokkakerfi: lágstséttakjósendur skilgreindir út frá mismunandi þáttum (lágmenntun, láglaunum o.s.frv.) hafa tilhneigingu til að kjósa sama flokk eða bandalag á meðan yfirstétta- og millistéttakjósendur út frá mismunandi þáttum hafa tilhneigingu til að kjósa hinn flokkinn eða bandalagið.
Frá og með áttunda áratug hafa „vinstri“ atkvæðin smám saman tengst einkum kjósendum með hærri menntun. Það er ástæða þess að ég kýs að kalla flokkakerfið á fyrsta og öðrum áratug 21. aldar „fjölelítu flokkakerfi“. Hámenntaelítan kýs nú „vinstri“ en hátekju- og stóreignaelítur kjósa ennþá „hægri“ (vissulega minna en áður). Þ.e.a.s. að „vinstri“ hefur orðið flokkur menntaelítunnar (brahmína) en „hægri“ má skoða sem flokk kaupsýsluelítunnar (markaðshægri). Ég sýni fram á að sama umbreyting hefur orðið í Frakklandi, Bandaríkjunum og í Bretlandi þrátt fyrir margs konar ólíkindi í flokkakerfum og stjórnmálasögu þessara landa.“

„Brahmínar“ sem Piketty talar hér um vísar til hæstu stéttarinnar af fjórum innan hindúismans. Brahmínar eru prestar og fræðimenn. Samkvæmt því er menntaelítan orðin að prestastétt hnattvæðingarinnar og nýtur á ýmsan hátt molanna sem falla af hennar borði. Brahmínarnir hafa yfirtekið hefðbundnu vinstriflokkana sem jafnframt hafa yfirgefið hina gömlu stéttapólitík. Verkalýðsstéttin hins vegar hefur fallið niður á milli stóla og er á flestan máta tapari markaðsvæðingar og hnattvæðingar, finnst hún vera svikin og leitar eitthvert annað. Það er skiljanlegt: Ef flokkur snýr baki við stéttinni snýr hún óhjákvæmilega baki við honum líka.

Rannsókn Piketty nær líka yfir hraðan vöxt popúlismans á síðari árum: „Að því er ég best veit er rannsókn mín sú fyrsta sem tengir vöxt „popúlismans“ við það sem kalla má „elítu-þróun“, þ.e.a.s. stigvaxandi þróun „fjölelítu“-flokkakerfis þar sem hvort hinna tveggja ráðandi bandalaga sem skiptast á að hafa völdin endurspeglar viðhorf og hagsmuni sinnar elítu (menntaelítu eða kaupsýsluelítu).“

Þessi greining á popúlisma er í dágóðum samhljómi við það sem þessi skriffinni hér hefur áður skrifað um fyrirbærið. Sjá hér. Elítugreining Piketty virkar skarpleg og sannfærandi fyrir Ísland líka. Hún hjálpar manni við að skilja stéttbundinn (og hrokafullan) málflutning til stuðnings Þriðja orkupakkanum. Hún setur líka í upplýsandi samhengi dvínandi fjöldafylgi sósíaldemókrata (Evrópu) og ekki síst færslu á verkalýðsfylgi margra þeirra yfir til nýrra popúlískra flokka.