Showing posts with label alræðishyggja. Show all posts
Showing posts with label alræðishyggja. Show all posts

Tuesday, April 26, 2022

Hvaða stríð er háð í Úkraínu? Athugasemd til Jóns Trausta Reynissonar

 (birtist í Stundinni (netútgáfu) 22. apríl 2022)

Ég hef skrifað nokkrar greinar um Úkraínu í ritið Neista. Þær vöktu meiri athygli og meiri viðbrögð en ég á að venjast, en verra var að ég tók ekki eftir viðbrögðunum. Mér var um síðir bent á heilar tvær langar greinar á Stundinni sem báðum var beint gegn þessum skrifum mínum. Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri Stundarinnar hafði 11. mars skrifað greinina Kominn tími til að opna augun, og Stefán Snævarr skrifaði greinina Úkraína og Þórarinn Hjartarson 21. mars. Báðar birtust þær reyndar aðeins á vefútgáfu Stundarinnar og fóru því auðveldlega framhjá manni. Ég hlýt að þakka þessa athygli. Þó seint væri fór ég að pára svolítið svar og ætlaði að svara báðum í einu en það fór svo að svar við fyrri greininni varð nóg í bili.

Það sem okkur Jóni Trausta ber á milli um Úkraínustríðið er um hvers konar stríð þar er að ræða. Það eru fleiri en við tveir sem metum það misjafnlega. Jón Trausti metur ágreininginn um skilgreiningu stríðsins svo: Annars vegar standa „tilteknir vinstri menn“ (Þórarinn meðal þeirra). „Þannig líta þessir tilteknu vinstri menn ekki á uppgang einræðisherra sem helstu ógnina við heiminn, og það sem meira er, líta svo á að heimsmálin hverfist nánast eingöngu um valdatafl stórvelda.“ Jón Trausti sjálfur greinir þetta stríð hins vegar svona: „Lýð­ræð­is­ríki standa frammi fyr­ir banda­lagi ein­ræð­is- og al­ræð­is­ríkj­anna Rúss­lands og Kína sem snýst um að skapa oln­boga­rými fyr­ir of­beldi.“

Tvöfalt eðli Úkraínustríðsins

Þarna ber mikið á milli, ekki samt að öllu leyti. Við Jón Trausti erum sammála um að fleira hangi á spýtunni en staða og örlög Úkraínu. Að hluta til snýst stríðið um árás stórveldis á miklu minna og veikara land. Það er illt og við erum ekki ósammála um að fordæma það. Rússland er árásaraðilinn, og þar með hefur Úkraína fullan rétt á að verja sig, líka með vopnum (hversu skynsamlegt það er er önnur saga).

Mín skoðun er að skilgreining stríðsins endi ekki þar. Stríðið á sér aðra vídd, og það er einnig háð á öðru og hærra plani. Og það er á því plani eða þeirri vídd sem einmitt má kalla „valdatafl stórvelda“, eða það sem á útlensku nefnist „geópólitík“. Hið geópólitíska stríð er á milli Bandaríkjanna/NATO og Rússlands. Í Úkraínu birtast þau átök sem staðgengilsstríð þar sem Bandaríkin/NATO nota Úkraínu sem sinn staðgengil gegn Rússlandi. Í þeirri vídd stríðsins er það ekki Rússland heldur Bandaríkin/NATO sem sækja á sem árásraðili. Þessi vídd stríðsins er ráðandi. Hún hefur víðtækari áhrif og er líka miklu hættulegri fyrir heimsfriðinn en sú fyrrnefnda – þó hún fái miklu minna kastljós í fréttaflutingi – og hún verður meira ráðandi eftir því sem Bandaríkin/NATO blandast meira og beinna inn. Þetta gefur Úkraínustríðinu tvöfalt eðli.

Stríðsflokkurinn í Bandaríkjunum (sem ræður þar för) eygir þann möguleika að þetta staðgengilsstríð verði (sjálfstæðu) Rússlandi að falli. Í þeirri von reyna Bandaríkin að hindra pólitísk-diplómatíska lausn stríðsins og vona að það dragist sem mest á langinn (jafnvel til „hins síðasta Úkraínumanns“). Það síðasta sem þau óska sér er sættir við Rússland. Fyrir Bandaríkin skiptir fullveldi Úkraínu engu máli, það er Rússland sem er málið.

En málið er líka stærra en Rússland. Í hinni geópólitísku vídd takast nú á tvær stórar blokkir á heimsvísu, sem kalla má „Vesturblokk“ gegn „Austurblokk“. Um það virðumst við Jón Trausti raunar vera sammála. En þegar Jón Trausti skilgreinir þetta sem baráttu „lýðræðisríkjanna“ gegn „banda­lagi ein­ræð­is- og al­ræð­is­ríkj­anna“ hætti ég að vera sammála honum og tel þá skilgreiningu gagnslitla og ranga. Barnalega má kalla hana.

Að mati Jóns Trausta stafar nútímanum mest hætta af sókn alræðis. Alræðið skilur hann sem nánast samheiti við einræði, með fullkomna samþjöppun valds (m.a. upplýsingavalds) í hendur einvalda. Alræðið segir hann birtast fyrst og fremst í mynd Rússlands og Kína og styrkingu þeirra. Jón Trausti er stuðningsmaður þenslu NATO í austur af því að það „eina sem bjargar nágrannaríkjunum frá hreinni valdbeitingu Pútíns er NATO“. Hann styður líka meiri efnahagsþvinganir og efnahagsstríð gegn Rússlandi, ekki minni. Skipting heimsins í „viðskiptablokkir einræðis- og lýðræðisríkja“ sé líka „líklegasta niðurstaðan“ í Úkraínudeilunni enda sé nú þegar kominn upp „vísir að nýju járntjaldi“. Hann er alla vega ekki í vafa um hvar í fylkingu hann skipar sér. Ógn nútímans er alræðið í austrinu (hann ræðir t.d. útþenslu NATO í austur aldrei sem vandamál eða hættu fyrir neinn). Hann gefur hinni hernaðarlegu og efnahagslegu baráttu gegn þessari ógn sinn fulla stuðning.

Vestrænu stríðin

Það einkennir skrif Jóns Trausta Reynissonar að hann virðist skilja hernað Vestursins/NATO-velda nokkra síðustu áratugi eins og hinir vestrænu stríðsaðilar skilgreina hann sjálfir. Og hann ber þau stríð saman við stríðsrekstur Rússa sem beinist gegn lýðræði. „Innrásir Rússa, ólíkt stríðum sem Bandaríkin og bandalagsríki hafa átt aðild að, hafa gjarnan beinst gegn sjálfræði nágrannaríkja og lýðræðisumbótum.“ Jón Trausti tæpir síðan á nokkrum helstu styrjöldum Vestursins síðustu 30 árin – og hann kaupir og sporðrennir retorík Vestursins þar um: að stríðin hafi snúst um „gildi“, baráttu lýðræðis gegn einræðiskúgun.

Jón Trausti viðurkennir fúslega að misvel hafi gengið fyrir Bandaríkin & co að ná markmiðum sínum í stríðum undangenginna áratuga – það náðist ekki að koma lýðræði á í Kosovo, Afghanistan, Írak eða Líbíu – en það stóð til, stríðin voru vel meint! Og Joe Biden hefur „fram að þessu horft meira til þess að viðhalda alþjóðalögum“.

Friday, November 26, 2021

Bólusetningarskylda og lögregluríki

(Birtist á Neistum 26. nóvember 2021)

 



Um allan heim eru átök og spenna sem virðast vaxa með hverjum deginum. Opinbert tilefni átakanna nú er deilan um mismunun óbólusettra með lögum, lögum sem innleidd hafa verið í ýmsum löndum, og skref verið tekin í þá átt í næstu nágrannalöndum okkar (Noregi, Svíþjóð). Þar er um að ræða innanríkisvegabréf, víða nefnt «grænn passi» eða „kórónupassi“, bólusetningarskilríki sem sett eru sem skilyrði fyrir borgaralegum réttindum. Við nánari athugun sést að deilan snýst um nokkrar meginreglur réttarríkis, og um lýðræðið.

Á Íslandi hefur sóttvarnarlæknir fengið að leggja línuna undanfarin misseri, í kerfi sem kalla mætti «sóttvarnarríki» frekar en réttarríki. Núna telur hann «ekki faglegar forsendur fyrir að mismuna bólusettum og óbólusettum að svo stöddu» skv. visir.is 17 nóv. Þórólfur gefur samt hugmyndinni um mismunun undir fótinn, að veita þeim sem fengið hafa örvunarskammt «réttindi umfram aðra» ef sá skammtur reynist vel. Undir þetta hafa einhverjir ráðherrar tekið, og sóttvarnargúrú Kári Stefánsson líka. Svo varla boðar það gott um framhaldið.

Innanríkisvegabréf – hvað þýðir það?

Opinská mismunun milli þegnanna er nu innleidd í einu landinu af öðru. Um er að ræða mestu frelsisskerðingar á borgara í hinum vestræna heimi á friðartímum. Öfgakennd dæmi eru Ástralía, Austurríki, Lettland, Rússland, Kanada. Aðferðin er að útiloka óbólusetta í áföngum frá samfélaginu og gera þeim lífið óbærilegt. Vitnisburður um það er t.d. þetta neyðarkall frá Ástralíu, þar sem stórnvöld ganga lengst: https://www.youtube.com/watch?v=3cI0Q5UgFFU&t=177s

Í flestum löndum er áróðurinn fyrir bólusetningu (nefndur «upplýsing») ákafur og linnulaus. Það dugar samt ekki til þess að allir hlýði. Í Austurríki er þriðjungur enn óbólusettur, hlutfallið er litlu minna í Bandaríkjunum, í ESB-borginni Brussel nærri helmingur. En ef fullnusta á skyldubólusetningu og áróðurinn dugar ekki er ekki annað eftir en valdboð og þvingun gegn stórum minnihluta þegnanna. Réttarríkið og lögregluríkið vega salt, og þróunin stefnir að því síðarnefnda. Í einu landi af öðru.

Mismunun af þessu tagi minnir illilega á aðskilnaðarkerfið sem ríkti í Suður-Afríku. Þar var innanríkisvegabréf miðlægt atriði til að sundurgreina borgarana m.t.t. kynþáttar. Gyðingastjarnan í Þýskalandi var einnig vel þekkt merki til sundurgreiningar þegnanna. Innanríkisvegabréf voru líka miðlægt atriði í stjórnarháttum nasista bæði í Þýskalandi og herteknum löndum Heimsstyrjaldarinnar síðari. En að lokinni þeirri styrjöld var eftirfarandi grein sett inn í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna nýstofnaðra (sjöunda grein): «Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar.»

Frá lokunarstefnu til bólusetningarskyldu

Frá upphafi faraldurs hefur sóttvarnarstefnan verið miðstýrð frá WHO sem orðið er verkfæri lyfjaauðvalsins. Fjórir stærstu kostunaraðilar samtakanna eru USA, Bretland, Bill & Melinda Gates Foundation og GAVI Alliance, en stærsti kostunaraðili síðasttalda er aftur á móti Bill & Melinda Gates Foundation (sjá t.d. hér: https://hemali.no/siste/professor-astrid-stuckelberger-en-pandemi-av-logner/).