Showing posts with label VG. Show all posts
Showing posts with label VG. Show all posts

Tuesday, May 14, 2019

Þjóðin mín er skynsöm

(birt á Neistar.is 12. maí 2019)

Það er sama þótt 98% af fréttaflutningi sem á okkur dynur segi að við eigum að styðja orkupakkann þá er almenningur honum andvígur. Fréttablaðið 7. maí og RÚV 10. maí sýndu svipaða afstöðu, 50% aðspurðra – rúmlega 60% þeirra sem taka afstöðu – segja nei. Aðeins kringum 30% aðspurðra segja já. Nei-hlutfallið enn hærra hjá kjósendum stjórnarflokkanna. Sjá nánar á vef fréttablaðsins.
Sjá nánar a vef rúv.

Alþingismenn upp til hópa, allir nema þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins, segja okkur að leiða beri pakkann í lög. Þeir ætla bersýnilega ekkert að sinna þjóðarviljanum í þessu máli. Katrín ræðir málið við norsku Ernu Solberg og pöntuð er sameiginileg yfirlýsing með EFTA-ríkjunum tveimur um að pakkinn skerði ekki fullveldi þeirra. Norska þingið samþykkti einmitt pakkann í fyrra í grófu trássi við vilja þjóðarinnar.

Allir sérfræðingarnir sem RÚV og Fréttablaðið vitna í, allir, segja að pakkinn hafi lágmarksáhrif, en afar brýnt sé að samþykkja hann. Svo er pantaður úrskurður frá forseta EFTA-dómstólsins. „Synjun þriðja orkupakkans stefnir aðild Íslendinga að EES í tvísýnu“, segir hann. Og bætir við: „Eftir öll þessi ár erum við í þeirri stöðu að við getum gert ráð fyrir að ESB verði hart í horn að taka, einnig í ljósi þess að orka skiptir svo miklu fyrir ESB.“ En hótanir breyta engu. Meirihlutinn er á móti.

Það sýnir að almenningur á Íslandi er skynsamur. Dregur sínar eigin ályktanir. Yfirlýstur tilgangur orkumálastefnu ESB, eins og hún birtist í orkupökkunum, er samtenging orkukerfanna á svæði ESB/EES: „Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri.“ Fólk er varfærið. Það hugsar sem svo: Ef þetta er innleitt í íslensk lög skuldbindur Ísland sig til að vinna að einmitt þessu markmiði. Þetta gefur bæði innlendu og yfirþjóðlegu auðmagni og evrópsku skrifræði viðspyrnu og tök og tæki sem það hafði ekki áður til að koma slíku í kring. Annar yfirlýstur tilgangur laganna er uppbrot orkufyrirtækja og markaðsvæðing þeirra – og um leið opnun á einkavæðingu. Almenningur hefur handfast neikvætt dæmi tengt fyrri orkupökkum: HS orku. Fólk er varfærið – og það er skynsamlegt.

Almenningur efast um að íslenskir fyrirvarar haldi. Hann þekkir ný dæmi úr matvælalöggjöfinni. Íslenskir fyrirvarar dæmdir ólöglegir. Að áliti ESB trompa ESB-lög lög einstakra ríkja. Í aðildarviðræðum Jóhönnustjórnarinnar við ESB hafði Alþingi gert fyrirvara um yfirráð Íslands yfir sjávarútvegsmálum sem samræmdist ekki viðmiði ESB. Þess vegan var aldrei hægt að opna sjávarútvegskaflann í viðræðunum og þær sigldu í strand. Ekki er traustvekjandi að lögleiða orkupakka og gá seinna hvort hann samræmist stjórnarskrá, fyrst þegar möguleg samtenging kemur til framkvæmda. Það er öfugsnúið. Almenningur telur að þá verði erfitt að taka ákvörðunina til baka. Auðvelt inngöngu, erfitt útgöngu eins og allt í ESB. Þegar ESB-lög eru samþykkt verða þau ekki dregin til baka.

Almenningur vill félagslega eign og félagslegan rekstur á auðlindum (og grunnþjónustu), það hefur víða og oft komið fram. Almenningur er líka fullvedissinnaður og vill að mál séu ákvörðuð hér heima, ekki í fjarlægu embættiskerfi. Pakkasölumenn vita þetta. Þess vegna segja þeir: málið snýst ekkert um fullveldi, það snýst ekkert um markaðsvæðingu. Það snýst um alþjóðasamvinnu, neytendavernd, aukna samkeppni og lýðræði. En fólkið hugsar sitt.

Þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty skiptir elítunni á Vesturlöndum í viðskiptaelítu (styður hægri flokka) og menningarelítu (styður stóru vinstri flokkana). Það eru hinar nýju hnattvæðingalínur. Meira um það hér. Í orkupakkamálinu snúa þessar tvær elítur bökum saman. En alþýðan er síst hrifnari fyrir vikið og snýr baki við báðum. Almenningur samþykkir með því það álit Pikettys að þetta sé bara tvískipt elíta – sem hann ber enga lotningu fyrir.

Friday, April 5, 2019

Niður með orkupakkann!

(birtist á Neistar.is 3. apríl 2019)
                              

Tillaga utanríkisráðherra og ríkisstjórnar er að heimila Alþingi „að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara“ við innleiðingu 3 orkupakkans í EES-samninginn. Ef þjóðþing allra EFTA-landanna samþykkja verður pakkin að lögum á EES-svæðinu og þar með Íslandi.

Stuðningsmenn pakkans, m.a. ráðherrar Sjálfstæðisflokks og VG, flytja málið þannig að annars vegar hafi pakkinn „engin áhrif á Íslandi“ og hins vegar að höfnun hans setji „EES-samninginn í uppnám“.
„Það yrðu stórtíðindi í íslenskri pólitík ef þriðji orkupakkinn yrði felldur vegna þess að það gæti sett EES-samninginn í uppnám. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.“ (RÚV 14.11.2018)

Viðskiptablaðið skrifar 1. apríl: „Pakkinn er mikið hagsmunamál fyrir Norðmenn... Stuðningsmenn pakkans í norska Stórþinginu telja að það væri hálfgert skemmdarverk ef Íslendingar – sem hafa engra hagsmuna að gæta í þessu máli – færu að hafna pakkanum.“ („Mikil óvissa ef Alþingi segir nei“)

Markaðsvæðing – orkan sem vara

Þriðji pakkinn fjallar um verslun með orku: Orka á að vera vara sem á að fljóta frjálst á innri markaði ESB/EES. Öll ákvæði EES-samningsins um frjálsa flæðið – „sál ESB“, fjórfrelsið – munu taka gildi fyrir raforkugeirann (sem og jarðgas), strax við samþykkt Alþingis á Pakkanum, ekki við lagningu mögulegs sæstrengs. Þriðji markaðspakkinn felur í sér markaðsvæðingu. Um það er ekkert deilt. „Orkupakkarnir voru ekkert annað en markaðspakkar, og sá þriðji er það líka“, sagði orkumálaráðherrann Þórdís Kolbrún Gylfadóttir um daginn á ársfundi Landsvirkjunar (Mbl. 28.febr.).

Dæmi: Umrædd markaðsvæðing leiðir af sér bann við hvers konar niðurgreiðslu orku og pólitískri stjórnun orkumála, svo sem út frá umhverfisáherslum (orkuskipti í samgöngum), lýðheilsu, matvælaöryggi o.s.frv. Markaðurinn skal ráða og orkan seljast hæstbjóðanda sem þýðir útilokun á aðkomu lýðræðislegra stofnana. Það er engin tilviljun að helsta andstaðan við pakkanum kemur frá samtökum bænda. Og garðyrkjubændur sjá sína sæng upp reidda í nýrri verðsamkeppni.

Sæstrengur er svo framkvæmdaratriði. Alþingi skal setja þann fyrirvara að Alþingi eigi að ákveða hvort leggja skuli streng. Hvort sem sá fyrirvari heldur gagnvart ESA eða ekki (og fyrirvarar í kjötmálunum halda greinilega ekki): Ef peningavaldið og evrópskt stofnanavald taka að kalla á sæstreng og glittir í gull, er þá Alþingi líklegt til að standa í lappirnar? (við munum ICESAVE-afgreiðslu Alþingis) Og ef strengur er lagður er fullveldi okkar í orkumálum farið.

„Orkuverð á Íslandi mun hækka gríðarlega“ við innleiðinguna, segir Jón Baldvin Hannibalsson. Styrmir Gunnarsson skrifar: „Verði orkupakkinn samþykktur hefur Evrópusambandinu verið opnuð leið til þess að ná síðar yfirráðum yfir einni af þremur helstu auðlindum okkar Íslendinga.“

Orkusamband – liður í samrunaþróun

EES-samningurinn og evrópska stofnanavaldið er nú notað sem pískur á Alþingi og þjóðina. Samþykkið pakkann eða EES-samningurinn er „í uppnámi“! Og EES-sinnar beygja sig hver af öðrum. Af hverju? Af því höfnun á orkupakkanum felur í sér höfnun á EES eins og það er nú orðið. Að fella samninginn ætti þess vegna að leiða af sér gagngert uppgjör við EES.

Þetta á ekkert að þurfa að koma á óvart. EES-samningurinn hefur forgang fram yfir þjóðlega löggjöf. EES-lög er hluti, stór hluti, af ESB-löggjöf. EES var frá upphafi hugsað sem forgarður að ESB. „Jafnræðisreglan“ í samskiptum ESB og EFTA-ríkja hefur einmitt virkað þannig að EES-samningurinn felur í sér hæga og bítandi aðlögun að ESB.
Árið 2008 fór að bera á svæðisbundnum orkuskorti innan ESB. Það flýtti fyrir því að miðstöðvar sambandsins ákváðu að koma á einu sameiginlegu orkukerfi samkvæmt svokallaðri „Kerfisþróunaráætlun“. Eins og í öðru frá Brussel er stefnan „miðstýrt frelsi“, miðstýrð markaðsvæðing, miðstýrð frjálshyggja.

Orkupakkarnir eru einn þáttur í evrópska samrunagangverkinu. ESB yfirtekur stjórn mála frá þjóðþingum aðildarríkja, í einum málaflokki af öðrum, svo sem fjármálaeftirliti, fjármálaregluverki, persónuvernd, innflytjendastefnu, vinnumarkaðsmálum, lýðheilsu, orkumálum. Það er gert á þann hátt að setja einfaldlega á stofn valdamiklar stofnanir sem lúta bara eftirliti Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel. Og í mörgum tilfellum nær vald þeirra yfir allt EES-svæðið, ekki síst ef valdsviðið snertir fjórfrelsið.

Eins slík stofnun er ACER, orkustofnun Evrópusambandsins, stofnuð 2010. Samkvæmt orkupökkunum er hún æðsta stjórnvald, setur bæði markaðsreglur og tæknilegar reglur í orkumálum. ACER tekur ákvarðanir um flutningskerfi (raforkunet) sem liggja yfir landamæri og setur yfirþjóðlegar reglur um orkuöryggi og „sameiginlega hagsmuni“ og sker úr í deilumálum meðal aðildarríkja um kostnað við sameiginlegt orkukerfi. Eitt markmið ACER er að jafna orkuverð í ESB/EES.

Þáttur VG 

Þáttur VG í málinu er raunalegur, en svo sem í samræmi við „ESB-andstöðu“ þess flokks undafarin misseri, og flokkurinn aðhyllist æ meir þá markaðskratísku hundalógík sem tengir ESB við „vinstrimennsku“. Katrín Jakobsdóttir fullyrðir bara að fyrirvarar utanríkisráðherra haldi til að tryggja „forræði íslenskra stjórnvalda“ í málinu. Hins vegar segir hún eða flokkssystkini hennar á þingi harla fátt um það hver ávinningur Íslands sé af að ganga í þetta orkusamband. Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra skrifar að ríkisstjórnin verði „að gera okkur grein fyrir því hver ávinningur okkar er“: „Hvers vegna eruð þið að þessu yfir höfuð?“ (Bændablaðið 6. Tbl. 2019)

Friday, February 15, 2019

„Valdaskiptaaðgerðir“ – Venesúela og Líbía

("Birtist á Neistar.is og Kvennablaðinu 12. febrúar 2019)
                                               Merkt við þá til "valdaskipta": Gaddafí og Madúró

Aðferðir við „valdaskiptaaðgerð“ (regime change) eru svolítið breytilegar í ólíkum löndum, en munstrið sem birtist í Venesúela er orðið mjög kunnuglegt, auðþekkjanlegt frá Stór-Miðausturlöndum. Munstrið er eftirfarandi: Efnahagslega og hernaðarlega mikilvægt ríki „gengur ekki í takt“, valdaskipti eru sett á dagskrá, hliðarríkisstjórn sett á fót og viðurkennd, efnahagslegar refsiaðgerðir, fjölmiðlaherferð byggð á mannréttinda-mælskulist og loks hernaðarárás „í mannúðarskyni“. Af breytilegum styrjöldum í Stór-Miðausturlöndum frá 2001 sýnast líkindi Venesúela við Líbíu 2011 vera einna mest, en þetta munstur birtist líka í Írak, Afganistan og Sýrlandi. Pólitískt landslag landanna er ólíkt, í Venesúela er harðvítug deila milli stétta eftir hægri/vinstri línum en Líbía skiptist meira skv. ættbálkum og trúarhópum. Samt er sama munstri fylgt.

1 HLIÐARSTJÓRN. „Valdaskiptamenn“ frá Bandaríkjunum og NATO koma sér upp hliðarríkisstjórn og leita eftir diplómatískri viðurkenningu á henni, veita henni fjárstuðning og hernaðaraðstoð. Í Líbíu hét það National Transitional Council (NTC), stofnað í Benghazi í febrúar 2011. BNA, Frakkland o.fl. gengust þá fyrir fjölþjóðlegri viðurkenningu (Ísland viðurkenndi NTC mánuði áður en Gaddafí féll). Svokölluð „Þjóðareining uppreisnarhópa í Sýrlandi“ var stofnuð í Katar í nóv. 2012 og viðurkennd m.a. af Íslandi sem „hinn lögmæti fulltrúi Sýrlands“ mánuði síðar. Í Venesúela riðu Bandaríkin á vaðið og viðurkenndu Juan Guaido sem forseta, og bandamennirnir fylgdu þeim í halarófu, þ.á.m. Ísland.

2 EFNAHAGSLEGAR REFSIAÐGERÐIR. Þær eru alltaf undanfari beinnar íhlutunar. Formlega beinast þær ýmist gegn einstaklingum eða ríkisstjórn landsins. Þeim var beitt óspart í Líbíu og í enn meiri mæli í Írak og Sýrlandi (Chile 1973 er annað dæmi). Þetta vopn bítur vel af því svo kallað „alþjóðasamfélag“ (frá 1990) er samhangandi heimsvaldakerfi undir „einpóla“ bandarískri drottnun – með bæði dómsvald og refsivald.

3 FJÖLMIÐLAHERFERÐ er sett af stað þar sem dregin er upp mynd af ríki í kaldakoli („failed state“). Í gríðarlegri fjölmiðlaorðræðu um „harðstjórn“, „mannréttindi“ og „lýðræði“ eru viðkomandi stjórnvöld „skrímslisgerð“ (demóníseruð) , jafnframt gefin mynd af almenningi í uppreisn gegn skrímslinu. Myndum sem sýna stuðning við stjórnvöld er skipulega haldið frá. Sagan er sögð í CNN, CBS, BBC og hún svo bergmáluð í þúsundum endurvarpsstöðva vítt um heiminn (RÚV er ein slík).

4 RAUNVERULEGAR ÁSTÆÐUR íhlutunar eru náskyldar og líkar. Olía er lykilorðið. Líbía er olíuauðugasta land Afríku. Venesúela er olíuauðugasta land allrar Ameríku (og heimsins). Heimsvaldasinnar leyna ekki alltaf ástæðum gerða sinna. Donald Trump var spurður um afstöðu sína til Líbíustríðsins árið 2011 (í viðtali við Kelly Ivans á Wall Street Journal): “I’m only interested in Libya if we take the oil. If we don’t take the oil, I have no interest in Libya.” Og í lok janúar sl. sagði John Bolton öryggisráðgjafi Trumps á Fox News: “Það munar miklu fyrir Bandaríkin efnahagslega ef við fáum bandarísk olíufyrirtæki til fjárfestingar og framleiðslu í olíumöguleikum Venesúela.“ Þetta eru blessunarlega bersöglir menn. Þess vegna er bágt að þau Guðlaugur Þór og Katrín skuli komast upp með að babla um „lýðræði“ í þessu samhengi. Stjórnaðist sprengjukastið á Líbíu af lýðræðisást? Fyrir Bandaríkin snýst málið auk þess um yfirráðin í heimshlutanum, Suður-Ameríku og Karíbahafi, eins og Sýrlandsstríðið snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum (eða var það lýðræði?).

5 GEGN ÞJÓÐNÝTINGARSTEFNU. Þjóðnýtingarstefnan í Líbíu er gömul. Stefna Gaddafí-stjórnarinnar, kennd við sósíalisma, fól í sér þjóðnýtingu olíunnar. Allt frá 8. áratug var þeirri stefnu mætt með ýmiss konar refsiaðgerðum BNA og Vestursins gegn Líbíu, og loks með stríði. Í Venesúela eiga olíurisarnir (t.d. Chevron, ExxonMobil og Halliburton) sér langa sögu en endurteknar þjóðnýtingar í olíuiðnaði landsins hafa dregið mjög úr gróða þeirra þar. Því fer þó fjarri að um fulla þjóðnýtingu sé að ræða í Venesúela. Landið er enn háð helsta andstæðingi sínum um olíuhreinsun og fjármál, olíuviðskiptin fara fram gegnum Texas, og olíukapítalistar Venesúela eru flestir á bandi stjórnarandstöðunnar. Nú getur Bandaríkjastjórn með refsiaðgerðum hindrað að greiðslur fyrir olíuna renni til stjórnvalda í Caracas (hún mun beina þeim til Juan Guaido). En olíurisarnir vilja auðvitað greiðara aðgengi – og „hliðarstjórnin“ lofar slíku, Independent skrifaði 5. febrúar: „Væntanleg ríkisstjórn Venesúela mun leyfa erlendum einkaolíufyrirtækjum meiri hlutdeild í sameignarrekstri með ríkisrekna olíurisanum, segir útsendari Juan Guaidos til Bandaríkjanna.“

6 OLÍUDOLLARINN SEM VOPN. Á velmektardögum sínum byggði BNA upp olíudollarakerfið. Heimsviðskipti með olíu skyldu fara fram í dollurum. Punktur! Kerfið stendur en, en er mjög ógnað. Það skapar enn endalausa eftirspurn eftir dollurum. En Gaddafí og Madúró eiga það sameiginlegt að hafa stefnt á að færa olíuviðskipti sín yfir í annan gjaldmiðil (Íran og Írak hótuðu hinu sama). Slíkri stefnu svara BNA og bandamenn þeirra jafnan með efnahagsþvingunum og – ef það nægir ekki – með stríði.

7 HERNAÐARÍHLUTUN. Eðlilega kjósa heimsvaldasinnar friðsamleg „valdaskipti“, t.d. í formi „litabyltingar“ frekar en hernaðaríhlutun. Það er ákjósanlegt fyrir auðhringana að geta gengið að olíuiðnaði Venesúela óskemmdum. En reynslan frá Miðausturlöndum sýnir að þeir víkja sér aldeilis ekki undan hernaðaríhlutun ef „nauðsyn krefur“. Innrásin er alltaf (Líbíu, Sýrlandi, Júgóslavíu, Afganistan...) dulbúin sem „mannúðaríhlutun“. Hún er nú í bígerð í Venesúela. Eftir að hafa í nokkur ár þjarmað að almenningi með refsiaðgerðum bjóða Bandaríkin nú með hinni hendinni miklar matarsendingar til Venesúela. Mike Pompeo utanríkisráðherra tísti 6. febrúar: „The Maduro regime must LET THE AID REACH THE STARVING PEOPLE.“ Þetta bragð er sótt pólitíska herfræði íhlutunarsinna, í kaflann „Uppreisn alþýðu“. Seint mundi þó RÚV láta sér detta í hug að benda á svo óviðeigandi tengingar. Í þessu efni er þó staða Madúrós ósambærileg við stöðu t.d. Assads í Sýrlandi: Madúró er djúpt inni á hernaðarlegu yfirráðasvæði óvinarins.

8 VALDASKIPTABANDALAGIÐ. Á bak við kröfuna um „valdaskipti“ í Venesúela standa BNA + ESB = NATO, studd af svæðisbundnum fylgiríkjum Bandaríkjanna, „Líma-hópnum“ svonefnda með Kólumbíu fremsta í flokki en einnig Brasilíu og Perú. Munstrið var það sama í tilfelli Líbíu. Svæðisbundnu fylgiríkin þá voru Katar og Persaflóaríkin sem sendu heri og peninga til „uppreisnarinnar“. Eftir að BNA reið á vaðið með að viðurkenna Juan Guaido 23. janúar sl. settu Þýskaland, Frakkland og Spánn fram úrslitakosti fyrir Madúró sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

9 LÖND Í RÚST. Líbía, Írak, Sýrland voru öll lönd með tiltölulega mikla velferð áður en valdaskiptaaðgerðir hófust. Eftir á standa þau stórlega miklu verr, Írak og Líbía eru brotin og mikið til í upplausn, Sýrland stóð af sér árásina en verður lengi að gróa sára sinna.

10 ÍSLAND ER MEÐ. Ísland má sín lítils en er þó alltaf tilbúið að lýsa yfir stuðningi við eyðileggjandi valdaskiptaaðgerðir húsbændanna í BNA og NATO. Þar sem aðgerðirnar gagnvart Líbíu og Venesúela eru hér sérstaklega til umræðu þá er einn stjórmálaflokkur sem á aðild að ríkisstjórnarstuðningi Íslands við þær aðgerðir báðar: VG. Og finnst sumum hart.

Thursday, October 25, 2018

Athyglin leidd afvega

(birtist á fésbók SHA 24 okt 2018)


Stefna NATO-Guðlaugs utanríkisráðherra og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í sambandi við Trident Juncture er að miklu leyti sú sama, að beina athyglinni að öðru en vígvæðingu og stríðsundirbúningi. Guðlaugur Þór þylur að vísu möntruna um að "allt breyttist 2014" (Krímskagi) en víkur svo megintalinu að "ýmsum öðrum ógnum" nefnilega hryðjuverkum og tölvuárásum. Og Katrín segir: Við í VG "áttum okkur á þeim pólitíska veruleika" að NATO-andstæðingar eru lítill minnihluti á þingi en "...við erum reiðubúin að standa bakvið þjóðaröryggisstefnu Íslands sem auðvitað fjallar um miklu meira en þessa hluti. Hún fjallar um loftslagsvá, efnahagsvá, náttúruvá og margt fleira.." RÚV fylgir sömu stefnu. Fulltrúar Trident Juncture fá vissulega drottningarvital í Kastljósi en síðan hefur umræða RÚV um heræfingarnar aðallega beinst að skógræktarmálum í Þjórsárdal. Og Stöð 2 ræddi við bandarískan ofursta um mögulega hjálp US Army vegna náttúruhamfara á Íslandi.

Monday, October 23, 2017

Hverflyndi og þagnarbindindi VG í Evrópumálum

(birtist á Neistar.is 21. okt 2017)

Umræða um ESB er algjörlega fjarverandi í kosningaefni Vinstri grænna. Hins vegar: „Alls segj­ast 51 pró­sent stuðn­ings­manna Vinstri grænna vera fylgj­andi því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir sam­tökin Já Ísland.“ (Kjarninn 16 október) Skv. sömu könnun er um 40% þjóðarinnar ESB-sinnuð en 60% andvíg. VG-kjósendur eru sem sagt orðnir mun aðildarsinnaðari en þjóðin. Þó að VG hafi enn á stefnuskrá að Ísland sé betur komið utan ESB hefur flokkurinn VG nokkrum sinnum á síðustu 4 árum ályktað um að hann vilji að Ísland taki aðildarsamningana upp að nýju og „ljúki aðildarviðræðunum“. Í ljósi þessarar stöðu og þróunar hjá VG og í ljósi þess að Samfylking og Viðreisn hafa umsókn á stefnuskrá sinni og í ljósi þessarar stöðu er hættan á að ný miðju-vinstri stjórn reyni að halda áfram aðildarumsókninni. Það sem verður okkur til happs í þessum efnum er núverandi tregða hjá ESB að opna á aðildarviðræður og frekari stækkun að sinni.

Það sem ég vil einkum benda á í þessu samhengi er: ESB-þróun VG sýnir hvað gerist með flokk sem svíkur sjálfan sig. VG fór í ríkisstjórn með Samfylkingunni 2009 og fórnaði þá ESB-stefnu sinni snarlega fyrir það samstarf (fórnaði reyndar ýmsum öðrum stefnumálum líka) og lagði inn aðildarumsók án þess að spyrja þjóðina fyrst – vísandi til „lýðræðisástar“ flokksins þar sem þjóðin skyldi fá að tjá sig um lokaniðurstöðuna! Ekki nóg með það, frá þessari stjórnarmyndun tók VG-forustan ESB-andstöðuna algjörlega af dagskrá sinnar orðræðu meðan aðildarsinnar fluttu sitt mál sem óðir væru. Hjörleifur Guttormsson þingmaður og félagi í flokknum til 2013 skrifaði seinna: „Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009 minnist ég þess ekki að Steingrímur J. sem formaður eða arftakinn Katrín Jakobsdóttir hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.“ ("Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018", Mbl. 26. október 2016)

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn.

Málið má skoða í samhengi við samfélagslega grundvöllinn undir VG: Íslenska menntaða millistéttin er ESB-sinnaðasti þjóðfélagshópur í landinu og VG hefur þróast í það að vera hreinræktaður millistéttarflokkur og nú er svo komið að hörð ESB-afstaða mun styggja gróflega rúman helming kjósendanna. Afleiðingin af þessu þagnarbindindi um eigin stefnumál er að VG-forustan, sem er líklega andsnúin ESB-aðild, situr uppi með kjósendur sem að meirihluta eru ESB-sinnar. Hún getur því í hvorugan fótinn stigið.

Velþekkt er sú klisja að það sé sóun að kjósa smáflokka sem ekki komast á þing. Hitt er raunverulegri sóun að kjósa flokka sem svíkja sjálfa sig og fylgja ekki eftir eigin málum á þingi eða í ríkisstjórn. 

Saturday, November 10, 2012

Stéttabaráttuflokkar og blóðsuguflokkar


(Birtist á Eggin.is 1. október 2012)

Nýlega voru nokkri róttæklingar norðan lands á fundi. Þar kom fram vilji til að hraða sér að stofna flokk, flokk sem gæti boðið fram í vor. Lögð voru fram nokkur stefnumál fyrir vinstri flokk, yfirleitt góð og gild umbótamál og græn mál, málin sem VG sveik og fleira í þeim dúr. Stefnumál sem fara þó ekki út fyrir ramma kapítalismans. Vésteinn Valgarðsson  segir sig úr VG og segir í úrsögninni að Ísland þurfi sósíalískan flokk. Hann útskýrir þó ekki hvað í því felst, enda greinagerðin stutt..

Ég hélt því fram á fundinum að við þyrftum ekki enn einn „vinstri“ flokkinn heldur byltingarsinnaðan flokk sem a) berst fyrir byltingu, afnámi auðvaldskerfisins (þ.e.a.s. afnámi efnahagskerfis einkaeignar á atvinnutækjunum) og b) berst jafnframt fyrir umbótum innan ríkjandi þjóðskipulags en ekki eftir leið þingpallabaráttu og stjórnarþáttöku heldur setur sér það meginverkefni að leiða og skipuleggja fólk í stéttabaráttunni.

Friedrich Engels skrifaði árið 1884 (í „Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins“) að almennur kosningaréttur gæti aðeins verið mælikvarði á pólitískan þroska verkalýðsstéttarinnar. Það er rétt hjá honum. Borgaralegt þingræði er bærilegra fyrir almenning en nakin kúgun, en þingræðið er dulargerfi, það er hula lýðræðis utan um arðrán og stéttardrottnun. Í því liggur slævandi styrkur þess.

Hugmyndin um þinræðislega leið til alþýðuvalda er blekking. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldinu – her, lögreglu, emættismannakerfi auk þjóðþings – sem er tæki stéttardrottnunar og samofið eignakerfi atvinnulífsins, en ríkið þykist standa fyrir ofan og utan stéttirnar. Þetta ríkisvald verður aldrei vald í höndum fólksins. Hins vegar býr alþýðan yfir valdi. Það er fólgið í samtakamætti, hinu samstillta átaki, hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Marx ritaði: „Einu frumskilyrði sigursins ráða verkamennirnir yfir: mannfjöldanum, en fjöldi er því aðeins afl að hann sé sameinaður í samtökum og láti stjórnast af reynslu og þekkingu. (Marx/Engels, Úrvalsrit II, 215) Alþýðuna vantar stjórnmálaafl sem setur sér þetta hlutverk: „að finna, í samfélaginu sem er umhverfis okkur, öflin sem geta – og, vegna félagslegrar stöðu sinnar, verða – að mynda það afl sem getur svipt burt því gamla og skapað það nýja, og að upplýsa og skipuleggja þessi öfl fyrir baráttuna.“ (Lenín: „Þrjár rætur og þrír þættir marxismans“, Eggin, vefrit um samfélagsmál 25. sept)

Þingpallaleiðin er blekking. Í fyrsta lagi er hún hættuleg. Ef róttækir sósíalistar gerast áhrifamiklir og ógna þjóðfélagslegu valdi og eignum borgarastéttarinnar lætur hún af lýðræðistilburðum og beitir valdi miskunnarlaust. Dæmin eru mörg og blóðug: Indónesía 1965, Grikkland 1945-46 og aftur 1967 og Chile 1973 eru nokkur.

Þar að auki er þingpallaleiðin ekki neinum umbótum til framdráttar. Raunar er besta aðferðin til að drepa hreyfingu kringum ákveðið málefni að gera málefnið að framboðsmáli til Alþingis og flokksmáli, eða beinlínis stofna kringum það flokk.

Nokkur dæmi:
1.     Vakning um kvenfrelsun og jafnréttismál. Þar var mikil hreyfing um og upp úr 1980, með miklu grasrótarstarfi. Eftir að Kvennalistinn eignaðist þingmenn yfirtók hann málefnið, gerðist hefðbundinn þingpallaflokkur, og almennar baráttukonur máttu fara heim og leggja sig. Upp á síðkastið hefur þróun til launajafnréttis mjög hægt á sér eða stöðvast, klámvæðing sótt í sig veðrið o.s.frv.

2.     Samtök um þjóðareign var öflug hreyfing byggð á andstöðu við kvótakerfið, framseljanlegan kvóta o.s.frv. Hún hafði með sér sjómenn og minni útgerðarmenn vítt um land. Árið 1998 var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður um málið. Baráttunni var veitt í þingpallafarveg. Þar með varð þessi andspyrna að flokksmáli sem varð smám saman til að drepa eða gera óvirka þá hreyfingu sem var fyrir hendi í þessu risastóra hagsmunamáli alþýðu vítt um land.

3.     Íslandshreyfingin var hreyfing gegn stóriðjustefnunni sem grasseraði á þenslutímanum upp úr 2000, og andastaðan gegn henni óx líka mjög. Hreyfingin átti sinn hápunkt þegar hún safnaði 15 000 manns í mótmælagöngu niður Laugaveg árið 2006. Þessi hreyfing og málefnið var svo gert að flokksmáli. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna sem flokk og fékk 3% í kosningum 2007. Flokkurinn komst ekki inn á þing og dó þar með. En í raun var það VG sem náði að gera andstöðu við stóriðjustefnuna að flokksmáli sínu. VG var nánast eins máls flokkur þessi ár þegar Kárahnjúkaframkvæmdir voru undirbúnar og framkvæmdar. Flokkurinn tók að sér að stöðva stóriðjustefnu og einkavæðingu í orkugeira m.m. ef hann fengi þingstyrk og kæmist í stjórn – og hann sópaði að  sér fylginu. En var að vanda gagnslaus við að skipuleggja grasrótarbaráttu. Fjöldahreyfingin lognaðist smám saman út af. Síðan fór flokkurinn í ríkisstjórn og stóriðjustefna stjórnvalda hélst lítið breytt.

4.     Í Búsáhaldabyltingunni flæddu íslensk stjórnmál og stéttaátök um stundarsakir út úr hinum löggilta, þingræðislega og snyrtilega farvegi sem valdakerfið hefur veitt þeim í. Almenningur steig fram á sviðið, fólk hegðaði sér allt öðru vísi en venjulega, fór út á götur og torg, fór í samstilltar aðgerðir. Gerði m.a.s. tilkall til valda í landinu. Grasrótarbarátta fór af stað í skuldamálum heimila, Icesave-málum m.m. Enn sem áður vantaði þó stjórnmálaafl sem gat tekið forustu og skipulagt slíka stéttabaráttu fram á við. Það voru hins vegar vinstri kratar og hentistefnumenn sem riðu á bylgjunni í bland við ýmsa aðgerðarsinna sem ekki höfðu neina sameiginlega stefnu. Stjórnmálaflokkurinn Borgarahreyfingin varð til og bauð fram til þings. VG tók Lilju Mósesdóttur í öruggt sæti og fleira búsáhaldafólk neðar. Í komandi kosningabaráttu og áfram færðist öll þungamiðja baráttunnar inn í þingið og almennt búsáhaldalið mátti fara heim og leggja sig.

Þeir þingpallaflokkar sem hér voru nefndir hafa sjálfsagt talið sig vera í andstöðu við ríkjandi kerfi. En þeir haga sér allir eins. Þeir leiða ekki andstöðuna (hvort sem það er skipuleg hreyfing eða óskipuleg ólga) heldur leggjast á hana og sjúga úr henni blóðið. Af því fitna þeir rétt á meðan viðkomandi andstaða/hreyfing er að  tærast upp. Síðan veslast þeir upp sjálfir nema þeir finni aðra andstöðu til að blóðsjúga. Svona virkar þingræðiskerfið – eins og því er ætlað að virka.

Rétt er að taka fram að VG getur ekki lengur kennt sig við kerfisandstöðu. Enginn flokkur fær að fara í ríkisstjórn nema hann ábyrgist að tryggja auðvaldinu ásættanlega arðsemi. Það hlutverk hefur VG gengist inn á. Bless VG.

Við verðum að viðurkenna að hugmyndin um grasrótarbaráttuna, það að „finna, upplýsa og skipuleggja“ mótaflið í samfélaginu stendur enn veikt á Íslandi. Jafnvel vinstri menn sitja mest og mæna á bramboltið og tilburðina á Alþingi – eins og málin ráðist þar. Þar við bætist að lítið hefur enn gerst í því að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu. Á meðan brennur Róm. Kapítalisminn sem á sínum tíma var framfaraskref frá stöðnuðu stigveldi lénskerfis hvílir nú sem ægilegt farg á herðum mannkyns og boðar fyrst og fremst eyðingu. Tíminn æpir á byltingarsinnaðan valkost, á Íslandi sem annars staðar.

Ég mæli ekki gegn þáttöku í þingkosningum. En það getur aldrei verið nema ein hlið starfsins af mörgum og alls ekki sú mikilvægasta. Mér finnst ekki liggja á að stofna flokk, því síður framboðskláran flokk. Eðlilegt milliskref er að stofna hreyfingu eða samtök sem temja sér nýjar aðferðir í pólitísku starfi, í anda þess sem hér hefur verið skrifað. Og eitt verkefni blasir við: Koma verður upp umræðuvettvangi fyrir róttæklinga varðandi það stjórnmálaafl sem beðið er eftir. Þessi grein er lítið innlegg þar í.

Hlutverk Ögmundararmsins


(Birtist á eggin.is 28.okt 2010)

Ísland er auðvaldsríki. Í slíku efnahagskerfi fylgir valdið auðnum, liggur hjá auðstéttinni. Síðustu tvo áratugi hefur það einkum safnast hjá fjármálavaldinu – innlendu sem erlendu. Ríkisvaldið þjónar þessu efnahagskerfi og ríkjandi auðsamsteypum – innlendum og erlendum. Þá breytir það litlu til eða frá hvaða flokkar skipar ríkisstjórn.

Aðgerðir núverandi vinstristjórnar eru skólabókardæmi: Einkavæðing orkufyrirtækja, ný einkavæðing banka, stóriðjustefna, afskriftir á skuldum fyrirtækja en ekki á skuldum almennings, sukki og skuldum stórauðvaldsins er velt yfir á almenning, Íslendingum sem eiga yfir 100 milljónir fjölgaði á fyrsta ári „norrænu verferðarstjórnarinnar“ og eignir þeirra jukust talsvert. Stjórnvöld telja mikilvægasta verkefnið að endurreisa fjármála- og efnahagskerfið eftir áreksturinn. Sjálfstæði Íslands gagnvart ESB og NATO minnkar.  Það er erfitt að benda á nokkurt svið þar sem venjuleg miðhægri stjórn myndi breyta stórum öðru vísi í meginmálum en þessi gerir. Hvort sem stjórnarmunstrið heitir hægri eða vinstri er ríkisvaldið fulltrúi sömu afla. Talsmáti ólíkur, framkvæmd eins.

Megintaktík auðvaldsins í núverandi kreppu er þessi: Að láta vinstrimenn framkvæma kreppuráðstafanirnar. Það á að skerða kjör almennings um ca. 20% og skera niður velferðina álíka mikið. Það gengur betur ef vinstrimenn halda á skurðarhnífnum. Best ef þeir eru verkalýðsforkólfar um leið.

Sögulegt hlutverk krata er að sveigja baráttu alþýðu í þingpallafarveginn og undir leikreglur valdakerfisins. Vinstri kratar hafa þetta sama hlutverk og þáttur þeirra verður sérstaklega mikilvægur á óróatímum. Það er alveg ljóst að það var alveg afgerandi mikilvægt fyrir íslenska auðvaldið að fá VG inn í ríkisstjórn í endurreisnarstarfið upp úr ólgu Búsáhaldabyltingar. Kosningarnar í kjölfar hennar sýndu mikla vinstrisveiflu og vinstri menn fullir bjartsýni töldu tíma breytinganna kominn. Með vinstri flokkana í stjórn er ávinningur auðvaldsins þessi: samábyrgð almennings á kreppuhrjáðu auðvaldskerfinu. Borgum skuldir einkabanka og tökum niðurskurðarskellinn í sameiningu! Við erum stödd í járnbrautarlest og það er víst ekki hægt að beygja eða breyta neinu.

Frá sama sjónarhól var það líka stóráfangi að smala köttum  Ögmundararmsins inn í réttina aftur. Þar eru þeir einhvers konar pólitískt heilbrigðisvottorð gagnvart almenningi, og um leið gíslar í herbúðum valdsins. Fyrir auðvaldið er vænlegt að fá vinstri öfl upp í stjórnkerfið til að lama grasrótarbaráttuna (þ.e.a.s. stéttabaráttu alþýðu).  Það breytir litlu sem engu um framkvæmd stjórnarstefnunnar, en eykur á lömun vinstri manna. Ríkisvaldið styrkist, mótaflið í samfélaginu veikist.

Ögmundararmurinn er fulltrúi verkalýðs- og baráttusinnaðari hluta VG. Það er óþarft að draga það í efa. Þessi „órólega deild“ var mögulega á leið að verða sjálfstætt afl  og hluti af andspyrnubaráttunni miklu, en ný innkoma Ögmundar torveldar mjög viðleitni í þá átt. Þátttaka í þessari ríkisstjórn er örugg ávísun á svik.

Samt sýnir sig að andaspyrna gegn árásum auðvaldsins er ennþá mikil meðal alþýðu, sbr nýleg mótmæli á Austurvelli. Þær aðgerðir eru vottur um aukna vitund og þátttöku almennings í stjórnmálum. Að nokkru leyti má þakka það upplýsingarbyltingunni. Slíkar aðgerðir boða sitjandi elítum ógn og óöryggi.

Enn og aftur sýnir sig að aðeins fjöldabarátta getur haft áhrif á stefnu stjórnvalda. Málflutningur Jóhönnu og Steingríms breyttist umtalsvert strax daginn eftir umrædd fjöldamótmæli. En aðgerðirnar virtust mikið til vera sjálfsprottnar, og áttu ekki upptök í hinu pólitíska vinstri. Þaðan er lítillar foustu að vænta sem stendur. Grasrótarhreyfingin enn forustulausari en hún var í Búsáhaldabyltingunni. Fyrir vikið eru stefna hennar og kjörorð óskýr.

Taktík alþýðu- og baráttusinna í kreppunni hlýtur að vera:

Skammtímastefna: Taka ekki ábyrgð á afleiðingum kreppunnar. Málið snýst ekki um að fá „betra fólk“ í endurreisnarstörf fyrir auðvaldið. Það er forgangsmál fyrir byltingarsinna að sýna að VG er enn einn fulltrúi íslenskrar borgarastéttar. Grundvallaratriði er að taka engan þátt í hinni pólitísku grautargerð í þeim flokki. Látum heldur auðvaldið ráðast fram án okkar aðstoðar, en pökkum í vörn gegn kreppuhníf og öðrum árásum. Eflum stéttabaráttuna.

Langtímastefna: Í stað þess að ganga inn á samábyrgð á kerfinu viljum við annað þjóðskipulag, sósíalisma. Lyfta verður merki sósíalismans. Við viljum afnema eignarétt auðstéttarinnar á atvinnutækjunum og berjumst fyrir samfélagslegri eign á þeim. Án slíkrar stefnumörkunar höldum við áfram að ganga um dimman dal auðvaldsins (biblíumál) og mest í hringi.

Hvernig flokk þurfum við?



(Ræða á ráðstefnu Rauðs vettvangs 11. okt. 2009, lítillega aukin og endurbætt. Birtist á eggin.is 28. okt. s. á.) 

HVERNIG FLOKK ÞURFUM VIÐ? Því verður að svara með hjálp annarrar spurningar: TIL HVERS Á AÐ BRÚKA HANN?
BRÝNASTA VERKEFNIÐ hlýtur að vera þetta: Að hjálpa íslenskri alþýðu að verja sig gegn núverandi árásum, skipuleggja vörnina, og mögulega sókn. Það er ekkert stjórnmálaafl í landinu sem gerir það svo gagn sé að.
EN TIL LENGRI TÍMA? Hvaða framtíðarsýn höfum við? Kannski vitum við það ógjörla en vitum þó að nú er rétti tíminn til að ræða einmitt það. Ég held við vitum líka hvað við viljum ekki.  Ég tel víst að flest okkar hér inni séum sammála um að við viljum ekki auðvaldið. Auðvaldið sem ræður ríkjum, vald peninganna, vald markaðarins, auðræði, altækt vald og alls staðar nálægt eins og guð.

Monday, November 5, 2012

Nokkur orð um VG


(Birtist á vefritunum eggin.is og this.is/nei 9. apr. 2009)


Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu á þingi þann 5. des. sl um lán það sem þáverandi stjórn hafði gengið frá við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Hann mælti á þessa leið:
„Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á… Ég vil láta það koma hér fram að eftir því sem við verðum í aðstöðu til að hafa áhrif á málin, þingmenn Vinstri grænna, verður það forgangsatriði af okkar hálfu á komandi misserum eða árum að reyna að borga Ísland út úr þessu prógrammi aftur. Það skal hafa algeran forgang af okkar hálfu að reyna að standa þannig að málum að við endurheimtum aftur frelsi okkar á þessu sviði eftir því sem aðstæður frekast leyfa.“
Í nefndaráliti sama dag bætti hann við:
„Með samkomulagi þessu er skrifað undir þá staðreynd að það sé í raun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem stjórni efnahagsáherslum Íslendinga á komandi árum.“
Eftir að hafa skoðað aðgerðaáætlun AGS unna í samráði við íslensk stjórnvöld mat Steingrímur það svo að í því prógrammi passaði AGS upp á „peningamennina og fjármagnið“ en ekki „almenning í landinu“, auk þess að fyrirgera fullveldi Íslendinga. Slíkt mat er líka byggt á fyrri reynslu af AGS. Sjóður sá er viðgerðar- og framkvæmdaaðili fyrir stórauðvaldið. Hann hefur alls staðar það verkefni að gera við auðvaldsmaskínuna þegar í hana koma gangtruflanir, tryggja framgang frjálshyggjulausna, sjá til þess að kreppubyrðum sé velt yfir á almenning og opna hagkerfi viðkomandi lands fyrir alþjóðlegu fjármagni. Íslenska auðvaldskerfið lenti jú í kreppu og þá kom AGS stormandi og lagði upp sitt prógramm. Skilmálar AGS eru ekki fyllilega komnir fram. Mark Flanagan segir að „þau skilyrði verða sett á næstu níu mánuðum“ (heimild: samtal hans við Árna Daníel Júlíusson og Evu Hauksdóttur í mars).