Saturday, November 10, 2012

Vestræn hernaðarstefna eftir lok kalda stríðsins


(Flutt á landsráðstefnu SHA. Birtist á eggin.is 11. des. 2009)

Hernaðarstefna sem þáttur heimsvaldastefnu

Gróðasóknin er hreyfiafl kapítalismans. Auðmagnið býr yfir útþensluhneigð og hungur þess er ekki seðjanlegt. Auðvald á heimsvaldastigi sækist eftir hámarksgróða, öllum þeim markaði og fjárfestingatækifærum sem bjóðast hvar sem er á jörðinni. Samþjöppun auðmagnseininga samfara útþensluhneigðinni leiðir svo til keppni nokkurra risavaxinna heimsvaldablokka um áhrifasvæði. Það er eðlilegt kapítalískt ástand. Sú samkeppni er órofa og viðvarandi en bandalög og samvinna milli blokkanna er hins vegar tímabundin og bundin kringumstæðum. Samkeppni heimsvelda er ekki ný í sögunni og hefur með nokkrum tilbrigðum einkennt heimsvaldasinnaðan kapítalisma a.m.k. alla 20. öld. Eitt af lögmálum kapítalismans er það að auðmagnseiningar og efnahagsblokkir þróast ójafnt – sumar sækja á meðan aðrar bakka í samkeppninni. Sérkenni ástandsins eftir lok kalda stríðsins er drottnunarstaða eins risveldis sem keppir að raunverulegum heimsyfirráðum – en efnahagslega er það hins vegar hnignandi veldi.


Heimsvaldastefnan nútímans óx upp úr nýlendustefnu 19. aldar. Þegar kom fram á 20. öld breytti hún dálítið um aðferðir í útþensluhneigð sinni: Einkum vegna frelsisbaráttu nýlendnanna neyddist heimsvaldastefnan til að hverfa frá hinni gömlu aðferð með beinni stjórnun nýlenduherra á nýlendum, nokkurs konar fjarstýringu frá Evrópu, yfir í „nýnýlendustefnu“ þar sem veðjað er á markaðsyfirburði og efnahagsleg yfirráð. Þetta hefur einnig verið nefntefnahagsleg heimsvaldastefna meðan sú gamla var einnig pólitísk og hernaðarleg. Það er þó rík ástæða til að undirstrika að formlegt sjálfstæði landa, t.d. fyrrverandi nýlendna, hindrar ekki að heimsvaldasinnar styðji þar til valda sk. „hófsöm“ og vinveitt“ stjórnvöld, þ.e.a.s. einhverja tegund af samvinnuþýðum skjólstæðingum eða leppum til að tryggja eigin markaðsstöðu og aðgang að auðlindum. Þessi nýja tegund yfirráða var ósýnilegri en gamla fjarstýringin frá Evrópu eða N-Ameríku, og líka að mörgu leyti ódýrari,  en hafði líka galla fyrir heimsvaldasinna. Gamlir þjónar geta svikið, fundið  sér nýjan húsbónda, orðið mjög óvinsælir af eigin þjóð o.s.frv. Yfirráð og hagsmunir heimsvaldasinna geta því verið ótryggari en með gamla laginu.
Eftir heimsstyrjaldirnar tvær hefur heimsvaldastefnan – svo notað sé myndmál – einkum notað tvo vængi til að halda sér á lofti: a) „yfirþjóðlegar“ stofnanir sem eiga  að tryggja sem frjálsast flæði fjármagnsis, WTO, AGS, Alþjóðabankann, Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og ennfremur svæðisbundin fríverslunabandalög eins og ESB og NAFTA. Þessar stofnanir eru fyrst og fremst tæki hinnar efnahagslegu heimsvaldastefnu. Heimsvaldasinnar stjórna umræðunni og kalla þessar stofnanir „alþjóðasamfélagið“ og „alþjóðakerfið“. Verkefni þeirra er einfalt: að brjóta niður sjálfstæði valdaminni þjóðríkja og opna hagkerfin fyrir hinum hnattrænu auðhringum. b) Hinn vængurinn er hernaðarstefnan, þ.e. hervæðing, hernaðrógnun og beiting hervalds.
Ýmsir kenningasmiðir hafa lesið hnattvæðingarþróun áranna eftir lok kalda stríðsins þannig að hin efnahagslega heimsvaldastefna hafi orðið alveg ofan á en pólitísk og hernaðarleg heimsvaldastefna alveg vikið. Sumir ganga svo langt að segja að heimsvaldastefnan hafi þannig raunverulega horfið og hlutlaust vald markaðarins, heimsmarkaðurinn sjálfur, hafi eiginlega rutt öllum heimsvaldaríkjum til hliðar. Samkvæmt því hafa átök stórvelda vikið fyrir hreinni og ómengaðri efnahagsþróun. Þekktir fulltrúar slíkrar greiningar eru höfundarnir Hardt og Negri í bókinni Empire. Ég er mjög ósammála slíkum túlkunum eins og brátt kemur fram.
Mig langar að staldra aðeins við hugtökin hernaðarstefna/hernaðarhyggja. Ég tel að hernaðarhyggja okkar daga sé hvorki líffræðilegt né menningarlegt fyrirbæri eins og stundum má skilja á ýmsum meðlimum SHA – að hún tengist karlmennsku, villidýrseðli mannsins, þröngsýni, útlendingahræðslu, leifum gamaldags hugsunar, hún sé gamaldags kaldastríðshugsun og í kalda stríðinu hafi hún einkum byggt á tortryggni og misskilningi o.s.frv. Ég veit ekki á hvaða hnetti þeir búa sem segja að hervald og hernaðarbandalög séu tímaskekkja. Þeir búa a.m.k. ekki á þessum hnetti heimsvaldastefnunnar. Hernaðarhyggja/hernaðarstefna heimsveldanna er fyrst og fremst sprottin af hlutverki sínu sem er efnahagslegt, þ.e.a.s. varðstaða um heimsvaldahagsmuni. Lenín vitnaði stundum í 19. aldar Prússann Clausewitz sem sagði: „Stríð er framhald stjórnmálanna með öðrum meðulum.“ Lenín bætti við: „Stefna sem ákveðið  ríki – ákveðin stétt innan ríkis – hefur rekið í langan tíma fyrir styrjöld er óhjákvæmilega rekin áfram af sömu stétt í styrjöldinni, en aðferðin breytist.“ (Lenin: „War and Revolution “)
Nú er það svo að hernaðarstefna heimsvaldasinna þarf alltaf að finna einhverja réttlætingu á brölti  sínu aðra en grímulausa þörf fyrir gróða og herfang. Þar sem stjórnmálayfirbygging svokallaðra lýðræðisríkja byggir á fjöldaþáttöku þarf hernaðarstefnan að skapa sér einhvers konar samþykki heima fyrir. Til að fá hermenn út í stríð og til að slá á friðarást almennings og stríðsandstöðu í eigin landi þarf að finna siðferðilega réttlætingu. Þess vegna hafa árásarstyrjaldir a.m.k. allt frá nýlendustríðum 19. aldar verið háðar í nafni siðmenningar og mannúðar. Til að búa til réttlætinguna þarf heimsvaldastefnan að koma sér upp ákjósanlegum óvinum. Nú er það svo að heimskapítalisminn er háþróaðasta arðránskerfi sögunnar og heimsvaldakerfið hvílir á heimsbyggðinni eins og mara. Það segir sig sjálft að það fyrirkomulag leiðir af sér ólgu, árekstra og andstöðu. Eðlilega er það hlutverk hinna stóru vestrænu frétta- og sjónvarpsstöðva, sem mega kallast málpípur heimsvaldastefnunnar, að leiða athyglina frá arðránskerfinu og óréttlætinu mikla og beina athyglinni í staðinn að einstökum vandræðagemsum sem séu „harðstjórar og ómenni“, og skapi ógnun við frelsi, öryggi og frið – á svipaðan hátt og Hitler tryggði þýska arðránskerfið með því að benda á gyðinga og hinn „gyðinglega bolsjevisma“ sem helstu orsök óréttlætis í samfélaginu og ógnun við öryggi þýskra þegna.
Heimsvaldastefnan þarf sína blóraböggla. Henni er afar rík þörf á þessum útvöldu óvinum til að réttlæta það að halda úti herjum sem tryggja arðránskerfið. Á tíma sósíalískra byltinga og síðan á tíma kalda stríðsins var skilgreining þessara óvina ekki mikið vandamál. Óvinurinn var kommúnisminn. Hann bauð heimsvaldasinnum, ekki síst Bandaríkjunum, upp á viðvarandi réttlætingu til að þenja vígvél sína um allan hnöttinn. Þetta forustuland heimsvaldasinna fékk jafnframt óskorað umboð annarra heimsvaldasinna til að standa með hervaldi vörð um arðránskerfið mikla, kerfið sem sem kallaði sig „vestrænt lýðræði“.
Sovétríkin breyttust að vísu með tímanum frá því að vera byltingarógn í það að vera keppinautur á vettvangi heimsvaldastefnunnar en tilvist þeirra hefti engu að síður framgang vestrænna heimsvelda. En með hruni Sovétríkjanna kringum 1990 breyttist vígstaðan mjög. Fyrir vestræna heimsvaldasinna og hernaðarstefnu skapaði það hrun fyrst og fremst nýja möguleika. En fall Sovétríkjanna bakaði þeim líka ákveðin vandkvæði. Stærsta vandamálið var að réttlæta hina hernaðarlegu nærveru um allar grundir þegar „heimsveldi hins illa“, með orðum Reagans, var úr sögunni? .

Nýir útþenslumöguleikar eftir 1990

Auðhringar og heimsvaldasinnar skynjuðu peningalykt, nú hafði skyndilega opnast aðgangur að nýjum, miklum auðlindum, nýjum mörkuðum, nýjum fjárfestingarkostum, bæði á yfirráðasvæði Sovétríkjanna og á svæðum sem áður tilheyrðu hvorugu risaveldinu. Lönd á þeim svæðum gátu áður spilað á andstæðurnar milli risaveldanna til að skapa sér ákveðið sjálfstæði og olbogarúm. Að því leyti hafði samkeppni risaveldanna verið þjóðum heims hagfelld. En með aðeins einu risaveldi var komin upp ný hernaðarleg staða og ný hnattræn valdahlutföll. Nú opnuðust nýir möguleikar vestrænna heimsvaldasinna undir forustu Bandaríkajnna til að hrammsa ný svæði án þess að baka sér hættu frá einum né neinum. Á árinu 1991, eftir fall Sovétríkjanna og sigur í Persaflóastríði, lýsti George Bush eldri yfir tilurð „nýrrar heimsskipanar“, „new world order“, og vestrænir stjórnspekingar og strategar tóku það hugtak svo upp eftir honum.
• Ári síðar, 1992, fól Dick Cheney, þáverandi varnarmálaráðherra, aðstoðarráðherra sínum, Paul Wolfowitz, að leggja upp nýja stjórnlist í öryggismálum í samræmi við nýja heimsskipan. Þar var megináhersla lögð á að hindra skyldi að mögulegur keppinautur Bandaríkjanna gæti komið fram í Evrópu eða Asíu. Tilvitnun: „Við [Bandaríkin] verðum að viðhalda því gangverki sem fælir hugsanlega keppinauta frá því að hafa uppi nein áform um veruleg svæðisbundin eða hnattræn áhrif.“ („Defense Planning Guidance“, minnisblað frá Cheney varnarmálaráðherra 1992, sjágrein í The New York Times )
• Árið 1997 skrifaði Zbigniew Brzezinski, stefnumótandi hugmyndafræðingur og samstarfsmaður m.a. bæði David Rockefellers og Jimmy Carters, bók sína The Grand Chessboard (Basic Books, 1997) og lagði fram landfræðilega hernaðaráætlun í samræmi við „new world order“. Hann skrifaði:
Fyrir Ameríku eru aðalverðlaunin Evrasía… Evrasía er stærsta meginland á hnettinum og myndar möndul alþjóðastjórnmála. Veldi sem ræður Evrasíu ræður tveimur af þremur þróuðustu og efnahagslega frjósömustu svæðum heims.“  [og enn skrifar Brzezinski:] …Í fyrsta sinn í sögunni kemur fram ekki-evrasískt veldi sem er ekki aðeins leiðandi gerðardómari um valdaskipan í Evrasíu heldur er æðsta vald á hnettinum. Ósigur og hrun Sovétríkjanna var lokaskref í hinni hröðu yfirtöku valds af hálfu vesturhvelsins með Bandaríkin sem eina, og í raun fyrsta, hnattveldið.“ (bls. 30-31 og bls. xiii)
• Þegar Clinton varð forseti 1993 mynduðu nýhægrimennirnir kringum ráðuneyti gamla Bush hugveitu sem nefndist „Verkefni fyrir nýju amerísku öldina“ (Project for the New American Century). Cheney, Wolfowitz, Donald Rumsfeld og Richard Perle voru þar áberandi nöfn. Fyrsta atriðið í stefnuskrá þeirra hljóðaði svo: „Við þurfum að stórauka útgjöldin til hermála til að uppfylla skyldur okkar í nútímanum og einnig til að tæknivæða heri okkar til framtíðar“ (sjá Wikipedia, Project for the New American Century). Á 10. áratugnum gáfu þeir út nokkrar álitsgerðir, m.a. um nauðsyn þess að skipta um ríkisstjórn í Írak og tryggja traustari ítök í Austurlöndum nær. Síðla árs 2000, nokkrum mánuðum fyrir valdatöku nýju Bushstjórnarinnar, lagði hugveita þessi fram skýrsluna Rebuilding America’s Defenses. Þar sagði að Bandaríkin yrðu að snúa frá þróun í átt til afvopnunar og treysta hernaðarlega yfirburði sína: „Að þróa og koma fyrir eldflaugavörnum til að vernda Bandaríkin og bandamenn þeirra og treysta grundvöllin undir bandarískum valdaáætlunum á heimsvísu.“  Ennfremur segir: „Bandaríkin hafa í áratugi reynt að leika stærra hlutverk í öryggismálum Persaflóans. Hin óleysta deila við Írak er vissulega réttlæting fyrir núverandi viðveru okkar þar, en þörfin á verulegum bandarískum liðstyrk við Persaflóa nær út yfir vandamálin við stjórn Saddams Hússein.“  Aðalatriðið var sem sagt ekki Saddam og kjarnorkuvopn hans heldur þörf heimsveldisins fyrir yfirráð á viðkomandi svæði. (Behind the Invasion of Iraq)

Réttlætingarvandinn eftir 1990

Þá er að nefna þau vandamál sem hrun Sovétríkjanna bakaði vestrænum heimsvaldasinnum. Þau voru einkum þessi: Hvernig átti að réttlæta alla bandarísku milljarðana til hermála, hvernig átti að réttlæta áframhaldfandi tilveru NATO o.s.frv. þegar „heimsveldi hins illa“ var úr sögunni, heimshreyfing kommúnista sömu leiðis? Colin Powell, þáverandi yfirhershöfðingi og seinna utanríkisráðherra orðaði vandamálið vel árið sem Sovétríkin hrundu, 1991, þegar hann sagði: „Think hard about it. I´m running out of demons. I´m running out of villains.“ (Hugsið vel um það. Ég er að komast í djöflaþrot. Ég hef ekki upp á fleiri skúrka að bjóða.)
Þetta útheimti nýja hernaðaráætlun og bandarískir hermála- og stjórnmálafræðingar urðu að setja saman nýjar kenningar, helst heildstæða hugmyndafræði sem svaraði til hinni nýju stöðu. Mest reið á að skilgreina óvinina og hætturnar til að geta viðhaldið líftryggingu heimsvaldakerfisins, hinu hernaðarlega valdi. Og á árunum eftir lok kalda stríðsins lögðu þessir aðilar fram nokkra mikilvæga drætti nýrrar heimsmyndar með nýjum óvinum sem grundvalla mátti nýja hernaðaráætlun á. Ég nefni hér nokkrar myndir af óvinum í hinni nýju heildarmynd:
1) Fyrsta mynd. Andstæðingurinn getur verið heil siðmenning. Við endalok kalda stríðsins bjó áhrifamikill bandarískur stjórnmálafræðingur, Samuel P. Huntington, samstarfsmaður bæði Kissingers og Carters, til hugmyndafræði um hinar nýju átakalínur, í bókinni Clash of Civilizations. Uppspretta komandi átaka, spáði hann, verður milli menningarsvæða. Næsta styrjöld, sagði hann, verður líklegast styrjöld milli siðmenninga. Íslam er aðalóvinurinn á heimsvísu og annar megináskorandi vestrænnar menningar er sú konfúsían-kínverska. Hér var gripið til gamals húsráðs, kynþáttahyggjunnar, sem reynst hefur nýlendu- og heimsvaldastefnunni vel í sögunnar rás.
2) Önnur mynd. Andstæðingurinn getur verið sk. vandræðaríki. Bandaríkin hafa alllengi notað hugtakið „rouge state“ um vandræðaríki sem þarf að einangra og ekki taka vettlingatökum. Þau eru stimpluð sem „ógnun við stöðugleika“ á sínu svæði, að þau baki jafnvel Vesturlöndum beina hættu. Það sem þessi ríki hafa venjulegast unnið til saka í raun er að vera ekki fullkomlega samvinnuþýð við heimsvaldastefnuna og enn fremur að vera á efnahagslega eða herfræðilega mikilvægum landsvæðum. George Bush yngri, sem alinn er upp í bandarískum afturhaldskristindómi, bjó árið 2002 til nýtt hugtak yfir helstu vandræðaríkin: „öxulveldi hins illa“. Í þann flokk setti hann þá ríkin Afganistan, Írak, N-Kóreu og Sýrland.
3) Þriðja mynd. Óvinirnir geta verið svífandi illvirkjar alls staðar og hvergi. Terroristar. Útnefning þeirra sem aðalóvina var snilldarbragð bandarískra stjórnmálafræðinga, herfræðinga og leyniþjónustu. Terroristinn sést ekki af því hann fer huldu höfði og dylur ætlanir sína. Í „Þjóðaröryggisáætlun Bandaríkjanna“, plaggi sem kom út 2002, segir að Bandaríkin standi frammi fyrir nýjum óvini. Tilvitnun: „skuggalegum netum einstaklinga… sem skipulögð eru til þess að þrengja sér inn í opin samfélög… Til að sigra þennan óvin verðum við að beita öllum verkfærum í okkar vopnabúri… Stríðið gegn hryðjuverkamönnum sem eru hnattrænt skipulagðir er hnattrænt verkefni af óvissri tímalengd… Bandaríkin munu grípa til aðgerða gegn ógnunum þegar þær koma í ljós – og áður en þær hafa náð fullum þroska… við [Bandaríkin] munum ekki hika við að grípa til aðgerða á eigin spýtur.“ (Behind the Invasion of Iraq )
4) Boðið er upp á fleiri óvinamyndir sem réttlæta skulu íhlutanir – ein slík er alþjóðleg eiturlyfjaverslun – en látum þetta nægja.
Myndin af hinum heppilega óvini er síðan búin til með hjálp fréttastofa, leyniþjónustu, undirróðurs og diplómatískra klækja. Innrás Saddams Hússein í Kuwait 1990 kom eins og sending af himnum. Saddam var síðan málaður sem skrímsli sitjandi á miklum gjöreyðingarvopnabúrum og sú mynd síðan hugvitssamlega notuð til tveggja innrása í Írak og íhlutunar sk. „alþjóðasamfélags“ í málefni Mið-Austurlanda. Net vestrænna fréttastofa er mikil heilaþvottamaskína sem stundar miðstýrðan sannleiksiðnað. (Margt bendir til að Saddam hafi verið leiddur í gildru, en það mun ég ekki ræða hér.)
Skrímslið Saddam var kannski ekki búið til úr eintómu lofti. Hvarvetna í veröldinni þar sem stórveldin ota sínum tota eru undirliggjandi deilumál/spenna/átök. Fyrir heimsvaldasinna snýst málið um að blanda sér í slík átök og hagnýta sér, tengja við sig þá staðbundnu gerendur sem helst geta orðið þeim að gagni gegn þeim aðilum sem eru þeim síst þóknanlegir. Einstaklingar og samtök sem beita hryðjuverkum hafa einnig lengi verið til, einkum á átakasvæðum eða þar sem pólitísk kúgun er mikil. Hryðjuverkastefna getur tjáð raunverulega andspyrnu, en afturhaldsöfl og leyniþjónusta hafa lengi kunnað hagnýta sér hryðjuverk og jafnvel ýta undir þau til að réttlæta harkalega undirokun allrar andstöðu. Nægir að nefna níhilistana í Rússlandi á 19. öld og Rauðu herdeildirnar á Ítalíu á 8. áratugnum í þessu sambandi. Ekki síður hafa heimsvaldasinnar lengi kunnað að hagnýta sér hryðjuverkastarfsemi sem tilefni til íhlutunar á svæðum sem þeir ásælast. Skotið fræga í Sarajevó er eitt vel kunnugt dæmi, hryðjuverk í Líbanon eða á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínu sömuleiðis. En þegar kom fram um árþúsundaskiptin 2000 virðast heimsvaldasinnar hafa farið að veðja mikið á hryðjuverkaspilið í veraldarpókernum.

No comments:

Post a Comment