Saturday, November 10, 2012

Veldið stefnir á heimsyfirráð

(Birtist á Gagnauga.is 21. mars 2012)


Það má kalla hana Veldið, heimsvaldablokkina miklu sem sameinast hernaðarlega í NATO. Þetta er gamla risaveldið, USA, með nánustu bandamönnum sínum. Mikilvægasti bandamaðurinn er Evrópuvængur NATO, þ.e.a.s. ESB. Annar er Ísrael, mikilvægur af því hann er reiðubúinn til skítverka.  Alþjóðastjórmál eru nú miðstýrðari en þau hafa verið áður í sögunni. Vladimir Putin orðar það svo að  heimurinn sé einpóla.

Frá falli Sovétríkjanna, 1991, hefur Veldið fært vígstöðvar sínar fram, ár frá ári. Byrjaði á að ráðast á Írak sama ár. Næst var það Balkanskaginn, stríð í tveimur lotum, svo Afganistan, aftur Írak, Pakistan, Líbía. Framkvæmdina hefur ýmist Bandaríkjaher annast eða NATO. Veldið beinir nú sprengjuvörpunum að Sýrlandi og Íran. Ógnandi stríðsöskrin heimta „stjórnarskipti“ – rétt eins og í öllum fyrrnefndu löndunum – heimta að „alþjóðasamfélagið“ grípi inn ella. Veldið skilgreinir sjálft hvar „vandinn“ og „hættan“ liggur. Yfirskin íhlutana er breytilegt: að þessi ríki ógni heimsöryggi, hýsi „hryðjuverkamenn“, hafi gjöreyðingarvopn, skorti „lýðræði“, brjóti lýðréttindi... Sannanir eru einfaldar af því Veldið er sjálft dómarinn með yfirtökum sínum á alþjóðastofnunum og heimspressunni. Veldið ræður einnig yfir heimslögreglunni sem framfylgir svo dómnum.

Málið snýst auðvitað ekki um lýðréttindi og lýðræði heldur um það að koma árum Veldisins fyrir borð á efnahagslegum og hernaðarlegum lykilsvæðum. Þegar Sovétríkin féllu skildu þau eftir pólitískt tómarúm. Þá skapaðist afbrigðilegt ástand á vettvangi heimsvaldastefnunnar. Til að þenja sig út dugði Veldinu þá fyrst í stað að beita hreinkapítalískum aðferðum, valdi markaðarins – auk yfirþjóðlegra stofnana eins og AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnuninni til að tryggja frjálst flæði vöru og fjármagns. Síðar fór Veldið að mæta hindrunum og nýrri samkeppni – af því kapítalísk heimsvaldastefnan felur í sér stöðuga keppni um áhrifasvæði – og þá þurfti æ oní æ að beita hervaldi.


Utanríkisstefna Veldisins er jafnan vafin í málskrúð um lýðræðisást og slíkt en í reynd stjórnast hún af gróðasók. Einstaka talsmenn tala skýrt. Ralph Peters var ofursti og nokkuð áberandi maður innan bandaríska hersins, og starfaði mjög á sviði leyniþjónustu. Árið 1997 skrifaði hann í grein.

Það verður enginn friður. Á hverjum tíma um okkar daga verða átök í mismunandi formum vítt um veröldina. Hernaðarátök munu móta helstu yfirskriftirnar en menningarleg og efnahagsleg átök verða samfelldari og ráða úrslitum. Hið raunverulega hlutverk bandarískra herja er að gera veröldina öruggari fyrir efnahag okkar og opna fyrir menningarleg áhlaup okkar. Í því augnamiði hljótum við stunda allnokkur dráp. www.informationclearinghouse.info/article3011.htm

Veldið á sér nú keppinauta, það er m.a.s. að tapa áhrifasvæðum. Hlutdeild þess á mörkuðum heimsins skreppur saman. Keppinautarnir sækja á. Veldið hefur hins vegar gífurlega hernaðaryfirburði. Þessi blanda, efnahagsleg veiking en hernaðarlegir yfirburðir, skapar hina óskaplegu árásarhneigð. Efnahagskreppan magnar hana enn frekar.

Skæðasti keppinautur Veldisins er Kína, þá Rússland. Hið nýja skotflaugakerfi og herstöðvanet NATO umhverfis Rússland talar sínu máli um það, enn fremur hin mikla flota- og eldflaugauppbygging Bandaríkjanna á Kínahafi. Aðrir andstæðingar Veldisins eru í léttari vigtarflokkum. Stríð Veldisins eru öll háð til að bola keppinautum burt eða tryggja að þeir nái ekki fótfestu. Árásarhneigð  Veldisins verður aðeins skiljanleg ef okkur skilst að það keppir að heimsyfirráðum. Í því ljósi verður að skoða ofuráhersluna sem það leggur á að ná fullri stjórn á hinum olíuauðugu Miðausturlönd. Þar eru nú aðeins tvö lönd eftir – Íran og Sýrland – sem ekki hlýða, lönd sem enn standa gegn Veldinu og/eða styðja keppinauta þess. Því skal nú mætt af fullri hörku.

Aðferðin við að knésetja andstæðingana , „vandræðaríkin“, er þessi: Veldið útnefnir þau ríki sem „hættan“ stafar frá – þ.e.a.s. þau ríki sem ekki hlýða – og safnar liði sínu gegn þeim. Júgóslavía, Serbía, Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, Íran segja söguna (og listinn lengist). Beiting fjölmiðla við stríðsundirbúning og stríðsrekstur verður sífellt háþróaðri og um leið mikilvægari þáttur. Stóru fréttastofur Veldisins eru nánast einráðar um hinn vestræna heim, þær gefa tóninn sem endurómar svo vítt um veröld. Að baki hverju árásarstríði býr vel matreidd lygi. Fréttastofur Veldisins hafa verið margstaðnar að því að framleiða tilbúnar fréttir og búa til furðurlegustu sviðssetningar til að vekja réttar tilfinningar áhorfenda (slíkt hefur verið rækilega sýnt og sannað  hér á Gagnauganu). Tilgangurinn er að skapa stuðning við stríðsreksturinn meðal almennings heima fyrir.

Í aðdraganda beinnar innrásar er beitt margbreytilegum vopnum, auk fréttaflutnings. Innan viðkomandi „vandræðaríkis“ er beitt leyniþjónustu og undirróðri, ögrunar- og hryðjuverkum, vestrænt sinnuðum „frjálsum félagasamtökum“, tölvuhernaði, stuðningi við uppreisnaröfl og hagnýtingu staðbundinna misklíðaefna (dæmi: trúardeilna milli súnní og sía); í stuttu máli: samsærisaðferðum bak við tjöldin. Út á við er beitt viðskiptabanni og refsiaðgerðum auk diplómatískrar einangrunar.

Svo er ráðist á landið. Í öllum þeim stríðum sem hér hafa verið nefnd er um að ræða árásarstríð Veldisins gegn einstöku þjóðríki. Yfirlýst tilefni tengjast oftast innanlandsástandi. Í aðeins einu tilfelli var innrásin sögð vera svar við hernaðarárás, þ.e. árás Íraks á Kuwaít árið 1991, og flest bendir til að þar hafi Saddam Hussein gengið í bandaríska gildru. Í hinum löndunum skyldi innrásin bara steypa vondri ríkisstjórn, innleiða „lýðræði“ og slíkt fínerí. Svo sagði áróðurinn. Í raunheiminum standa eftir lönd í rústum, rænd, snauð og sundurtætt, þó féttastofur Veldisins forðist að tala um slíkt. Eitt fá öll löndin altént í sárabætur: herstöðvar, bandarískar herstöðvar og/eða NATO-herstöðvar. Og þau losna við stimpilinn „vandræðaríki“.

Heimsmyndin sem haldið er að okkur er fals. Ofurvald Veldisins herskáa er hið mikla öryggisvandamál okkar tíma. Ráns- og ofbeldisöflin sitja á hæstu tindum valdsins og dæma lifendur og dauða. Útlitið er því drungalegt. Vonir um heimsfrið eru bundnar því að andstöðuöflin við Veldið nái að styrkja sig frá því sem nú er. Ástandið minnir um margt á ástandið í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar. Hjáseta Rússa og Kínverja í Öryggisráðinu í mars 2011 varðandi aðgerðir gegn Líbíu minnir á friðkaupastefnu Breta og Frakka í München 1938, eftirgjöf til að friða úlfinn. Sem betur fer varð harðari stefna ofan á hjá Rússum og Kínverjum gagnvart Sýrlandi í febrúar sl. Alþýða og þjáðar þjóðir heims verða að tengja sig mönnum eins og Putin, Ahmadinejad og Bashar Assad – mönnum sem Veldið útnefnir sem Hitlera okkar tíma – rétt eins og andfasistar á sínum tíma þurftu að tengja sig manni eins og Churchill sem var enginn fulltrúi alþýðunnar en stóð þó uppi í hárinu á Hitler. 

No comments:

Post a Comment