Saturday, November 10, 2012

Myndin logna af Líbíu


(Birtist í Fréttablaðinu 30. ágúst 2011)

Það blasir við að myndin af „frelsun“ Tripolí var fölsk, að borgin hafi fallið í hendur „uppreisnarmanna“ sem þroskaður ávöxtur strax á fyrsta degi stórárásar á borgina. Íslenskir fjölmiðlar sögðu þá að 95% borgarinnar væru „frelsuð“ en þær hreinu línur hafa orðið óskýrari síðan.  
         Það er rannsóknarefni hvað her Gaddafís stenst lengi ofureflið. Áður en innrásin í Tripolí hófst höfðu sprengjuflugvélar NATO farið 20.000 flugferðir yfir Líbíu og skotið sprengjum í 8000 ferðum. Og þetta eru nútímaleg eldflaugaskot, ekki dettandi dínamít eða napalm eins og í Víetnam. Þetta hefði dugað til að koma flestum ríkisstjórnum á hnén, þó að svonefndir uppreisnarmenn séu veikir og hefðu engu getað áorkað án eldflauga og sprengjuregnhlífar NATO.
         Hinn grimmi harðstjóri á því greinilega mikinn virkan stuðning meðal þegnanna. Að hann skuli vopna lýðinn í Tripolí bendir ekki til að hann vænti sér ills úr þeirri átt. Á þeim fáu fréttastofum sem gagnrýna stríðsreksturinn má sjá miklar fjöldasamkomur til stuðnings stjórnvöldum. Það fær þó almenningur á Vesturlöndum ekki að sjá.
         Stríðið sem hófst í mars var frá byrjun stríð til að steypa ríkisstjórn sem ekki nýtur velþóknunar vesturveldanna, þ.e. USA og nýlenduvelda ESB.
         Gaddafí lagaði sig að breyttum heimi eftir 1990, samdi frið við Bandaríkin og hóf samstarf við olíuauðhringa. Samt sleppti hann aldrei eigin ríkisyfirráðum yfir hinum auðugu olíulindum lands síns. Þetta reyndist með tímanum ólíðandi fyrir vestræna auðhringa svo Gaddafí lenti á dauðalistanum. Á þeim lista eru þau ríki sem ekki fylgja reglum Vestursins upp á punkt og prik.
         Í bók sinni Winning Modern Wars: Iraq, Terrorism, and the American Empire frá 2003 skrifaði Wesley Clark fyrrverandi yfirmaður NATO-herjanna í Kososvostríðinu hvað hann hefði heyrt í Pentagon í nóvember 2001 þegar rædd var væntanleg innrás í Írak:  „Hún var rædd sem hluti af fimm ára hernaðaráætlun og löndin voru alls sjö, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbýa, Íran, Sómalía og Súdan.“
         Þessum áætlunum hefur síðan verið fylgt með sífellt virkari þátttöku vestrænna ríkja. Að baki Bandaríkjanna stendur breiðfylking, allt frá hægri haukum eins og Sarcosy og Cameron til vinstri stjórnanna í Noregi og á Íslandi.
         Hlutverk vestrænna fjölmiðla í Líbýustríðinu er ógnvekjandi. Það takmarkast ekki við litaða og einhliða lýsingu mála heldur er ákveðin atburðarás beinlínis framkölluð með hjálp fjölmiðlanna – í viðbót við undirróður útsendara frá leyniþjónustum. Sjálft tilefni stríðsins var búið til í fjölmiðlum. Dæmi: Herferðin gegn Líbýu hófst í febrúar sl. þegar dreift var á netinu aragrúa Twitter- og Youtube-myndbanda sem sýndu hersveitir Gaddafís berja niður mótmæli, gera loftárásir á eigin borgara, sýndu afríska leiguhermenn Gaddafís o.s.frv. Þessu var svo dreift á CNN, BBC, al Jazeera og víðar sem sannleik sem kallaði á afskipti „alþjóðasamfélagsins“. Margt af því hefur verið hrakið sem hreinn tilbúningur enda er mála sannast að þegnar Líbýu hafa hvorki haft aðgang að Twitter né Youtube undanfarið svo fréttamyndirnar voru hannaðar annars staðar.
         Öllu er nú snúið á haus. Árásarstríð NATO gegn smáþjóð í Afríku nefnist „skylda til að vernda líf óbreyttra borgara“ (ályktun Öryggisráðsins 17. mars). Loftárásir eru friðargæsla. Óleiðitamur þjóðarleiðtogi er úthrópaður sem glæpamaður gegn þjóð sinni meðan mestu stríðsglæpamenn okkar daga eru frelsarar. Nú fer líku fram gagnvart Sýrlandi sem er næst í röðinni.
         Hinar ráðandi fréttastofur eru kirfilega tengdar NATO-herveldunum og raunar hluti af innrásarliðinu. Á bak við innrásina stendur hnattveldið eina með miðstýrð heimsyfirráð – og stýrir líka sannleikanum. Hvernig eigum við vesælar mannskepnur þá að draga hann í efa?

No comments:

Post a Comment