Saturday, November 10, 2012

ESB og kreppan: Keynes úthýst


(Birtist á Eggin.is og Heimssyn.is 9. maí og 12. maí)

Kosningarnar í Frakklandi og  og óljós loforð sósíalistans Francois Hollande um að auka skuli umsvif hins opinbera hefur glætt umræðuna um kreppuviðbrögð Evrópusambandsins.
Vinstrisinnaðir ESB-sinnar hafa löngum stillt evrópsku efnahagskerfi  upp sem skynsamlegum kapítalisma og „velferðarkapítalisma“, eðlisólíkum hinum ameríska, stjórnlausa. Í upphafi fjármálakreppunnar 2008 hældust þeir yfir hinu stýrða markaðskerfi með ríkisafskiptum hér austanhafs. Töldu að það myndi ekki lenda í forarvilpum frjálshyggjunnar í  „villta vestrinu“.
            Sú trú brást. Það er ekki Atlantshafið sem skilur að „velferðarkapítalisma “ og frjálshyggjukapítalisma. Sú tvískipting er á milli tveggja tímaskeiða. Keynesismi óx fram í fyrri heimskreppu og gerði það reyndar óháð Keynes. Stefnan var afleiðing af stéttabaráttu, umbótabaráttu lýðsins. Síðan var það Keynes sem setti hana í kerfi, stefnu um virkt ríkisvald sem vinnur gegn hagsveiflum: hallarekstur ríkissjóðs og aukin ríkisumsvif á samdráttartímum en niðurskurður útgjalda og niðurkæling hagkerfis á þenslutímum. Þessi hugsun var andstæð frjálshyggjuhugsuninni um sjálfstýrðan markað sem jafnan býr til sína eigin eftirspurn.
            Sérstaklega á fyrstu áratugum eftir stríð varð keynesismi ríkjandi hagstjórnarskipan vestrænna auðvaldsríkja. Hún var fast studd af evrópskum mið-vinstriflokkum og bandarískum demókrötum, og allra dyggast af sósíaldemókrötum og verkalýðshreyfingu sem laut þeirra stjórn og hafði eflst í kreppunni. Þessi „gullöld kapítalismans“ bauð þannig upp á stéttasamvinnu og sveiflujöfunarstefnu á Vesturlöndum. Auðvaldið hafði „efni á“ umbótum enda hótaði lýðurinn annars byltingu. Farið var að skrifa í sögubækur að Keynes hefði fundið meðalið við stjórnleysi markaðarins.
            En upp úr 1970 náði kreppa auðvaldskerfisins aftur vestrænum hagkerfum. Bandaríska kerfið fór enn fremur að mæta vaxandi samkeppni. Þá fann auðvaldið út að keynesismi svaraði ekki lengur hagsmunum þess. Og sósíalisminn var á undanhaldi. Við tók stórsókn markaðshyggjunnar, fyrst undir forustu Tatchers og Reagans, gegn „velferðarkapítalismanum“. Boðað var afskiptaleysi ríkisvaldsins og markaðslausnir. Smám saman fylkti stjórnmálastéttin sér um frjálshyggjuna, ekki síst kratarnir – og keynesisminn hvarf.
            Allt frá Rómarsáttmálanum 1957 og þó enn frekar frá Maastrichtsamkomulaginu 1993 hefur markaðshyggjan verið grundvöllur Evrópusamrunans. Í fyrsta lagi: markaðslausnir í samfélagsmálum, allt sem hindraði samkeppni varð illa séð, t.d. ríkisumsvif eða ströng vinnulöggjöf. Í öðru lagi: alþjóðleg verkaskipting (hnattvæðing), þ.e.a.s. frjálst flæði fjármagnsins vöru, vinnuafls og þjónustu milli landa. ESB varð verkfæri frjálshyggjubyltingar í Evrópu, líkt og GATT og Heimsviðskiptastofnunin voru það á heimsvísu.
            Svo kom kreppan yfir hinn markaðsvædda heim 2007-8 eins og syndaflóð, byrjaði í fjármálageiranum og færðist þaðan til framleiðslunnar. Þá risu upp kratar og formæltu frjálshyggjunni. Steingrímur J Sigfússon skrifaði seint í September 2008: „Hvað erum við að upplifa þessa dagana? Eru það ekki ragnarök nýfrjálshyggjunnar, hins óhefta græðgiskapítalisma sem á endanum er að kollsigla sjálfan sig?“ („Ragnarök nýfrjálshyggjunnar“ Mbl. 18. sept 2008).
            Vinstri menn trúðu á „nýtt upphaf“. Björgun fjármálakerfisins og efnahagskerfisins sat þó fyrir. Kreppu bankanna var svarað með miklum ríkisframlögum til að bjarga þeim. Af því hlaust mikill skuldavandi þjóðríkja, og í framhaldinu niðurskurður ríkisútgjalda. Vægðarlaus. Kreppuviðbrögðin endurspegla núverandi styrkleikahlutföll stéttanna. Kreppunni er velt á alþýðu. Evrópskir kratar eiga engin ný ráð, né demókratarnir vestan hafs. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvort við völd sitja hægri eða svonefndar vinstri stjórnir. Auðvaldið ræður.
            Sem stendur er enginn keynesismi í augsýn. Bandaríski keynesistinn Paul Krugman andvarpaði í New York Times í júlí sl.: „Hugsið um það: Hvar eru hin stóru opinberu vinnuverkefni? Hvar eru herskarar opinberra starfsmanna? Í reynd eru opinberir starfsmenn hálfri milljón færri nú en þegar Obama komst til valda“ („No, we can´t? Or Won´t?“, NYT, 10 júlí 2011). Og hvað þá um Evrópu? Leiðtogafundir ESB 30. jan. og 2. mars samþykktu sem lög nýjan fjármálasáttmála. Þar kemur fram að ríkishalli aðildarríkja megi ekki fara yfir 0.5%. Fari hann yfir 3% eru viðlagðar þungar sektir. Danska Information dró rétta ályktun: „Leiðtogafundur ESB samþykkti að úthýsa meginþáttum velferðarhagfræði-kenninga breska hagfræðingsins Keynes af evrópska meginlandinu… Fjármálasáttmálinn útilokar ríkisstjórnirnar frá því að fjármagna fjárfestingar með ríkishalla og þvingar þær til að finna aðrar leiðir.“ („Finanspagt: Forfatningsforbud mod fornuft“, information.dk 30. jan 2012).
            Þetta er aldeilis ekki kreppa frjálshyggjunnar. Það er auðvaldskerfið sjálft sem er í kreppu. Frjálshyggjan hefur hins vegar styrkt sig fremur en hitt, og í Evrópu alveg sérstaklega. AGS og ESB eru samstíga. Steingrímur og Jóhanna ganga í þeim takti. Munurinn á bandaríska efnahagskerfinu og því evrópska er lítill og óðum að hverfa. Auðvaldið fer sínu fram, eins í kreppum. Draumur evrópuvinstursins á sér enga stoð og er í eðli sínu tragískur.

No comments:

Post a Comment