Monday, November 5, 2012

Nokkur orð um VG


(Birtist á vefritunum eggin.is og this.is/nei 9. apr. 2009)


Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu á þingi þann 5. des. sl um lán það sem þáverandi stjórn hafði gengið frá við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Hann mælti á þessa leið:
„Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á… Ég vil láta það koma hér fram að eftir því sem við verðum í aðstöðu til að hafa áhrif á málin, þingmenn Vinstri grænna, verður það forgangsatriði af okkar hálfu á komandi misserum eða árum að reyna að borga Ísland út úr þessu prógrammi aftur. Það skal hafa algeran forgang af okkar hálfu að reyna að standa þannig að málum að við endurheimtum aftur frelsi okkar á þessu sviði eftir því sem aðstæður frekast leyfa.“
Í nefndaráliti sama dag bætti hann við:
„Með samkomulagi þessu er skrifað undir þá staðreynd að það sé í raun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem stjórni efnahagsáherslum Íslendinga á komandi árum.“
Eftir að hafa skoðað aðgerðaáætlun AGS unna í samráði við íslensk stjórnvöld mat Steingrímur það svo að í því prógrammi passaði AGS upp á „peningamennina og fjármagnið“ en ekki „almenning í landinu“, auk þess að fyrirgera fullveldi Íslendinga. Slíkt mat er líka byggt á fyrri reynslu af AGS. Sjóður sá er viðgerðar- og framkvæmdaaðili fyrir stórauðvaldið. Hann hefur alls staðar það verkefni að gera við auðvaldsmaskínuna þegar í hana koma gangtruflanir, tryggja framgang frjálshyggjulausna, sjá til þess að kreppubyrðum sé velt yfir á almenning og opna hagkerfi viðkomandi lands fyrir alþjóðlegu fjármagni. Íslenska auðvaldskerfið lenti jú í kreppu og þá kom AGS stormandi og lagði upp sitt prógramm. Skilmálar AGS eru ekki fyllilega komnir fram. Mark Flanagan segir að „þau skilyrði verða sett á næstu níu mánuðum“ (heimild: samtal hans við Árna Daníel Júlíusson og Evu Hauksdóttur í mars).

VG í AGS-ríkisstjórn
Tveimur mánuðum eftir ofangreinda ræðu Steingríms tóku Vinstri græn sæti í ríkisstjórn í stað Sjálfstæðisflokksins. Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti strax að aðgerðaráætlun AGS væri hornsteinn efnahagsstefnunnar. Og fylgt er í öllum meginatriðum áfram þeirri aðhaldssömu hagstjórnarstefnu  sem AGS markaði í nóvemberlok. Í samræmi við hana hafa helstu ríkisútgjöldin farið í endurreisn fjármálakerfinsins en bið verður á raunverulegum aðgerðum til stuðnings alþýðuheimilum. Niðurskurður í ríkisútgjöldum heldur áfram jafn kröftuglega og hjá fyrri ríkisstjórn. Kaupmáttur launa hefur lækkað um 10% á ári, greiðslugeta lífeyrissjóða er stórkostlega skert, ótal heimili í greiðsluþroti, atvinnuleysið er komið upp í 10%.  Annað meginatriði í stefnuyfirlýsingu stjórnar Jóhönnu og Steingríms var  að staðið yrði við allar erlendar skuldbindingar, s.s. varðandi ICESAVE.
Það að VG skuli mælast með svipað fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn eru vissulega tíðindi og merki um vinstri sveiflu. En kemur það að gagni? Nýja ríkisstjórnin sýnist einkum hafa tvenns konar hlutverk. Annars vegar er hún innlendur uppáskriftaraðili fyrir Gjaldeyrissjóðinn (AGS) og „leppar“ tilskipanir hans (í byggingariðnaði er „leppur“ sá sem skrifar upp á fyrir réttindalausan byggingarstjóra). Hins vegar stundar hún smáskammtalækningar og einhvers konar líknarstörf gagnvart þeim sem standa allra verst. Á nýliðnu landsþingi VG var bersýnilegt að flokksforustan hafði étið ofan í sig harða gagnrýni sína á AGS án þess að ropa. Slíka kúvendingu efði hugsanlega mátt styðja einhverjum raunsæisrökum, en þegar kúvendingin er gerð án nokkurrar umræðu á fundinum er það órækt merki um hentistefnu.
Vinstri grænir ríða nú um landið sem hugprúðir riddarar til bjargar íslenska kapítalismanum frá honum sjálfum, svo ná megi aftur upp hrapandi arðsemi peninganna. Sjálfstæðismenn höfðu ekki lengur tiltrú við það starf. Olræt, VG er ekki sósíalískur flokkur. Við vissum það fyrir. Hitt er verra: Þátttaka VG í ríkisstjórn er mjög til þess fallin að hindra baráttu íslenskrar alþýðu gegn kreppuárásum auðvaldsins. Með inngöngu VG í ríkisstjórn og málflutningi VG-forustunnar síðan gefur hún þau skilaboð til fylgismanna sinna – og þeir voru stór hluti fötgönguliðs Búsáhaldabyltingarinnar – að nú skuli slíðra vopn fjöldaaðgerða og hafast ekki að því ný ríkisstjórn þurfi starfsfrið, og auk þess þurfi menn að undirbúa kosningar.
Raunverulegur andófsflokkur hagar sér ekki þannig. Ef svo ólíklega skyldi vilja til að hann lenti í ríkisstjórn veit að hann kemur ekki í gegn neinum breytingum sem skerða hagsmuni auðvaldsins nema hafa á bak við sig eina vopn alþýðunnar, virk samtök hennar sjálfrar. Óskastaða auðvaldsins er hins vegar sú að baráttan lokist inni á þingi, sú barátta sem annars gæti komið fram á þeim sviðum samfélagsins sem kæmu auðstéttinni ver. Sú afstaða að kosningar og stjórnarþátttaka geti leyst af hólmi fjöldabaráttu í grasrótinni er hin hefðbundna afstaða krataflokka. Þátttaka VG í þessari AGS-ríkisstjórn og þessi afstaða til stéttabaráttunnar felur í sér svik við baráttuna gegn kreppuaðgerðum auðvaldsins. Enda ganga skerðingarnar og árásirnar yfir almenning af óskertum krafti eftir stjórnarskiptin.
Nýja ríkisstjórnin notar vissulega annað orðfæri en sú gamla, enda er þjóðin, eftir hremmingar síðustu mánaða og missera, móttækilegri fyrir málflutningi í anda félagshyggju en frjálshyggju. Fólk hefur hins vegar ekki áttað sig á því að breytingin liggur í orðfærinu en ekki stjórnarstefnunni. Það sem við horfum upp á er snögg umbreyting VG úr einhvers konar andófsflokki í valdaflokk. Og flokkur kemst auðvitað ekki til valda í íslenska auðvaldskerfinu nema hann gangist inn á forsendur íslenskrar yfirstéttar, þ.e.  að hann sýni fyrirfram að hann ætli að tryggja íslenskum kapítalistum „ásættanlega arðsemi peninganna“.
Þingræði handa hverjum?
Í kreppunni skýtur hugtakið „kapítalismi“ aftur upp kolli. Vofan Karl Marx rís úr gröf sinni. Við búum ekki einfaldlega við „atvinnulíf“ heldur ákveðið efnahagskerfi sem byggir á stéttardrottnun. Ríkisvaldið sem við búum við er ekki einfaldlega „almannavald“ heldur valdatæki sömu stéttardrottnunar. Marx kallaði valdaafstæður milli stétta efnahagskerfisins „framleiðsluafstæður“ og bætti við:
„Þessar framleiðsluafstæður mynda í heild hagkerfi þjóðfélagsins, þann raunverulega grundvöll sem lagaleg og stjórnmálaleg yfirbygging hvílir á og viss form félagslegrar vitundar svara til. Framleiðsluháttur hins efnalega lífs skilorðsbindur félagslegt, stjórnmálalegt og andlegt lífsferli yfirleitt.“ (Marx/Engels. Úrvalsrit, I, 240)
Samfélagsþróunin snýst öðru fremur um baráttu stéttanna, sagði Marx, og á okkar dögum er það auðstétt gegn verkalýðsstétt. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: Í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldi sem er tæki stéttardrottnunar samofið eignakerfi atvinnulífsins (með valdatækin her, lögreglu og emættismannakerfi auk þjóðþings) en læst þó  standa fyrir ofan og utan stéttirnar. En alþýðan býr einnig yfir valdi. Það er fólgið í hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Samþjöppunin auðveldar verkalýðnum að skipuleggja baráttu sína, færir honum samtakamáttinn, ekki síst þann möguleika að stöðva þjóðfélagið með verkföllum. Marx kenndi þá speki að eina færa leiðin til að skáka valdi ríkjandi stéttar væri leið stéttabaráttunnar, að skipuleggja og virkja þau öfl í samfélaginu sem hafa efnahagslega hagsmuni andstæða auðvaldinu.
Auðstéttin drottnar sem sagt í krafti yfirráða yfir auðmagninu og yfir ríkiskerfinu. Svo má bæta við þriðja atriðinu, þingræðisblekkingunni, þeirri blekkingu að miðstöð valdsins sé í þjóðþinginu. Stéttarveldi borgarastéttarinnar allt frá 19. öld hefur byggst á formlegum almennum kosningarétti til þings samhliða efnahagsvöldum og hugmyndalegu forræði. Friedrich Engels hélt því fram að þjóðþingið gæti aldrei orðið raunverulegt vald fyrir verkalýðinn:
„Loks er þess að geta að eignastéttin ræður beinlínis ríkjum í krafti hins almenna kosningaréttar… Almenni kosningarétturinn er þannig mælikvarði á þroska verkalaýðsstéttarinnar. Hann getur aldrei orðið annað meira í nútímaríkjum og mun ekki verða það.“ (Marx/Engels. Úrvalsrit, I, 490)
Lenín tók mjög undir þessa afstöðu. Hann sagði: „Vér erum fylgendur lýðræðislegs þjóðveldis sökum þess að það er besta ríkisformið fyrir verkalýðinn meðan auðvaldið stendur..“ En hann bætti við að lýðræðislegt þjóðveldi væri hin besta „pólitíska hula“ fyrir almætti auðsins. Vald auðsins væri þar tryggast af því þar væri hin pólitíska gríma haganlegast gerð (Ríki og bylting, 18, 24). Það þýðir að formlegt lýðræði sýni frekar styrkleika yfirstéttarinnar en nakinn járnhnefi lögregluríkis gerir, en það þýðir auðvitað ekki að alþýðan eigi ekki að berjast fyrir lýðræðislegum réttindum.
Við Íslendingar höfum séð það margstaðfest undanfarið að valdið hér á landi liggur ekki í þjóðkjörnum stofnunum. Atvinnutæki sjávarplássanna voru lögð niður eða seld burt. Almenningur var ekki spurður, og yfirleitt ekki Alþingi heldur né sveitastjórnir. Auðmenn voru bara að ráðstafa eigum sínum. Sláturhús plássins og frystihúsið voru lögð niður, kvótinn fór, þjónustustofnanir og skóli voru lögð niður „ ..og málinu skotið til markaðarins sem mállaus vinnur sín verk.“ (Einar Már). Sparisjóður byggðarinnar einkavæddur og gleyptur af hákörlum. Heimamenn ekkert spurðir. Peningarnir teknir út úr sjávarútvegi og fluttir úr landi. Við vorum ekkert spurð, ekki einu sinni Alþingi. Bankarnir voru einkavæddir. „Þetta eru bara lögmál markaðarins og reglur EES“ var sagt. Og það var satt. Írak var sagt stríð á hendur. Enginn var spurður. Bankarnir ofþöndu sig í útlöndum fyrir lánsfé og ábyrgðin var skrifuð á ríkissjóð. Enginn var spurður, til dæmis ekki Alþingi. Í kreppunni eru svo skuldirnar þjóðnýttar og kreppunni skipulega velt yfir á herðar almennings, án þess að hann sé neins spurður í því efni. Þetta er nefnilega ekki eiginlegt lýðræði heldur alræði auðsins (auðræði er einnig gott orð).
Hið rómaða þingræðisskipulag er svona: Við höfum annars vegar  embættismannakerfi sem samofið er stéttbundnu eigna- og valdakerfi efnahagslífsins. Það er hluti af hinu opinbera framkvæmdavaldi. Það matreiðir upplýsingarnar til þingsins og annast hin raunverulegu stjórnunarstörf. Þau eru unnin þar í kyrrþey á meðan haldnar eru ræður á Alþingi. Hins vegar er ræðustóll Alþingis sem hefur það sérstaka hlutverk að draga að sér athygli, rétt eins og örlög þjóðarinnar ráðist þar, en í reynd er vald þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu mjög takmarkað.
Þingpallaleið til magnleysis
Verkalýðsstéttin er jafngömul kapítalismanum og býr að reynslu. Hún hefur á tímabilum risið upp og sett sér það markmið að taka völdin og afnema kapítalismann, umturna ríkjandi samfélagsháttum og stéttardrottnun. Hún hefur eignast stjórmálaflokka sem hafa skipulagt baráttu hennar fyrir hagsmunum sínum og framtíðarmarkmiðum. Þegar uppsveifla er í baráttu hennar hefur hún sett sósíalismann skýrt á dagskrá. Þess á milli hafa komið tímabil þar sem baráttan koðnar niður í krónukarp og stéttasamvinnustefnu. Það gerist jafnan með þeim hætti að stjórnmálaflokkar hennar hafa gengist inn á stjórnmálaforsendur ríkjandi skipulags, „þingræðislegar aðferðir“. Þeir bjóðast þá til að stýra auðvaldskerfinu, sveigja það að hagsmunum alþýðu. Þeir tala á  þessa leið: „Ef alþýðuflokkarnir komast til valda má snúa kapítalismanum yfir í einhvers konar sósíalisma“. Fyrst gengu flokkar sósíalsdemókrata þessa slóð. Leið hins kratíska hentistefnuflokks lá gegnum „vinstri stjórnir“ með sívaxandi stéttasamvinnustefnu yfir í það að verða pólitísk meginstoð í valdakerfi auðsins. Svo uxu upp byltingarsinnaðir flokkar kommúnista. Það voru harðsnúnir stéttabaráttuflokkar sem höfðu það aðalstarf að fylkja verkalýðnum í hinni daglegu stéttabaráttu, ekki síst á tímum kreppunnar á 4. áratugnum (samfylking gegn fasisma o.fl). En upp úr miðri öld, undir forustu m.a. Krúsjoffs, tóku þeir að boða þá stefnu að nú bæri kommúnstum einkum að „vinna meirihluta á þjóðþingi og breyta því í verkfæri alþýðuvalda“ (úr „leyniræðu“ Krúsjoffs á 20. þingi Sovéska flokksins 1956). Þegar meginþungi baráttu þeirra færðist inn á þingið varð leikurinn auðstéttinni auðveldur.
Allt þetta höfum við reynt hér á landi. Alþýðuflokkurinn byrjaði sem verkalýðsflokkur en lét svo af öllum kröfum um afnám kapítalismans, færði baráttu sína inn á Alþingi og í ríkisstjórnir og bauðst til að reka íslenska kapítalismann „betur enn íhaldið.“ Í kreppu 4. áratugsins harðnaði stéttabaráttan í landinu mjög og íslensk verkalýðshreyfing efldi samtakamáttinn undir forustu kommúnista og vinstri sósíalista. Þá og á 5. áratugnum vann alþýðan sína glæstustu sigra. Þingstyrkur róttæklinga var að vísu talsverður en miklu meira munaði um skipulags- og forustuhlutverk þeirra í hinni daglegu stéttabaráttu. Í kjölfar krata fóru vinstri sósíalistar einnig að veðja á „ráðherrasósíalisma“ og tóku þátt í mörgum ríkisstjórnum. Með hverri vinstri stjórn eignuðust A-flokkarir fjölmarga menn í stjórnum ríkisstofnana og í bankaráðum. Með hverri vinstri stjórn stórjukust afskipti ríkisvaldsins af kjaramálum. Með hverri vinstri stjórn styrktist hugmyndin um samráð og samvinnu stéttanna og sú hugmynd að þjóðfélagsátökin skyldu leidd til lykta á Alþingi. Þjóðfélagslegt afl verkalýðsins minnkaði í réttu hlutfalli við það. Verkalýðshreyfingin og flokkar hennar aðlöguðu sig kapítalismanum, yfirgáfu vettvang stéttabaráttunnar og kepptust um fá að stýra auðvaldsskútunni. Verkalýðshreyfingin varð fyrst og fremst þjónustustofnun, innmúruð og innbyggð í auðvaldskerfið. Langvarandi stéttasamvinna bjó til lítinn forréttindahóp innan hreyfingarinnar til að annast kaup og kjör. Slíkur hópur er mikilvægur hluti af valdakerfi ríkjandi stéttar á Íslandi eins og víðast í þróuðum auðvaldsríkjum nútímans.
Ég man til áranna 1968-70. Öll þau þrjú ár voru harvítug verk-föll í landinu, í 2-3 vikur í hvert sinn. Það var ólga og verkalýðshreyfingin enn nokkuð harðskeytt og gerði valdsmönnum lífið leitt. Svo kom vinstri stjórnin „Ólafía“ 1971-74. Hún samdi við verkalýsðhreyfinguna í friði og engin verkfallsátök urðu í landinu í hennar stjórnartíð. ASÍ hefur reyndar ekki staðið fyrir meiri háttar verkfalli síðan og kannski má álykta sem svo að samtökin hafi aldrei náð sér eftir þessa vinstri stjórn. Nokkru síðar kom vinstri-miðju stjórn Steingríms, Ólafs Ragnars og Jóns Baldvins og gerði „þjóðarsáttarsamningana“ árið 1990 við verkalýðsshreyfinguna um að gefa atvinnuvegunum svigrúm og ná niður verðbólgu. Verkalýðshreyfingin tók þar fulla ábyrgð á efnahagskerfi auðsins, sem auðstéttin (einkum fjármálaauðvaldið) notaði svo til að byggja nýja glæsilega hæð ofan á kerfið fyrir sig. Og 1. mars 2009, þegar kaupmáttur hefur fallið um 10% undafarið ár, semur ASÍ strax um frestun á leiðréttingu launa í ljósi þess að ný ríkisstjórn er tilbúin að „koma eitthvað að málunum.“ (Mbl 26. febr.)
Hver er í mestri afneitun?
VG leggur fram þá greiningu að kreppan á Íslandi sé einkum til komin af hægrisinnaðri hagstjórn Sjálfstæðisflokksins. Steingrímur J. ritaði nýlega grein um það: „Sjálfstæðisflokkur í afneitun“. Þetta er skilningshamlandi þrenging á umræðunni, til framdráttar áróðrinum fyrir vinstri stjórn. Það er að vísu rétt að Sjálfstæðisflokkurinn var fánaberi frjálshyggjunnar, en það eru fleiri flokkar í afneitun en hann. Sú þróun sem við upplifðum í þróuðum auðvaldsríkjum undanfarna 2-3 áratugi var efnahagsleg og hugmyndaleg endurskipulagning auðvaldsins sjálfs. Hagvöxtur undanfarinn áratug hefur fyrst og fremst verið í fjármálageiranum, og framrás fjármálaauðmagnsins hefur orðið samhliða framgangi pólitískrar markaðshyggju. Það endurspeglaðist í flokkakerfinu í heild. Það var ekki bundið við hægri flokka, það sló jafnvel enn meir út í krataflokkunum. Það er ekki meginmunur á afli frjálshyggjunnar milli landa eftir því því hvort hægri flokkar eða krataflokkar hafa verið við völd. Og kreppan er ekki heldur neitt betri í Bretlandi eða Þýskalandi þar sem kratar hafa lengi setið að völdum (stundum í samstjórn með öðrum) en t.d. í Frakklandi þar sem hægri menn hafa ráðið ríkjum síðan 1995. Það er beinlínis forheimskandi að fókusa fyrst og fremst á hið séríslenska í þessari þróun. Hin almenna og ríkjandi þróunarstefna kapítalismans undanfarna áratugi er annað og stærra mál en stefna Sjálfstæðisflokksins. Íslenska fjármálaauðmagnið tók kappsamlega þátt í þessari þróun, reyndar glannalegar en flestir. Og allir stjórnmálaflokkarnir tóku einhvern þátt í þeim dansi, misákafan að vísu.
Það er ljóst að Samfylkingin hefur til þessa aðhyllst litlu vægari markaðshyggju en Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkur. Hún var jafn áköf um einkavæðingu bankanna (og barðist gegn dreifðri eignaraðild) og jafn áköf um útrásina. Íslenska fjármálaauðvaldið er ekki bara evrópusinnaðasti hluti auðvaldsins heldur jafnframt útrásar- og hnattvæðingarsinnaðasti hluti þess. Framrás fjármálaauðvaldsins hefur fylgt aukinn hagsmunaklofningur innan auðvaldsins, ekki síst í evrópumálum. Samfylkingin er einarðari stuðningsaðili fjármálaauðvaldsins en nokkurn tíma Sjálfstæðisflokkurinn þar sem útgerðarauðvaldið hefur ennþá sterkasta stöðu. Nú hentar VG illa að rifja þá staðreynd upp.
Úr andófsflokki í kerfisflokk – ekki óvænt
Fleiri voru þeir sem mærðu útrásina:
„Að lokum, nokkur orð um útrásina. Almennt gleðjumst við landarnir yfir árangri af fjárfestingum erlendis. Í sumum tilvikum hefur líka verið sýnd stórkostleg hugkvæmni og framsýni og vil ég þar nefna árangur bræðranna sem kenna sig við Bakkavör. Bakkavararbræður hafa haslað sér völl í Bretlandi og víðar og margt af því sem ýmsir aðrir íslenskir aðilar eru að gera víðs vegar um heiminn er aðdáunarvert.“
Hér talar Ögmundur Jónasson haustið 2006. Málflutningurinn endurspeglar væntanlega að nokkru leyti fjármagnsútrás lífeyrissjóðanna sem áttu stóran hlut í Bakkavör. Þegar svo Brown og Darling höfðu sett á hryðjuverkalögin haustið 2008 brást Ögumundur þannig við:
„Skömm bresku ríkisstjórnarinnar er mikil. Þeim mun ánægjulegra yrði ef Bakkavör og önnur flaggskip í íslenskum atvinnurekstri erlendis komast lífs af.“ (*)
Þetta er skrifað eftir að Bakkavör hefur breytt sér úr framleiðslufyrirtæki í eignarhaldsfyrirtæki, aðallega í fjármálageiranum. Bakkavararmenn voru annar stærsti eignaraðili í Kaupþingi. Forusta VG var hvorki á móti framrás fjármálaauðmagnsins né útrásinni sem slíkri þótt hún hafi varað við ofþenslu. Breyting VG núna í valda- og kerfisflokk er ekki óvænt, þar sem flokkurinn hefur aldrei haft neina andkapítalíska hugmyndafræði að styðjast við, aðeins boðað græna umhverfisstefnu og svo fegrunaraðgerðir á kapítalismanum.
Núverandi kreppa felur í sér stórkostlegan tilflutning fjármagns og hert arðrán, hér sem annars staðar, þegar óstjórn, spillingu, lántökum, sukki og gambli auðmanna er velt yfir á alþýðuna í viðbót við „hefðbundið“ arðrán. Stéttabaráttan mun óhjákvæmilega harðna enda er kreppan pólitískur skóli. Aðeins með því að byggja upp mótafl alþýðu gegn afli auðsins er hægt að breyta innbyggðum valdahlutföllum í þjóðfélaginu. Til þess þarf líka að setja sósíalismann og kollvörpun kapítalismans á dagskrá. Að ætla sér að bæta auðvaldsskipulagið er jafngilt því að gangast inn á forsendur þess – aðlaga sig því, ekki öfugt. Þá er gott að hafa í huga að íslensk verkalýðshreyfing náði að styrkja verulega stöðu sína – byggja upp mótaflið – í síðustu stóru kreppu, á 4. áratugnum. Þá gerðist það einkum undir forustu kommúnista. Ennþá hefur ekki komið fram neitt stjórnmálaafl sem fyllir þeirra skarð. En þörfin er æpandi. Róttækt fólk sem stutt hefur VG þarf því að hugsa sitt ráð.

2 comments:

  1. Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
    Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
    Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
    Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
    Netfang: atlasloan83@gmail . com
    whatsapp / hangout + 14433459339
    Atlasloan.wordpress.com

    ReplyDelete
  2. Halló og velkomin í Spotlight Global Financial Services, Ég heiti Claudia Klein, ég er lánveitandi og einnig fjármálaráðgjafi.

    Vantar þig sárlega fjárhagslega styrkingu? Þarftu lán í ýmsum tilgangi? ef svar þitt er já, mun ég ráðleggja þér að hafa samband við fyrirtækið mitt í gegnum | spotlightglobalservices@gmail.com | eða sendu okkur skilaboð á WhatsApp: +4915758108767 | og hafðu lán á reikningnum þínum innan sólarhrings vegna þess að við bjóðum upp á framúrskarandi lánaþjónustu um allan heim.

    Við bjóðum upp á alls konar lánaþjónustu (Persónulegt lán, viðskiptalán og margt fleira), við bjóðum bæði langtímalán og skammtímalán og einnig er hægt að taka allt að 15 milljónir evra að láni. Fyrirtækið mitt mun hjálpa þér að ná ýmsum markmiðum með fjölbreyttu úrvali lánavara.

    Við vitum að það að fá lögmæt lán hefur alltaf verið mikið vandamál Fyrir einstaklinga sem eiga í fjárhagsvandræðum og þurfa lausn á því, þá eiga mjög margir í erfiðleikum með að fá hlutabréf lán frá sínum bönkum eða öðrum fjármálastofnunum vegna mikilla vaxta hlutfall, ófullnægjandi veð, hlutfall skulda af tekjum, lágt lánshæfiseinkunn eða af öðrum ástæðum.

    Ekki fleiri biðtímar eða streituvaldandi bankaheimsóknir. Þjónustan okkar er í boði allan sólarhringinn - þú getur fengið lán og klárað viðskipti hvenær sem er og þú þarft.

    Við bjóðum upp á 24 tíma lánaþjónustu í heimsklassa. Fyrir fyrirspurnir / spurningar? - Sendu tölvupóst á | spotlightglobalservices@gmail.com | eða sendu okkur skilaboð á WhatsApp: +4915758108767 | & fá svar á svipstundu

    Þú getur auðveldlega skoðað okkur á heimasíðu okkar í gegnum: https://spotlightglobalfin.wixsite.com/financial

    Fjölskylda þín, vinir og samstarfsmenn þurfa ekki að vita að þú hefur lítið af peningum, skrifaðu bara til okkar og þú færð lán.

    Fjárhagslegt frelsi þitt er í þínum höndum!

    ReplyDelete