Tuesday, November 4, 2014

Miðausturlönd - eyðilegging samkvæmt áætlun

(Birtist á Friðarvefnum 3. nóv. 2014)
Styrjaldargnýrinn í fjarlægð er óslitinn. Þessa stundina er stríð Vestursins háð úr lofti – gegn Íslamska ríkinu svokallaða innan Sýrlands og Írak. Íslamska ríkið er vígahópur sem einkum á rætur í uppreinsinni gegn Assadstjórninni í Sýrlandi. Þar hefur hann að mestu verið vopnaður og fjármagnaður af CIA og af helstu bandarmönnum USA í Miðausturlöndum, s.s. Sádi-Arabíu og Katar. Þetta er aðeins nýjasta stríðið í seríu styrjalda sem Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO og Arabalöndum auk Ísraels standa að. Stríðið er samfellt, en brennipunkturinn flyst til. Samfellt stríð er orðin opinber bandarísk stefna: http://www.globalresearch.ca/war-winds-near-gale-force/5402406
Enduruppskipting áhrifasvæða frá 1990
Heimsvaldakerfið leyfir ekki valdatómarúm. Saga kapítalískrar heimsvaldastefnu sannar það aftur og aftur. Græðgin í auð og völd er óseðjanleg. Eftir fall Sovétríkjanna raskaðist jafnvægið milli heimsveldanna mjög. Alþjóðastjórnmálin urðu einpóla vegna yfirburðavalds Bandaríkjanna. Margir hinir einföldu töldu að fall Múrsins boðaði frið. En vestrænir heimsvaldasinnar sáu fyrir sér allt annað en frið, nefnilega enduruppskiptingu áhrifasvæða út frá nýjum styrkleikahlutföllum. Og þar sem hægt er að sækja fram sækir maður fram! Frá falli Múrsins varð viðmið Bandaríkjanna heimsyfirráð. Helstu svæði til enduruppskiptingar eftir fall Sovétríkjanna voru Austur-Evrópa og Miðausturlönd. Wesley Clark fyrrum yfirhershöfðingi NATO sagði frá fundi sínum árið 1991 með Paul Wolfowitz, þá vararáðherra og síðar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann sagði þar að Bandaríkin hefðu nú 5-10 ár til að „hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Wolfowitz fókusaði á Miðausturlönd af því þaðan streymir olían. Þessi þrjú lönd settu Bandaríkin nú á listann „öxulveldi hins illa“ (og þrjú í viðbót: Líbíu, Norður-Kóreu og Kúbu) og settu í gang stríðsvélar sínar eins og brátt mun sagt verða.
Keppinautar skora risaveldið á hólm
En kapítalísk þróun er ójöfn, gömlu heimsveldin eru hnignandi og kreppuhrjáð. Þrátt fyrir sigur Bandaríkjanna í kalda stríðinu, þrátt fyrir einstæða valdastöðu þeirra og trausta hirð bandamanna hafa ný heimsveldi siglt upp að hlið þeirra í kepninni um heimsmarkaðinn. Dollarinn er að missa stöðu sína sem allsherjargjaldmiðill í alþjóðaviðskiptium og það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bandaríska hagkerfið. Bandaríska vefritið Business Insider skrifaði núna 8. október síðastliðinn: „Því miður, Ameríka, Kína var að fara fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims, skv. útreikningum AGS.“