Tuesday, May 28, 2019

Bókartíðindi: Undir fána lýðveldisins

(birt á Neistar.is 16. maí 2019)

 Í febrúar sl. gaf nýtt forlag, Una útgáfuhús, út bókina Undir fána lýðveldisins. Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni eftir Hallgrím Hallgrímsson kommúnista. Þetta er endurútgáfa bókar sem kom út í takmörkuðu upplagi árið 1941. Var löngu gleymd bók
.
Þetta er bæði góð bók og gagnmerk. Hún er fyrsta og eina bók höfundar en hann hefur verið stórvel ritfær og texti hans sannfærir fljótt lesandann um að hér sé sögð mikilvæg saga. Ég er enginn bókagleypir en þessa drakk ég nánast í einum teyg. Við bætist svo prýðilega unnin eftirmáli, „Ævintýralegt lífshlaup baráttumannsins Hallgríms Hallgrímssonar“ eftir Einar Kára Jóhannsson og Styrmi Dýrfjörð.

Af bókinni verður ljóst að Hallgrímur Hallgrímsson er ekki aðeins merkilegur rithöfundur heldur líka afar vel valinn fulltrúi íslenskra pólitískra alþýðumanna af sinni kynslóð. Foreldrar hans voru þingeysk vinnuhjú í sveit. Faðirinn drukknaði frá eiginkonu og 3 börnum og því fjórða, Hallgrími, á leiðinni. Með miklu harðfylgi tókst móðurinni einhvern veginn að halda hópnum sínum saman, og Hallgrímur lauk m.a.s. gagnfræðaprófi á Akureyri og kynntist þar líka sósíalismanum. Hann fluttist suður og vann fyrir sér með stopulli hafnarvinnu en einkum var það köllunin sem stýrði skrefum hans upp frá því. Hann var einn yngsti stofnandi Kommúnistaflokks Íslands 1930. Sérstaklega gerðist hann leiðandi í samtökum ungkommúnista.

Verkalýðshetja.
Hann fór í flokksskóla í Moskvu og kom þaðan tvíefldur í því að berjast við atvinnurekendavald, afturhald og fasisma. Hann gekk í gegnum pólitíska „barnasjúkdóma“ en náði sér af því aftur. Hann hélt til Spánar og barðist þar við fasista í eitt ár. Heim kominn hélt hann áfram pólitísku starfi og varkalýðsbaráttu í Reykjavík (ein athugasemd: að Hallgrímur hafi náð því að verða varaformaður Dagsbrúnar, sbr. bls. 209, hlýtur að vera rangt). Dagsbrún setti á verkfall m.a. í Bretavinnunnni 2. janúar 1941 og breska herstjórnin svaraði með því að setja hermenn í störf verkamanna. Þá dreifðu sósíalistar dreifibréfi á ensku meðal hermanna. Hallgrímur var af því dæmdur fyrir „landráð“ og honum stungið inn á Litla Hraun. Þar olli hann skjótt uppsteyt meðal fanga sem tóku að heimta betri aðbúnað. Fyrir vikið tók fangelsisstjórnin þá geðþóttaákvörðun að loka Hallgrím í einangrunarklefa þar sem hann mátti dúsa í 52 daga. Hann slapp úr fangelsinu á aðventu 1941. Haustið eftir rak hann erindi Sósíalistaflokksins á Austurlandi og Norðurlandi, og fórst þá í sjóslysi sem líklega stafaði af tundurdufli, 32 ára gamall.

Tuesday, May 14, 2019

Þjóðin mín er skynsöm

(birt á Neistar.is 12. maí 2019)

Það er sama þótt 98% af fréttaflutningi sem á okkur dynur segi að við eigum að styðja orkupakkann þá er almenningur honum andvígur. Fréttablaðið 7. maí og RÚV 10. maí sýndu svipaða afstöðu, 50% aðspurðra – rúmlega 60% þeirra sem taka afstöðu – segja nei. Aðeins kringum 30% aðspurðra segja já. Nei-hlutfallið enn hærra hjá kjósendum stjórnarflokkanna. Sjá nánar á vef fréttablaðsins.
Sjá nánar a vef rúv.

Alþingismenn upp til hópa, allir nema þingmenn Miðflokks og Flokks fólksins, segja okkur að leiða beri pakkann í lög. Þeir ætla bersýnilega ekkert að sinna þjóðarviljanum í þessu máli. Katrín ræðir málið við norsku Ernu Solberg og pöntuð er sameiginileg yfirlýsing með EFTA-ríkjunum tveimur um að pakkinn skerði ekki fullveldi þeirra. Norska þingið samþykkti einmitt pakkann í fyrra í grófu trássi við vilja þjóðarinnar.

Allir sérfræðingarnir sem RÚV og Fréttablaðið vitna í, allir, segja að pakkinn hafi lágmarksáhrif, en afar brýnt sé að samþykkja hann. Svo er pantaður úrskurður frá forseta EFTA-dómstólsins. „Synjun þriðja orkupakkans stefnir aðild Íslendinga að EES í tvísýnu“, segir hann. Og bætir við: „Eftir öll þessi ár erum við í þeirri stöðu að við getum gert ráð fyrir að ESB verði hart í horn að taka, einnig í ljósi þess að orka skiptir svo miklu fyrir ESB.“ En hótanir breyta engu. Meirihlutinn er á móti.

Það sýnir að almenningur á Íslandi er skynsamur. Dregur sínar eigin ályktanir. Yfirlýstur tilgangur orkumálastefnu ESB, eins og hún birtist í orkupökkunum, er samtenging orkukerfanna á svæði ESB/EES: „Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri.“ Fólk er varfærið. Það hugsar sem svo: Ef þetta er innleitt í íslensk lög skuldbindur Ísland sig til að vinna að einmitt þessu markmiði. Þetta gefur bæði innlendu og yfirþjóðlegu auðmagni og evrópsku skrifræði viðspyrnu og tök og tæki sem það hafði ekki áður til að koma slíku í kring. Annar yfirlýstur tilgangur laganna er uppbrot orkufyrirtækja og markaðsvæðing þeirra – og um leið opnun á einkavæðingu. Almenningur hefur handfast neikvætt dæmi tengt fyrri orkupökkum: HS orku. Fólk er varfærið – og það er skynsamlegt.

Almenningur efast um að íslenskir fyrirvarar haldi. Hann þekkir ný dæmi úr matvælalöggjöfinni. Íslenskir fyrirvarar dæmdir ólöglegir. Að áliti ESB trompa ESB-lög lög einstakra ríkja. Í aðildarviðræðum Jóhönnustjórnarinnar við ESB hafði Alþingi gert fyrirvara um yfirráð Íslands yfir sjávarútvegsmálum sem samræmdist ekki viðmiði ESB. Þess vegan var aldrei hægt að opna sjávarútvegskaflann í viðræðunum og þær sigldu í strand. Ekki er traustvekjandi að lögleiða orkupakka og gá seinna hvort hann samræmist stjórnarskrá, fyrst þegar möguleg samtenging kemur til framkvæmda. Það er öfugsnúið. Almenningur telur að þá verði erfitt að taka ákvörðunina til baka. Auðvelt inngöngu, erfitt útgöngu eins og allt í ESB. Þegar ESB-lög eru samþykkt verða þau ekki dregin til baka.

Almenningur vill félagslega eign og félagslegan rekstur á auðlindum (og grunnþjónustu), það hefur víða og oft komið fram. Almenningur er líka fullvedissinnaður og vill að mál séu ákvörðuð hér heima, ekki í fjarlægu embættiskerfi. Pakkasölumenn vita þetta. Þess vegna segja þeir: málið snýst ekkert um fullveldi, það snýst ekkert um markaðsvæðingu. Það snýst um alþjóðasamvinnu, neytendavernd, aukna samkeppni og lýðræði. En fólkið hugsar sitt.

Þjóðhagfræðingurinn Thomas Piketty skiptir elítunni á Vesturlöndum í viðskiptaelítu (styður hægri flokka) og menningarelítu (styður stóru vinstri flokkana). Það eru hinar nýju hnattvæðingalínur. Meira um það hér. Í orkupakkamálinu snúa þessar tvær elítur bökum saman. En alþýðan er síst hrifnari fyrir vikið og snýr baki við báðum. Almenningur samþykkir með því það álit Pikettys að þetta sé bara tvískipt elíta – sem hann ber enga lotningu fyrir.