Showing posts with label fjölmiðlaveldið. Show all posts
Showing posts with label fjölmiðlaveldið. Show all posts

Sunday, April 3, 2016

„Arabíska vorið“ í Sýrlandi

(Birt á fridur.is 1. apríl 2016)

„Átökin í Sýrlandi hófust í apríl 2011 þegar friðsöm mótmæli að fyrirmynd byltinganna í Egyptalandi og Túnis breyttust í mótmæli gegn einræðisstjórn landsins. Ríkisstjórnin brást við eins og sönn illmenni gera. Fyrst sáu öryggissveitir um að taka aðgerðarsinna af lífi… Því næst hófu hersveitir að skjóta á mótmælendur og það endaði með að mótmælendurnir skutu á móti….“ (eyjan.pressan.is 2. sept 2013)
Þessa tuggu (í fáeinum tilbrigðum) hafa íslenskir fjölmiðlar tuggið nær daglega eins og kýr jórtrandi makindalega á sínum bás í vestræna fjölmiðlafjósinu. Þetta er hin staðlaða opinbera saga sem okkur hefur verið sögð allt frá 2011. Og á henni byggir afstaða NATO-ríkja og Vesturlanda til þessa stríðs: meginorsök þess er harðstjórn Assads og þess vegna verður ekki friður nema til komi valdaskipti, Assadstjórnin fari frá.
Svona einföld var atburðarásin í Sýrlandi þó ekki og að stærstum hluta er sagan lygi. Mótmæli hófust vissulega í landinu í mars 2011, undir áhrifum “arabíska vorsins”. En undurfljótt breyttust þau í innanlandsstríð, með miklu mannfalli á bága bóga. Það er mikilvægt að átta sig á í hvaða röð hlutirnir gerðust í kviknun og þróun þessa stríðs, m.a. átta sig á þætti „arabíska vorsins“ í því.
Vestræn afskipti hófust fyrir 2011
Ísrael á landamæri að Sýrlandi (við hinar hernumdu Gólanhæðir) og fylgist því betur en flestir aðrir með málum í nágrannalandinu. Í ísraelskum leyniþjónustuskjölum frá ágúst 2011 kemur fram að NATO og Tyrkland voru þá að hefja vopnaflutninga til uppreisnarinnar og liðssöfnun trúarvígamanna í múslimalöndum til að berjast gegn Assad, en ætluðu þó að beita annarri taktík en í Líbíu:
“NATO headquarters in Brussels and the Turkish high command are meanwhile drawing up plans for their first military step in Syria, which is to arm the rebels with weapons for combating the tanks and helicopters spearheading the Assad regime’s crackdown on dissent. Instead of repeating the Libyan model of air strikes, NATO strategists are thinking more in terms of pouring large quantities of anti-tank and anti-air rockets, mortars and heavy machine guns into the protest centers for beating back the government armored forces … the arms would be trucked into Syria under Turkish military guard and transferred to rebel leaders at pre-arranged rendezvous… Also discussed in Brussels and Ankara, our sources report, is a campaign to enlist thousands of Muslim volunteers in Middle East countries and the Muslim world to fight alongside the Syrian rebels. The Turkish army would house these volunteers, train them and secure their passage into Syria.”

Thursday, January 21, 2016

Heimild: "Sýrlenska mannréttindavaktin"

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 20. janúar 2016)
Engin heimild um stríðið í Sýrlandi og ástand mála þar innanlands er jafn oft nefnd í íslenskum fjölmiðlum og "Sýrlenska mannréttindavaktin" (Syrian Observatory for Human Rights) - hvort sem það er t.d. RÚV, Fréttablaðið eða Mbl. Hún er líka helsta heimild AFP, AP, CNN, CBS, BBC... sem sagt vestrænu fréttaveitunnar. Hún lýsir stríðinu sem uppreisn gegn morðóðum einræðisherra og nefnir aldrei erlend veldi á bak við uppreinsina. Nú útmálar hún einkum dráp Rússa á almennum borgurum. Jæja, fréttaveita þessi er engin risastofnun heldur EINN MAÐUR sem situr í Coventry í Englandi og sendir þaðan út fréttir um Sýrland byggðar á símhringingum þangað. Hann heitir R.A. Rahman, Sýrlendingur sem hafði tvívegis fengið fangelsisdóma vegna andspyrnustarfa en flúði til Englands árið 2000. Skv. meðfylgjandi grein frá New York Times kom breska ríkisstjórnin honum þá fyrir í Coventry og fékk honum þar aðstöðu. Einnig fær hann fjárstuðning frá ESB. Fréttir hans af stríðinu voru Vestrinu afar hagstæðar og hann fékk brátt nánast opinbera stöðu í breskum og vestrænum fjölmiðlum sem talsmaður almennings í Sýrlandi og fulltrúi mannréttinda. En það er hann ekki! Hann er uppkeyptur málaliði Vestursins. Hafið það í huga þegar þið sjáið og heyrið fréttir byggðar á "Sýrlensku mannréttindavaktinni".

Saturday, November 10, 2012

Nýju stríðin og heilaþvottavélin mikla



Voðaleg slagsíða er í fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla frá átaka- og styrjaldarsvæðum. Túlkun átakanna í Líbíu og Sýrlandi undanfarið eitt og hálft ár minnir hastarlega á upphaf stríðsins í Írak 2003.  Þá löptu íslensku fjölmiðlarnir upp lygasúpuna frá Bush og Blair um hættuna sem stafaði af Saddam Hússein og útheimti vestræn afskipti. Sjónvarpsstöðvarnar tvær sendu svo fall Bagdad í beinni með því að tengja sig inn á CNN og BBC World (líkt og gert var í Persaflóastríðinu 1991). 

Myndin logna af Líbíu


(Birtist í Fréttablaðinu 30. ágúst 2011)

Það blasir við að myndin af „frelsun“ Tripolí var fölsk, að borgin hafi fallið í hendur „uppreisnarmanna“ sem þroskaður ávöxtur strax á fyrsta degi stórárásar á borgina. Íslenskir fjölmiðlar sögðu þá að 95% borgarinnar væru „frelsuð“ en þær hreinu línur hafa orðið óskýrari síðan.  
         Það er rannsóknarefni hvað her Gaddafís stenst lengi ofureflið. Áður en innrásin í Tripolí hófst höfðu sprengjuflugvélar NATO farið 20.000 flugferðir yfir Líbíu og skotið sprengjum í 8000 ferðum. Og þetta eru nútímaleg eldflaugaskot, ekki dettandi dínamít eða napalm eins og í Víetnam. Þetta hefði dugað til að koma flestum ríkisstjórnum á hnén, þó að svonefndir uppreisnarmenn séu veikir og hefðu engu getað áorkað án eldflauga og sprengjuregnhlífar NATO.
         Hinn grimmi harðstjóri á því greinilega mikinn virkan stuðning meðal þegnanna. Að hann skuli vopna lýðinn í Tripolí bendir ekki til að hann vænti sér ills úr þeirri átt. Á þeim fáu fréttastofum sem gagnrýna stríðsreksturinn má sjá miklar fjöldasamkomur til stuðnings stjórnvöldum. Það fær þó almenningur á Vesturlöndum ekki að sjá.
         Stríðið sem hófst í mars var frá byrjun stríð til að steypa ríkisstjórn sem ekki nýtur velþóknunar vesturveldanna, þ.e. USA og nýlenduvelda ESB.
         Gaddafí lagaði sig að breyttum heimi eftir 1990, samdi frið við Bandaríkin og hóf samstarf við olíuauðhringa. Samt sleppti hann aldrei eigin ríkisyfirráðum yfir hinum auðugu olíulindum lands síns. Þetta reyndist með tímanum ólíðandi fyrir vestræna auðhringa svo Gaddafí lenti á dauðalistanum. Á þeim lista eru þau ríki sem ekki fylgja reglum Vestursins upp á punkt og prik.
         Í bók sinni Winning Modern Wars: Iraq, Terrorism, and the American Empire frá 2003 skrifaði Wesley Clark fyrrverandi yfirmaður NATO-herjanna í Kososvostríðinu hvað hann hefði heyrt í Pentagon í nóvember 2001 þegar rædd var væntanleg innrás í Írak:  „Hún var rædd sem hluti af fimm ára hernaðaráætlun og löndin voru alls sjö, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbýa, Íran, Sómalía og Súdan.“
         Þessum áætlunum hefur síðan verið fylgt með sífellt virkari þátttöku vestrænna ríkja. Að baki Bandaríkjanna stendur breiðfylking, allt frá hægri haukum eins og Sarcosy og Cameron til vinstri stjórnanna í Noregi og á Íslandi.
         Hlutverk vestrænna fjölmiðla í Líbýustríðinu er ógnvekjandi. Það takmarkast ekki við litaða og einhliða lýsingu mála heldur er ákveðin atburðarás beinlínis framkölluð með hjálp fjölmiðlanna – í viðbót við undirróður útsendara frá leyniþjónustum. Sjálft tilefni stríðsins var búið til í fjölmiðlum. Dæmi: Herferðin gegn Líbýu hófst í febrúar sl. þegar dreift var á netinu aragrúa Twitter- og Youtube-myndbanda sem sýndu hersveitir Gaddafís berja niður mótmæli, gera loftárásir á eigin borgara, sýndu afríska leiguhermenn Gaddafís o.s.frv. Þessu var svo dreift á CNN, BBC, al Jazeera og víðar sem sannleik sem kallaði á afskipti „alþjóðasamfélagsins“. Margt af því hefur verið hrakið sem hreinn tilbúningur enda er mála sannast að þegnar Líbýu hafa hvorki haft aðgang að Twitter né Youtube undanfarið svo fréttamyndirnar voru hannaðar annars staðar.
         Öllu er nú snúið á haus. Árásarstríð NATO gegn smáþjóð í Afríku nefnist „skylda til að vernda líf óbreyttra borgara“ (ályktun Öryggisráðsins 17. mars). Loftárásir eru friðargæsla. Óleiðitamur þjóðarleiðtogi er úthrópaður sem glæpamaður gegn þjóð sinni meðan mestu stríðsglæpamenn okkar daga eru frelsarar. Nú fer líku fram gagnvart Sýrlandi sem er næst í röðinni.
         Hinar ráðandi fréttastofur eru kirfilega tengdar NATO-herveldunum og raunar hluti af innrásarliðinu. Á bak við innrásina stendur hnattveldið eina með miðstýrð heimsyfirráð – og stýrir líka sannleikanum. Hvernig eigum við vesælar mannskepnur þá að draga hann í efa?