Tuesday, December 8, 2015

Skertur samningsréttur stéttarfélaga

(Birtist í Fréttablaðinu og visir.is 3. desember 2015)
Þann 4. nóvember fór formaður Verkalýðsfélags Akraness til Reykjavíkur til fundar um kjör starfsmanna Akranesskaupstaðar. Þar var honum tjáð að Samband íslenskra sveitarfélaga væri algjörlega skuldbundið því sem fram kæmi í rammasamkomulagi undirrituðu 27. okt. af svonefndum SALEK-hópi skipuðum fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Þar er m.a. kveðið á um hverjar hækkanir megi vera hjá hópum launþega sem ósamið er við, fram til ársins 2018. Vilhjálmur verkalýðsforingi á Akranesi fann seinna út sér til hrellingar að í þeim samningum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert við ýmis félög bæjarstarfsmanna undanfarið hefur svokallað SALEK- samkomulag FYLGT MEÐ sem viðhengi. Svo les ég í Morgunblaðinu 25. nóvember að Samband íslenskra sveitar­félaga hafi skrifað undir samkomulag við BSRB og SFR sem var „á svipuðum nótum og þeir samningar sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði að undanförnu og taka mið af SALEK-samkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í október“.
Skjótt og hávaðalaust er komin í notkun NÝ UMGJÖRÐ um kjaraviðræður í landinu. Rammi sem engar kröfur mega fara út fyrir liggur fyrir í upphafi viðræðna. Aldeilis tromp fyrir atvinnurekandann að slá í borðið með!

Við höfum reyndar haft óljósar fréttir af starfi þessa SALEK-hóps sem var stofnaður 2013, starfandi undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Í vor og sumar gerði verkalýðshreyfingin meiri kröfur en venjulega, launadeilur urðu líka nokkuð víðtækar, einkum á opinbera markaðnum vissulega, en jafnvel Starfsgreinasambandsfélög á landsbyggðinni fóru í tveggja daga verkfall. Slíkt hefur ekki gerst í stóru ASÍ-sambandi í marga áratugi. Mátti spyrja sig: er stéttasamvinnupólitíkin að bila? Seðlabankastjóri fór á yfirsnúning og Þorsteinn Víglundsson foringi SA sagði – vísandi sérstaklega til átakanna á sjúkrahúsum og hjá BHM – að „vinna við breytingar á vinnumarkaðsmódeli verði að hefjast ef ekki eigi að hljótast verra af“.

SALEK-hópur skilaði rammasamkomulagi 27. október sl. Helstu þættir þess eru: 1. Stofnun Þjóðhagsráðs sem skal greina stöðuna í efnahagsmálum 2. Sameiginleg launastefna til ársloka 2018, sameiginlegur kostnaðarrammi er fundinn 32%, að frádregnum áorðnum kostnaði. 3. Fram til ársloka 2018 skal þróa samningslíkan sem gilda skal við kjarasamninga á Íslandi. Ein „meginstoð“ í því líkani skal vera: Samkeppnis- og útflutningsgreinar „semji fyrst og móti þannig það svigrúm sem til launabreytinga er“.

Í kynningu samkomulagsins í fjölmiðlum, sem var hreint ekki hávær, var breytingunni valin lokkandi yfirskrift: „NORRÆNT VINNUMARKAÐSLÍKAN“ sem fjölmiðlarnir tönnluðust á. Breytingin boðar skandínavísk kjör! Samkvæmt RÚV er eitt helsta markmiðið að „stöðva svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaði“. Þorsteinn Víglundsson og Gylfi Arnbjörnsson útskýrðu að fara yrði nýjar leiðir í samningagerð til að „tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur“. Boðskapurinn er: „friðarstefna“ gagnast launafólki og samfélaginu best.

Í kynningu innan verkalýðshreyfingarinnar – sem er rétt að hefjast – tala forustumennirnir helst um SALEK-samkomulagið sem „lausa hugmynd“, EKKI SÉ BÚIÐ AÐ ÁKVEÐA NEITT. En það stenst illa miðað við það að samkomulagið er þegar komið í fulla notkun og kaupákvæði þess notað sem óbrjótanlegur rammi! Þess má geta að SA setti í apríl í vor fram hugmynd um Þjóðhagsráð – skipað fulltrúum ríkisstjórnar, seðlabankastjóra og aðila vinnumarkaðar – og ríkisstjórnin tók undir þá hugmynd. Varðandi mat Þjóðhagsráðsins á „svigrúminu“ má geta þess að Seðlabankinn hefur lengi reiknað út þetta „svigrúm“ og yfirleitt fundið tölu nálægt 3%. Mat Þjóðhagsráðs verður sjálfsagt mjög svipað, nema hvað nú (eftir 2018) verður aðilum vinnumarkaðar SKYLT að semja innan þess gefna ramma. Frjáls samningsréttur?

Eitt verkalýðsfélag hefur opinberlega gagnrýnt þetta nýja „líkan“, Verkalýðsfélag Akraness. Á vefsíðu þess segir að samkomulagið sé „skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaganna enda kemur fram í samkomulaginu að fyrirfram sé búið að ákveða hverjar launabreytingar eigi að vera“. Í ljósi þess hefur Akranesfélagið höfðað mál gegn Sambandi ísenskra sveitarfélaga fyrir Félagsdómi. Sambandið svarar nú af fullri hörku og krefst þess að félagið falli frá málinu og skrifi undir NÁKVÆMLEGA EINS SAMNING og hin félögin, með SALEK-samkomulagið sem viðhengi, að öðrum kosti fái félagið engan samning.


Monday, November 30, 2015

Erdóganfjölskyldan, ISIS og smyglolían

Hér hafa Rússara kveikt í smyglolíu

(athugasemdir mínar á fésbókarsíðu SHA 24. nóvember 2015)
Hér hafa Rússar bombarderað röð 500 olíubíla með smyglolíu fyrir ISIS. Sprengjuvélar hinna vestrænu "Bandamanna gegn ISIS" hafa alltaf látið þessar olíusölulestar alveg í friði! ISIS ræður (réð til skamms tíma) 70% af olíu Sýrlands. Olíusala er stærsta tekjulind þeirra, og enn meiri frá Írak en Sýrlandi. Mest gegnum Tyrkland. Rússar hafa farið að sýna myndir af rosa röðum olíubíla í smyglflutingi við tryknesku landamærin, sem þeir svo bombardea. Þetta hafa ekki Vestur-bandamenn gert undanfarið stríðsár, fyrr en nú aðeins eftir Parísaródæðin og eftir að hernaður Rússa fór á fullt. 

Ekki aðeins hafa "Bandamenn", og Tyrkir sjálfir, umborið að ISIS fái lífskraftinn gegnum þessa æð. Sonur forsetans, Bilal Erdogan, stórútgerðarmaður m.m. er á kafi í olíuviðskiptunum við hryðjuverkamennina, tengdasonur Erdogans er svo olíumálaráðherra og kemur að frekari meðferð olíunnar. Á samfélagsmiðlum í Tyrklandi gangamyndir af Bilal Erdogan í innilegum félagsskap með þekktum jíhadforingjum. Systir hans rekur leynilegt hersjúkrahús sem annast særða ISISmenn. Sjá hér:

Forsetinn um Sáda og ISIS - mjög gott og minna gott

(birtist í Fréttablaðinu og Vísi 27. nóvember 2015)
Ólafur Ragnar Grímsson hefur eftir ódæðin í París varað við afskiptum Sádi-Arabíu af trúmálum á Íslandi, „ríki sem fóstrað hefur öfgakennt íslam og þær sveitir sem hafa lagt til atlögu gegn vestrænni siðmenningu… Þessi ákvörðun erlends ríkis að fara að skipta sér af trúarbrögðum á Íslandi á sama hátt og það hefur gert vítt og breitt um veröldina… er áminning til okkar Íslendinga að við verðum að hefja nýja umræðu“ og barnalegt sé að leysa megi málið með „aðgerðum á sviði umburðarlyndis og félagslegra umbóta.“ 

Hann nefndi þó nafn ríkisins fyrst nokkrum dögum síðar: „Sádi-Arabía hefur styrkt moskur, skóla, þar sem ræktuð hefur verið og kennd og ungir karlmenn aldir upp í hinni öfgafullu útgáfu af íslam.“
Ýmis viðbrögð við þessum viðtölum eru fróðleg. Baldur Þórhallsson prófessor segir að orð forsetans „ali á andúð í garð múslima“. Guðmundur Andri Thorsson skrifar að: „Forseti Íslands mætti minnast þess að hann er líka forseti innflytjendanna… Og það er rangt að taka sérstaklega út eina tegund öfgamanna og segja þá hættulegri en aðra.“ Um þetta segi ég tvennt.
A) Forsetinn er algjörlega maður orða sinna í því sem hann segir um stefnu Sádi-Arabíu. Þá stefnu má kenna við olíuimperíalisma, sambrædda efnahagslega og trúarpólitíska heimsvaldastefnu. Sádar heyja nú blóðugt innrásarstríð gegn Jemen, þeir hafa – ásamt fleiri Persaflóaríkjum, og Tyrklandi – verið helsti bakhjarl hryðjuverkaherja í stríðunum í Líbíu og Sýrlandi. Þeir eru helstu kostunaraðilar, og líka hið hugmyndafræðilega bakland, bæði við ISIS og Al Kaída og þeir standa á bak við hryðjuverkahreyfingar í Keníu, Nígeríu og Malí. 

Þeir ausa peningum á báðar hendur til að styrkja eigin útgáfu af bókstafstrú, loforðið um 135 milljónir til moskubyggingar í Reykjavík er bara lítið en lýsandi dæmi um þetta ágenga „trúboð“: moskur, kóranskólar, bækur og bæklingar sem eiga að treysta efnahagsveldið. 

Ólafur Ragnar gerði skýran greinarmun á íslam og „hinni öfgafullu útgáfu af íslam“ og það er mikilvægt. Ríkistrú Sáda er gjarnan kennd við Wahhabisma eða Salafisma. Sá mannsskilningur og samfélagssýn fótum treður allt það besta í húmanisma síðari tíma, ekki síst í menningu múslima. Hann er eins konar fasismi á trúargrunni sem kallar á alræðislegt, ofbeldisfullt ríkisvald. Hann er blettur á íslam. Það er hættuleg og „barnaleg einfeldni“ að láta hann fylgja með í því sem við eigum að undirgangast í nafni „fjölmenningar“. Heiður sé Ólafi Ragnari að tala skorinort um þetta.

B) En Ólafur sleppti mikilvægri hlið málsins: Að tengja ISIS við vestræna hernaðarútrás til Miðausturlanda, og eins hitt að Sádi-Arabar (þar með ISIS) eru bandamenn USA/NATO og þar með bandamenn okkar. Hann benti á það sem ráð í stöðunni að Bandaríkin, Frakkland og Rússland fari saman í einhvers konar herför gegn ISIS, sem er dauð óskhyggja. Bandaríkin (Bretar áður) og Sádi-Arabía hafa lengi myndað gagnvirkt bandalag: Sádar tryggja Sam aðgang að olíusvæðinu mikla, Sam tryggir Sádum vernd og aðgang að hinum góða félagsskap. Sádi-Arabía er tannhjól í valdakerfi Vestursins, sérstaklega mikilvægt handbendi bandarískrar heimsvaldastefnu. 

Rússnesk vél skotin niður - til að ögra Rússum eða NATO?



Erdogan
(athugasemdir mínar af fésbókarsíðu SHA 24. nóvember)
Hér bendi ég á tvær greinar frá vefritinu Counter Punch um þá stríðsaðgerð Tyrkja að skjóta niður rússneska sprengiflugvél. Fyrri greinin nefnist: „An Invisible US Hand Leading to War? Turkey´s Downing of a Russian Jet was an act of Madness." Greinin talar ekki aðeins um brjálæði af hendi Tyrkja heldur bandaríska vitneskju og stuðning: "Turkey’s action, using US-supplied F-16 planes, was taken with the full knowledge and advance support of the US." Samkvæmt því er þetta sennilegast örvæntingaraðgerð. Rússar eru langt komnir með að eyðileggja stríðið þeirra. Sýrlenski herinn gerir sig líklegan að skera á aðfangalínur ISIS frá Tyrklandi á Alepposvæðinu og m.a.s. Öryggisráðið samþykkti að nú ættu allir að snúa bökum saman gegn ISIS og þá eru okkar menn í vondum málum. Stoltenberg segir að NATO standi staðfast með Tyrkjum. En fyrstu viðbröð Rússa benda til yfirvegunar. Sjá hér: 


Mike Whitney skrifar vel grundaða grein, líka á Counter Punch, Hann gengur, ólíkt Lindorff, ekki út frá að Erdogan hafi fengið græna ljósið frá Sam frænda, heldur að hann reyni að draga USA/NATO dýpra inn í stríðið með þessari ögrunaraðgerð. Lakatíu-hérað (mikið byggt Túrkmenum) sem rússnesku vélarnar voru að fara inn í hugsar hann sem eitt af sínum "öryggissvæðum" inni í Sýrlandi en Sýrlandsher með hjálp Rússa sækir hratt að og getur afskorið Lakatíu að norðan. 

Tuesday, November 24, 2015

CIA flytur stríð laumulega frá einu landi til annars

Vestræn leyniþjónusta og fylgiríki Vestursins standa á bak við ISIS. Fyrst samtökin sjálf: Þau voru stofnuð 2006, í Íraksstríðinu, kölluð Al-Kaída í Írak (AQI), voru þá studd af Sádum en ekki Vesturveldum. Þegar uppreisn hófst í Sýrlandi fluttu þau sig yfir landamærin og sameinuðust Al Kaída í Sýrlandi, Al Nusra, a.m.k. um nokkur ár, og náðu nú skyndilega undraverðum árangri. Sjá hér: Svo víkur sögunni að vopnaaðstoðinni við sýrlensku uppreisnina. Upreisnin kom í beinu framhaldi af NATO-studdu stríði og valdaskiptum í Líbíu. Miðstöð uppreisnarinnar í Líbíu – og um leið miðstöð Al Kaída í Líbíu – var Bengazi. Þar var bandaríska sendiráðið – og höfuðstöðvar CIA í landinu. Meðfylgjandi grein í Business Insider (meginstraumspressa) fjallar um miklar vopnasendingar fyrir tilstilli CIA frá Líbíu til Sýrlands gegnum Tyrkland 2012 þegar opnuð höfðu verið vopnabúr Gaddafístjórnarinnar. Nefnd eru 20 000 flugskeyti og önnur vopn upp á 40 000 tonn. Munar um minna. Fram kemur að Chris Stevens – sendiherra USA sem myrtur var í Bengazi – hafi verið þar mikið innviklaður. Liður í því að frú Clinton gæti vopnað uppreisnina beint var annars vegar að viðurkenna Bandalag uppeisnarhópa sem lögmætt stjórnvald Sýrlands (Vestrið gerði það í nóvember og desember 2012) og jafnframt stimpla Al Nusra og ISI formlega sem hryðjuverkahópa (líka gert í desember). Þar með var var gulltryggt að styðja uppreisninga, og hún varð opinberlega uppreisn Vestursins. Sjá nánar:

Wednesday, November 18, 2015

Tólf tesur um ISIS

(Birtist á fésbók Samtaka hernaðarandstæðinga 17. nóv 2015)

Tólf tesur um ISIS: 1) Innrásarstríðið í Írak 2003-2011 tókst illa. Þess vegna ákváðu vestrænir strategistar og hugveitur að dulbúa komandi innrásir og taka vígin frekar „innan frá“. 2) Í Miðausturlöndum þýddi nýja aðferðin að styðja ákveðnar fylkingar herskárra íslamista (af súnní-meiði) til uppreisnar gegn óæskilegum stjórnvöldum, út frá trúarbragðalínum. 3) Heimsvaldasinnar beittu fyrir sig uppreisnaröflum fjandsamlegum Vestrinu – sem fullkomnaði dulbúninginn, en reyndar eru herskáir íslamistar sjaldnast vestrænt sinnaðir. 4) Áður hafði CIA beitt svipaðri taktík í Afganistan gegn Sovétmönnum og þá skapað m.a. Al Kaída. 5) Eftir það höfðu Washington og NATO einkum notað Al Kaída sem yfirvarp „stríðs gegn hryðjuverkum“. 6) En í Líbíu 2011 þótti nýja aðferðin sanna sig með glans. 7) Sýrland var næsta lota og uppþotin þar í „arabíska vorinu“ 2011 urðu strax afar blóðug. Ári síðar var „Þjóðareining“ uppreisnaraflanna stofnuð og USA og Vesturlönd viðurkenndu hana strax sem hið „lögmæta stjórnvald“ Sýrlands. 8) ISIS byrjaði sem „Al Kaída í Írak“ sem barðist gegn innrás USA þar. Hópurinn naut ekki stuðnings utanlands frá og óx því ekki neitt. 9) Hins vegar þegar uppreisnin hófst í Sýrlandi 2011 fór hreyfingin yfir landamærin frá Írak, blandaðist þarlendum Al Kaída-hópi (Al Nusra) og spratt nú sem arfi á mykjuhaug. 10) Í leyniskýrslu bandarísku Leyniþjónustu hermála (DIA) frá 2012 segir um hreyfinguna sem nú kallaði sig ISI: „Ástandið sýnir að það er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja.“ 11) Árið 2014 stökk ISIS fullskapað inn á sviðið sem stórveldi í krafti gríðarlegs vopnavalds, lýsti yfir kalífati og lagði undir sig sístækkandi huta Sýrlands og Íraks. Af því hún naut nú massífs stuðnings utanlands frá. 12) ISIS er skilgetið barn vestrænnar heimsvaldastefnu. Það er hinn forboðni sannleikur sem ekki má nefna, og enginn nefndi heldur í umræðunni um Parísarhryðjuverkin á Alþingi í dag.

Sunday, November 15, 2015

Heimsvaldastefnan er týndi hlekkurinn

Vera Illugadóttir skoðaði „Líf og dauða í Sýrlandi“ í tveimur útvarpsþáttum. Sérstaklega fyrri þátturinn var upplýsandi. Jóhanna Kristjánsdóttir og Finnbogi Rútur Finnbogason lýstu opnu, gestrisnu samfélagi einkenndu af trúarlegu umburðarlyndi og bjartsýni, „léttur þægilegur andi eins og í Istanbúl eða París“. Svo kemur þáttur tvö um „rætur borgarastyrjaldar“. „Arabíska vorið“ 2011 kemur til Sýrlands eins og sprenging og samfélagið tortímir sér skyndilega í trúardeilu svo hálf þjóðin lendir á vergangi og flótta. Ekki upplýsandi! Vera dettur í heilaþvottavélina, endurtekur tuggu væstrænna fréttastofa um friðasamleg mótmæli sem stjórnvöld siguðu hernum á, ekki orð um stuðning vestrænnar leyniþjónustu eða Persaflóaríkja við uppreisnina frá fyrsta degi í Daraa eða stöðugan straum birgaðflutninga til uppreisnarmanna yfir landamæri Tyrklands og olíustrauminn hina leiðina. Líkt og vestrænar fréttastofur nefnir hún aldrei þátt vestrænnar heimsvaldastefnu. Það er tapaði hlekkurinn í þróunarkeðju atburðanna. 

Heimsvaldastefnan, þjóðríkið og Sýrlandsstríðið

(Ræða lesin á málþingi Rauðs vettvangs um marxisma í Friðarhúsi 7. nóv 2015)

Heimsvaldastig kapítalismans inniber átök milli efnahagslegra/pólitískra blokka sem bítast um markað og áhrifasvæði. Út úr slíkum átökum hafa sprottið mörg staðbundin stríð sem og báðar heimsstyrjaldir 20. aldar. Lenín skrifaði eftirfarandi um eðli heimsvaldastefnunnar: „Þeir [kapítlistarnir] skipta heiminum „í hlutfalli við fjármagan“, „í hlutfalli við styrkleik“. Um aðra aðferð getur ekki verið að ræða við skilyrði vöruframleiðslu og auðvalds. En styrkleikahlutföllin raskast með þróun efnahags- og stjórnmála... hvort sem sú röskun er „hrein“-efnahagsleg eða af öðrum rótum runnin (t.d. hernaðarlegum).“ (Lenín, Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls 97-98)
Útþenslan er hreyfiafal og sál kapítalismans. Þegar í lok 19. aldar var heiminum fullskipt upp milli auðvaldsblokka. Heimsvaldastefnan þolir hvergi neitt „tómarúm“ því útþensluhneigt auðmagnið flæðir þá inn í viðkomandi tómarúm. Stundum gerist það með verslun og hreinni fjármagnsútrás ( sbr. „hnattvæðingu auðhringanna“) en stundum með hernaðarútrás, jafnvel þar sem blokkirnar bítast með vopnum.
Það hefur sýnt sig að á hverjum tíma eru hinar ólíku efnahags- og stjórnmálablokkir misjafnlega árásarhneigðar, mishneigðar til að beita herstyrk. Af mismunandi ástæðum. Fyrir fyrri heimsstyrjöld og þó enn frekar á 4. áratugnum var Þýskaland mjög árásarhneigt ríki. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og hins tiltölulega litla olnbogarýmis (hér er fylgt greiningu Leníns).
Krafa nasismans um „lífsrými“ skýrist af þessu og einnig stuðningur þýska stórauðvaldsins við nasismann og áform hans um hervæðingu efnahagslífsins og landvinninga. Lenín hafði skrifað: „Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendna og áhrifasvæða hins vegar?“ (Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls. 130)  

Tuesday, October 27, 2015

Flóttamannasprengingin - orsakir og afleiðingar

(Erindi flutt í Friðarhúsi 17. október 2015, birt á fridur.is 25. október)
Fyrst eru það nokkrar staðreyndir sem að minni hyggju eru fyrirfram gefnar og ég mun ekki rökstyðja hér nema að litlu leyti. Flest af því má sjá grundað og rætt á vefsíðu minni.
Eitt: Heimurinn horfist í augu við mesta flóttamannavanda frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Tvö: Flóttamannastraumur þessi er að mestu afleiðing styrjalda. Flóttamannastofnun SÞ segir að mikill meirihluti flóttafólksins sem kom yfir til Evrópu á fyrrihluta árs 2015 hafi flúið stríð, átök og ofsóknir. Þrjú: Versta átakasvæðið er í Miðausturlöndum í víðum skilningi. þ.e. fyrir botni Miðjarðarhafs og á aðliggjandi svæðum. Fjögur: Stríðin sem geysa og hafa geysað í Miðausturlöndum og N-Afríku eru ránsstyrjaldir vestrænna stórvelda, oft háð gegnum staðgengla. Þar af eru hin stærstu Íraksstríðið, nánar tiltekið þrjú Íraksstríð, Afganistanstríðið, stríð í Líbíu, stríð í Sýrlandi. Stríðin snúast um áhrifasvæði heimsvaldasinna, eru ný útgáfa nýlendustyrjalda. Svo vill til – ekki tilviljun samt – að löndin sem verða vettvangur stríðsins eru olíulönd eða gegna lykilhlutverki í olíuflutningum. Árásaraðilinn er Bandaríkin og NATO. Fimm: Ísland hefur stutt öll þessi nýlendustríð vestrænna stórvelda.
Þriðja heimsstyrjöldin
Við skulum fyrst skoða aðeins nánar þessi nýju nýlendustríð. Þá kemur í ljós að þau eru ekki aðskildir atburðir. Þetta eru seríustríð. Sérstaklega frá 11. september 2001 hafa stríðin blossað upp eins og jólasería þar sem raðkviknar á perunum, sem sagt í einu samhangandi ferli. Stríðið gegn hryðjuverkum, stríðið gegn Írak, gegn Sýrlandi, gegn Líbíu, austur-Úkraínu, allt er þetta sama stríðið. Lógíkin í þessum stríðum er barátta um heimsyfirráð, þau beinast gegn keppinautum Bandaríkjanna og NATO.
Það má tala um þessi seríustríð sem nýja heimsstyrjöld, þriðju heimsstyrjöldina eða þá fjórðu ef kalda stríðið var talið sem sú þriðja. Það má tímasetja upphaf þessarar heimsstyrjaldar: 11. eptember 2001. Það höfðu geysað stríð sem voru undanfarar hennar, svo sem Persaflóastríðið og stríð í gömlu Júgóslavíu. En til að koma hnattrænu stríði af stað þurfti stórviðburð – það þurfti að eyðileggja goðsagnarkenndar byggingar og drepa mikinn fjölda manns – Bandaríkin þurftu sárlega nýjan óvin eftir Sovétríkin til að geta áfram byggt upp hið hnattræna hernaðarkerfi sitt. Þessum stórviðburði var komið í kring 11. september.

Sunday, September 6, 2015

Flóttamannasprengjan – á ekki að ræða orsakirnar?

(birtist í Fréttablaðinu 5. sept 2015)

Evrópa fær nú smjörþef af flóttamannavandanum. Fjölmiðlarnir ræða einkum hvernig stöðva megi strauminn, snúa honum við eða hvernig dreifa megi hælisleitendum um álfuna. Forðast hins vegar að tala um ORSAKIRNAR. Oft er gefið í skyn að þetta séu einkum efnahagslegir flóttamenn í leit að betri lífskjörum. Rangt. Langflestir flóttamenn nútímans flýja STRÍÐSÁSTAND. Skýrsla Flóttamannastofnunar SÞ um flóttamannastrauminn til Evrópu hefst svo: „Mikill meirihluti þeirra 130 þúsunda sem komu yfir Miðjarðarhaf til Evrópu sex fyrstu mánuði ársins 2015 flýja stríð, átök og ofsóknir.“ 

– SÝRLAND er stærsta uppspretta flóttamanna á heimsvísu með 4 milljóir flóttamanna, og 7 milljónir á flótta innan landsins sjálfs. Ástæðan? Jú, stríðið sem geysað hefur í landinu frá 2011, stríð Vesturveldanna og helstu bandamanna þeirra í Miðausturlöndum gegn Sýrlandi. Áður en það hófst var einfaldlega enginn flóttamannastraumur frá Sýrlandi. Stríðið hófst 2011 jafnhliða lokakafla Líbíustríðsins. Eins og í Líbíu hefur uppreisnin í Sýrlandi frá upphafi verið mönnuð af harðlínu-jíhadistum en studd, fjármögnuð og vopnuð af Vesturlöndum með bandamönnum, Persaflóaríkjunum, Tyrklandi... Staðgengilsstríð. Árið 2012 viðurkenndu USA og ESB bandalag uppreisnarhópa sem réttmætan fulltrúa sýrlensku þjóðarinnar og beita  sér fyrir „valdaskiptum“ í landinu. Sú afstaða var studd bæði af Össuri Skarphéðinssyni og Gunnari Braga Sveinssyni. Þetta er sem sagt okkar stríð. 

Siðferðissjónarmið í Úkraínudeilunni

(birt á fésbókarsíðu SHA 14. ágúst)
Úkraínudeilan og alveg sérstaklega viðskiptastríðið gegn Rússum hafa bandarískt vörumerki. Hagsmunir Evrópuríkjanna eru þar allt aðrir en USA. ESB og Rússland eru einna mikilvægustu viðskiptaaðilar hvors annars en Rússland er lítilvægur viðskiptaaðili USA. Þvert á móti telur USA sig hafa hag af ef ESB-lönd hætta t.d. að kaupa jarðgas af Rússum. Enda sagði Joe Biden um þvinganirnar: "Það er satt, þau vildu ekki gera þetta, en aftur voru það bandarísk stjórnvöld og forseti Bandaríkjanna sem krafaðist þess, og nokkrum sinnum urðum við að láta Evrópu skammast sín (we had to embarrass Europe) til að fá þau til að standa upp og taka á sig efnahagsleg högg til að valda [Rússum] kostnaði." RÚV hefur margtuggið undanfarið að val Íslands stæði milli viðskiptahagsmuna og siðferðissjónarmiða. Siðferðissjónarmiðin eru þau að beygja sig undir vilja bandamannsins með valdið, beygja því dýpra sem hagsmunafórnin er meiri. Sjá hér bút úr ræðu Bidens.

Sunday, August 2, 2015

Innrásin í Sýrland

(birtist á fridur.is 28/7 2015)
Yfirráðasvæði stríðandi afla í Sýrlandi

Sýrland er nú í reyndinni vettvangur innrásar NATO-veldanna – í framhaldi af árásunum á Júgóslavíu, Afganistan, Írak og Líbíu, sem eftir á liggja í upplausn og/eða rústum. USA og NATO-veldin meta Sýrland sem veikan hlekk í keðju andstæðinga sinna. Með Sýrland (og Hizbolla) úr leik er hægara að koma Íran á kné og tryggja þannig yfirráð USA og Vesturvelda í Miðausturlöndum, þá hefur vígstaða Kína og Rússlands veikst verulega…
Bandaríkin stunduðu ákafan liðssafnað gegn Sýrlandi árin 2011-13. Árið 2013 var unnið stíft að loftferðabanni og loftárásum líkt og í Líbíu 2011. Yfirvarpið sem nota skyldi til árásar var eiturgasvoðaverk nærri Damaskus í águst 2013. Flugherirnir og móðurskipin voru tilbúin. En yfirvarpið reyndist of gegnsætt, m.a.s. of götótt fyrir breska þingið. Snjallari taktík af hálfu strategistanna, meiri tími og undirbúningur reyndist nauðsynlegur. Lausnin varð flókin blanda af trúarbragðadeilu og staðgengilsstríði og svo endurnýjun þess „stríðs gegn hryðjuverkum“ sem USA og NATO höfðu ritað á stríðsfána sína árið 2001. Herskáir íslamistar eru þar í afar stóru en breytilegu hlutverki fyrir vestræna heimsvaldasinna.

Sunday, June 28, 2015

Lykilhlutverk Tyrklands í stríðinu gegn Sýrlandi

(Birtist á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 26. júní 2015)
Í grein á Consortium News lýsir Rick Sterling því lið fyrir lið hvernig grundvöllurinn undir tilveru ISIS-samtakanna liggur í NATO-landinu Tyrklandi. Þar eru höfuðstöðvar samtakanna, þaðan liggur stöðugur fjárstraumur til vopnakaupa, þaðan koma foringjar jíadista (búa þar). Ekki er líklegt að NATO-landið stundi slíkt án vitundar og vilja NATO Svo er olíustraumur í hina áttina frá ISIS en annars koma peningar ISIS að stærstum hluta frá helstu fylgiríkjum USA í Arabaheimi - Katar og Sádi Arabíu. Á bak við dylst svo spunameistarinn mikli - CIA. Áður en ISIS kom fam á sjónarsviðið leit út fyrir að Sýrland gæti hrundið af sér árásum heimsvaldasinna, en með uppgangi samtakanna og hinum mikla stuðningi gegnum Tyrkland (a.m.k. 2000 flutningabílhlöss) hefur ISIS skapað sér sóknarfæri og nú lítur út fyrir að samtökin með hjálp Vesturblokkar geti lagt Sýrland í rúst. "Uppreisnin" í Sýrlandi er sviðsett hryðjuverk, mesta hryðjuverk okkar daga. Útkoman er gegndarlausar hörmungar, m.a. mesti flóttamannavandi okkar daga. Lesið grein Sterlings hér:

Sunday, June 7, 2015

Amnesty með í aðförinni að Sýrlandi

(Birtist á fésbókarsíðu SHA 4. júní 2015)
Ég hef stundum skrifað um hinn frjálslynda búning bandarískrar heimsvaldastefnu, sk. "smart power", þar sem hún hin síðari ár beitir mjög fyrir sig mannréttindasamtökum (sjá hér). National Endowment for Democracy (NED) og Human Rights Watch eru þar fremst í flokki, þeim er stjórnað af bandarískri utanríkismálaelítu. Sama elíta hefur því miður einnig náð að ryðja sér til rúms innan Amnesty International, samtaka sem notið hafa almenns trausts. Samtökin gáfu nýlega út skýrsluna "Death Everywhere: War Crimes and Human Rights Abuses in Aleppo, Syria". Að nafninu til gagnrýnir skýrslan ofbeldi beggja stríðsaðila, ofbeldi stjórnvalda þó miklu meira: "government actions in Aleppo amount to crimes against humanity". Skýrslan leggur mikla áherslu á að fordæma notkun stjórnvalda á tunnusprengjum (eins og gert var í síðasta Dagfara). Hins vegar minnist hún ekkert á þá erlendu aðila sem standa bak við uppreisnaröflin. Mælir jafnvel með að vopna megi útvalda andspyrnuhópa! Skoðið úttekt Rick Sterling á skýrslu Amnesty. Ben Swann nokkur gerir á You Tube myndbandi skýra og skarplega úttekt á uppruna ISIS. Hann segir og sýnir m.a. að "ISIS is not the creation of American inaction... but of direct action." Sjá hér.


Wednesday, May 27, 2015

Vestræna höndin í bagga ISIS

  1. [12. maí 2015 birti ég klausu á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga:] Hin virta bandaríska fréttastöð Foreign Policy skrifar nú að "Syria's rebels are making sweeping gains, as foreign powers support and work with Islamist fighters." Greinin leggur út af sigursælli sókn uppreisnaraflanna við sýrlensku borgina Idlib í mars og apríl sl., og segir að lykillinn að sigursæld liggi í samvinnu ólíkra hópa "hófsamra" og harðskeyttari íslamista og svo stuðningi utanlands frá: "The operations also displayed a far improved level of coordination between rival factions, spanning from U.S.-backed Free Syrian Army (FSA) brigades, to moderate and conservative Syrian Islamists, to al Qaeda affiliate Jabhat al-Nusra and several independent jihadist factions." Opinbera lygasagan hefur verið að USA og Sádar styðji "hófsama" hópa en Katar og Tyrkir styðji frekar Al Kaída og ISIS (og að USA berjist gegn ISIS). En Foreign Policy skrifar nú beint frá hjartanu: Sameinaðir stöndum vér!
  2. [24. maí deildi Sölvi Jónsson grein á fésbókarsíðu SHA um nýbirta leyniskýrslu frá Pentagon með titilinn "The Islamic State is made in America" sem ég brást við:]   Gagnleg grein. Rapportinn sýnir að DIA (systurstofnun CIA á sviði hermála) mat það svo árið 2012 að nú gilti að styrkja alla þá hópa trúarvígamanna af meiði salafista/wahabista sem uppdrífa mætti í Sýrlandi og etja gegn Assad-stjórnvöldum, "in order to isolate the Syrian regime, which is considered the strategic depth of the shia expansion (Iraq and Iran)". Skipuleggjendur DIA sjá jafnvel fyrir að umræddir staðgengilsherir muni stofna salafista-furstadæmi í Austur-Sýrlandi. Rapportinn nafngreinir einkum hópana ISI (Islamic State of Iraq) og AQI (al-Qaeda in Iraq) sem eru rætur núverandi ISIS. Eftir að ISIS-skrímslið steig fram fullskapað kasta þeir (Vestrið og fylgiríkin) sprengjum að því fyrir framan myndavélarnar en senda því vopn og peninga að tjaldabaki.
  3. [25. maí svaraði ég Halldóri Ásgeirssyni um hver væri tilgangurinn með að tendra svona bál sem ekkert réðist við.] Tilgangurinn? Frekar en að skoða baráttuna um einstök lönd sem efnahagslegan imperíalisma (um olíu m.m.) sem vissulega skiptir miklu máli, þarf umfram allt að sjá stríðið í Sýrlandi/Írak, og líka í Jemen, í ljósi vestrænnar heimsyfirráðastefnu, þ.e. baráttu USA og bandamanna við Kína og bandamenn þeirra (Rússar vega þar þyngst, siðan Íranir) og yfir höfuð gegn öllum sem ekki beygja sig undir gráðugan vilja USA og NATO-velda. Tyrkland er skotpallur NATO inn í Mið-Austurlönd. Og fremur en sjálfstæð ríki sem verja sína hagsmuni kjósa heimyfirráðamenn ástand eins og í Írak, Sýrlandi og Líbíu: lönd í upplausn þó það kosti nokkur af mestu flóttamannavandamálum sögunnar. Það er meðvitað.
  4. [Sama dag skrifaði Gísli Gunnarsson að ekki mætti ofmeta skynsemina í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, hverju ég svaraði:].  Destabíliseríng, "constructive chaos", Bandaríkin sem styðja formlega sjíastjórnina í Bagdad en vopna um leið íslamistana sem þjarma að henni, kasta sprengjum að IS en fjármagna þá samtímis á laun. Ég segi alls ekki að þetta sé skynsemi en þetta er samt útpælt. Þetta er meðvituð pólitík til að ná svæðinu undir sig, sem sagt með illu, gegnum upplausn. Þetta er ekki velviljuð íhlutun og hjálp sem mistekst svona herfilega.
  5. [26. maí deildi Sölvi Jónsson annarri grein um sömu skjöl á fésbók SHA]. Fínt Sölvi, að fókusa á þessi nýbirtu DIA-skjöl frá 2012. Þarna kemur skýrt fram að Vestræn ríki styðji uppreisnaröflin í Sýrlandi sem séu borin uppi af salafistunum (ekki síst ISI) og Al Kaída í Írak. Einmitt það sem síðar varð ISIS. Enn meira sláandi er að þessir kommiserar DIA sjá fyrir sér að þessi andspyrnuölf geti stofnað "furstadæmi salafista" í Austur-Sýrlandi, örugga höfn undir stjórn andspyrnuafla: “safe havens under international sheltering, similar to what transpired in Libya when Benghazi was chosen as the command centre for the temporary government... and that is exactly what the supporting powers to the opposition want”. Svo mörg voru þau orð. Þetta gekk svo allt eftir þegar upp reis Íslamska ríkið (sem "kalífat") í Austur Sýrlandi og Norður Írak í júní 2014. Var einhver að tala um sjálfsprottna uppreisn alþýðunnar í Sýrlandi?

Sunday, April 12, 2015

Nokkrar tesur um Úkraínudeiluna

(birtist á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 12. apríl 2015)Norrænn flugher

Norðurlönd "sameinast" sumsé gegn Rússum. Nú falla vötnin til stríðssjávar. 1) Últra hægristjórn rænir völdum í Kiev í febrúar 2014 undir leiðsögn CIA, sú stjórn hefur síðan verið vopnuð af USA. 2) NATO og einkum USA hafa flutt eldflaugaskotpalla og háþróuð vopn að vesturlandamærum Rússlands, nyrst sem syðst. 3) Svonefndur samstarfssamningur Úkraínu við ESB bætti næststærsta landi Evrópu við þessa víglínu. Þar sagði: „Samstarfssamningurinn mun stuðla að samlögun aðilanna á sviði utanríkis- og öryggismála og stefnir að dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. Þetta var meira en stórveldið Rússland gat þolað (sbr. hernám Krím m.m.). 4) Ný stjórnvöld Úkraínu breyta nú sögunni. Júsjenkó fyrrum forsætisráðherra, ástmögur Vesturlanda, veitti Bandera, fasistanum úr seinna stríði, orðuna "Hetja Úkraínu". Og nú segir Porosjenkó forseti að Stalín hafi hafið seinna stríð með Hitler. Hillary Clinton líkir Pútín við Hitler. 5) Gunnar Bragi ákveður að senda ekki ráðherra til Moskvu 9. maí á 70 ára friðarhátíð. Pólverjar ákváðu líka að hundsa Rússa á afmæli frelsunar Auschwitz (sem Rússar eða öllu heldur Sovétmenn frelsuðu) af því Pútín er skrímsli. 6) Nato mun halda stærstu loftheræfingu heimsins í Skandinavíu í vor um leið og Norðurlönd mynda bandalagið gegn Rússum. 7) Þingið og Fulltrúadeildin í Washington veita Obama umboð til að vopna Úkraínu og búa hana undir stríð.

Tuesday, March 24, 2015

Friðarbaráttan og SHA



Friðarhreyfingin á Vesturlöndum hefur undanfarin ár verið lítt virk og sýnist mjög ráðvillt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi, Írak, Úkraínu og víðar. Ekki heldur SHA á Íslandi tekst að taka skýra afstöðu Í þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja öfluga baráttu fyrir friði.
Þetta er breyting frá því sem áður var. Ég fékk pólitíska skírn í baráttunni gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna í Víetnam, stríði sem ól af sér mesta andheimsvaldastarf 20. aldarinnar. Alþjóðleg samstaða átti stóran þátt í sigri víetnömsku þjóðarinnar 1975 og sú hreyfing olli pólitískri ólgu á Vesturlöndum og gerði mína kynslóð róttæka. Viðlíka gerðist aftur í tengslum við innrás „hinna viljugu“ í Írak 2003. Þá kviknaði aftur öflug grasrótarbarátta gegn stríði um hinn vestræna heim. Mannfjöldinn í götumótmælum var hliðstæður við hátinda Víetnambaráttunnar. Og mótmælahreyfingin gegn stríðinu vann áróðursstríðið svo Bush og Blair stóðu uppi sem ærulausir stríðsglæpamenn sem höfðu falsað gögnin um „gjöreyðingarvopn Saddams“.
Mótmælin gegn Íraksstríðinu á Íslandi voru líka mjög kröftug. Mánuðum saman voru vikulegir útifundir haldnir í Reykjavík. Allt annað gildir um nýjustu stríðin. Engin mótmæli eða ályktanir komu frá SHA né öðrum þegar stríð NATO geysaði í Líbíu. Og sama er uppi á teningnum í Sýrlandi, í stríði sem USA og ESB-veldin reka gegnum staðgengla. Breytingin er afskaplega sláandi. Ég ætla að slá því fram að meginorsakirnar séu tvær:


Í FYRSTA LAGI  skýrist hin ráðvilta afstaða fjölmargra friðarhreyfinga af því að heimsvaldasinnar tóku upp „smart power“ (sniðuga beitingu valds). Þeir píska upp stemningu gegn útvöldum „harðstjórum“, beita fyrir sig mannréttindasamtökum (NGO´s) og skipuleggja miklar ófrægingarherferðir gegnum heimspressuna. Slíkar herferðir geta tekið stefnu á íhlutun frá „alþjóðasamfélaginu“ undir merkjum „mannúðarinnrásar“ (sbr Líbíu), eða þá, sem algengara hefur orðið, að valin er leið stríðs gegnum staðgengla. Þá felst íhlutunin í að styðja uppreisn óánægðra trúarhópa eða þjóðernishópa og byggja upp og vopna her málaliða, oftast undir trúarlegri eða þjóðernislegri yfirskrift. Þriðja aðferðin er að ráðist er á fórnarlömbin út frá endurnýjaðri kennisetningu um „stríð gegn hryðjuverkum“ (sbr Sýrland og Írak 2014). Lömun friðarhreyfingarinnar liggur þá í því að hún kaupir að einhverju leyti þessar opinberu skýringar stríðsaflanna á hernaðinum. Um þessar aðferðir kenndar við  „smart power“ fjalla ég í  annarri grein:

Friday, February 20, 2015

Sviðsett hryðjuverk. Verkfæri stríðs og yfirdrottnunar



Við erum kaffærð í fréttum af hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum. Það sem af er árinu 2015 hafa fjölmiðlar verið bólgnir af skelfingarsögum af Íslamska ríkinu í Arabalöndum, samtökum sem ku ógna vestrænni siðmenningu; einnig bólgnuðu þeir vegna morðanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París. Bræðurnir Kouachi voru nýkomnir úr stríðinu í Sýrlandi og ekki langsótt að tengja þá við Íslamska ríkið.  Mikið kastljós beindist í framhaldinu að varðstöðu vestrænna leiðtoga um tjáningarfrelsið og hertan lofthernað þeirra gegn hryðjuverkamönnunum í Sýrlandi og Írak. Þegar þessi grein er send til birtingar berast fréttir af hryðjuverki í Kaupmannahöfn, fréttir segja það líklega undir áhrifum frá morðunum í París. Alls staðar eru íslamskir hryðjuverkamenn strax hafðir fyrir sök. Á Íslandi er ein afleiðing þessa umræðan um ”forvirkar rannsóknarheimildir” á borgurunum og stofnun íslenskrar leyniþjónsutu er í kortunum.
Vestrænir heimsvaldasinnar valda mestu um styrjaldir okkar daga. Þetta sem ég nefni vestræna heimsvaldasinna mætti eins kalla „hnattræna elítu“ ef menn frekar vilja, eða „ránskerfi hnattræns fáveldis“. Umrædd elíta er þröngur hópur og þjappast stöðugt saman, 1%, 0,1%, 0.01% íbúa í viðkomandi ríkjum.... Lögmál „frjálsrar samkeppni“ krefjast stöðugrar útþenslu, og arðránskerfi þessarar elítu teygist um heim allan. Hún berst stöðugt fyrir heimsyfirráðum. Til þess þarf mikla valdbeitingu – og tilefni til valdbeitingar. Kosnar ríkisstjórnir þurfa ákveðið samþykki frá almenningi,  og helst virkan stuðning, til að heyja styrjöld, og það er flóknara að tryggja stuðning almennings þegar stríðin snúast ekki um landvarnir heldur hernað í fjarlægum heimshornum. Vestrænir heimsvaldasinnar geta ekki með góðu móti rekið ránsstyrjaldir sínar í krafti kynþáttahyggju eigin landsmanna líkt og var á 19. öld þegar þeir undirokuðu „villtar“, „heiðnar“ eða „óæðri“ þjóðir. Eftir seinni heimsstyrjöld barðist vestræn heimsvaldastefna, undir bandarískri forustu,  einkum gegn grýlu kommúnismans um heim allan og þróaði til þess hernaðarkerfi sem enn er við lýði þó kommúnisminn sem slíkur sé ekki fyrir hendi. Til að tryggja arðránskerfið með valdi eftir það þurfti nýjar réttlætingar og meiri hyggindi.

Saturday, February 7, 2015

Ný og sniðug heimsvaldastefna

(Birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2015)

Friðarhreyfingin á Íslandi er hálflömuð, eins og víðast um hinn vestræna heim. Ekki vantar þó verkefnin enda ófriðvænlegra í heiminum en verið hefur í hálfa öld. Friðarhreyfing sú sem velgdi Bush og Blair undir uggum kringum innrásina í Írak 2003 hefur undanfarin ár verið óvirk og ráðvilt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi, Írak, Úkraínu... Samtök hernaðarandstæðinga á Íslandi tekst ekki, frekar en friðarhreyfingu Evrópu, að taka skýra afstöðu í neinu af þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja baráttu fyrir friði. Ég velti ástæðunum fyrir mér.

Árásirnar á Afganistan 2001 og Írak 2003 voru gamaldags innrásir í ætt við herferðir Hitlers um Evrópu eða stríðið í Víetnam, þó þær væru sagðar farnar til að útrýma „hryðjuverkamönnum“ og „gjöreyðingarvopnum“. Bandaríkjunum gekk þó heldur illa að fylkja bandamönnunum að baki sér í Írak, sbr. afstöðu Frakklands og Þýskalands, enda reis upp gríðarlega öflug friðarhreyfing gegn stríðinu, ekki síst í Evrópu. Hún lét blekkingaráróður ekki blinda sig. Hún afhjúpaði það að stríðið snérist um gamalkunn efni: olíu, auðlindir og áhrifasvæði í anda gamllar nýlendustefnu og bað innrásaröflin snauta heim. Stríðið varð illræmt meðal almennings og innrásaröflunum dýrt.

Bandarískir strategistar drógu lærdóm af vandræðunum. Suzanne Nossel er bandarískur demókrati sem rokkar á milli forustuembætta hjá SÞ, Utanríkisráðuneytinu og sk. mannréttindastofnunum. Árið 2004 skrifaði hún grein í Foreign Affairs og boðaði „frjálslynda alþjóðahyggju“. Hún gagnrýndi tilhneigingu Bush-stjórnarinnar til einhliða hernaðaraðgerða, Bandaríkin yrðu að læra að tileinka sér „SMART POWER“, að sameina hernaðarmátt sinn og baráttu fyrir framsæknum og húmanískum gildum.

Síðan hefur hernaðaraðferðin verið þróuð af Hillary Clinton og hennar líkum. Lykilatriði er að beita fyrir sig „frjálsum félagasamtökum“ (NGO´s). Ein slík eru National Endowment for Democracy (NED), stofnuð 1983 (önnur eru US Agency for International Development (USAID)). NED eru afar fjársterk stofnun, sérhæfð í að grafa undan stjórnvöldum sem standa að „ófrelsi“, m.ö.o. þóknast ekki Vesturveldunum.