Saturday, November 10, 2012

Hnattveldið eina gegn Líbíu

(Birtist í Fréttablaðinu 19. apríl 2011)


Eftir lok kalda stríðsins hefur orðið til eitt hnattveldi sem nálgast miðstýrð heimsyfirráð,  bandalagið USA/ESB,  sameinað í NATO.  Og hnattveldið er afar árásarhneigt. Þessar vikur og mánuði snýst brölt þess um full yfirráð á Miðjarðarhafi og í Afríku. Það er til marks um vígstöðu hnattveldisins að nú treystist nánast ekkert ríki til að standa gegn stríði þess í Líbýu, öfugt við innrásina í Írak 2003.
Meginaðferð hnattveldisins við útþenslu er að ná sem allra flestum ríkjum í hernaðarbandalag við sig. Kýpur er nú eina Evrópuríkið sem ekki er fullgildur eða aukaaðili að NATO og aðeins fjögur ríki við Miðjarðarhaf eiga ekki fulla eða aukaaðild að bandalaginu. Eitt þeirra er Líbýa. Öll ríki Afríku nema fimm (þ.á.m. Líbía) hafa verið sett undir Afríkuherafla Bandaríkjanna (AFRICOM).
                  Eftir fall múrsins hófu vestrænir heimsvaldasinnar stórsókn sína í austur og inn á svæði þar sem áhrifa Sovétríkjanna hafði gætt í meiri eða minni mæli. Í sókninni er beitt fríverslun, skuldsetningu gegnum lán, yfirtöku banka og fjármálakerfa, mútum og þvingunum til að koma á leppstjórnum, innlimun í hernaðarsamstarf og – stríði. Heimsvaldastefnan pakkar stríðsrekstri sínum í fagrar umbúðir. Utanáskriftin er aldrei „herfang, auðlindir, aðgangur fyrir auðhringa“ heldur „mannúð og lýðræði!“ Milli veruleika og yfirskins er gapandi gjá og hana þarf að brúa með miklu lyganeti.
                  Stríðið sem heimsvaldasinnar boða nú ákafast er innrásir í þjóðríki í nafni mannúðar. Þegar kommúnisminn hvarf þurfti nýja óvini til að réttlæta herstöðvanetið mikla og tilheyrandi herferðir. Lausnin var þessi: Mannúðarinnrásir gegn harðstjórum og illmennum. Vernda þarf íbúana. Gallinn er að harðstjórarnir eru margir og heimsveldin hafa löngum átt vingott við þá. Engin harðstjórn er svo bölvuð að ekki megi nýta hana. Með einu skilyrði þó: Að hún tryggi fullan aðgang Vestursins og auðhringanna að gögnum og gæðum lands síns. Ef hún þybbast gegn því gerir stríðsáróðursmaskínan úr henni skrímsli. Vestræn stjórnvöld, leyniþjónustur og fréttastofur sjá í samvinnu um að þróa óvinamyndina og rækta jarðveginn fyrir mannúðarinnrás.
                  Stórsókn vestrænna heimsvaldasinna fylgir munstri sem tengist efnahagslegu og hernaðarlegu mikilvægi viðkomandi lands, sérstaklega yfirráðum yfir olíunni og flæði hennar. Þess vegna búa olíuauðug lönd Araba nú við mútuþægar leppstjórnir, erlendar herstöðvar og stríð. Sókn Vestursins hefur gengið í nokkrum áföngum.
                  1. áfangi. Júgóslavíustríðin tvö. Strax eftir fall múrsins var Balkanskagi eðlilegt fyrsta skref í því að flytja vígstöðvarnar í austur og suður – og að réttlæta áframhaldandi tilveru NATO. Serbía hafði sýnt ákveðið sjálfstæði og var til trafala. Stríðsáróðurinn gól: Þjóðernisshreinsanir! 100-200 þúsund Albanir horfnir, líklega drepnir. Nauðgunarbúðir og fjöldagrafir. Mannúðarinnrás er nausyn! Veruleikinn: Alþjóðlegi glæpadómstóllinn fann síðar alls 2788 lík (Serba og Albana) í hinum frægu „fjöldagröfum“ í Kosovo, mest á svæðum þar sem Frelsisher Kosovo var virkastur. Höfðu fallið í stríðsátökum, ekki fjöldaaftökum fanga. En Serbía laut í gras eftir 71 dags sprengjuregn NATO, og í Kosovo kom brátt stærsta herstöð Bandaríkjanna í Evrópu.
                  2. áfangi. Írak er næst-olíuríkasta land heims og miðlægt í Mið-Austurlöndum. Saddam Hussein hafði þjónað Vestrinu dável en varð sjálfráðari með tímanum. Yfirskin innrásar: Hann er skrímsli sem ógnar heiminum með gjöreyðingarvopnum. Mannúðarinnrás takk! Veruleikinn: Vopnin fundust ekki en innrásaröflin hafa drepið yfir milljón manns og hrakið þrjár milljónir á flótta og hernámið er varanlegt.
                  3. áfangi. Mikilvægi Afganistans er sem flutningsleið olíu frá Kaspíahafssvæðinu. Talíbanar reyndust ótraustir bandamenn Vestursins. Yfirskin innrásar: 11. september var skipulagður af Al-Kaída í Afganistan. Og Talíbanar kúga konur. Mannúðarinnrás! Veruleikinn: Aldrei birtist snefill af sönnun fyrir tengingu 11. september við Afganistan. CIA-menn hafa nýlega metið það svo að  í Afganistan séu í mesta lagi 50 til 100 félagar í Al-Kaída. Ekki sem rök fyrir að draga innrásarherinn mikla tilbaka heldur rök fyrir útvíkkun stríðsins til Pakistans.
                  4. Líbýa er rökrétt næsta skref. Olíuríkasta land Afríku og Gaddafí hefur stundum verið Vestrinu óþægur. Hann hefur lengi stimplað aðra Arabaleiðtoga sem leppa Vestursins, svikara við Palestínu m.m.  Nú í mars komu 11 af 22 meðlimum Arababandalagsins saman – undir forustu Sádi–Arabíu, Íraks, Jórdaníu og furstadæmanna við Persaflóa – og svöruðu með því styðja flugbann á Líbýu. Það var það sem Vestrið þurfti. Og Gaddafí skýtur á eigin þegna! Svo nú ráðast mestu manndráparar heimsins á landið í mannúðarskyni. Veruleikinn: Ólgan í Líbýu hefur frá upphafi verið annars eðlis en t.d. í Egyptalandi – og ofbeldið meira – af því þar geysar borgarastríð, uppreisn studd og vopnuð af Vestrinu.
                  Hnattveldið herðir tök sín jafnt og þétt og líður enga óþægð. Hvað um Ísland? Ömurleikinn endurtekur sig. Landið styður Líbýustríðið eins og öll framantalin árásarstríð. 

No comments:

Post a Comment