Showing posts with label stéttabarátta. Show all posts
Showing posts with label stéttabarátta. Show all posts

Saturday, March 5, 2022

Stríðið í Eflingu 2

(Birtist á Neistum 12. febrúar 2022)

Við fylgjumst auðvitað af mikilli athygli með stjórnarkosningum í Eflingu stéttarfélagi þessa dagana. Við höfum fylgst grannt með því félagi síðan baráttusinnar tóku þar við stjórn undir forustu Sólveigar Önnu Jónsdóttur árið 2018. Og breyttu félaginu á skömmum tíma í baráttusamtök. Með því að virkja félags­fólk til þátt­töku í verk­falls­að­gerð­um, samn­inga­nefnd­um, opinni orðræðu um kjaramál, fjölda­fundum o.fl. tók félagið stakka­skipt­um og varð mikilvægur gerandi í samfélaginu. Þetta var verkalýðsbarátta í «nýjum anda» eða þó öllu heldur í «gömlum stíl». Það var t.d. bæði fróðlegt og uppbyggjandi, já beinlínis hjartastykjandi fyrir gamla verkalýðssinna, að fylgjast með fréttum og öðru efni á heimasíðu félagsins. «Solla og félagar hennar í stjórn Eflingar hafa lyft grettistaki í verkalýðsbaráttu láglaunafólks og breytt andlausu félagi til margra ára í það afl sem því var ætlað að vera», bloggaði samherji Sólveigar Önnu, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, ekki alls fyrir löngu. Síðan upphófust átök og væringar og nú bjóðast þrír listar til stjórnarkjörs í Eflingu.

Duggunni ruggað 2018

Tilkoma nýrrar Eflingarforustu var hluti af umtalsverðum umskiptum sem þá urðu í verkalýðshreyfingunni, einnig í forustu Alþýðusambandi Íslands, eins og frægt er orðið. Sjá hér. Andstæðar fylkingar kristölluðust ekki síst í afstöðunni til sk. SALEK-verkefnis sem þá var í undirbúningi og á mikilli siglingu undir skipstjórn Gylfa Arnbjörnssonar og þáverandi ASÍ-forustu. SALEK-hugmyndafræðin felur í stuttu máli í sér nýja og stóraukna miðstýringu: að færa afgreiðslu kjaramála frá vettvangi stéttarfélaga og sem allra mest inn í samráðsnefndir ríkisvalds/«þjóðhagsráðs» og aðila vinnumarkaðar. Hún felur í raun í sér að taka hið lýðræðislega vald stéttarfélaga, samtakaaflið úr sambandi og afhenda það sérfræðingavaldi undir merkjum stéttasamvinnunnar. Stéttarleg «afvopnun».

Margir álitu að þessu hættulega SALEK-verkefni hefði verið afstýrt með tilkomu nýs og róttækara fólks í leiðandi stöðum. En snemma á árinu 2021 vakti Eflingarforustan athygli á að vinna við innleiðingu SALEK-hugmyndafræðinnar hefði haldið áfram af skriðþunga þrátt fyrir forystuskipti í verkalýðshreyfingunni. Það gerist vissulega í breytilegum búningi eins og í «Grænbók um vinnumarkaðsmál» á snærum stjórnvalda, með þátttöku ASÍ, frumvarpi um «starfsmannalög» o.fl. Sjá hér viðvörun Eflingar um það.


Ólga í skrifstofuveldinu

Það varð mörgum nokkurt andlegt áfall þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, holdgerfingur nýrra baráttutíma, sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu 1. nóvember 2021. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Ástæðan reyndisrt vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar. Þá komu í ljós alvarleg átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og forustunnar róttæku. Sólveig Anna & co voru sökuð um samningsbrot, einelti og þaðan af verra sem þau töldu sér ófært að starfa með á herðunum, nokkuð sem leiddi til uppsaganar. Ekki skal það mál rakið hér. Aðeins bent á það sem við höfum áður um það skrifað.

Þegar Sólveig Anna sagði af sér sem einn af þremur varaformönnum ASÍ var kjörinn annar í staðinn, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, einn dyggasti liðsmaður Gylfa Arnbjörnssonar og gömlu verkalýðshreyfingarinnar sem vill áköf endurvekja SALEK-samkomulagið í formi «Grænbókar». Í tengslum við kjör Halldóru hefur Stundin það eftir Sólveigu Önnu að «Halldóra hafi efnt til leynifundar í febrúar síðastliðnum þar sem fimmtán formönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hafi verið boðið og umræðuefnið hafi verið hvernig hægt væri að styðja við áframhaldandi vinnu við Grænbókina, án þess að taka þyrfti tillit til sjónarmiða þeirra sem andvígir væru henni innan Starfsgreinasambandsins. Sólveigu Önnu hafi ekki verið boðið á þann fund, þrátt fyrir að hafa á þeim tíma verið varaformaður Starfsgreinasambandsins.»1

Nei, ekki skal rekja hér klögumálin í Eflingu sem ganga á víxl. Það er heift í málinu og ekki spöruð sterku meðulin. Ég kýs hins vegar að líta á átök milli róttæku forustunnar og skrifstofuliðsins í stærra samhengi stéttabaráttunnar. Þá þarf m.a.s að grípa til svolítið fræðilegrar greiningar: Í þróuðum auðvaldsþjóðfélögum (sem komin eru á einokunarstig, ályktaði Lenín 1915) hefur auðvaldið í samvinnu við «hægfara» verkalýðsflokka byggt upp skrifstofuveldi utan um stéttasamvinnuna. Þessi þjóðfélagshópur hefur margs kyns fríðindi og forréttindi og tekur að sér að «annast» verkefni launþegahreyfingar og kjarabaráttunnar. Það má lýsa honum sem «uppkeyptum» hópi og efri hluti hans er mun nær auðstétt en verkafólki að þjóðfélagsstöðu. Starfshættirnir hans eru aðlagaðir langtíma stéttasamvinnu. Vegna þjóðfélagsstöðu sinnar vill hann ekki mikil «læti», vill t.d. alls ekki að verkafólk taki kjaramálin mikið í eigin hendur, það er ógn við stöðu hans sjálfs. Ekki vill hann «pólitík» heldur því verkalýðshreyfingin á fyrst og fremst að vera stofnun innan ríkjandi þjóðfélagskerfis.

Ég hef lengi aðhyllst slíka greiningu á stöðu og hlutverki þess sem oft er nefndur «verkalýðsaðall». Og mér finnst að heift og ósáttfýsi a.m.k. hluta af skrifstofuliði Eflingar í garð nýju forustunnar frá 2018 sé staðfesting á að slík greining hafi mikið til síns máls. Heiftin stafar m.a. af því að «nýir vendir» róttæklinga ógna sérhagsmunum fólks í skrifstofubákninu og öllu starfsumhverfi. Valdabandalög og samtrygging í hreyfingunni/stofnuninni bætast þar við.


Endurkoma og mikið í húfi

Síðan er blásið er til stjórnarkjörs í Eflingu á ný. Framboðin urðu þrú. Skömmu áður en framboðsfrestur rann út steig Sólveig Anna fram á ný, nú í forustu fyrir Baráttulistanum. Ásamt Michael Braga Whalley skrifar hún grein á Vísi, og tilgreinir ástæður framboðs: einkum og sér í lagi góðan árangur hennar og hennar fólks í að reka og skipuleggja hagsmunabaráttu. Aðferðir og tól baráttusinna hafa virkað vel fyrir hina mörgu félagsmenn. Þau skrifa:2

„Stærsti lærdómurinn af baráttu Eflingarfélaga síðan 2018 er þessi: Árangur í kjarabaráttu næst þegar félagsfólk sjálft er fjölmennt, stendur saman og þorir að stíga fram. Við viljum taka sæti í stjórn Eflingar til að standa vörð um þessi beittu og máttugu vopn. Reynslan hefur sýnt að þessi vopn skila okkur árangri og þau má aldrei taka af okkur. Þess vegna bjóðum okkur fram til stjórnar Eflingar með félögum okkar á B-listanum í komandi stjórnarkosningum.“

Endurskipulagning baráttuaflanna í Eflingu er afar mikilvæg. Bæði fyrir félagsfólk Eflingar og fyrir hið brýna og breiða endurreisnarstarf í verkalýðshreyfingunni. Endurkomu Sólveigar Önnu og félaga er tekið með talsverðum skítmokstri úr ráðandi fjölmilum og líka með leðjuaustri úr skrifstofuveldi alþýðusamtakanna. En endum þetta á að tilgreina viðbrögð tveggja lykilmanna í verkalýðsbaráttunni.

Ragnar Þór Ingólfsson bloggar:

„Stórfréttir innan verkalýðshreyfingarinnar. Sólveig Anna tilkynnir framboð til formanns Eflingar... Eftir brotthvarf Sollu úr formannsstóli Eflingar myndaðist tómarúm innan hreyfingarinnar. Tómarúm sem virðist hafa glætt nýju lífi í SALEK samkomulagið sem er ætlað að draga úr vægi verkalýðshreyfingarinnar og getu hennar til að sporna við yfirgangi fjármagns og valda í íslensku samfélagi. Fyrsti vísirinn er nú þegar að raungerast með meingölluðum starfskjaralögum sem fela í sér mikla afturför í réttargæslu fyrir vinnandi fólk og stjórnarsáttmála sem felur í sér að færa völd frá stéttarfélögum til ríkissáttasemjara... Ég fagna framboði Sólveigar og hennar flotta og kraftmikla fólki.“

Vilhjálmur Birgisson, hinn staðfasti formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifar um framboð Sólveigar Önnu: 3

„...höfum við verið 100% samherjar í að hafna öllum áformum sem lúta að svokölluðu Salek samkomulagi sem byggist á að skerða og takmarka frjálsan samnings- og verkfallsrétt launafólks eins og áður hefur komið fram. Trúið mér það er raunveruleg hætta á að slíkt gerist og því skiptir máli að hún fái góða kosningu... Eitt verður ekki tekið af Sólveigu Önnu að hún er gegnumheil hugsjónarmanneskja er lýtur að því að vilja berjast til síðasta blóðdropa við að bæta og lagfæra kjör lágtekjufólks. Henni tókst á þessum árum sem hún var formaður Eflingar að vekja þetta stóra og öfluga stéttarfélag af þyrnirósa svefni og gerði það að alvöru stéttarfélagi, um það er ekki einu sinni hægt að deila!“

Friday, November 26, 2021

Stríðið í Eflingu

(Birtist á Neistum 4. nóvember 2021)

Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.

Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.

Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.

Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?

Thursday, September 23, 2021

Hvað um Sósíalistaflokkinn?

 

(Birtist á Neistum  8. september 2021)

Ég er sósíalisti. Ég er í Alþýðufylkingunni en hún býður ekki fram í ár. Það gerir hins vegar Sósíalistaflokkur Íslands (SÍ). Flokkurinn hefur náð athyglisverðum árangri með málflutningi sínum. Að íslenskur flokkur sem kennir sig við sósíalisma hafi 8% stuðning eru tíðindi. Maður verður að taka afstöðu til slíks framboðs.

Baráttustefna SÍ

Það er ljóst að við í Alþýðufylkingunni eigum samstöðu með SÍ í mörgum málaflokkum. Mest um vert er að SÍ hefur sett á dagskrá endurreisn verkalýðsbaráttunnar, og komið með stéttahugsun og stéttabaráttu aftur í hina pólitísku orðræðu. SÍ hefur sett fram framsæknar umbótakröfur í mörgum málaflokkum, nefna má húsnæðismál, skattamál, heilbrigðismál, sjávarútvegsmál, félagslegar lausnir í stað markaðslausna (afstaðan gegn nýfrjálshyggju er alveg afdráttarlaus) – og flokkurinn kennir sig við sósíalisma. Þess er að vænta að slíkur flokkur sé bandamaður Alþýðufylkingarinnar í stéttabaráttunni oftar en aðrir flokkar.

SÍ heyr kosningabaráttuna af krafti. Það er athyglisvert að hún hefur einkum farið fram á samfélagsmiðlum – og þar er framleiðnin mikil – en smám saman einnig í öðrum fjölmiðlum. Það er ekkert leyndamál, og blasir við, að Gunnar Smári Egilsson er helsti áróðursmaður flokksins. Hann er mælskur og öflugur áróðursmaður, ennfremur býsna glúrinn og skarpur pólitískur greinandi – og skoðar mál mjög oft frá stéttasjónarmiði sem er vissulega kostur á sósíalista.

En það eru göt og eyður í stefnu og störf SÍ. Þar vantar atriði sem hreint ekki má vanta. Raunar er ekki hægt að tala um neina stefnuskrá flokksins, frekar lista aðskildra stefnumála sem lesandinn þarf að raða saman til að fá heildarstefnu. Eftirfarandi gagnrýni beinist fremur að langtímastefnu (eða stefnuleysi) flokksins en stefnu og málflutningi hans í einstökum kosningamálum.

Sósíalismi?

SÍ kallar sig sósíalískan flokk. Allt bendir þó til að hann berjist fyrir umbótum á kapitalismanum fremur en afnámi hans, að stefna hans sé innan ramma kratískra umbóta fremur en byltingarsinnaður sósíalismi. Lítt hefur verið skilgreint hvað felst í þessum „sósíalisma“. Ekki er í neinum stefnuplöggum minnst á sósíalískt þjóðfélag, valdatöku framleiðenda, eign þeirra á framleiðslutækjum, valdaafnám auðstéttarinnar eða slíkt.

Thursday, June 18, 2020

Bandaríkin: Stéttaandstæður þungvægari en rasismi

(birtist á Neistum.is 12. júní 2020
 
Í mótmælaólgunni miklu í Bandaríkjunum eftir dráp lögreglunnar á George Floyd í Minneapolis felst augljóslega gríðarmikil grasrótaruppreisn gegn ríkjandi kerfi. Sterk öfl reyna þó mjög að koma því til leiðar að broddur mótmælanna sneiði framhjá valdakerfi bandaríska auðvaldsins. Hér verða settar fram nokkrar ályktanir um mótmælahreyfinguna.

 

Rasismi – ofbeldi – misskipting

rasismi
Frá kynþátta- og stéttaátökum í Chicago 1919
  • Í Bandaríkjunum eru svartir hlutfallsega miklu oftar drepnir en hvítir.
  • Svartir íbúar í Bandaríkjunum eru að jafnaði miklu fátækari en hvítir og hafa verið það allt frá dögum þrælasölu og þrælahalds.
  • Í bandarískum fangelsum eru 33% vistmanna svartir, sem er nærri þrefalt hlutfall þeirra af þjóðinni (12%).
  • Ofbeldisglæpir í Bandaríkjunum eru mjög bundnir fátækrahverfum borganna. Þar búa hlutfallslega margir svartir.
  • Blökkumenn sem drepnir eru í BNA eru langoftast drepnir af öðrum blökkumönnum.
  • Þeir sem drepnir eru í Bandaríkjunum – af lögreglu og öðrum – eru fátækir.
Þessi tölfræði er tiltölulega óumdeild. En ef út frá henni er reiknuð sú rökrétta niðurstaða að aðalvandi Bandaríkjanna sé stéttaandstæðurnar væri slík fullyrðing fáséð í stóru fjölmiðlunum. Fátækt á þriðjaheimsstigi er útbreidd í þessu ríkasta landi heims þar sem auðurinn safnast á fáar og sífærri hendur með hverju ári. Rasisminn þar í landi er ærinn en stéttaandstæðurnar eru þó miklu þungvægari og meira böl.

Af fréttum frá BNA má skilja að grundvallarvandamál samfélagsins vestan hafs sé rasisminn og hann er skoðaður sem sjálfstætt og einangrað þjóðfélagsböl. Í því formi er kynþáttavandamálið raunar notað í stjórnmálabaráttunni í BNA.

 

Sunday, July 8, 2018

Flokkur og samfylking. Ráð Brynjólfs Bjarnasonar



                                                      Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratauga baráttu
Ris og hnig í stéttabaráttunni
Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum... Í harðvítugum verkföllum og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega. Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og inngöngunni í NATO.
Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og hætti afskiptum af stjórnmálum.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu slík umskipti?

Frá verkalýðsflokki til kosningaflokks
Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970:  „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar... einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað 1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega fullnustaður 1968.
Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við stofnuðum til á sjötta áratugnum... Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru ekki nægilega ljós“ (57).
Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli. Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.

Árið 1962
Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt.

Saturday, November 10, 2012

Stéttabaráttuflokkar og blóðsuguflokkar


(Birtist á Eggin.is 1. október 2012)

Nýlega voru nokkri róttæklingar norðan lands á fundi. Þar kom fram vilji til að hraða sér að stofna flokk, flokk sem gæti boðið fram í vor. Lögð voru fram nokkur stefnumál fyrir vinstri flokk, yfirleitt góð og gild umbótamál og græn mál, málin sem VG sveik og fleira í þeim dúr. Stefnumál sem fara þó ekki út fyrir ramma kapítalismans. Vésteinn Valgarðsson  segir sig úr VG og segir í úrsögninni að Ísland þurfi sósíalískan flokk. Hann útskýrir þó ekki hvað í því felst, enda greinagerðin stutt..

Ég hélt því fram á fundinum að við þyrftum ekki enn einn „vinstri“ flokkinn heldur byltingarsinnaðan flokk sem a) berst fyrir byltingu, afnámi auðvaldskerfisins (þ.e.a.s. afnámi efnahagskerfis einkaeignar á atvinnutækjunum) og b) berst jafnframt fyrir umbótum innan ríkjandi þjóðskipulags en ekki eftir leið þingpallabaráttu og stjórnarþáttöku heldur setur sér það meginverkefni að leiða og skipuleggja fólk í stéttabaráttunni.

Friedrich Engels skrifaði árið 1884 (í „Uppruni fjölskyldunnar, einkaeignarinnar og ríkisins“) að almennur kosningaréttur gæti aðeins verið mælikvarði á pólitískan þroska verkalýðsstéttarinnar. Það er rétt hjá honum. Borgaralegt þingræði er bærilegra fyrir almenning en nakin kúgun, en þingræðið er dulargerfi, það er hula lýðræðis utan um arðrán og stéttardrottnun. Í því liggur slævandi styrkur þess.

Hugmyndin um þinræðislega leið til alþýðuvalda er blekking. Vald auðstéttarinnar byggist á tvennu: í fyrsta lagi á yfirráðunum yfir auðmagninu og í öðru lagi á yfirráðum yfir ríkisvaldinu – her, lögreglu, emættismannakerfi auk þjóðþings – sem er tæki stéttardrottnunar og samofið eignakerfi atvinnulífsins, en ríkið þykist standa fyrir ofan og utan stéttirnar. Þetta ríkisvald verður aldrei vald í höndum fólksins. Hins vegar býr alþýðan yfir valdi. Það er fólgið í samtakamætti, hinu samstillta átaki, hinni stéttarlegu samþjöppun sem auðvaldsþróunin hefur framkallað. Marx ritaði: „Einu frumskilyrði sigursins ráða verkamennirnir yfir: mannfjöldanum, en fjöldi er því aðeins afl að hann sé sameinaður í samtökum og láti stjórnast af reynslu og þekkingu. (Marx/Engels, Úrvalsrit II, 215) Alþýðuna vantar stjórnmálaafl sem setur sér þetta hlutverk: „að finna, í samfélaginu sem er umhverfis okkur, öflin sem geta – og, vegna félagslegrar stöðu sinnar, verða – að mynda það afl sem getur svipt burt því gamla og skapað það nýja, og að upplýsa og skipuleggja þessi öfl fyrir baráttuna.“ (Lenín: „Þrjár rætur og þrír þættir marxismans“, Eggin, vefrit um samfélagsmál 25. sept)

Þingpallaleiðin er blekking. Í fyrsta lagi er hún hættuleg. Ef róttækir sósíalistar gerast áhrifamiklir og ógna þjóðfélagslegu valdi og eignum borgarastéttarinnar lætur hún af lýðræðistilburðum og beitir valdi miskunnarlaust. Dæmin eru mörg og blóðug: Indónesía 1965, Grikkland 1945-46 og aftur 1967 og Chile 1973 eru nokkur.

Þar að auki er þingpallaleiðin ekki neinum umbótum til framdráttar. Raunar er besta aðferðin til að drepa hreyfingu kringum ákveðið málefni að gera málefnið að framboðsmáli til Alþingis og flokksmáli, eða beinlínis stofna kringum það flokk.

Nokkur dæmi:
1.     Vakning um kvenfrelsun og jafnréttismál. Þar var mikil hreyfing um og upp úr 1980, með miklu grasrótarstarfi. Eftir að Kvennalistinn eignaðist þingmenn yfirtók hann málefnið, gerðist hefðbundinn þingpallaflokkur, og almennar baráttukonur máttu fara heim og leggja sig. Upp á síðkastið hefur þróun til launajafnréttis mjög hægt á sér eða stöðvast, klámvæðing sótt í sig veðrið o.s.frv.

2.     Samtök um þjóðareign var öflug hreyfing byggð á andstöðu við kvótakerfið, framseljanlegan kvóta o.s.frv. Hún hafði með sér sjómenn og minni útgerðarmenn vítt um land. Árið 1998 var Frjálslyndi flokkurinn stofnaður um málið. Baráttunni var veitt í þingpallafarveg. Þar með varð þessi andspyrna að flokksmáli sem varð smám saman til að drepa eða gera óvirka þá hreyfingu sem var fyrir hendi í þessu risastóra hagsmunamáli alþýðu vítt um land.

3.     Íslandshreyfingin var hreyfing gegn stóriðjustefnunni sem grasseraði á þenslutímanum upp úr 2000, og andastaðan gegn henni óx líka mjög. Hreyfingin átti sinn hápunkt þegar hún safnaði 15 000 manns í mótmælagöngu niður Laugaveg árið 2006. Þessi hreyfing og málefnið var svo gert að flokksmáli. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna sem flokk og fékk 3% í kosningum 2007. Flokkurinn komst ekki inn á þing og dó þar með. En í raun var það VG sem náði að gera andstöðu við stóriðjustefnuna að flokksmáli sínu. VG var nánast eins máls flokkur þessi ár þegar Kárahnjúkaframkvæmdir voru undirbúnar og framkvæmdar. Flokkurinn tók að sér að stöðva stóriðjustefnu og einkavæðingu í orkugeira m.m. ef hann fengi þingstyrk og kæmist í stjórn – og hann sópaði að  sér fylginu. En var að vanda gagnslaus við að skipuleggja grasrótarbaráttu. Fjöldahreyfingin lognaðist smám saman út af. Síðan fór flokkurinn í ríkisstjórn og stóriðjustefna stjórnvalda hélst lítið breytt.

4.     Í Búsáhaldabyltingunni flæddu íslensk stjórnmál og stéttaátök um stundarsakir út úr hinum löggilta, þingræðislega og snyrtilega farvegi sem valdakerfið hefur veitt þeim í. Almenningur steig fram á sviðið, fólk hegðaði sér allt öðru vísi en venjulega, fór út á götur og torg, fór í samstilltar aðgerðir. Gerði m.a.s. tilkall til valda í landinu. Grasrótarbarátta fór af stað í skuldamálum heimila, Icesave-málum m.m. Enn sem áður vantaði þó stjórnmálaafl sem gat tekið forustu og skipulagt slíka stéttabaráttu fram á við. Það voru hins vegar vinstri kratar og hentistefnumenn sem riðu á bylgjunni í bland við ýmsa aðgerðarsinna sem ekki höfðu neina sameiginlega stefnu. Stjórnmálaflokkurinn Borgarahreyfingin varð til og bauð fram til þings. VG tók Lilju Mósesdóttur í öruggt sæti og fleira búsáhaldafólk neðar. Í komandi kosningabaráttu og áfram færðist öll þungamiðja baráttunnar inn í þingið og almennt búsáhaldalið mátti fara heim og leggja sig.

Þeir þingpallaflokkar sem hér voru nefndir hafa sjálfsagt talið sig vera í andstöðu við ríkjandi kerfi. En þeir haga sér allir eins. Þeir leiða ekki andstöðuna (hvort sem það er skipuleg hreyfing eða óskipuleg ólga) heldur leggjast á hana og sjúga úr henni blóðið. Af því fitna þeir rétt á meðan viðkomandi andstaða/hreyfing er að  tærast upp. Síðan veslast þeir upp sjálfir nema þeir finni aðra andstöðu til að blóðsjúga. Svona virkar þingræðiskerfið – eins og því er ætlað að virka.

Rétt er að taka fram að VG getur ekki lengur kennt sig við kerfisandstöðu. Enginn flokkur fær að fara í ríkisstjórn nema hann ábyrgist að tryggja auðvaldinu ásættanlega arðsemi. Það hlutverk hefur VG gengist inn á. Bless VG.

Við verðum að viðurkenna að hugmyndin um grasrótarbaráttuna, það að „finna, upplýsa og skipuleggja“ mótaflið í samfélaginu stendur enn veikt á Íslandi. Jafnvel vinstri menn sitja mest og mæna á bramboltið og tilburðina á Alþingi – eins og málin ráðist þar. Þar við bætist að lítið hefur enn gerst í því að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu. Á meðan brennur Róm. Kapítalisminn sem á sínum tíma var framfaraskref frá stöðnuðu stigveldi lénskerfis hvílir nú sem ægilegt farg á herðum mannkyns og boðar fyrst og fremst eyðingu. Tíminn æpir á byltingarsinnaðan valkost, á Íslandi sem annars staðar.

Ég mæli ekki gegn þáttöku í þingkosningum. En það getur aldrei verið nema ein hlið starfsins af mörgum og alls ekki sú mikilvægasta. Mér finnst ekki liggja á að stofna flokk, því síður framboðskláran flokk. Eðlilegt milliskref er að stofna hreyfingu eða samtök sem temja sér nýjar aðferðir í pólitísku starfi, í anda þess sem hér hefur verið skrifað. Og eitt verkefni blasir við: Koma verður upp umræðuvettvangi fyrir róttæklinga varðandi það stjórnmálaafl sem beðið er eftir. Þessi grein er lítið innlegg þar í.

Nokkurs konar kommúnistaávarp 1. maí


(Birtist á Eggin.is 1. maí 2012)

Kreppan byrjaði sem sprungin fjármálabóla sem hefur þróast yfir í skuldakreppu æ fleiri ríkja eftir að þau ábyrgðust skuldir banka. Orsakir hennar eru þó innri andstæður framleiðslukerfisins. Hún er í eðli sínu kapítalísk offramleiðslukreppa. Marx skilgreindi á sínum tíma hvernig þenslueðli kapítalismans rekst óhjákvæmilega á arðránseðli hans. Sú móthverfa er þar enn jafn óleyst.
Undanfarna áratugi hefur stöðnun kapítalismans sagt meira og meira til sín. Núverandi kreppa er sú dýpsta eftir stríð og dýpkar enn. Atvinnuleysistölurnar hækka, árásirnar á kjör almennings harðna, velferðin er skorin og skorin meira. Kreppan gerir heimsvaldasinna enn herskárri. Þeir reyna að tryggja með valdbeitingu það sem ekki vinnst með peningavaldinu einu. Fremst í þeim flokki standa Bandaríkin og evrópskir bandamenn þeirra.
Kreppan skall snemma og harkalega á Íslandi vegna ofvaxtar fjármálakerfisins. Sá ofvöxtur átti rætur í sömu andstæðum framleiðslukerfisins og í samdrætti í innlendum frumframleiðslugreinum og iðnaði. Vinstri flokkarnir nýttu sér kreppuna – til að taka við stjórnartaumum. Fyrsta „hreina vinstristjórn“ lýðveldistímans varð til.
Margur maðurinn taldi að nú yrði gagnger breyting á efnahags- og valdakerfinu á Íslandi. Fyrst eftir fjármálahrunið var það útbreidd skoðun vinstri manna að frjálshyggjan væri á leiðinni á öskuhaug sögunnar og „félagsleg gildi“ yrðu leidd til öndvegis. Það gerðist ekki. Í staðinn var endurreisninni stýrt af helsta fánabera frjálshyggjunnar á heimsvísu, AGS, sem þótti reyndar framganga íslenskra stjórnvalda til fyrirmyndar, enda forgangsverkefnin í anda sjóðsins: endurreisn fjármálakerfisins og mikill niðurskurður ríkisútgjalda. Ekki var ráðist gegn ríkjandi eignarhaldi eða rekstrarháttum á neinu sviði. Þvert á móti. Einkavæðingin heldur áfram.
Samfylkingin var í „hrunstjórninni“ og reyndar alla tíð mjög bendluð við kratíska markaðshyggju og einkavæðingu, svo ímynd hennar var löskuð. VG var hins vegar talinn róttækur hugsjónaflokkur, og ómengaður. Ekki lengur. Forusta hans samsamar sig nú íslenska efnahags- og valdakerfinu svo rækilega að vandlæting hennar beinist einkum að þeim sem keyrðu kerfið „út af sporinu“. Í þeim anda hafði VG umfram aðra flokka frumkvæði að því að kæra ráðherra úr fyrri ríkisstjórn fyrir Landsdómi.  Með tilvísun til „ráðherraábyrgðar“ er bankakreppan skoðuð sem „klúður“ og „mistök“.
Þessi kerfis-samsömun „vinstri foringjanna“ er til þess gerð að fá alþýðu til að samsama sig kerfinu líka. Endurreisn kerfisins, umfram allt fjármálakerfisins, er kölluð endurreisn „samfélagsins okkar“. Og nú hafa stjórnvöld öfluga píska á hendi. Þau vísa til „ástandsins“. „Ástandið“ er því miður svona slæmt. Engir peningar til. Allir verða að axla sinn skerf af „ástandinu“. Það er jafnaðarmennska! Það er fullkomið ábyrgðarleysi fyrir almenning að gera nú kröfu um eitt né neitt.
Kúgunarkerfi auðvaldsins er orðið mjög fullkomið þegar gamlir verkalýðsforingjar eins og Jóhanna Sigurðardóttir (áður formaður Flugfreyjufélagsins) og Ögmundur Jónasson (áður formaður BSRB) fá þessar „ástands“-svipur í hönd og láta þær ganga á bökum alþýðu – og taka síðan niðurskurðarhnífana.
Auðvaldskreppan birtist fólki eins og umferðarslys eða lestarslys. Lestin er efnahagskerfið. Auðstéttin og ráðandi auðblokkir ætlast til þess að stjórnvöld velti kreppunni yfir á almenning og vinni svo að því að koma lestinni „á sporið“ aftur. Kreppan vekur reiði sem beinist að stjórnvöldum. Almenningur er til alls vís. Gömlu andlitin í stjórnkerfinu eru rúin trausti. Það er sigurstranglegt fyrir auðstéttina að fá vinstri menn og alþýðusamtök til að taka ábyrgð á kerfinu (og utanaðkomandi „fagaðila“ eins og AGS). Þá kemur alþýða síður vörnum við heldur en ef kjaraskerðingarnar eru framkvæmdar af íhaldsöflunum og hefðbundnum auðvaldssinnum.
Fátt af  þessu er í raun séríslenskt. Frá því um 1980 eða svo hafa flestir stjórnmálaflokkar kenndir við vinstrimennsku og alþýðu lagt alveg á hilluna sósíalíska baráttu og gengið efnahagskefi og stjórnmálakerfi auðvaldsins á hönd. Þegar kreppan nú ríður yfir og auðvaldskerfið sýnir grímulausan ljótleika sinn kemur í ljós algjör skortur kratismans á þjóðfélagslegum valkosti og hann fær þetta snatthlutverk fyrir auðvaldið sem hann hefur á Íslandi nú um stundir.
Í íslenskri verkalýðshreyfingu eru mestu ráðandi sömu stjórnmálaöfl og í landsstjórninni. Verkalýðsforingjarnir undirgangast leikreglur íslenska auðvaldskerfisins, sammála því að horfa verði til hins erfiða „ástands“ og ganga í það að friða almenning gagnvart hinum harkalegu kjaraskerðingum. Nöturlegur veruleikinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing er í gíslingu auðstéttarinnar.
Það ástand hlýtur að vera tímabundið. Það er áhugavert að bera stöðuna nú saman við síðustu stóru kreppu, á 4. áratug 20. aldar. Þegar kreppan skall á Íslandi voru sprækir hópar kommúnista og vinstri sósíalista nýkomnir fram á sjónarsviðið og starfandi innan samtaka alþýðu. Þeir sögðu einfaldlega að kreppa auðvaldsins væri ekki þeirra kreppa. Síst af öllu mátti alþýðan draga úr kröfum og baráttu vegna hennar. Þvert á móti var kreppan tilefni til að herða baráttuna fyrir kjarabótum – og öðru þjóðskipulagi. Róttæklingarnir tóku forustu í alhliða stéttabaráttu, verkalýðshreyfingin treysti á samtakamáttinn og náði að stórefla sig á þessum kreppuárum. Forustumönnum kommúnista hefði seint dottið í hug að fara í dómsmál við Tryggva Þórhallsson og Jónas frá Hriflu fyrir að valda kreppunni.
Þörfin fyrir þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið verður æpandi í kreppunni. Eftir fall fyrstu kynslóðar sósíalsískra ríkja er margt óljóst um það hvernig sá valkostur mun líta út. Hitt er þó ljóst að ekki er lengur búandi við þjóðskipulag sem byggir á einkaeignarrétti á framleiðslutækjum og hefur gróðasóknina sem gangvél. Það leiðir okkur aðeins lengra út í afmennskun samfélagsins og hnattrænt barbarí.

Tvö meginatriði. Í fyrsta lagi: Verkalýðshreyfing sem ekki á sér þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið er og verður í gíslingu. Í öðru lagi: Launafólk og róttæk alþýða má ekki skoða núverandi vinstri flokka í landinu sem velmeinandi en skeikula bandamenn heldur það sem þeir eru, verkfæri auðvaldsins. Þeir eru meginstoðir í valdakerfi auðstéttarinnar í landinu.

Hvernig flokk þurfum við?



(Ræða á ráðstefnu Rauðs vettvangs 11. okt. 2009, lítillega aukin og endurbætt. Birtist á eggin.is 28. okt. s. á.) 

HVERNIG FLOKK ÞURFUM VIÐ? Því verður að svara með hjálp annarrar spurningar: TIL HVERS Á AÐ BRÚKA HANN?
BRÝNASTA VERKEFNIÐ hlýtur að vera þetta: Að hjálpa íslenskri alþýðu að verja sig gegn núverandi árásum, skipuleggja vörnina, og mögulega sókn. Það er ekkert stjórnmálaafl í landinu sem gerir það svo gagn sé að.
EN TIL LENGRI TÍMA? Hvaða framtíðarsýn höfum við? Kannski vitum við það ógjörla en vitum þó að nú er rétti tíminn til að ræða einmitt það. Ég held við vitum líka hvað við viljum ekki.  Ég tel víst að flest okkar hér inni séum sammála um að við viljum ekki auðvaldið. Auðvaldið sem ræður ríkjum, vald peninganna, vald markaðarins, auðræði, altækt vald og alls staðar nálægt eins og guð.