Thursday, November 21, 2019

Samherji varla sértilfelli

(Birtist  á Neistum 20 nóvember 2019)


Ekki skal fella dóma fyrirfram í máli Samherja í Namibíu. En þáttur Kveiks og umfjöllun Stundarinnar um málið sýndist vel unnin, trúverðug og áhrifamikil. Málið er stórt hneykslismál í Namibíu ekki síður en hér og ráðherrar segja af sér svo það snýst áreiðanlega um raunverulega hluti. Hvað sem sannað verður um lögbrot og sekt í einstökum dæmum segir málið heilmikla sögu, m.a. um auð og arðrán, völd og valdaleysi.

Eftir því sem meira rúllast upp þetta mál mun íslenska eignastéttin kappkosta betur að stilla utanlandsrekstri Samherja upp sem algeru sértilfelli.

Ég er hvorki sérfóður um Namibíu né Samherja. En ég vil setja fram þá tilgátu að þær rekstraraðferðir Samherja í Namibíu sem kynntar voru séu e.t.v. ekki ýkja afbrigðilegar. Og að aðalatriði málsins sé ekki spilling. Fremur séu þessi Samherjarekstur í Afríku DÆMIGERÐUR. DÆMIGERÐUR kapítalismi. DÆMIGERÐ heimsvaldastefna. Og að hann endurspegli ríkjandi efnahagskerfi heimsins í dag (Íslands þar með).


Hið kapítalíska
DÆMIGERÐUR kapítalismi. Kapítalisminn byggir á gróðasókn – gróðasóknin er driffjöður kapítalismans. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Gróðinn er jákvæður segja menn – en græðgin er vond. Slík afstaða verður tvískinnungur af því gróðasókn sem aðaldriffjöður efnahagslífs hlýtur að leiða af sér græðgi. Þegar talað er um „spilltan kapítalisma“ er látið í veðri vaka að „sannur“ kapítalismi sé siðavandur. Sem hann hefur aldrei verið. Það er eðli hlutfjár að leita að hámarksgróða. Fyrirtæki með 5% arðsemi 2,6-faldar heildarfjármagn sitt á 20 árum en fyrirtæki með 10% arðsemi 6,7-faldar það. Þess vegna leitar hlutaféð á markaðnum skiljanlega yfir í 10%-fyrirtækið en 5% fyrirtækið dettur út. Í kauphöllinni er fyrst og síðast spurt um arðsemi, ekki aðferðir í rekstrinum eða samfélagslega nytsemd. Sá kapítalisti sem nær mestum arði út úr starfsmönnum sínum verður sigurvegari. Útkoman er m.a. eignasamþjöppun.

Aðferðir Samherja endurspegla ríkjandi frjálshyggjukapítalisma. Íslenskur sjávarútvegur var markaðsvæddur í upphafi nýfrjálshyggjubyltingar á Íslandi. Þegar aflaheimildir voru gerðar framseljanlegar og veðsetjanlegar 1990 fól það í sér einkavæðingu miðanna. Með því var útgerðin í reynd frátengd samfélaginu: líf og dauði sjávarbyggða réðist á hlutabréfamarkaðnum. Einkavæðing auðlinda árið 1990 var líka DÆMIGERÐ fyrir tíðaranda þess tíma. Margrét Thatcher var enn við völd, framstormandi nýfrjálshyggja á Vesturlöndum og hrynjandi sósíalismi. Markaðsvæðing sjávarútvegs leiddi á skömmum tíma til gríðarlegrar eignasamþjöppunar.

Samþjöppun er eitt af lögmálum kapítalismans. Samþjöppunin í íslenskum sjávarútvegi var hröð, en hún var lögmálsbundin kapítalísk þróun. Hún var DÆMIGERÐ í okkar heimshluta – og íslenskir kapítalistar telja hana mjög árangursríka. DÆMIGERÐ já, en hafði séríslenskt form, kvótakerfið var það form, með framseljanlegum kvóta og söfnun aflaheimildanna í örfá stórfyrirtæki.

Úr þessari keppni kom Samherji stærstur. Þar stjórna harðdrægir fjáraflamenn. Þeir hafa náð meiri arði út úr starfsfólki sínu en aðrir og orðið eitt stærsta útgerðarfyrirtæki í Evrópu. Harðdrægir en ekkert sértilfelli, DÆMIGERÐIR sigurvegarar líklega frekar. Kunna „the name of the game“. Harðdrægnin hefur ekki verið lögð fyrirtækinu til lasts af eftirlitskerfinu. Matsfyrirtækið Creditinfo útnefndi Samherja í efsta sæti „framúrskarandi fyrirtækja“ á Íslandi bæði árið 2017 og 2018!

Sunday, November 17, 2019

Auðmannavæðing og alþjóðavæðing landeigna

(birtist á Neistar.is 8. nóvember 2019)
                                                   Jim Ratcliffe skoðar nýjar landeignir


Landakaup erlendra stóreignamanna
Uppkaup erlendra stóreignamanna á íslensku landi vekur kurr í samfélaginu. Sigurður Ingi Jóhannson segir að endurskoða þurfi lög um jarðeignir útlendinga og setja „stífa umgjörð um jarðamál“. Slík orð hafa svo sem heyrst áður, en fátt gerist – og á meðan er landið áfram selt í bútum.
Í sveitinni minni fyrir norðan var innsti bærinn nýlega seldur Ameríkönum (Eleven Experience) sem þegar eiga margar jarðir í Fljótum og Tröllaskaga og stunda þar hótelrekstur, þyrluskíðaferðir, vélsleðaferðir og laxveiði. Stærri í sniðum er landssalan kringum breska félagið Halicia í eigu breska auðjöfursins Jims Ratcliffe. Sjónvarpsþátturinn Kveikur 5. nóvember fór skilmerkilega í gegnum hina skyndilegu og stórtæku eignamyndum hans á Norðausturlandi.
Ratcliffe keypti fyrstu jörðina snemma árs 2016 og skömmu síðar keypti hann Grímsstaði á Fjöllum. Síðan hefur hann fyrst og fremst keypt jarðir með veiðiréttindi í bestu laxveiðiám Vopnafjarðar og Þistilfjarðar en einnig jarðir sem liggja að Finnafirði í Bakkaflóa (stórskipahöfnin). Á árunum 2017-18 sótti félag hans ört fram, hann keypti m.a. jarðir Jóhannesar Kristinssonar viðskiptafélaga síns (félagið Grænaþing og fleiri félög). Og á árinu 2019 hefur hann enn hert róðurinn: „Svo Jim Ratcliffe á nú meirihluta í 30 jörðum, sem er rúmlega tvöfalt meira en í ársbyrjun í fyrra. Að auki á hann minnihluta í níu jörðum...“ [Stærð landsins er upp á] „...1400 til 1500 ferkílómetra, sem er um 1,4% af flatarmáli Íslands. Það er meira en 17 sinnum stærra en Þingvallavatn“, sagði Tryggvi Aðalbjörnsson hjá Kveik. Samt hefur maðurinn ekki eytt í jarðakaupin nema rúmlega helmingi af verði einkaþotunnar sem hann flýgur á til landsins!


Orð og gjörðir stjórnvalda í austur og vestur
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar: Sigurður Ingi hefur kallað eftir „stífri umgjörð um jarðamál“. En hverjar eru aðgerðir stjórnvalda í málinu? Lítið hefur farið fyrir þeim, annað en frumvarp frá landbúnaðarráðherra í október sem, ef það yrði að lögum, „myndi takmarka atkvæðarétt umsvifamikilla landeigenda í veiðifélögum“. Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Halicia segir að vísu að þau lög beinist sérstaklega gegn Ratcliffe. En ekki virka þau sérlega ógnandi. Sjá umfjöllun Kveiks
Meðan orð snúa í austur snúa gjörðir í vestur. Vísir skrifar: „Ratcliffe og Hafrannsóknarstofnun undirrituðu samkomulag um miðjan ágúst um rannsókn, sem er að fullu fjármögnuð af Ratcliffe. Rannsóknin nær til nýrra sviða vistfræði og hegðunar laxins.“ Sem sagt, samtímis þessum nasablæstri ráðherra (annars ráðherra) gegn (erlendum) stóreignamönnum gerir Hafrannsóknarstofnun samstarfssamning við þann langstærsta meðal þeirra. Og samkvæmt lögum heyrir Hafrannsóknarstofnun undir sjávarútvegsráðherra, sem líka er landbúnaðarráðherra! Getur þetta með nokkru móti boðað einhverja stórsókn gegn landsölustefnunni?
Land, vatn, veiðihlunnindi og önnur náttúrugæði eru sívaxandi að verðgildi í veröldinni og þróunin í okkar heimshluta er ennþá í átt til markaðsvæðingar og einkavæðingar þeirra. Hér á landi gengur þetta í skrefum: Markaðsvæðing fiskimiðanna og söfnun kvótans á örfáar hendur, nýleg skref tekin til einkavæðingar orkunnar – við munum Magma-ævintýrið – og við sáum Alþingi undirgangast orkustefnu ESB og þar með markaðsvæðingu raforkunnar, uppskiptingu orkufyrirtækja m.m., með orkupökkunum. Sala lands á evrópskum markaði er hluti af sömu þróun. Skref fyrir skref.


Breytileg lög um eignarhald á landi
Staðreyndin er að lagaumhverfið okkar býður upp á að landið seljist hæstbjóðanda, innlendum sem erlendum, á evrópskum markaði. Þá er ástæða til að spyrja: Hvernig varð lagaumhverfið svona? Förum aðeins aftar í tímann og skoðum sérstaklega eignarhald á landi.
Yfirráð yfir landi, landgæðum og auðlindum eru snar þáttur í fullveldi ríkja. Þess vegna hafa fullvalda ríki gjarnan sett sér lög um eignarhald á landi, m.a. til að tryggja að það sé í höndum eigin þegna.
Lög hérlendis um eignarhald á landi fylgja lögum um fasteignir. Árið 1919, þegar fullveldið var ungt, voru sett lög um fasteignir á Íslandi: „almenn lög á Íslandi um takmörkun á heimildum erlendra aðila til að eiga fasteignir á Íslandi“ og voru byggð á því, eins og fossalögin frá 1907, að heimilisfesti á Íslandi væri skilyrði fyrir því að menn gætu öðlast eignarrétt eða notkunarrétt á fasteignum hér á landi.“ Sömuleiðis í fasteignalögum frá 1966 var „miðað við íslenskt ríkisfang sem skilyrði fyrir því að mega öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi.“ Sjá lög nr. 19/1966

„EES-samningurinn leiddi okkur til nútímans“
Mestu straumhvörfin urðu með EES-samningnum. Í kjölfar hans gjörbreyttist lagaumhverfið. Sömuleiðis hafði hann grundvallaráhrif á íslenskt atvinnulíf og stjórnmál líka. Fyrsta grundvallarprinsipp samningsins, og grundvallarprinsipp ESB, var frjálsir fjármagnsflutningar yfir landamæri. Hann fól líka í sér rétt erlendra ríkisborgara af EES-svæðinu til að eignast fasteignir og land hérlendis (og auðlindir sem landi fylgja), með tilvísun til reglna um fjármagnsflutninga og reglunnar um að ekki skuli „mismuna á grundvelli þjóðernis“.
Það er staðreynd að í kjölfar EES-samningsins stormaði nýfrjálshyggjan fram í landinu. Áhrif samningsins voru bæði bein, m.a. í lagaumhverfi, og óbein eða hugarfarsleg. Hvers konar hömlur eða takmarkanir á viðskiptum voru nú dæmdar úreltar, markaðshyggjan bauð allsherjarlausnir. Hægrimenn og markaðskratar fóru fyrir, hinir komu á eftir. Ekki held ég því fram að öll frjálshyggjuþróunin hér sé til komin vegna EES-samningsins (markaðsvæðing fiskimiðanna var t.d. þegar komin), en hann auðveldaði sannarlega banksterum og markaðsöflunum sóknina. Með nýfrjálshyggjunni fylgir systir hennar, alþjóðavæðingin.
Í umræðunni um samninginn hafði einmitt verið harður ágreiningur um þau ákvæði er sneru sérstaklega að kaupum útlendinga á landi, og kallað var eftir því (af Hjörleifi Guttormssyni og fleirum) að í þeim efnum yrðu miklu skýrari skorður settar. Niðurstaðan varð samt sú að Ísland opnaðist mjög fyrir erlendu eignarhaldi á jarðnæði.
Þegar Viðeyjarstjórnin var mynduð 1991 stóðu umræðurnar um EES-samninginn sem hæst. Og ekki löngu síðar voru eiginlega allar kröfur Íslands um varanlega fyrirvara við eign erlendra ríkisborgara á Íslandi felldar niður með einni undatekningu: varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi.
Eftir þetta tók mat á löggjöf um viðskipti með land og fasteignir mið af EES-samningnum (enda hefur hann forgang fram yfir þjóðlega löggjöf). Spurt var hvort eldri takmarkanir „ættu stoð í EES-samningnum“. Lagabreytingar voru gerðar í enn frekari frjálsræðisátt árið 1997 (að forgöngu Þorsteins Pálssonar dómsmálaráðherra) með tilvísun til laga um frjálsa fjármagnsflutninga. Og með jarðalögum árið 2004 var bæði rýmkaður réttur útlendinga til landeigna og réttur landeigenda til frjálsra viðskipta án afskipta stjórnvalda. Sjá lög nr. 81/2004 Í athugasemdum við það frumvarp kemur fram að nýmælin þar eigi rætur að rekja til þess að ESA hefði gert athugasemdir við ýmis ákvæði jarðalaga og talið þau brjóta gegn EES-samningnum. Það snerti m.a. búsetuskilyrði. Þing og ríkisstjórn beygðu sig undir þetta, og beygðu sig jafnvel dýpra en þau strangt tekið hefðu þurft að gera. Það var kaldhæðnislegt að ráðherrann sem flutti málið 2004 var Guðni Ágústsson.

Ekkert von á góðu
Með þeim hraða sem verið hefur á umræddri landssölu síðustu misseri gætum við verið að horfa fram á ófélega formgerð landbúnaðar með stóreignastétt landeigenda, að verulegu leyti utan lands, og svo leiguliða þeirra líkt og á 17. öld. Ástandið er þegar orðið óþolandi.
Niðurstaða þróunarinnar sem hér var rakin varð sú að íslensk lög opna nú mun meira á erlenda eign á landi en t.d. lög í ESB-landinu Danmörku þar sem eign á landbúnaðarlandi er háð skilyrðum um búsetu (með undantekningum þó). Slík grundvallarregla væri æskileg. En slík grundvallarregla er þó klárlega ekki „í anda“ EES-samningsins (ekki í anda alþjóðavæðingar). Og ef reynt verður að reisa takmarkanir gegn þessari þróun verður örugglega spurt hvort það „eigi stoð í EES-samningnum“. Neikvætt svar við því er litið alvarlegum augum af ríkisstjórninni, sbr nýlega áróðursherferð ríkisstjórnarinnar um EES. Gerum okkur því engar gyllivonir.

Monday, November 4, 2019

Falsanir OPCW um eiturárásina í Douma

 "Birt á fésbók SHA 4. nóv 2019)
                                             Börn í Douma eftir sk. "eiturárás".




Efnavopnastofnunin, OPCW, falsar upplýsingar til réttlæta loftseytaárásir á Sýrland. Uppljóstrari frá OPCW fór með óbirtar skýrslur OPCW til Wikileaks sem birti þær 23 okt. Yfirlýsingar OPCW þögðu um um klofning í rannsóknarnefndinni varðandi hina dularfullu hólka sem áttu að hafa valdið eiturgasáhrifum í Douma. Þessum hólkum hafði augljóslega ekki verið varpað úr flugvél eins og fréttirar sögðu heldur komið fyrir á jörðu niðri, og Douma var á valdi terrorista. Dr José Bustani, fyrsti aðalforstjóri OPCW, segir að skýrslan vitni um irregular behaviour in the OPCW investigation“. En opinberar yfirlýsingar OPCW voru síðan notaðar til áframhaldandi stríðs gegn Sýrlandi. Og íslenska ríkisstjórnin skrifaði upp á loftskeytaárásir á Damaskus vegna þessa, eins og við munum. Einmitt svona er þetta stríð rekið. Sjá skýrsluna frá Wikileaks.




Saturday, November 2, 2019

Sýrlandsstríðið: innrás sem tapaðist

(birtist á Neistum.is 28. október 2019)

Veður skipast ört í lofti yfir Sýrlandi. Það sem Donald Trump boðaði fyrir tveimur vikum virðist síðan hafa gerst: Hann dregur bandarískan her burt af flestum átakasvæðum Sýrlands. Eftir nokkurra daga reiptog í stjórnkerfinu kom Trump samt aftur fram og útskýrði að herinn ætlaði þó ekki að yfirgefa sýlensku olíusvæðin. Í því sambandi er hann ekki með neitt froðusnakk um „lýðræði og mannréttindi“ í anda Obama, heldur segir hann einfaldlega: „Við höfum tryggt olíuna, og þess vegna munum við halda eftir litlum fjölda bandarískra hermanna á því svæði þar sem þeir [Sýrlendingar] hafa olíuna.“ Trump segist sem sagt hafa „tryggt olíuna“ svo hvorki ISIS né Sýrlandsstjórn komist í hana – og sendir þangað síðan aukinn liðstyrk. Það bendir til einhverrar framlengingar á þessu ránsstríði.

Brottkvaðning bandarísku hermannanna gerðist samhliða innrás Tyrkja („Friðarvorið“) á landræmu sunnan tyrknesku landamæranna 9. Október, sem Erdogan kvaðst ætla að gera að „öryggissvæði“ gegn hersveitum Kúrda. En Trump segist líka hafa komið fram sem „sáttasemjari“, hann hafi samið við Erdogan um að ganga ekki „of hart fram“ gegn Kúrdum. Þá segir hann að útkoman sé sigur fyrir Bandaríkin.

Trump getur vissulega sagt að það samræmist stefnu hans um um „America first“ að draga sig úr „endalausum íhlutunum“ vítt um veröld, að það sé gott fyrir Bandaríkin að losna úr „endalausum stríðum“ sem hafi kostað ríkið 8 billjónir dollara. Hann hefur líka sagt nýlega að stríðin í Írak og Sýrlandi hafi verið „tilgangslaus“ og „byggð á lygum“. Brottkvaðningu úr Sýrlandi er hins vegar mætt með víðtækri gagnrýni úr bandaríska „djúpríkinu“, frá haukum beggja flokka. Þar er Trump fordæmdur fyrir að svíkja bandaríska hagsmuni, svíkja Kúrda og „endurlífga ISIS“. Það hefur blasað við lengi að Bandaríkin eru alvarlega klofin í afstöðunni til Sýrlandsstríðsins. Hernaðariðnaðar-batteríið (military-industrial complex) ræður ennþá „djúpríkinu“ og CIA er nátengd því.


Sochi-samningur og Kúrdaspurningar
Trump talar valdsmannslega en hann er í raun ekki í aðstöðu til að ákvarða neina friðarskilmála í landi sem hann sýnist vera að hröklast út úr. Ef brottkvaðningin er meira en sjónhverfingar. Hins vegar var gerður annar samningur 22. október sl., í Sochi í Rússland, milli Pútíns og Erdógans. Samningsviðræðurnar voru harðar en ákvæðin í þeim samningi eru alveg áþreifanleg: Samkvæmt þeim á Tyrkland að stöðva árás sína á Sýrland. Landræma við landamærin skal vera „öryggissvæði“ þar sem Sýrlandsher mun taka stjórn en Tyrkir og Rússar gæta þess að skilmálum sé fylgt.

Varnarsveitir Kúrda (YPG, hluti af SDF-hernum) verða að hverfa frá landamærunum. Sýrlandsher skal taka stjórn í Norðaustur-Sýrlandi. Einingu og friðhelgi Sýrlands skal virða, öll sundurlimun úr sögunni. Í samningnum frá Sochi er ekki Bandaríkjunum ætlað neitt hlutverk. En reyndar var þar ekki heldur neitt minnst á olíusvæðin.