Saturday, November 10, 2012

Nokkurs konar kommúnistaávarp 1. maí


(Birtist á Eggin.is 1. maí 2012)

Kreppan byrjaði sem sprungin fjármálabóla sem hefur þróast yfir í skuldakreppu æ fleiri ríkja eftir að þau ábyrgðust skuldir banka. Orsakir hennar eru þó innri andstæður framleiðslukerfisins. Hún er í eðli sínu kapítalísk offramleiðslukreppa. Marx skilgreindi á sínum tíma hvernig þenslueðli kapítalismans rekst óhjákvæmilega á arðránseðli hans. Sú móthverfa er þar enn jafn óleyst.
Undanfarna áratugi hefur stöðnun kapítalismans sagt meira og meira til sín. Núverandi kreppa er sú dýpsta eftir stríð og dýpkar enn. Atvinnuleysistölurnar hækka, árásirnar á kjör almennings harðna, velferðin er skorin og skorin meira. Kreppan gerir heimsvaldasinna enn herskárri. Þeir reyna að tryggja með valdbeitingu það sem ekki vinnst með peningavaldinu einu. Fremst í þeim flokki standa Bandaríkin og evrópskir bandamenn þeirra.
Kreppan skall snemma og harkalega á Íslandi vegna ofvaxtar fjármálakerfisins. Sá ofvöxtur átti rætur í sömu andstæðum framleiðslukerfisins og í samdrætti í innlendum frumframleiðslugreinum og iðnaði. Vinstri flokkarnir nýttu sér kreppuna – til að taka við stjórnartaumum. Fyrsta „hreina vinstristjórn“ lýðveldistímans varð til.
Margur maðurinn taldi að nú yrði gagnger breyting á efnahags- og valdakerfinu á Íslandi. Fyrst eftir fjármálahrunið var það útbreidd skoðun vinstri manna að frjálshyggjan væri á leiðinni á öskuhaug sögunnar og „félagsleg gildi“ yrðu leidd til öndvegis. Það gerðist ekki. Í staðinn var endurreisninni stýrt af helsta fánabera frjálshyggjunnar á heimsvísu, AGS, sem þótti reyndar framganga íslenskra stjórnvalda til fyrirmyndar, enda forgangsverkefnin í anda sjóðsins: endurreisn fjármálakerfisins og mikill niðurskurður ríkisútgjalda. Ekki var ráðist gegn ríkjandi eignarhaldi eða rekstrarháttum á neinu sviði. Þvert á móti. Einkavæðingin heldur áfram.
Samfylkingin var í „hrunstjórninni“ og reyndar alla tíð mjög bendluð við kratíska markaðshyggju og einkavæðingu, svo ímynd hennar var löskuð. VG var hins vegar talinn róttækur hugsjónaflokkur, og ómengaður. Ekki lengur. Forusta hans samsamar sig nú íslenska efnahags- og valdakerfinu svo rækilega að vandlæting hennar beinist einkum að þeim sem keyrðu kerfið „út af sporinu“. Í þeim anda hafði VG umfram aðra flokka frumkvæði að því að kæra ráðherra úr fyrri ríkisstjórn fyrir Landsdómi.  Með tilvísun til „ráðherraábyrgðar“ er bankakreppan skoðuð sem „klúður“ og „mistök“.
Þessi kerfis-samsömun „vinstri foringjanna“ er til þess gerð að fá alþýðu til að samsama sig kerfinu líka. Endurreisn kerfisins, umfram allt fjármálakerfisins, er kölluð endurreisn „samfélagsins okkar“. Og nú hafa stjórnvöld öfluga píska á hendi. Þau vísa til „ástandsins“. „Ástandið“ er því miður svona slæmt. Engir peningar til. Allir verða að axla sinn skerf af „ástandinu“. Það er jafnaðarmennska! Það er fullkomið ábyrgðarleysi fyrir almenning að gera nú kröfu um eitt né neitt.
Kúgunarkerfi auðvaldsins er orðið mjög fullkomið þegar gamlir verkalýðsforingjar eins og Jóhanna Sigurðardóttir (áður formaður Flugfreyjufélagsins) og Ögmundur Jónasson (áður formaður BSRB) fá þessar „ástands“-svipur í hönd og láta þær ganga á bökum alþýðu – og taka síðan niðurskurðarhnífana.
Auðvaldskreppan birtist fólki eins og umferðarslys eða lestarslys. Lestin er efnahagskerfið. Auðstéttin og ráðandi auðblokkir ætlast til þess að stjórnvöld velti kreppunni yfir á almenning og vinni svo að því að koma lestinni „á sporið“ aftur. Kreppan vekur reiði sem beinist að stjórnvöldum. Almenningur er til alls vís. Gömlu andlitin í stjórnkerfinu eru rúin trausti. Það er sigurstranglegt fyrir auðstéttina að fá vinstri menn og alþýðusamtök til að taka ábyrgð á kerfinu (og utanaðkomandi „fagaðila“ eins og AGS). Þá kemur alþýða síður vörnum við heldur en ef kjaraskerðingarnar eru framkvæmdar af íhaldsöflunum og hefðbundnum auðvaldssinnum.
Fátt af  þessu er í raun séríslenskt. Frá því um 1980 eða svo hafa flestir stjórnmálaflokkar kenndir við vinstrimennsku og alþýðu lagt alveg á hilluna sósíalíska baráttu og gengið efnahagskefi og stjórnmálakerfi auðvaldsins á hönd. Þegar kreppan nú ríður yfir og auðvaldskerfið sýnir grímulausan ljótleika sinn kemur í ljós algjör skortur kratismans á þjóðfélagslegum valkosti og hann fær þetta snatthlutverk fyrir auðvaldið sem hann hefur á Íslandi nú um stundir.
Í íslenskri verkalýðshreyfingu eru mestu ráðandi sömu stjórnmálaöfl og í landsstjórninni. Verkalýðsforingjarnir undirgangast leikreglur íslenska auðvaldskerfisins, sammála því að horfa verði til hins erfiða „ástands“ og ganga í það að friða almenning gagnvart hinum harkalegu kjaraskerðingum. Nöturlegur veruleikinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing er í gíslingu auðstéttarinnar.
Það ástand hlýtur að vera tímabundið. Það er áhugavert að bera stöðuna nú saman við síðustu stóru kreppu, á 4. áratug 20. aldar. Þegar kreppan skall á Íslandi voru sprækir hópar kommúnista og vinstri sósíalista nýkomnir fram á sjónarsviðið og starfandi innan samtaka alþýðu. Þeir sögðu einfaldlega að kreppa auðvaldsins væri ekki þeirra kreppa. Síst af öllu mátti alþýðan draga úr kröfum og baráttu vegna hennar. Þvert á móti var kreppan tilefni til að herða baráttuna fyrir kjarabótum – og öðru þjóðskipulagi. Róttæklingarnir tóku forustu í alhliða stéttabaráttu, verkalýðshreyfingin treysti á samtakamáttinn og náði að stórefla sig á þessum kreppuárum. Forustumönnum kommúnista hefði seint dottið í hug að fara í dómsmál við Tryggva Þórhallsson og Jónas frá Hriflu fyrir að valda kreppunni.
Þörfin fyrir þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið verður æpandi í kreppunni. Eftir fall fyrstu kynslóðar sósíalsískra ríkja er margt óljóst um það hvernig sá valkostur mun líta út. Hitt er þó ljóst að ekki er lengur búandi við þjóðskipulag sem byggir á einkaeignarrétti á framleiðslutækjum og hefur gróðasóknina sem gangvél. Það leiðir okkur aðeins lengra út í afmennskun samfélagsins og hnattrænt barbarí.

Tvö meginatriði. Í fyrsta lagi: Verkalýðshreyfing sem ekki á sér þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið er og verður í gíslingu. Í öðru lagi: Launafólk og róttæk alþýða má ekki skoða núverandi vinstri flokka í landinu sem velmeinandi en skeikula bandamenn heldur það sem þeir eru, verkfæri auðvaldsins. Þeir eru meginstoðir í valdakerfi auðstéttarinnar í landinu.

No comments:

Post a Comment