Showing posts with label ASÍ. Show all posts
Showing posts with label ASÍ. Show all posts

Saturday, March 5, 2022

Stríðið í Eflingu 2

(Birtist á Neistum 12. febrúar 2022)

Við fylgjumst auðvitað af mikilli athygli með stjórnarkosningum í Eflingu stéttarfélagi þessa dagana. Við höfum fylgst grannt með því félagi síðan baráttusinnar tóku þar við stjórn undir forustu Sólveigar Önnu Jónsdóttur árið 2018. Og breyttu félaginu á skömmum tíma í baráttusamtök. Með því að virkja félags­fólk til þátt­töku í verk­falls­að­gerð­um, samn­inga­nefnd­um, opinni orðræðu um kjaramál, fjölda­fundum o.fl. tók félagið stakka­skipt­um og varð mikilvægur gerandi í samfélaginu. Þetta var verkalýðsbarátta í «nýjum anda» eða þó öllu heldur í «gömlum stíl». Það var t.d. bæði fróðlegt og uppbyggjandi, já beinlínis hjartastykjandi fyrir gamla verkalýðssinna, að fylgjast með fréttum og öðru efni á heimasíðu félagsins. «Solla og félagar hennar í stjórn Eflingar hafa lyft grettistaki í verkalýðsbaráttu láglaunafólks og breytt andlausu félagi til margra ára í það afl sem því var ætlað að vera», bloggaði samherji Sólveigar Önnu, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, ekki alls fyrir löngu. Síðan upphófust átök og væringar og nú bjóðast þrír listar til stjórnarkjörs í Eflingu.

Duggunni ruggað 2018

Tilkoma nýrrar Eflingarforustu var hluti af umtalsverðum umskiptum sem þá urðu í verkalýðshreyfingunni, einnig í forustu Alþýðusambandi Íslands, eins og frægt er orðið. Sjá hér. Andstæðar fylkingar kristölluðust ekki síst í afstöðunni til sk. SALEK-verkefnis sem þá var í undirbúningi og á mikilli siglingu undir skipstjórn Gylfa Arnbjörnssonar og þáverandi ASÍ-forustu. SALEK-hugmyndafræðin felur í stuttu máli í sér nýja og stóraukna miðstýringu: að færa afgreiðslu kjaramála frá vettvangi stéttarfélaga og sem allra mest inn í samráðsnefndir ríkisvalds/«þjóðhagsráðs» og aðila vinnumarkaðar. Hún felur í raun í sér að taka hið lýðræðislega vald stéttarfélaga, samtakaaflið úr sambandi og afhenda það sérfræðingavaldi undir merkjum stéttasamvinnunnar. Stéttarleg «afvopnun».

Margir álitu að þessu hættulega SALEK-verkefni hefði verið afstýrt með tilkomu nýs og róttækara fólks í leiðandi stöðum. En snemma á árinu 2021 vakti Eflingarforustan athygli á að vinna við innleiðingu SALEK-hugmyndafræðinnar hefði haldið áfram af skriðþunga þrátt fyrir forystuskipti í verkalýðshreyfingunni. Það gerist vissulega í breytilegum búningi eins og í «Grænbók um vinnumarkaðsmál» á snærum stjórnvalda, með þátttöku ASÍ, frumvarpi um «starfsmannalög» o.fl. Sjá hér viðvörun Eflingar um það.


Ólga í skrifstofuveldinu

Það varð mörgum nokkurt andlegt áfall þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, holdgerfingur nýrra baráttutíma, sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu 1. nóvember 2021. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Ástæðan reyndisrt vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar. Þá komu í ljós alvarleg átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og forustunnar róttæku. Sólveig Anna & co voru sökuð um samningsbrot, einelti og þaðan af verra sem þau töldu sér ófært að starfa með á herðunum, nokkuð sem leiddi til uppsaganar. Ekki skal það mál rakið hér. Aðeins bent á það sem við höfum áður um það skrifað.

Þegar Sólveig Anna sagði af sér sem einn af þremur varaformönnum ASÍ var kjörinn annar í staðinn, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, einn dyggasti liðsmaður Gylfa Arnbjörnssonar og gömlu verkalýðshreyfingarinnar sem vill áköf endurvekja SALEK-samkomulagið í formi «Grænbókar». Í tengslum við kjör Halldóru hefur Stundin það eftir Sólveigu Önnu að «Halldóra hafi efnt til leynifundar í febrúar síðastliðnum þar sem fimmtán formönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hafi verið boðið og umræðuefnið hafi verið hvernig hægt væri að styðja við áframhaldandi vinnu við Grænbókina, án þess að taka þyrfti tillit til sjónarmiða þeirra sem andvígir væru henni innan Starfsgreinasambandsins. Sólveigu Önnu hafi ekki verið boðið á þann fund, þrátt fyrir að hafa á þeim tíma verið varaformaður Starfsgreinasambandsins.»1

Nei, ekki skal rekja hér klögumálin í Eflingu sem ganga á víxl. Það er heift í málinu og ekki spöruð sterku meðulin. Ég kýs hins vegar að líta á átök milli róttæku forustunnar og skrifstofuliðsins í stærra samhengi stéttabaráttunnar. Þá þarf m.a.s að grípa til svolítið fræðilegrar greiningar: Í þróuðum auðvaldsþjóðfélögum (sem komin eru á einokunarstig, ályktaði Lenín 1915) hefur auðvaldið í samvinnu við «hægfara» verkalýðsflokka byggt upp skrifstofuveldi utan um stéttasamvinnuna. Þessi þjóðfélagshópur hefur margs kyns fríðindi og forréttindi og tekur að sér að «annast» verkefni launþegahreyfingar og kjarabaráttunnar. Það má lýsa honum sem «uppkeyptum» hópi og efri hluti hans er mun nær auðstétt en verkafólki að þjóðfélagsstöðu. Starfshættirnir hans eru aðlagaðir langtíma stéttasamvinnu. Vegna þjóðfélagsstöðu sinnar vill hann ekki mikil «læti», vill t.d. alls ekki að verkafólk taki kjaramálin mikið í eigin hendur, það er ógn við stöðu hans sjálfs. Ekki vill hann «pólitík» heldur því verkalýðshreyfingin á fyrst og fremst að vera stofnun innan ríkjandi þjóðfélagskerfis.

Ég hef lengi aðhyllst slíka greiningu á stöðu og hlutverki þess sem oft er nefndur «verkalýðsaðall». Og mér finnst að heift og ósáttfýsi a.m.k. hluta af skrifstofuliði Eflingar í garð nýju forustunnar frá 2018 sé staðfesting á að slík greining hafi mikið til síns máls. Heiftin stafar m.a. af því að «nýir vendir» róttæklinga ógna sérhagsmunum fólks í skrifstofubákninu og öllu starfsumhverfi. Valdabandalög og samtrygging í hreyfingunni/stofnuninni bætast þar við.


Endurkoma og mikið í húfi

Síðan er blásið er til stjórnarkjörs í Eflingu á ný. Framboðin urðu þrú. Skömmu áður en framboðsfrestur rann út steig Sólveig Anna fram á ný, nú í forustu fyrir Baráttulistanum. Ásamt Michael Braga Whalley skrifar hún grein á Vísi, og tilgreinir ástæður framboðs: einkum og sér í lagi góðan árangur hennar og hennar fólks í að reka og skipuleggja hagsmunabaráttu. Aðferðir og tól baráttusinna hafa virkað vel fyrir hina mörgu félagsmenn. Þau skrifa:2

„Stærsti lærdómurinn af baráttu Eflingarfélaga síðan 2018 er þessi: Árangur í kjarabaráttu næst þegar félagsfólk sjálft er fjölmennt, stendur saman og þorir að stíga fram. Við viljum taka sæti í stjórn Eflingar til að standa vörð um þessi beittu og máttugu vopn. Reynslan hefur sýnt að þessi vopn skila okkur árangri og þau má aldrei taka af okkur. Þess vegna bjóðum okkur fram til stjórnar Eflingar með félögum okkar á B-listanum í komandi stjórnarkosningum.“

Endurskipulagning baráttuaflanna í Eflingu er afar mikilvæg. Bæði fyrir félagsfólk Eflingar og fyrir hið brýna og breiða endurreisnarstarf í verkalýðshreyfingunni. Endurkomu Sólveigar Önnu og félaga er tekið með talsverðum skítmokstri úr ráðandi fjölmilum og líka með leðjuaustri úr skrifstofuveldi alþýðusamtakanna. En endum þetta á að tilgreina viðbrögð tveggja lykilmanna í verkalýðsbaráttunni.

Ragnar Þór Ingólfsson bloggar:

„Stórfréttir innan verkalýðshreyfingarinnar. Sólveig Anna tilkynnir framboð til formanns Eflingar... Eftir brotthvarf Sollu úr formannsstóli Eflingar myndaðist tómarúm innan hreyfingarinnar. Tómarúm sem virðist hafa glætt nýju lífi í SALEK samkomulagið sem er ætlað að draga úr vægi verkalýðshreyfingarinnar og getu hennar til að sporna við yfirgangi fjármagns og valda í íslensku samfélagi. Fyrsti vísirinn er nú þegar að raungerast með meingölluðum starfskjaralögum sem fela í sér mikla afturför í réttargæslu fyrir vinnandi fólk og stjórnarsáttmála sem felur í sér að færa völd frá stéttarfélögum til ríkissáttasemjara... Ég fagna framboði Sólveigar og hennar flotta og kraftmikla fólki.“

Vilhjálmur Birgisson, hinn staðfasti formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifar um framboð Sólveigar Önnu: 3

„...höfum við verið 100% samherjar í að hafna öllum áformum sem lúta að svokölluðu Salek samkomulagi sem byggist á að skerða og takmarka frjálsan samnings- og verkfallsrétt launafólks eins og áður hefur komið fram. Trúið mér það er raunveruleg hætta á að slíkt gerist og því skiptir máli að hún fái góða kosningu... Eitt verður ekki tekið af Sólveigu Önnu að hún er gegnumheil hugsjónarmanneskja er lýtur að því að vilja berjast til síðasta blóðdropa við að bæta og lagfæra kjör lágtekjufólks. Henni tókst á þessum árum sem hún var formaður Eflingar að vekja þetta stóra og öfluga stéttarfélag af þyrnirósa svefni og gerði það að alvöru stéttarfélagi, um það er ekki einu sinni hægt að deila!“

Friday, November 26, 2021

Stríðið í Eflingu

(Birtist á Neistum 4. nóvember 2021)

Það kom flatt upp á almenning þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Það kom jafnvel enn flatar upp á fólk að ástæðan skyldi vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar.

Tilefni afsagnarinnar var í fyrsta lagi ályktun tveggja trúnaðarmanna starfsfólksins á skrifstofu Eflingar í júní sl. sumar. Í ályktuninni voru borin upp á stjórn Eflingar samningsbrot, tilefnislausar uppsagnir og «aftökulistar» starfsfólks. Í öðru lagi var tilefnið dramatískur fundur með umræddu starfsfólki föstudaginn 29. október. Á þeim fundi gaf Sólveig Anna hópnum tvo kosti, skv. fésbókarfærslu hennar sjálfrar: «Annað hvort kæmi eitthvað skriflegt frá þeim sem myndi bera til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna og orð sem fréttamaður notaði um „ógnarstjórn“, eða að ég myndi segja af mér formennsku í félaginu.» En niðurstaða starfsmannafundarins varð sú að orð trúanaðarmannanna frá í júní voru staðfest. Þegar sú niðurstaða lá fyrir sagði Sólveig Anna af sér formennsku. Það gerði einnig Viðar Þorsteinsson framkvæmdarstjóri.

Að vísu sögðust fulltrúar starfsmanna ekki hafa ætlast til neinna afsagna af þeim og ekki ætlað með málið í fjölmiðla https://www.ruv.is/frett/2021/11/01/starfsfolk-vildi-leysa-malid-innanhuss en einn stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Baldursson, var hins vegar á þeirri leið – og raunar farinn með málið í fjölmiðla daginn fyrir þennan föstudagsfund.

Hér er sem sé um að ræða átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og hinnar nýju róttæku forustu félagsins sem kosin var 2018. Hvernig skal meta þau átök? Það mætti hugsanlega álykta sem svo að þarna láti Sólveig Anna persónulega líðan sína í vinnunni yfirskyggja baráttu og verkefni félagsins. Það væri þá varla ásættanleg afstaða hjá verkalýðsforingja. Spurningin er: Er réttlætanlegt að láta starfsmannamálin hafa slíkt vægi í starfi félagsins?

Thursday, June 18, 2020

Á að reyna „union busting“?

(birtist á Neistum.is 21 maí 2020)
Kjaradeila Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands heldur áfram. FFÍ beygir sig ekki og Icelandair freistar þess að sniðganga FFÍ. Þarna er brennipunktur íslenskrar stéttabaráttu í dag. ASÍ og Efling – stéttarfélag senda flugfreyjum mikilvægar stuðningsyfirlýsingar.
 
Icelandair hefur lýst yfir að það ætli að ná 20% hagræðingu í launakostnaði fyrir hluthafafund 22. maí. og gengur fram af mikilli hörku við flugstéttir. Samist hefur um skerðingar við félög flugmanna og flugvirkja, en Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) hafði ekki beygt sig undir tilsvarandi. FFÍ hefur ítrekað hafnað útspili Icelandair sem félagið segir að feli í sér „tugprósenta launalækkanir og skerðingu á réttindum til frambúðar.“

Icelandair breytir ekki stefnu sinni. „Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins 20. maí skoðar Icelandair möguleika á að stofna nýtt stéttarfélag flugfreyja og samkvæmt Fréttablaðinu hyggst Icelandair láta reyna á forgangsréttarákvæði kjarasamnings FFÍ fyrir félagsdómi náist ekki samningur.“ https://www.ffi.is/ Ef þetta er rétt hermt er ljóst að Icelandair stefnir að því að ráða flugfreyjur sem standa utan Flugfreyjufélags Íslands. Atvinnulausar flugfreyjur eru nú mjög margar, íslenskar og miklu fleiri erlendar. Hvernig Icelandair ætlar að safna liði og stofna stéttarfélag vitum við hins vegar ekki, en við vitum til hvers. Og það blasir við að kjaradeila Icelandair og FFÍ er núna brennipunktur stéttabaráttunnar í landinu. Fordæmisgildið er mikið á báða bóga.

 

ASÍ: sættum okkur ekki við union busting

Drífa Snædal forseti ASÍ sendi í gær, 20. maí, frá sér skorinorða yfirlýsingu af tilefni áðurnefndrar fréttar og þar segir: „Framganga Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur hefur verið með ólíkindum og er til þess fallin að draga úr almennu trausti í garð þessa rótgróna flugfélags. Þetta er ekki flugfélagið okkar allra sem býður okkur velkomin heim. Við munum ekki sætta okkur við aðferðir sem á ensku eru kallaðar union busting og ganga út á að grafa undan samstöðu launafólks og eyðileggja verkalýðsfélög. Verkalýðshreyfingin mun ekki sitja með hendur í skauti andspænis slíkum aðgerðum.“ https://www.ffi.is/

Efling – stéttarfélag sendi líka þann 20. maí frá sér mikilvæga yfirlýsingu í tilefni af þessari deilu. Þar er þess krafist íslenska ríkið, og einnig lífeyrissjóðir, hafni því að styðja við fyrirtæki sem stundar árásir á lögvarin réttindi verkafólks.

 

Ályktun stjórnar Eflingar vegna kjaradeilu Icelandair og FFÍ:

„Stjórn Eflingar – stéttarfélags lýsir reiði og undrun vegna framgöngu Icelandair í garð flugfreyja og stéttarfélags þeirra, Flugfreyjufélags Íslands, í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður.
     Icelandair hefur að mati stjórnar Eflingar notfært sér óvissu og efnahagssamdrátt vegna Kórónaveirufaraldursins til að klekkja á flugfreyjum á einkar tækifærissinnaðan og ósanngjarnan hátt. Stjórn Eflingar telur að flugfreyjur eins og annað verkafólk innan vébanda ASÍ eigi rétt á sambærilegum kjarasamningi og þeim sem nú er í gildi hjá yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.
      Fréttir í helstu fjölmiðlum herma að Icelandair hyggist leita leiða til að ráða flugfreyjur utan stéttarfélaga eða jafnvel beita sér fyrir stofnun sérstaks stéttarfélags í þeim tilgangi að geta samið um verri kjör fyrir flugfreyjur.
     Þessir starfshættir eru gróf ögrun við lög, venjur og sameiginlegan skiling aðila sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.
     Verkafólk á skýlausan rétt til að bindast samtökum í stéttarfélagi til að semja um sín kaup og kjör. Sá réttur er mannréttindi og er varinn af bæði lögum og stjórnarskrá. Allt verkafólk á ríka hagsmuni af því að standa sameiginlegan vörð um þennan rétt.
     Ætli íslensk stórfyrirtæki nú með aðstoð hins opinbera að hefja árásir á þessi grunnréttindi verkafólks mun Efling – stéttarfélag ekki horfa upp á það þegjandi og hljóðalaust.
     Stjórn Eflingar bendir á að Icelandair er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem eru sameiginlegir sjóðir launafólks og undir stjórn þeirra. Lífeyrissjóðir hljóta að hafna því að fjárfesta í fyrirtækjum sem stunda beinar árásir á grunnréttindi launafólks.
     Að sama skapi bendir stjórn Eflingar á að íslenska ríkið heldur nú uppi rekstri Icelandair með beinum stuðningi. Stjórn Eflingar krefst þess að íslenska ríkið, rétt eins og lífeyrissjóðir, hafna því að styðja við fyrirtæki sem stunda árásir á lögvarin réttindi verkafólks.“ Sjá hér.

Wednesday, February 15, 2017

Lög á sjómenn og SALEK – blikur á lofti

(bistist á heimasíðu Alþýðufylkingarinnar 15. febr 2017)

Þrýstingur vex jafnt og þétt kringum sjómannaverkfallið, og krafa um stjórnvaldsaðgerðir verða 
háværari. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Atvinnuvegaráðuneytið gefur út svarta skýrslu, „Mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna“ (*) Útgerðarmenn reikna greinilega með lögum á verkfallið – að fenginni reynslu af því á síðustu 30 árum hafa 15 sinnum verið sett lög á vinnudeilur og þar af sjö sinnum á sjómenn! (farmenn eða fiskimenn). Aðrir binda vonir við skattaafslátt, að láta þannig niðurgreiðslur ríkisins til sjávarútvegsins leysa útgerðina undan launahækkunum.

Deilan dregst á langinn og sýnir góða samstöðu og stéttvísi meðal sjómanna. Jafnframt sýnir hún enn einu sinni þá miklu samstöðu sem ríkir meðal íslenskra atvinnurekenda um að hindra að verkfallsaðgerðir skili árangri. Viðbrögð þeirra við verkföllum eru alltaf prinsippmál og í þeirra röðum ríkir í raun bann við því að beygja sig fyrir verkfalli, þar sem slíkt myndi skapa hættulegt fordæmi meðal launþegahópa. Stéttasamstaða atvinnurekenda snýst mjög um það að sýna að verkföll borgi sig ekki.  

Önnur stéttarleg viðbrögð eignastéttarinnar eru sama eðlis, og jafnvel alvarlegri. Atvinnurekendavald og ríkisvald nota neikvæða umræðu um verkfallið til að ráðast að samningsréttinum. Þar fer Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fyrir. Í Silfrinu um daginn (5/2) sagði hann orðrétt: „Það sem mér finnst að við eigum að spyrja okkur, svona í ljósi þessa verkfalls,  sem kemur á eftir mörgum öðrum verkföllum sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum, er einfaldlega það hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða þennan ramma vinnumarkaðarins, sem virðist ekki hafa fram að færa neinar leiðir til þess að höggva á hnútinn þegar það er stál í stál.“  Sem sagt, breyta þarf „vinnumarkaðsmódelinu“. Bjarni vísar þarna líka í launadeilurnar 2015, sem urðu tiltölulega víðtækar. Viðbrögð fulltrúa atvinnurekenda og ríkisvalds – og ASÍ-forustu – við þeim verkföllum voru þau að þetta mætti helst aldrei endurtaka sig. Til að hindra það yrði að setja kraft í SALEK-viðræður milli aðila vinnumarkaðar. Í viðtalinu í Silfrinu bætti Bjarni við: „Í því sambandi er oftast talað um að við gætum stóraukið vald ríkissáttasemjara, að við gætum þvingað menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana, ef menn ná ekki niðurstöðu í samningum... þetta er í raun kjarni þess samtals sem hefur verið í gangi undanfarin ár undir merkjum SALEK, milli almenna og opinbera markaðarins og stjórnvalda... það miðar að því að við færum okkur nær norræna módelinu og að þróa og þroska leiðir til að komast út úr svona öngstræti.“ (*)

Ágreiningur hefur verið verulegur innan verkalýðshreyfingarinnar um SALEK-viðræðurnar. Verkalýðsfélag Akraness ásamt nokkrum öðrum verkalýðsforingjum hefur staðið fast gegn því vinnumarkaðslíkani sem SALEK hefur byggt á, af því það sé til þess fallið – og til þess hugsað – að stórskerða samningsrétt stéttarfélaga. ASÍ-forustan hefur mótmælt því kröftuglega: „Nei, það er ekkert í þessu samkomulagi sem hróflar við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga“ (*) En orð Bjarna forsætisráðherra segja það sem segja þarf: Markmiðið er að „þvinga menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana“ og að „stórauka vald ríkissáttasemjara“, segir hann. Sem kunnugt er er eitt meginatariði í SALEK-viðræðunum stofnun Þjóðhagsráðs sem greina skuli stöðuna í efnahagsmálum í aðdraganda kjarasamninga og leggja línu um „svigrúm til launahækkana“.

Nú ríður á að verjast tvöfaldri hættu: hindra það að enn ein lög verði sett á kjaradeilu sjómanna og eins að „skaðinn“ sem vinnudeilan veldur verði síðan notaður til að þvinga upp á okkur nýjum ramma um vinnudeilur skv. óskum atvinnurekenda.