Showing posts with label Komintern. Show all posts
Showing posts with label Komintern. Show all posts

Tuesday, June 8, 2021

Frásögn Kjartans Ólafssonar af íslenskum kommúnistum

 (Birtist á Neistum 23. maí 2021)

                                              Kommúnistasamkoma nærri Reykjavík 1932. Mynd úr Draumar og veruleiki        

Bók Kjartans Ólafssonar Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn er mikið rit. Enda er það rit um mikla hreyfingu, sem er íslenskur vinstrisósíalismi í hálfa öld (u.þ.b. 1917-1968). Sagan er rakin af einum þátttakanda frá síðasta skeiði hennar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frásögn Kjartans er á margan hátt afrek og dregur saman feikna mikið efni (568 bls. í stóru broti) í skilmerkilegri og glöggri framsetningu sem á heimtingu á gagnrýninni umræðu. Í mati á sögu sósíalismans er margt sem orkar tvímælis og er sígilt deiluefni, og svo verður líka um úttekt Kjartans Ólafssonar.

Tvískiptingin: hið „heimagerða“ og hið „moskvustýrða“

Það er því ekki áhlaupaverk að ritdæma þessa bók. Ég tek þann kost að taka nokkur mikilvæg atriði til umræðu, pólitískrar umræðu, ekki bókmenntalegrar. Í þessari fyrri (fyrstu) grein fjalla ég eingöngu um afgreiðslu Kjartans Ólafssonar á Kommúnistaflokki Íslands, KFÍ.

Í sögutúlkun sinni gefur Kjartan okkur þá mynd að Kommúnistaflokkurinn íslenski hafi unnið merkilegt og mikið til gott starf fyrir verkalýðinn í íslenskri stéttabaráttu. Hins vegar hafi mjög háð flokknum hin sterku tengsl hans við Moskvu. Þar var Komintern og þar bjó Stalín, og öll áhrif þaðan voru slæm. Jafnframt má fullyrða að á engan þátt í starfsháttum KFÍ leggi Kjartan jafn mikla áherslu og einmitt tengslin við Moskvu. Þessi tvískipting er auðvitað ekki uppfinning Kjartans heldur er hún mjög algeng í hvers konar umfjöllun um þessa hreyfingu, sagnfræðinga sem annarra.

En aðgreiningin er á margan hátt hæpin. Tilkoma, þróun og viðgangur kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi var alla tíð mörkuð af miklum áhrifum frá rússnesku byltingunni, sovéska fordæminu – og á fyrri hluta tímans frá Komintern. Fyrirmynd Sovétríkjanna virkaði sem gríðarleg hvatning fyrir róttækan verkalýð, stundum virkaði hún þó í öfuga átt. En tilraunin til að skilja á milli hins vonda „stalíníska“ og hins góða „heimagerða“ verður gjarnan einskær draumur um fortíðina.

Komintern og klofin hreyfing

Komintern, Þriðja alþjóðasambandið, var miðstýrður heimsflokkur sem reyndi að framfylgja samræmdum, byltingarsinnuðum sósíalisma gegnum aðildarflokka hinna einstöku landa. Komintern, stofnað 1919, var hugmynd Leníns, en var samt engin ný hugmynd. Á undan höfðu starfað Fyrsta alþjóðasambandið og Annað alþjóðasambandið sem bæði reyndu að samræma byltingarsinnaðan sósíalisma á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, enda væri barátta verkalýðsins alþjóðleg að eðli. Þegar Annað alþjóðasambandið sveik í kringum 1914 og helstu flokkar þess breyttust í verkfæri nokkurra heimsvaldaríkja sem háðu með sér heimsvaldastríð, og þegar byltingin 1917 hafði sigrað í Rússlandi, þótti byltingarsinnum eðlilegt að stofna nýtt alþjóðasamband. Komintern var stofnað um byltingarsinnaðan marxisma sem hafði bætt við sig reynslunni af a) svikum sósíaldemókrata og b) rússnesku byltingunni, stofanð utan um þá lærdóma og endurnýjaða byltingarsinnaða stjórnlist og baráttuaðferðir.

Þó að stéttabaráttan sé alþjóðleg að innihaldi hefur hún að miklu leyti þjóðlegt form í ólíkum löndum og útheimtir því misjafnar baráttuaðferðir. En margur myndi meta það svo að skipulag og uppbygging Komintern hafi um of horft framhjá þessari staðreynd og reynt að fylgja einni samræmdri stefnu við jafnvel ólíkustu aðstæður.

Í sögu Komintern hefur tímabilið á milli 6. og 7. heimsþings – 1928 til 1935 – verið nefndur „vinstri“ tíminn þegar sambandið einkenndist af „vinstri“ kúrs og talsverðri einangrunarstefnu. Stefna sú var mörkuð á 6. heimsþingi sambandsins árið 1928. Stefnan fól í sér það mat að heimskapítalisminn væri aftur orðinn óstöðugur – eftir tímabundinn stöðugleika sem hófst upp úr 1920 – kreppa væri nú í aðsigi og byltingaröflin væru í sókn en auðvaldið í vörn. Efnahagskreppan sem hófst ári síðar þótti staðfesta þetta mat.

Skilgreining Komintern á þjóðfélagslegu hlutverki sósíaldemókrata var erfiðasta málið, síðan einnig skilgreiningin á hlutverki hins vaxandi fasisma. Sósíaldemókratar voru á þessu skeiði skoðaðir sem „þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar“. Og lengi voru hægri kratar og stéttasamvinna þeirra skoðuð sem mikilvægari stoð undir veldi borgarastéttarinnar en fasisminn. Lögð var upp sóknartaktík með mikla áherslu á að yfirvinna áhrif sósíaldemókrata innan verkalýðshreyfingarinnar. Samtímis var þróun fasismans og tilheyrandi afnám borgaralegra réttinda gjarnan túlkað sem veikleikamerki, sem örþrifaráð auðstéttar sem sæi völd sín í bráðri hættu. „Vinstri“ stefna Komintern byggði sem sagt á yfirdrifinni byltingarbjartsýni og vanmati á stéttarandstæðingnum.

Tuesday, May 28, 2019

Bókartíðindi: Undir fána lýðveldisins

(birt á Neistar.is 16. maí 2019)

 Í febrúar sl. gaf nýtt forlag, Una útgáfuhús, út bókina Undir fána lýðveldisins. Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni eftir Hallgrím Hallgrímsson kommúnista. Þetta er endurútgáfa bókar sem kom út í takmörkuðu upplagi árið 1941. Var löngu gleymd bók
.
Þetta er bæði góð bók og gagnmerk. Hún er fyrsta og eina bók höfundar en hann hefur verið stórvel ritfær og texti hans sannfærir fljótt lesandann um að hér sé sögð mikilvæg saga. Ég er enginn bókagleypir en þessa drakk ég nánast í einum teyg. Við bætist svo prýðilega unnin eftirmáli, „Ævintýralegt lífshlaup baráttumannsins Hallgríms Hallgrímssonar“ eftir Einar Kára Jóhannsson og Styrmi Dýrfjörð.

Af bókinni verður ljóst að Hallgrímur Hallgrímsson er ekki aðeins merkilegur rithöfundur heldur líka afar vel valinn fulltrúi íslenskra pólitískra alþýðumanna af sinni kynslóð. Foreldrar hans voru þingeysk vinnuhjú í sveit. Faðirinn drukknaði frá eiginkonu og 3 börnum og því fjórða, Hallgrími, á leiðinni. Með miklu harðfylgi tókst móðurinni einhvern veginn að halda hópnum sínum saman, og Hallgrímur lauk m.a.s. gagnfræðaprófi á Akureyri og kynntist þar líka sósíalismanum. Hann fluttist suður og vann fyrir sér með stopulli hafnarvinnu en einkum var það köllunin sem stýrði skrefum hans upp frá því. Hann var einn yngsti stofnandi Kommúnistaflokks Íslands 1930. Sérstaklega gerðist hann leiðandi í samtökum ungkommúnista.

Verkalýðshetja.
Hann fór í flokksskóla í Moskvu og kom þaðan tvíefldur í því að berjast við atvinnurekendavald, afturhald og fasisma. Hann gekk í gegnum pólitíska „barnasjúkdóma“ en náði sér af því aftur. Hann hélt til Spánar og barðist þar við fasista í eitt ár. Heim kominn hélt hann áfram pólitísku starfi og varkalýðsbaráttu í Reykjavík (ein athugasemd: að Hallgrímur hafi náð því að verða varaformaður Dagsbrúnar, sbr. bls. 209, hlýtur að vera rangt). Dagsbrún setti á verkfall m.a. í Bretavinnunnni 2. janúar 1941 og breska herstjórnin svaraði með því að setja hermenn í störf verkamanna. Þá dreifðu sósíalistar dreifibréfi á ensku meðal hermanna. Hallgrímur var af því dæmdur fyrir „landráð“ og honum stungið inn á Litla Hraun. Þar olli hann skjótt uppsteyt meðal fanga sem tóku að heimta betri aðbúnað. Fyrir vikið tók fangelsisstjórnin þá geðþóttaákvörðun að loka Hallgrím í einangrunarklefa þar sem hann mátti dúsa í 52 daga. Hann slapp úr fangelsinu á aðventu 1941. Haustið eftir rak hann erindi Sósíalistaflokksins á Austurlandi og Norðurlandi, og fórst þá í sjóslysi sem líklega stafaði af tundurdufli, 32 ára gamall.

Tuesday, December 26, 2017

Byltingarhugsun og byltingarframkvæmd. Nokkrir punktar um Októberbyltinguna

(birtist á vefsíðunni http://sosialistaflokkurinn.is 23. des 2017)

Hvers konar bylting var Októberbyltingin?
„Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ (Karl Marx, „Stéttabaráttan í Frakklandi 1848-50“, Úrvalsrit, 93) Októberbyltingin spratt upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, hún var afsprengi þess hvernig rússnesk stéttabarátta brást við heimsstyrjöldinni og þeirri pólitísku kreppu sem hún olli. Byltingarnar voru nánar tiltekið tvær. Sú fyrri, Febrúarbyltingin sk., var mikið til sjálfsprottin, ekki skipulögð af neinum stjórnmálaöflum. Það var borgaraleg lýðræðisbylting gegn ríkjandi valdstétt, rússneska aðlinum, en sérstæð að því leyti að hún var fyrst og fremst drifin áfram af verkalýð bæjanna og verkfallsbaráttu hans, einkum í Petrógrad, og síðan af uppreisnum í hernum – en að litlu leyti af borgarastéttinni. Þegar keisarinn afsalaði sér völdum fór síðan af stað uppskipting aðalsjarða, þ.e. bylting jarðlausra bænda gegn landeigendaaðlinum.
Seinni byltingin, Októberbyltingin, var verkalýðsbylting, framkvæmd einkum af verkamannaráðunum (sovétunum) í PetrógradMoskvu og miklu víðar sem spruttu fram í framhaldi af Febrúarbyltingunni. Öfugt við Febrúarbyltinguna var Októberbyltingin í hæsta máta skipulögð – afurð markviss pólitísks starfs. Það sem mestu réði um stefnu og rás atburðanna frá febrúar til október (raunar mars – nóvember) var þróun meðal verkalýðsins og innan hinnar ungu sósíalísku hreyfingar landsins, og alveg sérstaklega var afgerandi þáttur róttækasta hluta hennar – bolsjevíkaflokksins sem leiddi verkamannaráðin til valdatöku og byltingar þann 7. nóvember (25. október á rússnesku dagatali þess tíma).
Valdatakan var fyrirfram boðuð undir þremur meginslagaorðum: Friður! Jarðnæði! Brauð! Á næstu mánuðum voru þessi slagorð sett í framkvæmd – þannig: 1. Hinar stóru landeiginr aðalsins voru teknar eignarnámi og skipt milli þeirra sem erjuðu landið. 2. Saminn var friður við Miðveldin í Brest-Litovsk í mars 1918. Það aflétti ógnarlegum þjáningum af landsmönnum, þó að friðarskilmálarnir væru Rússum erfiðir. Friðurinn var forsenda fyrir framkvæmd síðasta slagorðsins – 3. Rússneski herinn, sem að stærstum hluta var bændaher, gat farið heim og framleitt brauð.
Byltingarstjórnin gat ekki komið í veg fyrir að fyrri valdstéttir, aðall og auðstétt, hæfu borgarastríð árið 1918 sem stóð fram á árið 1922. Þær fengu til liðs við sig 14 kapítalísk ríki sem lögðu þeim til herafla. Rauði herinn hafði þó sigur. Borgarastríðið hafði afgerandi áhrif á stjórnarfar verkalýðsríkisins og átti sinn þátt í að það þróaðist yfir í flokksræði Bolsévíkaflokksins. Það flokksræði var samt stéttbundið eins og pólitísk völd jafnan eru, og sótti vald sitt og stuðning fyrst og fremst til verkalýðsstéttarinnar, lengi vel.


Monday, September 22, 2014

Skilningshamlandi skrif Þórs Whitehead um upphaf seinna stríðs

[Á 4. og 5. áratug síðustu aldar var kommúnistahreyfingin helsta forustuafl alþýðu í baráttunni gegn nasisma og fasisma á heimsvísu. Og í seinna stríði voru það fyrsts og fremst Sovétmenn sem sigruðu og moluðu þýsku stríðsvélina. Ein helsta forsenda þess sigurs var fresturinn sem Sovétmenn keyptu sér með griðarsáttmálanum við Hitler 1939. Svo koma sagnfræðingar borgarastéttarinnar eins og Þór Whitehead og segja okkur að fasisminn og kommúnisminn hafi verið og séu bræður í anda og samherjar í raun. Neðanskráð grein er svargrein við bók Þórs, Milli vonar og ótta. Fyrir hana fékk Þór íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995. Á þessum tíma framstormandi frjálshyggju mætti bókin lítilli andstöðu meðal sagnfræðinga, og grein mín er áreiðanlega helstu andmælin úr þeim ranni. En burtséð frá skrifum Þórs Whitehead er þessi samningur Stalíns við Hitler heimssögulegur, og mjög mikilvægt að draga af honum rétta lærdóma.]

(Birtist í Morgunblaðinu 16. júní 1996)
ÞÓR Whitehead er langt kominn með að verða opinber sögutúlkandi íslenskrar utanríkisstefnu. Þar að auki er hann eitt helsta átórítet í akademískri umræðu um sögu íslenskrar kommúnistahreyfingar. Bæði þessi málefni eru mjög á dagskrá í síðustu bók hans, Milli vonar og ótta, sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin sem bestu bók síðasta árs á sviði fagbókmennta. Margt fróðlegt hefur Þór grafið úr fylgsnum heimildanna. Ég vil þó setja fram þessa spurningu: Er það sem hann skrifar um þessi mál e.t.v. fremur skilningshamlandi en skilningsaukandi?

"Kommúnasismi" sem tvíhöfða þurs

Milli vonar og ótta fjallar um fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er dramatískur tími í stjórnmálalífi Íslands og Evrópu, mjög markaður af griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Yfirleitt hefur Þór Whitehead þann sið að láta "heimildirnar tala". Hann leggur lítt fram eigin túlkanir á atburðum þessara tíma heldur dregur hann saman mikið magn heimilda, birtir úrval af því og eftirlætur lesendum að draga ályktanir. En úrval þeirra heimildabrota sem Þór dregur fram og samhengið sem þær mynda leiða hins vegar lesandann að ákveðnum ályktunum. Og þetta samhengi litast mjög af lífssýn Þórs. Það á við um það sem hann ritar um framgöngu kommúnista, hérlendis sem erlendis, á umræddum tíma og um þau skrif langar mig að fjalla lítillega (og til þeirra vísar titill greinar minnar). Einn ritdómari dregur t.d. ályktun beint af þessu "tali heimildanna" hjá Þór og skrifar að kommúnistar hafi bersýnilega verið "helstu talsmenn nasista eftir að griðasáttmálinn var gerður" (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Mbl. 20. des.). Þór setur aldrei fram svo grófa fullyrðingu berum orðum enda væri það ekki í samræmi við aðferð hans. Hann býr hins vegar til mynd þar sem slík fullyrðing liggur beint við en lætur ekki hanka sig á að koma með hana sjálfur. Myndin sem Þór dregur upp er raunar ekki ný. Hún er í meginatriðum lík málflutningi ráðandi afla þessara ára á Vesturlöndum og túlkun þeirra á griðasáttmálanum. Þór endurframkallar þá mynd einfaldlega með því að kalla á ný fram anda þessara ára. Að mínu mati er hér á ferðinni eitthvað annað en sagnfræði. Það er blaðamennska í sögulegu efni. Sagnfræðingur spyr spurninga, leitar hinna mögulegu skýringa og svara í heimildum sínum og tekur síðan afstöðu til þeirra. Þór veltir upp miklu söguefni að hætti blaðamanns en stoppar þar og eftirlætur lesendum að draga ályktanir.

En blaðamennska Þórs Whitehead er pólitísk, og stöku sinnum kemur hann með almennar "upplýsingar" sem í reynd eru pólitískt merktar túlkanir: 

"Stalín mælti einnig svo fyrir að Alþjóðasamband kommúnista skyldi virkjað gegn Bandamönnum ... Á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga ... Ráðstjórnin og Komintern höfðu afturkallað boðskapinn um samfylkingu gegn fasisma og fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu""(bls. 60-61).

Að sögn Þórs bergmálaði þessi nýja stefna Stalíns og Kominterns strax í málflutningi kommúnista á Íslandi. Sem dæmi um það tilfærir hann brot úr grein eftir Halldór Laxness og túlkar hana á sinn hátt. Hann segir hana vitnisburð um að kommúnistar hér hafi strax þóst skilja hver væri "dulinn tilgangur Stalíns" með hinni nýju stefnu: 

"Samfylking gegn fasisma" var úrelt orðin, því sáttmáli við Hitler, óvin siðmenningarinnar, þjónaði betur hagsmunum heimsbyltingarinnar ... Herjum Bandamanna og Þjóðverja blæðir út í langvarandi stríði, en Sovétríkin færa út landamæri sín í vesturátt og vígbúast í friði ... Í stað þess að haltra til framtíðarríkisins í hægfara samfylkingu gat óskadraumurinn um frelsun alþýðunnar þá ræst um alla álfuna, eins hratt og skriðdrekar hinnar stórkostlegu fimm ára áætlunar fengju sótt fram vestur á bóginn" (bls. 65).

Ofangreindar tilvitnanir og túlkanir draga upp eftirfarandi mynd: Í fyrsta lagi voru Stalín og Hitler bandamenn á þessu tímabili. Í öðru lagi hafði Stalín 1939 dulin plön um sórkostlega sókn vestur á bóginn. Í þriðja lagi gat Stalín, þegar honum hentaði, skipað fylgismönnum sínum á Íslandi sem annars staðar að gerast bandamenn fasista gegn sameiginlegum óvini beggja: lýðræðinu. Þeir hlýddu. Og þannig var línan fram á sumar 1941 þegar Hitler óforvarandis réðist á Stalín. Þá gerðust kommúnistar aftur andfasistar ­ en svo langt nær raunar ekki bókin Milli vonar og ótta.