Inngangur eftir Þórarin Hjartarson og grein eftir Patrik Paulov
Í Speglinum 27. júní fjallaði Kári Gylfason um Sýrlandsstríðið. Hann hafði þar eftirfarandi eftir bandarískum blaðamanni, Jonathan Spyer: „Sýrland er ekki lengur til. Því hefur þegar verið skipt upp í sjö aðskilda hluta.“ (heimild) Greining Kára studdist einkum við grein frá 19. maí í ritinu Foreign Policy – sem er mjög miðlægt í bandarískri utanríkisumræðu og mætti kalla málgagn „The Deep State“ vestan hafs. Í greininni skýrir Spyer nánar skiptinguna í sjö svæði: „...svæðið undir yfirráðum stjórnarinnar, þrjú aðskilin svæði undir stjórn uppreisnarmanna, tvær kúrdneskar kantónur og ISIS-svæðið.“ Aftar í greininni slær hann föstu: „Sýrlandi verður skipt á milli stjórnarhlutans í vestri, uppreisnarmanna súnníaraba í norðvestri og suðvestri, svæði tyrknesk-studdra uppreisnarmanna í norðri, SDF-stýrða svæðið í norðaustri og loks eitthvert fyrirkomulag á austursvæðinu sem felur í sér yfirráð bæði SDF og vestrænt studdra araba.“ Stöðu síðastnefnda svæðisins, austursvæðisins, orðaði hann svo á öðrum stað: „...og æ opinskárri stuðningur Bandaríkjanna við þessar sveitir opnar möguleikann á að USA-studdur landshluti verði til austan Efrats“. (heimild)
Þessi greining er auðvitað ekki persónulegt álit Kára Gylfasonar. Hún er ekki heldur greining blaðamannsins Jonathan Spyers. Þetta er línan sem nú er við lýði í Washington (RÚV leitar aldrei annað eftir réttri túlkun átakanna í Miðausturlöndum). Hugveitan RAND Corporation, sem er hluti af bandaríska stjórnkerfinu, nánar tiltekið sérhugveita fyrir herinn, hefur á undanförum árum árlega birt nokkuð sem hún kallar „Peace Plan for Syria“. Nýjasta áætlunin „Peace Plan for Syria III“ sem lögð var fram í febrúar sl. (ég deildi henni á fésbók SHA 26. febr.) er nánast orðrétt samhljóða framtíðarsýn Spyers um Sýrland. (heimild)