Showing posts with label olíuimperíalismi. Show all posts
Showing posts with label olíuimperíalismi. Show all posts

Sunday, June 2, 2019

Íran, heimsvaldastefnan og „Miðsvæðið“

(birtist á Neistar.is 1. júní 2019)
                                              US-CENTCOM, Miðsvæði bandarísks imperíalisma
„Ef Íran langar til að berjast verða það opinber endalok Írans“, tísti Donald Trump 19. maí sl.“ Viðskiptaþvinganir, stríðshótanir, hernaður eru kjarninn í bandarískri utanríkisstefnu. Undanfarna mánuði hafa spjótin og sviðsljósið beinst að Venesúela og Íran. Bandaríkin senda herflotafylki og kjarnasprengjuberandi flugvélar austur að Persaflóa. En nú bregður svo við að fáir taka undir bandarísku stríðsöskrin gegn Íran. Ekki hinir nánu bandamenn í Evrópu. ESB hefur tekið afstöðu gegn nýjustu refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Íran. Þær beinast ekki aðeins gegn Íran, heldur öllum þeim ríkjum og fyrirtækjum sem eiga viðskipti við Íran. Sem stendur leiðir þessi stefna til einangrunar Bandaríkjanna. Ekki minnkar árásarhneigðin við það. Málið snýst um heimsvaldastefnu og yfirráðin í Austurlöndum nær. Lítum á baksviðið.

1985-2005, upp spruttu 125 herstöðvar

Bandaríkin hafa sem kunnugt er yfir 800 herstöðvar utanlands. Bandaríska Varnarmálaráuneytið í Pentagon skiptir nú hnettinum okkar í sex bandarísk herstjórnarsvæði: AFRICOM, CENTCOM, EUCOM, INDOPACOM, NORTHCOM, SOUTHCOM.Sjá nánar
 
Það var árið 1983 sem Reaganstjórnin setti á fót „Herstjórn Miðsvæðisins“, CENTCOM, í MacDill-herstöðinni við borgina Tampa í Flórída. Stofnun CENTCOM markaði nýjar áherslur í bandarískri hnattrænni herstjórn eftir hina alvarlegu ósigra Bandaríkjanna í Indó-Kína og Austur-Asíu. Strategistar utanríkisstefnunnar beindu nú sjónum sínum að orkuríkasta svæði heimsins, Miðausturlöndum og því sem USA skilgreindi sem „Miðsvæðið“ (Central Region) en það nær yfir Stór-Miðausturlönd: Miðausturlönd plús Mið-Asíu. Svæðið við og austur af Kaspíahafinu hafði þegar verið skilgreint sem eitt allra olíuríkasta svæði heims. Fróðir menn telja raunar umrætt svæði geyma meirihlutann af vinnanlegum olíuforða heimsins.

Fyrir stofnun CENTCOM 1983 fólst bandarísk „hervernd“ á Miðsvæðinu í mikilli viðverðu bandaríska flotans á svæðinu og herþjálfun og sameiginlegum heræfingum með fylgiríkjum BNA. En frá 1985 og áfram fór á skrið uppbygging herstöðva á svæðinu, fyrst í Sádi-Arabíu, skömmu síðar öðrum Persaflóaríkjum o.s.frv. Írski fræðimaðurinn John Morrissey birti nýlega niðurstöður sínar um þessa uppbyggingu:
„Árið 1983 hafði Bandaríkjaher engar herstöðvar í Miðausturlöndum. Á miðjum fyrsta áratug 21. aldar hafði CENTCOM byggt upp hernaðaraðstöðu með 125 herstöðvum á svæðinu. Frá stofnun sinni hefur þessi herstjórn haft forustu í öllum meiriháttar bandarískum hernaðaríhlutunum utanlands, frá Olíuskipastríðinu (Tanker War) í Persaflóa á 9. áratug, frá Persaflóastríðinu á 10. áratug til Stríðsins gegn hryðjuverkum á seinni áratugum.“ Sjá nánar

Sem sagt, á tveimur áratugum, 1985-2005, hafði orðið á þessu svæði hreint ótrúleg breyting, án þess að nokkuð bæri á því í heimspressunni. Komandi umskipti voru einna fyrst orðuð opinberlaga í „State of the Union“-ávarpi Jimmy Carter í janúar 1980. Þá lýsti hann yfir að: "ef utanaðkomandi afl nær yfirráðum á Persaflóasvæðinu verður það skoðað sem árás á grundvallarhagsmuni Bandaríkjanna og slíkri árás verður mætt með öllum nauðsynlegum aðferðum, þ.á.m. með herafli." Sjá yfirlýsingu

Friday, February 15, 2019

„Valdaskiptaaðgerðir“ – Venesúela og Líbía

("Birtist á Neistar.is og Kvennablaðinu 12. febrúar 2019)
                                               Merkt við þá til "valdaskipta": Gaddafí og Madúró

Aðferðir við „valdaskiptaaðgerð“ (regime change) eru svolítið breytilegar í ólíkum löndum, en munstrið sem birtist í Venesúela er orðið mjög kunnuglegt, auðþekkjanlegt frá Stór-Miðausturlöndum. Munstrið er eftirfarandi: Efnahagslega og hernaðarlega mikilvægt ríki „gengur ekki í takt“, valdaskipti eru sett á dagskrá, hliðarríkisstjórn sett á fót og viðurkennd, efnahagslegar refsiaðgerðir, fjölmiðlaherferð byggð á mannréttinda-mælskulist og loks hernaðarárás „í mannúðarskyni“. Af breytilegum styrjöldum í Stór-Miðausturlöndum frá 2001 sýnast líkindi Venesúela við Líbíu 2011 vera einna mest, en þetta munstur birtist líka í Írak, Afganistan og Sýrlandi. Pólitískt landslag landanna er ólíkt, í Venesúela er harðvítug deila milli stétta eftir hægri/vinstri línum en Líbía skiptist meira skv. ættbálkum og trúarhópum. Samt er sama munstri fylgt.

1 HLIÐARSTJÓRN. „Valdaskiptamenn“ frá Bandaríkjunum og NATO koma sér upp hliðarríkisstjórn og leita eftir diplómatískri viðurkenningu á henni, veita henni fjárstuðning og hernaðaraðstoð. Í Líbíu hét það National Transitional Council (NTC), stofnað í Benghazi í febrúar 2011. BNA, Frakkland o.fl. gengust þá fyrir fjölþjóðlegri viðurkenningu (Ísland viðurkenndi NTC mánuði áður en Gaddafí féll). Svokölluð „Þjóðareining uppreisnarhópa í Sýrlandi“ var stofnuð í Katar í nóv. 2012 og viðurkennd m.a. af Íslandi sem „hinn lögmæti fulltrúi Sýrlands“ mánuði síðar. Í Venesúela riðu Bandaríkin á vaðið og viðurkenndu Juan Guaido sem forseta, og bandamennirnir fylgdu þeim í halarófu, þ.á.m. Ísland.

2 EFNAHAGSLEGAR REFSIAÐGERÐIR. Þær eru alltaf undanfari beinnar íhlutunar. Formlega beinast þær ýmist gegn einstaklingum eða ríkisstjórn landsins. Þeim var beitt óspart í Líbíu og í enn meiri mæli í Írak og Sýrlandi (Chile 1973 er annað dæmi). Þetta vopn bítur vel af því svo kallað „alþjóðasamfélag“ (frá 1990) er samhangandi heimsvaldakerfi undir „einpóla“ bandarískri drottnun – með bæði dómsvald og refsivald.

3 FJÖLMIÐLAHERFERÐ er sett af stað þar sem dregin er upp mynd af ríki í kaldakoli („failed state“). Í gríðarlegri fjölmiðlaorðræðu um „harðstjórn“, „mannréttindi“ og „lýðræði“ eru viðkomandi stjórnvöld „skrímslisgerð“ (demóníseruð) , jafnframt gefin mynd af almenningi í uppreisn gegn skrímslinu. Myndum sem sýna stuðning við stjórnvöld er skipulega haldið frá. Sagan er sögð í CNN, CBS, BBC og hún svo bergmáluð í þúsundum endurvarpsstöðva vítt um heiminn (RÚV er ein slík).

4 RAUNVERULEGAR ÁSTÆÐUR íhlutunar eru náskyldar og líkar. Olía er lykilorðið. Líbía er olíuauðugasta land Afríku. Venesúela er olíuauðugasta land allrar Ameríku (og heimsins). Heimsvaldasinnar leyna ekki alltaf ástæðum gerða sinna. Donald Trump var spurður um afstöðu sína til Líbíustríðsins árið 2011 (í viðtali við Kelly Ivans á Wall Street Journal): “I’m only interested in Libya if we take the oil. If we don’t take the oil, I have no interest in Libya.” Og í lok janúar sl. sagði John Bolton öryggisráðgjafi Trumps á Fox News: “Það munar miklu fyrir Bandaríkin efnahagslega ef við fáum bandarísk olíufyrirtæki til fjárfestingar og framleiðslu í olíumöguleikum Venesúela.“ Þetta eru blessunarlega bersöglir menn. Þess vegna er bágt að þau Guðlaugur Þór og Katrín skuli komast upp með að babla um „lýðræði“ í þessu samhengi. Stjórnaðist sprengjukastið á Líbíu af lýðræðisást? Fyrir Bandaríkin snýst málið auk þess um yfirráðin í heimshlutanum, Suður-Ameríku og Karíbahafi, eins og Sýrlandsstríðið snýst um yfirráðin í Miðausturlöndum (eða var það lýðræði?).

5 GEGN ÞJÓÐNÝTINGARSTEFNU. Þjóðnýtingarstefnan í Líbíu er gömul. Stefna Gaddafí-stjórnarinnar, kennd við sósíalisma, fól í sér þjóðnýtingu olíunnar. Allt frá 8. áratug var þeirri stefnu mætt með ýmiss konar refsiaðgerðum BNA og Vestursins gegn Líbíu, og loks með stríði. Í Venesúela eiga olíurisarnir (t.d. Chevron, ExxonMobil og Halliburton) sér langa sögu en endurteknar þjóðnýtingar í olíuiðnaði landsins hafa dregið mjög úr gróða þeirra þar. Því fer þó fjarri að um fulla þjóðnýtingu sé að ræða í Venesúela. Landið er enn háð helsta andstæðingi sínum um olíuhreinsun og fjármál, olíuviðskiptin fara fram gegnum Texas, og olíukapítalistar Venesúela eru flestir á bandi stjórnarandstöðunnar. Nú getur Bandaríkjastjórn með refsiaðgerðum hindrað að greiðslur fyrir olíuna renni til stjórnvalda í Caracas (hún mun beina þeim til Juan Guaido). En olíurisarnir vilja auðvitað greiðara aðgengi – og „hliðarstjórnin“ lofar slíku, Independent skrifaði 5. febrúar: „Væntanleg ríkisstjórn Venesúela mun leyfa erlendum einkaolíufyrirtækjum meiri hlutdeild í sameignarrekstri með ríkisrekna olíurisanum, segir útsendari Juan Guaidos til Bandaríkjanna.“

6 OLÍUDOLLARINN SEM VOPN. Á velmektardögum sínum byggði BNA upp olíudollarakerfið. Heimsviðskipti með olíu skyldu fara fram í dollurum. Punktur! Kerfið stendur en, en er mjög ógnað. Það skapar enn endalausa eftirspurn eftir dollurum. En Gaddafí og Madúró eiga það sameiginlegt að hafa stefnt á að færa olíuviðskipti sín yfir í annan gjaldmiðil (Íran og Írak hótuðu hinu sama). Slíkri stefnu svara BNA og bandamenn þeirra jafnan með efnahagsþvingunum og – ef það nægir ekki – með stríði.

7 HERNAÐARÍHLUTUN. Eðlilega kjósa heimsvaldasinnar friðsamleg „valdaskipti“, t.d. í formi „litabyltingar“ frekar en hernaðaríhlutun. Það er ákjósanlegt fyrir auðhringana að geta gengið að olíuiðnaði Venesúela óskemmdum. En reynslan frá Miðausturlöndum sýnir að þeir víkja sér aldeilis ekki undan hernaðaríhlutun ef „nauðsyn krefur“. Innrásin er alltaf (Líbíu, Sýrlandi, Júgóslavíu, Afganistan...) dulbúin sem „mannúðaríhlutun“. Hún er nú í bígerð í Venesúela. Eftir að hafa í nokkur ár þjarmað að almenningi með refsiaðgerðum bjóða Bandaríkin nú með hinni hendinni miklar matarsendingar til Venesúela. Mike Pompeo utanríkisráðherra tísti 6. febrúar: „The Maduro regime must LET THE AID REACH THE STARVING PEOPLE.“ Þetta bragð er sótt pólitíska herfræði íhlutunarsinna, í kaflann „Uppreisn alþýðu“. Seint mundi þó RÚV láta sér detta í hug að benda á svo óviðeigandi tengingar. Í þessu efni er þó staða Madúrós ósambærileg við stöðu t.d. Assads í Sýrlandi: Madúró er djúpt inni á hernaðarlegu yfirráðasvæði óvinarins.

8 VALDASKIPTABANDALAGIÐ. Á bak við kröfuna um „valdaskipti“ í Venesúela standa BNA + ESB = NATO, studd af svæðisbundnum fylgiríkjum Bandaríkjanna, „Líma-hópnum“ svonefnda með Kólumbíu fremsta í flokki en einnig Brasilíu og Perú. Munstrið var það sama í tilfelli Líbíu. Svæðisbundnu fylgiríkin þá voru Katar og Persaflóaríkin sem sendu heri og peninga til „uppreisnarinnar“. Eftir að BNA reið á vaðið með að viðurkenna Juan Guaido 23. janúar sl. settu Þýskaland, Frakkland og Spánn fram úrslitakosti fyrir Madúró sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

9 LÖND Í RÚST. Líbía, Írak, Sýrland voru öll lönd með tiltölulega mikla velferð áður en valdaskiptaaðgerðir hófust. Eftir á standa þau stórlega miklu verr, Írak og Líbía eru brotin og mikið til í upplausn, Sýrland stóð af sér árásina en verður lengi að gróa sára sinna.

10 ÍSLAND ER MEÐ. Ísland má sín lítils en er þó alltaf tilbúið að lýsa yfir stuðningi við eyðileggjandi valdaskiptaaðgerðir húsbændanna í BNA og NATO. Þar sem aðgerðirnar gagnvart Líbíu og Venesúela eru hér sérstaklega til umræðu þá er einn stjórmálaflokkur sem á aðild að ríkisstjórnarstuðningi Íslands við þær aðgerðir báðar: VG. Og finnst sumum hart.

Wednesday, January 30, 2019

Valdaránstilraunin í Venesúela

(Birtist á Neistar.is 30. jan 2019)
                                                   Fyrsta maí-ganga í Caracas 1918


JUAN GUAIDO, NÝKJÖRINN FORSETI LJÖGGJAFARÞINGS VENESÚELA lýsti yfir miðvikudaginn 23. jan, að hann væri forseti landsins. Hann fékk samstundis stuðning Bandaríkjanna, síðan stuðning þeirra ríkja í Rómönsku Ameríku sem handgengin eru Bandaríkjunum, síðan helstu NATO-velda og fleiri. Þessir aðilar kalla á „valdaskipti“ (regime change) í landinu.

KREPPAN Í VENESÚELA ER RAUNVERULEG. Alls ekki er þar hungursneyð en vöruskortur á mörgum og mikilvægum sviðum, á ýmsum nauðsynjum og meðulum. Einnig er pólitísk kreppa frá 2015 eftir að þingkosningar og forsetakosningar hafa skilað ólíkum fylgishlutföllum vinstri sinnaðarar stjórnar og hægri sinnaðrar stjórnarandstöðu.

STJÓRNAÐ UTANLANDS FRÁ. Kreppan breytir ekki því að í Venesúela erum við vitni að valdaránstilraun sem stjórnað er utanlands frá. Kreppuna í landinu má einnig skilgreina sem efnahagslegt stríð gegn landinu af hálfu hins volduga granna í norðri auk skipulegrar herferðar vestrænna auðhringa og fjármálavalds – sem hafa 1000 leiðir (á sviði viðskipta, fjármála og gjaldeyrismála, lánaþjónustu, diplómatís...) til að þjarma að einu „óþægu“ landi. Þetta bættist við skuldir og snöggversnandi viðskiptajöfnuð eftir að verð á seldri olíu landsins lækkaði snögglega úr 110 dollurum fatið í 28 dollara vegna skipulegra aðgerða Sádi-Arabíu sem kýlt hefur niður olíuverð með offramleiðslu frá 2014.

BANDARÍKIN STANDA FYRIR EFNAHAGSLEGUM REFSIAÐGERÐUM, og hafa rekið skipulegar þvingunaraðgerðir gegn Venesúela um árabil Sjá nánar. Kverkatakið er nú enn hert með frystingu á sölutekjum og innistæðum Venezúelska ríkisolíufyrirtækisins PDVSA m.m.

BANDARÍKIN LEGGJA STÓRFÉ TIL HARÐSVÍRAÐRAR STJÓRNARANDSTÖÐU innan Venesúela. Stofnanir eins og National Endowment for Democracy og USAID (báðar tengdar bandaríska utanríkisráðuneytinu og CIA) fjármagna USA-sinnaða fjölmiðla í landinu og veita alhliða stuðning stjórnarandstöðuflokkum og fjölmörgum „frjálsum félagsamtökum“ í Venesúela. Meginverkefni þeirra er að „grafa undan“, valda óstöðugleika (destabilise) með mikilli mælskulist um valdníðslu, mannréttindabrot og neyðarástand.

BANDARÍKIN HAFA ÁÐUR STAÐIÐ AÐ VALDARÁNUM og valdaránstilraunum í um 20 löndum Rómönsku Ameríku (löndin í heimshlutanum eru 27 alls!). Sjá nánar
 
BANDARÍKIN HAFA TILEFNI: Venesúela býr yfir stærstu olíubirgðum á plánetunni, sem sósíalistar hafa leyft sér að þjóðnýa! Sjá nánar Heimsvaldasinnar reiða þeim mun hærra til höggs sem meira er í húfi, sbr „stríðið langa“ í hinum olíuríku Stór-Miðausturlöndum, óslitið frá 2001. Venesúela er alveg „eðlilegt framhald“ af „stríðinu langa“. Valdaránstilraunin snýst öðru fremur um olíu. „Stríðið langa“ hefur gengið illa en með Venesúela í vasanum hefðu Bandaríkin og olíuauðhringarnir m.a.s. mun minni þörf fyrir olíuna í Miðausturlöndum! Aukatilefni til valdaráns: Venesúela hefur síðan 1998 (er Hugo Chavez kom til valda) skipað sér með „andspyrnuöxlinum“ (Kína, Rússland, Íran m.m.) gegn hnattrænum yfirráðum USA og Vestursins.

WALL STREET JOURNAL, einn voldugasti bandaríski meginstraumsmiðillinn, birti grein 25. janúar með yfirskrift: "Pence [varaforseti BNA] lofaði stuðningi Bandaríkjanna áður en leiðtogi stjórnarandstöðu Venesúela steig skrefið." Þar stendur m.a. um Juan Guaido: "kvöldið áður en hann lýsti sig bráðabirgðaforseta Venesúela fékk [hann] símhringingu frá Mike Pence varaforseta.“ Sjá nánar Trumpstjórnin gaf augljóslega grænt ljós kvöldið fyrir, og leppurinn Guaido lýsti sig forseta næsta dag! (Juan var í Washington í desember) Samdægurs viðurkenndi Trump svo Juan Guaido sem forseta! Fljótlega hafði Trump einnig lýst yfir að af hálfu Bandaríkjanna væru allar aðgerðir „á borðinu“ og hernaðarinnrás þar með ekki útilokuð.
VESTRÆNA BRÆÐRALAGIÐ STENDUR SAMAN. Frammi fyrir svona áríðandi heimsvaldaíhlutun stendur bræðralag vestrænna heimsvaldasinna (NATO-veldanna) sameinað, bandalag sem þjáðst hefur af sundurlyndi um skeið (sbr. mótmæli evrópskra leiðtoga við bandarískri heimkvaðningu frá Sýrlandi). Allir helstu bandamennirnir: Kanada, ESB og Bretland, Frakkland, Þýskaland, Spánn lýsa yfir stuðningi við valdatöku Guaido, ef ekki verður boðað til kosninga í Venesúela innan 8 daga. Þýskaland, Frakkland og Spánn settu fram úrslitakosti sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

MUNSTUR ATBURÐANNA ER KUNNUGLEGT, afar líkt og í fyrri valdaskiptaaðgerðum: í Júgóslavíu, Írak, Líbíu og Sýrlandi. Allt „óþæg“ ríki með stefnu sem samræmdist ekki hagsmunum Vestursins (sem drottnað hefur með stefnu á heimsyfirráð frá 1990). Áður en ráðist var á þau var beitt pólitískri og diplómatískri einangrun síðan var beitt efnahagslegum refsiaðgerðum og auðvitað leitað að veikleikum innanlands (verðbólga, vöruskortur, trúardeilur, þjóðernisdeilur...) og ekki síst:

FJÖLMIÐLAHERFERÐ. Umfram allt annað er „skrímslagerðin“ ómissandi, þar sem viðkomandi þjóðarleiðtoga er lýst sem harðstjóra og illmenni sem níðist á þjóð sinni og ógni umheimi (Milosevic, Saddam, Gaddafi, Assad, Janúkóvitsj í Úkrínu, Madúró..). Skrímslagerðin er meginþáttur í heimsvaldasinnaðri árás. Ef vel er leitað finna íhlutunarsinnar tilefni til „mannúðaríhlutunar“. Meginstraums-fjölmiðlun á Vesturlöndum er afskaplega miðstýrð, ekki síst þegar kemur að „átakasvæðum“. Sú mötun drottnar í hinum vestræna „hugarheimi“ og hefur enn gríðarlegt hnattrænt vald. Ekki nóg með það: Fjölmiðlarnir eru meginverkfæri valdbeitingar og stríðs.

FORASETAKOSNINGARNAR Í VENESÚELA 2018 VORU UMDEILDAR, með undir 50% þátttöku, þar sem stjórnarandstaðan hundsaði þær. Þátttakan var samt ekki minni en í mörgum vestrænum lýðræðisríkjum, og Nicolás Maduro hefur t.d. hærra hlutfall kjósenda á bak við sig en Donald Trump. Aðlatriðið er þó að það er ekki Bandaríkjanna eða annarra erlendra heimsvaldasinna að skera úr um framkvæmd kosninga í Venesúela. Það er málefni heimamanna. Aðgerðir Maduros gegn þinginu má gagnrýna alvarlega. En það eru ekki áhyggjur af lýðræðinu sem stýra ákvörðunum í Washington (eða Bussel). Umhyggjuna þar á bæ fyrir lýðræði og mannréttindum erum við farin að þekkja. Hún er nákvæmlega eins mikil og hún var gagnvart Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi eða Úkraínu. Hvaða umhyggja er það? Hún heitir heimsvaldastefna.

HVAÐ GERIR ÍSLAND? Enginn hefur tekið upp málið á Alþingi Íslendinga. Guðlaugur Þór Þórðarson segir „óstjórn, meingallaða hugmyndafræði og ofbeldi“ einkenna stjórnarfar Venesúela: „Ástandið í Venesúela er algerlega ólíðandi og við höfum tjáð okkur um það á vettvangi mannréttindaráðs Sam-einuðu þjóðanna.“ (Mbl. 24. jan) Tónninn boðar ekkert gott. Og hjá frjálslyndum vinstrimönnum er hvorki fullveldi né heimsvaldastefna tískuorð.

VIÐ ÞURFUM EKKI AÐ ELSKA MADÚRÓ. En við þurfum að sjá að Jan Guaido er lítið verkfæri voldugri afla. Hagsmunirnir bak við valdaránstilraunina eru hagsmunir olíuauðhringa og vestrænnar fjölþjóðlegrar fjármálaelítu. Mestu ræningja heimsins.

Monday, April 30, 2018

Að hafna olíudollarnum getur kostað innrás

(birtist á fésbók SHA 30. apríl 2018)


Í olíukreppunni snemma á 8. áratug gerðu BNA samning við Sádi-Arabíu. Þau skyldu kaupa olíu sína af Sádum og sjá þeim í staðinn fyrir vopnum (og brátt herstöðvum). Sádar skyldu nota stöðu sína í OPEC til að halda olíuverði niðri og tryggja að öll olía skyldi keypt GEGN DOLLURUM. Olíudollara sína skyldu Sádar (og OPEC-lönd) binda í Bandaríkjunum með kaupum á bandarískum ríkisskuldabréfum. Auk þess: lönd sem kaupa olíu þyrftu þar með að skaffa sér dollara svo að dollarinn varð ríkjandi gjaldmiðill heimsviðskipta. BNA gátu nú safnað skuldum og Alríkisbankinn gat prentað endalaust af dollar án þess að gengi hans félli, vitandi að alltaf er eftirspurn fyrir hendi, og gat þannig fjármagnað ævintýralegan ríkisfjárhallann. Olíudollarinn er hornsteinn undir hnattrænni valdastöðu Bandaríkjanna. Ríki sem hóta að hundsa olíudollarakerfið eru ekki tekin silkihönskum (m.a. Írak, Líbía og reyndar Sýrland). Enda: ef olíudollarakerfið hrynur er hætt við að skuldasprengja BNA springi. Hlustið á grátt gaman Lee Camp:

Saturday, November 10, 2012

Skýringar á árásarhneigð Vesturveldanna


(Birtist á eggin.is 8. febrúar 2012)

Bandaríkin og bandamenn þeirra flytja nú herafla m.a. frá Írak og Líbíu austur til stuðningsríkja sinna við Persaflóa og ennfremur austur á Kínahaf.
Obama og Clinton segja bæði ítrekað: „engin meðul eru útilokuð“ í viðureigninni við Írani. Þá meina þau „taktísk“ kjarnorkuvopn. Árás á Sýrland er stórmál. Árás á Íran er þó miklu stærra mál:  Miðausturlönd í bál og brand með hringverkanir um allan heim. Enda snýst árás á Íran ekki um Íran. Hún snýst um heimsyfirráð.
            Nú er ófriðvænna á jarðarkringlunni en verið hefur frá 1945. Kreppa og stríð eru nátengd. Í valdatafli heimsveldanna eru gömlu stórveldin, Vesturveldin undir forustu USA, á undanhaldi á mörkuðum vöru og fjármagns og standa frammi fyrir ört dýpkandi kreppu. Staðan er um margt lík því sem hún var upp úr 1930, kreppu fylgja harðnandi stjórnmál, réttindi þegnanna eru skert, ófriðarskýin hrannast upp. Munurinn er helst sá að þá (og einnig fyrir fyrri heimsstyrjöld) var það ungt efnahagsveldi (Þýskaland) sem sýndi mesta árásarhneigð. Það kom seint að veisluborðinu og þurfti að ryðja sér til rúms með valdi. Nú eru hins vegar gömlu heimsveldin grimmust, þau reyna að viðhalda stöðu sinni með kjafti og klóm.
            Þessi hliðstæða við fyrri heimskreppu kapítalismans er lærdómsrík. Önnur hliðstæða er þó nær og beinni. Yfirstandandi leikrit um kjarnorkuáætlun Írana, og meðfylgjandi refsiaðgerðir og hótanir, er einfaldlega endurflutt stórveldaleikrit frá árunum 2001-2003. Þá fylktu Bandaríkin liði sínu og fjölmiðlaneti, breyttu Saddam Hússein í skrímsli og léku útpælda blekkingarleiki – í fjölmiðlum og bak við tjöldin – og réðust svo á Írak. Átyllan var sú sama og nú: Hann hefur gjöreyðingarvopn!  Dugir nákvæmlega sama sjónarspil virkilega á okkur tvisvar?
            Afganistan, Írak, Líbía, Sýrland og Íran hafa ýmist orðið fyrir innrás eða hafa hana hangandi yfir sér. Össurar allra Vesturlanda sameinast og segja að þær íhlutanir snúist um mannúð og lýðræði. Þeir vita að það er lygi. Ástæðurnar eru aðrar. Miðausturlönd eru efnahagslegt lykilsvæði, hafandi mestan olíuforða heimsins. Íhlutanirnar eru gamaldags ránsleiðangrar eftir svarta gullinu. Fleira kemur þó til. Öll þessi ríki tilheyra óformlegu ríkjabandalagi gegn yfirdrottnun Vesturlanda. Þau eru stuðningsríki helstu keppinauta þeirra, Kínverja og Rússa. Það er glæpur.
            Þetta tvennt nægir þó ekki til að skýra afar herskáa hegðun Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. Þar við bætist gjaldmiðlastríð sem tengist stöðu dollarsins. Eftir að dollarinn varð heimsgjaldeyrir (Bretton Woods kerfið eftir 1945) og aðrir gjaldmiðlar voru bundnir við hann neyddi það þjóðir heims til að að versla í dollurum og kaupa amerískar vörur, og seðlabanka heimsins til að safna varasjóðum í dollurum. Olíu- og orkuviðskipti fara  til dæmis að mestu fram í dollurum. Þegar versla skal með olíu verða ríkin að skaffa sér dollara, þ.e.a.s að versla við USA, kaupa bandarísk ríkisskuldabréf m.m. – og þar með að fjármagna bandarískan ríkisfjárhalla og viðskiptahalla – á meðan Bandaríkin rétta hallann einfaldlega með því að prenta fleiri dollara. Nú er svo komið að peningamagn Bandaríkjanna er fjórfalt meira en verðgildi allra bandarískra eigna, eigna sem eru veðsettar margfaldlega upp í topp fyrir skuldunum. Staðreyndin er sú að fjármálakerfi Bandaríkjanna og jafnframt drottnunarstaða þeirra á heimsvísu er stendur og fellur með þessari drottnunarstöðu dollarsins. Sú staðreynd skýrir betur en annað dæmafáa árasarhneigð þeirra á seinni árum. Staða dollarsins skal varin. Höfuðglæpur framantalinna ríkja er sá að ógna henni.
            Versti glæpur Saddams Hússein var að auglýsa árið 2000 að hann myndi færa olíuviðskipti Íraks yfir í evrur eftir fjögur ár. Þremur árum síðar réðust USA og bandamenn á landið. Síðan hafa fleiri raddir talað fyrir því að hnekkja stöðu dollarsins, m.a. Vladimir Pútín. Muammar Gaddafí fór fyrir hreyfingu um ný samtök Afríkuríkja og nýtt  fjármálakerfi þeirra þar sem sameiginlegur gjaldmiðill þeirra yrði gulldínar í stað dollars. Hreyfing þessi hafði mikið fylgi og beinar aðgerðir voru undirbúnar – en voru stöðvaðar með innrásinni í Líbíu. Það ríki sem eftir 2005 hefur skýrast og ítrekað hvatt til að hnekkja stöðu dollarsins eru Íranir. Þeir kalla hann „ekki lengur pening heldur pappírsrusl“. Viðbrögð heimspressunnar eru að kalla Íran alræðisríki og ógnun við heiminn. Svo koma æ fleiri refisaðgerðir og æ opinskárri stríðshótanir gegn Íran. Sjáið þið samhengið?
            Trompspil Vesturveldanna eru tvö: Hernaðaryfirburðir og (vestræna) heimspressan. Heimspressan er jafn virk í stríðsæsingum og bresk og þýsk blöð voru 1914. Hún er hljóðfæri sem heimsvaldasinnar spila á. Þeir búa þar til blóraböggla og skúrka eftir þörfum, búa til tilefni og tækifæri til íhlutana vítt um lönd. Stóru fréttastofur heimsvaldasinna slá taktinn og yfir 95% vestrænna fréttamanna hreyfa kjafta sína í þeim takti. Nú gelta þeir um glæpi kerkastjórnarinnar í Íran og Sýrlandsforseta. En t.d. um heimsvaldakerfi dollarsins? Ekki orð.

Viðbætir
Grein þessi lá hjá Fréttablaðinu í mánuð. Síðan hefur það gerst að vestræna Blokkin herðir umsátrið um Sýrland en Rússar og Kínverjar andæfa. Auk þess hefur ESB sett olíuviðskiptabann á Íran en Íranir beygja sig ekki. Það er merki um að Bandaríkin hafi tuktað ESB til traustara fylgis við sig.  Innan heimskapítalismans hefur lengi sést viðleitni einstakra hagkerfa til að losna úr heljargreipum dollarimperíalismans. Sundrungin í aðdraganda Íraksstríðsins 2003 var merki um þetta: ESB-veldin (einkum Frakkland og Þýskaland) virtust ætla að skora Sam frænda á hólm og taka tilboði Saddams um olíuviðskipti í evrum. Bush og Obama hafa svarað með því að ógna eða múta á víxl. Aðgerðirnar gegn Íran eru sálfræðistríð, til þess hugsað að hræða öll ríki frá því að óhlýðnast stóra bróður. Staðfesta Írana verður afgerandi um það hversu lengi heljarkrumlur dollarimperíalismans ná að halda takinu. Tíminn vinnur með Írönum – ef þeir fá hann.