Saturday, November 10, 2012

Aðferðirnar gegn Íran og Sýrlandi – fyrr og nú


(Birtist á Gagnauga.is 13. febrúar 2012)

Vesturveldin fylkja nú liði sínu gegn Íran og helsta bandamanni þess, Sýrlandi, vegna „kjarnorkuvopna“ og „mannréttindabrota“. Beitt er margvíslegum alþjóðlegum refsiaðgerðum og hernaðaraðgerðir undirbúnar. Fyrirmyndin er fengin í Írak og Líbíu. Leiðtogar Íran og Sýrlands segja hins vegar að erlendur undirróður og íhlutanir kyndi undir ólgu á svæðinu í því skyni að fella þau tvenn stjórnvöld þessa svæðis sem óhlýðin eru Vesturlöndum. Þá er hollt og skilningsaukandi að vita að slík íhlutun er ekkert ný í sögunni. Miðausturlönd hafa verið á áhrifasvæði vestrænna heimsvaldaríkja frá seinni hluta 19. aldar. Áður hafði svæðið að miklu leyti tilheyrt Tyrkjaveldi en því hnignaði og það féll endanlega í fyrri heimsstyrjöldinni. Við tók heimsvaldakerfi Vesturveldanna. Undir því arðráns- og valdakerfi hafa Miðausturlönd (og aðrir heimshlutar) legið síðan. Aðeins með ógurlegum herkjum hefur einstaka ríki tekist að rísa upp og standa á eigin fótum, sum hafa reist sig upp á hné, önnur hafa risið en verið felld á nýjan leik.

Fréttaflutningur – eins og sá íslenski – sem fjallar um Miðausturlönd út frá þokukenndum hugtökum um „mannréttindi“ og „lýðræði“, án þess að horfa á hinn ytri ramma heimsvaldakerfisins sem skilorðsbindur allt stjórnmálalíf þessara landa, er afskaplega þröngsýnn og skilningshamlandi, eins og sýn þess manns sem skoðar umhverfi sitt út um þröngt rör – og umræðan eftir því forheimskandi.  

Sem lýsandi dæmi um vald og aðferðir Vesturveldanna í Miðausturlöndum fyrr og síðar má taka tvo stjórnmálaviðburði frá hinum tveimur umræddu löndum – Íran og Sýrlandi – báða frá 6. áratugnum.

I. Íran: Í upphafi 20. aldar hófst olíuvinnsla í Íran. Frá byrjun höfðu Bretar þar öll tögl og hagldir gegnum Anglo-Persian Oil Company. Pahlavi-ættin sat á keisarastóli 1925–1979 og var alla tíð handgengin heimsvaldasinnum. En á 5. áratug 20. aldar reis þjóðernis- og  þjóðfrelsisbylgja í Íran. Árið 1951 var þar kosinn til valda þjóðfrelsissinnuð stjórn undir forsæti Mohammad Mosaddegh.  Þjóðþing landsins ákvað nær einhuga að þjóðnýta olíuiðnað landsins – og svo var gert.

Þá var heimsvaldasinnum að mæta. Bretar settu olíusölubann á Íran, fylltu síðan Persaflóa af herskipum, lokuðu Hormúzsundi og tóku þannig efnahag landsins steinbítstaki. Bretar hertóku auk heldur olíuhreinsunarstöðina í Abadan, þá stærstu í heimi. Öngþveitið sem af hlaust var notað til að skipuleggja valdarán, og nú tóku Bretar og Bandaríkjamenn (Churchill og Eisenhower) höndum saman:

„Bretar og Bandaríkjamenn völdu Fazlollah Zahedi sem forsætisráðherra í herforingjastjórn sem skyldi taka við af stjórn Mosaddeghs. Því næst var gefin út tilskipun, samin af valdaránsmönnum og undirrituð af keisaranum, sem setti Mosaddegh af og skipaði Zahedi í hans stað. CIA hafði pressað hinn veika keisara til að taka þátt í valdaráninu en mútað glæpaflokkum, prestum, stjórnmálamönnum og herforingjum til að taka þátt í herferðinni gegn Mosaddegh og stjórn hans“ (Mark J. Gasiorowski, 1991, U.S. Foreign Policy and the Shah: Building a Client State in Iran, 237–39).

Í ágúst 1953 setti CIA á svið og fjármagnaði uppþot gegn Mosaddegh en til stuðnings keisaranum. Þau enduðu með því að stjórn Mosaddeghs var steypt og hann sat í fangelsi það sem eftir var. Þegar til kom varð Zahedi ekki hinn sterki maður landsins heldur keisarinn, Reza Pahlavi, sem varð „einvaldur“ leppur heimsvaldasinna allt fram að írönsku byltingunni 1979. Þetta var í fyrsta en ekki síðasta sinn sem Bandaríkin steyptu þjóðkjörinni stjórn, en meirihluti íranskra olíuvinnslusamninga gekk í framhaldinu til bandarískra fyrirtækja. 

II. Sýrland. Á heimsstyrjaldarárunum síðari vann Sýrland formlegt sjálfstæði eftir mörg og oft blóðug átök við Frakka sem höfðu landið sem „verndarsvæði“ frá friðarsamningunum 1918. Á eftirstríðsárunum voru stjórnmálin flókin en ríkjandi vindar meðal almennings voru vindar þjóðfrelsis og andstöðu gegn heimsvaldastefnunni. Sýrland var þá að verða – og hefur verið síðan – nokkurs konar holdgerfingur arabískrar þjóðernisstefnu. Sterkasti flokkur landsins var flokkur samarabískra þjóðernissinna, Bath-flokkurinn. Frá 1954 hafði hann stjórnað landinu með stuðningi Kommúnistaflokk Sýrlands og bandamanna úr hernum. Stjórnin hafði gott samband við Sovétríkin, en að auki lágu afar mikilvægar olíuleiðslur um Sýrland frá Írak til Miðjarðarhafs.

Árið 2003 fann rannsóknarstúdent í alþjóðasögu við Royal Holloway College í London skýrslu frá Sandys, breska varnarmálaráðherranum í stjórn Macmillans 1957. Innihaldið kom fram í grein í  The Guardian 27. sept. 2003 (www.guardian.co.uk/politics/2003/sep/27/uk.syria1). Þar skrifuðu Macmillan og Eisenhower Bandaríkjaforseti undir „áætlun frá CIA og bresku leyniþjónustunni MI6 um að setja á svið falska landamæraatburði sem átyllu til innrásar [í Sýrland] af vestrænt sinnuðum nágrönnum Sýrlands“ eins og segir í skýrslunni frá september 1957. Eitt meginatriði í áætluninni var launmorð þriggja manna sem taldir voru sterku mennirnir á bak við sýrlenska forsetann, Shukri al-Kuwatli. Í skýrslunni segir m.a. (tilvitnanir sóttar í grein, „SYRIA: CIA-MI6 Intel Ops and Sabotage“ eftir Felicity Arbuthnot á vefsíðunni  globalresearch.ca):

Þegar pólitísk ákvörðun er fengin um að valda innanlandstruflunum í Sýrlandi er CIA tilbúin, og SIS (MI6) mun leitast við að að setja upp minni háttar skemmdarverk og atburði í átt að skyndivaldaráni gegnum sambönd sín við einstaklinga... Aðgerðirnar ættu ekki að vera bundnar við Damaskus... nauðsynlegt óöryggi,... landamæraatburðir og átök... [myndu] skapa nauðsynlega átyllu til íhlutunar... [Sýrland skyldi] sýnast vera stuðningsaðili launráða, skemmdarverka og ofbeldis gegn nágrannastjórnvöldum... CIA og MI6 skyldu beita færni sinni bæði á sviði sálfræði og í beinum aðgerðum til að auka á spennu...

Árásir inn í Írak, Jórdaníu og Líbanon fælu í sér „skemmdarverk, samsæri og margvíslegar hernaðaraðgerðir“ og sökinni komið á Damaskusstjórnina. Og það voru Írak og Jórdanía – bæði löndin ennþá breskt „verndarsvæði“ – sem ásamt Tyrklandi skildu svo svara með hernaðaríhlutun í Sýrland.

Í Guardian-greininni segir síðan: „Áætlunin var aldrei notuð, aðallega af því að ekki tókst að sannfæra arabíska nágranna Sýrlendinga um að grípa til aðgerða og árás frá Tyrklandi einu þótti ekki ráðleg.“

Þetta var fyrir 55 árum. Heimsvaldakerfi Vesturveldanna stendur enn. Mesta breytingin á áratugunum síðan er brotthvarf Sovétríkjanna. Fyrir vikið hafa vesturveldin betri tök á stöðunni en áður. Eftir er aðeins eitt risaveldi, Bandaríkin, og mikilvægustu bandamenn þess í þessu samhengi eru Ísrael og samherjarnir í NATO, ESB-veldin. Leppríkjum og fylgiríkjum Vesturveldanna í Miðausturlöndum hefur fjölgað. Á hinn bóginn varð bylting í Íran 1979 og landið hefur síðan styrkt stöðu sína, efnahagslega og hernaðarlega, og hindrar full vestræn völd á svæðinu.

En nútíma hliðstæður við árið 1957 eru ríkulegar: Sem stendur heyja Bandaríkin og Ísrael leynilegt stríð gegn Íran með aðferðum leyniþjónustu, tölvuárásum, leynilegum áhlaupasveitum, ómönnuðum flugvélum, njósnurum, ögrunaraðgerðum, hryðjuverkum og spellvirkjum. Flest af því mikilvægasta gerist bak við tjöldin. Skýrslan um aðgerðaáætlun í Sýrlandi forðum komst í heimspressuna fyrir hreina tilviljun (og heimspressunni fannst hún ekki áhugaverð). Auðvitað kunna heimsvaldasinnar, eins og 1957, að nýta sér staðbundin vandamál og misklíð (m.a. trúardeilur) og vopna andófshópa til að hámarka öngþveiti. Verið er að búa til átyllu til NATO-innrásar, „mannúðarílutunar“. Samvinna Bandaríkjanna og Breta er áfram órofa. ESB leggur svo á olíuviðskiptabann. Þar við bætist að alveg eins og 1957 er það meginatriði í herstjórnarlist heimsvaldasinna að beita fyrir sig nágrönnum þessara ríkja og láta svo aðgerðirnar líta út sem „stuðning við heimamenn“. Þessu hlutverki gegnir Arababandalagið nú í aðgerðunum gegn Sýrlandi. Vitið þér enn eða hvað? spurði völvan.

No comments:

Post a Comment