Showing posts with label kommúnismi. Show all posts
Showing posts with label kommúnismi. Show all posts

Tuesday, June 8, 2021

Frásögn Kjartans Ólafssonar af íslenskum kommúnistum

 (Birtist á Neistum 23. maí 2021)

                                              Kommúnistasamkoma nærri Reykjavík 1932. Mynd úr Draumar og veruleiki        

Bók Kjartans Ólafssonar Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn er mikið rit. Enda er það rit um mikla hreyfingu, sem er íslenskur vinstrisósíalismi í hálfa öld (u.þ.b. 1917-1968). Sagan er rakin af einum þátttakanda frá síðasta skeiði hennar. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Frásögn Kjartans er á margan hátt afrek og dregur saman feikna mikið efni (568 bls. í stóru broti) í skilmerkilegri og glöggri framsetningu sem á heimtingu á gagnrýninni umræðu. Í mati á sögu sósíalismans er margt sem orkar tvímælis og er sígilt deiluefni, og svo verður líka um úttekt Kjartans Ólafssonar.

Tvískiptingin: hið „heimagerða“ og hið „moskvustýrða“

Það er því ekki áhlaupaverk að ritdæma þessa bók. Ég tek þann kost að taka nokkur mikilvæg atriði til umræðu, pólitískrar umræðu, ekki bókmenntalegrar. Í þessari fyrri (fyrstu) grein fjalla ég eingöngu um afgreiðslu Kjartans Ólafssonar á Kommúnistaflokki Íslands, KFÍ.

Í sögutúlkun sinni gefur Kjartan okkur þá mynd að Kommúnistaflokkurinn íslenski hafi unnið merkilegt og mikið til gott starf fyrir verkalýðinn í íslenskri stéttabaráttu. Hins vegar hafi mjög háð flokknum hin sterku tengsl hans við Moskvu. Þar var Komintern og þar bjó Stalín, og öll áhrif þaðan voru slæm. Jafnframt má fullyrða að á engan þátt í starfsháttum KFÍ leggi Kjartan jafn mikla áherslu og einmitt tengslin við Moskvu. Þessi tvískipting er auðvitað ekki uppfinning Kjartans heldur er hún mjög algeng í hvers konar umfjöllun um þessa hreyfingu, sagnfræðinga sem annarra.

En aðgreiningin er á margan hátt hæpin. Tilkoma, þróun og viðgangur kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi var alla tíð mörkuð af miklum áhrifum frá rússnesku byltingunni, sovéska fordæminu – og á fyrri hluta tímans frá Komintern. Fyrirmynd Sovétríkjanna virkaði sem gríðarleg hvatning fyrir róttækan verkalýð, stundum virkaði hún þó í öfuga átt. En tilraunin til að skilja á milli hins vonda „stalíníska“ og hins góða „heimagerða“ verður gjarnan einskær draumur um fortíðina.

Komintern og klofin hreyfing

Komintern, Þriðja alþjóðasambandið, var miðstýrður heimsflokkur sem reyndi að framfylgja samræmdum, byltingarsinnuðum sósíalisma gegnum aðildarflokka hinna einstöku landa. Komintern, stofnað 1919, var hugmynd Leníns, en var samt engin ný hugmynd. Á undan höfðu starfað Fyrsta alþjóðasambandið og Annað alþjóðasambandið sem bæði reyndu að samræma byltingarsinnaðan sósíalisma á evrópskum og alþjóðlegum vettvangi, enda væri barátta verkalýðsins alþjóðleg að eðli. Þegar Annað alþjóðasambandið sveik í kringum 1914 og helstu flokkar þess breyttust í verkfæri nokkurra heimsvaldaríkja sem háðu með sér heimsvaldastríð, og þegar byltingin 1917 hafði sigrað í Rússlandi, þótti byltingarsinnum eðlilegt að stofna nýtt alþjóðasamband. Komintern var stofnað um byltingarsinnaðan marxisma sem hafði bætt við sig reynslunni af a) svikum sósíaldemókrata og b) rússnesku byltingunni, stofanð utan um þá lærdóma og endurnýjaða byltingarsinnaða stjórnlist og baráttuaðferðir.

Þó að stéttabaráttan sé alþjóðleg að innihaldi hefur hún að miklu leyti þjóðlegt form í ólíkum löndum og útheimtir því misjafnar baráttuaðferðir. En margur myndi meta það svo að skipulag og uppbygging Komintern hafi um of horft framhjá þessari staðreynd og reynt að fylgja einni samræmdri stefnu við jafnvel ólíkustu aðstæður.

Í sögu Komintern hefur tímabilið á milli 6. og 7. heimsþings – 1928 til 1935 – verið nefndur „vinstri“ tíminn þegar sambandið einkenndist af „vinstri“ kúrs og talsverðri einangrunarstefnu. Stefna sú var mörkuð á 6. heimsþingi sambandsins árið 1928. Stefnan fól í sér það mat að heimskapítalisminn væri aftur orðinn óstöðugur – eftir tímabundinn stöðugleika sem hófst upp úr 1920 – kreppa væri nú í aðsigi og byltingaröflin væru í sókn en auðvaldið í vörn. Efnahagskreppan sem hófst ári síðar þótti staðfesta þetta mat.

Skilgreining Komintern á þjóðfélagslegu hlutverki sósíaldemókrata var erfiðasta málið, síðan einnig skilgreiningin á hlutverki hins vaxandi fasisma. Sósíaldemókratar voru á þessu skeiði skoðaðir sem „þjóðfélagsleg höfuðstoð borgarastéttarinnar“. Og lengi voru hægri kratar og stéttasamvinna þeirra skoðuð sem mikilvægari stoð undir veldi borgarastéttarinnar en fasisminn. Lögð var upp sóknartaktík með mikla áherslu á að yfirvinna áhrif sósíaldemókrata innan verkalýðshreyfingarinnar. Samtímis var þróun fasismans og tilheyrandi afnám borgaralegra réttinda gjarnan túlkað sem veikleikamerki, sem örþrifaráð auðstéttar sem sæi völd sín í bráðri hættu. „Vinstri“ stefna Komintern byggði sem sagt á yfirdrifinni byltingarbjartsýni og vanmati á stéttarandstæðingnum.

Tuesday, May 28, 2019

Bókartíðindi: Undir fána lýðveldisins

(birt á Neistar.is 16. maí 2019)

 Í febrúar sl. gaf nýtt forlag, Una útgáfuhús, út bókina Undir fána lýðveldisins. Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni eftir Hallgrím Hallgrímsson kommúnista. Þetta er endurútgáfa bókar sem kom út í takmörkuðu upplagi árið 1941. Var löngu gleymd bók
.
Þetta er bæði góð bók og gagnmerk. Hún er fyrsta og eina bók höfundar en hann hefur verið stórvel ritfær og texti hans sannfærir fljótt lesandann um að hér sé sögð mikilvæg saga. Ég er enginn bókagleypir en þessa drakk ég nánast í einum teyg. Við bætist svo prýðilega unnin eftirmáli, „Ævintýralegt lífshlaup baráttumannsins Hallgríms Hallgrímssonar“ eftir Einar Kára Jóhannsson og Styrmi Dýrfjörð.

Af bókinni verður ljóst að Hallgrímur Hallgrímsson er ekki aðeins merkilegur rithöfundur heldur líka afar vel valinn fulltrúi íslenskra pólitískra alþýðumanna af sinni kynslóð. Foreldrar hans voru þingeysk vinnuhjú í sveit. Faðirinn drukknaði frá eiginkonu og 3 börnum og því fjórða, Hallgrími, á leiðinni. Með miklu harðfylgi tókst móðurinni einhvern veginn að halda hópnum sínum saman, og Hallgrímur lauk m.a.s. gagnfræðaprófi á Akureyri og kynntist þar líka sósíalismanum. Hann fluttist suður og vann fyrir sér með stopulli hafnarvinnu en einkum var það köllunin sem stýrði skrefum hans upp frá því. Hann var einn yngsti stofnandi Kommúnistaflokks Íslands 1930. Sérstaklega gerðist hann leiðandi í samtökum ungkommúnista.

Verkalýðshetja.
Hann fór í flokksskóla í Moskvu og kom þaðan tvíefldur í því að berjast við atvinnurekendavald, afturhald og fasisma. Hann gekk í gegnum pólitíska „barnasjúkdóma“ en náði sér af því aftur. Hann hélt til Spánar og barðist þar við fasista í eitt ár. Heim kominn hélt hann áfram pólitísku starfi og varkalýðsbaráttu í Reykjavík (ein athugasemd: að Hallgrímur hafi náð því að verða varaformaður Dagsbrúnar, sbr. bls. 209, hlýtur að vera rangt). Dagsbrún setti á verkfall m.a. í Bretavinnunnni 2. janúar 1941 og breska herstjórnin svaraði með því að setja hermenn í störf verkamanna. Þá dreifðu sósíalistar dreifibréfi á ensku meðal hermanna. Hallgrímur var af því dæmdur fyrir „landráð“ og honum stungið inn á Litla Hraun. Þar olli hann skjótt uppsteyt meðal fanga sem tóku að heimta betri aðbúnað. Fyrir vikið tók fangelsisstjórnin þá geðþóttaákvörðun að loka Hallgrím í einangrunarklefa þar sem hann mátti dúsa í 52 daga. Hann slapp úr fangelsinu á aðventu 1941. Haustið eftir rak hann erindi Sósíalistaflokksins á Austurlandi og Norðurlandi, og fórst þá í sjóslysi sem líklega stafaði af tundurdufli, 32 ára gamall.

Monday, January 21, 2019

Rauðir minningardagar í Berlín

       (birtist á Neistum 16. jan 2019)
        Fulltrúar Alþýðufylkingarinnar í minningargöngu Rósu Luxemburg og Karls Liebknecht í Berlín.
Um miðjan janúar árlega safnast kommúnistar og sósíalistar margra landa saman í Berlín og ganga þar fjöldagöngu til minningar um uppreisn alþýðu, „ófullgerðu byltinguna“, sem brast á í nóvember 1918 en var kæfð með miklu ofbeldi í janúar 1919. Þann 15. janúar það ár voru helstu leiðtogar byltingarinnar, Karl Liebknecht og Rósa Luxemburg, myrt og þúsundir verkamanna í framhaldinu. Þar sem nú er öld liðin frá atburðunum var meira haft við en venjulega í Berlín.

Vésteinn Valgarðsson var þar

Á aldarafmælinu, 15. janúar, birti Vésteinn svohljóðandi fésbókarfærslu:
Í dag er slétt öld frá því hvítliðar/fasistar myrtu Rósu Luxemburg og Karl Liebknecht, aðalleiðtoga þýskra kommúnista, og brutu þar með á bak aftur þýsku nóvemberbyltinguna, ófullgerðu byltinguna. Þessi morð voru framin með vitund og velþóknun Eberts og annarra krata í ríkisstjórn.
Í fyrradag gengu mörgþúsund manns í árlegri minningargöngu um Rósu og Karl, þar á meðal við nokkur frá Íslandi. Þessi árlega ganga er stærsta reglulega samkoma kommúnista í Evrópu, ef ekki heiminum. Gengið er frá Frankfurter Tor, um 4 km leið að minnisvarða sósíalista, þar sem margir frægustu píslarvottar og leiðtogar þýskra sósíalista eru grafnir.
Á laugardaginn var stór ráðstefna sem við fórum líka á. Og á fimmtudag og föstudag fórum við á söguslóðir, Landwehrkanal þar sem Rósu Luxemburg var kastað út í eftir að hafa verið skotin. Ekki er vitað hvort hún var með lífsmarki þá, en það var hún að minnsta kosti ekki þegar hún var slædd upp úr síkinu nokkrum dögum seinna.
Við skoðuðum líka Treptower Park, til minningar um Rauða herinn sem frelsaði Berlín undan nasistunum. Og styttuna af Marx og Engels.
Þetta var góð ferð.“


Sunday, July 8, 2018

Flokkur og samfylking. Ráð Brynjólfs Bjarnasonar



                                                      Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratauga baráttu
Ris og hnig í stéttabaráttunni
Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum... Í harðvítugum verkföllum og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega. Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og inngöngunni í NATO.
Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og hætti afskiptum af stjórnmálum.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu slík umskipti?

Frá verkalýðsflokki til kosningaflokks
Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970:  „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar... einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað 1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega fullnustaður 1968.
Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við stofnuðum til á sjötta áratugnum... Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru ekki nægilega ljós“ (57).
Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli. Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.

Árið 1962
Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt.

Sunday, January 14, 2018

Truman og Churchill

(birtist á fésbók SHA 14. janúar 2017)
Harry Truman og Winston Curchill

Talandi um Kalda stríðið. Fáeinum mánuðum eftir stríðslok, í mars 1946, stóðu þeir Winston Churchill og Harry Truman Bandaríkjaforseti saman á fundi í Fulton í Missouri USA. Þeir tóku stöðuna og Churchill meitlaði hana í fræga setningu: “Frá Stéttin við Eystrasalt til Trieste við Adríahaf hefur fallið niður járntjald yfir þvera álfuna“.
Hvað gaurar voru þetta, nýkomnir úr stríði við fasismann? Ja. Winston Curchill hafði hitt Mússólíni 1927. Eftir fundinn sagði hann við ítalska blaðamenn: „Hefði ég verið Ítali er ég viss um að ég hefði staðið heilshugar með ykkur frá upphafi til enda í árangursríkri baráttu ykkar gegn villimannlegri græðgi og ofstæki lenínismans." (sjá R.M.Langworth 2017, Winston Churchill, Myth and Reality, bls. 106). Síðar, í stríðssögu sinni staðfesti Churchill þetta þegar hann rifjaði upp: „Ennfremur, í átökunum milli fasisma og bolsévisma var enginn vafi hvar samúð mín og sannfæring lá“ (sjá Churchill 1949, Their Finest Hour, 106). Harry Truman var litlu betri. Daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 mælti hann: „Ef við sjáum að Þýskaland er að sigra ættum við að hjálpa Rússum, en ef Rússland er sigursælt ættum við að hjálpa Þýskalandi og á þann hátt láta þá drepa eins marga og mögulegt er.“
Hvorugur þessara manna var andfasisti þó ekki væru þeir fasistar. Þeir voru fyrst og síðast auðvalds- og heimsvaldasinnar, og þeir höguðu seglum á alþjóðavettvangi eftir því sem kom þeirra eigin heimsveldi best. Og fyrir þeirra eigin heimsveldi voru fasistaríkin augljóslega helsta ógnin árið 1941. Fyrrnefnd ummæli Trumans þetta ár um Þýskaland og Rússland má þó ekki skilja svo að hann hafi lagt fasisma og kommúnisma að jöfnu. Eftir að hann varð forseti var andkommúnismi einna sterkasti þáttur í stjórnarstefnunni. Í utanríkismálum fylgdi hann Truman-kenningunni um að koma böndum á kommúnisma hvar í heimi sem væri, í samvinnu við m.a. fjölmargar fasista- og herforingjaklíkur – og í hans forsetatíð náði  McCarthyisminn hámarki heima fyrir. En þarna árið 1946 voru sem sagt þessi helstu forustumenn og spámenn hins „frjálsa heims“ að leggja línuna fyrir Kalda stríðið. Það var ekki von á góðu.

Tuesday, December 26, 2017

Byltingarhugsun og byltingarframkvæmd. Nokkrir punktar um Októberbyltinguna

(birtist á vefsíðunni http://sosialistaflokkurinn.is 23. des 2017)

Hvers konar bylting var Októberbyltingin?
„Byltingarnar eru eimreiðar mannkynssögunnar.“ (Karl Marx, „Stéttabaráttan í Frakklandi 1848-50“, Úrvalsrit, 93) Októberbyltingin spratt upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, hún var afsprengi þess hvernig rússnesk stéttabarátta brást við heimsstyrjöldinni og þeirri pólitísku kreppu sem hún olli. Byltingarnar voru nánar tiltekið tvær. Sú fyrri, Febrúarbyltingin sk., var mikið til sjálfsprottin, ekki skipulögð af neinum stjórnmálaöflum. Það var borgaraleg lýðræðisbylting gegn ríkjandi valdstétt, rússneska aðlinum, en sérstæð að því leyti að hún var fyrst og fremst drifin áfram af verkalýð bæjanna og verkfallsbaráttu hans, einkum í Petrógrad, og síðan af uppreisnum í hernum – en að litlu leyti af borgarastéttinni. Þegar keisarinn afsalaði sér völdum fór síðan af stað uppskipting aðalsjarða, þ.e. bylting jarðlausra bænda gegn landeigendaaðlinum.
Seinni byltingin, Októberbyltingin, var verkalýðsbylting, framkvæmd einkum af verkamannaráðunum (sovétunum) í PetrógradMoskvu og miklu víðar sem spruttu fram í framhaldi af Febrúarbyltingunni. Öfugt við Febrúarbyltinguna var Októberbyltingin í hæsta máta skipulögð – afurð markviss pólitísks starfs. Það sem mestu réði um stefnu og rás atburðanna frá febrúar til október (raunar mars – nóvember) var þróun meðal verkalýðsins og innan hinnar ungu sósíalísku hreyfingar landsins, og alveg sérstaklega var afgerandi þáttur róttækasta hluta hennar – bolsjevíkaflokksins sem leiddi verkamannaráðin til valdatöku og byltingar þann 7. nóvember (25. október á rússnesku dagatali þess tíma).
Valdatakan var fyrirfram boðuð undir þremur meginslagaorðum: Friður! Jarðnæði! Brauð! Á næstu mánuðum voru þessi slagorð sett í framkvæmd – þannig: 1. Hinar stóru landeiginr aðalsins voru teknar eignarnámi og skipt milli þeirra sem erjuðu landið. 2. Saminn var friður við Miðveldin í Brest-Litovsk í mars 1918. Það aflétti ógnarlegum þjáningum af landsmönnum, þó að friðarskilmálarnir væru Rússum erfiðir. Friðurinn var forsenda fyrir framkvæmd síðasta slagorðsins – 3. Rússneski herinn, sem að stærstum hluta var bændaher, gat farið heim og framleitt brauð.
Byltingarstjórnin gat ekki komið í veg fyrir að fyrri valdstéttir, aðall og auðstétt, hæfu borgarastríð árið 1918 sem stóð fram á árið 1922. Þær fengu til liðs við sig 14 kapítalísk ríki sem lögðu þeim til herafla. Rauði herinn hafði þó sigur. Borgarastríðið hafði afgerandi áhrif á stjórnarfar verkalýðsríkisins og átti sinn þátt í að það þróaðist yfir í flokksræði Bolsévíkaflokksins. Það flokksræði var samt stéttbundið eins og pólitísk völd jafnan eru, og sótti vald sitt og stuðning fyrst og fremst til verkalýðsstéttarinnar, lengi vel.


Monday, September 22, 2014

Skilningshamlandi skrif Þórs Whitehead um upphaf seinna stríðs

[Á 4. og 5. áratug síðustu aldar var kommúnistahreyfingin helsta forustuafl alþýðu í baráttunni gegn nasisma og fasisma á heimsvísu. Og í seinna stríði voru það fyrsts og fremst Sovétmenn sem sigruðu og moluðu þýsku stríðsvélina. Ein helsta forsenda þess sigurs var fresturinn sem Sovétmenn keyptu sér með griðarsáttmálanum við Hitler 1939. Svo koma sagnfræðingar borgarastéttarinnar eins og Þór Whitehead og segja okkur að fasisminn og kommúnisminn hafi verið og séu bræður í anda og samherjar í raun. Neðanskráð grein er svargrein við bók Þórs, Milli vonar og ótta. Fyrir hana fékk Þór íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995. Á þessum tíma framstormandi frjálshyggju mætti bókin lítilli andstöðu meðal sagnfræðinga, og grein mín er áreiðanlega helstu andmælin úr þeim ranni. En burtséð frá skrifum Þórs Whitehead er þessi samningur Stalíns við Hitler heimssögulegur, og mjög mikilvægt að draga af honum rétta lærdóma.]

(Birtist í Morgunblaðinu 16. júní 1996)
ÞÓR Whitehead er langt kominn með að verða opinber sögutúlkandi íslenskrar utanríkisstefnu. Þar að auki er hann eitt helsta átórítet í akademískri umræðu um sögu íslenskrar kommúnistahreyfingar. Bæði þessi málefni eru mjög á dagskrá í síðustu bók hans, Milli vonar og ótta, sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin sem bestu bók síðasta árs á sviði fagbókmennta. Margt fróðlegt hefur Þór grafið úr fylgsnum heimildanna. Ég vil þó setja fram þessa spurningu: Er það sem hann skrifar um þessi mál e.t.v. fremur skilningshamlandi en skilningsaukandi?

"Kommúnasismi" sem tvíhöfða þurs

Milli vonar og ótta fjallar um fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er dramatískur tími í stjórnmálalífi Íslands og Evrópu, mjög markaður af griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Yfirleitt hefur Þór Whitehead þann sið að láta "heimildirnar tala". Hann leggur lítt fram eigin túlkanir á atburðum þessara tíma heldur dregur hann saman mikið magn heimilda, birtir úrval af því og eftirlætur lesendum að draga ályktanir. En úrval þeirra heimildabrota sem Þór dregur fram og samhengið sem þær mynda leiða hins vegar lesandann að ákveðnum ályktunum. Og þetta samhengi litast mjög af lífssýn Þórs. Það á við um það sem hann ritar um framgöngu kommúnista, hérlendis sem erlendis, á umræddum tíma og um þau skrif langar mig að fjalla lítillega (og til þeirra vísar titill greinar minnar). Einn ritdómari dregur t.d. ályktun beint af þessu "tali heimildanna" hjá Þór og skrifar að kommúnistar hafi bersýnilega verið "helstu talsmenn nasista eftir að griðasáttmálinn var gerður" (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Mbl. 20. des.). Þór setur aldrei fram svo grófa fullyrðingu berum orðum enda væri það ekki í samræmi við aðferð hans. Hann býr hins vegar til mynd þar sem slík fullyrðing liggur beint við en lætur ekki hanka sig á að koma með hana sjálfur. Myndin sem Þór dregur upp er raunar ekki ný. Hún er í meginatriðum lík málflutningi ráðandi afla þessara ára á Vesturlöndum og túlkun þeirra á griðasáttmálanum. Þór endurframkallar þá mynd einfaldlega með því að kalla á ný fram anda þessara ára. Að mínu mati er hér á ferðinni eitthvað annað en sagnfræði. Það er blaðamennska í sögulegu efni. Sagnfræðingur spyr spurninga, leitar hinna mögulegu skýringa og svara í heimildum sínum og tekur síðan afstöðu til þeirra. Þór veltir upp miklu söguefni að hætti blaðamanns en stoppar þar og eftirlætur lesendum að draga ályktanir.

En blaðamennska Þórs Whitehead er pólitísk, og stöku sinnum kemur hann með almennar "upplýsingar" sem í reynd eru pólitískt merktar túlkanir: 

"Stalín mælti einnig svo fyrir að Alþjóðasamband kommúnista skyldi virkjað gegn Bandamönnum ... Á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga ... Ráðstjórnin og Komintern höfðu afturkallað boðskapinn um samfylkingu gegn fasisma og fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu""(bls. 60-61).

Að sögn Þórs bergmálaði þessi nýja stefna Stalíns og Kominterns strax í málflutningi kommúnista á Íslandi. Sem dæmi um það tilfærir hann brot úr grein eftir Halldór Laxness og túlkar hana á sinn hátt. Hann segir hana vitnisburð um að kommúnistar hér hafi strax þóst skilja hver væri "dulinn tilgangur Stalíns" með hinni nýju stefnu: 

"Samfylking gegn fasisma" var úrelt orðin, því sáttmáli við Hitler, óvin siðmenningarinnar, þjónaði betur hagsmunum heimsbyltingarinnar ... Herjum Bandamanna og Þjóðverja blæðir út í langvarandi stríði, en Sovétríkin færa út landamæri sín í vesturátt og vígbúast í friði ... Í stað þess að haltra til framtíðarríkisins í hægfara samfylkingu gat óskadraumurinn um frelsun alþýðunnar þá ræst um alla álfuna, eins hratt og skriðdrekar hinnar stórkostlegu fimm ára áætlunar fengju sótt fram vestur á bóginn" (bls. 65).

Ofangreindar tilvitnanir og túlkanir draga upp eftirfarandi mynd: Í fyrsta lagi voru Stalín og Hitler bandamenn á þessu tímabili. Í öðru lagi hafði Stalín 1939 dulin plön um sórkostlega sókn vestur á bóginn. Í þriðja lagi gat Stalín, þegar honum hentaði, skipað fylgismönnum sínum á Íslandi sem annars staðar að gerast bandamenn fasista gegn sameiginlegum óvini beggja: lýðræðinu. Þeir hlýddu. Og þannig var línan fram á sumar 1941 þegar Hitler óforvarandis réðist á Stalín. Þá gerðust kommúnistar aftur andfasistar ­ en svo langt nær raunar ekki bókin Milli vonar og ótta.

Saturday, August 9, 2014

Stórbreskt íhald

(birtist á Vefritinu Kistunni og á eggin.is í febrúar og mars 2008)
Nú hef ég hraðlesið tvær bækur, hnausþykkar, eftir Antony Beevor: Stalíngrað sem út kom hjá Bókaútgáfunni Stalingrad, BeevorHólum nú fyrir jólin (útgefin í Bretlandi 1998) og svo bókina TheBattle for Spain. The Spanish Civil War 1936–1939 sem kom út 2006.  Tvær aðrar bækur höfðu áður komið út á íslensku: Fall Berlínar 1945 (2006) ogNjósnari í Þýskalandi nasista?: ráðgátan um Olgu Tsékovu (2007).
Beevor er metsöluhöfundur sem hefur fundið einhverja þá töfraformúlu sem tryggir honum lesendur í milljónavís. Hann er orðinn að stórveldi á Íslandi líka. Í tengslum við útkomu bókarinnar Fall Berlínar haustið 2006 hélt hann fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands og troðfyllti hátíðarsal Háskóla Íslands og af því tilefni var hann hlaðinn miklu lofi af forsvarsmönnum Sagnfræðingafélagsins í útvarpinu og víðar.
Antony Beevor er menntaður í Winchester og nam síðan hernaðarsögu við Konunglegu herakademíuna í Sandhurst. Þá er hann fyrrverandi liðsforingi í breska hernum. Talsverð hefð er fyrir slíkum  menntunar- og starfsframa í breska heimsveldinu.

Wednesday, July 2, 2014

Hreinsanirnar miklu í Sovétríkjunum

Nú mun ég bregða út af þeirri reglu að birta hér eingöngu efni sem áður hefur birst (prentað eða stafrænt) og birti hér alllanga fræðigrein um svonefndar „hreinsanir Stalíns“. Þetta er úttekt á vestrænum rannsóknum og skrifum um efnið í tímans rás. Ég ritaði greinina í tveimur lotum, 2002 og  2005. Ég hugsaði hana þá fyrir tímaritið Sögu og hún þvældist hjá ritstjórum ritsins drjúgan tíma en þeir kusu svo að birta hana ekki. Áður hafði ég rannsakað sovéska sögu talsvert og skrifað kandídatsritgerð mína við Óslóarháskóla árið 1991 á því sviði. Ritgerðin var verðlaunuð með „Arkivprisen“ og í framhaldi af því kom grein mín „Hvordan oppsto stalinsimen“ í Årbok for Arbeiderbevegelsens arkiv og bibliotek 1993. Það er ennþá viðkvæmt mál að fjalla um sovéska sögu Stalíntímans án skýrrar fordæmingar helstu gerendanna. Engu að síður er efnið afar mikilvægt í pólitískri jafnt sem sagnfræðilegri umfjöllun. Í allri umræðu um þetta mikla söguferli eru hinir örlagaríku „hreinsanir“ 1937-38 það sem oftast er vísað til og þær gjarnan látnar gera út um þá sögulegu tilraun sem Sovétríkin voru. Þess vegna er upplýst umræða um einmitt þá atburði svo mikilvæg.


Ný viðhorf í ensk-amerískum rannsóknum[1]

Hér verður gerð nokkur úttekt vestrænum rannsóknum sem gerðar hafa verið á hreinsununum Stalíns á síðustu tveimur áratugum – eftir að „perestrojka“ Gorbatsjovs hófst. Rannsónir frá enska málsvæðinu eru hér í fyrirrúmi. Að því leyti er greinin að nokkru „historíógrafísk“ en ég reyni þó alls ekki að vera hlutlaus og gefa heildarmynd af umræðunni um efnið heldur vel mér höfunda og reyni með hjálp þeirra að gefa heildstæða mynd af því sögulega ferli sem um ræðir. Sú mynd er því á mína ábyrgð.

“Hreinsanir Stalíns” voru atburðir sem höfðu meiri áhrif á alla síðari umræðu um sovéska sögu en önnur tíðindi frá Sovétríkjunum. Sú bylgja pólitísks ofbeldis sem reið yfir sovéskt samfélag á fjórða tug aldarinnar varð mjög til að sverta ímynd Sovétríkjanna en jafnframt hefur hún alla tíð verið sagnfræðingum sem öðrum bæði deiluefni og ráðgáta. Spurningarnar hafa verið þessar venjulegu: Hvað gerðist í raun og veru? Af hverju gerðist það? Svörin voru afar mismunandi. Um fjölda drepinna birtust áætlaðar tölur sem allar voru háar en mikið bar á milli höfunda, allt frá um hálfri milljón manna til tugmilljóna og áætlanir um mannfjöldann í GULAG-fangabúðunum voru álíka breytilegar. Skýringar sem gefnar voru á þessu ofbeldi voru ennþá margvíslegri og áttu oft lítið sameiginlegt sín á milli.

Saturday, November 10, 2012

Nokkurs konar kommúnistaávarp 1. maí


(Birtist á Eggin.is 1. maí 2012)

Kreppan byrjaði sem sprungin fjármálabóla sem hefur þróast yfir í skuldakreppu æ fleiri ríkja eftir að þau ábyrgðust skuldir banka. Orsakir hennar eru þó innri andstæður framleiðslukerfisins. Hún er í eðli sínu kapítalísk offramleiðslukreppa. Marx skilgreindi á sínum tíma hvernig þenslueðli kapítalismans rekst óhjákvæmilega á arðránseðli hans. Sú móthverfa er þar enn jafn óleyst.
Undanfarna áratugi hefur stöðnun kapítalismans sagt meira og meira til sín. Núverandi kreppa er sú dýpsta eftir stríð og dýpkar enn. Atvinnuleysistölurnar hækka, árásirnar á kjör almennings harðna, velferðin er skorin og skorin meira. Kreppan gerir heimsvaldasinna enn herskárri. Þeir reyna að tryggja með valdbeitingu það sem ekki vinnst með peningavaldinu einu. Fremst í þeim flokki standa Bandaríkin og evrópskir bandamenn þeirra.
Kreppan skall snemma og harkalega á Íslandi vegna ofvaxtar fjármálakerfisins. Sá ofvöxtur átti rætur í sömu andstæðum framleiðslukerfisins og í samdrætti í innlendum frumframleiðslugreinum og iðnaði. Vinstri flokkarnir nýttu sér kreppuna – til að taka við stjórnartaumum. Fyrsta „hreina vinstristjórn“ lýðveldistímans varð til.
Margur maðurinn taldi að nú yrði gagnger breyting á efnahags- og valdakerfinu á Íslandi. Fyrst eftir fjármálahrunið var það útbreidd skoðun vinstri manna að frjálshyggjan væri á leiðinni á öskuhaug sögunnar og „félagsleg gildi“ yrðu leidd til öndvegis. Það gerðist ekki. Í staðinn var endurreisninni stýrt af helsta fánabera frjálshyggjunnar á heimsvísu, AGS, sem þótti reyndar framganga íslenskra stjórnvalda til fyrirmyndar, enda forgangsverkefnin í anda sjóðsins: endurreisn fjármálakerfisins og mikill niðurskurður ríkisútgjalda. Ekki var ráðist gegn ríkjandi eignarhaldi eða rekstrarháttum á neinu sviði. Þvert á móti. Einkavæðingin heldur áfram.
Samfylkingin var í „hrunstjórninni“ og reyndar alla tíð mjög bendluð við kratíska markaðshyggju og einkavæðingu, svo ímynd hennar var löskuð. VG var hins vegar talinn róttækur hugsjónaflokkur, og ómengaður. Ekki lengur. Forusta hans samsamar sig nú íslenska efnahags- og valdakerfinu svo rækilega að vandlæting hennar beinist einkum að þeim sem keyrðu kerfið „út af sporinu“. Í þeim anda hafði VG umfram aðra flokka frumkvæði að því að kæra ráðherra úr fyrri ríkisstjórn fyrir Landsdómi.  Með tilvísun til „ráðherraábyrgðar“ er bankakreppan skoðuð sem „klúður“ og „mistök“.
Þessi kerfis-samsömun „vinstri foringjanna“ er til þess gerð að fá alþýðu til að samsama sig kerfinu líka. Endurreisn kerfisins, umfram allt fjármálakerfisins, er kölluð endurreisn „samfélagsins okkar“. Og nú hafa stjórnvöld öfluga píska á hendi. Þau vísa til „ástandsins“. „Ástandið“ er því miður svona slæmt. Engir peningar til. Allir verða að axla sinn skerf af „ástandinu“. Það er jafnaðarmennska! Það er fullkomið ábyrgðarleysi fyrir almenning að gera nú kröfu um eitt né neitt.
Kúgunarkerfi auðvaldsins er orðið mjög fullkomið þegar gamlir verkalýðsforingjar eins og Jóhanna Sigurðardóttir (áður formaður Flugfreyjufélagsins) og Ögmundur Jónasson (áður formaður BSRB) fá þessar „ástands“-svipur í hönd og láta þær ganga á bökum alþýðu – og taka síðan niðurskurðarhnífana.
Auðvaldskreppan birtist fólki eins og umferðarslys eða lestarslys. Lestin er efnahagskerfið. Auðstéttin og ráðandi auðblokkir ætlast til þess að stjórnvöld velti kreppunni yfir á almenning og vinni svo að því að koma lestinni „á sporið“ aftur. Kreppan vekur reiði sem beinist að stjórnvöldum. Almenningur er til alls vís. Gömlu andlitin í stjórnkerfinu eru rúin trausti. Það er sigurstranglegt fyrir auðstéttina að fá vinstri menn og alþýðusamtök til að taka ábyrgð á kerfinu (og utanaðkomandi „fagaðila“ eins og AGS). Þá kemur alþýða síður vörnum við heldur en ef kjaraskerðingarnar eru framkvæmdar af íhaldsöflunum og hefðbundnum auðvaldssinnum.
Fátt af  þessu er í raun séríslenskt. Frá því um 1980 eða svo hafa flestir stjórnmálaflokkar kenndir við vinstrimennsku og alþýðu lagt alveg á hilluna sósíalíska baráttu og gengið efnahagskefi og stjórnmálakerfi auðvaldsins á hönd. Þegar kreppan nú ríður yfir og auðvaldskerfið sýnir grímulausan ljótleika sinn kemur í ljós algjör skortur kratismans á þjóðfélagslegum valkosti og hann fær þetta snatthlutverk fyrir auðvaldið sem hann hefur á Íslandi nú um stundir.
Í íslenskri verkalýðshreyfingu eru mestu ráðandi sömu stjórnmálaöfl og í landsstjórninni. Verkalýðsforingjarnir undirgangast leikreglur íslenska auðvaldskerfisins, sammála því að horfa verði til hins erfiða „ástands“ og ganga í það að friða almenning gagnvart hinum harkalegu kjaraskerðingum. Nöturlegur veruleikinn er sá að íslensk verkalýðshreyfing er í gíslingu auðstéttarinnar.
Það ástand hlýtur að vera tímabundið. Það er áhugavert að bera stöðuna nú saman við síðustu stóru kreppu, á 4. áratug 20. aldar. Þegar kreppan skall á Íslandi voru sprækir hópar kommúnista og vinstri sósíalista nýkomnir fram á sjónarsviðið og starfandi innan samtaka alþýðu. Þeir sögðu einfaldlega að kreppa auðvaldsins væri ekki þeirra kreppa. Síst af öllu mátti alþýðan draga úr kröfum og baráttu vegna hennar. Þvert á móti var kreppan tilefni til að herða baráttuna fyrir kjarabótum – og öðru þjóðskipulagi. Róttæklingarnir tóku forustu í alhliða stéttabaráttu, verkalýðshreyfingin treysti á samtakamáttinn og náði að stórefla sig á þessum kreppuárum. Forustumönnum kommúnista hefði seint dottið í hug að fara í dómsmál við Tryggva Þórhallsson og Jónas frá Hriflu fyrir að valda kreppunni.
Þörfin fyrir þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið verður æpandi í kreppunni. Eftir fall fyrstu kynslóðar sósíalsískra ríkja er margt óljóst um það hvernig sá valkostur mun líta út. Hitt er þó ljóst að ekki er lengur búandi við þjóðskipulag sem byggir á einkaeignarrétti á framleiðslutækjum og hefur gróðasóknina sem gangvél. Það leiðir okkur aðeins lengra út í afmennskun samfélagsins og hnattrænt barbarí.

Tvö meginatriði. Í fyrsta lagi: Verkalýðshreyfing sem ekki á sér þjóðfélagslegan valkost við auðvaldskerfið er og verður í gíslingu. Í öðru lagi: Launafólk og róttæk alþýða má ekki skoða núverandi vinstri flokka í landinu sem velmeinandi en skeikula bandamenn heldur það sem þeir eru, verkfæri auðvaldsins. Þeir eru meginstoðir í valdakerfi auðstéttarinnar í landinu.

Hvernig flokk þurfum við?



(Ræða á ráðstefnu Rauðs vettvangs 11. okt. 2009, lítillega aukin og endurbætt. Birtist á eggin.is 28. okt. s. á.) 

HVERNIG FLOKK ÞURFUM VIÐ? Því verður að svara með hjálp annarrar spurningar: TIL HVERS Á AÐ BRÚKA HANN?
BRÝNASTA VERKEFNIÐ hlýtur að vera þetta: Að hjálpa íslenskri alþýðu að verja sig gegn núverandi árásum, skipuleggja vörnina, og mögulega sókn. Það er ekkert stjórnmálaafl í landinu sem gerir það svo gagn sé að.
EN TIL LENGRI TÍMA? Hvaða framtíðarsýn höfum við? Kannski vitum við það ógjörla en vitum þó að nú er rétti tíminn til að ræða einmitt það. Ég held við vitum líka hvað við viljum ekki.  Ég tel víst að flest okkar hér inni séum sammála um að við viljum ekki auðvaldið. Auðvaldið sem ræður ríkjum, vald peninganna, vald markaðarins, auðræði, altækt vald og alls staðar nálægt eins og guð.