Friday, March 6, 2020

Áfram Eflingarkonur!

(Birtist á Neistum 3. mars 2020)

Efling stéttarfélag ryður nú brautina. Ótímabundið verkfall félagsins gagnvart Reykjavíkurborg hefur staðið í á þriðju viku. Samstaðan og stuðningur félagsmanna við aðgerðirnar er yfirgnæfandi. Verkfallið var samþykkt með 95,5% atkvæða þar sem um 60% greiddu atkvæði. Væntanleg samúðarverkföll Eflingarfélaga hjá einkareknum skólum og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg (sett á 9. mars nk.) voru einnig samþykkt með miklum meirihlutastuðningi. Láglaunafólk í Reykjavík er í baráttuhug. https://efling.is/2020/01/26/yfirgnaefandi-meirihluti-samthykkir-verkfallsbodun-gagnvart-reykjavikurborg/

Svo sem við var að búast reyna andstæðingarnir að sá sundrungu. Lýsa Eflingu sem klofningsafli í verkalýðshreyfingunni. Efling eyðileggur Lífskjarasamningana! Efling vill ekki meta nám til launa! Borgarstjóri stundar fagurgala í fjölmiðlum en býður mjög fátt sem fast er í hendi. En Eflingarfólk þjappar sér bara betur saman. Hátt er rætt um réttmæti verkfallsins og réttmæti verkfalla yfirleitt.
Ýmsir „ábyrgir“ aðilar segja að kröfur Eflingar séu óásættanlegar, „út úr kú“, muni koma af stað „höfrungahlaupi“, „skapa glundroða“ o.s.frv. Við þurfum varla að ræða lengi slíka skoðun. Ófaglært starfsfólk í barnagæslu hefur lægst laun af öllum starfsstéttum í landinu. Umönnunarstörf eru lægst metin! Að undirlaunuð kvennastétt og umönnunarstétt stígi fram – lægsti hópur launaskalans eftir áratuga vaxandi ójöfnuð – er að sjálfsögðu fagnaðarefni.