Saturday, February 7, 2015

Ný og sniðug heimsvaldastefna

(Birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2015)

Friðarhreyfingin á Íslandi er hálflömuð, eins og víðast um hinn vestræna heim. Ekki vantar þó verkefnin enda ófriðvænlegra í heiminum en verið hefur í hálfa öld. Friðarhreyfing sú sem velgdi Bush og Blair undir uggum kringum innrásina í Írak 2003 hefur undanfarin ár verið óvirk og ráðvilt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi, Írak, Úkraínu... Samtök hernaðarandstæðinga á Íslandi tekst ekki, frekar en friðarhreyfingu Evrópu, að taka skýra afstöðu í neinu af þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja baráttu fyrir friði. Ég velti ástæðunum fyrir mér.

Árásirnar á Afganistan 2001 og Írak 2003 voru gamaldags innrásir í ætt við herferðir Hitlers um Evrópu eða stríðið í Víetnam, þó þær væru sagðar farnar til að útrýma „hryðjuverkamönnum“ og „gjöreyðingarvopnum“. Bandaríkjunum gekk þó heldur illa að fylkja bandamönnunum að baki sér í Írak, sbr. afstöðu Frakklands og Þýskalands, enda reis upp gríðarlega öflug friðarhreyfing gegn stríðinu, ekki síst í Evrópu. Hún lét blekkingaráróður ekki blinda sig. Hún afhjúpaði það að stríðið snérist um gamalkunn efni: olíu, auðlindir og áhrifasvæði í anda gamllar nýlendustefnu og bað innrásaröflin snauta heim. Stríðið varð illræmt meðal almennings og innrásaröflunum dýrt.

Bandarískir strategistar drógu lærdóm af vandræðunum. Suzanne Nossel er bandarískur demókrati sem rokkar á milli forustuembætta hjá SÞ, Utanríkisráðuneytinu og sk. mannréttindastofnunum. Árið 2004 skrifaði hún grein í Foreign Affairs og boðaði „frjálslynda alþjóðahyggju“. Hún gagnrýndi tilhneigingu Bush-stjórnarinnar til einhliða hernaðaraðgerða, Bandaríkin yrðu að læra að tileinka sér „SMART POWER“, að sameina hernaðarmátt sinn og baráttu fyrir framsæknum og húmanískum gildum.

Síðan hefur hernaðaraðferðin verið þróuð af Hillary Clinton og hennar líkum. Lykilatriði er að beita fyrir sig „frjálsum félagasamtökum“ (NGO´s). Ein slík eru National Endowment for Democracy (NED), stofnuð 1983 (önnur eru US Agency for International Development (USAID)). NED eru afar fjársterk stofnun, sérhæfð í að grafa undan stjórnvöldum sem standa að „ófrelsi“, m.ö.o. þóknast ekki Vesturveldunum.

Nýja heimsvaldastefnan er frjálslynd. NED rita á fána sinn lýðræði, málfrelsi, réttindi kvenna og samkynhneigðra... Þau tengjast andstöðuhópum og samtökum í viðkomandi löndum og leggja fram fé, tækni og hugmyndafræði. NED má skoða sem ein dóttursamtök CIA og Allen Weinstein, einn af stofnendum þeirra,  sagði í viðtali við Washington Post 1991: „Margt af því sem við gerum í dag var fyrir 25 árum gert leynilega af CIA.“ NED vinnur að „litabyltingum“ og uppreisnum gegn „ófrelsi“, ekki síst á gamla áhrifasvæði Sovétríkjanna. Nýja frjálslynda stefnan beitir samt hiklaust fyrir sig trúarlegum og veraldlegum fasisma ef með þarf, sbr. Úkraínu  og Sýrland.

Árið 2011 sagði Robert Gates varnarmálaráðherra um stefnubreytinguna:  „Að mínum skilningi ætti hver sá utanríkisráðherra sem ráðleggur forsetanum að senda stóran bandarískan landher inn í Asíu eða Miðausturlönd eða Afríku að láta athuga á sér höfuðið.“ Ránseðli styrjaldanna breyttist ekkert, hins vegar ytri ásýnd þeirra. Í stað innrása eigin herja beita heimsveldin staðgönguherjum og málaliðum sem þau vopna ýmist opið eða leynilega, ala á trúar- eða þjóðernadeilum, beita efnahagslegum refsiaðgerðum gegn viðkomandi landi, diplómatískri einangrun og níði í heimspressunni. Allt til að brjóta löndin niður INNAN FRÁ. Beinar árásir heimsveldanna sjálfra eru helst í formi lofthernaðar, oft undir merkjum NATO sem þá kallar sig „alþjóðasamfélagið“, eða með mannlausum flygildum – sem kostar litlar mannfórnir eigin herja.

Í aðdraganda Líbíustríðsins var Ban-ki-Moon send bænaskrá um hernaðaríhlutun, undirrituð af 70 „mannréttindasamtökum“. Efst á blaði var Libyan League for Human Rights, samtök runnin undan rifjum NED. Vísað var til „verndarskyldu“ SÞ, og þetta átti mikinn þátt í að SÞ samþykkti loftferðabann á Líbíu og NATO gat hafið aðgerðir sínar

NED og USAID áttu meginþátt í „litabyltingunni“ í Úkraínu í fyrra, og nú fyrir jól samþykkti bandaríska Þingið og Fulltrúadeildin lagafrumvarp, "Ukraine Freedom Support Act" sem gefur forsetanum lögheimild til að vinna að valdaskiptum í Rússlandi! Þar segir: „Utanríkisráðuneytið skal [vinna að því] beint eða gegnum frjáls félagasamtök eða gegnum alþjóðastofnanir eins og Öryggis og samvinnustofnun Evrópu, National Endowment for Democracy (NED) eða skyldar stofnanir.“

Eftir Líbíustríðið tók við „uppreisnin“ gegn Assad í Sýrlandi. Ákaft var reynt að koma á NATO-íhlutun eftir eiturgasárás í Damaskus en tókst ekki. En í „uppreisninni“ fæddist skrímslið „Íslamska ríkið“ – og nú heyja Vesturveldin stríð úr lofti gegn Sýrlandi og Írak, formlega gegn skrímslinu en það sniðuga er að skrímslið fær öll sín vopn eftir krókaleiðum frá þeim sömu sem segjast berjast við það: Sádi Arabíu,  Katar, Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

Sannarlega er þetta „smart power“. Svo  „smart“ að NATO-fylkingin stendur nú sameinuð en friðarhreyfingin lömuð.

3 comments:

  1. Ein mikilvægasta grein hin seinni árin um þetta efni. Mjög mikilvægt að draga samtök eins og NED inní umræðuna enda grundvallaratriði til að skilja samhengi hlutanna. Svo mætti örugglega bæta samtökunum hans George Soros við þessa umræðu; "The Open Society for International Peace". Ó já, friður og mannréttindi er svo huggulegur ferðafélagi þessarar nýju og sniðurgu heimsvaldastefnu. PR-Demokrata-friðar-mannréttinda-iðnaðurinn verður að afhjúpa. Þessi grein er snilldar-liður í því. Munið þið eftir þegar Úkraínu-súkkulaði-kóngurinn veifaðir meintum Rússa-hermanna-vegabréfum á frétttilkynningar-fundi. Hvað var þetta, frétt eða PR-gjörningur? Ætli þær fitni ekki vel sumar almannatengsla-skrifstofurnar?

    Ari Tryggvason arit54@gmail.com

    ReplyDelete
    Replies
    1. Bestu þakkir Ari. Já, samtök George Soros eru hluti af þessu, einnig Council for Foreign Relations, Humar Rights Watch og að nokkru leyti Amnesty International. Fólk pendlar gjarnan milli Utanríkisráðuneytisins í Washington og þessara samtaka.

      Delete
    2. Hef ekki kíkt á síðuna þína all legni. Alveg rétt. Ég sagði mig úr Ísl.d. Amnesty fyrir all nokkru þar sem ég tilgreindi nokkrar ástæður; Zbigniew Kazimierz Brzezinsk var í stjórn þeirra í Bandaríkjunum, afstaða þeirra gegn Assad stjórninni og Pussy Riot fárið.

      Delete