Sunday, November 15, 2015

Heimsvaldastefnan, þjóðríkið og Sýrlandsstríðið

(Ræða lesin á málþingi Rauðs vettvangs um marxisma í Friðarhúsi 7. nóv 2015)

Heimsvaldastig kapítalismans inniber átök milli efnahagslegra/pólitískra blokka sem bítast um markað og áhrifasvæði. Út úr slíkum átökum hafa sprottið mörg staðbundin stríð sem og báðar heimsstyrjaldir 20. aldar. Lenín skrifaði eftirfarandi um eðli heimsvaldastefnunnar: „Þeir [kapítlistarnir] skipta heiminum „í hlutfalli við fjármagan“, „í hlutfalli við styrkleik“. Um aðra aðferð getur ekki verið að ræða við skilyrði vöruframleiðslu og auðvalds. En styrkleikahlutföllin raskast með þróun efnahags- og stjórnmála... hvort sem sú röskun er „hrein“-efnahagsleg eða af öðrum rótum runnin (t.d. hernaðarlegum).“ (Lenín, Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls 97-98)
Útþenslan er hreyfiafal og sál kapítalismans. Þegar í lok 19. aldar var heiminum fullskipt upp milli auðvaldsblokka. Heimsvaldastefnan þolir hvergi neitt „tómarúm“ því útþensluhneigt auðmagnið flæðir þá inn í viðkomandi tómarúm. Stundum gerist það með verslun og hreinni fjármagnsútrás ( sbr. „hnattvæðingu auðhringanna“) en stundum með hernaðarútrás, jafnvel þar sem blokkirnar bítast með vopnum.
Það hefur sýnt sig að á hverjum tíma eru hinar ólíku efnahags- og stjórnmálablokkir misjafnlega árásarhneigðar, mishneigðar til að beita herstyrk. Af mismunandi ástæðum. Fyrir fyrri heimsstyrjöld og þó enn frekar á 4. áratugnum var Þýskaland mjög árásarhneigt ríki. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og hins tiltölulega litla olnbogarýmis (hér er fylgt greiningu Leníns).
Krafa nasismans um „lífsrými“ skýrist af þessu og einnig stuðningur þýska stórauðvaldsins við nasismann og áform hans um hervæðingu efnahagslífsins og landvinninga. Lenín hafði skrifað: „Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluaflanna og samsöfnunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendna og áhrifasvæða hins vegar?“ (Heimsvaldastefnan – hæsta stig auðvaldsins, bls. 130)  


Hvaðan kemur meginógnin?
Á 4. áratug 20. aldar stafaði meginógnin við friðinn í Evrópu frá Þýskalandi, vegna þess „misræmis“ sem Lenín nefndi. Í baráttunni gegn þessari meginógn skipti það miklu máli hvernig ágreiningnum milli Bretanna Churchills og Chamberlains lyktaði. Friðkaupastefna (eða friðunarstefna, appeacement) Chamberlains afhenti Hitler og fasistum eitt landið af öðru: Austurríki, Tékkóslóvakíu og auðveldaði þeim sigurinn á Spáni. Við þessar aðstæður var aukin hernaðaruppbygging Frakklands gegn Þýskalandi lóð á vog friðar, þó að Frakkland, eins og Bretland, væri heimsvaldasinnað ríki. Að ekki sé talað um aukinn herstyrk Sovétríkjanna, sem um síðir braut hrygg nasismans. 
Síðan kom kalda stríðið sem stundum er lýst sem „vopnuðum friði“ fyrir tilstilli „ógnarjafnvægis“. Á 8. og 9. áratug beindu róttæklingar og friðarsinnar baráttu sinni jöfnum höndum gegn hernaðarbandalögunum tveimur, NATO og Warsjárbandalagi. Risaveldin börðu niður frelsisbaráttu þjóða og alþýðu á „sínu“ áhrifasvæði. Hitt er þó líka staðreynd að á árum kalda stríðsins héldu risaveldin (USA/Sovét) aftur af valdbeitingu hvors annars.
Með falli Sovétblokkarinnar um 1990 gerðist það að „tómarúm“ skapaðist á fyrrum áhrifasvæði Sovétríkjanna. NATO leysti sig þá ekki upp heldur þandi út svæði sitt. Alþjóðavettvangurinn varð „einpóla“. Bandaraískt og vestrænt auðmagn ruddist strax inn á „tómarúmið“. Annars vegar gerðist það gegnum hnattvæðingu auðhringanna með hjálp AGS, Alþjóðabankans, Heimsviðskiptastofnunar, (WTO), ESB, NAFTA, OECD...  Hins vegar gerðist það með hernaðarútrás: Strax á 10 áratug varð ljóst að endalok kalda stríðsins boðuðu ekki frið – og einnig varð ljós sú staðreynd að mesta stríðshættan stafaði einmitt frá NATO-blokkinni. Árið 1999 afnam NATO sín landfræðilegu mörk og breytti sér í hnattrænt hernaðarbandalag Vesturveldanna með allan heiminn undir. 11. september 2001 hófst hernaðarútrásin, undir fána „stríðs gegn hryðjuverkum“.
NATO er undir skýrri forustu Bandaríkjanna sem er hernaðarlega drottnandi á heimsvísu – með ca 800 herstöðvar utan lands og með hernaðarlega nærveru í 130-140 löndum (70% af ríkjum SÞ). Af því Pútín er stundum titlaður „Hitler okkar tíma“ er rétt að minna á þessa heildarmynd. Árið 2012/13 námu herútgjöld USA 8-földum herútgjöldum Rússlands, sem í dag hefur 2 herstöðvar utan lands.

Heimsvaldastefnan umber ekki sjálfstæðar þjóðir
Það hefur orðið æ erfiðara fyrir einstök ríki að varðveita sjálfstæði sitt og sjálfsákvörðunarrétt. Lönd sem reka sjálfstæða stefnu, þýðast ekki hnattvæðingu vestrænna auðhringa eða eru í „vitlausu liði“ mæta margs kyns refsiaðgerðum, tilraunum til „litabyltinga“ eða beinni hernaðaríhlutun. Júgóslavía, Líbía, Írak, Íran, Afganistan, Sómalía, Súdan, Úkraína, Rússland, Sýrland, Jemen o.fl. eru dæmi um lönd sem hafa óhlýðnast vestrænu agavaldi og mætt grimmilegum refsingum. Og nú héldu ekki lengur risaveldin hvort aftur af öðru. NATO-veldin gátu beitt valdi sínu hömlulítið.
Og NATO-blokkin verður stöðugt árásarhneigðari eftir því sem Kína og nýmarkaðsríkin (nýiðnvæddu) sækja á á heimsmarkaðnum.  Að því leyti er orsök heimsvaldasinnaðrar árásargrini önnur en hún var 1914 eða 1939. Orsökin er ekki landhungur rísandi stórveldis (Þýskalands) heldur þvert á móti, viðbrögð gamals heimsveldis við sókn nýs rísandi heimsveldis (Kína og nýmarkaðsríkja). Miðausturlönd eru strategískt lykilsvæði vegna legu sinnar á margs konar krossgötum og vegna olíuauðs. Strategistinn Henry Kissinger hefur sagt eftirfarandi: „Sá sem stjórnar olíuunni stjórnar heilum heimsálfum.“ Þess vegna hafa stríðin kviknað svo ört í Miðausturlöndum sem raun ber vitni. Auk þess að ná tökum á olíunni er NATO-blokkinni afar mikilvægt að eyða bandamönnum Rússa og Kínverja þar.
Það dugir okkur ekki að látu okkur dreyma heimsvaldakerfið burt. Ekki nægir heldur að syngja sálma og friðarsöngva. Og gagnslítið að þylja þá möntru að ekkert ofbeldi sé öðru verra, allt ofbeldi sé af hinu illa. Heimsvaldakerfið verður áfram til og skipar málum þessa heims út frá sínum styrk og hagsmunum.
Við þessar aðstæður er afar mikilvægt að til séu ríki sem staðið geti sem hernaðarlegt mótvægi gegn óheftri framrás stríðsaflanna. Sýrland og Íran eru ríki sem berjast fyrir lífi sínu og sjálfsákvörðunarrétti, enda er hart að þeim sótt. Og Rússland sem var á 10 áratugnum langt komið með að verða útibú Vesturvelda og vestrænna auðhringa hefur undir stjórn Pútíns staðið fastar á rússneskum hagsmunum, bæði á efnahags- og hernaðarsviði.

Sýrlandsstríðið í sögulegu samhengi
Síðustu 2 ár eða svo hefur Rússland undir stjórn Pútíns ásamt Kína og fleiri bandamönnum tekið að mynda andstöðupól á alþjóðavettvangi, með því að blanda sér ítrekað í Sýrlandsdeiluna (fyrst þegar lofthernaður Vestursins var nærri hafin eftir eiturgasárás nærri Damaskus 2013) og með róttækum ráðstöfunum á Krím frammi fyrir skefjalausri útþenslu NATO í austur, allt upp að bæjardyrum Rússa.
Nýjasti þáttur í þeirri þróun er svo lofthernaður Rússa í Sýrlandi sem hefur á einum mánuði gert miklu meira í því að brjóta á bak aftur ISIS en lofthernaður USA og bandamanna í eitt ár. Lofthernaður Pútíns hefur snúið stríðsgæfunni í Sýrlandi. Með rússneskum stuðningi úr lofti sækir sýrlenski herinn fram á strategískum svæðum. Mikilvægasti sigur undanfarið var frelsun Kweiris flugvallar við Aleppo. Borgin sjálf er nú tvískipt en skammt sýnist þess að bíða að þessi stærsta borg Sýrlands verði frelsuð. Aleppo er nærri landamærum Tyrklands þar sem ISIS og hryðjuverkasveitirnar hafa traustar birgðaflutningaleiðir yfir landamærin og hefur talist traust yfirráðasvæði uppreisnarmanna. Einnig hefur stjórnarherinn frelsað bæina Hama og Homs – milli Aleppo og Damaskus – með aðstoð Hizbollasveita frá Líbanon. Snöggur snúningur stríðsgæfunnar með tilkomu Rússa sýnir auðvitað að stríð Obama og bandamanna gegn ISIS undanfarið rúmt ár hefur verið gerfistríð og ISIS hefur aðeins styrkst á meðan. Vestræna pressan bregst við með því að fordæma lofthernaðinn og segja að Pútín ráðist á „hófsama“ og „okkar menn“. Ýmsir vinstri menn og friðarsinnar hins vegar bregðast við með því að segja að allt stríð og ofbeldi sé jafn illt.
Það  er freistandi að grípa til sögulegs samanburðar. Þá má aftur horfa á 4 áratuginn. Þá voru Sovétríkin lengi vel ein innan Þjóðabandalagsins um að vilja mæta Hitler af hörku. Vesturveldin létu það óáreitt þegar þýskir og Ítalskir fasistar studdu fasista til valda á Spáni. Ekkert vestrænt ríki (nema Mexíkó lítillega) studdi spænska lýðveldið í borgarastríðinu. Sovétríkin voru eina ríkið sem studdi það, með vopnasendingum frá október 1936, og sendu einnig alls um 2000 manna lið hemanna og ráðgjafa til Spánar. Hins vegar fékk Frankó og falangistar frá byrjun uppreisnarinnar margfalt meiri hernaðaraðstoð, frá Ítalíu og Þýskalandi, einnig fengu þeir liðsstyrk 55 000 ítalskra og þýskra hermanna. Þegar þegar Hitler hóf hótanir sínar gegn Tékkóslóvakíu og Póllandi leituðu Sovétmenn ákaft eftir varnarbandalagi við Frakka og Breta gegn yfirgangsseggjunum, bandalagi um  „sameiginlegt öryggi“ með gagnkvæmum skuldbindingum um sameiginlegar aðgerðir ef Þjóðverjar gerðu alvöru úr hótunum sínum. En þetta strandaði á friðkaupastefnunni sem 1938 skilaði Munchensamkomulaginu, stóveldasamkomulagi Þýskalands, Ítalíu, Englands og Frakklands – samkomulagi sem hélt Sovétmönnum rækilega utangarðs – og afhenti Hitler Tékkóslóvakíu. Að lokum keypti Stalín sér tíma með því að gera griðarsáttmála við Hitler en á hinn bóginn komst Churchill til valda og afnam friðkaupastefnuna, en of seint til að hindra stríð.
Staðföst viðbrögð Evrópuríkja til verndar Spánverjum, Tékkum o.fl. á 4. áratug hefðu mögulega getað stöðvað Hitler. Aðgerðir Rússa í Sýrlandi nú í haust má líta á líkt og slíkar varnaraðgerðir á 4. áratugnum, ef til þeirra hefði komið. Eins og þá snýst aðgerð Rússa í dag um að stöðva framrás stríðsveldanna sem nú reka staðgengilsstríð í Sýrlandi auk þess að stunda þar lofthernað í fullri óþökk löglegra stjórnvalda. Lofthernaður Rússa minnkar líkurnar á að stjórn Sýrlands verði steypt og minnkar þar með líkur á nýju stórstríði á svæðinu, með t.d. Íran og Ísrael sem örugga þátttakendur.

Niðurstaða: Barátta Assad-stjórnarinnar,  sem Rússar styðja hernaðarlega, er í eðli sínu barátta þjóðar fyrir sjálfstæði sínu og um leið beinist hún gegn þeirri hernaðarútrás NATO-velda sem mest ógnar heimsfriði. 

No comments:

Post a Comment