Wednesday, November 18, 2015

Tólf tesur um ISIS

(Birtist á fésbók Samtaka hernaðarandstæðinga 17. nóv 2015)

Tólf tesur um ISIS: 1) Innrásarstríðið í Írak 2003-2011 tókst illa. Þess vegna ákváðu vestrænir strategistar og hugveitur að dulbúa komandi innrásir og taka vígin frekar „innan frá“. 2) Í Miðausturlöndum þýddi nýja aðferðin að styðja ákveðnar fylkingar herskárra íslamista (af súnní-meiði) til uppreisnar gegn óæskilegum stjórnvöldum, út frá trúarbragðalínum. 3) Heimsvaldasinnar beittu fyrir sig uppreisnaröflum fjandsamlegum Vestrinu – sem fullkomnaði dulbúninginn, en reyndar eru herskáir íslamistar sjaldnast vestrænt sinnaðir. 4) Áður hafði CIA beitt svipaðri taktík í Afganistan gegn Sovétmönnum og þá skapað m.a. Al Kaída. 5) Eftir það höfðu Washington og NATO einkum notað Al Kaída sem yfirvarp „stríðs gegn hryðjuverkum“. 6) En í Líbíu 2011 þótti nýja aðferðin sanna sig með glans. 7) Sýrland var næsta lota og uppþotin þar í „arabíska vorinu“ 2011 urðu strax afar blóðug. Ári síðar var „Þjóðareining“ uppreisnaraflanna stofnuð og USA og Vesturlönd viðurkenndu hana strax sem hið „lögmæta stjórnvald“ Sýrlands. 8) ISIS byrjaði sem „Al Kaída í Írak“ sem barðist gegn innrás USA þar. Hópurinn naut ekki stuðnings utanlands frá og óx því ekki neitt. 9) Hins vegar þegar uppreisnin hófst í Sýrlandi 2011 fór hreyfingin yfir landamærin frá Írak, blandaðist þarlendum Al Kaída-hópi (Al Nusra) og spratt nú sem arfi á mykjuhaug. 10) Í leyniskýrslu bandarísku Leyniþjónustu hermála (DIA) frá 2012 segir um hreyfinguna sem nú kallaði sig ISI: „Ástandið sýnir að það er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja.“ 11) Árið 2014 stökk ISIS fullskapað inn á sviðið sem stórveldi í krafti gríðarlegs vopnavalds, lýsti yfir kalífati og lagði undir sig sístækkandi huta Sýrlands og Íraks. Af því hún naut nú massífs stuðnings utanlands frá. 12) ISIS er skilgetið barn vestrænnar heimsvaldastefnu. Það er hinn forboðni sannleikur sem ekki má nefna, og enginn nefndi heldur í umræðunni um Parísarhryðjuverkin á Alþingi í dag.

No comments:

Post a Comment