Tuesday, October 27, 2015

Flóttamannasprengingin - orsakir og afleiðingar

(Erindi flutt í Friðarhúsi 17. október 2015, birt á fridur.is 25. október)
Fyrst eru það nokkrar staðreyndir sem að minni hyggju eru fyrirfram gefnar og ég mun ekki rökstyðja hér nema að litlu leyti. Flest af því má sjá grundað og rætt á vefsíðu minni.
Eitt: Heimurinn horfist í augu við mesta flóttamannavanda frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Tvö: Flóttamannastraumur þessi er að mestu afleiðing styrjalda. Flóttamannastofnun SÞ segir að mikill meirihluti flóttafólksins sem kom yfir til Evrópu á fyrrihluta árs 2015 hafi flúið stríð, átök og ofsóknir. Þrjú: Versta átakasvæðið er í Miðausturlöndum í víðum skilningi. þ.e. fyrir botni Miðjarðarhafs og á aðliggjandi svæðum. Fjögur: Stríðin sem geysa og hafa geysað í Miðausturlöndum og N-Afríku eru ránsstyrjaldir vestrænna stórvelda, oft háð gegnum staðgengla. Þar af eru hin stærstu Íraksstríðið, nánar tiltekið þrjú Íraksstríð, Afganistanstríðið, stríð í Líbíu, stríð í Sýrlandi. Stríðin snúast um áhrifasvæði heimsvaldasinna, eru ný útgáfa nýlendustyrjalda. Svo vill til – ekki tilviljun samt – að löndin sem verða vettvangur stríðsins eru olíulönd eða gegna lykilhlutverki í olíuflutningum. Árásaraðilinn er Bandaríkin og NATO. Fimm: Ísland hefur stutt öll þessi nýlendustríð vestrænna stórvelda.
Þriðja heimsstyrjöldin
Við skulum fyrst skoða aðeins nánar þessi nýju nýlendustríð. Þá kemur í ljós að þau eru ekki aðskildir atburðir. Þetta eru seríustríð. Sérstaklega frá 11. september 2001 hafa stríðin blossað upp eins og jólasería þar sem raðkviknar á perunum, sem sagt í einu samhangandi ferli. Stríðið gegn hryðjuverkum, stríðið gegn Írak, gegn Sýrlandi, gegn Líbíu, austur-Úkraínu, allt er þetta sama stríðið. Lógíkin í þessum stríðum er barátta um heimsyfirráð, þau beinast gegn keppinautum Bandaríkjanna og NATO.
Það má tala um þessi seríustríð sem nýja heimsstyrjöld, þriðju heimsstyrjöldina eða þá fjórðu ef kalda stríðið var talið sem sú þriðja. Það má tímasetja upphaf þessarar heimsstyrjaldar: 11. eptember 2001. Það höfðu geysað stríð sem voru undanfarar hennar, svo sem Persaflóastríðið og stríð í gömlu Júgóslavíu. En til að koma hnattrænu stríði af stað þurfti stórviðburð – það þurfti að eyðileggja goðsagnarkenndar byggingar og drepa mikinn fjölda manns – Bandaríkin þurftu sárlega nýjan óvin eftir Sovétríkin til að geta áfram byggt upp hið hnattræna hernaðarkerfi sitt. Þessum stórviðburði var komið í kring 11. september.

Jæja. Fyrsta fórnarlamb nýju heimsstyrjaldarinnar var Afganistan. Áður en dagurinn 11. september var liðinn höfðu Pentagon og Donald Rumsfeld útnefnt Afganistan sem sökudólg fyrir að fela hryðjuverkamenn Al Kaída. Það voru þó aldrei lögð fram nein gögn sem tengdu Afganistan við 11. september. Bandaríkin eru eina ríki í heiminum sem ekki þarf að sanna mál sitt, og bandamennirnir í NATO spyrja þá aldrei neins.
En í viðtali við Al Jazeera fréttastöðina 11. september síðastliðinn sýndi Hamid Karzai – sem var yfirverkfæri Bandaríkjanna í Afganistan eftir innrás Bandaríkjanna og NATO – merkilega hreinskilni þegar hann sagði að Al Kaída sé kannski mýta og hann, forseti landsins 2004-2014, hafi a.m.k. aldrei séð neinar sannanir fyrir tilvist þeirra í Afganistan. Vestrænar fréttastofur hafa hins vegar engan áhuga á svona frétt af því hún passar ekki inn í óvinamyndina. Þetta er svokölluð ekkifrétt.
Strategískar áætlanir heimsvaldasinna er alltaf djúpt faldar, það sem við fáum að heyra er lygaretorík þar sem stríð heitir friður og innrás heitir mannúðaríhlutun. Einstaka sinnum verða einstaka ráðamenn hreinskilnari eða lykilmenn hlaupa út undan sér.  Wesley Clark er fjögra stjörnu bandarískur hershöfðingi, m.a. yfirhershöfðingi NATO í Kosovo-stríðinu. Hann var sem sagt einn hinna „innmúruðu“, en hann snérist til andstöðu við Pentagon kringum innrásina í Írak 2003. Hann hefur í ræðum og viðtölum (m.a. við Democracy Now 2007) rætt opinberlega um ráðabruggið þar á bæ, m.a. talað um fund sem hann átti árið 1991 með Paul Wolfowitz sem þá var vararáðherra en síðar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Persaflóastríðið Desert Storm var þá nýafstaðið. Clark hafði eftirfarandi eftir Wolfowitz, tilvitnun: „eitt sem við lærðum (í stríðinu) er að við getum notað herafla okkar í Miðausturlöndum og Sovétríkin stoppa okkur ekki. [Sovétríkin voru einmitt þá að leysast upp] Við höfum nú 5-10 ár til að hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“
Og nokkrum vikum eftir 11. september 2001, þegar innrásin í Afganistan var nýhafin kom Wesley Clark aftur við í Pentagon – og sagði frá því: “…í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall við mig. Undirbúningur fyrir innrásina í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan.“ Vel að merkja áttunda landið var Afganistan þar sem innrás Bandaríkjanna og NATO var nýhafin þegar samtalið fór fram.
Skoðum aðeins hvernig Bandaríkin hafa – með bandamönnum – unnið sig niður þennan óskalista, lista sem kalla má 11. september áætluninaÍrak, stríð og valdaskipti frá 2003 Líbía, stríð og valdaskipti 2011, Íran, ýmsar atlögur að Íran standa enn yfir. Svo eru það stríð með hjálp staðgengla: Líbanon, innrás Ísraels í Líbanon 2007, Sómalía: sama ár réðist bandaríska lénsríkið Eþíópía inn í Sómalíu og naut stuðnings úr lofti frá Bandaríkjunum, Súdan, árið 2004 skilgreindu Bandaríkin átökin í Darfúr í Súdan sem „þjóðarmorð“ og stóðu fremst í flokki í stuðningi við aðskilnað (hins olíuríka) suðurhluta Súdans, m.a. með stuðningi við uppreisnarherinn SPLA nokkuð sem leiddi til klofnings landsins og sjálfstæðis Suður-Súdans 2011. Sýrland: Seinasta verkefnið í því að „hreinsa upp gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna“ er Sýrland og þar hlaut að skella á stríð. Um Sýrlandsstríðið fjalla ég nánar hér á eftir. En þar með er óskalisti Pentagon frá 2003 tæmdur. Síðan þá hafa auðvitað bæst við ný verkefni á óskalistann og heimsstyrjöldin heldur áfram.
Fjölmiðlar heimsvaldasinna framleiða endalaust fréttir um ógn þá og skelfingu sem heiminum stafi af grimmum einræðisherrum – Saddam, Gaddafí, Milosévits, Pútin, Assad, harðstjórnir í Khartoum og Mógadisjú o.s.frv. Almenningur á Íslandi trúir þessu, enda fær hann aldrei og hvergi að heyra neitt annað. Staðreyndin er þó sú að öll þessi stríð við harðstjórana hafa orðið að frumkvæði Vesturveldanna og fylgiríkja þeirra, ekki öfugt. „Skrímslagerðin“ í vestrænum fjölmiðlum er áróður manna sem brugga stríð. Helsta ógnin við heimsbyggðina er nefnilega ekki einstakir harðstjórar heldur er það stríðsblokkin, þessi langvoldugasta heimsvaldablokk, USA + NATO, sem erárásarhneigð, fylgir hernaðarstefnu og hefur allan heiminn undir.
Flóttamannavandamálið í Evrópu
Flóttamannastofnun SÞ reiknar með að 850 þúsund flóttamenn reyni að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á þessu ári og því næsta. Þetta er nokkuð sem kreppuhrjáð fjárlög Evrópuríkja ráða illa við. En Evrópa getur sjálfri sér um kennt. Allt frá 11. september og lengur hafa Evrópuríkin dinglað – og stundum meira en dinglað – aftan í volduga bróðurnum í vestri og stutt árásar- og hernaðarstefnu hans nánast skilyrðislaust, stefnu sem hefur lagt lönd í rúst og upplausn og drepið og hrakið á flótta milljónir manna. Þetta virðist vera algjörlega óháð því hvort við völd í Evrópuríkjunum sitja hægri eða vinstri stjórnir.
Af 10 löndum sem tóku frumkvæðið í því að ráðast gegn Líbíu 2011 voru 7 Evrópulönd, þar á meðal bæði Noregur og Danmörk svo Norðurlönd voru ekki barnanna best heldur sendu margar sprengiflugvélar á kreik. Norska vinstri stjórnin lét kasta um 600 sprengjum yfir Líbíu. „Hlutlausu“ löndin, Svíþjóð og Finnland, tóku líka þátt. Svíþjóð er kannski það land á jörðinn sem framleiðir flest vopn miðað við fólksfjölda. Svíar selja mjög vopnabúnað til Miðausturlanda, ekki síst Sádi Arabíu, vopn sem nú eru notuð gegn borgurum Jemen.
„Redirection“ – stefnubreytingin
Ég talaði áðan um seríustríðið sem eitt samhangandi ferli. En vissulega er mikill munur á stríðunum annars vegar í Afganistan eða Írak með beinum innrásum Bandaríkjanna og NATO og hins vegar í Sýrlandi þar sem um er að ræða staðgengilsstríð sem á yfirborðinu birtist sem trúarbragðastríð. Yfirskrift innrásarinnar í Afganistan var að yfirvinna samsæri íslamskra hryðjuverkamanna að finna og uppræta Al Kaída liða. Síðan gjörbreyttust hlutverkin; í stríðunum í Líbíu og Sýrlandi styðjaVesturveldin og bandamenn þeirra íslamska hryðjuverkahópa, þ.á.m. hópa tengda Al Kaída gegn stjórnvöldum í þeim löndum. Og það nýjasta er að leiðandi menn hjá CIA og Pentagon tala um að styðja beri „hófsamari“ Al Kaída menn eins og Al Nusra fylkinguna gegn ISIS.
Svona kúvendingar útheimta skýringar.  Rannsóknarblaðamaðurinn og Pulitzerverlauna-höfundinn Seymour Hersh varð heimsfrægur er hann afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai í Víetnam 1969. Árið 2007 skrifaði hann grein í The New Yorker um stefnubreytingu heimsvaldasinna í hernaðinum í Miðausturlöndum, um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á „trúardeilutrompið“, að styðja hernað súnní múslima gegn sjía múslimum. Þetta var ekki breyting á markmiðum heimsvaldasinna heldur ný taktík: Til að grafa undan Íran, sem er í meginatriðum sjía-land, hefur Bushstjórnin ákveðið að endurstilla áherslur sínar í Miðausturlöndum… Bandaríkin taka þátt í leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra, Sýrlandi. Hliðarafurð þeirrar starfsemi er að styrkja hópa öfgasinnaðra súnnía sem hafa herskáa trúarafstöðu, eru fjandsamlegir Bandaríkjunum og hliðhollir Al-Kaída.“ 
Nýja taktíkin fól í sér hina gömlu aðferð að deila og drottna til að koma heimsvaldasinnum út úr strategískri klemmu í Írak þar sem heimamenn höfðu í meginatriðum snúið bökum saman gegn þeim. Þetta var nokkuð sniðugt bragð Pentagonmanna, eins og Hersh bendir á, að styðja öfgatrúarmenn súnnía sem vor „fjandsamelgir Bandaríkjunum“ sniðugt af því það felur betur höndina á bak við stuðninginn. Jafnframt fól nýja línan í sér þann megintilgang að safna liði gegn hinum nýja strategíska höfuðóvini Bandaríkjanna og Ísrael á svæðinu, Íran.
Við sjáum að hér var spámannlega mælt þarna fyrir 8 árum síðan. Með náinni þekkingu bæði á Miðausturlöndum og innan CIA og Pentagon sá Hersh breytinguna nærri um leið og hún gerðist. Síðan hafa blossað upp tvö meiriháttar stríð á svæðinu, í Líbíu og Sýrlandi. Vel að merkja eru það tvö lönd á listanum sem ég nefndi 11. septemberáætlunina. Og þau stríð fara nákvæmlega eftir þeim línum sem Hersh dró upp mörgum árum fyrr.
Ýmsir segja: trúarbrögðin eru hinn mikli skaðvaldur, óumburðarlyndið, ofstækið, þröngsýnin… Bull og vitleysa! Trúarbragðaklofningurinn er ekki vandamálið. Hann hefur lengi verið til og menn hafa unað saman í meginatriðum í friði. Íslömsk hryðjuverkasamtök eins og Al Kaída, ISIS og fleiri af því tagi eru ekki eiginlegar trúarhreyfingar. Þetta eru að vísu einhvers konar trúarfasistar sem eiga ekki síst það sameiginlegt með fasistum að dýrka ofbeldi. En eins og aðrir fasistar eru þeir fyrst og fremst verkfæri. Þeir eru málaliðar á snærum voldugri efnahagslegra og pólitískra afla. Frekar enn að skoða trúarbrögðin verðum við fyrst og fremst að rannsaka hverjir það eru sem beita viðkomandi verkfærum.
Menn hafa stundum borið saman Miðausturlönd í dag og Evrópu á 17 öld þegar 30 ára stríðið geysaði. Þar tókust á katólskir furstar og mótmælendafurstar. Flestir meginvaldhafar Evrópu tóku þátt og ýmist sáu í trúardeilunni tækifæri til að hertaka ný lönd eða hrekja af höndum sér innrásarfursta. Stríðið varð afar blóðugt en það hjálpar okkur lítið við að skilja 30 ára stríðið að leita skýringa í andlegum hreyfingum meðal kaþólikka og mótmælenda.
Skýringin á því að trúarbragðaklofningur varð skyndilega svo eyðileggjandi í Miðausturlöndum sem raun ber vitni er að hinir voldugu heimsvaldasinnar – sem staðsettir eru á Vesturlöndum – sáu sér hag í að skara að eldi trúardeilna. Trúardeilutrompið er vopn þeirra til að „destabílisera“ þ.e að veikja eða grafa undan stjórnvöldum sem þeir vilja feig.
En „valdaskipti“ eru skammgóður vermir ef sértrúarsöfnuðurinn sem studdur er til valda er líka fjandsamlegur Vestrinu. Þess vegna hafa heimsvaldasinnar í vaxandi mæli farið að tala um aðra lausn sem þeir telja varanlegri.
Council on Foreign Relations er bandarísk þungaviktarstofnun í stefnumörkun utanríkismála. Meðlimir hafa verið fjölmargir ráðherrar, forstjórar CIA og toppmenn í efnahagslífinu. Leslie Gelb sem til skamms tíma var forseti þessa batterís sagði nýlega að æskilegasta lausn í Írak væri „þriggja ríkja lausn, Kúrdar í norðri, súnníar í miðju og sjíar í suðri“.
Brookings stofnunin, ein virtasta og mikilvægasta hugveita bandarískrar elítu, ekki síst í utanríkismálum, sendi í sumar frá sér tillögu að áætlun um Sýrland. Skýrslan nefnist Deconstructing Syria: Towards a regionalized strategy for a confederal country og gengur sem sagt út á að brjóta Sýrland upp í nokkrar minni einingar. Tilvitnun: Menn „sjá að lokum fyrir sér Sýrland meira sem sambandsríki, byggt upp af sjálfsstjórnarsvæðum fremur en stjórnað af sterkri miðlægri ríkisstjórn“
Samkvæmt þessum og þvílíkum hugmyndum sjá heimsvaldasinnar fyrir sér einhvers konarbalkaníseringu , þar sem þvermóðskufull ríki eru sundurlimuð í fleiri smáríki sem væntanlega munu standa í illdeilum sín á milli líkt og gamla Júgóslavía á 10. áratugnum, ófær um að sameinast gegn heimsvaldaásælni og ágangi fjölþjóðlegra auðhringa. Þannig að þá er upplausnin sjálf orðinmarkmið í sjáfri sér. Þess má geta að strategían að skipta upp bæði Írak og Sýrlandi hefur lengi verið hálfopinber stefna Ísraels.
Sýrlandsstríðið
Sýrland þarf sérstaka umfjöllun. Þaðan kemur nú langstærsti hópur flóttamanna á heimsvísu. Fyrir 2011 bauð Sýrland upp á samfélag sem á margan hátt virkaði vel fyrir þegna sína. Staða kvenna var t.d. með því bersta í Miðausturlöndum. Menntunarstig var hátt en nú eru um 4000 skólar sprengdir og helmingur barna er án skóla. Heilbrigðiskerfið virkaði líka vel og heilbrigðisstarfsfólk vel menntað en nú er meirihluti sjúkrahúsa ýmist eyðilagður eða skaddaður og 70% starfsfólksins flúið. Enginn flóttamannastraumur var frá landinu fyrir 2011. Þvert á móti, meðan Íraksstríðið geysaði voru erlendir flóttamenn í Sýrlandi einu þrisvar sinnum fleiri en þeir sem leitað hafa til Evrópu nú. Það er greinilegt að stórfelldar og viðvarandi hamfarir hafa skyndilega gengið yfir þetta land. En náttúruhamfarir eru það ekki.
Í Sýrlandi ákváðu heimsvaldasinnar að beita aftur hernaðaraðferð sem hafði virkað vel í Líbíu að því leyti að hún dugði til að steypa stjórn landsins 2011 eftir nokkurra mánaða stríð. En einhvern veginn gekk ekki vel að yfirfæra sömu taktík yfir í nýtt land. Þar ræður mestu að Assadstjórnin nýtur greinilega verulegs stuðnings síns fólks. Merki um það eru forsetakosningarnar 2014 með 74% þátttöku (11.6 milljónir) þar sem 88% kusu Assad. Counter Punch birti trúverðuga grein um þessar kosningar. Uppreinsin varð fljótt afar blóðug, en mjög er hæpið að kalla hana borgarastríð, t.d. hefur liðhlaup úr stjórnarhernum verið mjög lítið.
Tvennt varð fljótt ljóst um þessa uppreisn: Í fyrsta lagi að þær hersveitir í andspyrnunni sem einhver styrkur var í voru öfgatrúarhópar súnnímúslima eða salafista, annars vegar hópar hreinna trúarvígamanna nefnilega Al-Kaída útibúið sem nefnist Al Nusra og annar hópur sem nefndi sig Al Kaída í Írak, tugþúsundir þessara vígamanna koma utanlands frá , og hins vegar hópar tengdir The Muslim Brotherhood í Sýrlandi sem frá byrjun kallaði fyrst og fremst eftir hernaðaríhlutun „alþjóðasamfélagsins“ svokallaða í landið.
Hitt sem fljótt varð ljóst var að uppreisnaröflin voru að miklu leyti vopnuð og fjármögnuð af traustustu fylgiríkjum Bandaríkjanna meðal araba, Saudi Arabíu og Katar – vopnaaðstoðin fór a.m.k. einkum gegnum þessi lönd – rétt eins og var í Líbíustríðinu og uppreisnarsveitirnar áttu sér ennfremur helstu bækistöðvar, aðstöðu og aðflutning frá NATO-landinu eina við landamæri Sýrlands, Tyrklandi.
Hver var stuðningur Vesturlanda sjálfra við uppreisnina? Það var framan af nokkuð hulið eins og títt er um staðgengilsstríð. En þegar uppreisnin hafði staðið eitt ár, í nóvember 2012, komu fulltrúar andspyrnuhópa í sýrlenska borgarastríðinu saman í Katar og stofnuð var svokölluð Þjóðareining byltingar- og andspyrnuafla Sýrlands. Strax á fyrsta degi var hún viðurkennd sem hinn réttmæti fulltrúi sýrlensku þjóðarinnar af Persaflóaríkjunum undir forustu Sádi Arabíu. Daginn eftir kom sama viðurkenning frá Bandaríkjunum og áður en vika var liðin gerði Evrópusambandið slíkt hið sama og síðan hvert Evrópuríkið á fætur öðru, þ.á.m. stærsta grannríkið, Tyrkland. Mánuði síðar átti Ísland aðild að fundi í Marokko undir yfirskriftinni „Vinir Sýrlands“ og skrifaði upp á yfirlýsingu – eitt 60 ríkja – sem lýsti Þjóðareiningunni sem hinu réttmæta stjórnvaldi Sýrlands.
Með þessari viðurkenningu á vopnaðri stjórnarandstöðu tóku Vesturlönd afstöðu í innanlandsstyrjöld og töluðu nú ákaft fyrir „valdaskiptum“ í Sýrlandi. Ekki þarf stjórnspeking til að sjá að þessi afstaða var stríðsyfirlýsing þar sem Vesturlönd gerðu uppreisnina að „sinni“.
Með þessu var líka orðið til það óformlega bandalag sem styður uppreisninna: Það eru Vesturveldin, Persaflóaríkin, og Tyrkland (og í bakgrunni Ísrael). Hinu megin standa Assadstjórnin og helstu bandamenn hennar, Íran og Rússland (og í bakgrunni Kína). Ég hef skrifað allmikið um Sýrland frá byrjun stríðins og haldið fast fram þeirri skoðun að þetta ofurkapp Vesturvelda við að koma á valdaskiptum í Sýrlandi sé liður í baráttu Vesturveldanna við Rússland og Kína. Til að stöðva efnahagsveldið Kína og bandamenn þess Rússa þarf að rýja þá bandamönnum ekki síst í hinum strategískt mikilvægu Miðausturlöndum. Það hvernig Rússar hafa nú blandað sér í Sýrlandsstríðið sýnir að einnig þeir skilja uppreinsina í Sýrlandi sem stríð gegn sér.
Uppreisnin í Sýrlandi hefur frá upphafi verið afskaplega vel vopnuð og útbúin. Vopnin og aðföngin koma einkum úr tveimur áttum.
 1. að norðan, gegnum Tyrkland. M.a. komu hergögn og mannskapur frá Líbíu strax eftir að stríðinu þar lauk.
 2. að sunnan, frá Jórdaníu en sýrlenski stjórnarherinn hefur aðeins hluta landamærasvæðanna að Jórdaníu á valdi sínu. Þess má geta að Jórdanía hefur aukaaðild að NATO gegnum sk.Mediterrean Dialogue
Frá Tyrklandi ganga lestir af trukkum hlöðnum vopnum fyrir uppreisnarmenn. Og ekki síður eru flutningarnir loftleiðis. Í ársbyrjun 2013 sagði Hugh Griffiths hjá Friðarrannsóknarstofnuninni SIPRI í Stokkhólmi um loftflutning hergagna frá Tyrklandi til uppreisnarmanna að varlega áætlað næmi hann 3500 tonnum. Og hann bætti við: „…kraftur og tíðni þessara flugferða gefur til kynna vel skipulagða leynilega aðgerð til hernaðarlegra aðdrátta.“  Þetta var skrifað áður en fyrirbærið ISIS kom fram á sviðið mun betur vopnum búið en nokkur af þeim uppreisnarherjum sem á undan fóru – og áður en Bandaríkin hópu formlega þátttöku í stríðinu.
ISIS
ISIS hefur reynst vestrænum heimsvaldasinnum gagnsamari en aðrir herir sem þeir hafa notað fyrir sinn málstað. Í fyrsta lagi er hann skilvirkari í því að herja á Assad-stjórnina en nokkurt annað afl í sýrlensku uppreisninni og í öðru lagi er hann Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra yfirvarp til íhlutunar. Í september 2014 gátu því Bandaríkin og vinir hafið loftárásir á Sýrland og tekið að nýju upp loftárásir á Írak undir því yfirskini að þeir séu að berjast við ISIS. Skv Pentagon hafa sk. „bandamenn“ flogið yfir 50 þúsund árásaraferðir á þessu ári. F.o.m. september sl. hófy Tyrkir líka sprengjuárásir inn í Sýrland (að nafninu til gegn ISIS en í reynd gegn Verkamannaflokki Kúrda). Einhvern veginn hefur þessi lofthernaður ekki borið árangur hvað ISIS snertir, því allt það ár sem liðið er hafa þau samtök vaxið hratt og styrkst. Ljóst er hins vegar að grunnstoðir Sýrlands verða illa úti og sýnilegasti árangurinn er einmitt hinn hraðvaxandi straumur flóttamanna.
Forsaga: Fyrir 2014 var ISIS ýmist nefnt Al Kaída í Írak eða Íslamska ríkið í Írak (ISI) en tók þá upp nafnið Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi, stytt ISIL eða ISIS. Eftir að uppreisnin hófst í Sýrlandi 2011 kom þessi hópur frá Írak yfir til Sýrlands og fór að berjast þar gegn Assadstjórninni ásamt hinu sýrlenska útibúi Al-Kaída, Al-Nusra fylkingunni sem var nýstofnuð. Þar uxu þessir tveir Al Kaída hópar hratt enda vel fóðraðir af vopnum og fjármunum utanlands frá. Um tíma voru þeir sameinaðir í ISIS en klofnuðu aftur í tvennt 2013. Í júní 2014 kom ISIS-herinn aftur austur yfir sömu landamæri í langri lest Toyota pallbíla og hóf stórsókn inn í Írak og skömmu síðar nýja sókn í Sýrlandi.
Hin opinbera lína Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í sýrlensku uppreisninni er að styðjahófsöm öfl og leggja höfuðáherslu á baráttuna við ISIS. Þessi sk. „hófsömu öfl“ eru mjög umtöluð í vestrænum fjölmilum, en þau eru bara hugtak sem nær ekki að verða efnislegur veruleiki. Ég hef horft nokkrum sinnum á You Tube upptöku með Joe Biden varaforseta Bandaríkjanna – hann er að tala yfir Haravardstúdentum – með opinskárra orðalagi en ráðamenn vestra eru vanir að viðhafa. Hann segir m.a. að hinir „hófsömu“ hafi aldrei verið til sem neitt afl í uppreisninni en hins vegar geti Bandaríkin ekki að því gert að bandamenn þeirra styðji hersveitir harðlínumanna. Biden segir um bandamenn sína í Sýrlandsstríðinu, Tyrki, Sáda og Sameinuðu arabísku furstadæmin: „Þeir voru svo ákveðnir í að fella Assad og í raun koma á staðgengilsstríði súnnía við sjía, og hvað gerðu þeir? Þeir helltu þúsundum milljóna dollara og tugum þúsunda af vopnum yfir hvern þann sem vildi berjast við Assad – nema hvað, þeir sem fengu birgðirnar voru Al Nusra og Al Kaída og hinir öfgasinnuðu jíhadistar sem koma frá öðrum svæðum heimsins.
Heimsvaldasinnar brúka ýmsar aðferðir til að dulbúa stuðning sinn við íslamska hryðjuverkamenn. Þeir segjast stöðugt vera að vopna og styðja þá „hófsömu“ svo sem „The Free Syrian Army“, Harakat al-Hazm og fleiri. En undangengið ár – eftir að ISIS kom fram – hefur hver hópurinn af öðrum þeirra sem Vestrið studdi verið leystur upp og meðlimirnir hafa gengið til liðs við ISIS eða Al Nusra, og tekið með sér allt góssið frá Bandaríkjunum og NATO-ríkjum. Þannig að vopnin lentu að mestu hjá ISIS og terroristum fyrir rest. Og okkur er sagt að allt hafi það gerst fyrir slysni.
En þetta er blekking eins og annað. Þessi hrapalegu liðhlaup sem eru svo umtöluð í vestrænni pressu gefa í skyn að Pentagon hafi keppst við að búa til og styðja heri hófsamra afla. En eins og Biden viðurkennir hafa hófsamar hersveitir aldrei verið til í Sýrlensku uppreisninni. Málflutningurinn er einfaldlega og eingöngu til þess gerður að breiða yfir stuðning Bandaríkjanna við Al Kaída og ISIS og hvern þann sem vill heyja stríð við stjórn Sýrlands.
Þegar Rússar kasta sprengjum á hryðjuverkahópa í Sýrlandi kvartar bandaríska herstjórnin yfir að þeir skjóti á „hófsama“. Wall Street Journal skrifaði 30. september að Rússar kasti sprengjum á „svæði sem eru að miklu leyti undir yfirráðum hófsamra uppreisnarmanna og íslamistahópa eins og Ahrar-al-Sham og hinnar Al Kaída-tengdu Al Nusra fylkingar.“ Blaðið viðurkennir í sömu greina að CIA hafi „vopnað og þjálfað“ valda hópa gegn Assad- stjórninni. Þarna fer margumtalaður stuðningur við „hófsama uppreisnarmenn“ að flækjast og verður stuðningur við eina deild Al Kaída gegn annarri. Það hangir því röklega saman þegar fyrrum æðsti yfirmaður CIA, David Petraeus, talar opinskátt um að „use Al Qaeda to „fight“ ISIS“, nota Al Kaída til að berjast við ISIS. Sjálft skotmark hins mikla „stríðs gegn hyrðjuverkum“, Al Kaída, er m.ö.o. orðinn viðurkenndur bandamaður vestrænna lýðræðisafla! Verst er þó að þessar tvær fylkingar Al Kaída – Al Nusra og ISIS – hafa ekki verið í neinu stríði hvor gegn annarri heldur berjast báðar fyrst og fremst við sameiginlegan óvin, stjórn Sýrlands.
Fyrir skömmu fóru bandaraískir fjölmiðlar að velta fyrir sér uppruna Toyota-pallbílanna sem komu í löngum lestum frá Sýrlandi til Íraks í júní 2014. Þá gat einn blaðamaður vitnað í bandarísku útvarpsstöðina Public Radio International frá 2014. Þar sagði: „Nýlega þegar bandaríska utnaríkisráðuneytið tók aftur upp sendingar á hjálpargögnum sem ekki eru hergögn til sýrlenskra uppreinsarmanna innihélt listinn 43 Toyota pallbíla.“ Og þar sagði að þessir Toyota (high lux) pallbílar væru efstir á óskalista hjá Free Syrian Army. En eins og annað enduðu þeir fljótt hjá ISIS, líklega fyrir slysni.
Hér er sem sagt orðin til militarísk eilífðarvél: Heimsvaldasinnar styðja og fóðra og vopna terrorista til þess svo að geta farið í stríð við sömu terrorista. Ef það er ekki djöflamaskína veit ég ekki hvað djöflamaskína er. Á hinn bóginn verður þessi tvöfeldni sífellt gegnsærri og djöflamaskínan getur þá breyst í spilaborg og hrunið í höfuðið á skapara sínum.
Afleiðingar flóttamannastraumsins
Þetta sem ég hef hér talað um er aðalatriðið fyrir okkur í sambandi við flóttamannastrauminn. Auðvitað höfum við í Evrópu og á Íslandi skyldur gagnvart flóttafólki bæði af því þetta er fólk í neyð og í öðru lagi af því Íslendingar og aðrir Evrópubúar bera ábyrgð á flóttamannastraumnum með stuðningi sínum við þau stríð sem hrakið hafa fólkið á flótta.
Það er samt ekki aðalatriði málsins fyrir friðarhreyfinguna. Á lokaskeiði stríðsins í Indó-Kína brast á flótti frá Suður Víetnam og Kampútseu og meiri varð hann þó á fyrstu árunum eftir stríðið. Fólkið flúði til Bandaríkjanna, Kína og Thailands og sk. „bátafólk“ sigldi á litlum bátum m.a. til Malasíu. Það var mesti flóttamannavandi í marga áratugi. En þó hann væri mikill datt róttæku fólki þess tíma ekki í hug að hann væri aðalatrtiði málsins, a.m.k. ekki meðan stríðið geysaði í Indó-Kína. Aðalatriðið var að mótmæla og reyna að stöðva hina bandarísku innrás. Að breyttu breytanda á þetta við enn í dag. Höfuðverkefni friðarhreyfingarinnar er að afhjúpa hernaðarstefnuna, hengja bjölluna á villidýrið og mótmæla árásarstríðinu. Bæði vegna flóttamannanna, vegna þjáninga Sýrlands og annarrra fórnarþjóða og vegna heimsfriðarins sem er í meiri hættu en hann hefur verið í áratugi.
Ég sagði áðan að Evrópa gæti sjálfri sér um kennt, og það er grundvallaratriði. En lítum stuttlega á afleiðingarnar. Flóttamannavandinn er skyndilega orðinn að pólitísku stórmáli í Evrópu. Í meginatriðum takast á tvær stefnur eins og stundum áður í Evrópusamvinnunni. Annars vegar er það hægri harðlína. Fulltrúi hennar hefur verið Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sem reisir gaddavírsmúr við landamæri Serbíu og hefur sagt síðan flóttamannastraumur tók að vaxa að afnema þurfi Schengenkerfið. Hins vegar er það tryggðin við Evrópuhugsunina, fjölmenninguna og prinsippin um frjálsa flæðið yfir landamærin. Fulltrúi þess hefur verið Angela Merkel sem boðaði það í sumar að landamæri Þýskalands skyldu vera opin sama hve margir flóttamenn kæmu. Sömu línur takast á hér á landi, þeir sem vilja senda flóttafólkið tilbaka og hinir sem tala gjarnan um að Ísland hafi þörf fyrir menntun og menningu sunnan úr löndum.
Þessar tvær línur tengja sig að hluta til við hægri og vinstri, en hvorug tekur afstöðu gegn þeirri vestrænu hernaðarstefnu sem er rót vandans og þá segi ég að bæði viðhorfin séu siðlaus. Að tala t.d. um sýrlenskt flóttafólk sem e-ð jákvætt fyrir íslenska fjölmenningu og atvinnulíf án þess að hafna um leið vestrænni hernaðarstefnu er mjög hliðstætt því að lofa þau auknu tækifæri sem hlýnun jarðar skapi fyrir Ísland, því að með því móti er stríðið notað til að ýta undir þannatgerfisflótta sem er hluti af arðráni heimsvaldastefnunnar.
Pólitísk afleiðing flóttamannastraumsins í Evrópu er samt fyrst og fremst styrking hægri harðlínunnar. Þegar milljónirnar flýja nýju nýlendustríðin og hundruðir þúsunda leita á náðir Evrópu bilar Evrópuhugsunin. ESB reynir að stöðva flóttamannastrauminn gegnum Tyrkland og lofar nú Tyrkjum hraðmeðferð á aðildarumsókn þeirra gegn því að þeir stöðvi strauminn. Settir eru heildarkvótar á innstreymið til Evrópu og kvótanum deilt milli aðildarlanda. En:
 • Fjölmörg aðildarríki hafna nú þessari kvótasetningu
 • Ungverjar reisa gaddavírsmúr á landamærunum að Serbíu og Króatíu, og afnema þar með Schengensamninginn um frjálsa ferð milli ESB-landa
 • Slóvenía hefur líka lokað landamærum að Króatíu
 • Þýskaland hefur snúið við blaðinu frá í sumar og tekið upp vegabréfseftirlit vopnaðrar lögreglu á landamærunum að Austurríki
 • Í framhaldinu gerðu Austurríki og Slóvakía slíkt hið sama á suðurlandamærum sínum.
 • Tekið var upp landamæraeftirlit á landamærum Frakklands og Ítalíu.
Dæmin eru miklu fleiri. Í stuttu máli er Schengenkerfið í molum, ein meginstoð Evrópusamrunans. Flóttamannavandinn skapar sem sagt kreppu í Evrópusamstarfinu. Viðskiptastríðið við Rússa eykur frekar á vandræði ESB. Líklegt er að þetta eigi eftir að leiða til frekari bresta í Evrópusamstarfinu. En ennþá er ESB er ekki tilbúið að taka afleiðingunum og hætta stuðningi sínum við hernaðarstefnuna sem leidd er af Bandaríkjunum.
Flóttamannavandi og friðarhreyfing
Í lokin set ég fram nokkra punkta um afleiðingar flóttamannastraumsins fyrir friðarhreyfinguna.
 • Ef við skoðum viðbrögð friðarhreyfingar Evrópu annars vegar við Íraksstríðinu 2003 og hins vegar stríðunum í Líbíu og Sýrlandi 8-10 árum síðar sést að sú „stefnubreyting“ heimsvaldasinna í Miðausturlöndum sem ég nefndi áðan vitnandi í Samuel Hersh hefur tekist að því leyti að heimsvaldasinnar hafa snúið á og snúið af sér friðarhreyfinguna.
 • Það sama á við á Íslandi sem annars staðar í Evrópu.
 • Þess ber þá að geta að bandarískir heimsvaldasinnar hafa jafnhliða tekið upp nokkuð sem þeir nefna „smart power“ sem felur í sér að láta vestrænu heilaþvottavélina (fjölmiðlakerfið) kynna íhlutanir þeirra í málefni einstakra ríkja sem mannúðaríhlutanir, sem baráttu fyrir mannréttindum, fyrir kvenréttindum, og sem baráttu við djöfulóða einræðishunda, lífshættulega bæði eigin þjóð og öllum nágrönnum. Þessi taktík hefur náð að sannfæra stóra hluta vinstri vængsins og annarra sem venjulega hampa mannréttindum mest.
 • Upp er komin afskaplega hættulegt ástand í alþjóðamálum sem birtist í því að stríðsöflin hjá Bandríkjunum og NATO, sem með orðum Böðvars Guðmundssonar má nefna „morðingja heimsins og myrkraverkalýð“, fá að þenja út hernaðarkerfi sitt án þess að mæta neinni teljandi andspyrnu heima fyrir [Nú mæta þeir nokkuð skyndilega hernaðarmótstöðu frá því sem kalla má „mótstöðublokkina“ á alþjóðavettvangi, einkum Rússum, en um það mun ég ekki fjalla hér]. Ef stríðsöflin mæta ekki hindrunum heima fyrir er það hættulegt fyrir umheiminn eins og sannaðist á Hitlers-Þýskalandi 1939-40.
 • Ég hef aðallega flutt mál mitt á Friðarvefnum og innan SHA auk þess að skrifa stöku sinnum í blöð. En grein mín „Flóttamannasprengjan – á ekki að ræða orsakirnar?“ í Fréttablaðinu og Vísifékk miklu meiri og jákvæðari viðbrögð en önnur skrif mín hafa fengið, sem bendir til að þessi málflutningur eigi hljómgrunn.
 • Ég veit ekki hvort SHA getur breytt sér í andheimsvaldasinnuð samtök. En slík samtök þurfum við sárlega – mótmæli, málflutning, ályktanir og baráttu sem byggir á greiningu á heimsvaldastefnunni, þ.e. gangverkinu á bak við stríðin.
 • Á 7. og 8. áratug síðustu aldar hafði andheimsvaldasinnuð barátta mikil áhrif á samtíð sína og gang heimsmála. Ekkert slíkt hefur gerst ennþá, en ef friðarhreyfing og andheimsvaldasinnar ná að stilla saman strengi sína gæti einmitt flóttamannasprengjan orðið sá vekjari og augnaopnar i sem við þurfum.

No comments:

Post a Comment