Tuesday, March 24, 2015

Friðarbaráttan og SHAFriðarhreyfingin á Vesturlöndum hefur undanfarin ár verið lítt virk og sýnist mjög ráðvillt gagnvart nýjum stríðum í Líbíu, Sýrlandi, Írak, Úkraínu og víðar. Ekki heldur SHA á Íslandi tekst að taka skýra afstöðu Í þessum stríðum, hvað þá að skipuleggja öfluga baráttu fyrir friði.
Þetta er breyting frá því sem áður var. Ég fékk pólitíska skírn í baráttunni gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna í Víetnam, stríði sem ól af sér mesta andheimsvaldastarf 20. aldarinnar. Alþjóðleg samstaða átti stóran þátt í sigri víetnömsku þjóðarinnar 1975 og sú hreyfing olli pólitískri ólgu á Vesturlöndum og gerði mína kynslóð róttæka. Viðlíka gerðist aftur í tengslum við innrás „hinna viljugu“ í Írak 2003. Þá kviknaði aftur öflug grasrótarbarátta gegn stríði um hinn vestræna heim. Mannfjöldinn í götumótmælum var hliðstæður við hátinda Víetnambaráttunnar. Og mótmælahreyfingin gegn stríðinu vann áróðursstríðið svo Bush og Blair stóðu uppi sem ærulausir stríðsglæpamenn sem höfðu falsað gögnin um „gjöreyðingarvopn Saddams“.
Mótmælin gegn Íraksstríðinu á Íslandi voru líka mjög kröftug. Mánuðum saman voru vikulegir útifundir haldnir í Reykjavík. Allt annað gildir um nýjustu stríðin. Engin mótmæli eða ályktanir komu frá SHA né öðrum þegar stríð NATO geysaði í Líbíu. Og sama er uppi á teningnum í Sýrlandi, í stríði sem USA og ESB-veldin reka gegnum staðgengla. Breytingin er afskaplega sláandi. Ég ætla að slá því fram að meginorsakirnar séu tvær:


Í FYRSTA LAGI  skýrist hin ráðvilta afstaða fjölmargra friðarhreyfinga af því að heimsvaldasinnar tóku upp „smart power“ (sniðuga beitingu valds). Þeir píska upp stemningu gegn útvöldum „harðstjórum“, beita fyrir sig mannréttindasamtökum (NGO´s) og skipuleggja miklar ófrægingarherferðir gegnum heimspressuna. Slíkar herferðir geta tekið stefnu á íhlutun frá „alþjóðasamfélaginu“ undir merkjum „mannúðarinnrásar“ (sbr Líbíu), eða þá, sem algengara hefur orðið, að valin er leið stríðs gegnum staðgengla. Þá felst íhlutunin í að styðja uppreisn óánægðra trúarhópa eða þjóðernishópa og byggja upp og vopna her málaliða, oftast undir trúarlegri eða þjóðernislegri yfirskrift. Þriðja aðferðin er að ráðist er á fórnarlömbin út frá endurnýjaðri kennisetningu um „stríð gegn hryðjuverkum“ (sbr Sýrland og Írak 2014). Lömun friðarhreyfingarinnar liggur þá í því að hún kaupir að einhverju leyti þessar opinberu skýringar stríðsaflanna á hernaðinum. Um þessar aðferðir kenndar við  „smart power“ fjalla ég í  annarri grein:


Tvenns konar friðarstefna
Í ÖÐRU LAGI er orsökin sú að friðarhreyfingin á sér enga greiningu á heimsvaldastefnunni. Innan friðarhreyfingarinnar, eins og annars staðar, hefur menn lengi greint á um orsakir nútímastyrjalda og þess vegna líka um baráttuaðferðirnar í þágu friðar. Frjálslyndir húmanistar í friðarhreyfingunni finna ýmsar skýringar á styrjöldum nútímans, oftast hugmyndalegar eða sálfræðilegar: í þröngsýni, í almennum skorti á umburðalyndi, í trúarbragðadeilum eða deilum milli þjóðerna, í átökum milli siðmenninga, í testósteróni og karlrembu, jafnvel í þeirri „illsku mannanna“ sem prestarnir tala um. Frjálslyndur húmanismi hugsar á forsendum ríkjandi efnahagskerfis. Hins vegar eru svo þeir sem finna orsök styrjaldanna fyrst og fremst í ríkjandi efnahagskerfi, gróðadrifnum heimsvaldasinnuðum kapítalisma og átökum kapítalískra valdablokka (þar sem sumir treysta á efnahagslegar aðferðir en aðrir meira á hernaðarlegar). Ágreiningur innan friðarhreyfingar birtist líka í baráttuaðferðum. Fyrrnefndi hópurinn aðhyllist „friðarhyggju“ gegn „hernaðarhyggju“ og snýst gjarnan gegn öllum sem beita vopnum, óháð málstað. Síðarnefndi hópurinn berst alhliða baráttu gegn heimsvaldastefnunni, styður frelsisbaráttu kúgaðra og viðnám þjóða gegn heimsvaldayfirgangi, einnig á vígvelli.

Dagfari sleppir heimsvaldastefnunni
Það er óhætt að segja að fyrrnefnda afstaðan heyrist mun oftar í friðarhreyfingunni á Íslandi en hin. Þetta kom skýrt fram í síðasta Dagfara svo dæmi sé tekið. Ýmislegt gagnlegt var í bæklingnum. En ég sakna þar umfjöllunar um heimsvaldastefnuna eða að þau stríð sem fjallað er um séu skýrð m.t.t. hennar. Undantekningin er stutt grein eftir Véstein Valgarðsson sem er kommúnisti og er raunar óbeint að gagnrýna SHA (sem betur fer er ritið opið fyrir honum og mér og slíkum sérvitringum). Að öðru leyti er ritið í anda borgaralegs húmanisma og friðarhyggju. Stefán Pálsson er ritstjóri og skrifar líklega ómerktu greinarnar. Hann (geri ég ráð fyrir) skrifar pistil um ástandið í Líbíu, um margt góðan, um NATO-íhlutunina sem snérist í harmleik. En samt skilgreinir hann stríðin í Írak og Líbíu svo: „...átökin í Írak eru að miklu leyti trúarlegs eðlis en í Líbíu tengjast þau ættbálkum og erjum milli austurhlutans og vesturhlutans.“ Í færslu á Fésbók SHA 28. júní sl. útfærir Stefán þessa hugsun ögn skýrar:  „Það má verða sífellt fleirum ljóst að stríðið í Líbýu var ættbálkastríð þar sem vesturhéruðin og austurhéruðin tókust á í valdatogstreitu sem staðið hafði í áratugi. Markmið Nató með þátttöku í þessu stríði og að tryggja austurhlutanum völdin eru óskýr ef nokkur - en neikvæð áhrif stríðsins augljós hvarvetna á svæðinu.“ Þarna gerir Stefán ættbálkaátök (og trúardeilu í Írak) að aðalmáli en innrás vestrænna heimsvelda að aukamáli til að skýra Líbíustríðið. Í grein um Sýrland er fjallað um eitt atriði stríðsátakanna: tunnusprengjur – sem eru ódýr, skæð og ólögleg vopn. Og vitnar þar í Human Rights Watch. Þetta hringir strax bjöllum því stofnunin Humar Rights Watch er í fyrsta lagi stjórnað af bandarískri utanríkismálaelítu. Í öðru lagi hefur stofnunin verið mjög virk gagnvart Sýrlandi, var t.d. leiðandi í ófrægingarherferðinni gegn Assad vegna eiturgasárásarinnar við Damaskus í águst 2013, herferð sem hafði „mannúðaríhlutun“ að markmiði samkvæmt hinni nýju NATO-strategíu. Það er enda svo, skv. vestrænni fjölmiðlaherferð, að það er Assad-stjórnin sem beitir tunnusprengjum. Í umræddum pistli er hins vegar ekkert minnst á hverjir standi á bak við „uppreisnina“ miklu gegn Assad (svo er undarleg tvíræðni í ritlingnum: fyrsta grein hans fjallar um „dómsdagsklukku“ ákveðins tímarits um friðarmál, klukkan er nú þrjár mínútur í miðnætti og hefur aðeins einu sinni staðið ver síðan 1947, en í síðustu grein eru kynntar hugmyndir um að heimurinn sé sífellt að verða friðsamari).
Fyrir mér sem andheimsvaldasinna er algjört aðalatriði að stríðin í Írak, Líbíu og Sýrlandi eru fyrst og fremst árásir Bandaríkjanna og NATO-veldanna – með stuðningi fylgiríkja í arabaheimi – á sjálfstæð ríki, stundum beinar innrásir, stundum gegnum staðgengla. Og viðkomandi ríki heyja réttláta baráttu þegar þau verja sig. Beitingu ólöglegra vopna má vissulega gagnrýna en almennt styð ég baráttu Sýrlandshers eins og ég hefði stutt Lýðveldisherinn á Spáni gegn hinni fasísku Francóuppreisn sem studd var til sigurs af erlendum fasistum.

Arfur Víetnambaráttunnar
Eins og ég líka studdi baráttu Víetnama á sínum tíma. Mín þátttaka varð á seinni hluta þess stríðs, frá ca. 1970. Það ár var íslenska Víetnamhreyfingin stofnuð og lýsti yfir á stofnfundi: „Víetnamhreyfingin styður þjóðfrelsisbaráttu Víetnama og baráttu gegn heimsvaldastefnunni um allan heim.“ Við stofnuðum deild á Akureyri sama ár. Í Víetnamstarfinu í Skandinavíu og víðar hafði verið ágreiningur á milli slíkrar línu og annarrar sem hafði kjörorðið „Frið í Víetnam strax!“ Róttækari stefnan varð ofan á, stefna sem kalla má baráttustefnu gegn heimsvaldastefnu. Í ungu hreyfingunni á Íslandi varð hún þess vegna fljótt ríkjandi. Andstæðingurinn, friðarspillirinn, var skýrt skilgreindur: heimsvaldastefna Bandaríkjanna. Og lausnin var að STYÐJA þjóðfrelsisöflin í Indó-Kína, ekki að biðja þau að leggja niður vopn. Í desember 1972 var Víetnamnefndin stofnuð. Að henni stóðu 12 samtök og félög á íslenska vinstri vængnum. Höfuðkjörorð hennar við stofnun, kjörorð sem héldust lítið breytt allt til sigursins 1975, voru: 1. Fullur stuðningur við Þjóðfrelsisfylkinguna (FNL). 2. Viðurkennum Alþýðulýðveldið Víetnam og Bráðabirgðabyltingarstjórnina i Lýðveldinu Suður-Víetnam. 3. Bandaríkin burt úr Indó-Kína. 4. Berjumst gegn bandarísku heimsvaldastefnunni. 5. Herinn burt — Ísland úr NATÓ.
Víetnam sigraði bandarísku innrásina. Þannig og aðeins þannig komst friður á í landinu. Úrslitin réðust á vígvellinum. Fjöldi fallinna bandarískra hermanna snéri bandaríska almenningsálitinu. Alþjóðleg samstaða með Víetnam átti þó stóran þátt í sigrinum líka. Hún jók líka almenna vitund um heimsvaldastefnuna og varð til að stórauka róttækni á Vesturlöndum. Friðarhreyfingin varð gríðarlegt þjóðfélagsafl í krafti þess að vera andheimsvaldasinnuð.

Nýtt ris og hnig friðarhreyfingar
Eftir stutt tímabil sem einkenndist af samkeppni risavelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna – þegar andheimsvaldabarátta beindist mjög gegn vígbúnaðarkapphlaupinu – kom fall Austurblokkarinnar og síðan ný framrás vestrænnar heimsvalda- og hernaðarstefnu, hnattvæðing NATO o.s.frv.
Þá óx til áhrifa ný friðarhreyfing, gegn nýju stríði í Afganistan og einkum og sér í lagi gegn innrás Bandaríkjanna og „hinna viljugu“ í Írak 2003. Þá kviknaði aftur öflug grasrótarbarátta gegn stríði um hinn vestræna heim. Í nýju friðarhreyfingunni voru stríðsöflin yfirleitt skýrt skilgreind sem bandarísk og vestræn hernaðarstefna sem stundaði gamaldags ránsstríð vegna olíu, í anda nýlendustríða 19. aldar. Orsök stríðsins var ekki skilgreind sem „trúardeilur“ eða neitt slíkt. Bush og Blair voru stríðsglæpamenn í olíustríði, ræningjaleiðangri. Mannfjöldinn í götumótmælum var sambærilegur við hátinda baráttunnar gegn Víetnamstríðinu.
Munurinn frá tíma Víetnamstríðsins var helst sá að lítið bar á stuðningi við varnarstríð Íraka sjálfra gegn innrásinni og hernáminu. Skýringin liggur m.a. í því að með falli sósíalismans (sem er þó ekki það sama og Austurblokkin!) og brotthvarfi róttækra alþýðuhreyfinga á heimsvísu varð HREIN FRIÐARHYGGJA ofan á í friðarhreyfingunni, m.a. í Evrópu, í stað HEIMSVALDAANDSTÖÐU.
Það sem síðan hefur gerst er að vestræn friðarhreyfing hefur nærri lamast. Hún horfði aðgerðarlítil á árás NATO á Líbíu. Hún horfði aðgerðarlítil á valdarán fasista, ofurhægrimanna og CIA í Úkraínu 2014, valdarán sem stefnir nú friðinum í Evrópu í stórkostlega hættu. Hin vestrænt studda „uppreisn“ í Sýrlandi hefur kostað 200 þúsund manns lífið og helmingur þessarar 22 milljón manna þjóðar er á flótta, 2/3 innan eigin lands.  Rauði krossinn kallar þetta nú „eitthvert mesta flóttamannavandamál síðan í seinna stríði“. Á þetta horfir vestræn friðarhreyfing aðgerðarlítil, og á aggressífa heruppbyggingu USA og bandamanna í Afríku, Kyrrahafi og öllum heimshornum.
Mjög líka sögu er að segja hér heima. Það urðu engar mótmælaaðgerðir hér á landi gegn stríði NATO í Líbíu. Þá heyrði ég nánast ekki neitt frá SHA og hlustaði ég þó vel. Það var þeim mun verra af því íslenska vinstristjórnin veitti árásinni skilyrðislausan stuðning. Og ekki hafa komið mótmæli gegn staðgengilsstríði USA og NATO-bandamanna þeirra í Sýrlandi og nú aftur í Írak. Afskaplega er það gagnslítið ef eitthvað er, sbr það sem hér hefur verið sagt um Dagfara.
Skýringin á þessu getur varla verið önnur en sú að friðarhreyfingin horfi framhjá heimsvaldastefnunni á bak við þessi stríð, að hún hafi keypt hinar opinberu skýringar heimsvaldasinna á íhlutunum „alþjóðasamfélagsins“, þær séu gerðar út frá „skyldunni til að vernda“ borgarana eða þá að þær séu „stríð gegn hryðjuverkum“. Það að heimsvaldasinnar beiti trúardeilum fyrir sig og sinn málstað er aldeilis ekkert nýtt en hefur kannski aldrei verið notað eins svínslega og nú. Blekkingarleikurinn er einungis orðinn flóknari en áður. Mannréttindasamtökum er beitt fyrir vagn hnattrænnar yfirdrottnunarstefnu, herir málaliða eru dubbaðir upp og síðan farið í innrásarstríð til að ráða niðurlögum þeirra o.s.frv.
Brotthvarf friðarhreyfingarinnar frá heimsvaldaandstöðu þýddi lömun hreyfingarinnar. Friðarstefna sem horfir framhjá heimsvaldastefnunni berst við sjúkdómseinkennin, ekki sjúkdóminn, sem er gagnslítið. Það leiðir ennfremur til þess að hreyfingin gerir lítinn greinarmun á árásarstríði og varnarstríði. Og af því hún gleypir – a.m.k. að hluta til – skýringar vestrænu heilaþvottarmiðlanna á yfirstandandi átökum skoðar hún fylgiríki Vesturveldanna í arabalöndum og samtök herskárra íslamista þeim tengd, Íslamska ríkið, Al-Kaída, Al-Nusra, Íslamska ríkið... ranglega sem sjálfstæða gerendur en ekki það sem þeir eru í raun og veru , málaliðar, verkfæri og hlekkir í heimsvaldakerfi og heimsvaldastríði.

Hvað ber að gera?
Það væri líklega ofmælt að segja að SHA alveg „horfi framhjá“ heimsvaldastefnunni. SHA berst gegn NATO-aðild okkar og hefur oftar en ekki tekið afstöðu gegn hernaði NATO. En það væri ofsagt að samtökin hafi tekið einarða afstöðu í þessum nýju stríðum sem hér um ræðir. Þessu er afar brýnt að breyta. Taka verður skýra afstöðu, álykta og mótmæla, ekki síst þegar íslensk ríkisstjórn styður stefnu Bandaríkjanna og NATO-bandamanna þeirra, en það er nánast lögmál. Umræðan á fésbókarsíðu SHA er oft gagnleg en ekki er hægt að segja að félagar samtakanna taki kröftugan þátt í umræðu í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum hérlendis þar sem áróðurinn er allur á eina leið. Til þess að þetta gerist þarf SHA að koma sér upp GREININGU Á HEIMSVALDASTEFNUNNI.


No comments:

Post a Comment