Sunday, August 2, 2015

Innrásin í Sýrland

(birtist á fridur.is 28/7 2015)
Yfirráðasvæði stríðandi afla í Sýrlandi

Sýrland er nú í reyndinni vettvangur innrásar NATO-veldanna – í framhaldi af árásunum á Júgóslavíu, Afganistan, Írak og Líbíu, sem eftir á liggja í upplausn og/eða rústum. USA og NATO-veldin meta Sýrland sem veikan hlekk í keðju andstæðinga sinna. Með Sýrland (og Hizbolla) úr leik er hægara að koma Íran á kné og tryggja þannig yfirráð USA og Vesturvelda í Miðausturlöndum, þá hefur vígstaða Kína og Rússlands veikst verulega…
Bandaríkin stunduðu ákafan liðssafnað gegn Sýrlandi árin 2011-13. Árið 2013 var unnið stíft að loftferðabanni og loftárásum líkt og í Líbíu 2011. Yfirvarpið sem nota skyldi til árásar var eiturgasvoðaverk nærri Damaskus í águst 2013. Flugherirnir og móðurskipin voru tilbúin. En yfirvarpið reyndist of gegnsætt, m.a.s. of götótt fyrir breska þingið. Snjallari taktík af hálfu strategistanna, meiri tími og undirbúningur reyndist nauðsynlegur. Lausnin varð flókin blanda af trúarbragðadeilu og staðgengilsstríði og svo endurnýjun þess „stríðs gegn hryðjuverkum“ sem USA og NATO höfðu ritað á stríðsfána sína árið 2001. Herskáir íslamistar eru þar í afar stóru en breytilegu hlutverki fyrir vestræna heimsvaldasinna.

Pentagon veðjar á furstadæmi salafista innan Sýrlands
Nýlega birtist á netinu úr leyniskýrslu frá Defence Intelligence Agency (DIA, systurstofnun CIA, heyrir undir Pentagon) frá árinu 2012. Þar kemur fram að DIA bindur mestar vonir við herflokka íslamista sem berjast gegn Assad-stjórninni. Þar segir að „salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI (Al-Qaeda í Írak) séu aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi.“ Skýrslan bindur vonir við sameiningu salafista/súnnía í Írak og Sýrlandi: „ISI [Islamic State of Iraq] gæti líka lýst yfir íslömsku ríki með sameiningu við önnur hryðjuverkasamtök í Írak og Sýrlandi…“ Hér er um að ræða grunneiningar þess sem varð ISIS. Ennfremur segir: „Ástandið sýnir að það er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja.“ Strategistar DIA sáu fyrir sér 2012 að uppreisnaröflin gætu þannig skapað sér „örugg hæli undir alþjóðlegri vernd svipað því sem gerðist í Líbíu þegar Benghazi var valin sem stjórnstöð bráðabirgðarstjórnar.“ Sjá úttekt á leyniskýrslunni:http://www.globalresearch.ca/the-islamic-state-isis-is-made-in-america-the-pentagon-had-planned-the-fall-of-mosul-and-ramadi-in-2012/5451363
Þróunin varð furðu lík því sem strategistar DIA sáu fyrir sér, með svona mikilli velþóknun.. Þessir hópar vopnaðra salafista (í tegnslum við Múslímska bræðralagið og Persaflóaríkin) sambræddust í ISIS. Þeir stofnuðu reyndar ekki „furstadæmi salafista“ heldur lýstu yfir kalífati salafista í Austur-Sýrlandi og Írak í júní 2014. Og „örugg hæli undir alþjóðlegri vernd“ koma aftur við sögu.
Plan Brookings um sundurlimun Sýrlands
Brookings stofnunin, ein virtasta og mikilvægasta hugveita bandarískrar elítu, ekki síst í „varnar“- og utanríkismálum, sendi 23. júní síðastliðinn frá sér tillögu að áætlun um Sýrland. Skýrslan nefnist Deconstructing Syria: Towards a regionalized strategy for a confederal country  og áætlunin gengur út á að brjóta Sýrland upp í nokkrar minni einingar. Menn „sjá að lokum fyrir sér Sýrland meira sem sambandsríki, byggt upp af sjálfsstjórnarsvæðum fremur en stjórnað af sterkri miðlægri ríkisstjórn.“ Framkvæmdin felst í að styrkja og vopna ólíka hópa jíhadista til að mynda „örugg svæði“ innan Sýrlands, ennfremur styrkja vopnaða hópa Kúrda til hins sama líkt og Bandaríkin hafa áður gert í Norður-Írak.http://www.brookings.edu/research/papers/2015/06/23-syria-strategy-ohanlon
Brookings stofnunin hefur lengi gefið út slíkar áætlanir sem hafa verið stefnumarkandi í bandarískri utanríkisstefnu (sérstaklega á stjórnartímum Demókrata). Skýrsla frá 2009 hefur nafnið „Which Path to Persia?“ (Hvaða leið til Persíu?) og fjallar um vænlegustu aðferðir Bandaríkjanna til að koma Íran á kné og tryggja með því svæðisbundin yfirráð sín í Mið-Austurlöndum. Þarna er mikil áhersla á það lögð að veiking (destabilization) Sýrlands og Líbanon séu nauðsynlegar forsendur fyrir árangri í þessum viðskiptum, en auk þess er Ísrael ætlað burðarhlutverk í því að sigrast á Íran.http://www.brookings.edu/~/media/research/files/papers/2009/6/iran%20strategy/06_iran_strategy.pdf
Nýja Brookings-skýrslan um sundurlimun Sýrlands er opinbert plagg og því skrifuð í samræmi við hina opinberu sögu um það að ISIS sé ein helsta ógn samtímans og óvinur Vestursins. Það er því mjög vandlega varast að nefna að stuðningurinn til jíhadistanna renni til ISIS heldur er jafnan talað um að hann verði að fara til „hófsamra“ afla. Hitt vita allir sem eitthvert inngrip hafa í mál þessa svæðis – og kom fram í skýrlunni frá DIA – að upppistaðan í uppreisninni gegn Assad er ISIS, Al-Nusra (útibú Al-Kaída) og aðrir hópar salafista. Skoða má ræður m.a. Joe Bidens varaforseta sl. haust þar sem hann viðurkennir hreinskilnislega að „hófsemdaröfl“ (moderate middle) hafi aldrei verið til í uppreisninni í Sýrlandi.http://www.globalresearch.ca/joe-biden-apologizes-for-half-truth-persian-gulf-regimes-and-turkey-are-responsible-for-supporting-isis-and-al-nusra/5406591
Verkefni USA og NATO-velda í Sýrlandi er flókið, fyrst þarf að efla ISIS til mikilla dáða og síðan þykjast taka upp stríð við sama ISIS. Hér þarf að vanda málflutninginn. Joe Biden útskýrir: við viljum ekki styrkja öfgaíslamista en við ráðum ekki við að vinir okkar (Tyrkir, Sádar, Katarar…) gera það. „Ak min kone Ilsebill vil ikke det som jeg helst vil“ sagði fiskimaðurinn í danska ævintýrinu sem kenndi konunni sinni um græðgina. Og vestræn pressa étur upp: Obama vill vel en ræður ekki yfir bandamönnum sínum!
Skýrsla Brookings boðar það sem sagt að Bandaríkin og bandamenn þeirra skuli styrkja hina ólíku hópa vígamanna til að koma sér upp „öryggissvæðum“ innan Íraks. „American, as well as Saudi and Turkish and British and Jordanian and other Arab forces would act in support…“  Skýrslan mælir ekki með því að Bandaríkin eða NATO geri beina innrás í landið. Ef hins vegar herir Assads ráðast á þessi „öryggissvæði“ er grundvöllur fyrir að víkka út stríðið: „..Were Assad foolish enough to challenge these zones, even if he somehow forced the withdrawal of the outside special forces, he would be likely to lose his air power in ensuing retaliatory strikes by outside forces, depriving his military of one of its few advantages over ISIL.“ Þetta er sem sagt mjög í ætt við línuna sem reyndist Vesturveldunum svo vel í Líbíu.
Hvaðan fær ISIS hernaðarkraftinn?
Eins og áður sagði er ISIS opinberlega óvinur Vestursins, einnig í þessari skýrslu. Hins vegar er kyrfilega sniðgengin spurningin: Hvaðan hefur ISIS hernaðarkraft sinn? En það er spurning sem ekki má sniðganga. Í grein áConsortium News lýsir Rick Sterling því lið fyrir lið hvernig grundvöllurinn undir tilveru ISIS-samtakanna liggur í NATO-landinu Tyrklandi. Þar eru höfuðstöðvar samtakanna, þaðan liggur stöðugur fjárstraumur til vopnakaupa, þaðan koma vopn og búnaður (Sterling áætlar a.m.k. 2000 flutningabílhlöss yfir landamærin), þar yfir ferðast foringjar jíadista sem flestir búa í Trklandi, svo er olíustraumur í hina áttina frá ISIS en annars koma peningar ISIS að stærstum hluta frá helstu fylgiríkjum USA í Arabaheimi – Katar og Sádi Arabíu. Það er óhugsandi að nokkurt NATO-land stundi svo víðtækan hernaðarlegan stuðning við nokkurn aðila án þess að höfuðstöðvar NATO séu þar með í ráðum. „Sérfræðingar“ CIA geta þá ekki heldur verið langt undan. Í ljósi þess að sagan um „hófsömu öflin“ er blekking má ljóst vera að vopna- og fjárstuðningur Vestursins og bandamanna þeirra í Miðausturlöndum við uppreisnina rennur að stærstum hluta til ISIS.   https://consortiumnews.com/2015/06/25/turkeys-troubling-war-on-syria/
Sjálfsmorðssprengja – og Tyrkland lýsir yfir stríði
Sjálfsmorðssprengja 20. júlí í tyrkneska bænum Suruc, við landamæri Sýrlands, drap 32 ungmenni úr ungliðahreyfingu sýrlenska sósíalistaflokksins. Tyrknesk yfirvöld segja að ISIS í Sýrlandi sé þar á bak við. En blaðið Today´s Zaman, stærsta tyrkneska blaðið á ensku, hefur eftir þekktum uppljóstrara að aðgerðin sé runnin undan tyrknesku leyniþjónustunni og þar með Erdógan forseta.http://www.todayszaman.com/national_fuat-avni-claims-erdogan-behind-suruc-attack-to-sow-chaos-in-society_394545.html
Nú sýnir sig alla vega að hryðjuverkið hefur breytt stöðunni og gefið Tyrklandsstjórn tilefni til að hefja opinbera þátttöku í stríðinu í Sýrlandi. Eins og fram kom hér að ofan hefur Tyrkland í raun leynt og ljóst stutt ISIS, enda treglega tekið þátt í hinu opinbera stríði gegn samtökunum. Það er af því AKP, flokkur Erdógans, styður opinskátt uppreisnina gegn Assad og vill því eðlilega ekki bombardera sína menn. En eftir hryðjuverkið töluðust þeir við í síma Erdógan og Obama og að því loknu gerðist Tyrkland fyrst opinber þátttakandi í stríðinu gegn ISIS. Tyrkjaher hefur í framhaldinu gert loftárásir í Sýrlandi, fáeinar árásir á búðir ISIS en margfalt fleiri á búðir Varnarhers Kúrda (tengdur m.a. Verkamannaflokki Kúrda, PKK), en sá her hefur, ásamt stjórnarher Sýrlands verið í fararbroddi í baráttunni við ISIS. Þá hafa Bandaríkin og „bandamenn“ fengið afnot af tyrknesku herstöðinni Incirlik fyrir sprengjuflugvélar sínar en höfðu áður aðeins mátt fljúga þaðan drónum.
NATO-innrásin hafin
Þegar þetta er skrifað (27. júní) kemur meira fram af nýja samkomulagi Bandaríkjanna og Tyrklands: samið hefur verið um að „bandamenn“ skuli með aðstoð Tyrkjahers mynda „hlutlaus svæði“ og „örugg hæli“ í Norður-Sýrlandi. Sem sagt þau „öruggu hæli“ og „öruggu svæði“ innan Sýrlands sem bandarískir strategistar hafa óskað sér og talað um a.m.k. síðan 2012. NATO-innrásin í Sýrland er í raun hafin.
Ég ætla ekki hér og nú að rökstyðja að hryðjuverkin í Suruc séu sviðsett en þau koma á heppilegum tíma bæði fyrir Vesturveldin og Erdogan og eru notuð sem startskot til útvíkkunar stríðsins. Ég ætla ekki heldur að rökstyðja að hryðjuverkin í Túnis 26. júní (fórnarlömbin að mestu breskir ferðamenn) hafi verið sviðsett en óneitanlega komu þau eins og pöntuð til að tryggja endurnýjaðan stuðning Breta við hið nýja „stríð gegn hryðjuverkum“ (árás á Sýrland var hafnað af breska þinginu 2013) rétt eins og Charlie Hebdo tilræðið í París jók mjög stuðning við sama stríð meðal Frakka og Evrópubúa (bræðurnir Kouachi þá nýkomnir úr stríðinu í Sýrlandi). En ég læt nægja að segja að fyrirbærið ISIS er ein samhangandi sviðsett hryðjuverkaaðgerð. Líklega ætti ég frekar að segja að tilkoma ISIS sem herveldis sé stórbrotið sviðsett hryðjuverk. Fyrir vikið er innrás NATO-velda í Sýrland núna miklu betur undirbúin, jafnt herfræðilega sem sálfræðilega, en sá lofthernaður sem rann út í sandinn í ágúst 2013.
Til þessa hefur kostun, fóðrun, vopnun og stuðningur við ISIS, sem og almennt við uppreisnina í Sýrlandi einkum komið frá Tyrklandi og Persaflóaríkjunum. En hinir voldugu aðilar að tjaldabaki eru Vesturveldin, og nú munu þau væntanlega stíga meira fram á sviðið.

No comments:

Post a Comment