Saturday, December 20, 2014

Ný skref í uppgjörinu við Rússa

(birtist á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 19. des. 2014)

Í USA hafa þingið og fulltrúadeildin samþykkt lagafrumvarp, "Ukraine Freedom Support Act". Þegar Obama hefur undirritað það er stórt skerf stigið í átt til stríðs, því lögin hljóða upp á umfangsmikla vopnaaðstoð Bandaríkjanna við úkraínska herinn ásamt þjálfun og hernaðarráðgjöfum. Með lögunum skuldbinda Bandaríkin sig ennfremur sig til að tryggja Úkraínu, Georgíu og Moldóvu stöðu sem "major non-NATO ally". Sú staða gefur eins konar aukaaðild að NATO fyrir lönd með mikla hernaðarlega þýðingu, og eykur mjög gagnkvæmar skuldbindingar þessara ríkja og NATO. Atburðarásin allt árið 2014 bendir eindregið til að USA (með bandamennina í eftirdragi) hafi ákveðið að taka uppgjör við Rússa NÚNA. Lagafrumvarpið má lesa hér

Refsiaðgerðirnar og efnahagshernaðurinn gegn Rússum, þ.á.m. verðfelling Sáda á olíunni, er farinn að bíta. Rúblan hríðfellur svo nú fer að sverfa að almenningi. Verðbólgan fer upp í 10% og hörgull er á æ fleiri nauðsynjavörum vegna viðskiptahafta. Pútín talar opinskátt um það í ræðum að hugsun USA og NATO-veldanna með refsiaðgerðunum sé að valda ólgu meðal almennings og litabyltingu í stíl við Júgóslavíu og Úkraínu. Það mun vera raunsætt mat.

Tuesday, November 4, 2014

Miðausturlönd - eyðilegging samkvæmt áætlun

(Birtist á Friðarvefnum 3. nóv. 2014)
Styrjaldargnýrinn í fjarlægð er óslitinn. Þessa stundina er stríð Vestursins háð úr lofti – gegn Íslamska ríkinu svokallaða innan Sýrlands og Írak. Íslamska ríkið er vígahópur sem einkum á rætur í uppreinsinni gegn Assadstjórninni í Sýrlandi. Þar hefur hann að mestu verið vopnaður og fjármagnaður af CIA og af helstu bandarmönnum USA í Miðausturlöndum, s.s. Sádi-Arabíu og Katar. Þetta er aðeins nýjasta stríðið í seríu styrjalda sem Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO og Arabalöndum auk Ísraels standa að. Stríðið er samfellt, en brennipunkturinn flyst til. Samfellt stríð er orðin opinber bandarísk stefna: http://www.globalresearch.ca/war-winds-near-gale-force/5402406
Enduruppskipting áhrifasvæða frá 1990
Heimsvaldakerfið leyfir ekki valdatómarúm. Saga kapítalískrar heimsvaldastefnu sannar það aftur og aftur. Græðgin í auð og völd er óseðjanleg. Eftir fall Sovétríkjanna raskaðist jafnvægið milli heimsveldanna mjög. Alþjóðastjórnmálin urðu einpóla vegna yfirburðavalds Bandaríkjanna. Margir hinir einföldu töldu að fall Múrsins boðaði frið. En vestrænir heimsvaldasinnar sáu fyrir sér allt annað en frið, nefnilega enduruppskiptingu áhrifasvæða út frá nýjum styrkleikahlutföllum. Og þar sem hægt er að sækja fram sækir maður fram! Frá falli Múrsins varð viðmið Bandaríkjanna heimsyfirráð. Helstu svæði til enduruppskiptingar eftir fall Sovétríkjanna voru Austur-Evrópa og Miðausturlönd. Wesley Clark fyrrum yfirhershöfðingi NATO sagði frá fundi sínum árið 1991 með Paul Wolfowitz, þá vararáðherra og síðar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann sagði þar að Bandaríkin hefðu nú 5-10 ár til að „hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.“ Wolfowitz fókusaði á Miðausturlönd af því þaðan streymir olían. Þessi þrjú lönd settu Bandaríkin nú á listann „öxulveldi hins illa“ (og þrjú í viðbót: Líbíu, Norður-Kóreu og Kúbu) og settu í gang stríðsvélar sínar eins og brátt mun sagt verða.
Keppinautar skora risaveldið á hólm
En kapítalísk þróun er ójöfn, gömlu heimsveldin eru hnignandi og kreppuhrjáð. Þrátt fyrir sigur Bandaríkjanna í kalda stríðinu, þrátt fyrir einstæða valdastöðu þeirra og trausta hirð bandamanna hafa ný heimsveldi siglt upp að hlið þeirra í kepninni um heimsmarkaðinn. Dollarinn er að missa stöðu sína sem allsherjargjaldmiðill í alþjóðaviðskiptium og það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bandaríska hagkerfið. Bandaríska vefritið Business Insider skrifaði núna 8. október síðastliðinn: „Því miður, Ameríka, Kína var að fara fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims, skv. útreikningum AGS.“

Saturday, October 11, 2014

Tvöfalt líf Joe Bidens í Sýrlandi


6. október. Merkilegar játningar hjá Joe Biden, varaforseta Bandaríkjanna: að ISIS sé enginn erkióvinur heldur fyrst og fremst verkfæri "vina okkar" í því verki að steypa Assad. Svo komum við sjálfir [Vestrið] og ráðumst á verkfærið og vinnum um leið verkið, að steypa Assad. Lesið greinina og skoðið myndbandið! 


10. október. Málflutningur Vesturvelda gerist nú flókinn til að skýra vendinguna frá stuðningi við íslamista í Sýrlandi yfir í að lýsa þeim sem mestu ógn samtímans. Ein aðalfrétt RÚV í dag hljóðaði: "Bandaríkjamenn og Tyrkir hafa náð samkomulagi sem felur í sér að liðsmenn hófsamra uppreisnarmanna í Sýrlandi fái bæði þjálfun og vopn til að berjast gegn sveitum Íslamska ríkisins." En í ræðu sinni 2. okt viðurkenndi Joe Biden að sagan um hófsömu uppreisnarmennina væri því miður uppspuni: "the idea of identifying a moderate middle has been a chase America has been engaged in for a long time. We Americans think in every country in transition there’s a Thomas Jefferson hiding behind some rock, or a James Madison beyond one sand dune. The fact of the matter is, the ability to identify a moderate middle in Syria was—there was no moderate middle, because the moderate middle are made up of shopkeepers, not soldiers." Samt ætlar hann nú að styðja og vopna þessa sem ekki eru til. Mótsögnin í þessu liggur í tvöföldu hlutverki íslamistanna (wahabista): sem FÓTGÖNGULIÐAR Vestursins og sem GRÝLA sem réttlætir íhlutun Vestursins.

Monday, September 22, 2014

Skilningshamlandi skrif Þórs Whitehead um upphaf seinna stríðs

[Á 4. og 5. áratug síðustu aldar var kommúnistahreyfingin helsta forustuafl alþýðu í baráttunni gegn nasisma og fasisma á heimsvísu. Og í seinna stríði voru það fyrsts og fremst Sovétmenn sem sigruðu og moluðu þýsku stríðsvélina. Ein helsta forsenda þess sigurs var fresturinn sem Sovétmenn keyptu sér með griðarsáttmálanum við Hitler 1939. Svo koma sagnfræðingar borgarastéttarinnar eins og Þór Whitehead og segja okkur að fasisminn og kommúnisminn hafi verið og séu bræður í anda og samherjar í raun. Neðanskráð grein er svargrein við bók Þórs, Milli vonar og ótta. Fyrir hana fékk Þór íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995. Á þessum tíma framstormandi frjálshyggju mætti bókin lítilli andstöðu meðal sagnfræðinga, og grein mín er áreiðanlega helstu andmælin úr þeim ranni. En burtséð frá skrifum Þórs Whitehead er þessi samningur Stalíns við Hitler heimssögulegur, og mjög mikilvægt að draga af honum rétta lærdóma.]

(Birtist í Morgunblaðinu 16. júní 1996)
ÞÓR Whitehead er langt kominn með að verða opinber sögutúlkandi íslenskrar utanríkisstefnu. Þar að auki er hann eitt helsta átórítet í akademískri umræðu um sögu íslenskrar kommúnistahreyfingar. Bæði þessi málefni eru mjög á dagskrá í síðustu bók hans, Milli vonar og ótta, sem færði honum Íslensku bókmenntaverðlaunin sem bestu bók síðasta árs á sviði fagbókmennta. Margt fróðlegt hefur Þór grafið úr fylgsnum heimildanna. Ég vil þó setja fram þessa spurningu: Er það sem hann skrifar um þessi mál e.t.v. fremur skilningshamlandi en skilningsaukandi?

"Kommúnasismi" sem tvíhöfða þurs

Milli vonar og ótta fjallar um fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er dramatískur tími í stjórnmálalífi Íslands og Evrópu, mjög markaður af griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Yfirleitt hefur Þór Whitehead þann sið að láta "heimildirnar tala". Hann leggur lítt fram eigin túlkanir á atburðum þessara tíma heldur dregur hann saman mikið magn heimilda, birtir úrval af því og eftirlætur lesendum að draga ályktanir. En úrval þeirra heimildabrota sem Þór dregur fram og samhengið sem þær mynda leiða hins vegar lesandann að ákveðnum ályktunum. Og þetta samhengi litast mjög af lífssýn Þórs. Það á við um það sem hann ritar um framgöngu kommúnista, hérlendis sem erlendis, á umræddum tíma og um þau skrif langar mig að fjalla lítillega (og til þeirra vísar titill greinar minnar). Einn ritdómari dregur t.d. ályktun beint af þessu "tali heimildanna" hjá Þór og skrifar að kommúnistar hafi bersýnilega verið "helstu talsmenn nasista eftir að griðasáttmálinn var gerður" (Guðmundur Heiðar Frímannsson, Mbl. 20. des.). Þór setur aldrei fram svo grófa fullyrðingu berum orðum enda væri það ekki í samræmi við aðferð hans. Hann býr hins vegar til mynd þar sem slík fullyrðing liggur beint við en lætur ekki hanka sig á að koma með hana sjálfur. Myndin sem Þór dregur upp er raunar ekki ný. Hún er í meginatriðum lík málflutningi ráðandi afla þessara ára á Vesturlöndum og túlkun þeirra á griðasáttmálanum. Þór endurframkallar þá mynd einfaldlega með því að kalla á ný fram anda þessara ára. Að mínu mati er hér á ferðinni eitthvað annað en sagnfræði. Það er blaðamennska í sögulegu efni. Sagnfræðingur spyr spurninga, leitar hinna mögulegu skýringa og svara í heimildum sínum og tekur síðan afstöðu til þeirra. Þór veltir upp miklu söguefni að hætti blaðamanns en stoppar þar og eftirlætur lesendum að draga ályktanir.

En blaðamennska Þórs Whitehead er pólitísk, og stöku sinnum kemur hann með almennar "upplýsingar" sem í reynd eru pólitískt merktar túlkanir: 

"Stalín mælti einnig svo fyrir að Alþjóðasamband kommúnista skyldi virkjað gegn Bandamönnum ... Á sama tíma höfðu kommúnistar á yfirráðasvæði Hitlers sig hæga ... Ráðstjórnin og Komintern höfðu afturkallað boðskapinn um samfylkingu gegn fasisma og fylktu í raun liði með nasistum og fasistum gegn "Bandamannaauðvaldinu""(bls. 60-61).

Að sögn Þórs bergmálaði þessi nýja stefna Stalíns og Kominterns strax í málflutningi kommúnista á Íslandi. Sem dæmi um það tilfærir hann brot úr grein eftir Halldór Laxness og túlkar hana á sinn hátt. Hann segir hana vitnisburð um að kommúnistar hér hafi strax þóst skilja hver væri "dulinn tilgangur Stalíns" með hinni nýju stefnu: 

"Samfylking gegn fasisma" var úrelt orðin, því sáttmáli við Hitler, óvin siðmenningarinnar, þjónaði betur hagsmunum heimsbyltingarinnar ... Herjum Bandamanna og Þjóðverja blæðir út í langvarandi stríði, en Sovétríkin færa út landamæri sín í vesturátt og vígbúast í friði ... Í stað þess að haltra til framtíðarríkisins í hægfara samfylkingu gat óskadraumurinn um frelsun alþýðunnar þá ræst um alla álfuna, eins hratt og skriðdrekar hinnar stórkostlegu fimm ára áætlunar fengju sótt fram vestur á bóginn" (bls. 65).

Ofangreindar tilvitnanir og túlkanir draga upp eftirfarandi mynd: Í fyrsta lagi voru Stalín og Hitler bandamenn á þessu tímabili. Í öðru lagi hafði Stalín 1939 dulin plön um sórkostlega sókn vestur á bóginn. Í þriðja lagi gat Stalín, þegar honum hentaði, skipað fylgismönnum sínum á Íslandi sem annars staðar að gerast bandamenn fasista gegn sameiginlegum óvini beggja: lýðræðinu. Þeir hlýddu. Og þannig var línan fram á sumar 1941 þegar Hitler óforvarandis réðist á Stalín. Þá gerðust kommúnistar aftur andfasistar ­ en svo langt nær raunar ekki bókin Milli vonar og ótta.

Monday, September 15, 2014

Liðsafnaður í ranga átt - á ný

Rússarnir koma!
Fjölmiðlafárið undanfarið um „innrás“ Rússa og „fulla þátttöku“ í stríðinu í Úkraínu átti að skapa aðstæður fyrir nánari tengingu Úkraínu við NATO á leiðtogafundi bandalagsins í Bretlandi 4-5. september. Að sögn Camerons forsætisráðherra var verkefni fundarins einmitt að ákvarða tengsl  Úkraínu við NATO og stefnu NATO gagnvart Rússlandi. Niðurstaða fundarins varð vissulega nánara samstarf NATO við Úkraínu og „full hernaðarleg samverkan“ þeirra á milli. Þá var samþykkt „aukin samstarfsaðild“ nokkurra landa að NATO, m.a. fyrrum Sovétlýðveldanna Georgíu og Moldóvu, ennfremur Finnlands og Svíþjóðar. Hins vegar settu miklar ófarir Úkraínuhers undanfarið gagnvart „aðskilnaðarsinnum“ í austurhéruðunum mark sitt á fundinn. Borgarastríð, klofið land og óskýr landamæri útilokar a.m.k. fulla NATO-aðild Úkraínu í bráð. Enn fremur varð vopnahléið sem samið var um milli stríðsaðila 5. september til þess að ögn hægði á refsiaðgerðunum ESB-ríkja gegn Rússlandi.


Hitler, Stalín og Chamberlain áttu sviðið 1939

Rússar lögðu undir sig Krímskagann í mars slíðastliðnum eftir afar andrússnesk valdaskipti/valdarán í Úkraínu.  Yfirtaka Rússa varð að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu á skaganum sem tilheyrði Rússlandi frá 1783-1954 og er að mestu byggður Rússum. Þar hefur um aldir verið aðalflotastöð Rússa við Svartahaf. Leiðtogar NATO-landa fordæmdu aðgerð Pútíns sterklega, lýstu aftur á móti stuðningi við ný stjórnvöld í Kænugarði sem komu til valda í valdbyltingu og hafa síðan háð stríð gegn „aðskilnaðarsinnum“ í austurhluta landsins. Viðskiptabann og refsiaðgerðirnar gegn Rússum hafa þyngst stig af stigi. Hin meginviðbrögð Vestursins eru aukin hernaðarumsvif NATO í næsta nágrenni Rússlands og áköf umræða um nauðsyn þess að NATO þekki sinn vitjunartíma í Úkraínu. Vestrænir leiðtogar og vestræn pressa hafa leitað í ákafa að „smoking gun“ Pútíns í Úkraínudeilunni, leitað að sakarefnum til að hengja á hann sem árásaraðila, líkt og „gjöreyðingarvopnin“ voru hengd á Saddam Hussein 2003. Um tíma var það hollenska farþegaþotan, síðan NATO-myndir af rússneskum skriðdrekum í Úkraínu sem áttu að  vera „smoking gun“.
Leiðtogar  Norðurlanda láta ekki sitt eftir liggja. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar hefur lengi farið fyrir öðrum í harkalegum ummælumum Pútín: „Ég held að Krím sé bara upphitun… Ég er sannfærður um að eiginlegt markmið hans [Pútíns] er ekki Krím heldur Kíev, bætir Bildt við.“   Utanríkisráðherra Íslands fer í endurteknar heimsóknir til Kiev til að sýna stuðning sinn við stjórnvöld þar og lofar auknum framlögum til NATO. Á NATO-fundinum fengu Svíþjóð og Finnland, sem áður töldust hlutlaus ríki, viðurkennda „aukna samstarfsaðild“ landanna að NATO.  Danmörk ákvað nýlega að taka beinan þátt í skotflauganeti NATO sem beinist auðvitað gegn Rússlandi, þó formelga beinist það gegn „ónefndum óvini“. Og ekki þarf að hvetja hinn herskáa Noreg sem hefur tekið þátt í 8 styrjöldum Bandaríkjanna og NATO frá 1990.
Hörð viðbrögð Vestursins gegn Rússum eru knúin áfram af Bandaríkjunum. Fyrir bandaríska þinginu hefur síðan í vor legið frumvarp, sk. The Russian Aggression Prevention Act sem gefur Úkraínu (og Georgíu og Moldóvu) stöðu sem de facto NATO-ríki. Verði frumvarpið samþykkt gerir það stríðið í Úkraínu að málefni NATO, eða eins og þar segir:  “Provides major non-NATO ally status for Ukraine, Georgia, and Moldova for purposes of the transfer or possible transfer of defense articles or defense services.” Í tengslum við innlimun Krímskagans fóru áhrifamenn í bandarískum utanríkismálum, svo sem Zbigniew Brzezinski, John McCain og Hillary Clinton að líkja atburðinum við aðdraganda seinna stríðs, líkja innlimun Krím við innlimun Austurríkis 1937 og Tékkóslóvakíu 1938 og þar með líkja Pútín við Hitler. Framantalið áhrifafólk fólk er reyndar ekki við völd. Yfirmenn bandarískra hermála voru í fyrstu talsvert varkárari en í júlí kom yfirmaður bandaríska herráðsins (Joint Chiefs of Staff) með herskáar yfirlýsingar og  líkti innlimun Krímskaga við innrás Sovétríkjanna í Pólland 1939.

Sunday, August 17, 2014

11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum“


(Í framhaldi af grein minni um tortímingu þotunnar MH17 yfir Úkraínu sem líklegt hryðjuverk undir fölsku flaggi og stríðsundirbúning birti ég hér grein sem ég skrifaði 2007 um hryðjuverkin í New York 11. september 2001. Hún er sjö ára gömul en ég stend við allar meginniðurstöður. Hún birtist á Friðarvefnum og á eggin.is 8. og 14. des. 2007. Hluti hennar birtist í Fréttablaðinu 20. des. sama ár.)
Fréttamynd frá 11. september


Ég er orðinn nokkurn veginn sannfærður um að voðaverkin í New York 11. september voru innherjaverk úr bandarísku stjórnkerfi og leyniþjónustu. Þessi skoðun er útbreidd , einkum í Bandaríkjunum. Af hverju ræðum við hana þá ekki?
Hin opinbera skýring á 11. september stenst ekki. Fjölmörg atriði skera í augu.
Til dæmis það að allir turnarnir þrír skyldu hrynja nánast á hraða fallandi steins. Á kvikmyndum virðast þeir breytast í duft og hrynja án mótstöðu niður í gegnum sjálfa sig (einnig „turn númer sjö“ sem ekki varð fyrir neinni flugvél). Það er verkfræðingum ráðgáta hvernig brennandi flugvélabensín gat farið svona með stálgrind þessara bygginga.
Til dæmis það að enginn maður skuli enn hafa verið dæmdur fyrir illvirkin.
Til dæmis það furðulega flugafrek ungra og óreyndra Araba sem aldrei höfðu flogið farþegaflugvélum áður, en hittu samt með mikilli nákvæmni tilætlaðar byggingar, eða það að þeim tókst fyrst öllum að hverfa úr radarsambandi áður en nokkur flugmaður náði að senda út neyðarkall.
Ekki er saknað neinna farþega úr þeirri farþegavél sem á að hafa flogið á Pentagon-bygginguna.
Æðsti maður pakistönsku leyniþjónustunnar ISI, Mahmoud Ahmad, var í Washington dagana kringum 11. september og átti fundi með kollegum sínum hjá CIA og Pentagon. Mánuði síðar vitnaði indversk leyniþjónusta um peningasendingu fyrir tilstilli hins sama Mahmoud Ahmad inn á bankareikning flugræningjans Mohammed Atta í Flórída stuttu fyrir 11. september.
Atburðirnir á Manhattan 11. september komu eins og pantaðir. Þeir urðu startskot fyrir nýja og harðari heimsvaldastefnu Bandaríkjanna undir forystu nýhægrimanna. Jafnvel sjálfan 11. september var ekki aðeins lýst yfir stríði gegn Al-Qaeda og Talibanastjórninni í Afganistan heldur mæltist Rumsfeld til þess við herforingja sína að þeir undirbyggju hernaðaraðgerðir gegn Írak.
Bandaríkin eða önnur árasarríki hafa aldrei lagt fram snefil af sönnun fyrir því að Afganistan, eða Írak – hvað þá Íran – tengist neitt árásunum á þessa ágætu turna en hóta samt löndunum innrásum hverju á fætur öðru, og framkvæma þær síðan.

Wednesday, August 13, 2014

Tortíming farþegaþotu: hryðjuverk undir fölsku flaggi og stríðsundirbúningur

(birtist á fridur.is 11/8 2014)
Michael Bociurkiw var annar af tveimur fyrstu eftirlitsmönnum ÖSE á hrapsvæði farþegaþotunnar MH17. Vitnisburður hans er afar sterkur, vitnisburður um skýr merki eftir hríðskotasprengikúlur úr flugvél en hins vegar engin merki eftir flugskeyti.  Aðrir sérfróðir menn draga sömu ályktun og Bociurkiw af að skoða myndir af stjórnklefahluta þotunnar. Rökin hníga þá að HRYÐJUVERKI FRAMKVÆMDU UNDIR FÖLSKU FLAGGI, undir flaggi Pútíns til að koma á hann sök.
Stjórnklefahluti þotunnar 
Heilbrigð skynsemi er treg til að trúa því að heimsvaldasinnar fremji fjöldamorð á saklausum borgurum, komi sökinni á útvalinn andstæðing og fari síðan herferð til að koma honum á kné. Ein mótbára sem sjálfkrafa vaknar er að slíkt sé allt of áhættusamt, allt gæti komist upp og komið í hausinn á gerendunum. En hryðjuverk undir fölsku flaggi er ein aðferð heimsvaldasinna af mörgum til að einangra andstæðinga sína, skapa tilefni til íhlutana, koma af stað styrjöldum, koma upp leppstjórnum, vinna áhrifasvæði. Tortíming þotunnar MH17 sýnist þá sverja sig í ætt þekktra atburða: ríkisþinghúsbrunannn í Berlín 1933, sprengingu Tvíburaturnanna 11. september 2001, eiturgasárás í útjaðri Damaskus 2013, leyniskyttumorðin af húsþökum í Kænugarði í febrúar sl. Önnur aðferð til að framkalla stríð og valdarán er auglýsing og sviðsetning voðaverka sem aldrei voru framin, eru tilbúningur. Dæmi um slíkt er tilbúin árás Norður-Víetnama á bandaríska flotann í Tonkin-flóa 1964, morð hermanna Saddams Hússein á súrefniskassabörnum í Kúvaít 1991, gjöreyðingavopn Saddams 2003, loftárásir Gaddafís á eigin þegna 2011.

Saturday, August 9, 2014

Stórbreskt íhald

(birtist á Vefritinu Kistunni og á eggin.is í febrúar og mars 2008)
Nú hef ég hraðlesið tvær bækur, hnausþykkar, eftir Antony Beevor: Stalíngrað sem út kom hjá Bókaútgáfunni Stalingrad, BeevorHólum nú fyrir jólin (útgefin í Bretlandi 1998) og svo bókina TheBattle for Spain. The Spanish Civil War 1936–1939 sem kom út 2006.  Tvær aðrar bækur höfðu áður komið út á íslensku: Fall Berlínar 1945 (2006) ogNjósnari í Þýskalandi nasista?: ráðgátan um Olgu Tsékovu (2007).
Beevor er metsöluhöfundur sem hefur fundið einhverja þá töfraformúlu sem tryggir honum lesendur í milljónavís. Hann er orðinn að stórveldi á Íslandi líka. Í tengslum við útkomu bókarinnar Fall Berlínar haustið 2006 hélt hann fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands og troðfyllti hátíðarsal Háskóla Íslands og af því tilefni var hann hlaðinn miklu lofi af forsvarsmönnum Sagnfræðingafélagsins í útvarpinu og víðar.
Antony Beevor er menntaður í Winchester og nam síðan hernaðarsögu við Konunglegu herakademíuna í Sandhurst. Þá er hann fyrrverandi liðsforingi í breska hernum. Talsverð hefð er fyrir slíkum  menntunar- og starfsframa í breska heimsveldinu.

Kreppa auðvaldsskipulagsins

(ræða flutt á ráðstefnu Rauðs vettvangs 10. október 2009, birtist á eggin.is og this.is/nei í nóvember sama ár)

1. Um orsakir kreppunnar

• Sjálfstæðisflokkurinn segir: Hugmyndafræðin og efnahagsstefnan var góð en einstaklingarnir brugðust. Þeir menn yfirtóku því miður sviðið, sem amma Davíðs Oddssonar nefndi „óreiðumenn“.
• Þorvaldur Gylfason segir: Einkavæðingin var vitlaust framkvæmd, enda framkvæmd af spilltri stjórnmálastétt.
• Jóhanna og Steingrímur segja: Það var efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins sem gaf græðginni lausan tauminn og þar með tók græðgin völdin í landinu. En með vinstri menn við stjórnvölinn og með auknu eftirliti má laga kerfið á ný og byggja hér norrænt velferðarkerfi..
Til að byrja með aðeins um græðgina. Það er alveg út í hött að kenna græðginni um kreppuna. Græðgin, gróðasóknin er eina driffjöður kapítalismans. Þar með er hún innsta eðli hans og fjöregg. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Að kenna græðginni kreppuna er eins og að segja að bílslys hafi stafað  af því að vél var í bílum.
Kreppuskýringar þessa fólks sem ég vísaði til eiga það sameiginlegt að hafa mjög takmarkað sjónarhorn og fókus. Þau segja öll: Þetta var klúður. Þau segja líka öll, nema kannski Sjálfstæðisflokkurinn: Þetta var séríslenskt klúður og hálfvitagangur. Rangir aðilar fengu að ráða ferðinni í fjármálakerfinu og stjórnkerfinu.
Það er ekki séríslenskt að kalla kreppuna klúður. Í hverju landinu af öðru má sjá skýringanna leitað í hagstjórnarmistökum stjórnvalda. Enda hafa fjölmargar ríkisstjórnir ýmist hrökklast frá völdum eða sitja nú við litlar vinsældir og bíða kosninga.
Marxista, hins vegar, dettur ekki í hug að kenna neinu klúðri um yfirstandandi kreppu. Það dygði ekki til, nánast hvar sem væri í hinum kapítalíska heimi, jafnvel þótt eintóm fjármálaséní væru í ríkisstjórn, þá gætu þau ekki stýrt framhjá kreppunni. Hér er nefnilega um að ræða kerfiskreppu, þjóðfélagsskipan í kreppu.

Saturday, July 26, 2014

MH17 grandað yfir Úkraínu


20. júlí. Útvarpið kemur nú með frétt, að mestu gamla, um upptökur sem Pentagon og Kerry segja sanna að "aðskilnaðarsinnar" hafi skotið niður MH17. Þá er sannleikurinn líklega þveröfugur, en nú er vissulega vont að greina ljósið í áróðursmoldviðri Vestursins. Moldviðri sem minnir allmikið á annað slíkt út af eiturgasárás við Damaskus í fyrra sem notað var til að reyna að undirbyggja NATO-íhlutun. Seymour Hersh, sem áður afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai, skar sundur það lyganet og sýndi hvernig Tyrkir og Sádar veittu Al Nusra terroristum hjálp og útbúnað til að framleiða sarín. Aðstæður eru að því leyti líkar að leppum Pentagon í Kiev gengur illa í stríðinu eins og uppreisnarmönnum í Sýrlandi.. Auk þess hefur USA gengið heldur illa að fá samstöðu um viðskiptabannið. Gasárásin var örþrifaráð til að byggja upp stemningu og sprenging MH17 gæti verið það líka. Pentagon og NATO vita að þeir hafa vestræna pressu einróma á bak við sig. Paul Craig Roberts, áður aðstoðarráðherra og aðstoðarritsjóri Wall Street Journal skoðar málið skarplega.

Craig Roberts segir þetta um youtube-myndbandið sem ég nefndi í byrjun og átti að "sanna" málið ": „According to reports, expert examination of the code in the video reveal that it was made the day before the airliner was hit." Sem væri þá allgóð vísbending um plottið. Mér sýnist þetta youtube-myndband vera mikilvægt. Úkraínsk leyniþjónusta birti það nánast strax á netinu. Rússneskir sérfræðingar dæmdu það fljótt sem fals þar sem sýna mætti fram á að það væri samsett úr nokkrum upptökum og aldursgreindu það degi eldra en árásin á MH-17. Þetta geta vonandi fleiri rannsakað. Annað atriði: sprengjusagan í vestrænni pressu í kjölfar New York Times, Wall Street Journal og Washington Post gengur út á að Rússar hafi aðstoðað uppreisnarmenn með Buk-loftvarnarkerfi og síðan jafnvel dröslað því til baka yfir landamærin. En sú hugmynd að rússneski herinn hafi af vangá skotið niður (eða hjálpað til) farþegaþotu er ekki mjög sannfærandi!

25. júlí. Þann 20. júlí sagðist Kerry hafa „gríðarlegt magn sönnunargagna“ um ábyrgð Rússa á því að granda MH17. Þegar svo skyldi leggja fram það efni var ekkert haldbært lagt fram sem benti á Rússa. Engin sönnunargögn voru heldur lögð fram gegn „aðskilnaðarsinnum“. Pentagon og CIA létu nægja að vísa til Twitter, Youtube og samfélagsmiðla. Rússar höfðu hins vegar lagt fram mikið efni af gerfihnattamyndum af svæðinu kringum flugslysið og beindu 10 ákveðnum spurningum til bandarískra og úkraínskra yfirvalda. Tvær spurningar snertu Buk-loftvarnarflaugar sem sáust á myndum af úkraínskum stjórnarherdeildum staðsettum í Donetskhéraði í nágrenni slyssins slysdaginn og 3 dögum fyrr. Ein spurning Rússa er: Til hvers þurfti Úkraínuher Buk-flaugar í stríði við „aðskilnaðarsinna“ án flugvéla? Engum spurningum Rússa hefur verið svarað. En bandaríski blaðamaðurinn Robert Parry hefur það eftir nokkrum CIA-sérfræðingum að bandarískar gerfihnattamyndir sýni að batteríið sem skaut vélina niður hafi tilheyrt Úkraínuher og altént að hermennirnir sem mönnuðu það hafi verið í búningum Úkraínuhers. Parry er enginn nobody, hann varð frægur fyrir að afhjúpa Íran-Contras hneykslið á sínum tíma. Sjá nánar:

Skortur Kerrys á sönnunargögnum og úkraínsku einkennisbúningarinr, og margt fleira, bendir í átt að hannaðri atburðaarás sem á að koma sök, og þungu höggi, á Pútín. Góðir rannsóknarblaðamenn geta vissulega rakið upp eitt og annað lyganet. En líklega breyta allar afhjúpanir litlu. Vestræn pressa fór á fyrsta degi yfir í sefasýkisfalsettu út af "rússneskri árásarhneigð" án þess að hirða um sönnunargögn. Eftir MH17 hafa Bandaríkin komist nokkur skref áfram í einangrun Rússlands, hafa dregið hin tregari ESB-ríki með í refsiaðgerðirnar - og NATO nær að flytja fleiri eldfaugaskotpalla og nýjan árásarútbúnað að landamærum Rússlands.

Wednesday, July 9, 2014

Sérstakar aðerðir gegn sósíalistum. Skrif Þórs Whitehead og Guðna Th. Jóhannessonar um efnið

(birtist í Tímariti Máls og menningar 4. hefti nóv. 2007)

Þór Whitehead um „öryggisþjónustuna“

Íslensk leyniþjónusta og hleranir á róttæklingum voru stóra bomban í sagnfræði ársins 2006. Fyrst kom fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar á Söguþingi um efnið, þá grein Þórs Whitehead í tímaritinu Þjóðmál um haustið og litlu síðar bók Guðna Th., Óvinir ríkisins.
            Í fyrirlestri Guðna Th. á Söguþingi hafði óþægilegt ljós beinst að innstu og myrkustu herbergjum valdsins og fyrirsjánlegt var að margt misjafnt yrði nú grafið upp. Þá reis upp Þór Whitehead, kommúnismasagnfræðingur Íslands, og gekk fram fyrir skjaldborg sinna manna. Í Þjóðmála-grein hans, „Smáríki og heimsbyltingin. Öryggi Íslands á válegum  tímum“, birtist nýtt efni um íslenska „öryggisþjónustu“ sem starfaði frá 1948 að skráningu og njósnum um íslenskra sósíalista og hafði náin tengsl við bandaríska sendiráðið og FBI (Þjóðmál, bls. 68-73).   
Þór Whitehead birti grein sína skömmu eftir fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar í maí. Það er athyglisvert að hann styðst í greininni lítið við upplýsingar Guðna. Hann styðst einkum við viðtöl við gamla kunningja úr Sjálfstæðisflokknum, ýmist menn sem hafa staðið nærri þessum sögulegu atburðum sem trúnaðarmenn flokksins (Ásgeir Pétursson), menn sem hafa hafa starfað hjá NATO (Róbert Trausti Árnason), hjá útlendingaeftirlitinu (Jóhann G. Jóhannson) eða lögreglustjóraembættinu í Reykjavík (Bjarki Elíasson, Sævar Þ. Jóhannesson). Það nægir honum alveg til að bregða dágóðu ljósi á „öryggisþjónustuna“. Af þessu mætti ráða að greinarhöfundur hafi í stórum dráttum vitað þetta áður þótt hann teldi ekki ástæðu til að fara með það á prent fyrr en nú.  
Þór Whitehead útskýrir tilkomu „öryggisþjónustu“ í samhengi íslenskrar stjórnmálasögu. Hann rennir sér yfir hita- og átakapunkta hennar ca. 1920–70. Aðferð hans er vel kunn. Hann forðast eins og heitan eldinn að kalla stéttaátök séttaátök. Hann setur sig ekki úr færi að stilla kommúnistum og fasistum upp saman sem „alræðissinnum“ og bræðrum. Þegar hann beinir kastljósi sögunnar að íslenskum vinstri sósíalistum hefur hann alltaf samtímis annan ljósgeisla á Stalín bónda í Kreml. Þegar róttækir sósíslistar sögðust vera að berjast um laun, verkfallsrétt, þjóðaratkvæðagreislu og annað slíkt voru þeir fyrst og fremst að reka erindi Stalíns og vera „fimmta herdeild“ í áformum hans gagnvart Vesturlöndum – og Íslandi sérstaklega.

Tuesday, July 8, 2014

Stutt færsla um nýja Íraksstríðið

(færslur á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga. Nokkur innlegg mín í umræðuna eftir að ISIS-islamistar hertóku stór svæði í Írak 10. og 11. júní)
Færsla Þ. Hj. 16. Júní: Fall Mósúl og Tíkrit fyrir litlum sveitum ISIS er óeðlilegt og gruggugt. Hersveitir ISIS eru aldar undir handarjaðri vestrænnar leyniþjónustu og er einkum stefnt gegn Sýrlandi, Hizbolla og Íran. Vissulega eru lönd þau sem sem vestrænir heimsvaldasinnar ráðast á (beint eða með staðgenglum) - Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, bráðum Úkraína - skilin eftir í rúst og upplausn. Sannleikurinn er þó enn ljótari - það stóð alltaf til. Ef vestrænt-hlýðin stjórn kemst ekki á þarna öðru vísi vilja heimsvaldasinnar heldur losa sig alveg við sjálfstæð ríki. Þeim hentar betur niðurbotin samfélög - svæði alveg opin fyrir hnattvæðingu auðhringanna - en fullvalda ríki (sjá hér).Þriðja Íraksstríðið er því ekki hlægilegt "klúður" heldur nýtt útspil þessum djöflapóker. Eins og stjörnublaðamaðurinn Seymour Hersh benti á 2007 (í "The Redirection") hafði Pentagon þá nýbreytt um aðferð í Miðausturlöndum. Herskáir súnnímúslimar (Al Kaída og tengdir) sem áður voru notaðir sem yfirvarp til íhlutana og átyllur til "stríðs gegn hryðjuverkum" voru í auknum mæli vopnaðir beint til að grafa undan óæskilegum stjórnvöldum. Þeim var stefnt gegn helstu andstæðingunum Vestursins, Íran/Sýrlandi/Hizbolla... með stefnu á „valdaskipti"...   

Nýjar Toyotur í ISIS-bílalest í Írak.  

Stefán Pálsson skrifaði 17. júní: „Ókey, nú er ég orðinn ringlaður: Bandaríkin og Íran eru í deilu á barmi styrjaldar. Þau eru þó saman í liði með Íraksstjórn á móti uppreisnarhernum í Írak - sem er reyndar sami uppreisnarherinn og Bandaríkin styðja í Sýrlandi gegn stjórnvöldum sem Íranir styðja. Þetta óvinalið er hins vegar fjármagnað af Sádi Aröbum sem Íranir hata en Bandaríkjamenn telja sinn besta bandamann...“

Svar Þ.Hj. 18. Júní. Já þetta hljómar kaótískt, af því veruleiki og yfirskin heimsvaldasinna er mjög sitt hvað - en veruleikinn hangir þó saman: a) fréttir um samvinnu USA-Íran eru uppspuni b) sjía-sinnuð stjórnvöld Íraks hafa styrkt sig (sigruðu í kosningum í apríl sl.) og eiga nú orðið vingott við Íran c) USA (gegnum Sáda o.fl.) stendur á bak við ISIS. Eins og ég skrifaði í fyrradag (vitnandi í Hersh) breyttu Bandaríkin um aðferð (Rederiction) um 2007. Af taktískum ástæðum höfðu þau stutt sjía gegn Saddam. Síðan hafa þau snúist af krafti gegn Íran og breytt um taktík. Rökrétt afleiðing er að þau yfirgefa Al Maliki. Loforð þeirra núna um stuðning við hann eru júdasarkoss á meðan þau stunda óformlegan en massífan stuðning við ISIS og skylda hópa.

Færsla Þ.Hj. 4. júlí. Án afláts leita heimsvaldasinnar átyllu til íhlutana. Árið 2001 hófu þeir á loft víorðið um alþjóðlegt „stríð gegn hryðjuverkum“ sem varð átylla þeirra til innrása í Afganistan og Írak og hernaðarbrölts og ihlutana vítt og breitt um hnöttinn. Síðan kemur æ betur á daginn að alræmdustu flokkar hryðjuverkamanna –  oftar en ekki tengdir Al Kaída – eru fótgönguliðar heimsvaldasinna í staðgenglastríðum þeirra þar og hér, með Líbíu og Sýrland sem skýr dæmi. Þegar hryðjuverkamenn eru meginátyllur íhlutana er afar hentugt fyrir heimsvaldasinna að hafa þá á sínum snærum. Hér er grein  sem bendir á það hvernig núverandi þróun í Írak, með stofnun sérstaks kalífats súnnía í miðhluta landsins og uppskipting þess, er nokkurn veginn í samræmi við það sem bandarískir strategistar, National Intelligence Council (NIC), sögðu fyrir í áætlunum sínum árið 2004. Sjálfuppfylltur spádómur, má segja.

Wednesday, July 2, 2014

Hreinsanirnar miklu í Sovétríkjunum

Nú mun ég bregða út af þeirri reglu að birta hér eingöngu efni sem áður hefur birst (prentað eða stafrænt) og birti hér alllanga fræðigrein um svonefndar „hreinsanir Stalíns“. Þetta er úttekt á vestrænum rannsóknum og skrifum um efnið í tímans rás. Ég ritaði greinina í tveimur lotum, 2002 og  2005. Ég hugsaði hana þá fyrir tímaritið Sögu og hún þvældist hjá ritstjórum ritsins drjúgan tíma en þeir kusu svo að birta hana ekki. Áður hafði ég rannsakað sovéska sögu talsvert og skrifað kandídatsritgerð mína við Óslóarháskóla árið 1991 á því sviði. Ritgerðin var verðlaunuð með „Arkivprisen“ og í framhaldi af því kom grein mín „Hvordan oppsto stalinsimen“ í Årbok for Arbeiderbevegelsens arkiv og bibliotek 1993. Það er ennþá viðkvæmt mál að fjalla um sovéska sögu Stalíntímans án skýrrar fordæmingar helstu gerendanna. Engu að síður er efnið afar mikilvægt í pólitískri jafnt sem sagnfræðilegri umfjöllun. Í allri umræðu um þetta mikla söguferli eru hinir örlagaríku „hreinsanir“ 1937-38 það sem oftast er vísað til og þær gjarnan látnar gera út um þá sögulegu tilraun sem Sovétríkin voru. Þess vegna er upplýst umræða um einmitt þá atburði svo mikilvæg.


Ný viðhorf í ensk-amerískum rannsóknum[1]

Hér verður gerð nokkur úttekt vestrænum rannsóknum sem gerðar hafa verið á hreinsununum Stalíns á síðustu tveimur áratugum – eftir að „perestrojka“ Gorbatsjovs hófst. Rannsónir frá enska málsvæðinu eru hér í fyrirrúmi. Að því leyti er greinin að nokkru „historíógrafísk“ en ég reyni þó alls ekki að vera hlutlaus og gefa heildarmynd af umræðunni um efnið heldur vel mér höfunda og reyni með hjálp þeirra að gefa heildstæða mynd af því sögulega ferli sem um ræðir. Sú mynd er því á mína ábyrgð.

“Hreinsanir Stalíns” voru atburðir sem höfðu meiri áhrif á alla síðari umræðu um sovéska sögu en önnur tíðindi frá Sovétríkjunum. Sú bylgja pólitísks ofbeldis sem reið yfir sovéskt samfélag á fjórða tug aldarinnar varð mjög til að sverta ímynd Sovétríkjanna en jafnframt hefur hún alla tíð verið sagnfræðingum sem öðrum bæði deiluefni og ráðgáta. Spurningarnar hafa verið þessar venjulegu: Hvað gerðist í raun og veru? Af hverju gerðist það? Svörin voru afar mismunandi. Um fjölda drepinna birtust áætlaðar tölur sem allar voru háar en mikið bar á milli höfunda, allt frá um hálfri milljón manna til tugmilljóna og áætlanir um mannfjöldann í GULAG-fangabúðunum voru álíka breytilegar. Skýringar sem gefnar voru á þessu ofbeldi voru ennþá margvíslegri og áttu oft lítið sameiginlegt sín á milli.

Thursday, June 26, 2014

Borgaralegt frjálslyndi og alþýðlegt íhald

(Birtist í Fréttablaðinu 25 júní 2014)
Eftir bæjarstjórnakosningarnar hafa frjálslyndir fjölmenningarsinnar gert harða hríð að Framsóknarflokknum út af moskumálinu. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir gaf útlendingaandúð undir fótinn og græddi atkvæði á því. Að gera moskumálið eftir á að spurningu um skipulagsmál var hentistefna hjá Sigmundi Davíð þegar réttindi trúarhópa eru auðvitað prinsippmál.

ESB-sinnar fjandskapast við Framsóknarflokkinn og þykir gott að geta bendlað hann við þjóðrembu, helst rasisma. Fjölmenning er jú ein helsta yfirskrift Evrópusamrunans.
Það er þó vonum seinna að upp komi umræða um innflytjendamál og fjölmenningu á Íslandi. Hlutfall erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði er nú nálægt 10 prósentum og ferðamenn á síðasta ári voru um 800 þúsund. Hraðfara breyting og margt sem ræða þarf. 

Kosningaumræðan í Reykjavík var á sinn hátt endurómur af umræðu úti í Evrópu eftir kosningar til Evrópuþingsins nokkrum dögum áður. Þar unnu hægrisinnaðir ESB-andstæðingar stórsigur í Frakklandi, Bretlandi, Danmörku og miklu víðar, en Syrisa, vinstriróttækur andstæðingur ESB, varð langstærsti flokkurinn í Grikklandi. ESB skelfur.
Viðbrögðin urðu mjög þau sömu og á Íslandi. Frjálslyndir borgaraflokkar og sósíaldemókratar og jafnvel vinstrikratar semja sátt sín á milli þegar berjast skal við þennan popúlíska straum. Frjálslyndið er í húfi og fjölmenningin – og Evrópuhugsjónin.

Frjálslyndur heimsvaldaáróður

(Birtist á Fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga 23. júní 2014)
Áróður fyrir stórveldaíhlutunum er nú FRJÁLSLYNDUR, fyrir mannúð og mannréttindum. Ólíkt kynþátta- og herraþjóðarhyggju 19. aldar eða andkommúnisma kalda stríðsins. Árið 2005 komu heimsvaldasinnar í gegn í Allsherjarráði SÞ nýju prinsippi, um „verndarskyldu“ sk. „alþjóðasamfélags“, Responsibility to Protect, skammstafað R2P. Áður höfðu CIA og Pentagon séð að beinn stuðningur frá CIA beinlínis skaðaði skjólstæðinga þeirra. Í staðinn voru National Endowment for Democracy stofnuð, fjársterk mjög sem mynduðu um sig net formlega frjálsra mannréttindasamtaka (NGO´s) eins og Freedom House, Human Rights Watch og miklu fleiri, auk samtaka í viðkomandi landi. Aðferð við íhlutanir undanfarin ár er nú þessi: „Mannréttindasamtökin“ stunda ófrægingarherferð gegn stjórnvöldum sem grafa skal undan, innan lands og alþjóðlega. Í aðdraganda Líbíustríðs var bænaskrá um hernaðaríhlutun undirrituð af 70 slíkum samtökum send Ban-ki Moon. „Mannréttindasamatökin“ blanda sér í mótmælaaðgerðir almennings undir frjálslyndum og jafnvel RÓTTÆKUM slagorðum. En jafnhliða smeygja sér þar inn hryðjuverkaútsendarar til að framkalla hörð viðbrögð stjórvalda svo að leiði til hernaðarátaka. Vestræn pressa talaði um „arabískt vor“ í Sýrlandi en frá upphafi ólgunnar þar 2011 heyrðist af þúsundum fallinna Sýrlenskra stjórnarhermanna. Það sama í Líbíu, ný rannsókn sýnir að ofbeldið hófst innan raða andstöðuaflanna.  Alveg eins í Úkraínu. Fasískir flugumenn Vesturvelda mögnuðu ofbeldið á Frelsistorgi, skutu fólk m.a. af húsþökum og komu sökinni á stjórnvöld með hjálp heimspressunnar. Eftir að vopnuð átök hefjast fer eftir atvikum hvort beitt er beinni vestrænni íhlutun eða staðgengilsstríði. EN AÐFERÐIN HRÍFUR. Ólíkt t.d. Íraksinnrás 2003 styðja Vesturlönd nú herferðirnar einarðlega og einum rómi. Og FRIÐARHREYFINGIN ER LÖMUÐ. Okkar SHA hafa t.d. nánast ekki mótmælt herferðunum nýju, ólíkt Íraksstríðinu 2003.

Thursday, May 22, 2014

Þýska Septemberprógrammið frá 1914 orðið að veruleika

Stórauðvaldið hefur almennt ekki mjög ákveðnar pólitískar skoðanir. Það styður einfaldlega þann pólitíska valkost sem tryggir best gróðann og þenslumöguleikana á hverjum tíma. Þess vegna tekur vald auðsins á sig ólíkar birtingarmyndir.
Tökum þýskt stórauðvald sem dæmi. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og lítils olnbogarýmis. Í tímans rás hefur þýskt stórauðvald brugðist við þessari stöðu á talsvert mismunandi vegu. Samt er í því veruleg samfella.
Bethmann Hollweg kanslari
Árið 1914. Í septembermánuði það ár þegar rúmur mánuður var liðinn af fyrra stríði - mánuður sem gekk Þjóðverjum mjög í vil - lagði Bethmann Hollweg Þýskalandskanslari framstyrjaldarmarkmiðin fyrir ríkisstjórn sína og næsta valdahring íSeptemberprógramminu. Þar stóð:
„Mynda þarf Miðevrópskt efnahagssamband og tollabandalag sem nái yfir Frakkland, Belgíu, Holland, Danmörku, Austurríki-Ungverjaland, Pólland og mögulega Ítalíu, Svíþjóð og Noreg. Sambandið mun líklegast verða án sameiginlegs stjórskipunarlegs stjórnvalds og hafa yfirbragð jafnréttis meðal þátttakenda, þó það verði í reynd undir þýskri forustu, og verði að tryggja ráðandi stöðu Þýskalands í Mið-Evrópu." 
Skömmu síðar snérist stríðsgæfan á móti Þjóðverjum og stríðsmarkmiðin ýttust inn í framtíðina.
Árið 1933. Framan af höfðaði þýski Nasistaflokkurinn einkum til millistéttar en í djúpi kreppunnar 1932/33 vann hann tiltrú stórauðvaldsins. Það gerði flokkurinn einfaldlega með því setja hagsmuni þess í forgang: lofa harðri baráttu fyrir auknu landrými („lífsrými", nokkuð sem var í stefnuskrá flokksins frá upphafi), með því að leggja fram áform um hervæðingu efnahagslífsins sem leið út úr kreppunni, ennfremur bjóða sig fram sem brjóstvörn gegn kommúnisma/sósíalisma og róttækri verkalýðshreyfingu.
Auðhringar Þýskalands mynduðu kjarnann í efnahagskerfi nasista og stuðningur þeirra var meginforsenda fyrir völdum flokksins. Það er siður að dylja þetta með því að lýsa Þýskalandi sem einræði illmennis. Stjórnarfar Nasistaflokksins var um margt sérstætt. Hugmynd nasista um „lífsrými" var öðru vísi en Septemberprógrammið og gerði ráð fyrir opinskárri undirokun annarra (óæðri) þjóða. Samt var þetta stjórnarfar fyrst og fremstein birtingarmynd á stéttarveldi þýsks auðvalds. Aðferðin skilaði gróða og landvinningum allt til Stalíngrað en snérist síðan í hamfarir. En hamfarirnar eru kapítalismanum hollar og lögðu grunn að nýju þýsku blómaskeiði.
Árið 2014. Þýskt auðvald - ásamt einkum því franska - hefur alla tíð verið forystuaflið í Evrópusamrunanum. Eftir því sem hnattvæðing viðskiptanna náði sér á flug, m.a. með falli Austurblokkarinnar hefur ESB orðið múrbrjótur hnattvæðingar í formi frjáls fjármagnsflæðis og flæðis vöru og vinnuafls á sameiginlegum evrópskum markaði. Djúp kreppa Rússlands á 10. áratugnum auðveldaði sókn ESB inn í Austur-Evrópu. Sambandið beitti eigin viðskiptamúrum gagnvart löndunum: Ef Austur-Evrópulönd vilja aukin viðskipti við ESB-markaðinn verða þau að ganga í ESB! Eftir það áttu svo auðhringar ESB ­- og sérstaklega Þýskalands - óhindraðan aðgang inn í þessi lönd.
ESB-svæðið er nú tvískipt, skiptist í kjarnsvæði norðan og vestanvert og jaðarsvæði í suðri og austri. Kjarninn - og Þýskaland sérstaklega - blæs út sem útflutningshagkerfi og lánveitandi en jaðarsvæðin verða undir í samkeppninni og verða hjálendur í skuldafjötrum. Fjármálaöflin í ESB setja hinum skuldugu löndum skilmálana, afsetja jafnvel ríkisstjórnir og setja sitt fólk í staðinn. „Samstarfssamningur" sá sem ESB bauð Úkraínu í fyrra ber öll merki sömu útþenslustefnu, ekki síst sker hann mjög á hin nánu tengsl landsins við Rússland. Sjá grein mína um samstarfssamninginn:http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1382814/. Dæmið Úkraína sýnir líka að evrópskt stórauðvald styður fasista til valda ef nauðsyn krefur til að tryggja gróða sinn og þenslumöguleika.
Það eru ekki grófar ýkjur að kalla Austur- og Suður-Evrópu efnahagslegan bakgarð Þýskalands. Það eru alls ekki grófar ýkjur að segja að þýska Septemberprógrammið frá 1914 sé orðið að veruleika.

Samstarfssamningur ESB og Úkraínu; liður í vestrænni útþenslustefnu

Meginorsök hins grafalvarlega ástands í Úkraínu er pólitík Vesturblokkarinnar, skammsýn gróðadrifin heimsvaldapólitík. Blokkin sú nýtti sér til hins ýtrasta djúpa kreppu og veiklun Rússlands eftir fall Sovétríkjanna.
Þetta var einkum gert með samhliða sókn ESB og NATO inn í gömlu Austurblokkina og áhrifasvæði Sovétríkjanna. Þannig voru brotnir niður gamlir viðskiptamúrar og verndaður iðnaður, opnað fyrir frjálst flæði vestrænna auðhringa o.s.frv. jafnhliða því að Rússland var umkringt hernaðarlega.
Þegar svo Rússland rís úr öskunni og leitar eftir hefðbundinni stöðu sinni sem stórveldi svarar Vesturblokkin af fullri hörku. Annars vegar býður ESB Úkraínu „samstarfssamning“. Hann gerir Úkraínu að hluta af evrópska markaðnum og raskar mjög tengslum Úkraínu við Rússland sem verið hafa mjög samþættuð frá Sovéttímanum. M.a. útilokar samningurinn þátttöku Úkraínu í svonefndu Eurasian Economic Community sem er efnahagsbandalag undir forustu Rússa.
„Samastarfssamningnum“ fylgdi einnig boð um AGS-lán til Úkraínu. Kreppan í Úkraínu er djúp og hinir voldugu í vestrinu vinna saman, í þessu tilfelli AGS og ESB. AGS-lánið er bundið miklum skilmálum um lífskjaraskerðingu og niðurskurð og mun í framkvæmd setja Úkraínu í líka stöðu og Grikkland. Það var ekki síst þetta AGS-lán sem stjórnvöld í Úkraínu voru að hafna þegar þeir höfnuðu samstarfssamningnum við ESB sl. haust. Íslandsvinurinn Michael Hudson skrifar að markmið AGS-lánsins hafi verið og sé að þvinga stjórnvöld til að stórfelldrar einkavæðingar ríkiseigna. Útþenslan heldur áfram. Samstarfssamningur við Georgíu, Moldóvu og Hvíta-Rússland er á aðgerðaráætlun ESB fyrir yfirstandandi ár.
Hin hliðin á sókn Vesturblokkarinnar gagnvart Úkraínu er hernaðarleg. Hernaðarþátturinn var sterkur og afar mikilvægur þáttur í umræddum samstarfssamningi við ESB. Þar segir: „Samstarfssamningurinn mun stuðla að samlögun aðila á sviði utanríkis- og öryggismála og stefnir að dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. NATO er ekki nefnt berum orðum en „Evrópska öryggiskerfið“ þýðir á mannamáli NATO og reyndar gaf NATO Úkraínu þegar árið 2008 þungvæga stöðu með „strategic partneship“.
Enn frekar en á efnahagssviðinu nýtti Vesturblokkin sér veiklun Rússlands í öryggismálum. Eftir fall múrsins sóttu Bandaríkin og NATO hratt inn á fyrrverandi svæði Sovétríkja, komu sér upp herstöðvum í nýju Kákasus-ríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri hefur „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO), og nú segir NATO-Rasmussen gallharður að vegna spennunnar í Úkraínu muni NATO „efla starfsemi sína í Eystrasaltsríkjum og Austur-Evrópu“. NATO hefur auk þess byggt upp langdrægt skotflaugakerfi (gagneldflaugakerfi) á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Úkraína er aðeins eitt dæmi um hina herskáu grundvallarafstöðu Vesturblokkarinnar, en sérlega hættulegt dæmi..
Victoria Nuland, bandaríski varautanríkisráðherrann sagði í umtalaðri ræðu að Bandaríkin hefðu varið 5 milljörðum dollara í að byggja upp stjórnarandstöðuna í Úkraínu. Hún átti þá væntanlega helst við aðstoð gegnum ríkisstofnunina USAID, en auk þess hafa fjölmörg bandarísk „frjáls félagasamtök“ starfað í Úkraínu (eins og vítt um heim) að „mannréttindamálum“ um langt árabil.
Hér skal látið nægja að fullyrða að valdarán úkraínskra þjóðernissinna í febrúar sl. fór fram með afar ríkulegum vestrænum stuðningi án þess ég útlisti það frekar. Í heimsókn hjá þýska starfsbróður sínum sakaði þá Lavrov, rússneski utanríkisráðherrann, ESB um að byggja upp áhrifasvæði í austur: „Ég tek alveg undir með Steinmeier. Það ættu ekki að vera nein áhrifasvæði. En að draga Úkraínu yfir á aðra hliðina, segjandi að hún  verði að velja „annað hvort eða“, annað hvort með ESB eða með Rússlandi er í reynd að skapa slíkt áhrifasvæði." Þessi pólitík er sérstaklega skaðleg í ljósi þess að Úkraína er ósamstætt land a.m.k. tveggja stórra þjóða.(sjá nánar) 
Úkraínudeilan er fyrst og síðast afleiðing blindrar útþenslustefnu Vesturblokkar. Þá er þess að geta að hagsmunir innan Vesturblokkarinnar í málefnum Úkraínu og Rússlands eru á margan hátt mjög ólíkir. Fyrir þýskt auðmagn er Úkraína frjótt landbúnaðarland með auðlindir og mikla fjárfestingamöguleika, en fyrir Bandaríkin er mikilvægi hennar fyrst og fremst hernaðarlegt. Ekki síður gagnvart viðskiptaþvingunum og efnahagslegum refsiaðgerðum á Rússa eru hagsmunirnir ólíkir.
ESB er mikilvægasti viðskiptaaðili Rússa og Rússar eru einn af þremur mikilvægustu viðskiptaaðilum ESB. Árleg viðskipti þeirra á milli nema 370 milljörðum dollara. Í samanburði eru viðskipti Bandaríkjanna við Rússa léttvæg, aðeins 26 milljarðar. Viðskiptaþvinganir þýða því fremur samkeppnisávinning fyrir Bandaríkin, nefnilega stóraukinn útflutning til Evrópu. Með viðskiptabanni er að nokkru leyti verið að fórna hagsmunum ESB. Að ekki sé minnst á bein hernaðarátök við Rússa sem væru afar váleg tíðindi fyrir Evrópu. Þá væri nú Evrópa að fórna sjálfri sér fyrir „vini“ sína. Ég er ekkert bjartsýnn, en það væri þó helsta vonin að tilfinnanlegur skaði ESB af refsiaðgerðunum gæti orðið til að slá á herskáa afstöðu ESB-veldanna.(sjá nánar)

Þórarinn Hjartarson

Blokkin og járntjaldið

Birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2014
Járntjaldið er komið upp aftur – á nýjum stað. Það var tekið niður skamma stund meðan Rússland lá í djúpri kreppu með Jeltzín við völd, enda var hann handgenginn vestrænu auðmagni. NATO-blokkin náði þá stöðu sem nálgaðist heimsyfirráð og neytti nú yfirburða sinna. Blokk sú er fulltrúi auðhringja Bandaríkjanna og ESB fremur en fulltrúi þjóðanna. Ég kalla hana bara Blokkina. Hún notaði lægð Rússlands til að þenja NATO í austur. Hvert af öðru fengu fyrrverandi Varsjárbandalagsríki „samstarfsaðild“ að NATO til aðlögunar, svo fulla aðild. Síðar gerðist það sem hlaut að gerast – Rússland reis upp og leitaði hefðbundinnar stöðu sem stórveldi. Þá var járntjaldið sett upp aftur: Blokkin var nú langt komin með að girða Rússland vestrænum herstöðvum: í nýju Kákasusríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri með „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO). Blokkin hefur þróað langdrægt skotflaugakerfi á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Rússar hafa fengið járntjaldið aftur, utan við stofugluggann.

Froða um lýðræði
Varnarsamstarf var snar þáttur í margfrægum samstarfssamningi Úkraínu við ESB. Hann átti að stuðla að „aðlögun“ og „dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. Sem þýðir á mannamáli? Aðild að NATO. Að stærsti granni Rússa í vestri gengi formlega yfir til andstæðinganna. Þá loks barði Pútín í borðið og fór að gera neyðarráðstafanir. Þá kom næsta skref: Í pressu sinni málar Blokkin upp skrímslið Pútín. Eins og hún málar alla andstæðinga sína; Milosévits, Saddam, Gaddafí, Assad… áður en hún greiðir höggið. Svo kemur viðskiptabann, diplómatísk einangrun, efldar NATO-„varnir“. „Varnir“ segja menn og gefa sér að Blokkin vinni að friði. En framanskráð heruppbygging lýsir engri friðsemd. Blokkin er jú árásaraðilinn í öllum helstu styrjöldum frá falli Múrsins. 

Með froðuna um lýðræði og mannréttindi vellandi úr báðum munnvikum beitir Blokkin fasistum og pólitískum terroristum til skítverka sinna í Kænugarði. Svipað og í Líbíu og Sýrlandi. Hið nýja er hins vegar það að gengið er yfir „rauða strikið“, þolmörk Rússlands. Man einhver viðbrögð Kennedys þegar Sovétmenn ætluðu með skotpalla yfir „rauða strikið“ í Kúbudeilunni? Ef Blokkin heldur áfram sturluðum heimsyfirráðamarsi sínum í sömu átt endar hún í stórstríði við Rússa sem yrðu váleg tíðindi fyrir Evrópu. Að vanda fylgir Ísland Blokkinni sjálfkrafa og vélrænt – nema skynugt fólk fari að tjá sig.

Tuesday, April 22, 2014

Klúbbarnir tveir og vinstrimenn

Ég er ósáttur við fésbókarvini mína.  Fólkið sem stóð með mér í Búsáhaldabyltingu fyrir bráðum 6 árum stendur nú aftur reglulega á Austurvelli og heimtar áframhald á umsóknarferlinu að ESB. Yfirlýstir vinstrimenn vilja afhenda skrifræðinu í Brussel íslensk gögn og gæði. Jafnframt er uppistaðan í pólitískri umræðu margra þeirra orðin að persónulegum skætingi, skítkasti og níði um íslenska ráðherra eða forsetann á fésbókarsíðunni minni og í öðrum netmiðlum - vegna ESB-afstöðu þeirra.

Þetta fólk, sem ég held að skiptist tilvijanakennt milli Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata, og Evrópuarms VG (helstu afskipti VG af ESB-málinu undanfarið eru reyndar þau að heimta framhald umsóknar!) lítur á evrópska sameiningar- og samrunaþróun sem ópólitíska „efnahagsþróun“, „opnun“ „fjölþjóðlega samvinua“ o.s.frv. Einkum lítur það á allt viðnám gegn þessari „eðlilegu“ þróun sem nesjamennsku og þjóðrembu, og lægra verður víst ekki komist.

Ég held því fram að þessu valdi einfaldlega pólitískur vanþroski. Fésbókarvinir mínir eru upp til hópa vel meinandi vinstri menn og um margt skynsamt fólk. En þetta er „vinstrimennska“ sem hefur þann galla að vita ekkert hvað kapítalismi eða heimsvaldastefna er. Þekking á slíku er gleymd. Fók sem ekki er meðvitað um það heimsvaldaumhverfi sem það lifir í er á valdi þess umhverfis. Þegar meðvitaða greiningu skortir lifir maðurinn í ímynduðum heimi. Upphleðsla auðmagns og samþjöppun auðs og valds í heimsvaldablokk birtist honum þá einfaldlega sem  „eðlileg efnahagsþróun“ og heimsvaldaprósékt (evrópskrar) borgarastéttar birtist sem „alþjóðleg samvinna“.

Ísland – verandi aðili að EES og NATO – er á yfirráðasvæði ESB og Vesturblokkarinnar. Við Íslendingar lifum mjög á forsendum þeirra hugmynda sem þar ríkja og hlýðum þeim lögmálum sem þar gilda. Aðlögun og innlimun gengur þar SJÁLFKRAFA, nema henni sé meðvitað veitt viðnám. Inngangan sjálfvirk, en útgangan....

Þorsteinn Pálsson skrifar: „Evrópusambandið snýst... í stuttu máli um frjáls viðskipti og vestræna samvinnu.“ Þetta er rétt. ESB er evrópski hluti Vesturblokkarinnar. Sá hluti hennar sem hefur þanist út. Útþensla hennar eftir lok kalda stríðsins hefur falist í að  innlima ný svæði í vestræna efnahagskerfið, opna það fyrir frjálsu flæði fjármagns, opna það fyrir „hnattvæðingu“ vestrænna auðhringa.

Sem er þó bara önnur hlið málsins. Hin hliðin er útþensla NATO: að innlima ný svæði inn í hernaðarkerfi NATO.  NATO er hernaðararmuninn á Vesturblokkinni. Þegar Sovét – tilverugrunnur NATO – var horfin fór „varnarbandalagið“ að þenjast út. Í grófum dráttum hefur það innlimað afganginn af Evrópu. NATO-blokkin er stríðsblokk nútímans sem kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og stefnir á heimsyfirráð. Í þeirri blokk eru Bandaríkin foringinn og ESB aðstoðarmaðurinn.

Evrópuvinstrið ímyndar sér gjarnan að stækkun ESB og stækkun NATO séu tvö aðskilin ferli, hvort öðru óháð. Það er misskilningur. Öll ríki ESB eru NATO-ríki ellegar hafa aukaaðild/samstarfsaðild að bandalaginu. Kýpur hefur verið eina undantekningin en nýr forseti landsins hefur nú sótt um samstarfsaðild að NATO. Engu ESB-ríki líðst til lengdar að standa utan NATO né hafa aðra sjálfstæða utanríkisstefnu. Eftir fall Múrsins hafa stækkunarferlin tvö gengið samhliða yfir Evrópu. Stærsti skammtur Austur-Evrópuríkja, sjö talsins, gekk nær samtímis inn í samböndin tvö árið 2004 (Rúmenía og Búlgaría urðu þó að bíða þrjú ár í viðbót utan ESB).

Því fylgja skyldur að vera í liði Vesturblokkarinnar. Þegar lönd eru komin í NATO eru þau SJÁLFKRAFA þátttakendur í hernaði bandalagsins. Öll ESB-ríki nema Malta og Kýpur hafa átt aðild að hernaðinum í Afganistan og Líbíu. Og nú eru þau SJÁLFKRAFA komin í viðskipta- og diplómatískt stríð við Rússland.

Hið nána bandalag ESB og Bandaríkjanna gegnum NATO hefur stundum verið Evrópuvinstrinu sálrænt erfitt. Tilkoma hins frjálslynda Obama auðveldaði sumum vinstrimönnum að styðja stríðsrekstur Bandaríkjanna. Og nú verður norski „vinstrimaðurinn“ Jens Stoltenberg nýr framkvæmdastjóra NATO. Verður þá kannski NATO líka boðlegur klúbbur fyrir vinstri menn, og stríð hans ásættanlegri?