(birtist á Vefritinu Kistunni og á eggin.is í febrúar og mars 2008)
Nú hef ég hraðlesið tvær bækur, hnausþykkar, eftir Antony Beevor: Stalíngrað sem út kom hjá Bókaútgáfunni Hólum nú fyrir jólin (útgefin í Bretlandi 1998) og svo bókina TheBattle for Spain. The Spanish Civil War 1936–1939 sem kom út 2006. Tvær aðrar bækur höfðu áður komið út á íslensku: Fall Berlínar 1945 (2006) ogNjósnari í Þýskalandi nasista?: ráðgátan um Olgu Tsékovu (2007).
Beevor er metsöluhöfundur sem hefur fundið einhverja þá töfraformúlu sem tryggir honum lesendur í milljónavís. Hann er orðinn að stórveldi á Íslandi líka. Í tengslum við útkomu bókarinnar Fall Berlínar haustið 2006 hélt hann fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands og troðfyllti hátíðarsal Háskóla Íslands og af því tilefni var hann hlaðinn miklu lofi af forsvarsmönnum Sagnfræðingafélagsins í útvarpinu og víðar.
Antony Beevor er menntaður í Winchester og nam síðan hernaðarsögu við Konunglegu herakademíuna í Sandhurst. Þá er hann fyrrverandi liðsforingi í breska hernum. Talsverð hefð er fyrir slíkum menntunar- og starfsframa í breska heimsveldinu.
Beevor er auðlesinn og spennandi. Hann hefur valið sér nokkra dramatíska hápunkta í pólitískri og hernaðarlegri átakasögu 20. aldar til að sviðssetja, og hann lýsir hinni sögulegu leiksýningu í sterkum myndum og litum. Hann kann að segja þannig frá að fólk hlustar. Töfraformúlan virðist vera einhvers konar einsöguleg aðferð. Hann segir söguna „að ofan og neðan“ og styðst mikið við dagbækur, munnlega frásögn og æviminningar þátttakenda. Langstærsti einstaki heimildabrunnurinn í bókinni Stalíngrað, brunnur sem hann nýtir sér vel, eru dagbækur og endurminningar þýskra herforingja. Sovétmegin sækir hann frásagnir einkum í sovéska blaðamanninn Vasily Grossman.
Bókin Stalíngrað er boðunarsagnfræði og aðalatriðið í boðskap höfundar megn andkommúnismi. Lýsing Beevors á stríðinu í Sovétríkjunum frá júní 1941 og gegnum bardagana við Stalíngrað er ekki lýsing á árásarstríði annars vegar og hins vegar réttlátu varnarstríði heldur er áherslan á gagnkvæma grimmd og villimennsku, svo og samanburður á herstjórnarkænsku stríðsaðilanna.
Efnahagsleg heimsvaldastefna sleppur frá þessari bók með óspillt mannorð. Beevor ýjar aldrei að því að hernaðar- og yfirgangsstefna Þýskalands tengist efnahagslegum hagsmunum þýskrar borgarastéttar. Það er skiljanlegt í ljósi þess að hér stýrir penna vitsmunalegt afsprengi annarar heimsvaldastefnu, þeirrar bresku.
Nokkrar helstu kenningar eða túlkanir sem bókin Stalíngrað byggist á eru þessar:
- Stríðið á austurvígstöðvunum var viðureign tveggja alræðiskerfa, byggðum á mannvonsku. Þetta var viðureign tveggja valdaþyrstra alræðisherra með dauðhlýðna valdamaskínu undir sér. Beevor gerir að sínum orð þýsks herforingja sem sagði um orustuna um Stalíngrað: „Hún var orðin barátta milli Hitlers og Stalíns um að halda virðingu sinni.“ (bls. 151). Bókin tjáir í sífellu gamla, borgaralega heimsmynd þar sem mannkynssagan ákvarðast af stórmennum og persónueinkennum þerra. Slíkar túlkanir eru forheimskandi, ef ég má segja mitt álit.
- Allt mögulegt í stríðsrekstri og framferði þýska hersins og bandamanna hans skýrist með brjálsemi og áráttuhugmyndum Hitlers. Nasisminn tengist ekki þýskum efnahagshagsmunum eins og áður segir heldur er hann fyrst og fremst órökræn pólitísk brjálsemi.
- Og hinum megin: Flesta eða alla ósigra Sovétmanna á fyrstu tveimur sumrum stríðsins á austurvígstöðvunum má rekja til mistaka Stalíns sem hafði afar lítið jarðsamband: „Leiðtogar Sovétríkjanna sátu í Kreml og neituðu að horfast í augu við alvarleika ógnarinnar sem við blasti.“ (29) Stalín og háttsettir kommissarar „..neituðu að viðurkenna að hrakningarnar væru pólitískum afskiptum þeirra og blindri þráhyggju að kenna.“ (21) Mistökin öll „stöfuðu aðallega af áráttufullum ranghugmyndum Stalíns sem hundsaði algjörlega allar nákvæmar upplýsingar sem aflað var.“ (187) Í sífellu kemur svipuð einkunnagjöf til handa Stalín sem á að úskýra raunir Sovétmanna:…Stalín, kúgarinn sem öðrum þræði var huglaus… Leiðtoginn, hinn miskunnarlausi svikahrappur…“(8). Eða þetta: „Hann gerði sér enga rellu yfir því að þjóðin svalt og í því efni var harðlyndi hans engu minna en Hitlers.“ (31) Niðurstaðan var alla vega sú að „..aldrei hafa fleiri fallið að óþörfu...“ (24) Þetta er sagnfræði hins gamla vestræna „tótalitarismaskóla“ sem útskýrt hefur allan fjandann í gangi mála í Sovétríkjunum með persónueinkennum Stalíns.
- Nasisminn er sem sagt ekki skoðaður sem búningur þýskrar heimsvaldastefnu heldur sem eitthvert afbrigðilegt fyrirbæri í sögunni. Sannast sagna samsamar liðsforinginn Beevor sig mjög með þýskum atvinnuherforingjum og gerir sem allra mest úr muninum á viðhorfum þeirra annars vegar og hins vegar viðhorfum fulltrúa nasistaflokksins og hins brjálaða Hitlers. Herforingjarnir voru t.d. „miður sín yfir umfangi ránanna sem framin voru“ í rúsneskum og úkraínskum þorpum og bæjum en en þeir sýndu því miður „skort á siðferðisþreki“ í því að mótmæla ekki framferðinu (48). Þýskir herforingjar eru oft tragískar persónur í bókinni. Hins vegar eru sovéskir herforingjar oftar en ekki hlægilegir.
- Beevor viðurkennir að framganga sovéskra hermanna hafi gjarnan verið vaskleg og þeir hafi fært miklar fórnir. En það stafaði ekki síst af því að þeir voru reknir áfram með byssustingi yfirmanna sinna í bakinu og voru skotnir af eigin mönnum og leynilögreglunni ef þeir flýðu. Helst má skilja að þeir hafi verið í nærri jafn mikilli hættu af völdum sovésku herstjórnarinnar eins og frá innrásarhernum. Það gat þó ekki hindrað, segir Beevor, að bæði liðhlaup og uppgjöf voru umfangsmikil meðal sovéskra hermanna.
- Að því marki sem menn börðust vel af eigin hvötum má ekki þakka það kerfinu þar eystra heldur var sú barátta innt af hendi ÞRÁTT FYRIR kerfið. Hermenn voru ekki að verja hið sósíalíska samfélag, hann tekur það skýrt fram, heldur var það „eðlislæg ást á fósturjörðinni“ sem rak þá áfram (23).
Söguskýringar Beevors í Stalíngrað eru um flest hefðbundnar vestrænar túlkanir, en hann gefur þeim nýstárlegra yfirbragð með því að draga fram úr rússneskum heimildum efni sem nýtist við að staðfesta þessa vel þekktu mynd. Nú ætla ég ekki í stuttri grein að reyna að hrekja þá sagnfræði sem hér er borin á borð. Aðeins langar mig þó til að víkja að tveimur síðustu af ofannefndum þáttum.
Það er engin ástæða til að gera lítið úr ósigrum sovésku herjanna framan af, einkum á fyrsta sumri Rússlandsstríðsins. Mannfallið var ógurlegt og um 3 milljónir hermanna voru teknir til fanga. En hitt er jafn víst að í langflestum tilvikum höfðu þeir sem gáfust upp verið umkringdir, skotfæralausir og matarlausir. Öngþveitið var mikið á vígstöðvunum fyrstu mánuðina, m.a. vegna alvarlega mistaka í herstjórninni, og eðlilega hlaut það að koma niður á baráttuþreki og aga í sovéska hernum sem var þess vegna vandamál framan af. Það er líka rétt að yfirmenn sovéska heraflans reyndu m.a. að vinna gegn agaleysi með hörðum refsingum gegn uppgjöf og flótta. Hitt er líka víst: Ef slíkar aðferðir í herstjórn hefðu verið eins ríkur þáttur í viðnáminu og Beevor gefur í skyn þá hefði það ekki orðið til að draga úr liðhlaupi heldur þvert á móti aukið það. Liðhlaup úr sovéska hernum var hlutfallslega lítið. Og mótspyrna sovéskra hermanna, jafnvel þegar aðstæður og útlit voru sem verst, var öflugri en þýski herinn hafði kynnst annars staðar og fór sífellt harðnandi. Þetta kemur vel fram í dagbókum þýsku herforingjanna og þetta viðurkennir Beevor. Á einstaka svæði, fyrst og fremst á sumum svæðum sem Sovétríkin hernámu 1939 (í Austur-Póllandi, Eystrasaltsríkjum) var þýska innrásarliðinu vel tekið af heimafólki. Annars yfirleitt alls ekki. Til samanburðar má nefna að í flestum löndum meginlands Evrópu þar sem borgarastéttin réði ríkjum, allt frá Frakklandi og austur til Ungverjalands og Rúmeníu voru hergögn, framleiðslukerfi og vinnuaflið viðnámslítið lagt undir þýska herveldið. Sovétherinn vann seinni Evrópustyrjöldina 1940-45 að mestu af eigin rammleik. Jafnvel eftir innrásina í Normandí 1944 hafði þýski herinn u.þ.b. tíu sinnum fleiri hermenn á austur- en vesturvígstöðvunum. Aðalatriðið varðandi stríðið í Rússlandi er það að sovéski herinn og sovétþjóðirnar sýndu undraverðan vilja til að berjast – og fyrst og fremst þess vegna var nasisminn sigraður árið 1945.
Aðeins má nefna bók sem er ekki til umræðu hér, Fall Berlínar 1945. Miðað við það hvað Beevor fjallar þar í löngu máli um nauðganir hermanna Rauða hersins (bókina hef ég lesið UM en ekki lesið) þá talar hann lítt eða ekkert um slíkt í bókinni Stalíngrað, þótt hann fjalli talsvert um grimmúðlegt framferði þýska hersins að öðru leyti (t.d. 46-50). Það er samt staðreynd að nauðganir og aðrar ógnaraðgerðir sovéskra hermanna gegn óbreyttum borgurum í Þýskalandi voru agabrot meðan slíkar aðgerðir voru framkvæmdar af þýsku herjunum t.d. í Rússlandi og Úkraínu samkvæmt tilskipunum, lagatilskipunum um „fjöldavaldbeitingu í þorpum“ og fleiri slíkum (bls. 12).
Frásögn Beevors af þessari styrjöld minnir mig á frásagnir vestrænna fréttastofa nú á dögum – fréttastofa í eigu vestrænna auðhringa – sem lýsa átökunum í Afganistan, Írak og Miðausturlöndum sem átökum milli vestrænna herja og „hófsamra“ bandamanna þeirra annars vegar og hins vegar íslamista og hryðjuverkamanna. Áherslan er á grimmdina í stríðinu en alls ekki á það hvor aðilinn það er sem ræðst á hinn – enda myndi slíkt sjónarhorn líklega koma heimsvaldastefnunni illa.
- – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – -
Í skrifum sínum um borgarastríðið á Spáni kemur Beevor þó enn betur upp um sig sem skilgetið afkvæmi breskrar hægrimennsku. Mig langar því í framhaldi að segja nokkur orð um bókina The Battle for Spain. The Spanish Civil War 1936–1939. Fyrst nokkrar tilvitnanir:
„[Spánn] hafði flækst í alþjóðlegt borgarastríð sem hófst af alvöru með byltingu Bolsévíka. Hryllingur Rússlands hafði grafið undan hinni lýðræðislegu miðju stjórnmála um allt meginland Evrópu.“ (XXIX)
„Sérhver möguleiki á málamiðlun var eyðilagður af byltingarsinnaðri uppreisn vinstriaflanna [í október 1934] og eftir að herinn og Guardia Civil bældi hana niður af grimmd.“
(38) „Ef bandalag hægriaflanna hefði unnið þessar kosningar [í janúar 1936] hefðu þá vinstriöflin virt þá niðurstöðu sem lögmæta? Mann grunar sterklega að svo hefði ekki orðið.“ (XXXI).
„En með vinstri róttæka valdboðsstjórn, kannski opinskátt kommúníska, hefí Spánn hafnað í viðlíka stöðu og þjóðir Mið-Evrópu og Balkanskaga voru í fram til 1989.“ (479)
Í ofanskráðum tilvitnunum sést í fyrsta lagi að Beevor hafnar því að völin á Spáni hafi staðið milli fasisma og lýðræðis. Í öðru lagi telur hann að borgarastríðið hafi verið óumflýjanlegt eins og staðan var um miðjan 4. áratuginn vegna öfga á báða bóga. Í þriðja lagi, segir hann, hefði það ekki endilega verið til bóta ef lýðveldið undir vinstri forystu hefði sigrað í borgarastríðinu.
Þjóðfélagsátök og stjórnmál á Spáni á 4. áratugnum voru hörð. Þau einkenndust af því að samfélagið hafði að litlu leyti gengið gegnum borgaralega þjóðfélagsbyltingu og samfélagshættir voru ennþá mikið til lénskir. Til þessa hafði land að mestu verið í eigu fámenns jarðeigendaaðals og réttindi lýðsins voru harla lítil. Völdin lágu hjá einvaldskóngi, kirkju og her. Formlega var stjórnskipunin þingræði en það var bæði veikt og valt. Fyrstu eiginlegu kosningar í landinu voru 1931. Þegar heimskreppan lagði sína dauðu hönd á atvinnulífið fór ólgan í landinu hraðvaxandi, ekki síst meðal smábænda en þá skorti pólitíska forustu. Verkalýðurinn var samþjappaður í fáeinum iðnaðarborgum. Hann var róttækur og ekki undir forystu hægfara sósíaldemókrata líkt og í Vestur-Evrópu. Áhrifaríkastir voru anarkistar og syndíkalistar, miðstöðvar þeirra voru í iðnaðarsvæðum Katalóníu og einkum Barselónu. Þeir höfðu andstyggð á pólitískum flokkum og þingpallabrölti en trúðu á allsherjarverkfall og boðuðu bein og milliliðalaus verkalýðsvöld og sjálfsstjórnarkommúnur.
Vinstri öflin unnu kosningarnar árið 1931 (þótt anarkistar hunsuðu þær), afnámu einveldi konungs, stofnuðu lýðveldi og settu á dagskrá þjóðnýtingu landeigna og stóreigna aðals og kirkju auk róttækrar endurskipulagningar hersins. Þetta var raunhæf stefna en ekki ríkti eining um hana meðal lýðveldissinna. Anarkistar töldu pólitíska baráttu gagnslitla nema barist væri fyrir afnámi einkaeignaréttar og borgaralegra atvinnuhátta, og þeir hófu allsherjarverkfall. Sundrungin meðal lýðveldissinna leiddi til þess hægri öflin unnu stórsigur í kosningunum 1933, og 1934 settist harðvítug hægristjórn að völdum og tók að hrifsa þjóðfélagsumbæturnar tilbaka. Þetta leiddi af sér verkalýðsuppreisnir á stöku stað haustið 1934 sem bældar voru niður með fjöldamorðum. Fasisminn sótti í sig veðrið.
Kringum kosningar 1936 urðu til andstæðar fylkingar komandi borgarastríðs: konungssinnar (Karlistar) sameinuðust fasistum (falangistum) og á vinstri vængnum leiddu aðgerðir hægri stjórnarinnar til aukinnar róttækni og aukinnar einingar, vinstri kratar færðust til vinstri og tókst að stilla saman strengi við kommúnista. Úr varð Alþýðufylkingin sem vann kosningasigur og hóf umbætur í líkum anda og 1931. Anarkistar hins vegar hófu enn á ný allsherjarverkfall og lýstu yfir verkalýðsvöldum í iðnaði í Barselóna og hófu einnig áhlaup til samyrkjuvæðingar í landbúnaði. Í júní 1936 hófu fasistar og herforingjar undir forustu Frankós vopnaða uppreisn gegn löglega kjörinni ríkisstjórn Spánar.
Ekkert vestrænt ríki (nema Mexíkó lítillega) studdi spænska lýðveldið í borgarastríðinu en frá október 1936 studdu Sovétríkin það með vopnasendingum, og sendi einnig alls um 2000 manna lið hemanna og ráðgjafa. Hins vegar fékk Frankó og falangistar frá byrjun uppreisnarinnar margfalt meiri hernaðaraðstoð, frá Ítalíu og Þýskalandi (og Portúgal), einnig fengu þeir liðsstyrk 55 000 ítalskra og þýskra hermanna. Breski herinn veitti Frankó nokkurn stuðning við innrás hans í nágrenni Gíbraltar. Meiru skipti þó að breska stjórnin beitti sér fyrir banni á vopnasölu til Spánar meðan stuðningur öxulveldanna við Frankó var á allra vitorði. (sbr. Beevor, 166-7) Falangistar áttu vísan stuðning eignastéttarinnar og hægri aflanna i Bretlandi og Bandaríkjunum (267, 280) enda ku Eden, breski utanríkisráðherrann, hafa sagt franska kollega sínum að „England kjósi fremur sigur uppreisnarmanna en sigur lýðveldisins“ (150). Allir vissu ástæðuna: Spænska lýðveldisstjórnin þótti róttæk og óttinn við sósíalismann var sterkari en áhyggjurnar af framgangi öxuveldanna og fasismans.
Antony Beevor er afturhaldshlunkur. Fyrir vikið gengur honum illa að skilja stéttaátök, hvað þá þjófélagsbyltingar. Það sem undir býr, að hans mati, eru átök á hugmyndasviðinu, átök andstæðra öfgastefna. Og sama viðhorf er uppi og í Stalíngrað, hann skoðar fasisma og kommúnisma sem einhvers konar brjálsemi eða smitsjúkdóma en ekki hugmyndafræði þjóðfélagsafla og hagsmuna. Fasisminn á Spáni var viðbrögð við vinstri öfgum, álítur hann. Eins og áður sagði telur hann málamiðlun hafa verið ómögulega eftir uppreisnartilraun byltingarsinna haustið 1934, og ennfremur segir hann að lýðveldissinnar á Spáni hafi gengið allt of hratt fram og reynt að þvinga fram „samfélagsbreytingar á fáum árum sem annars staðar höfðu tekið aldir.“ (XXX)
Beevor velur sér blóraböggul og kennir honum um allt sem aflaga fór hjá lýðveldisöflunum, Jósep Stalín. Hann gefur okkur þá mynd að hin brogaða fylking vinstri afla á Spáni hafi í raun verið undir stjórn Stalíns. „Þeir [kommúnistarnir] álitu fullkomna valdatöku einu leiðina til að ná markmiðum sínum.“ (52) Rétt eins og Þór Whitehead á Íslandi finnst Beevor þægilegast að eiga við kommúnista og vinstri sósíalista í sögunni með því að afgreiða þá sem útsendara Stalíns og nefna nafn hans nógu oft í sambandi við athafnir þeirra. Og hann eignar spænska kommúnistaflokknum, þ.e.a.s. Stalín, öll helstu mistök sem gerð voru, ekki síst ofurróttækni sem olli sundrungu og dró úr stuðningi borgaralegra andfasista við stjórnina í Madríd.
En þar bullar Beevor. Það voru alls ekki kommúnistar sem stunduðu mesta vinstri róttækni meðal lýðveldissinna. Á spænska vinstri vængnum voru þeir í raun pólitískt hófsamt afl, svo skrýtilega sem það hljómar. Spænskir kommúnistar höfðu lært af vinstri villu Komintern og kommúnista 1928-34. Þeir skildu að sósíalísk verkalýðsbylting var ekkert í spilunum að svo stöddu á Spáni. Fasisminn var í sókn og nú gilti að slá vörð um borgaralegt lýðræði. Stefnan nefndist samfylking gegn fasisma og þeir hófu upp það merki raunar á undan Komintern. Eftir að borgarastríðið hófst tókust jafnan á tvær tilhneigingar meðal lýðveldissinna: Annars vegar voru þeir sem tóku byltinguna, þ.e. róttækar félagslegar breytingar, fram yfir það að verjast hernaðarsókn fasista. Þá stefnu höfðu einkum anarkistar og syndikalistar. Hins vegar voru þeir sem álitu að stríðsreksturinn yrði að ganga fyrir og lögðu allt kapp á skipulag og aga. Það voru m.a. ýmsir borgaralegir vinstrimenn en þó kommúnistar öðrum fremur. Smám saman varð sú stefna ofan á. Vegna framgöngu sinnar í borgarastríðinu styrkti kommúnistaflokkurinn stöðu sína jafnt og þétt. Beevor nefnir t.d. það að meðlimafjöldi hans hafi áttfaldast á fyrsta ári borgarastríðsins (168), og undir lok stríðsins voru kommúnistar orðnir sterkasta aflið innan Alþýðufylkingarinnar. Agi og þolinmæði reyndust heilladrýgri en byltingaróþreyjan. Menn sáu það bara of seint.
Antony Beevor er heilmikill rithöfundur en stjórnmálahugsun hans – stórbreskt íhald – færir okkur fátt gagnlegt.
No comments:
Post a Comment