Thursday, May 22, 2014

Þýska Septemberprógrammið frá 1914 orðið að veruleika

Stórauðvaldið hefur almennt ekki mjög ákveðnar pólitískar skoðanir. Það styður einfaldlega þann pólitíska valkost sem tryggir best gróðann og þenslumöguleikana á hverjum tíma. Þess vegna tekur vald auðsins á sig ólíkar birtingarmyndir.
Tökum þýskt stórauðvald sem dæmi. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu" svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og lítils olnbogarýmis. Í tímans rás hefur þýskt stórauðvald brugðist við þessari stöðu á talsvert mismunandi vegu. Samt er í því veruleg samfella.
Bethmann Hollweg kanslari
Árið 1914. Í septembermánuði það ár þegar rúmur mánuður var liðinn af fyrra stríði - mánuður sem gekk Þjóðverjum mjög í vil - lagði Bethmann Hollweg Þýskalandskanslari framstyrjaldarmarkmiðin fyrir ríkisstjórn sína og næsta valdahring íSeptemberprógramminu. Þar stóð:
„Mynda þarf Miðevrópskt efnahagssamband og tollabandalag sem nái yfir Frakkland, Belgíu, Holland, Danmörku, Austurríki-Ungverjaland, Pólland og mögulega Ítalíu, Svíþjóð og Noreg. Sambandið mun líklegast verða án sameiginlegs stjórskipunarlegs stjórnvalds og hafa yfirbragð jafnréttis meðal þátttakenda, þó það verði í reynd undir þýskri forustu, og verði að tryggja ráðandi stöðu Þýskalands í Mið-Evrópu." 
Skömmu síðar snérist stríðsgæfan á móti Þjóðverjum og stríðsmarkmiðin ýttust inn í framtíðina.
Árið 1933. Framan af höfðaði þýski Nasistaflokkurinn einkum til millistéttar en í djúpi kreppunnar 1932/33 vann hann tiltrú stórauðvaldsins. Það gerði flokkurinn einfaldlega með því setja hagsmuni þess í forgang: lofa harðri baráttu fyrir auknu landrými („lífsrými", nokkuð sem var í stefnuskrá flokksins frá upphafi), með því að leggja fram áform um hervæðingu efnahagslífsins sem leið út úr kreppunni, ennfremur bjóða sig fram sem brjóstvörn gegn kommúnisma/sósíalisma og róttækri verkalýðshreyfingu.
Auðhringar Þýskalands mynduðu kjarnann í efnahagskerfi nasista og stuðningur þeirra var meginforsenda fyrir völdum flokksins. Það er siður að dylja þetta með því að lýsa Þýskalandi sem einræði illmennis. Stjórnarfar Nasistaflokksins var um margt sérstætt. Hugmynd nasista um „lífsrými" var öðru vísi en Septemberprógrammið og gerði ráð fyrir opinskárri undirokun annarra (óæðri) þjóða. Samt var þetta stjórnarfar fyrst og fremstein birtingarmynd á stéttarveldi þýsks auðvalds. Aðferðin skilaði gróða og landvinningum allt til Stalíngrað en snérist síðan í hamfarir. En hamfarirnar eru kapítalismanum hollar og lögðu grunn að nýju þýsku blómaskeiði.
Árið 2014. Þýskt auðvald - ásamt einkum því franska - hefur alla tíð verið forystuaflið í Evrópusamrunanum. Eftir því sem hnattvæðing viðskiptanna náði sér á flug, m.a. með falli Austurblokkarinnar hefur ESB orðið múrbrjótur hnattvæðingar í formi frjáls fjármagnsflæðis og flæðis vöru og vinnuafls á sameiginlegum evrópskum markaði. Djúp kreppa Rússlands á 10. áratugnum auðveldaði sókn ESB inn í Austur-Evrópu. Sambandið beitti eigin viðskiptamúrum gagnvart löndunum: Ef Austur-Evrópulönd vilja aukin viðskipti við ESB-markaðinn verða þau að ganga í ESB! Eftir það áttu svo auðhringar ESB ­- og sérstaklega Þýskalands - óhindraðan aðgang inn í þessi lönd.
ESB-svæðið er nú tvískipt, skiptist í kjarnsvæði norðan og vestanvert og jaðarsvæði í suðri og austri. Kjarninn - og Þýskaland sérstaklega - blæs út sem útflutningshagkerfi og lánveitandi en jaðarsvæðin verða undir í samkeppninni og verða hjálendur í skuldafjötrum. Fjármálaöflin í ESB setja hinum skuldugu löndum skilmálana, afsetja jafnvel ríkisstjórnir og setja sitt fólk í staðinn. „Samstarfssamningur" sá sem ESB bauð Úkraínu í fyrra ber öll merki sömu útþenslustefnu, ekki síst sker hann mjög á hin nánu tengsl landsins við Rússland. Sjá grein mína um samstarfssamninginn:http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1382814/. Dæmið Úkraína sýnir líka að evrópskt stórauðvald styður fasista til valda ef nauðsyn krefur til að tryggja gróða sinn og þenslumöguleika.
Það eru ekki grófar ýkjur að kalla Austur- og Suður-Evrópu efnahagslegan bakgarð Þýskalands. Það eru alls ekki grófar ýkjur að segja að þýska Septemberprógrammið frá 1914 sé orðið að veruleika.

1 comment:

 1. Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
  Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
  Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
  Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
  Netfang: atlasloan83@gmail.com
  whatsapp / hangout + 14433459339
  Atlasloan.wordpress.com

  ReplyDelete