(birtist í Tímariti Máls og menningar 4. hefti nóv. 2007)
Þór Whitehead um
„öryggisþjónustuna“
Íslensk leyniþjónusta og hleranir á róttæklingum voru stóra
bomban í sagnfræði ársins 2006. Fyrst kom fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar á
Söguþingi um efnið, þá grein Þórs Whitehead í tímaritinu Þjóðmál um haustið og litlu síðar bók Guðna Th., Óvinir ríkisins.
Í
fyrirlestri Guðna Th. á Söguþingi hafði óþægilegt ljós beinst að innstu og
myrkustu herbergjum valdsins og fyrirsjánlegt var að margt misjafnt yrði nú
grafið upp. Þá reis upp Þór Whitehead, kommúnismasagnfræðingur Íslands, og gekk
fram fyrir skjaldborg sinna manna. Í Þjóðmála-grein
hans, „Smáríki og heimsbyltingin. Öryggi Íslands á válegum tímum“, birtist nýtt efni um íslenska
„öryggisþjónustu“ sem starfaði frá 1948 að skráningu og njósnum um íslenskra
sósíalista og hafði náin tengsl við bandaríska sendiráðið og FBI (Þjóðmál, bls. 68-73).
Þór Whitehead birti grein sína
skömmu eftir fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar í maí. Það er athyglisvert að
hann styðst í greininni lítið við upplýsingar Guðna. Hann styðst einkum við
viðtöl við gamla kunningja úr Sjálfstæðisflokknum, ýmist menn sem hafa staðið
nærri þessum sögulegu atburðum sem trúnaðarmenn flokksins (Ásgeir Pétursson),
menn sem hafa hafa starfað hjá NATO (Róbert Trausti Árnason), hjá
útlendingaeftirlitinu (Jóhann G. Jóhannson) eða lögreglustjóraembættinu í
Reykjavík (Bjarki Elíasson, Sævar Þ. Jóhannesson). Það nægir honum alveg til að
bregða dágóðu ljósi á „öryggisþjónustuna“. Af þessu mætti ráða að
greinarhöfundur hafi í stórum dráttum vitað þetta áður þótt hann teldi ekki
ástæðu til að fara með það á prent fyrr en nú.
Þór Whitehead útskýrir tilkomu
„öryggisþjónustu“ í samhengi íslenskrar stjórnmálasögu. Hann rennir sér yfir
hita- og átakapunkta hennar ca. 1920–70. Aðferð hans er vel kunn. Hann forðast
eins og heitan eldinn að kalla stéttaátök séttaátök. Hann setur sig ekki úr
færi að stilla kommúnistum og fasistum upp saman sem „alræðissinnum“ og
bræðrum. Þegar hann beinir kastljósi sögunnar að íslenskum vinstri sósíalistum
hefur hann alltaf samtímis annan ljósgeisla á Stalín bónda í Kreml. Þegar
róttækir sósíslistar sögðust vera að berjast um laun, verkfallsrétt,
þjóðaratkvæðagreislu og annað slíkt voru þeir fyrst og fremst að reka erindi
Stalíns og vera „fimmta herdeild“ í áformum hans gagnvart Vesturlöndum – og
Íslandi sérstaklega.
Markmið Þórs með nefndri grein er
að réttlæta sérstakar aðgerðir gegn sósíalistum svo sem vopnun lögreglu og
persónusnjósnir. Af greininni að dæma voru slíkar aðgerðir eðlilegar í ljósi
ofbeldisdýrkunar meðal kommúnista og sósíalista sem voru hættulegir öryggi
borgaranna. Hann nefnir ýmis dæmi til vitnis um þá hneigð; um æfingar
kommúnista í vopnaburði, morðhótanir þeirra, jafnvel vopnainnflutning. Í
Lesbókargrein gegn Jóni Ólafssyni 20. janúar sl. áréttar hann þetta: Í
Varnarliði verkalýðsins komu kommúnistar sér upp „vopnaðri byltingarsveit“,
segir hann, sem var „helmingi fjölmennari en Reykjavíkurlögreglan og bjuggust
skotvopnum á undan henni“. Gott væri ef Þór færði fram eina einustu heimild um
slíkan vopnaburð. Það hefur hann ekki gert ennþá (og dugir ekki að vísa í
herská ummæli eins ungkommúnista árið 1924). En hann ber sig illa fyrir hönd
valdhafa sem höfðu ekki nógu öflugt skipulag eða búnað (lesist: ekki næg vopn)
til að tryggja vald sitt í nóvember 1932 þegar atvinnleysingjarnir beittu hörðu
(Þjóðmál, bls. 59-61) og hindruðu kauplækkun í stað þess að snúa
hinni kinninni að og taka glaðir við færri krónum fyrir þá litlu atvinnu sem
bauðst. Það er forvitnilegt að sjá sama viðhorf í orðum danska sendifulltrúans
í Reykjavík til forsætisráðherra síns, að átökin 9. nóvember hafi sýnt „at der
i virkeligheden ingen statsmagt er på Island“ (sjá Þorleifur Friðriksson, Við brún nýs dags, bls. 272). Svona
mundi ekki gerast í hervæddu Evrópuríki!
Óöryggið varð ekki minna 1946 og
1949. Vinstri sósíalistar beittu þá verkalýðshreyfingunni pólitískt, m.a. með
kröfunni um þjóðaratkvæði um Keflavíkursamninginn og seinna um aðildina að
NATO, og „veittust með ofbeldi að Alþingi“ (Þjóðmál,
bls. 68). Þessu var skiljanlega svarað: með persónunjósnum, styrkingu
lögreglunnar og svo stofnun „öryggisþjónustu“ árið 1950. NATO-aðildin 1949
nægði ekki til að sefa óttann en að sögn Þórs sefaðist hann fljótt og vel við
komu hersins 1951: „Endurkoma Bandaríkjahers leysti um margt þann vanda sem
stjórnvöld höfðu talið sig standa frammi fyrir í öryggismálum landsins“ (Þjóðmál, bls. 74).
Við fyrstu sýn virðist nokkur
hýstería vera í skrifum Þórs Whitehead, en hann þarf líka að reka sögulegan
hræðsluáróður í réttlætingarskyni fyrir sína menn. Til að réttlæta
persónunjósnir íslenskrar „öryggislögreglu“ leggur hann höfuðáherslu á
ofbeldishneigð meðal íslenskra sósíalista. Enda skín það út úr greininni að
óöryggistilfinning valdhafa stafaði einkum af „innri hættu“ þótt Þór nefni
Rússahættu við og við. Miðað við fátæklegar heimildir um ofbeldishneigðina
tekst honum þetta allvel enda er hann vel skrifandi og áróðursmeistari á sinn
hátt. Og heimildavinnu hans, sem er töluverð, ber að þakka.
Guðni Th. afhjúpar og
útskýrir séraðgerðir gegn sósíalistum
Segja má að efni bókarinnar Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson sé tvíþætt. Annars
vegar eru afhjúpanir á mannréttindabrotum stjórnvalda gegn andstæðingum sínum:
áðurnefndar símhleranir á árum kalda stríðsins, atvinnuofsóknir gegn fólki úr
sömu hópum ásamt upplýsingum um samstarf íslenskra yfirvalda við bandaríska
leyniþjónustu í þeirri iðju. Þetta er að miklu leyti nýtt efni, vel stutt
heimildum. Hins vegar setur Guðni fram útskýringar á afhjúpununum í ljósi
sögulegs baksviðs. Segja má að hann finni eina grundvallarskýringu á þessum
gerðum stjórnvalda. Hún liggur ekki fyrst og fremst í ofbeldishneigð kommúnista
eins og hjá Þór Whitehead heldur í sefasýki í andrúmsloftinu, lamandi ótta og
tortryggni sbr. kaflaheitið „Ár óttans. Ímyndaðar innrásir og
valdaránstilraunir“. Í þessu öfgakennda
ástandi áttu stjórnvöld alls ills von frá kommum – og sérstaklega frá
Sovétríkjunum – og þeim var þess vegna vorkunn þótt viðbrögðin væru óþarflega
hörð.
Ef Guðni Th. hefði komið með
uppljóstranir sínar fyrir 25 árum og lagt svona út af þeim hefði hann að
líkindum fengið á sig skæðadrífu af gagnrýni frá vinstri. En í umræðu um bók
hans hefur gagnrýnin fyrst og fremst komið frá hægri. Þeir félagar Þór
Whitehead og Björn Bjarnason ráðherra svöruðu Guðna og vörðu hleranirnar en
þeir gerðu það að mestu óbeint: með því að hella sér yfir Jón Ólafsson eftir að
hann skrifaði loflegan ritdóm um bókina fyrir Lesbók Morgunblaðsins 23. desember. Þar tók Jón undir söguskýringar
Guðna varðandi hýsterískt andrúmsloft og „ímyndaðan veruleika kalda stríðsins“.
Með því bar hann blak af kommúnistum að dómi Þórs og Björns.
Rétt eins og Þór Whitehead fer
Guðni Th. í bók sinni hraðferð yfir hápunkta í íslenskri stéttabaráttu á 20.
öld. Hann gengur nokkuð inn á þá braut Þórs að skýra aðgerðir stjórnvalda sem
viðbrögð við aðferðum rauðliða. Hann skýrir t.d. mikla fjölgun í
Reykjavíkurlögreglunni og tímabundna stofnun ríkislögreglu 1933 sem skiljanleg
viðbrögð við baráttusamtökum komma og krata, „Varnarliði verkalýðsins“ og
„Varnarliði alþýðunnar“ (Guðni bls. 38-39).
En málið snérist ekki um
ofbeldisdýrkun rauðliða. Hleranir á verkfallsmönnum voru fyrst framkvæmdar
vegna bílstjóraverkfalls árið 1936 og var það þó hefðbundið verkfall án allra
ofbeldisaðgerða (Guðni, bls. 40). Árið 1937 bað lögreglustjórinn um fjölgun og
frekari vopnun lögreglunnar í Reykjavík með þeim rökum að í höfðuðstaðnum væru
„þjóðfélagslegar mótsetningar
mestar“ og skömmu síðar hafði „í
mörgu verið farið að ráðum [hans]“ (Guðni bls. 43). Sumarið 1939 var Agnar
Kofoed Hansen flugliðsforingi kallaður frá Danmörku og ári síðar gerður
lögreglustjóri í Reykjavík og þjálfaði hann m.a. vopnaburð og „hvernig fáeinir
lögreglumenn geta ráðið við mikinn fjölda manns“ (Guðni, bls. 46). Allt
beindist þetta auðvitað eingvörðungu að „innri hættu“. Þessar ráðstafanir höfðu
afar skýrt stéttarlegt kennimark. Hættan var fólgin í aukinni skipulagningu og
virkni meðal verkalýðs og aukinni róttækni hans – og við henni var
brugðist.
Kaldastríðsaðgerðir
afhjúpaðar og réttlættar
Í túlkun á aðdraganda NATO-aðildar 1949 fer Guðni Th.
troðnar slóðir. Hann skýrir bæði séraðgerðir gegn sósíalistum og tilkomu
NATO, á Íslandi sem annars staðar, sem
varnarviðbrögð vegna mikillar hræðslu við Sovétmenn (sjá t.d. Guðni, bls. 65).
Um þetta mætti margt segja. Bandarískar leyniskýrslur til Þjóðaröryggisráðsins
um viðræður íslenskra ráðherra við bandaríska ráðamenn í aðdraganda
NATO-aðildar liggja fyrir. Þær birtust að hluta í Lesbók Morgunblaðsins 1976. Þar segir m.a.:
Í viðræðum sem fóru fram í
Washington í mars 1949 milli íslenska utanríkisráðherrans og fulltrúa
bandaríska utanríkisráðuneytisins og
hermálaráðuneytisins voru menn sammála um það að hugsanleg bylting kommúnista
væri mesta hættan sem vofði yfir Íslandi. Hversu mikil sú hætta er kom
greinilega fram í uppþotum kommúnista meðan umræður um
Norður-Atlantshafssáttmálann fóru fram á alþingi 31. mars. “ (Lesbók Mbl. 28.
mars 1976, bls. 3)
Í þessum skýrslum er rætt um ytri og innri hættu á Íslandi
og því slegið föstu að viðbúnaður NATO skuli miðast fyrst og fremst við þetta:
uppþot og byltingu innlendra kommúnista (sjá meira af þessum skýrslum í Dagfara 2. tbl 1986).
Skrif Guðna Th. sýna að
sérráðstafanir gegn sósíalistum eftir stríðið, svo sem hleranir og skipulagning
varalögreglu, komu í beinu og rökréttu framhaldi af áðurnefndum
lögregluaðgerðum fyrir stríð. Í aðgerðum stjórnvalda kringum Keflavíkursamning
og NATO-aðild blasir sama stéttarlega kennimark við í gögnum þeim sem hann
birtir. Sósíalistaflokkurinn hafði styrkt sig mjög í verkalýðshreyfingunni,
hann náði yfirburðameirihluta á Alþýðusambandsþingi 1946, og ASÍ og Fulltrúaráð
verkalýðsfélaganna beittu sér af fullum krafti í baráttu gegn Keflavíkursamningnum
það ár. Guðni nefnir þessa staðreynd (bls. 52 og 55) en leggur allt of litla
áherslu á hana: að stjórnvöld áttu í höggi við herskáa verkalýðshreyfingu þar
sem vinstri sósíalistar höfðu sterka stöðu á evrópskan mælikvarða. Barátta
verkalýðshreyfingarinnar á þessum árum var ekkert „ímyndað stríð“ og hún var
valdamönnum örugglega meira áhyggjuefni en hitt ef einstaka reiðir menn gripu
til hnefaréttar í mótmælaaðgerðum. Auk þess voru þjóðerniskenndir afar sterkar
í hinu unga lýðveldi.
Samkvæmt heimildum Guðna Th.
marka atburðirnir kringum inngönguna í NATO upphaf meiri háttar hlerana eftir
stríð. Í ljósi slagsmálanna á Austurvelli álítur hann „að símhleranirnar í mars
og apríl 1949 hafi verið réttlætanlegar“ (Guðni, bls. 98). Svo kom herinn 1951
og gögn Guðna setja þá atburði einnig í afar áhugavert samhengi íslenskrar
stéttabaráttu. Þremur dögum eftir komu hersins „lögðu Bjarni Benediktsson og
Lawson sendiherra drög að samkomulagi um samstarf á sviði heimavarna“ þar sem Bandaríkjastjórn
bauðst til að veita Íslendingum vopn og þjálfun (Guðni, bls. 142). Útfærslan
dróst á langinn en hvað falist gat í slíku „samstarfi“ birtist í kringum „stóru
skrúfuna“ í desember 1952, víðtækasta verkfall sem orðið hafði á Íslandi. Guðni
ýjar að því að áður en lauk hafi verið að því komið að hernum væri beitt til að
leysa það. Og strax eftir verkfallið voru Hermann Jónasson og Bjarni
Benediktsson samtaka um að óska eftir stofnun íslenskra hersveita eða
þjóðvarðliðs m.a. af því bandaríska hernum væri „ekki hægt að beita í innanlandsátökum
nema hreint valdarán hefði hafist“ (Guðni, bls. 143). Á 1. maí um vorið var
krafan „Gegn innlendum her!“ ein af fjórum aðalkröfum verkalýðsfélaganna í
Reykjavík (sjá Dagsbrún, 14. árg,
afmælisrit 1956, bls. 5) og hersveitunum var aldrei komið á fót.
Dæmin sem hér hafa verið tekin
sýna að Guðni Th. Jóhannesson verður síður en svo sakaður um stuðning við
róttæklinga og herskáa verkalýðshreyfingu, en rannsóknir hans eru vissulega
mikilsvert framlag til stjórnmálasögu 20. aldar.
Alveg eftir bókinni
Það er ein grunnsetningin í marxískum fræðum að borgaralegt
ríkiskerfi sé ekki hlutlaust heldur sé það kúgunarvél, sérhönnuð til að tryggja
stéttarhagsmuni með her sínum, lögreglu, leyniþjónustu m.m. sem berar
stéttareðli sitt æ því skýrar sem alþýðan byltir sér meira. Ofangreindar
heimildir renna stoðum undir slíka greiningu íslenska ríkisvaldsins. Þær
séraðgerðir gegn sósíalistum sem hér sagði frá helguðust ekki af blindri
Rússahræðslu þótt svo mætti virðast á yfirborðinu af því Rússagrýla var
auðvitað notuð til hins ýtrasta. Aðgerðirnar helguðust ekki heldur af
„undirlægjuhætti“ íslenskra hægri manna gagnvart stórveldinu mikla í vestri.
Íslenskir stjórnarherrar sem komu á fót leynisþjónustu og vísi af
ríkislögreglu, gengu síðan í NATO, báðu um bandaríska hervernd, höfðu áform um
þjóðvarðlið o.s.frv. voru ekki „leppar Bandaríkjanna“, „þæg verkfæri“, eða
„skósveinar“ svo notað sé orðfæri Einars Olgeirssonar og félaga (t.d. Ísland í skugga heimsvaldastefnunnar,
bls. 262, 264) heldur fyrst og fremst fulltrúar íslenskrar borgarastéttar sem
vildu tryggja eignir hennar og hagsmuni – stéttarlegt öryggi – gegn þeim öflum
sem gátu ógnað þeim hagsmunum, og þau öfl voru innlend. Orðræða sósíalista um
„undirlægjuháttinn“ markast meira af þjóðernislegum viðhorfum þeirra en
marxískum (undirlægjuháttur sem skiptimynt gegn herstöð árið 2003 er kannski
önnur umræða).
Til að
tryggja „stéttarlegt öryggi“ leituðu íslensk stjórnvöld árin 1949 og 1951
liðveislu hjá öflugum bandamanni sem einmitt þá bauð sig ákaft fram til slíkra verka
og vildi stækka áhrifasvæði sitt. Hagsmunir íslenskrar og bandarískrar
borgarastéttar fóru saman. Ég hygg reyndar að hin íslenska dæmisaga sýni í
hnotskurn stöðuna víða í Evrópu í upphafi kalda stríðsins. Sósíalistar og
róttæk verkalýsðhreyfing höfðu styrkt sig afar mikið á stríðsárunum. Bandarísk
leyniþjónusta kom þá mjög víða við sögu í að kveða niður „innri hættu“ og vann
bak við tjöldin gegn áhrifum róttækra í verkalýðshreyfingunni í samvinnu við
stjórnvöld og innlenda leyniþjónustu, ólík borgaraleg öfl og hægri krata. Og
hernaðaraðstoð var líka í boði ef annað dugði ekki.
Eftir
miðja 20. öld þurftu íslenskir stjórnarherrar ekki að beita sósíalista og
andófsöfl jafn harkalegum meðulum og áður. Líklegasta skýringin á því er sú að
byltingarsinnaður sósíalismi missti hér flugið á 6. áratugnum og
verkalýðshreyfingin gat ekki á neinn hátt kallast herská eftir það.
No comments:
Post a Comment