Monday, September 15, 2014

Liðsafnaður í ranga átt - á ný

Rússarnir koma!
Fjölmiðlafárið undanfarið um „innrás“ Rússa og „fulla þátttöku“ í stríðinu í Úkraínu átti að skapa aðstæður fyrir nánari tengingu Úkraínu við NATO á leiðtogafundi bandalagsins í Bretlandi 4-5. september. Að sögn Camerons forsætisráðherra var verkefni fundarins einmitt að ákvarða tengsl  Úkraínu við NATO og stefnu NATO gagnvart Rússlandi. Niðurstaða fundarins varð vissulega nánara samstarf NATO við Úkraínu og „full hernaðarleg samverkan“ þeirra á milli. Þá var samþykkt „aukin samstarfsaðild“ nokkurra landa að NATO, m.a. fyrrum Sovétlýðveldanna Georgíu og Moldóvu, ennfremur Finnlands og Svíþjóðar. Hins vegar settu miklar ófarir Úkraínuhers undanfarið gagnvart „aðskilnaðarsinnum“ í austurhéruðunum mark sitt á fundinn. Borgarastríð, klofið land og óskýr landamæri útilokar a.m.k. fulla NATO-aðild Úkraínu í bráð. Enn fremur varð vopnahléið sem samið var um milli stríðsaðila 5. september til þess að ögn hægði á refsiaðgerðunum ESB-ríkja gegn Rússlandi.


Hitler, Stalín og Chamberlain áttu sviðið 1939

Rússar lögðu undir sig Krímskagann í mars slíðastliðnum eftir afar andrússnesk valdaskipti/valdarán í Úkraínu.  Yfirtaka Rússa varð að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu á skaganum sem tilheyrði Rússlandi frá 1783-1954 og er að mestu byggður Rússum. Þar hefur um aldir verið aðalflotastöð Rússa við Svartahaf. Leiðtogar NATO-landa fordæmdu aðgerð Pútíns sterklega, lýstu aftur á móti stuðningi við ný stjórnvöld í Kænugarði sem komu til valda í valdbyltingu og hafa síðan háð stríð gegn „aðskilnaðarsinnum“ í austurhluta landsins. Viðskiptabann og refsiaðgerðirnar gegn Rússum hafa þyngst stig af stigi. Hin meginviðbrögð Vestursins eru aukin hernaðarumsvif NATO í næsta nágrenni Rússlands og áköf umræða um nauðsyn þess að NATO þekki sinn vitjunartíma í Úkraínu. Vestrænir leiðtogar og vestræn pressa hafa leitað í ákafa að „smoking gun“ Pútíns í Úkraínudeilunni, leitað að sakarefnum til að hengja á hann sem árásaraðila, líkt og „gjöreyðingarvopnin“ voru hengd á Saddam Hussein 2003. Um tíma var það hollenska farþegaþotan, síðan NATO-myndir af rússneskum skriðdrekum í Úkraínu sem áttu að  vera „smoking gun“.
Leiðtogar  Norðurlanda láta ekki sitt eftir liggja. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar hefur lengi farið fyrir öðrum í harkalegum ummælumum Pútín: „Ég held að Krím sé bara upphitun… Ég er sannfærður um að eiginlegt markmið hans [Pútíns] er ekki Krím heldur Kíev, bætir Bildt við.“   Utanríkisráðherra Íslands fer í endurteknar heimsóknir til Kiev til að sýna stuðning sinn við stjórnvöld þar og lofar auknum framlögum til NATO. Á NATO-fundinum fengu Svíþjóð og Finnland, sem áður töldust hlutlaus ríki, viðurkennda „aukna samstarfsaðild“ landanna að NATO.  Danmörk ákvað nýlega að taka beinan þátt í skotflauganeti NATO sem beinist auðvitað gegn Rússlandi, þó formelga beinist það gegn „ónefndum óvini“. Og ekki þarf að hvetja hinn herskáa Noreg sem hefur tekið þátt í 8 styrjöldum Bandaríkjanna og NATO frá 1990.
Hörð viðbrögð Vestursins gegn Rússum eru knúin áfram af Bandaríkjunum. Fyrir bandaríska þinginu hefur síðan í vor legið frumvarp, sk. The Russian Aggression Prevention Act sem gefur Úkraínu (og Georgíu og Moldóvu) stöðu sem de facto NATO-ríki. Verði frumvarpið samþykkt gerir það stríðið í Úkraínu að málefni NATO, eða eins og þar segir:  “Provides major non-NATO ally status for Ukraine, Georgia, and Moldova for purposes of the transfer or possible transfer of defense articles or defense services.” Í tengslum við innlimun Krímskagans fóru áhrifamenn í bandarískum utanríkismálum, svo sem Zbigniew Brzezinski, John McCain og Hillary Clinton að líkja atburðinum við aðdraganda seinna stríðs, líkja innlimun Krím við innlimun Austurríkis 1937 og Tékkóslóvakíu 1938 og þar með líkja Pútín við Hitler. Framantalið áhrifafólk fólk er reyndar ekki við völd. Yfirmenn bandarískra hermála voru í fyrstu talsvert varkárari en í júlí kom yfirmaður bandaríska herráðsins (Joint Chiefs of Staff) með herskáar yfirlýsingar og  líkti innlimun Krímskaga við innrás Sovétríkjanna í Pólland 1939.
Hernaðarsókn Vestursins
ÞETTA GERIST í framhaldi af því að Bandaríkin og NATO-bandamenn þeirra hafa hernumið og ráðist á hvert landið af öðru (best þekktu dæmin Írak, Júgóslavía/Serbía, Afganistan, Líbía, Sýrland) án þess að fjölmiðlarnir líki leiðtogum þeirra við Hitler eða Stalín af þeim sökum.  ÞETTA GERIST eftir rúma tvo áratugi frá falli Austurblokkarinnar svokölluðu, áratugi sem einkennast af fjölgun NATO-ríkja úr 16 í 28, þ.e. fjölgun um 12 fyrrum bandalagsríki Rússlands og útþenslu NATO upp að landamærum Rússlands svo það er nú umkringt löndum sem ýmist eru NATO-meðlimir, eru í umsóknarferli eða hafa samstarfsaðild (partnership). Eftir fall múrsins og sameiningu Þýskalands fengu Gorbachev og Sévardnadze loforð frá utanríkisráðherrum Þýskalands og Bandaríkjanna,  loforð um að NATO myndi „ekki færa sig tommu“ austur fyrir Þýskaland. Síðan hafa Rússar skarplega mótmælt nýjum stækkunum NATO í austur, æ harkalegar eftir því sem innikróun þeirra verður meiri.
Hliðstæð staða fyrir Bandaríkin væri ef helstu andstæðingar þeirra hefðu þegar komið upp eldflaugskotpöllum í stórum stíl á Kúbu (sbr. Kúbudeiluna 1962) og Mexíkó og undirbyggju nú uppröðun þeirra eftir lændamærum USA og Kanada. Og má reyna að ímynda sér viðbrögð Washington við slíku.
Eftir því sem Kína og bandamaður þess, Rússland, urðu skýrari keppinautar Bandaríkjanna varð hernaður Vesturveldanna miðaðari að því að stemma stigu við vexti þessara ríkja og umkringja þau. Til þess þurfti að breyta NATO í hnattrænt hernaðarbandalag. Herstjórnarlistin hefur gengið út á að einangra og umkringja keppinautana og rýja þá bandamönnum. Áherslan á að einangrun og refsiaðgerðir gegn Íranstjórn, áherslan á að fella helsta bandamann hennar, Sýrland, eru augljós dæmi um þessar áherslur, enda eru þessi ríki nú einu bandamenn Rússlands og Kína í Miðausturlöndum. Stríðið í Úkraínu helgast af sömu strategísku áherslum. Zbigniew Brzezinski er áhrifamaður um bandaríska stjórnlist. Í bók sinniThe Grand Chessboard frá 1997 komst hann svo að orði. „Úkraína, nýr og mikilvægur reitur á evrasíska taflborðinu, er hnattpólitískur hverfipunktur af því sjálf tilvera hennar sem sjálfstætt ríki hjálpar til að breyta Rússlandi. Án Úkraínu hættir Rússland að vera evrasískt veldi…. En vinni Rússland aftur yfirráð yfir Úkraínu.. fær Rússland sjálfkrafa aftur efni til að verða voldugt heimsveldi sem spannar Evrópu og Asíu.“ („The Eurasian Chessboard“, 2. kafli) Áhersla Bandaríkjanna á að draga Úkraínu inn í NATO verður að skoðast í þessu ljósi.   Ég hef áður skrifað grein um þessa bandarísku strategíu og það að aðgerðir Rússa á Krímskaga verði að skoða sem varnaraðgerðir.
Samlíking við upphaf heimsstyrjalda 1914 og 1939
Samlíkingarnar við Hitler og Stalín eru áhugaverðar. Ég er hjartanlega ósammála þeirri samlíkingu Pútíns við Hitler sem Brzezinski og félagar gera, en ég tel samt vera verulegar samsvaranir milli ástandsins í Evrópu nú um stundir og ástandsins í aðdraganda SEINNI HEIMSSTYRJALDAR. Þá á ég ekki síst við tímann frá ágúst/september 1939 með griðarsáttmála Hitlers og Stalíns, skiptingu Póllands í framhaldinu og Vetrarstríðið í Finnlandi – og fram til innrásar Þjóðverja í Danmörku og Noreg í apríl 1940. Einnig þarf þá að huga að því sem á undan var gengið, nefnilega Munchensamkomulaginu og aðdragandA þess. Einnig valdatöku fasismans á Spáni (með þegjandi samþykki Vesturvelda) sem um sumt minnir á valdatöku öfgahægrimanna  í Úkraínu (með húrrahrópum Vesturvelda).
Ekki skyldi maður gera of miklar samlíkingar nútímans við sögulega atburði eða reikna með að þeir endurtaki sig. Engu að síður búum  við enn í heimi stórauðvalds, auðhringa og fjármálablokka þar sem „lokið er skiptingu á öllum löndum jarðarinnar milli voldugustu auðvaldsríkjanna.“ (Lenín, Heimsvaldastefnan, hæsta stig auðvaldsins, bls. 117) Við búum við sama efnahagskerfi sem hlítir sömu grundvallarreglum og drifkröftum. Blokkirnar keppast sín  á milli og þróast ójafnt, og Lenín spurði: „Hvaða úrræði annað en stríð kemur til greina á auðvaldsgrundvelli til þess að eyða misræmi á milli þróunar framleiðsluafla og samsöfunar fjármagns annars vegar og skiptingar nýlendna og „áhrifasvæða“ fjármálaauðmagnsins hins vegar?“ (sama heimild, bls. 130)
Með þessum orðum var Lenín árið 1916 að skýra orsakir fyrri heimsstyrjaldirnar. Skipting heimsins milli stórvelda í formi nýlendna og áhrifasvæða var langt komin þegar iðnaðarkapítalismi Þýskalands náði þroska. Landið kom seint að „hlaðborðinu“ svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og lítils olnbogarýmis, landið var í spennitreyju, innilokað í Norður-Evrópu. Þetta gerði Þýskaland svo hernaðarsinnað og árásarhneigt sem raun bar vitni og að sama skapi vörðu gömlu stórveldin „sín“ áhrifasvæði af hörku og grimmd. Eina „lausn“ málsins var heimsstríð. Samsvörun við nútímann felst í því að ný heimsveldi, eitt eða fleiri, vaxa hratt og fara fram úr þeim sem áttu sviðið. Kína er komið fram úr Bandaríkjunum sem iðnaðarland og útflutningsland. Rétt eins og þá er það hin ójafna þróun sem skapar stríðshættuna. Munurinn er einkum sá að þá var það hungraði nýliðinn sem öðrum fremur var herskár en nú er það gamla risaveldið sem treystir á hernaðaryfirburðina til að verja stöðu sína og knýr því fram stríð eftir stríð. Samsvörun nútímans við aðdraganda FYRRI HEIMSSTYRJALDAR er m.ö.o. mikil líka.
Í aðdraganda seinna stríðs var hin ójafna þróun enn uppi á teningnum, „spennitreyja“ Þýskalands var óleyst mál. En þá voru komnir a.m.k. tveir nýir áhrifaþættir í viðbót á taflborð evrópskra stjórnmála. Annar var tilkoma sósíalískra Sovétríkja – vanþróaðs landbúnaðarlands en verðandi iðnríkis og stórveldis í krafti stærðar og mannfjölda. Á kreppuárum 4. áratugar voru Sovétríkin ennþá vonarland róttækrar verkalýðshreyfingar í auðvaldsríkjum, þar sem stéttastjórnmál voru hörð, m.a. í Evrópu, svo óbeinna áhrifa frá Sovétríkjunum gætti mjög í innanlandsmálum hvers auðvaldsríkis – og ekki síður á nýlendusvæðum heimsveldanna í Asíu og víðar. Hinn þátturinn var svo nasisminn í Þýskalandi, pólitísk hugmyndafræði sem þýsku auðvaldi þótti sér henta til að losna úr umræddri „spennitreyju“, einnig sem svar við efnahagskreppunni og svar við framvexti sósíalisma og róttækrar verkalýðshreyfingar. Andkommúnisminn var snar þáttur fasismans sbr. And-Komintern-sáttmálann sem Þýskaland, Japan og Ítalía gerðu með sér 1936/37 og hljóðaði m.a. upp á hernaðarlega samstöðu ef til stríðs kæmi við Sovétríkin. Nasisminn er  sérlega hættuleg og árásarhneigð tegund heimsvaldastefnu og þýskt auðvald sýndi nú meiri útþenslu- og árásarhneigð en nokkru sinni áður, sem birtist m.a. í innlimun Austurríkis í Þýskaland 1937 og hertöku og sundurlimun Tékkóslóvakíu í mars 1939. Spenna var mikil milli stóru heimsvaldaríkjanna en hins vegar höfðu þau sameiginlega afstöðu til Sovétríkjanna, fjandasamlega.
Friðunarstefnan og Sovétríkin
Árið 1936 hertók Þýskaland Rínarlönd og afnam afvopnaða beltið sem var lykilhlekkur í öryggiskerfi Versalasamningsins. Þetta gerði Hitler kleyft að ógna nágrönnum sínum í austri án þess að óttast eins mikið refsiaðgerðir að vestan. Í borgarastríðinu á Spáni 1936-39 höfðu Vesturveldin horft á spænska, þýska og ítalska fasista kæfa lýðveldið í blóði og höfðust ekkert að. Í Bretlandi og Bandaríkjunum var m.a.s. þátttaka sjálfboðaliða í Spánarstríðinu bönnuð með lögum. Sovétríkin voru eina ríkið sem veittu spænska lýðveldinu aðstoð í stríðinu. Þegar yfirgangur Þýskalands jókst, einkum með innlimun Austurríkis og vaxandi hótunum gagnvart Tékkóslóvakíu og Póllandi, leituðu Sovétmenn ákaft eftir varnarbandalagi við Frakka og Breta gegn yfirgangsseggjunum, bandalagi um  „sameiginlegt öryggi“ með gagnkvæmum skuldbindingum um sameiginlegar aðgerðir gegn yfirgangsstefnu Þýskalands. Stefna Kominterns og aðildarflokka þess var á sama tíma samfylking gegn fasisma. Þetta bar ekki árangur á taflborði Evrópu, friðunarstefnan (eða friðkaupastefna, appeacement) gagnvart Hitler var allsráðandi og skilaði 1938 Munchensamkomulaginu, stóveldasamkomulagi Þýskalands, Ítalíu, Englands og Frakklands, samkomulagi sem hélt Sovétmönnum rækilega utangarðs og var einmitt griðarsáttmáli Hitlers og Vesturveldanna.  Tékkar voru þvingaðir af stórveldunum fjórum til að fara að vilja Þjóðverja. Um samninginn í Munchen sagði sovéski varautanríkisráðherrann Potyomkin við franska sendiherrann í Moskvu: „Vinur minn aumi, hvað hafið þið gert? Ég sé ekki að við höfum völ á öðru en að skipta Póllandi í fjórða sinn.“ (A.J.P.Taylor, Hitler og seinni heimsstyrjöldin, bls 263)
Vesturveldin kenndu stefnu sína gagnvart Spáni, Tékkóslóvakíu og víðar við „ekki-íhlutun“. Stalín fordæmdi þá afstöðu og sagði eðlilegt að álykta af Munchensamkomulaginu að „tékkneslu landsvæðin hafi verið látin af hendi við Þjóðverja í endurgjaldsskyni fyrir að þeir hæfu stríð gegn Sovétríkjunum“. Á flokksþingi í mars 1939 lýsti Stalín afstöðu Sovétstjórnarinnar til friðunarstefnunnar: „…stefna ekki-íhlutunar felur það í sér að loka augunum fyrir árásarstefnu… Stefna ekki-íhlutunar sýnir áhuga og ósk um að hindra ekki árásarseggina í glæpsamlegri iðju þeirra; t.d að hindra ekki Japan í að hefja stríð við Kína, eða stríð við Sovétríkin sem væri enn betra; til dæmis að hindra ekki Þýskaland í því að hefja stríð við Sovétríkin; að leyfa stríðsaðilunum að sökkva djúpt í kviksyndi stríðsins, að örva þá til þess á laun, að leyfa þeim að veikja og uppgefa hvor annann, og birtast svo á sviðinu, þegar þeir eru orðnir nógu veikir, auðvitað „í þágu friðarins“, og ákveða friðarskilmálana fyrir þá.“ (Geoffrey Roberts, 2008,Stalin’s Wars: From World War to Cold War, 1939-1953, bls. 288) Sovétmenn töldu m.ö.o. að innihald friðunarstefnunnar væri tilraun til að snúa hernaði Hitlers í austur.
Hitler og Úkraína
Nokkrum dögum eftir undirritun Munchensamkomulagsins teiknuðu Hitler og Mússólíni upp nýtt ríki innan Tékkóslóvakíu, Karpató-Úkraínu, byggða Úkraínumönnum, og héraðið fékk sjáfsstjórnarstöðu. Það hafði hlutverki að gegna. Halifax utanríkisráðherra Breta skrifaði í janúar 1939 að „það var staðfest af mönnum nærri Hitler að hann áformaði útþenslu í austur, en í desember í Þýskalandi voru áætlanir um sjálfstæða Úkraínu sem hjáríki Þýskalands ræddar opinskátt.“ Og Hoarce Wilson sérlegur ráðgjafi Chamberlains sagði við sovéska sendiherrann í London að Úkraína væri næst á dagskrá hjá Hitler: „Hann mun beita sömu tækni og í Tékkóslóvakíu. Fyrst kemur vaxandi þjóðernisalda með uppþotum meðal almennings og síðan mun Hitler ráðast inn í nafni fresisins.“ (Aleksandr Dyukov og Olesya Orlenko (ritstj), Divided Eastern Europe, Borders and Population Transfer, 1938-1947, bls 3) Spurningin um Úkraínu var allvíða rædd, t.d. sagði Mannerheim, sá mikli andkommúníski hershöfðingi Finna, árið 1938 að „úkraínsk þjóðernishyggja mun verða einn helsti áhrifavaldur stjórnmála í Austur-Evrópu.“ (L. Luciuk, 2001, Searching for Place: Ukrainian Displaced Persons, Canada and the Migration of Memory, 115) Karpató-Úkraína lýsti yfir sjálfstæði strax eftir sundurlimun Tékkóslóvakíu í mars 1939 en var skömmu síðar hertekin af Ungverjum. Hitler hindraði það ekki, hann hafði þá hætt að veðja á þetta spil í bili. Pólskt svæði aðskildi Karpató-Úkraínu frá Sovét-Úkraínu, og Hitler var háður samvinnu við Pólland í sínum plönum. Pólland var að sínu leyti alveg mótfallið sjálfstæðri Úkraínu enda höfðu Pólverjar unnið stór úkraínsk svæði af Rússum í „framhaldsstríði“ þeirra við Sovétríkin 1920. Samskipti Hitlers við Pólland þróuðust síðan í átt til átaka vegna Danzig-deilunnar. Hitler breytti þá fyrri áætlunum um upphaf stríðsins (Aleksandr Dyukov og Olesya Orlenko, op.cit. 2-20).  Hins vegar viðhélt hann tengslum sínum við úkraínska þjóðernissinna, ekki síst í samtökunum OUN (Organization of Ukrainian Nationalists). Þegar kom að innrásinni í Sovétríkin dældu Þjóðverjar peningum í þau samtök og þóttust styðja úkraínskt sjálfstæði. Í staðinn börðust OUN með Þjóðverjum og frömdu óteljandi grimmdarverk á Gyðingum, Pólverjum og Rússum.
Griðarsamningur Hitlers og Stalíns
Þótt illa gengi að koma á viðræðum um varnarbandalag við Breta og Frakka gáfust Sovétmann ekki upp og fram eftir árinu 1939 sóttu þeir það enn fast. Vesturveldin svöruðu alltaf dræmt og seint og sendu loks síðsumars lágt setta embættismenn sjóleiðis (!) til Rússíá. Í viðræðunum sem fylgdu í Moskvu fyrri hluta ágústmánaðar sögðu Sovétmenn sig reiðubúna að senda um milljón manna her á vettvang, 120 herfylki stórskotaliðs, 16 riddaraliðsfylki, 9500 skriðdreka með meiru gegn Þjóðverjum ef þeir hæfu hernað til vesturs og þetta var nákvæmlega sundurliðað í tillögum þeirra
En fulltúar Vesturveldanna voru umboðslausir menn án leyfis til að leggja fram neinar tillögur á móti. Þar við bættist að Pólland, sem aðskildi Sovétríkin frá Þýskalandi, neitaði algjörlega að leyfa Rauða hernum ferð um pólskt land. Sovétmenn voru greinilega vinalausir meðal stórveldanna, einangraðir á berangri og óveður í aðsigi. Í þessari stöðu þáðu þeir þann griðarsáttmála sem þeim bauðst frá Hitler 23. ágúst 1939.
Eftir að Þýski herinn tók Pólland austur að ánni Veiksel kom Rauði herinn úr austri og tók austurhéruðin. Í samningi Mólotoffs og Ribbentrops höfðu Sovétmenn fengið viðurkennd sem áhrifasvæði þau svæði Póllands sem fyrir fyrra stríð voru innan Rússneka keisaradæmisins og voru að meirihluta byggð Úkraínumönnum og Hvítrússum. Sérstaklega þótti Stalín mikil nauðsyn að leysa það vandamál sem fólst í tvískiptingu Úkraínu milli Sovétríkjanna og Póllands.
Finnlandsstríðið
Samningurinn gaf Stalín frjálsar hendur gagnvart Eystrasaltsríkjunum og Finnlandi. Sovétmenn tryggðu sér skjótlega herstöðvar í Eystrasaltsríkjum (og innlimuðu þau í Sovétríkin ári síðar, um það ræði ég ekki hér). Jafnframt fóru þeir fram á landamærabreytingar við Finnland. Aðalkrafa Sovétmanna var að færa finnsku landamærin á Karelska nesinu norðar og vestar – þau lágu aðeins 32 km frá Leníngrad svo skjóta mátti á borgina frá Finnlandi. Einnig fóru þeir fram á aðstöðu á skaganum Hanko í mynni Finnska flóa að norðan (áður flotastöð Pétus mikla) eða hugsanlega á nálægri eyju, svo verja mætti sjóleiðina að borginni. Boðið var annað svæði á móti því sem Finnar myndu missa, tvöfalt stærra. Ekki samdist og „Vetrarstríðið“ hófst 30. nóvember 1939.
Sovétmenn vanmátu hernaðarlegan styrk Finna og virðast ekki síst hafa byggt plön sín á röngu mati af pólitísku ástandi í Finnlandi, sbr þá diplómatísku bommertu að setja á fót Kuusinen-stjórnina á herteknu svæði og reikna með að hún höfðaði til alþýðu Finnlands. Framan af sóttist sókn Rauða hersins seint og illa. Lengst var barist við Mannerheim-línuna, skammt frá landamærunum, sterka víglínu sem Finnar höfðu byggt upp með aðstoð Þjóðverja á 3. og 4. árataugnum. Það var ekki fyrr en í febrúar sem Mannerheimlínan var rofin og brotin og Finnland lá opið fyrir Sovésku hernámi þegar friður var saminn 12. mars. En Finnland hélt sjálfstæði sínu og friðarskilmálarnir gegn landinu voru ekki hertir að miklum mun. Sovétmenn voru ekki í landvinningastríði heldur voru að hugsa um landvarnir sínar og þá einkum öryggi Leníngrad. Ekki tókst samt að forða borginni frá voða stríðsins, í 1000 daga umsátri um hana dó um ein milljón borgarbúa (meira en t.d. Bretar og Bandaríkjamenn misstu samanlagt í stríðinu). Hitt varð ekki heldur fyrirbyggt að Finnar gengju í lið með Þjóðverjum í innrásinni í Sovétríkin.
Stuðningur Vesturveldanna við Finna
Vesturlönd sýndu ekki viðlíka „hlutleysi“ í Vetrarstríðinu eins og í Spánarstríðinu. Bretar og Frakkar voru formlega formlega í stríði við Hitler (frá sept. 1939) en höfðu enn ekki tekið upp neinn hernað gegn framrás hans. Fyrsta aðild þessara ríkja að stríðsátökum urðu stuðningur við Finnland gegn Sovét. Stríð þetta stóð aðeins rúma þrjá vetrarmánuði og tölur um vopnaaðstoð eru ekki auðfengnar. Skýrsla innan bandaríska hersins frá 1941 gerði eftirfarandi mat: „Hjálp veitt Finnum í hergögnum var veruleg. Rifflar, vélbyssur, loftvarnarbyssur og byssur gegn skriðdrekum, fallbyssur og stórkotaliðsvopn, skotfæri og flugvélar voru sendar frá Englandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Ítalíu og Svíþjóð. Bandaríski flotinn sendi  40 orustuflugvélar, Svíþjóð sendi 37 flugvélar og Ítalía sendi nokkrar sprengiflugvélar.“
Bretar og Frakkar undirbjuggu að senda herstyrk gegn Sovétmönnum á Petsamó-svæðið eða landleið gegnum Narvik í Noregi og Kiruna í Svíþjóð. Skandinavísku löndin voru formelga hlutlaus í stríðinu svo hér var í raun um að ræða plön um hernám norsku og sænsku norðurhéraðanna. Fyrir íhaldsliðið kringum Chamberlain og fyrir Daladierstjórnina frönsku var þetta einhvers konar framhald á Munchenstefnunni, málið var að veikja og einangra Sovétríkin og snúa stríðinu í austur. Þeir sömu aðilar sem beittu sér mest fyrir „ekki-íhlutun“ á Spáni gengu fram fyrir skjöldu í stuðningi við Finnland. Churchill, nýi varnarmálaráðherrann, var einnig mjög áfram um þátttöku í Vetrarstríðinu, en fyrir honum var hins vegar aðalmálið að stöðva stálútflutninginn mikla frá Svíþjóð til Þýskalands. En vopnahlé var samið í Finnlandi áður en innrásaráformin komust í framkvæmd. Hins vegar fóru miklar vopnasendingar breskra franskra og bandarískra vopna fram gegnum Noreg og Svíþjóð.
Þýskaland hafði gert griðarsáttmála við Sovétríkin og gat ekki stutt Finna beint. Það hindraði Þjóðverja ekki í að selja Finnum vopn í verulegu magni í Vetrarstríðinu. Þetta var gert leynilega í samvinnu við sænsk hermálayfirvöld. Vopnin voru formlega seld til Svíþjóðar en Svíar skipuðu þeim svo áfram til Finnlands (norski stríðssagnfræðingurinn Lars Borgersrud hefur margt ritað um hjálpina við Finna, sjá „Den hemmeliga våpenhjelpen“, Materialisten, Tidsskrift for forskning, fagkritikk og teoretisk debatt, 1/2 1988. Sjá einnig.
 Viðbrögð við Vetrarstríðinu á Norðurlöndum
Á Íslandi varð allmikil sefasýkisstemning út af Vetrarstríðinu, svonefndur „Finnagaldur“. Sósíalistaflokkurinn einn flokka varði aðgerðir Rússa, og naumlega þó því hann klofnaði um málið. „Undan ofurvaldi brjálæðisins sliguðust bráðlega þeir sem ekki höfðu af miklu að má. Þá varð ýmsum mest í mun að frýja sig ábyrgð á því að hafa farið með vopn á hendur Finnum, og sýndist þeim það liggja beinast við að taka undir galdurinn“ skrifaði Gunnar Benediktsson (Að leikslokum, 69). Ég hef áður skrifað um afstöðu íslenskra kommúnista og sósíalista til griðarsáttmála Hitlers og Stalíns og Vetrarstríðið m.m. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/271056/
Frá Svíðþjóð fóru 9000 sjálboðaliðar til að berjast með Finnum, um 1000 fór frá Noregi og annað eins fór frá Danmörku en komst ekki í tæka tíð nema í æfingabúðir. Um vopnasendingar Svía skrifar ein heimild eftirfarandi: „Svíþjóð sendi til Finnlands megnið af stórskotaliðsvopnum sínum, öll vopn sín gegn skriðdrekum og mikið af loftvarnarbyssum. Svíþjóð sendi líka 135.000 riffla, 302.000 handsprengjur, 216 stórskotaliðsbyssur og þriðjung af lofthernum. Afleiðing þess var sú að 9. apríl 1940 vantaði Svíþjóð mikið af nýtískulegri hergögnum sínum. Þau höfðu verið brúkuð upp í Finnlandi í Vetrarstríðinu.“ (Jill Stephenson, John Gilmour (ritstj.), 2013, Hitler´s Scandinavian Legacy, 106).
Noregur sendi vopn í verulegu magni til Finna, vopn sem Noreg skorti tilfinnanlega í innrás Þjóðverja skömmu síðar (sjá grein Borgersruds, áður tilvitnaða). Noregur vígbjó sig líka eftir að Vetrarstríðið hófst. Norski og herinn var þá allur gíraður inn á stríð við Sovétríkin nyrst og austast, 7000 manns voru sendir upp í Finnmörku og Norður-Noreg. Stórskotaliðið frá Austfold og við Óslófjörðinn var að miklu leyti sent upp í Finnmörku. Og yfirmenn hersins fylgdu því.  „…stóskotaliðið hafði verið veikt stórlega þegar fyrir innrásina vegna hjálparinnar við Finnland og að nokkru leyti vegna stríðsundirbúnings við Sovétríkin uppi í Norður-Noregi“ (Ottar Strömme 1977, Stille mobilisering, 32)  Uppstilling norskra landvarna var m.ö.o. í þá veru að óvinarins væri að vænta úr austri þegar þýski herinn kom siglandi úr suðri 9. apríl 1940. Varnirnar urður eftir því.
Líkt og ólíkt þá og nú
Líkt og 1939 hafa menn nú um árabil horft á eina heimsvaldablokk berjast fyrir heimsyfirráðum og veðja á hernaðarstefnuna í því augnamiði – og ráðast á land eftir land. Líkt og 1939 reyna þeir sem ógnað er að treyggja öryggi sitt og snúast til varnar. Að breyttu breytanda minna viðbrögð Pútíns á Krím á viðbrögð Stalíns í Finnlandi, harkaleg viðbrögð sem eru greinilega viðbrögð við fjandsamlegri innikróun.  Líkt og 1939 missýnist Íslendingum, eins og fleirum, um hina raunverulegu hættu og taka þátt í liðssöfnun í vitlausa átt.
Nú á dögum bætist annað við sem ekki átti við árið 1939. Nú ræður hinn herskái aðili ríkjandi fjölmiðlaneti heimsins og nýtir það af mikilli list til stríðsundirbúnings (sem hann gjarnan kallar „friðarumleitanir“). Fjölmiðlanetið er afar mikilvægt tannhjól í hernaðarmaskínu Bandaríkjanna og NATO-velda. „Rússland ræðst inn í Úkraínu“ glymur í eyrum okkar. Fjölmiðlanetið stundar andrússneska skrímslagerð og býr til andrúmsloft sem um margt líkist því sem var á Norðurlöndum og Vesturlöndum á tíma Finnlandsstríðsins.
Ekki falla öll vötn til stríðs 2014. Einn er sá þáttur sem vinnur gegn stríðshættunni, það er slæmt gengi hinnar herskáu Vesturblokkar og leppa hennar í hernaði sínum. Það á við um stríðið í Sýrlandi undanfarin ár og það á við í Austur-Úkraínu núna. NATO-fundurinn í Bretlandi varð því ekki eins stór áfangi í útþenslu bandalagsins og til stóð. Þetta er ólíkt t.d. Spánarstríðinu 1936-39 þar sem fasistablokkin hafði sigur og varð til að æsa árásarhegðun hennar.
Það er aðeins lítið brot bandaríska auðvaldsins sem hefur fræðilegan hag af því stríði sem í bígerð er, en þetta brot hefur völdin. Evrópa getur ekki orðið annað en fórnarlamb þessa stríðs. Það hindrar hana ekki – né Norðurlönd – í að styðja hernaðarlegan foringja sinn gegnum þykkt og þunnt að því er virðist, jafnvel þótt stríðið skuli háð við kjarnorkuveldið Rússland. Evrópa hefur enga sjálfstæða stefnu í málinu og sýnist heillum horfin. Þarna fara saman missýn á raunverulega hagsmuni, fylgispekt við yfirboðarann í vestri og – heimska í ómældu magni.

No comments:

Post a Comment