Sunday, August 17, 2014

11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum“


(Í framhaldi af grein minni um tortímingu þotunnar MH17 yfir Úkraínu sem líklegt hryðjuverk undir fölsku flaggi og stríðsundirbúning birti ég hér grein sem ég skrifaði 2007 um hryðjuverkin í New York 11. september 2001. Hún er sjö ára gömul en ég stend við allar meginniðurstöður. Hún birtist á Friðarvefnum og á eggin.is 8. og 14. des. 2007. Hluti hennar birtist í Fréttablaðinu 20. des. sama ár.)
Fréttamynd frá 11. september


Ég er orðinn nokkurn veginn sannfærður um að voðaverkin í New York 11. september voru innherjaverk úr bandarísku stjórnkerfi og leyniþjónustu. Þessi skoðun er útbreidd , einkum í Bandaríkjunum. Af hverju ræðum við hana þá ekki?
Hin opinbera skýring á 11. september stenst ekki. Fjölmörg atriði skera í augu.
Til dæmis það að allir turnarnir þrír skyldu hrynja nánast á hraða fallandi steins. Á kvikmyndum virðast þeir breytast í duft og hrynja án mótstöðu niður í gegnum sjálfa sig (einnig „turn númer sjö“ sem ekki varð fyrir neinni flugvél). Það er verkfræðingum ráðgáta hvernig brennandi flugvélabensín gat farið svona með stálgrind þessara bygginga.
Til dæmis það að enginn maður skuli enn hafa verið dæmdur fyrir illvirkin.
Til dæmis það furðulega flugafrek ungra og óreyndra Araba sem aldrei höfðu flogið farþegaflugvélum áður, en hittu samt með mikilli nákvæmni tilætlaðar byggingar, eða það að þeim tókst fyrst öllum að hverfa úr radarsambandi áður en nokkur flugmaður náði að senda út neyðarkall.
Ekki er saknað neinna farþega úr þeirri farþegavél sem á að hafa flogið á Pentagon-bygginguna.
Æðsti maður pakistönsku leyniþjónustunnar ISI, Mahmoud Ahmad, var í Washington dagana kringum 11. september og átti fundi með kollegum sínum hjá CIA og Pentagon. Mánuði síðar vitnaði indversk leyniþjónusta um peningasendingu fyrir tilstilli hins sama Mahmoud Ahmad inn á bankareikning flugræningjans Mohammed Atta í Flórída stuttu fyrir 11. september.
Atburðirnir á Manhattan 11. september komu eins og pantaðir. Þeir urðu startskot fyrir nýja og harðari heimsvaldastefnu Bandaríkjanna undir forystu nýhægrimanna. Jafnvel sjálfan 11. september var ekki aðeins lýst yfir stríði gegn Al-Qaeda og Talibanastjórninni í Afganistan heldur mæltist Rumsfeld til þess við herforingja sína að þeir undirbyggju hernaðaraðgerðir gegn Írak.
Bandaríkin eða önnur árasarríki hafa aldrei lagt fram snefil af sönnun fyrir því að Afganistan, eða Írak – hvað þá Íran – tengist neitt árásunum á þessa ágætu turna en hóta samt löndunum innrásum hverju á fætur öðru, og framkvæma þær síðan.
Við hljótum að spyrja: Hver hagnast á svona atburði? Múslímaríki? Pólitískir íslamistar? Eða þeir sem hyggja á innrásir í múslímaríki? Markmið pólitískra hryðjuverka á væntanlega að vera að vekja athygli á pólitískum málstað. En hryðjuverkin 11. september eða t.d. í neðanjarðarlestum Lundúna hanga eins og í lausu lofti. Skilaboðalaus. Það eru því fréttaskýrendur eða stjórnvöld sem túlka málstaðinn á bak við. Skjótt eftir 11. september lagði Bush fram hina einföldu skýringu:They hate our freedoms! „Með hverri kynslóð hefur heimurinn skapað óvini mannlegs frelsis. Þeir hafa ráðist á Bandaríkin af þvi við erum heimili og vörn frelsisins… Söguleg ábyrgð okkar er ljós: að svara þessum árásum og losa heiminn við mikið böl.“ (www.whitehouse.gov/news/releases/2001/09/20010914-2.html)
Við vitum nú að þær „sannanir“ um gjöreyðingarvopn sem Powell og Blair og co lögðu fram fyrir Öryggisráð SÞ og víðar vikurnar fyrir innrásina í Írak voru pantaður uppspuni frá leyniþjónustum þeirra.
Stríðsföngum sem eiga að tengjast Al-Qaeda er safnað í fangabúðirnar í Guantanamo á Kúbu. Þar hafa löngum setið 400-500 manns. Af þeim hafa um 10 verið ákærðir og enginn fundinn sekur um neitt. Af hverju? Kannski af því þeir hafa ekki framið nein hryðjuverk. Af hverju voru þeir fangelsaðir? Til að fylla út í mynd?
Er öll myndin af „hryðjuverkaógn“ einn lygavefur, spunninn upp frá rótum?
Með „hryðjuverkaógn“ sem réttlætingu geysast bandarískir heimsvaldasinnar ásamt bandamönnum fram, heyja „fyrirbyggjandi stríð“ með milljónum fórnarlamba, byggja herstöðvar og flytja aðrar í samræmi við nýjar strategískar línur (og olíuflutninga). Þeir snúa öllum staðreyndum á haus og lýsa fórnarlömbum árása sinna sem ógnun við Vesturlönd. Og hryðjuverkin sem eiga að vera réttlæting þessa „stríðs“ eru dularfull svo ekki sé meira sagt.
Heima fyrir setja þeir á sérstök hryðjuverkalög („Patriot act“) með víðtækri skerðingu mannréttinda. Þeir hervæða eigið efnahagslíf með stórkostlega auknum útgjöldum til hermála svo nú standa Bandaríkin fyrir a.m.k. helming herútgjalda á heimsvísu. Leyniþjónusta og hermálayfirvöld taka æ meir stjórnina í utanríkismálum í náinni samvinnu við Wall Street.
Bandaríkjastjórn er að ýmsu leyti hættulegri þjóðum heims en fyrri útþenslumenn eins og t.d. Hitler. Hún hefur miklu breiðara fylgi bandamannaríkja og hún hefur allt aðra áróðursstöðu en Hitler. Eins og hjá Hitler er bandarískum hernaðaráróðri mjög miðstýrt, stóru fréttastofurnar voru innbyggður hluti herfylkjanna í innrásunum í Afganistan og Írak. Allt sem snertir „stríðið gegn hryðjuverkum“ sækja þær beint til CIA og hermálayfirvalda. Hitt er verra: Sama lygasagan endurómar á flestum voldugustu fréttastofum heims, a.m.k. um hinn vestræna heim, þar með töldum öllum helstu fjölmiðlum á Íslandi. Það sem við heyrum er hin miðstýrða vestræna lygasaga.
Við sjáum æ betur að það stríð, sem farið var út í sem svar við 11. september, snýst ekki um það að stöðva yfirgangsmenn, koma á lýðræði, lögum og reglu né neitt í þá veru. Þetta er gamaldags ránsleiðangur og landvinningastríð. Íslenskir fjölmiðar viðurkenna að bandarískir ráðamenn hneigist vissulega til „hernaðarlegra lausna“ en gefa oft í skyn að þeir hrekist út í alls konar ófærur gegnum klúður og klaufagang. Það er rangt. Þeir hneigjast til kapítalískrar gróðasóknar og heimsvaldastefnu og þeir reka hana meðvitað, ekki fyrir mistök. Og þeir reka hernað sinn líka á vegum heimsvaldasinna allra landa. Heimsvaldakerfið er ein heild þrátt fyrir innri andstæður þess.
Púslubitarnir birtast okkur til gagnrýninnar skoðunar. Okkar er að raða þeim saman í heillega mynd. Myndin er ískyggileg. Hin efnahagslegu og hernaðarlegu yfirráð heimsvaldasinna á hnettinum kasta nú æ svartari skuggum á samtíð okkar og framtíð.
Önnur Perluhöfn?
Sérhverju ríki sem hyggur á stríð er það nauðsyn að byggja upp hernaðaranda heima fyrir. Til þess þarf að búa til þá mynd af „óvininum“ sem eykur stuðning við hernað gegn honum. Að því leyti voru ár kalda stríðsins þægileg vestrænum ríkisstjórnum: Óvinurinn var þarna! Það var auðvelt að benda á hann, kannski „fótósjoppa“ hann aðeins, og réttlæta þannig íhlutanir í fjarlægum löndum. Eftir 1991 urðu vandræði af því „óvinurinn“ var horfinn. Heimslöggan átti sér ekki sína gömlu réttlætingu. Þurfti þá ekki að búa nýjan óvin til?
Þann 11. september 2001 spratt hann fram, óvinurinn sem hafði vantað. Atburðina þann dag nýttu bandarísk nýhægriöfl til herkvaðningar fyrir afar herskáa heimsvaldastefnu. Bush forseti ku hafa skrifað í dagbók sína að kvöldi 11. september: „Það sem gerðist í dag var Perluhöfn 21. aldar“ (Washington Post 27. jan. 2002). Þetta samhengi sjá allir og viðurkenna. En er ekki nærtækt að leita skýringa á sjálfum atburðunum 11. september í þessu sama ljósi?
Á seinni árum hafa sífleiri höfundar gert einmitt það. Ég nefni höfundinn David Ray Griffin og bók hans The New Pearl Harbor frá 2004. Eins og margir fleiri nefnir hann í þessu sambandi stefnumörkun samtaka að nafni „Verkefni fyrir nýju amerísku öldina“ frá árinu 2000, samtaka nýhægrimannanna kringum Bush, með Cheney, Wolfowitz og Rumsfeld sem meðlimi. Þar sagði að Bandaríkin yrðu að snúa frá þróun 10. áratugarins í átt til afvopnunar og treysta hernaðarlega yfirburði sína til hnattrænna yfirráða. Því væri öðru brýnna
a) að efla hernaðarþátt hagkerfisins enn meir og hagnýta helstu tækninýjungar á því sviði,
b) tryggja yfirráð yfir helstu olíusvæðum heimsins. Talað var um olíusvæðin við sunnanvert Kaspíahaf og ríkin við Miðjaraðrhafsbotn og Persaflóa.
En fram kom að innra ástand og hugarfar landsmanna væri veikur hlekkur: „Að breyta bandaríska hernum herfræðilega í heimsvaldasinnaðan kraft hnattrænna yfirráða útheimtir geysilega aukningu á útgjöldum til varnarmála… Umbreytingin mun líklega taka langan tíma nema til komi hamfaraatburður (katastrófa) sem virkar sem hvati, líkt og nýtt Pearl Harbor.“ („Project for the New American Century“,Wikipedia)
Fyrir sæmilega gagnrýnið fólk hefði það mátt hringja klukkum grunsemdar að aðeins klukkutíma eftir árásina á turnana lýsti Bush-stjórnin yfir að Al-Qaeda bæri ábyrgð á henni og seinna sama dag sagði hún Talibanastjórnina í Afganistan meðseka (hýsill hryðjuverkamanna!) og um leið lýsti hún yfir „stríði gegn hryðjuverkum“ sem síðan hefur staðið. Engar sannanir. Ég og aðrir hugsuðu: Við fáum bráðum að vita sannanirnar. En þær voru aldrei lagðar fram.
Í Bandaríkjunum hefur olíuauðmagnið nú forskot á flesta eða alla aðra í aðgengi að stjórnsýslunni sem sést á því að Bush, Cheney og Rice koma öll beint úr olíufélögunum í stjórnmálin. Innrásir og íhlutanir bandarískrar heimsvaldastefnu eftir 1991 hafa orðið á stöðum sem svara fullkomlega til bandarískra olíuhagsmuna (breska og bandaríska olíuauðmagnið er reyndar mjög samrunnið). Í beinu framhaldi af atburðunum 11. september hafa Bandaríkin komið sér upp nýjum langtímaherstöðvum meðfram væntanlegum olíuleiðslum í Afganistan, Pakistan, Kirkistan og Úsbekistan [Georgíu, Azerbædjan?]. Tryggja þurfti lindir og flutningsleiðir á hinum ríku olíusvæðum við sunnanvert Kaspíahaf og nýta þá möguleika sem sköpuðust eftir 1991. Leiðin til Indlandshafs liggur um Afganistan og Pakistan. Önnur flutningsleið væri vestur um Kákasuslönd (Azerbædjan og Georgíu). En pólitískt ástand var víða ótryggt. Öðru brýnna var þó að tryggja sér Miðausturlönd og þá sérstaklega að skipta um stjórn í Írak.
Í viðbót við hina herskáu utanríkisstefnu olli 11. september líka straumhvörfum varðandi hert tök og eftirlit með eigin samborgurum. Völd þjóðþinga minnka, völd leyniþjónustu vaxa. „Í þessu alræðiskerfi í sköpun eru stofnanir borgaralegrar stjórnunar leystar af hólmi af stofnunum hers, leyniþjónustu og lögreglu. Í Bandaríkjunum hefur CIA í raun farið að leika hlutverk skuggaráðuneytis í því að móta og túlka bandaríska utanríkisstefnu. Þar að auki hafa störf leyniþjónustunnar runnið saman við störf fjármálakerfisins.“ (Chossudovsky, America´s „War on Terrorism“, 118).
Hryðjuverkalög
Í framhaldi af 11. september og aftur eftir sprengjurnar í London 2005 hefur verið komið á í áföngum sérstökum „hryðjuverkalögum“, fyrst í Bandaríkjunum síðan í Bretlandi, Evrópusambandinu og víðar. Eitt af því sem lögin gera er að tryggja aðgang lögreglu að persónuupplýsingum og skilríkjum, bankareikningum, heimilistölvum, einkasíma… Komið er upp miðlægum gagnagrunnum með miklu upplýsingamagni um þegna einstakra ríkja þar sem CIA hefur einnig aðgang að þeim. Heimildir og vald lögreglu hefur stórlega aukist. Annað sem hin nýja „öryggisvæðing“ samfélagsins gerir er að eyða aðgreiningunni á milli hers og borgaralegra stofnana. Sú aðgreining var jafnan mjög skýr í Bandaríkjunum en nú vinna fulltrúar lögregluríkisins að því að eyða henni í nafni átaksins gegn „hryðjuverkum“ og önnur lönd fylgja á eftir. „Stórabróðurþjóðfélagið“ er í öruggri þróun.
Hryðjuverk undir fölsku flaggi
Fulltrúar lögregluríkis og heimsvaldastefnu þurfa að „markaðssetja og selja“ „hryðjuverkaógnina“ af því hún er réttlæting fyrir íhlutunum í fjarlægum löndum og réttlæting fyrir hertum tökum á öllu andófi heima fyrir. Þegar „íslamskir hryðjuverkamenn“ hafa verið útnefndir sem hinn nýi óvinur er fullkomlega rökrétt hjá fulltrúum lögregluríkisins: a) að framkvæma hryðjuverk og koma sök á íslamista, b) að lokka reiða (og kannski heittrúaða) íslamista til hryðjuverka, c) að blása slík atvik upp í fjölmiðlum eins mikið og kostur er.
Við heyrum um mörg dularfull og mjög oft óupplýst hryðjuverk önnur en 11. september, sem skrifuð hafa verið á reikning íslamista eða múslímaríkja: Sprengingin yfir Lockerbie, sprenging í World Trade Center árið 1993, Madríd 11. mars 2004, neðanjarðarlestir Lundúna 7. júlí 2005, árásin á Gullnu moskuna í Samarra í febrúar 2006. Þessi voðaverk eiga það sameiginlegt að þau nýtast herskáum heimsvaldasinnum sem réttlæting gerða þeirra en þau munu aldrei geta nýst múslimum, hvorki í múslimaríkjum né á Vesturlöndum. Það má vekja grunsemdir um þessi hryðjuverk að hinum seku tekst yfirleitt á einhvern hátt að sleppa undan lögreglunni. Í því samhengi má vel leiða hugann að nokkrum sviðsettum hryðjuverkaaðgerðum frá tíma kalda stríðsins: Operation Northwoods 1962 gagnvart Kúbu (ítarlega undirbúin af CIA en hætt við), árás á bandarísk herskip á Tonkinflóa 1964, sem markaði upphaf loftárása á Norður-Víetnam eða svokallaðar Gladio-aðgerðir tengdar bæði CIA og NATO þar sem leyniþjónustumenn smugu m.a. inn í Rauðu herdeildirnar á Ítalíu á árunum 1969–1987 og komu í kring hermdaraðgerðum sem kostuðu hundruðir saklausra borgara lífið.
Íslamískir hópar
Í baráttu við Sovétríkin, einkum í stríðinu í Afganistan, varð til þýðingarmikið samstarf bandarískrar leyniþjónustu við andspyrnuöflin þar í landi sem eðlilega voru oftast íslamísk. Bandarísk vopnaaðstoð og sala kom þar mjög við sögu. Samtímis varð Pakistan að mikilvægasta bandamanni Bandaríkjanna á svæðinu. Landið fékk afar öfluga leyniþjónustu sem gegnt hefur lykilhlutverki við landvinninga Bandaríkjanna á nýjum svæðum. Það er auðskilið að ólíkir aðilar áttu samleið í því að fella og síðan leysa upp Sovétríkin, og í því verkefni kom CIA á samvinnu við litla skæru- og hryðjuverkahópa sem síðan hafa starfað í skuggsælum samböndum við leyniþjónustuna. Milligönguaðili er þá gjarnan pakistanska leyniþjónustunetið ISI. Menn sem virðast hafa tengst bandarískri leyniþjónustu á þessum tíma eru t.d. Sádinn Osama bin Laden og Jórdaninn Al-Zarqawi. Ekki veit ég hvernig tengsl slíkra íslamískra smáhópa eru við CIA eða hvernig þeir líta á hlutverk sitt. Hitt sýnist ljóst að bandarísk leyniþjónusta hefur veðjað mjög á suma þeirra og talið starfsemi þeirra geta gagnast vel bandarískum hagsmunum. Og þá er síst til skaða að viðkomandi hópar berjist opinberlega gegn Bandaríkjunum. Stuðningur við þá bak við tjöldin þjónaði einmitt því hlutverki að skapa hentugan ytri óvin. Sú óvinasmíði er síðan eitt meginverkefni leyniþjónustunnar – og hinna stóru stjórnhollu fréttastöðva.
Á tímanum eftir 11. september og kringum innrásina í Írak vorubandarískar almannavarnir aftur og aftur settar á næsthæsta viðbúnaðarstig (Code Orange Alert). Og ævinlega hefur þetta verið tengt við Al-Qaeda. Þann 5. febrúar 2003 lagði Powell utanríkisráðherra fyrir Öryggisráðið upplýsingar um dularfulla Al-Qaeda-menn í Írak (Al-Zarqawi) og aðgang þeirra að geislasprengjum og gjöreyðingarvopnum Saddams og tveimur dögum síðar var málinu í fréttastofum snúið yfir í yfirvofandi árás á Bandaríkin (ABC News, 9. febr. 2003). Um jólin 2003 voru stöðvaðar nokkrar Air France flugvélar til Bandaríkjanna og almannavarnir aftur settar á næsthæsta stig því sagt var að Al-Qaeda-menn væru þar að bóka sig. Fleiri viðvaranir komu síðar, m.a. á seinustu vikum fyrir bandarísku forsetakosningar 2004, um hugsanlegar árásir á flokksþing stóru flokkanna, síðan um árásir á Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og landið var enn og aftur sett á hátt viðbúnaðarstig. Upphlaup urðu um varnir gegn bólusótt frá Írak og uppþot vegna rísíns, taugagass og miltisbrands í Bretlandi og Bandaríkjunum komu í sambandi við stríðsviðbúnaðinn til þess fallin að vekja tilfinningu fyrir nauðsyn traustra hervarna og öryggisþjónustu (sjá t.d. „Anthrax attack on US Congress..“, Middle East Times, 11. des. 2006). Allur þessi viðbúnaður átti það sammerkt að hættan reyndist reist á hæpnum eða tilbúnum forsendum. Það kom aldrei fram á stóru fréttastofunum en rannsóknarblaðamenn og gagnrýnir höfundar hafa í hverju tilfelli rakið heimildaslóðina inn í myrkviði vestrænnar leyniþjónustu. Leyniþjónustan hefur þá staðföstu stefnu að upplýsa málin ekki en eftir sat jafnan sú tilfinning að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða gegn hinum voðalegu hryðjuverkamönnum.
Nokkrum sinnum hefur verið æft og undirbúið „hæsta viðbúnaðarstig“ (Code Red Alert) sem jafngildir herlögum í Bandaríkjunum. Æfingarnar eru takmarkaðar við þröngt lag efstu embættismanna innan lögreglu og ríkisstofnana, fjármálastofnana o.fl. Þær þjóna því að skapa samstöðu meðal æðstu embættismanna um stríðið sem kall tímans og samþykki við hugsanlegum herlögum í Bandaríkjunum. (Chossudovsky, America´s „War on Terrorism“, 306-7)
7. júlí 2005 sprungu þrjár sprengjur samtímis í neðanjarðarlestum Lundúna. Samdægurs lýsti Tony Blair Al-Qaeda ábyrg (að vanda án rökstuðnings). Scotland Yard-menn þeystu til Pakistan og hófu samvinnu við ISI. Fljótlega höfðu leyniþjónustur grafið upp nöfn tveggja bakmanna sem báðir væru tengdir Al-Qaeda, M.N. Noor Khan sem áður hafði tengst hryðjuverkaógn sem kom af stað „næsthæsta viðbúnaðarstigi“ í Bandaríkjunum á afar hæpnum forsendum (það var m.a. niðurstaða FBI, Chossudovsky, 332), menn hafa síðan rakið slóð hans til pakistönsku ISI. Hann ku hafa verið á fundum í Pakistan árið 2004 þar sem London-sprengingar voru undirbúnar (Chossudovsky, 333-4). Og fljótt kom upp annað nafn: H.R. Aswat, Breti búandi í Zambíu. Hann vinnur fyrir íslamísk samtök í Bretlandi, Al-Muhajiroun, sem hafa verið virk í Afganistanstríði, Bosníustríði og Kosovo-deilunni, og tengsl þeirra við bresku leyniþjónustuna MI6 hafa orðið æ augljósari. Síðustu vikurnar fyrir London-sprengingarnar var hann fangelsaður oftar en einu sinni af pakistönsku lögreglunni og einnig þeirri ísraelsku, en honum var jafn óðum sleppt að tilstuðlan MI6. (Chossudovsky, 336-38)
Írak
Samkvæmt hinni vestrænu lygasögu snýst stríðið í Írak um baráttu við hryðjuverkamenn. Fyrst voru „hryðjuverkamennirnir“ gjarnan sagðir gamlir Saddamistar (Bathflokksmenn) en jafnframt voru sífleiri andspyrnuaðgerðir eignaðar „erlendum vígamönnum“, einkum Al-Qaeda undir forustu hins blóðþyrsta jórdanska Al-Zarqawi. En snemma árs 2006 breyttist áróðurinn nokkuð snögglega og eftir það er stríðið í Írak sagt snúast um átök milli ofstækisfullra trúarhópa. Þetta lepja íslenskar fréttastofur eftir. Borgarastríð! rétt eins og aldrei hafi verið ráðist á landið.
Segja má að miklar sprengingar í Gullnu moskunni í Samarra í febrúar 2006 (reyndar varð aftur sprenging í moskunni árið síðar) hafi markað þau kaflaskil þegar Íraksstríðið fékk hið nýja innihald hjá vestrænum fréttastofum. Rétt eins og 11. september var skýringin tilbúin fyrirfram: Lýst var strax opinberlega yfir að sprengingin væri verk Al-Qaeda sem vildi koma á átökum milli Súnníta og Síta. Það var ekki útskýrt frekar og enginn raunveruleg rannsókn fór fram á sprengingunum. Fréttastofurnar löptu upp lygasöguna. Ári eftir sprenginguna vék New York Times þó út af sporinu og vitnaði í sjónarvotta (samhljóða ýmsum bloggurum í Bagdad) sem höfðu séð menn í búningum íraska innanríkisráðuneytisins (sem stjórnað er af CIA) fara inn í moskuna síðla kvölds og heyrðu þá vinna þar með borum og tækjum alla nóttina fyrir sprenginguna (Marc Santora, New York Times, 13. febr. 2007). Og AFPsagði frágang sprengjanna vera „verk sérfræðinga“ sem hefði þurft a.m.k. 12 tíma undirbúning.
Enn skal spurt: Hver hagnast á að sprengja Gullnu moskuna? Augljóslega getur slíkur glæpur aðeins gagnast hernámsöflunum, hann virðist vandlega hugsaður til að valda sundrungu meðal andspyrnuaflanna. Að nokkru leyti bar hann þann árangur. Hinir margreyndu Bretar gætu hafa gefið slíkt ráð til þess að „deila og drottna“ og innrásarmönnum gengur nú ögn betur en áður við sitt raunverulega ætlunarverk: að eyðileggja og sundurlima Írak. Ég geng út frá því að flest hryðjuverk í Írak séu runnin undan rifjum hernámsaflanna – og gætum að því að Írak er hernumið land og fréttir þær sem við fáum þaðan eru sagðar af hernámsöflunum.
Niðurlag
Víkjum loks aðeins að stærsta hryðjuverkinu, 11. september. Eitt af því fjölmarga kringum þá atburði sem truflar hina opinberu frásögn erpakistanski hlekkurinn. Hann kann að virka marklítill en er það ekki í ljósi þess sem hér hefur verið skrifað. Æðsti maður pakistönsku leyniþjónustunnar ISI, Mahmoud Ahmad, var í Washington heila viku fyrir 11. september og nokkrum dögum lengur og átti fundi með kollegum sínum hjá CIA og Pentagon og Dick Armitage, varautanríkisráðherra. Í því að þjarma að Talíbanastjórninni kaus Bush-stjórnin að leita fyrst af öllu samvinnu við Pakistan og Ahmad var þar lykilmaður. Mjög er sennilegt að á fundum hans með bandarískum ráðamönnum dagana eftir 11. september hafi stríð við Afganistan verið til umræðu. Þegar Ahmed kom heim sendi Pervez Musharraf hann til Afganistan með úrslitakostina frá Bush til Talíbanastjórnarinnar: Framseljið Osama bin Laden eða horfist í augu við innrás (The Washington Post, 23. sept. 2001). En þessi æðsti maður ISI hafði komið við sögu áður. Samkvæmt Times of India skömmu síðar (9. okt. 2001) vitnaði indversk leyniþjónusta um peningasendingu fyrir tilstilli Mahmoud Ahmad inn á bankareikning flugræningjans Mohammed Atta í Flórída skömmu fyrir 11. september (timesofindia.indiatimes.com/articleshow/1454238160.cms).
Það var ekkert leyndarmál að allt fram að innrásinni í Afganistan hafði Pakistanstjórn verið bandamaður Talibanastjórnarinnar og ýmsir rannsakendur (s.s. M. Chossudovsky) benda á margháttuð tengsl pakistönsku leyniþjónustunnar ISI við Al-Qaeda allt frá tíma Afganistanstríðsins á 9. áratugnum.
Það er ekkert auðvelt að kyngja því sem hér eru leidd rök að varðandi 11. september. Þá vil ég segja eftirfarandi: Við sjáum það á undirbúningi Íraksstríðsins, við sjáum það á öllum blekkingunum í kringum Guantanamo, við sjáum það á fangafluginu, við sjáum það á málatilbúnaðinum um hættuna frá Íran, við sjáum það á gjánni milli opinberrar myndar og raunveruleika í Afganistan eða Írak, við sjáum það þegar dæmin safnast saman að arðráns- og yfirgangskerfi heimsvaldastefnunnar (hvort sem hún ber fána USA eða t.d. ESB eða bara Actavis) er orðið svo stórt og ljótt að hún getur ekki viðhaldið sér nema með miklu og flóknu neti, lyga, blekkinga og spillingar.

No comments:

Post a Comment