Tuesday, July 8, 2014

Stutt færsla um nýja Íraksstríðið

(færslur á fésbókarsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga. Nokkur innlegg mín í umræðuna eftir að ISIS-islamistar hertóku stór svæði í Írak 10. og 11. júní)
Færsla Þ. Hj. 16. Júní: Fall Mósúl og Tíkrit fyrir litlum sveitum ISIS er óeðlilegt og gruggugt. Hersveitir ISIS eru aldar undir handarjaðri vestrænnar leyniþjónustu og er einkum stefnt gegn Sýrlandi, Hizbolla og Íran. Vissulega eru lönd þau sem sem vestrænir heimsvaldasinnar ráðast á (beint eða með staðgenglum) - Írak, Afganistan, Líbía, Sýrland, bráðum Úkraína - skilin eftir í rúst og upplausn. Sannleikurinn er þó enn ljótari - það stóð alltaf til. Ef vestrænt-hlýðin stjórn kemst ekki á þarna öðru vísi vilja heimsvaldasinnar heldur losa sig alveg við sjálfstæð ríki. Þeim hentar betur niðurbotin samfélög - svæði alveg opin fyrir hnattvæðingu auðhringanna - en fullvalda ríki (sjá hér).Þriðja Íraksstríðið er því ekki hlægilegt "klúður" heldur nýtt útspil þessum djöflapóker. Eins og stjörnublaðamaðurinn Seymour Hersh benti á 2007 (í "The Redirection") hafði Pentagon þá nýbreytt um aðferð í Miðausturlöndum. Herskáir súnnímúslimar (Al Kaída og tengdir) sem áður voru notaðir sem yfirvarp til íhlutana og átyllur til "stríðs gegn hryðjuverkum" voru í auknum mæli vopnaðir beint til að grafa undan óæskilegum stjórnvöldum. Þeim var stefnt gegn helstu andstæðingunum Vestursins, Íran/Sýrlandi/Hizbolla... með stefnu á „valdaskipti"...   

Nýjar Toyotur í ISIS-bílalest í Írak.  

Stefán Pálsson skrifaði 17. júní: „Ókey, nú er ég orðinn ringlaður: Bandaríkin og Íran eru í deilu á barmi styrjaldar. Þau eru þó saman í liði með Íraksstjórn á móti uppreisnarhernum í Írak - sem er reyndar sami uppreisnarherinn og Bandaríkin styðja í Sýrlandi gegn stjórnvöldum sem Íranir styðja. Þetta óvinalið er hins vegar fjármagnað af Sádi Aröbum sem Íranir hata en Bandaríkjamenn telja sinn besta bandamann...“

Svar Þ.Hj. 18. Júní. Já þetta hljómar kaótískt, af því veruleiki og yfirskin heimsvaldasinna er mjög sitt hvað - en veruleikinn hangir þó saman: a) fréttir um samvinnu USA-Íran eru uppspuni b) sjía-sinnuð stjórnvöld Íraks hafa styrkt sig (sigruðu í kosningum í apríl sl.) og eiga nú orðið vingott við Íran c) USA (gegnum Sáda o.fl.) stendur á bak við ISIS. Eins og ég skrifaði í fyrradag (vitnandi í Hersh) breyttu Bandaríkin um aðferð (Rederiction) um 2007. Af taktískum ástæðum höfðu þau stutt sjía gegn Saddam. Síðan hafa þau snúist af krafti gegn Íran og breytt um taktík. Rökrétt afleiðing er að þau yfirgefa Al Maliki. Loforð þeirra núna um stuðning við hann eru júdasarkoss á meðan þau stunda óformlegan en massífan stuðning við ISIS og skylda hópa.

Færsla Þ.Hj. 4. júlí. Án afláts leita heimsvaldasinnar átyllu til íhlutana. Árið 2001 hófu þeir á loft víorðið um alþjóðlegt „stríð gegn hryðjuverkum“ sem varð átylla þeirra til innrása í Afganistan og Írak og hernaðarbrölts og ihlutana vítt og breitt um hnöttinn. Síðan kemur æ betur á daginn að alræmdustu flokkar hryðjuverkamanna –  oftar en ekki tengdir Al Kaída – eru fótgönguliðar heimsvaldasinna í staðgenglastríðum þeirra þar og hér, með Líbíu og Sýrland sem skýr dæmi. Þegar hryðjuverkamenn eru meginátyllur íhlutana er afar hentugt fyrir heimsvaldasinna að hafa þá á sínum snærum. Hér er grein  sem bendir á það hvernig núverandi þróun í Írak, með stofnun sérstaks kalífats súnnía í miðhluta landsins og uppskipting þess, er nokkurn veginn í samræmi við það sem bandarískir strategistar, National Intelligence Council (NIC), sögðu fyrir í áætlunum sínum árið 2004. Sjálfuppfylltur spádómur, má segja.

No comments:

Post a Comment