Thursday, May 22, 2014

Blokkin og járntjaldið

Birtist í Fréttablaðinu 1. maí 2014
Járntjaldið er komið upp aftur – á nýjum stað. Það var tekið niður skamma stund meðan Rússland lá í djúpri kreppu með Jeltzín við völd, enda var hann handgenginn vestrænu auðmagni. NATO-blokkin náði þá stöðu sem nálgaðist heimsyfirráð og neytti nú yfirburða sinna. Blokk sú er fulltrúi auðhringja Bandaríkjanna og ESB fremur en fulltrúi þjóðanna. Ég kalla hana bara Blokkina. Hún notaði lægð Rússlands til að þenja NATO í austur. Hvert af öðru fengu fyrrverandi Varsjárbandalagsríki „samstarfsaðild“ að NATO til aðlögunar, svo fulla aðild. Síðar gerðist það sem hlaut að gerast – Rússland reis upp og leitaði hefðbundinnar stöðu sem stórveldi. Þá var járntjaldið sett upp aftur: Blokkin var nú langt komin með að girða Rússland vestrænum herstöðvum: í nýju Kákasusríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri með „samstarfsaðild“ og náið hernaðarsamstarf við NATO). Blokkin hefur þróað langdrægt skotflaugakerfi á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Rússar hafa fengið járntjaldið aftur, utan við stofugluggann.

Froða um lýðræði
Varnarsamstarf var snar þáttur í margfrægum samstarfssamningi Úkraínu við ESB. Hann átti að stuðla að „aðlögun“ og „dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu“. Sem þýðir á mannamáli? Aðild að NATO. Að stærsti granni Rússa í vestri gengi formlega yfir til andstæðinganna. Þá loks barði Pútín í borðið og fór að gera neyðarráðstafanir. Þá kom næsta skref: Í pressu sinni málar Blokkin upp skrímslið Pútín. Eins og hún málar alla andstæðinga sína; Milosévits, Saddam, Gaddafí, Assad… áður en hún greiðir höggið. Svo kemur viðskiptabann, diplómatísk einangrun, efldar NATO-„varnir“. „Varnir“ segja menn og gefa sér að Blokkin vinni að friði. En framanskráð heruppbygging lýsir engri friðsemd. Blokkin er jú árásaraðilinn í öllum helstu styrjöldum frá falli Múrsins. 

Með froðuna um lýðræði og mannréttindi vellandi úr báðum munnvikum beitir Blokkin fasistum og pólitískum terroristum til skítverka sinna í Kænugarði. Svipað og í Líbíu og Sýrlandi. Hið nýja er hins vegar það að gengið er yfir „rauða strikið“, þolmörk Rússlands. Man einhver viðbrögð Kennedys þegar Sovétmenn ætluðu með skotpalla yfir „rauða strikið“ í Kúbudeilunni? Ef Blokkin heldur áfram sturluðum heimsyfirráðamarsi sínum í sömu átt endar hún í stórstríði við Rússa sem yrðu váleg tíðindi fyrir Evrópu. Að vanda fylgir Ísland Blokkinni sjálfkrafa og vélrænt – nema skynugt fólk fari að tjá sig.

1 comment:

 1. Lán allt að $ 500.000 og lánslínur allt að $ 100.000
  Einföld umsókn, ákvarðanir í mínútum
  Finnst eins hratt og einn virkur dagur ef þú ert samþykktur
  Sölutrygging byggð á viðskiptasjóðstreymi, viðskipta- og einkaeign. Hafðu samband við okkur
  Netfang: atlasloan83@gmail.com
  whatsapp / hangout + 14433459339
  Atlasloan.wordpress.com

  ReplyDelete