Wednesday, July 2, 2014

Hreinsanirnar miklu í Sovétríkjunum

Nú mun ég bregða út af þeirri reglu að birta hér eingöngu efni sem áður hefur birst (prentað eða stafrænt) og birti hér alllanga fræðigrein um svonefndar „hreinsanir Stalíns“. Þetta er úttekt á vestrænum rannsóknum og skrifum um efnið í tímans rás. Ég ritaði greinina í tveimur lotum, 2002 og  2005. Ég hugsaði hana þá fyrir tímaritið Sögu og hún þvældist hjá ritstjórum ritsins drjúgan tíma en þeir kusu svo að birta hana ekki. Áður hafði ég rannsakað sovéska sögu talsvert og skrifað kandídatsritgerð mína við Óslóarháskóla árið 1991 á því sviði. Ritgerðin var verðlaunuð með „Arkivprisen“ og í framhaldi af því kom grein mín „Hvordan oppsto stalinsimen“ í Årbok for Arbeiderbevegelsens arkiv og bibliotek 1993. Það er ennþá viðkvæmt mál að fjalla um sovéska sögu Stalíntímans án skýrrar fordæmingar helstu gerendanna. Engu að síður er efnið afar mikilvægt í pólitískri jafnt sem sagnfræðilegri umfjöllun. Í allri umræðu um þetta mikla söguferli eru hinir örlagaríku „hreinsanir“ 1937-38 það sem oftast er vísað til og þær gjarnan látnar gera út um þá sögulegu tilraun sem Sovétríkin voru. Þess vegna er upplýst umræða um einmitt þá atburði svo mikilvæg.


Ný viðhorf í ensk-amerískum rannsóknum[1]

Hér verður gerð nokkur úttekt vestrænum rannsóknum sem gerðar hafa verið á hreinsununum Stalíns á síðustu tveimur áratugum – eftir að „perestrojka“ Gorbatsjovs hófst. Rannsónir frá enska málsvæðinu eru hér í fyrirrúmi. Að því leyti er greinin að nokkru „historíógrafísk“ en ég reyni þó alls ekki að vera hlutlaus og gefa heildarmynd af umræðunni um efnið heldur vel mér höfunda og reyni með hjálp þeirra að gefa heildstæða mynd af því sögulega ferli sem um ræðir. Sú mynd er því á mína ábyrgð.

“Hreinsanir Stalíns” voru atburðir sem höfðu meiri áhrif á alla síðari umræðu um sovéska sögu en önnur tíðindi frá Sovétríkjunum. Sú bylgja pólitísks ofbeldis sem reið yfir sovéskt samfélag á fjórða tug aldarinnar varð mjög til að sverta ímynd Sovétríkjanna en jafnframt hefur hún alla tíð verið sagnfræðingum sem öðrum bæði deiluefni og ráðgáta. Spurningarnar hafa verið þessar venjulegu: Hvað gerðist í raun og veru? Af hverju gerðist það? Svörin voru afar mismunandi. Um fjölda drepinna birtust áætlaðar tölur sem allar voru háar en mikið bar á milli höfunda, allt frá um hálfri milljón manna til tugmilljóna og áætlanir um mannfjöldann í GULAG-fangabúðunum voru álíka breytilegar. Skýringar sem gefnar voru á þessu ofbeldi voru ennþá margvíslegri og áttu oft lítið sameiginlegt sín á milli.

Hvað heimildir snerti var staðan óvenjuleg. Aðgengi að þeim var mjög takmarkað vegna strangra skorða sem Sovétstjórnin setti þegnum sínum í samfélagsumræðu um samtíð sem fortíð. Aðgangur þarlendra sagnfræðinga að heimildum var takmarkaður og undir ströngu eftirliti. Menn greindi mjög á um gagnsemi opinberra sovéskra upplýsinga sem allir vissu að höfðu farið gegnum ritskoðun. Á Vesturlöndum varð fljótlega fátítt að sagnfræðingar gleyptu hina sovésku túlkun atburðanna þótt sumir, þ.á.m. marxískt þenkjandi fólk, hefðu hana að mismiklu marki til hliðsjónar. Margir vestrænir sagnfræðingar höfnuðu öllum Sovét-ritstýrðum upplýsingum en byggðu rannsóknir sínar annars vegar á nokkuð hátimbruðum kenningum úr stjórnmálafræðum, kenningum sem tengdust mjög hugmyndafræðilegri umræðu kaldastríðstímans, og hins vegar á frásögnum flóttamanna, fórnarlamba fangabúða eða andófsmanna í Sovétríkjunum. Slíkir menn gátu gefið sterkar myndir af kúgunaraðgerðum en voru síður í aðstöðu til að greina baksvið þeirra eða orsakir.
         Staðan var ekki eins fyrir öll tímabil í sögu Sovétríkjanna. Um rannsóknir á fyrsta áratugnum eftir Októberbyltingu gegndi sérstöku máli. Árið 1929 markaði þáttaskil fyrir sagnfræðinga sem lögðu stund á sovéska sögu. Fram að því hafði pólitísk umræða í landinu um flest meginefni stjórnmálanna verið tiltölulega frjáls og opin og lá fyrir í blöðum og ritum sem voru aðgengileg sagnfræðingum. Þekktustu vestrænu rannsóknir á þeirri sögu eru 14 binda verk Bretans E.H. Carr, A History of Soviet Russia, en það nær einmitt yfir tímabilið 1917-1929. Síðustu ár Sovéttímans hafa einnig sérstöðu að þessu leyti. Fljótlega eftir komu Gorbtsjovs til valda árið 1985 hóf hann sitt glasnost og við það breyttist heimildastaðan til mikilla muna, sem og aðstæður sagnfræðinga í Sovétríkjunum. Uppgjör við hina gömlu, opinberu sögutúlkun hófst og sovéskir sagnfræðingar og einnig tugþúsundir almennra Sovétborgara lögðust í ástríðufullt sagnfræðilegt grúsk í nálægri sögu heimalandsins. Í tengslum við þá áhugabylgju, og aukið aðgengi að heimildum, blossaði einnig upp áhugi á sovéskri sögu á Vesturlöndum.
Svo féll múrinn árið 1989 og Sovétríkin hrundu tveimur árum síðar. Eftir það hefur staðan breyst ennþá meira fyrir sagnfræðinga og tala má um offramboð heimilda. Á hinn bóginn hefur áhuginn á Vesturlöndum, einnig á Íslandi, fyrir því sem raunverulega gerðist í Sovétríkjunum minnkað til mikilla muna eftir lok kalda stríðsins. En í ljósi þeirra gríðarmiklu áhrifa sem Sovétríkin höfðu á vestræna sögu, íslenska sögu meðtalda, ættu öll „ný tíðindi” af þeim að vera vel þegin, auk þess sem uppgjör við sovéska sögu hlýtur að vera meginmál fyrir alla sem gera ráð fyrir því að sósíalismi eigi enn hlutverki að gegna í sögu mannkyns. Og vissulega hafa sovétólógar vítt um heim ekki hætt að rannsaka og skrifa um sitt svið, enda er víða um gróið og öflugt rannsóknarsvið að ræða.

Tótalitarisma-skólinn og endurskoðunarsinnar

Þær fræðikenningar til skýringar á þjóðskipulagi Sovétríkjanna sem algjörlega voru ríkjandi á Vesturlöndum a.m.k. fram á 9. áratuginn kenndu samfélagið þar við „tótalítarisma“. Oftast er það þýtt sem alræði sem er óheppilegt þar sem það er einnig þýðing á orðinu „diktatúr“. Samkvæmt skilgreiningunni tekur „tótalítarískt“ ekki bara til valdsins heldur einnig samfélagsins sem valdið ríkir yfir. E.t.v. mætti þýða það sem “gjörstýring og kúgun.” Annars vegar stendur ríkisvaldið sem er einræði, nánast óháð öllum stéttum og þjóðfélagshópum, oftar en ekki í höndum eins manns, hins vegar er samfélagið, ómyndugt og valdalaust samfélag fórnarlamba, sem ríkið „gjörstýrir“ og getur mótað nánast að eigin vild. Þessi skilgreining var sniðin með Sovétríkin og önnur kommúnistaríki í huga en átti einnig að gilda fyrir Þýskaland Hitlers og önnur fasistaríki.[2] Samkvæmt þessari meginkenningu var allt vald í Sovétríkjunum saman komið í höndum Stalíns og atburðir og þróun stjórnmála þar yrðu helst skilin í ljósi persónuleika hans og duttlunga, hvort sem talað er um samyrkjuherferð, menningarmál eða flokkshreinsanir. Stjórnmál og þjóðfélagsþróun í þessu landi lutu þannig allt öðrum lögmálum en í öðrum samfélögum og aðferðir hefðbundinna þjóðfélagsvísinda voru þar ónothæf. Robert Conquest ritar: “Félagsfræðilega myndar hið tótalítaríska ríkisvald vogarstöng sem gefur einum manni eða fámennum hópi vægi á borð við heilar þjóðfélagsstéttir.”[3]
         Hreinsanirnar miklu hafa mikið verið skoðaðar í ljósi þessara kenninga. Ein túlkunin er sú að Stalín hafi þurft að lama samfélagið með ofbeldi til að koma á sinni gjörstýringu, þar sem öllum uppsprettum óháðs valds og sjálfstæðis í samfélaginu væri eytt.[4] Önnur túlkun er sú að valdið hafi þegar verið altækt en aðeins þurft að sanna sig.[5] Samt hefur nokkuð borið á milli höfunda í því hvað vakti fyrir Stalín og hverjum hann sérstaklega vildi útrýma.
Algeng útgáfa af fórnarlömbum Stalíns er að þau hafi alla tíð verið einkum menntamenn, ekki síst á sviði hugvísinda, m.a. rithöfundar. Myndin sem Solzhenitsin gefur í sögu sinni um GULAG-eyjarnar er sú að fórnarlömb ofsóknanna hafi einkum verið menntamennirnir vegna húmanískra viðhorfa þeirra og skoðana sem ekki féllu að Stalín-kerfinu, og átti það bæði við menntamenn frá keisaratímanum og Sovét-tímanum.[6] Robert Conquest segir í sinni víðfrægu bók um ógnaröldina að menntamenn hafi verið beittir kúgun “af sérstöku afli” og ennfremur að “allra þyngsti tollurinn virðist hafa verið tekinn meðal rithöfunda” þótt mikill fjöldi sagnfræðinga, vísindamanna, málfræðinga, heimspekinga og prófessora hafi einnig orðið fyrir sömu kúgun.[7] Fullyrða má að myndin af fórnarlömbum Stalíns sem menntamönnum (m.a. skapandi listamönnum) hafi verið ríkjandi, bæði í Rússlandi og á Vesturlöndum.
Önnur útbreidd útgáfa af hreinsununum á seinni hluta 4. áratugar er sú að snemma á þeim áratug hafi  Stalín farið að ofsækja alla sem á einhverjum tíma höfðu verið í andstöðu við forystuna innan flokksins og sakað þá um svik. Hann mætti andstöðu frá „frjálslyndari“ mönnum í flokksforystunni svo sem Kirov (flokksforingja í Leníngrad) og Ordzhoníkidze (ráðherra iðnaðarmála). Á flokksþingi 1934 hafi Kirov komið fram sem valkostur við Stalín og átt marga stuðningsmenn á efstu stöðum en það hafi ógnað stöðu Stalíns sem þurfti þá að losa sig við Kirov. Hann var myrtur 1. desember 1934 og NKVD-lögreglan átti þar hlut að máli, segir þessi útgáfa sögunnar. Innan skamms bjó lögreglan til þá sögu að morðinginn tengdist Zinovjev, fyrirrennara Kirovs í Leningrad, og öðrum andstöðuhópum. Stalín notaði svo morðið sem átyllu til sinna hroðalegu aðgerða. Með því að búa til sögu um geysivíðtækt samsæri náði hann höggstað á þeim sem hann taldi sér hættulega og þeir reyndust svona óskaplega margir. Valdi hans varð þá ekki ógnað framar. Á svipuðum slóðum eru þeir fjölmörgu sem telja að sálsýki Stalíns og valdafíkn hafi leitt af sér sjúklegt hatur á “gömlu bolsévíkunum” (hugtak notað um þá sem orðnir voru flokksfélagar fyrir byltingu) sem þekktu hann best og takmarkanir hans, og þeir hafi því orðið sérstök fórnarlömb ofsókna hans.[8]
         Hvað svo sem Stalín á að hafa gengið til hefur sá skilningur verið almennur meðal skýrenda að hreinsanirnar hafi verið þrautskipulögð aðgerð NKVD-lögreglunnar fyrir atbeina aðalritarans grimma sem þurfti að losa sig við raunverulega og ímyndaða andstöðu eða óvini. Í “leyniræðu” sinni árið 1956 kenndi Khrúsjov Stalín um flest sem aflaga fór í Sovétríkjunum, talaði m.a. um sjúklega tortryggni hans og ofsóknaræði, og það varð til að skerpa enn frekar fókusinn á persónu aðalritarans í sögulegum skýringum atburðanna.
Róttæk og víðtæk endurskoðun þessara viðhorfa hefur ekki síst komið þaðan sem hennar var e.t.v. síst von, frá Bandaríkjunum. Heyrt hef ég þá skýringu á því að bandarísk yfirvöld hafi varið miklu fjármagni í rannsókn sovéskra málefna, m.a. á 8. og 9 áratugnum, meðan Sovétríkin voru enn helsta viðfangsefni bandarískrar utanríkisstefnu. Meðan „tótalítaristar“ réðu sviðinu þjónuðu sagnfræðirannsóknirnar vel áherslum ríkjandi stjórnmála. En til lengdar varð ekki hjá því komist að aðrar niðurstöður rannsóknanna kæmu einnig fram.
Í lok 7. áratugarins fóru að birtust rannsóknir sem endurskoðuðu niðurstöður tótalítarisma-skólans hvað varðaði tímann eftir Stalín og ekki síður NEP-tímann á 3. áratugnum, fyrir hinn eiginlega Stalíntíma.[9] Frá því um 1980 kom svo fram nýr skóli sögulegra endurskoðunarsinna sem hafnaði kenningum tótalítarisma-skólans einnig fyrir Stalíntímann. Kastljósinu hefur mjög verið beint að samskiptum ríkis og samfélags. Endurskoðuð er myndin af einræðislegu ríkisvaldi sem eitt er gerandi og drottnar yfir óvirku samfélagi þolenda. Í staðinn birtist mynd af ríkisvaldi og samfélagi sem hvort um sig er klofið þversum og langsum og þar sem stjórnmál mótast í gagnvirkum samskiptum stjórnmálamanna, hagsmunahópa og þjóðfélagshópa. Í rannsóknum á hreinsununum miklu er J. Arch Getty í sérflokki. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um það efni auk fjölda greina og hefur hann öðrum fremur mótað umræðuna um það svið í seinni tíð. Hér er þó stuðst við fjölda annarra höfunda á sviði pólitískrar sögu. Félagssögulegar Sovétrannsóknir hafa einnig blómstrað á þessum síðustu áratugum og er Sheila Fitzpatrick mikilvirkur frumkvöðull á því sviði sem ber að nefna.[10] Auk amerísku sagnfræðinganna er hér talsvert stuðst við breskar rannsóknir, einkum á sviði hagsögu. Rannsóknir á því sviði hafa þróast þar á löngum tíma, ekki síst í Birmingham, undir forystu R.W. Davies sem var náinn samstarfsmaður og síðan nokkurs konar eftirmaður E. H. Carr.

Hve margir drepnir eða sendir í GULAG?

Spurningin um umfang kúgunar Stalíns ætti að vera orðin auðveldari viðfangs en áður var. Skjalasöfn gömlu Sovétríkjanna hafa flest verið opnuð og munar þar mest um skýrslur úr höfuðstöðvum hinnar pólitísku lögreglu Sovét-tímans eða innanríkisráðuneytisins (með breytilegum nöfnum á 3. og 4. áratug: GPU, OGPU, NKVD) sem annaðist fangabúðir, fanganýlendur sem og allar útlegðarrefsingar (innanlands) og á 4. áratugnum stjórnaði einnig almennu lögreglunni. Opinberir arftakar þessarar stofnunar hafa látið frá sér tölur um vistmenn en samanburðartölur hafa einnig fengist úr réttarskjölum, frá ráðuneyti efnahagsmála, manntali áranna 1937 og 1939 o.s.frv.[11] Birting talnanna hefur eðlilega þrengt mjög olbogarýmið fyrir þær frjálslegu getgátur sem áður voru stundaðar af svo miklum áhuga. Hér að neðan verða nefndar nokkrar tölur úr þessum heimildum.
         Hve margir voru í fangabúðum Stalíns á fjórða áratugnum? Aðferðir við útreikninga hafa verið breytilegar milli heimilda en ekki svo að miklu muni. Fangavist í Sovétríkjunum má í meginatriðum skipta í þrennt. Fyrstar eru illræmdar stritvinnuvinnubúðir, oftast nefndar GULAG, í öðru lagi svonefndar “vinnunýlendur” með betrunnarvinnu fyrir skammtímafanga (minna en 3 ár) og loks fangelsi. Á öllum þessum stöðum dvöldu bæði pólitískir fangar og almennir fangar. GULAG-búðirnar voru stærstar og pólitísku fangarnir voru oftar en ekki vistaðir þar. Gróft reiknaðar tölur má sjá í eftirfarandi töflu:

Vistmenn í fangabúðum og fanganýlendum Sovétríkjanna á tímabilinu
1934 - 1940 (milljónir).
               GULAG-búðir      vinnunýlendur
1934             0,5                   -
1935             0,7                   0,2
1936             0,8                   0,5
1937             0,8                   0,4
1938             1,0                   0,9
1939             1,3                   0,4
1940             1,3                   0,3

Þetta voru þær stofnanir þar sem fangar voru í fastri vist. Tölur um vistmenn fangelsa eru óljósari enda var dvöl í fangelsi gjarnan bundin við tímann meðan réttað var í málum manna eða þá millistig milli varanlegri vistunarstaða. Af takmörkuðum heimildum má geta sér þess til að sovésk fangelsi hafi vistað á bilinu 0,3 til 0,5 milljón manns á þessu árabili.[12]
         GULAG-fangabúðirnar urðu heimsþekktar með sögum Solsjenitsyns. Aðbúnaður þar var vondur og æði margir dóu áður en þeir höfðu afplánað refsingu sína. Skrár frá yfirstjórn búðanna sem nú hafa birst sýna að dánartíðni var há en ekki frámunalega há á umræddu tímabili, 3 - 4% flest árin, en á stríðsárunum versnuðu aðstæður mjög og fangarnir hrundu niður af vannæringu og illum aðbúnaði svo verstu árin, 1942-43, mun dánartíðni í fangabúðunum hafa verið 23%.[13] Hafa má í huga að almenningur Sovétríkjanna (nema helst í hernum) var þá sjálfur við hungurmörk.
Það var reyndar ekki svo að meirihluti fanga í GULAG-búðunum á fjórða áratugnum væru titlaðir pólitískir fangar, þ.e.a.s. dæmdir fyrir “glæpi gegn byltingunni”. Hlutfall hinna pólitísku fanga í Gúlaginu var 26% árið 1934 (það ár voru t.d. 34% fanganna dæmdir fyrir þjófnað), komst lægst 12,8% árið 1936 en hækkaði svo ört og var í hámarki, 34,5%, árið 1939.[14] Hið háa hlutfall pólitískra dóma var sérkennandi fyrir fjórða áratuginn því hlutfall pólitískra fanga lækkaði eftir stríðið.[15] 
         Loks ber að geta þess að Sovét-kerfið gat af sér eina mikilvæga tegund refsivistar fyrir utan fangabúðir og fangelsi: það voru svokölluð “sérstök landnámssvæði”, oftast lítt byggð og ómild útkjálkasvæði í Norður-Rússlandi og Síberíu. “Innanlandsútlegð” var það oft kallað þegar fólk var skikkað þangað. Landnámssvæðin voru einnig undir stjórn innanríkisráðuneytisins (NKVD-lögreglunnar). Stofnað var til margra þessara svæða á tímum samyrkjuherferðarinnar þegar þangað voru sendir “kúlakkarnir”, efnaðari bændur, eftir að lönd þeirra voru tekin eignarnámi. Talið er að um 400.000 bændur hafi fengið þá meðferð, með heimilisfólki sínu voru þeir alls um 2 milljónir á árunum 1929-1931 og þar dvaldi að jafnaði ítæp milljón manns á tímabilinu 1935-1940.[16] Þessi „sérstöku landnámssvæði“ voru reyndar misjöfn. Kúlakkarnir voru sviptir borgaralegum réttindum og máttu ekki ferðast út af þessum svæðum. Önnur slík svæði urðu t.d. búsvæði vissra þjóðflokka í miklum nauðungarflutningum á 4. áratugnum og á stríðsárunum. Réttindi þess fólks voru yfirleitt talsvert meiri en kúlakkanna eins og síðar greinir frá.[17]

Hve marga drap Stalín? Árið 1988 komst nefnd skipuð af Gorbatsjov-stjórninni að því með því að kemba KGB-skjöl að alls hefðu 786.098 verið dæmdir til dauða fyrir glæpi gegn byltingunni og ríkinu á tímabilinu 1930-1953, sem er nálægt því sem við köllum Stalín-tímann. Það er há tala þótt ekki nálgist hún verstu tröllasögurnar um glæpi Stalíns. Glæpir gegn byltingunni og glæpir gegn ríkinu voru mjög vítt skilgreindir í sovéskri refsilöggjöf og taldir alvarlegastir glæpa en þó er ekki líklegt að þeir hafi náð yfir allar aftökur og heildartalan væri þá nokkru hærri. Hitt sýnist furðulegra að af þessum fjölda dauðadóma voru 86,7%, eða 681.692 alls, kveðnir upp á tveimur árum, 1937 og 1938, álíka há tala hvort ár.[18] Séstaða þessara tveggja ára verður augljós ef þau eru borin saman við tímabilið á undan. Næstu fimm ár á undan (1932-1936) voru árlegar aftökur á bilinu frá 1.100 til 2.700.[19]

Hver voru fórnarlömbin?

Nýjar rannsóknir styðja ekki þá hugmynd að hreinsanirnar 1937-1938 hafi beinst sérstaklega að menntamönnum. Sumir eldri vestrænir höfundar höfðu reyndar haldið því fram að þær hafi einkum beinst að kommúnistaflokknum,[20] og tengist það þá áðurnefndri kenningu um að Stalín hafi talið sig þurfa að uppræta útbreidda andstöðu gegn sér meðal flokksmanna. Slíkar kenningar studdust m.a. við þær válegu tölur Krjúsjovs í “leyniræðunni” frægu 1956 um að af 139 félögum og varafélögum í miðstjórn sovéska flokksins sem kosnir voru á 17. flokksþinginu 1934 hafi 98 eða um 70% týnt lífi fyrir 18. þingið 1939.
Snemma kom fram sú skoðun í sagnfræðilegri umræðu að hreinsanirnar hafi beinst mjög að fólki ofarlega í samfélagsstiganum.[21] Ekki er mér kunnugt um neina víðtæka tölfræðilega og félagssögulega úttekt á fórnarlömbum ofbeldisins 1937–38, hefur enda ekki verið hægt um vik að kanna það og er naumast ennþá. Þó hefur málið verið kannað út frá nokkrum upplýsingum sem fyrir liggja.
         Sheila Fitzpatrick beitti einfaldri aðferð en trúverðugri svo langt sem hún nær. Hún rannsakaði símaskrár Moskvu og Leníngrad á fjórða áratugnum. Fyrir Moskvu var gefin út símaskrá í ársbyrjun 1937 og aftur 1939, þ.e. í upphafi hreinsananna og aftur að þeim loknum. Þetta gaf færi á að skoða mannfallið því reikna má með að þeir sem urðu fyrir hreinsunum hafi þá horfið úr næstu símaskrá. Þess má geta að eigendur og notendur síma í Moskvu máttu teljast forréttindahópur, lítill minnihluti borgarbúa (fjölgaði úr 58.000 árið 1937 í 74.000 árið 1939). Fyrsta verkefni könnunarinnar var að bera þennan tiltölulega stóra hóp saman við annan minni en voldugri, þ.e.a.s. embættismenn í ráðuneyti þungaiðnaðar, sem líklega var pólitískt séð mikilvægast allra ráðuneyta þennan áratug. Til þess hafði Fitzpatrick enn aðra skrá við höndina, skrá yfir starfsmenn iðnaðarráðuneytisins, sem einnig kom út í ársbyrjun 1937 og hafði að geyma nöfn æðri embættismanna ráðuneytisins, manna sem tilheyrðu „nómenklatúrunni“ (sjá aftar). Hún bar brottfallið úr 163 manna hópi þeirra saman við 721 manna samanburðarhóp almennra símnotenda. Árið 1939 reyndust 65 vera eftir af fyrrnefnda hópnum en 606 af hinum. Brottfall almennra símnotenda var því 16% en ráðuneytismanna heil 60%. Eitthvað af því skýrist með flutningum og af öðrum eðlilegum ástæðum á þessum umrótatíma[22] en þessar tölur gefa sterka vísbendingu um að það hafi verið mjög hættulegt að vera æðri embættismaður á sviði iðnaðarmála umrædd ár.
         Í öðru lagi skoðar Fitzpatrick brottfall í nokkrum starfsgreinum menntamanna (sérfræðinga, “professionals”) sem láta starfsheiti fylgja nafni sínu í símaskránni. Útkoma hennar er eftirfarandi (hlutfallslegt brottfall fylgir starfsheitinu í sviga): verkfræðingar (12%), læknar (3%), listamenn (17%), lögfræðingar (30%)[23], kennarar (16%), aðrir sérfræðingar (17%). Niðurstaðan er sú að þessar menntastéttir hafi alls ekki farið ver út úr hreinsununum en símnotendur almennt, reyndar heldur skár (brottfall þessara stétta 12% að jafnaði), og t.d. listamenn bjuggu aðeins við svipaða hættu og almennir símnotendur.
         Tveir aðrir bandarískir fræðimenn, J. Arch Getty og William Chase, hafa gert tölfræðilega könnun á persónuupplýsingum um fórnarlömb hreinsananna frá 1936 til 1939, nokkru viðameiri þeirri sem hér sagði frá. Könnunin stjórnast nokkuð af þeirri hugmynd sem þeir höfðu fyrirfram að hreinsanirnar hafi einkum beinst gegn sovésku elítunni. Hún er gerð á grundvelli gagna sem höfundarnir hafa safnað um einstaklinga í nómenklatúrunni á 4. áratugnum í gagnabanka sem þeir nefna The Soviet Data Bank. Í úrtakinu lentu hátt settir embættismenn í flokknum og í  ríkiskerfinu, menn sem fæddir voru fyrir 1915, menn sem dánardægur og dánarorsök lá fyrir um sem og embætti þeirra árið 1936. Úrtakið er 898 manns, valdir út frá mikilvægi embætta þeirra eftir reglum sem höfundarnir setja sér og á þannig sem næst að endurspegla nómenklatúruna. Þrír stærstu hóparnir voru: a) starfsmenn  flokksins frá framkvæmdanefnd (Politbjúró) og niður í flokksnefndir landshluta og borga, b) lykilmenn meðal skapandi listmanna og c) æðri stjórnendur á sviði efnahagsmála. Auk þessara stærstu hópa voru í úrtakinu yfirmenn í hernum, utanríkisþjónustu, lögreglu, stjórnarráði, félags- og heilbrigðismálum, samgöngumálum og verkalýðshreyfingu.
         Mannfallið var mikið, 47.6% úrtaksins létu lífið í höndum NKVD-lögreglunnar, sem styður þá kenningu að fólk í áhrifastöðum sem þessum hafi sem heild verið í mikilli hættu. Höfundarnir kanna síðan hvaða breytur í sambandi við störf þeirra og bakgrunn gerðu hættuna meiri og hverjar gerðu hana minni.
         Það kemur á óvart að stéttaruppruni manna skipti ekki miklu máli. Eina atriði í uppruna sem virtist skipta máli svo marktækt sé var það að fólk af bændauppruna var í nokkuð meiri hættu en fólk upprunnið úr bæjum. Tími og uppruni menntunar skipti ekki heldur máli, fólk menntað á keisaratímanum var ekki í meiri hættu en fólk menntað undir Sovétstjórn heldur svipaðri. Þvert á algengar hugmyndir reyndust langskólamenntaðir í minni hættu en fólk með minni menntun. Öll þessi félagslegu atriði höfðu t.d. skipt allt öðru og miklu meira máli í valdbeitinu stjórnvalda kringum 1930.
         Pólitísk staða og pólitísk fortíð skipti miklu meira máli en félagsleg. Fólk í þessu elítuúrtaki sem ekki var í Kommúnistaflokknum slapp miklu betur frá hreinsununum en flokksmenn. Í úrtakinu var brottfall óflokksbundinna um 17% en flokksbundinna um 56%. Það er því ljóst að hér var að miklu leyti um flokkshreinsun að ræða. Könnunin styður hins vegar ekki þá hugmynd að gömlu bolsévíkarnir (flokksfélagar frá því fyrir 1917) hafi verið sérstaklega í sikti lögreglunnar. Brottfall þeirra er svipað og fyrir flokksmenn í heild eða 58%. Sem vænta mátti voru þeir úr úrtakinu sem höfðu á einhverjum tíma verið í andstöðu við flokksforystuna í hættu staddir. Brottfall þeirra reyndist 84%. Þungvægasti þáttur könnunarinnar er hið skýra samhengi sem hún sýnir á milli pólitískrar stöðu eða ábyrgðarstöðu manna viðmiðunarárið, 1936, annars vegar og hins vegar hættunnar á að verða fórnarlamb hreinsana. Þeir sem gegndu háum áhrifastöðum í flokknum og ríkiskerfinu, yfirmenn í efnahagslífinu og í hernum voru verst staddir, og því ver sem áhrif þeirra voru meiri. Á eftirfarandi töflu má sjá nokkra hópa í mikilli hættu og aðra sem betur voru staddir.

Brottfall 1936 - 1939 miðað við starfssvið 1936

Herinn                      68.8%
Flokksmál                65.0%
Efnahagsmál            60.0%
Vísindarannsóknir    30.8%
Skapandi menntir     12.0%

Það blasir við af þessu að hreinsanirnar beindust öðru fremur að stjórnmálamönnum og mönnum starfandi á sviðum sem höfðu mikið pólitískt vægi. Og þetta hafði áhrif á flestar aðrar breytur í úrtakinu. Gömlu bolsévíkarnir voru fyrst og fremst í hættu af því að mjög margir þeirra voru í valdastöðum umrædd ár. Menntamenn voru ekki ofsóttir sérstaklega og um listamenn má segja að þeir hafi verið hlutfallslega öruggir enda voru þeir sjaldan mikið flæktir í stjórnmál.[24]
         Ofanskráðar tvær kannanir byggja ekki á mjög stóru úrtaki og hafa sínar takmarkanir. Þær beinast að efri stigum samfélagsins, í nágrenni valdamiðstöðva, ekki t.d. á landsbyggðinni, og önnur er að mestu bundin við Moskvu. Það styrkir þær hins vegar að niðurstöður beggja benda eindregið í sömu átt. Í skjölum Kommúnistaflokksins hafa verið gerðar fleiri staðbundnar kannanir á félagslegu innihaldi hreinsananna þessi ár og benda þær á sömu félagslegau samsetningu fórnarlamba.[25]

Eftirmálar Stalínbyltingarinnar

Áður en farið er nánar út í orsakir hreinsananna miklu er ástæða til að gefa gaum að þeim samfélagslegu skilyrðum sem þær áttu sér stað við. Aðeins skulu nefnd nokkur atriði sem geta kastað ljósi á árin 1937-38 og hjálpað til við að skýra þau.
         Að nokkru leyti má líta á allan fjórða áratuginn sem eftirmála þess sem fræðimenn nefna „Stalínbyltinguna.“ Mikilvægustu þættir hennar voru tvær miklar herðferðir, kenndar við iðnvæðingu og samyrkjustefnu. Þær komu í kring einhverjum mestu og hröðustu þjóðfélagsbreytingum sem orðið hafa í Evrópu fyrr og síðar. Októberbyltingin hafði í raun fyrst og fremst verið stjórnarbylting, pólitísk bylting, og í því Rússlandi sem kennt er við NEP, árin 1921-28, var fleira líkt en ólíkt með því sem verið hafði í Rússlandi keisaranna. Viðfangsefni stjórnvalda var þá að lappa upp á og snúa í gang hagkerfi sem hafði að stórum hluta stöðvast í heimsstyrjöld og borgarastríði. Í sveitum höfðu bændur á eigin spýtur skipt upp landi kirkju, krúnu og aðals og styrkt séreign sína á landi. Bolsévíkar réðu litlu þar um og áhrif þeirra á landsbyggðinni voru afar takmörkuð. Það var fyrst frá seinni hluta ársins 1928 sem efnahagsgerð, félagsgerð og flestum stofnunum samfélagsins í Sovétríkjunum var breytt á róttækan hátt.
         Þrátt fyrir ólíkar áherslur voru allir skoðanahópar innan Bolsévíkaflokksins á þriðja áratugnum sammála um nokkur grundvallaratriði: Sovétríkin yrðu að „ná Vesturlöndum“ að efnahagsstyrk. Það var ærin bjartsýni því landið var landbúnaðarland með vanþróaðan kapítalisma og framleiðslustig var svipað og í löndum Suðvestur-Asíu og fátækari hluta Suður-Ameríku.[26] Allir skoðanahópar bolsévíka töldu að lykillinn að sigri sósíalismans lægi í iðnaðinum. Sovétríkin þyrftu ennfremur að verða sjálfum sér næg í öllum helstu framleiðslugreinum og til þess yrði höfuðáherslan fyrst í stað að vera á þungaiðnað – til framleiðslu á framleiðslutækjum og fjárfestingarvörum – en neysluvöruiðnaður kæmi í öðru sæti. Markaðsstýringu yrði að miklu leyti kippt úr sambandi því fjárfestingar áætlanabúskaparins skyldu miðast við framtíðarþarfir ríkisins og pólitískar áherslur, ekki reikningslega hagkvæmni. Í þessu efni var þó áherslumunur milli skoðanahópa, einkum vildi svonefnd „hægri andstaða“ undir forystu Búkharíns fara sér hægar í afnámi markaðsstýringar.[27] Loks má nefna að flestir eða allir skoðanahópar töldu rétt að halda heilu og óskiptu Rússaveldi eftir því sem mögulegt væri. 
Hugtakið Stalínbyltingin er yfirleitt miðað við tímabil Fyrstu 5-ára áætlunar frá haustmánuðum 1928 til ársloka 1932. Þá var umbreytingin hröðust. Hlutfall bæjarbúa í Sovétríkjunum hækkaði úr 18% árið 1926 í 33% árið 1939[28] og megnið af þeim miklu flutningum varð einmitt á tíma fyrstu áætlunarinnar. Árið 1932 hafði iðnverkalýðurinn tvöfaldast á fjórum árum. Hagvöxtur var mjög mikill a.m.k. tvö fyrstu áætlunartímabilin en þá geysaði kreppa í auðvaldsheiminum.[29] Það sem þó var verulega afbrigðilegt var ekki hagvöxturinn heldur hin mikla umbylting á efnahagsgerð samfélagsins. Vöxturinn var að mestu bundinn við iðnaðinn, fjárfestingarstig í honum var ótrúlega hátt og þessu frumstæða bændasamfélagi var breytt í iðnaðarsamfélag með heljarátaki á örstuttum tíma. Hlutfall iðnaðar í þjóðartekjum óx úr 28% í 41% á fjórum árum, 1928-32.[30]
         Hinn meginþáttur Stalínbyltingarinnar var samyrkjuherferðin. Ekki var hægt að taka stökkið á iðnaðarsviðinu nema með stórauknu streymi landbúnaðarvara, einkum korns, til borganna og Stalínistarnir, sem báru sigurorð af Búkharínistum 1928-29, mátu það svo að að það útheimti samyrkjuvæðingu landbúnaðarins að miklum hluta. Ýmsar tilraunir voru gerðar til að herða á korninnheimtu með takmörkuðum árangri og matvörukreppan í borgunum gerðist viðvarandi. Samyrkjuvæðingin var í raun tilraun til að sprengja þá stíflu sem hindraði kornstreymið til bæjanna. Eftir vaxandi þrýsting á bændur um stofnun samyrkjubúa var ákvörðunin um samyrkjuvæðingu með valdi tekin, nokkuð snögglega, um áramótin 1929/30. Þetta var afar dramatísk aðgerð og má vel líkja við borgarastríð. Annars vegar stóð ríkisvaldið og hins vegar stór hluti bænda. Ekki verður fjallað um þann hernað hér, aðeins tæpt á nokkrum afleiðingum hans.
         Ein afleiðingin var sú að kúlakkarnir og þeirra fjölskyldur voru reknir af jörðum sínum. Það var mikill mannfjöldi, yfir ein milljón bænda (5 - 6 milljónir þegar heimilisfólk er talið með) af alls 25 milljónum bænda í landinu, um 400 þúsund þeirra voru send á áðurnefnd  “séstök landnámssvæði” í útkjálkum ríkisins (af þeim fóru sumir í vinnubúðir, sumir voru jafnvel teknir af lífi), annað eins mátti setjast að í útjaðri eigin þorps eða héraðs og a.m.k. 200 þúsund “afkúlökkuðust” af sjálfsdáðum og flýðu til borga eða annarra héraða.[31] Kúlakkar voru ekki aðeins efnaðasti hluti bænda heldur oftast lengst komnir á sviði tækni og framfara.
         Það er ljóst að hin geysiharkalega herferð átti mjög takmarkaðan stuðning meðal bænda. Nokkur hluti smábænda mun hafa stutt hana a.m.k. framan af en meginþorri bænda mun hafa verið henni meira eða minna andsnúinn en látið reka sig inn í samyrkjubúin frekar en sýna virka andstöðu þó að virk andstaða brytist líka fram á ýmsum stöðum. Þar að auki er ljóst að aðgerð þessi einkenndist af óskaplegu öngþveiti. Stjórnvöld gátu virkjað nokkra tugi þúsunda kommúnista og verkamanna, auk lögreglunnar, til að fara út í sveitinar og koma samyrkjubúunum af stað en sá mannskapur réð illa við hið tröllaukna verkefni. Með blöndu af loforðum, hótunum, valdbeitingu og ógurlegu öngþveiti, einkum í byrjun, voru samt tveir þriðju hlutar bænda komnir í samyrkjubú, “kolkósa”, árið 1933. Valdbeitingin og öngþveitið hafði alvarlegar afleiðingar. Andstaða bænda kom m.a. fram í útbreiddri slátrun húsdýra sem þeir kusu þá frekar að salta í tunnur en leggja inn í samyrkjubúin, fóðurskortur næstu árin varð orsök frekari niðurskurðar. Við lok herferðarinnar hafði bæði kúm og svínum fækkað um helming, kindum og geitum ennþá meira og hestum mjög verulega.[32] Árleg kornuppskera á fjórða áratugnum í heild hélst lík eða örlitlu meiri en síðustu ár fyrir samyrkju. En það voru verulegar sveiflur í henni, árin 1931 og 1932 voru slæm bæði vegna veðurskilyrða og svo öngþveitis og annarra afleiðinga hinnar nýafstöðnu herferðarinnar. Auk þess hafði ríkið aukið mjög korninnheimtu sína. Útkoman var hungursneyð til sveita í stórum landshlutum, verst var hún í Úkraínu, Volguhéruðum og Kasakhstan. Nýlegar áætlanir gera ráð fyrir hún hafi valdið dauða 4 til 5 milljóna, fyrst og fremst árið 1933.[33]
         Það blasir við að samyrkjuvæðingin tókst ekki vel hvað framleiðsluna snerti, sérstaklega ekki framan af. Um kornstreymið til bæjanna gegndi öðru máli en þar kreppti skórinn mest á NEP-tímanum. Fyrir 1929 höfðu stjórnvöld getað herjað út frá bændum um 10 milljónir tonna af korni árlega. Árin 1930 og 1931 náðust 22 milljónir, minna í hallærinu 1932 en fór svo vaxandi, m.a. með hjálp landbúnaðarvéla frá nýju verksmiðjunum, og 1938 - 1940 nam árleg innheimta 30 milljónum tonna.[34] Gegnum samyrkjubúin höfðu stjórnvöld stjórn á framleiðslu og afurðadreifingu landbúnaðarvara sem þau höfðu ekki áður. Það má því færa fyrir því sterk rök að samyrkjuvæðingin hafi verið nauðsynleg forsenda fyrir svo hraðri iðnvæðingu sem varð og áætlanabúskapnum á fjórða áratugnum, að svo hátt fárfestingarstig í iðnaði hafi ekki verið samrýmanlegt markaðsafstæðum milli ríkisins og bænda. Hitt er jafn ljóst að félagslega og pólitískt hafði samyrkjuvæðingin miklar og hrapalegar afleiðingar og takmarkaði allan frelsandi og skapandi mátt sovéska sósíalismans upp frá því og styrkti hina kúgandi þætti hans að sama skapi.
         Stalínbyltingin hafði sem sagt slæm áhrif á tengsl stjórnvalda við verkalýð og enn frekar við bændur. Svipað á við um menntamenn. Bolsévíkar áttu aldrei mikinn stuðning meðal rússneskra menntamanna. En á NEP-tímanum hafði flokkurinn haft takmörkuð afskipti af störfum „borgaralegra sérfræðinga“ sem lögðu sitt að mörkum m.a. á sviði framleiðslu- og efnahagsmála, enda var þeim málum að mestu stjórnað með viðurkenndum aðferðum klassískrar hagfræði. Þegar NEP-stefnan var kvödd og kasta skyldi flestum viðurkenndum mælikvörðum fyrir róða vakti það mikla faglega andstöðu meðal sérfræðinga á mörgum sviðum. Stjórnvöld svöruðu af hörku og nýju stefnunni fylgdu miklar hreinsanir meðal sérfræðinga og menntamanna; á annað hundrað þúsund starfsmanna hinna ýmsu ráðuneyta voru reknir úr starfi veturinn 1929 - 30 og nokkur hluti þeirra (lítið brot þó) var fangelsaður.[35] Í framhaldinu varð flokksstýring á faglegri umræðu flestra menntagreina mikil og samband stjórnvalda við menntastéttirnar varð þvingað.

Gerendur og þolendur

Eftir byltinguna 1917 og umskiptin miklu frá og með 1928 var sovékt samfélaga ólíkt öllum örðum samfélögum. Samfélagslegri starfsemi var mikið til stjórnað beint gegnum ótal skrifræðisstofnanir og félagssamtök sem samþættuð voru í eitt heildarkerfi. Þar var Kommúnistaflokkurinn æðri öðru skrifræði. Hann var samvaxinn ríkisvaldinu en teygði einnig anga sína til flestra samfélagshópa.[36] Ég kýs að kalla þetta skrifræðisbákn „flokksríkið.“ Löng valdaseta þessa eina flokks segir í sjálfu sér ekkert um hvaða stétt eða þjóðfélagshópar voru við völd eða hvað þjóðfélagsöflum flokkurinn þjónaði enda hreint ekki víst að flokkurinn sem gerði byltingu 1917 hafi þjónað sömu öflum eða stétt í lok valdatíma síns, 1991. Kerfi flokksríkisins var aðeins rammi utan um þjóðarlíkamann. Innan hans fór barátta stétta og þjóðfélagshópa sínu fram.
Efsta lag í þessu kerfi nefndist gjarnan „nómenklatúra.“ Í fyrstu þýddi það bókstaflega listi yfir stöður þær sem æðri einingar flokksins urðu að staðfesta ráðningar í en fór síðan í mæltu máli að þýða ráðandi hópur eða stétt. En stjórnkerfið var miklu stærra og náði yfir alla hina nýju embættismannastétt, mennina sem mönnuðu stjórnunarstöðurnar í hinu nýja atvinnulífi, stjórnkerfi og stofnunum flokksríkisins. Í kjölfar hinnar miklu miðstýringar Stalínbyltingarinnar, þegar nánast allri markaðsstýringu var kippt úr sambandi og flestu stýrt „með handafli“ eftir stjórnunarlegum leiðum segir sig sjálft að embættismannastéttin fór með gífurlega mikið hlutverk og einnig vald. Í upphafi Stalínbyltingarinnar var ráðandi stefna að sem mest skyldi manna þessi embætti nýju fólki úr verkalýðsstétt. Á þessum tíma var einnig mikil áhersla á að nýir félagar í flokknum kæmu úr röðum starfandi verkafólks en í framhaldinu lá leið flokksmanna æði oft í stjórnunarstöður.[37] Frá 1932 breyttist þessi stefna á ný, borgaralegir menntamenn komust aftur til virðinga og mjög dró úr þessari jákvæðu verkalýðsmismunun gagnvart embættum og flokksaðild. En staða og stjórnunaraðferðir þessara embættismanna varð eitt stærsta og heitasta málið á fjórða áratugnum og ekki síst í hreinsununum miklu.
         Verkalýðsstéttin, gerandinn mikli frá 1917,  var orðin breytt. Á tímabili Fyrstu 5-ára áætlunar hafði alls um 1,5 milljón verkamanna verið forfrömuð í stjórnunarstöður eða farið í framhalds- og langskólanám, en til samanburðar taldi verkalýður Rússlands árið 1926–27 ekki nema 4,5 milljónir.[38] Þessi stóri hópur hvarf því úr stéttinni. Samt tvöfaldaðist fjöldi verkalýðs í iðnaði á sama tímabili. Nærri þriðjungur starfandi iðnverkamanna í árslok 1931 voru nýgræðingar sem hafði hafið störf í þeirri atvinnugrein á árinu. Nýja verkafólkið var yfirleitt bændafólk sem höfðu horfið úr sveitaþorpunum við samyrkjuvæðinguna, var óvant iðanaðarstörfum og bæjarlífi og samsamaði sig ekki stefnu stjórnvalda í líkum mæli og verkalýðurinn gerði við upphaf stökksins mikla 1928. Innstreymi nýliða í verkalýðsstétt var mest í þungaiðnaði og allra mest á nýiðnvæddum svæðum í Síberíu og Mið-Asíulýðveldum.[39]­
         Rannsakendur eru sammála um að lífskjör verkafólks og bæjarbúa hafi versnað verulega á tíma Fyrstu 5-ára áætlunar og náð lágmarki í hallærinu 1932-33. Tímakaup verkafólks lækkaði um meira en helming fyrstu árin. Vegna þessa versnuðu lífskjör bæjarbúa en þó ekki í sama mæli og kaupið lækkaði af því á móti kom að störfum fjölgaði og fleiri fjölskyldumeðlimir unnu fyrir kaupi. Eftir 1933 bötnuðu lífskjörin fram til 1937 og teljast þá hafa náð a.m.k sama stigi og 1928, en í lok áratugarins versnuðu þau nokkuð aftur eftir því sem hergagnaframleiðslan gleypti sístækkandi hluta framleiðslunnar. Bændur voru ekki aðeins sviftir eignarrétti sínum heldur féll neysla þeirra mjög fyrstu árin, batnaði að vísu eftir 1933 en komst aldrei alveg fyrra horf á fjórða áratugnum. [40]Sovésk stjórnmál á fjórða áratug

Upphafin framtíðarsýn áætlananna og pólitískur eldmóður kommúnista og hluta verkalýðsins var sterkasti efnahagslegi hvati og drifkraftur áranna um og upp úr 1930. Hugsun bæði Leníns og Stalíns, og fylgismanna beggja, má kenna við „viljahyggju“ (voluntarisma). Þeir höfðu mikla trú á mætti viljans í uppbyggingu sósíalismans, hlutverki pólitískrar skipulagningar og skipulagningar til framleiðsluafreka meðal verkalýðs. Pólitík gilti  meira en hagfræði, pólitískir hvatar meira en efnislegir hvatar. Opinber stefna stjórnvalda var helst framkvæmd í formi herferða, nærri því í bókstaflegri merkingu, og ástandið líktist um margt styrjaldarástandi.[41] Þessi „herferðarstíll“ réði sérstaklega ríkjum á tíma Fyrstu fimm ára áætlunar. Sá her sem fylkt var til orustu í þessum herferðum var hinn stóri Kommúnistaflokkur og stærri eða minni hluti verkalýðsins. Að nokkru leyti voru þessar herferðir raunverulegar fjöldaaðgerðir. Mikilvægur aflgjafi þeirra var stuðningur meðal verkalýðs við hin þjóðfélagsslegu markmið herferðanna og hins vegar fjandskapur við það sem hindraði framgang þeirra. Sökudólgarnir birtust gjarnan sem einfaldaðar myndir af samfélagslegum og stéttarlegum óvinum hins framsækjandi verkalýðs.
Upphaf iðnvæðingarinnar fór fram undir merkjum „stéttastríðs.“ Verkamenn skipulögðu sig í „áhlaupasveitir“ í iðnaðinum, slógu framleiðslumet og höfðu „verkalýðseftirlit“ með stjórn verksmiðjanna. Ráðist var á „skrifræði,“ „borgaralega sérfræðinga,“ „borgaralega skemmdarverkamenn“ og hægfara „hægriandstöðu“ í flokknum. Þetta var opinber stefna en einnig stéttarleg hreyfing.[42]
Á sama tíma geisaði svonefnd „menningarbylting“ og fólst hún m.a. í árásum á borgaraleg menningarverðmæti, áhrif borgaralegra menntamanna í menningarlífi og þrýst var á um aukna flokksstýringu í menningarefnum. Um leið var hert mjög á þeirri stefnu að skapa stétt „rauðra sérfræðinga“ innan atvinnulífs og menningarlífs. Þessi herferð bjó sér einnig til ákveðna einfaldaða mynd af sökudólgum og stéttaróvinum í líki borgaralegra menntamanna.[43]
Samyrkjuherferðin var háð sem „stéttastríð“ og kúlakkarnir og fylgismenn þeirra voru stimplaðir sem borgarastétt í landbúnaði og stéttaróvinir. Dregin var upp einfölduð mynd af þeim sem óvinum sósíalismans. Þessi herferð hafði reyndar miklu minni einkenni fjöldahreyfingar en hinar og var í meginatriðum rekin áfram með her- og lögregluvaldi.[44]
Það var segin saga að allar þessar herferðir enduðu á því að flokkurinn varð að ráðast á „öfgar“ í framkvæmd þeirra og blása þær af í reynd með því að segja að taka þyrfti nú upp nýjar aðferðir. Það var nefnilega svo að þó að flokkurinn setti þessar stéttarlegu herferðir af stað þá hafði hann mjög takmarkaða stjórn á framkvæmd þeirra. Og í lok Fyrstu fimm ára áætlunar var meðvitað látið af „herferðarstílnum“ og á tíma Annarar fimm ára áætlunar 1933-1937 voru markmið og áherslur breyttar. Stjórnvöld kepptu nú að því að ná jafnvægi og stöðugleika í samfélaginu. Eftir „herferðarstíl“ samyrkjuherferðar og iðnvæðingaráhlaups tók við ný staða, ný viðfangsefni – og ný efni í innri flokksátök. Nefna má nokkur átakaefni.
Gangur og gangtruflanir í iðnaði voru eitt. Deilur um vaxtarhraðann þar brutust stundum upp á yfirborðið svo sem á 17. flokksþinginu 1934 milli „róttækra“ og „hófsamra.“[45] Flöskuhálsar og öngþveiti voru áberandi í framleiðslunni. Stjórnendur höfðu mikla tilhneigingu til að ýkja árangur sinn í framleiðslu og hagræða tölum um árangurinn miðað við afkastastaðla. Vinnuagi var vondur, bæði skróp og gegnumstreymi á vinnustöðum afskaplega mikið. Reynt var með löggjöf 1932 og 1938 að taka hart á ólögmætum fjarvistum með brottrekstri o.fl. en það hafði takmörkuð áhrif þar sem vinnuaflsskortur var mikill og verkafólk átti auðvelt að komast í nýja vinnu.[46]
Svipuð staða var uppi í landbúnaði. Staðbundin yfirvöld þvinguðu samyrkjubúin til aukinna skila á afurðum svo lítið var eftir til skiptanna. Bændur sýndu gjarnan áhugaleysi við vinnu utan eigin jarðaskika, enda lítil afkastahvetjandi umbun í boði, og stjórnendur svöruðu því með sektum og refsingum og höguðu sér meira sem harðstjórar en leiðbeinandi verkstjórar og það jók enn frekar mótþróa bændanna.[47] Flokkurinn var afar veikur á landsbyggðinni. Getty hefur reiknað út styrk hans í dæmigerðu landbúnaðarhéraði, Belyi í Smolensk-fylki. Þar voru 260 samyrkjubú með að meðaltali 3000 íbúa hvert og í þeim bjuggu 144 meðlimir Kommúnistaflokksins, þ.e. einn kommúnisti fyrir hver tvö bú, einn fyrir 6000 manns að jafnaði! Við slíkar aðstæður gat stjórn kommúnista naumast orðið lýðræðisleg, og smákóngavald var líklegri útkoma.[48]
Ein mikilvæg átakalína þessara ára voru átök jaðars og miðju. Það var mikið vandamál hvernig fá mætti stjórnkerfismaskínuna til að ganga þýðlega og láta að stjórn frá Moskvu, fá hana til að skila sínu í stjórnun og metnaðarfullri uppbyggingu án þess að skapa of mikinn núning og árekstra við þegnana. Allan áratuginn kvartaði miðstjórn flokksins reglulega um mikla misbresti í því að fá  „ákvörðunum  framfylgt,“ og ýmsar eftirlitsstofnanir voru settar á fót til þess en með takmörkuðum árangri. Stalín og vopnabræður hans töluðu þráfaldlega um stað- og svæðisbundna „stórbokka“ út um land sem hlýddu ekki skipunum og sjórnuðu eins og þeim sýndist. Valdamenn í héraði kæmu sér upp staðbundnum valdamiðstöðvum, söfnuðu um sig „fjölskyldu-hring“ og mynduðu klíkur, jafnvel „lén.“ Þeir beittu lögreglu og dómstólum sem stjórntækjum og styrktu þannig framkvæmdavald sitt og myndugleik. Þeir fynndu aðferðir til að ganga á skjön við flokkssamþykktir og túlka þær að eigin hentugleikum. Þetta snerti mjög flokksmaskínuna, ekki síst á landsbyggðinni því þar voru æðri sem lægri einingar Kommúnistaflokksins á kafi í stjórnun, efnahagsmálum og dómssmálum.[49] 
Smákóngavald samræmdist ekki opinberri stefnu flokksins. Popúlísk viðmið voru mikilvæg í málflutningi flokksins og auðvitað var það honum mikilvægt að fá allan þann stuðning „að neðan“ sem mögulegur. Í ljósi sögunnar var það sjálfsagt alveg óraunsætt  flokkurinn gæti losnað við smákóngavald. Það var ofurbjartsýni að ætla að flokksmenn gætu aflað hinni nýju stefnu fylgis og framkvæmd hennar gegnið mjúklega fyrir sig, allra síst á landsbyggðinni þar sem staða flokksins var veikust. Uppkoma óvinsælla stórbokka og smákónga var rökrétt afleiðing af framkvæmd Stalínbyltingarinnar, ekki síst samyrkjuherferðarinnar, afleiðing þess að róttækri umsköpun framleiðsluhátta, nýju stjórnkerfi og nýjum risavöxnum verkefnum var þröngvað upp á samfélagið hratt og harkalega.
         Enn eitt átakasvið ártugarins var dóms- og réttarframkvæmd. Ár Stalínbyltingarinnar höfðu einkennst af „stéttarlegu“ réttarfari. Réttarframkvæmd var þá skilgreind sem hluti af stéttabaráttunni gegn stéttarandstæðingum. Réttarkerfinu var beitt gegn ákveðnum samfélagshópum fremur en einstaklingsbundnum lögbrotum. Kúlakkar og prestar voru t.d. afgreiddir sem samfélagshópar fremur en einstaklingar. Þetta var „herferðarstíllinn,“ dómsframkvæmd þar sem hin pólitíska lögregla sá um framkvæmdina gegnum skyndidómstóla, nánast án réttarmeðferðar.[50] Í lok Stalínbyltingarinnar bættist við harðærið 1932-33. Þá voru sett tvenn harðneskjuleg lög, í reynd neyðarlög vegna hugnursneyðar: lög gegn þjófnaði á afurðum samyrkjubúa og lög um vegabréfsskyldu sem miðuðu að því að binda bændur við samyrkjubúin. Fyrst í stað var báðum þessum lögum framfylgt af fullri hörku og átti það stóran þátt í vexti GULAG-búðanna.[51]
         Árin 1933-36 tók réttarframkvæmd í Sovétríkjunum nýja stefnu. Stalínstjórnin hafði fundið út að „herferðarstíllinn“ í réttarframkvæmd væri óæskilegur því hann ynni stjórnarfarinu meiri skaða en gagn, eyðilegði stuðning við stefnu stjórnvalda, einkanlega á landsbyggðinni, og skapaði öngþveiti. Næstu ár voru tekin skref í átt að lögbundnu réttarfari, sett voru nokkur lög sem sviptu leynilögregluna rétti til að fangelsa fólk án heimildar frá saksóknara og dómstólum. Flokksbroddar fordæmdu fjöldafangelsanir og þá aðferð að nota fangelsanir sem stjórntæki. Embætti ríkissaksóknara var stofnað 1933 og átti að hafa eftirlit með dómsframkvæmd um allt landið. Auk þess að stöðva „herferðarstíl“ var mikilvægt markmið þessara umbóta sú viðleitni stjórnvalda að draga úr valdi og sjálfstæði flokksbrodda í héraði og afskiptum þeirra af réttarframkvæmd.[52] Þá dró mjög úr beitingu áðurnefndra neyðarlaga, ógiltir voru dómar í stórum stíl og föngum fækkað mikið, ekki síst þeim sem  dæmdir höfðu verið í sambandi við samyrkjuherferðina.[53]          Grundvallarmarkmið með ofantöldum réttarbótum var það sama og á öðrum sviðum: að vinna bug á öngþveiti og styrkja miðstjórnarvaldið. Átök urðu í flokknum um þessi mál. Árið 1937 reyndist fylgið við lögbundið réttarfar ekki nógu traust meðal æðstu ráðamanna og kúvending varð aftur á réttarþróuninni eins og brátt segir frá.


Utanríkis- og varnarmál

Utanríkismál áttu stóran þátt í að skapa pólitískt andrúmsloft þessara ára. Eftir valdatöku Hitlers 1933 fór vígvæðingin í Þýskalandi á fljúgandi ferð og fjandskapurinn við Sovétríkin var þar yfirlýstur í formi beinna stríðshótana. Sovétstjórnin hafði áður stórlega vanmetið hættuna af fasismanum en árið 1934 breytti hún um stefnu og fór að vinna ákveðið að sameiginlegum öryggisaðgerðum Evrópuríkja gegn uppgangi fasismans. Árið 1936 urðu a.m.k. tvenn tíðindi sem boðuðu Sovétmönnum vaxandi hættuástand. Í mars réðust þýskir herir inn í Rínarlönd og hernámu afvopnaða beltið sem verið hafði lykilhlekkur í öryggiskerfi Versalasamningsins og sú aðgerð gerði Hitler síðan kleyft að ógna öllum nágrönnum sínum í austri án þess að opna fyrir refsiaðgerðir að vestan. Í nóvember sama ár var undirritað And-Komintern-bandalagið milli Þýskalands og Japans sem hljóðaði upp á baráttu þessara ríkja við hina kommúnísku ógn heima fyrir og einnig hernaðarlega samstöðu ef til stríðs kæmi við Sovétríkin. Árið 1931 hafði Japan ráðist inn í Mansjúríu, síðar nokkur norðurhéruð Kína og gerði loks allsherjarárás á Kína árið 1937 og stóð þá ógnandi við sovésku austurlandamærin. Hvort um sig höfðu þessi ríki, ein og sér, sigrað Rússa í stórstyrjöldum fyrr á öldinni.
         Á seinni hluta fjórða áratugarins er auðséð hvernig varnarmál vógu stöðugt þyngra í öllum áætlunum stjórnvalda í Kreml. Þau mál höfðu frá upphafi verið helstu rök fyrir nauðsyn hraðrar iðnaðaruppbyggingar vegna óttans við að á landið yrði ráðist af einu eða fleirum hinna iðnvæddu auðvaldsríkja. Framan af var þó megináhersla á grundvallargreinar þungaiðnaðar svo sem málmvinnslu, efnaiðnað og véltækniiðnað til borgaralegra þarfa. Á tímum samyrkjuvæðingarinnar bættist svo við bráð nauðsyn á framleiðslu dráttarvéla og landbúnaðartækja sem hafði mikinn forgang framan af áratugnum. En í takt við nýjar viðsjár í alþjóðamálum jókst forgangur hervarna. Önnur fimm-ára áætlun, 1933-37, (bæði ár meðtalin) hafði lagt miklu meiri áhersu á neytendaiðnað en sú fyrsta og lífskjör fóru batnandi, en á miðju tímabili hennar var áætluninni breytt á róttækan hátt, fyrst og fremst vegna hernaðarlegra þarfa.[54]
Ekki aðeins neytendur þoldu fórnir vegna hernaðarútgjalda heldur komu þau einnig niður á fjárfestingarstiginu. Árið 1932 fóru 3,4% ríkisútgjalda til hers og hergagna en 65,2% til fjárfestinga í atvinnulífinu. Árið 1940 höfðu herútgjöldin hækkað upp í 32,5% en hlutfall fjárfestinga lækkað í 33,5%.[55] Árið 1941 gleypti hergagnaframleiðslan um 60% af allri framleiðslu málmvinnslu- og véltækniiðnaðar og 73% af heildarfjárfestingu þessara greina. Vöxturinn hélt áfram enda var hergagnaframleiðslan í stríðslok orðin 4-5 föld miðað við 1940.[56] Vart þarf að rökstyðja að hervæðingarstefnan sem tekin var upp um miðjan fjórða áratuginn hafði mikil og ill áhrif á aðra hluta hagkerfisins, þegar byssur komu í stað brauðs og neysluvarnings sem þó var mikill skortur á.
Árin 1936 og 1937, í aðdraganda hreinsananna miklu, voru erlendar fréttir í sovéskum fjölmiðlum fullar af fréttum af spennunni á sovésku landamærunum, ekki síst við Mansjúríu sem hernumin var af Japönum, frásögnum af árásum Japana í Kína og Þjóðverja og Ítala á Spáni. Mikið var einnig skrifað um hættuna á njósnum og þetta átti því snaran þátt í að auka spennuna í þjóðfélaginu.[57]

Hreinsanirnar voru fjölþætt ferli

Mörg sérkenni stjórnmála í Sovétríkjunum á fjórða áratugnum stöfuðu af því að stjórn Stalíns var að mörgu leyti mjög veik stjórn. Októberbyltingin var verkalýðsbylting í landi þar sem landbúnaður var ríkjandi í hagkerfinu, og í þessu landi einangraðist byltingin. Á NEP-tímanum og enn frekar eftir Stalínbyltinguna 1928-32 gengu bolsévíkar í þjóðfélagslegu landslagi sem var framandlegt og ekkert kort til af. Marxískar fræðibækur höfðu miðast við byltingu í þróuðum iðnríkjum. En á þessum grunni byggðu þeir sinn sósíalisma með áhlaupum og herferðum og gerðu stórhuga áætlanir fyrir risavaxið ríki sitt. Höfðu þeir bolmagn í slíkt, hafandi fyrst og fremst áhrif meðal lítillar stéttar iðnverkamanna? Menn voru í kapphlaupi við tímann, ekki síst af öryggisástæðun því þeir voru umkringdir óvinaríkjum. Innanlandsástand var einnig ótryggt og sérstaklega var ástandið á landsbyggðinni óstöðugt og válegt, ekki síst eftir kollsteypur samyrkjuherferðarinnar, m.a. vegna andófs bænda. Það þarf því naumast að koma á óvart að eitt megineinkenni stjórnvaldsaðgerða var óöryggi, óöryggi í ákvörðunum og tíðar endurskoðanir fyrri ákvarðana. Annað einkenni Moskvuvaldsins þessi ár var mikil innri átök þrátt fyrir þá mynd af kommúnískum járnaga sem stjórn kommúnista reyndi að gefa af sjálfri sér. Þar var þó ekki um að ræða ákveðna pólitíska andstöðu á efri stigum flokksins eins og sagnfræðingar hafa oft getið sér til um, tengda við Kírov, Ordzhoníkidse eða aðra. Fremur voru átökin milli hópa og hagsmuna í stjórnkerfinu og milli þess og samfélagsins. Ríkisvald Stalíns á fjórða áratugnum var ekki öguð og skilvirk maskína sem hlýddi einum járnvilja. Einingin á æðstu stöðum var veik og neðar í valdakerfinu var miðflóttatilhneiging, veikt skipulag, agaleysi og oft öngþveiti. Þetta var ekki gegnstýrt samfélag, nær væri að kalla það vanstýrt. Stjórnvöld settu sér að vísu óvenju víðtæk verkefni en þau voru of veik í of stóru og sundurleitu ríki. Eftir umrót Stalínbyltingarinnar er ljóst að eitt helsta málið á dagskrá stjórnvalda var þetta: að binda enda á öngþveiti, ná tökum á stöðunni og tryggja yfirvald stjórnvalda í Moskvu.  
Hreinsanirnar miklu voru þróunarferli. Ferli þetta var fjölriðinn kapall, snúinn saman úr ólíkum þáttum. Þáttanna gætti mismikið og á mismunandi hátt á mismunandi árabili fjórða áratugarins. Að nokkru leyti stríddu þessir þættir hverjir gegn öðrum og áttu sér ólíka stuðningsmenn innan stjórnmála og stjórnkerfis. Þættirnir voru þessir:
1) Flokkshreinsanir og hreinsanir innan sovésku elítunnar þ.e. efri laga flokksríkisins. Þær beindust á tímabili gegn stórum hluta embættismannakerfisins.
2) Leit að og árás á misjafnlega skilgreinda „óvini“ opinberrar stefnu og sósíalismans. Tengdist það allríkri „samsærishugsun“ meðal bolsévíka.
3) Árásir á jaðarfólk og fólk sem skilgreint hafði verið út á jaðar eða rekið þangað, svo sem fyrrverandi kúlakka og „fyrri tíðar fólk“ (embættismenn keisaratímans, presta, virka trúarhópa kristinna og múslima o.fl) og einnig almenna afbrotamenn og harkaleg beiting refsikerfisins í stjórnunarskyni.
4) Árásir á ákveðna þjóðernishópa eftir miðjan áratuginn í tengslum  við vaxandi ótta um erlenda innrás og erlend áhrif.

Vandinn aðfenginn eða heimatilbúinn?

Tveir fyrstu þættirnir, það sem kalla má hinar „pólitísku hreinsanir,“ voru að nokkru leyti aðgreindir þættir og stríddu hvor gegn öðrum en fléttuðust þess á milli mjög saman. Segja má að báðir þættirnir tengdust ákafri og stöðugri „leiðréttingarherferð“ á starfsaðferðum stjórnkerfisins í framhaldi Stalínbyltingarinnar. Maskína stjórnkerfinsins átti við sífelldar gangtruflanir að stríða sem skapaði hættu á alvarlegri ólgu í þjóðfélaginu. Opinberri stefnu og aðferðum var sjaldnast framfylgt í samræmi við samþykktir flokksins og æðstu stofnana. Leitað  var að orsökum vandamálanna og í stuttu máli  var spurningin þessi: Var vandamálanna að leita í stjórnkerfinu sjálfu og stefnu þess eða í utanaðkomandi og „fjandsamlegum“ öflum? Svörin gátu líka farið eftir því hvort þau voru tjáð opinberlega eða á lokuðum fundum ráðamanna.   
Að nokkru leyti var „samsærishugsun“ hjá bolsévíkum arfur frá árum borgarastríðsins 1918–20 þegar alls kyns falin samsæri störfuðu undir yfirborðinu og frá keisaratímanum þegar bolsévíkar voru sjálfir atvinnumenn í samsærum og leynilegri starfssemi. Það var hluti af „herferðarstílnum“ frá Stalínbyltingunni að leita að sökudólgum sem hindruðu framgang stefnumálanna. Baráttu andstæðinganna var lýst sem „samsæri“ gegn byltingunni, enda var sú barátta ólögleg og starfsemi andstæðinganna varð sjálfkrafa brotleg. Þar með voru þeir glæpkenndir og reknir undir yfirborðið. Flokkurinn taldi sig þurfa að glæpkenna kúlakkana, stimpla þá sem gagnbyltingarsinnaða afbrotamenn til að geta flutt þá burt og eftir það ráðið betur við verkefnið að stofna samyrkjubúin. Svo mikil harka við kúlakkana var veikleikamerki, sýndi að flokkurinn hafði ekki styrk á landsbyggðinni til að framkvæma samyrkjuvæðingu með fortölum og friðsamlegum pólitískum leiðum sem reynt var að fylgja fram til 1929. Svipað var uppi í baráttunni við „borgaralega sérfræðinga.“Á annað hundrað þúsund starfsmanna atvinnumálaráðuneyta voru reknir úr starfi veturinn 1929 - 30  eins og áður segir. Stjórn Stalíns taldi sig þurfa á dómsmálum, dularfullum sakargiftum og hreinsunum að halda til að geta losað sig við áhrif þeirra svo viðkomandi ríkisstofnanir stæðu einhuga að framkvæmd hinna miklu umskipta í efnahagsmálum („borgaralegir menntamenn“ voru reyndar að mestu teknir í sátt aftur skömmu síðar og mannorð þeirra þvegið). En eins og saga fjórða áratugsins sýnir var það að reka andstæðingana í felur ekki til að auka öryggistilfinningu stjórnvalda. Þau vissu því óljóst um starfsemi þeirra eða styrk. Án kosninga eða skoðanakannana gátu þau ógjörla vitað hvað almenningi fannst og hvað hann hugsaði.
         Eins og komið hefur fram voru verkefni flokksins eftir 1932 að binda enda á öngþveitið sem Stalínbyltingin hafði skapað og styrkja tök miðstjórnarinnar á ástandinu. Til þess þurfti að bæta gang stjórnkerfisins. Það varð meginmál, en gekk ekki átakalaust. Gábor Rittersporn lýsir þessari innri baráttu innan valdakefisins sem baráttu um það hvernig stjórnkerfinu bæri að starfa og hvernig bæri að skilgreina „óvininn.“  Hvað olli hinum margvíslegu vandamálum í gangi efnahagslífs og stjórnkerfis? Voru það óvinir utan stjórnkerfisins eða starfshættir stjórnkerfisins sjálfs? Þessi andstæðu sjónarmið hafi tekist á í efri einingum flokksins. Rittersporn bendir á að Stalín og vopnabræður hans í flokksforystunni hafi haft mikla tilhneigingu til að trúa á samsæri af ýmsum toga. Engu að síður hafi skilgreiningin á rót vandamálanna og skilgreiningin á „óvininum“ tekið mörgum og miklum breytingum á skömmum tíma.[58]
         Forysta Kommúnistaflokksins var sér áreiðanlega þess meðvituð að staða flokksins í huga almennings og lögmæti stjórnar hans var ekki eins og best var á kosið. Það var freistandi að útskýra erfiðleika með blórabögglum og búa til hávaða kringum þá heldur en að ráðast opinberlega á eigin menn og eigið stjórnkerfi og veikja það enn frekar í augum almennings. Hitt var svo annað mál, og skýrist enn með óöryggi stjórnvalda, að þau voru í raun og veru afar hrædd við alla andstöðu og máttu ekki til þess hugsa að slíkt kæmi upp á yfirborðið. Ófriðarský og uppgangur fasismans vestar í álfunni juku á óttann. Nærtækt var að tengja andstöðu við erlend áhrif og njósnir.
         Fundir fyrrverandi andstöðuhópa innan flokksins voru skiljanlega taldir hættulegir en einnig minnstu pólitísku sellur meðal stúdenta, fjandsamleg eða gagnrýnin ummæli einstaklinga, ferðir utanlands o.s.frv. og leynilögreglan fylgdist með og skráði eftir bestu getu.[59] Fjórði áratugurinn var ólíkur þriðja áratugnum vegna stóraukins fjölda pólitískra fanga í fangabúðum. En hann greinist einnig frá árunum eftir stríð að þessu leyti. Eftir stríð lækkaði hlutfall pólitískra fanga verulega og sérstaklega þeirra sem dæmdir voru fyrir „gagnbyltingarsinnaðan áróður.“[60] Illræmd grein 58 í refsilöggjöfinni frá árinu 1926 skilgreindi hvað væru „gagnbyltingarsinnuð“ brot og þar var m.a. bannaður „áróður“ sem „græfi undan eða veikti“ sovésk stjórnvöld.[61] Slíka málsgrein var auðvelt að túlka að hentugleikum og langstrangast var dæmt eftir henni á 4. áratugnum. Rittersporn metur það svo að mikið óöryggi hafi legið að baki þessu nákvæma eftirliti með „andsovéskum áróðri:“

Að verulegu leyti fengu yfirvöldin mynd sína af samfélaginu og brugðust við henni á grundvelli ósannreynds og ósannanlegs orðróms. Óljós ótti um að njóta ekki trausts þegnanna og efi ráðamanna – sem aldrei var þó orðaður – um að þeim tækist ekki að uppfylla gefin loforð og um verðleika kerfisins voru hinn óviðurkenndi mælikvarði til að mæla álit almennings... Skýrsluhaldið [leynilögreglunnar] leyfir ekki víðtækar ályktanir um raunverulegan stuðning við  stjórnvöld. En það sýnir berlega mikið óöryggi meðal þjóna ríkisvaldsins um viðhorf almennings og þráláta hugsun þeirra um möguleg endalok kerfisins. Hin harkalegu viðbrögð sýna að jafnvel meinlausar efasemdarraddir voru skoðaðar sem boðberar endalokanna.[62]
        
Þrátt fyrir tilhneigingu til „samsærishugsunar“ var það svo að umræða í sovésku pressunni um „skemmdarverk“ óvinveittra afla gekk mjög í bylgjum. Hún var áberandi í Stalínbyltingunni og fyrst á eftir. En svo kom tími þar sem miklu minna var talað um slíkt, 1935 og fyrri hluti ársins 1936. Þá jókst hins vegar hörð gagnrýni á embættismannakerfi flokks og ríkis, eins og ýmsir höfundar hafa bent á. Fyrstu fimm mánuði ársins 1936 var ekki minnst á óvini eða skemmdarverk í pressunni. Hins vegar birtust þá margar og harðar ádrepur frá ýmsum einingum flokksins um óstjórn í stjórnkerfinu og illa framkvæmdar flokkssamþykktir. Óvenju mikið birtist í blöðunum af bréfum frá verkafólki um valdmisnotkun og misgerðir embættismanna. Greinilegt var að þau skrif nutu velþóknunar æðstu ráðamanna og beinlínis var hvatt til þeirra.[63]
Á fyrri hluta ársins 1936 var gerð stórfelld tilraun til hagræðingar í iðnaði. Stakhanov-hreyfingin varð til sem flokksstudd hreyfing meðal verkafólks til að auka frumkvæði verkafólks í framleiðslunni, hækka afkastastaðla og auka útbreiðslu bónusa. Hreyfingin tók á sig gamalkunnan herferðarstíl og flokkurinn hafði takmarkaða stjórn á þróun hennar. Hún beindi mjög spjótum sínum að yfirmönnum í iðnaði sem boðuðu „hófsemd“ í vaxtarhraða, hindruðu „frumkvæði verkafólks“ og raunar hafði hún brodd gegn forstjórum og stjórnendum almennt. Hún neyddi stjórnendur til að endurmeta framleislðuafköst sem og aðdrætti en staðlakerfið var flókið fyrir. Í reynd torveldaði hreyfingin áætlanagerð, jók gangtruflanir í framleiðslunni og virðist ekki hafa virkað afkastaaukandi í heild. Hún fékk um tíma mjög öflugan stuðning flokksforystunnar þótt greinilega væru um hana skiptar skoðanir og hún fjaraði út á tíma hreinsananna. Hún mætti fljótt óvirkri andstöðu rekstrarlegra og tæknilegra stjórnenda í iðnaðinum og í ljós kom að þeir höfðu góð tök á að hindra framgang hennar. Við það jókst tortryggni Moskvuleiðtoganna gagnvart iðnrekendum samtímis því að stöðugt jukust væringar milli stjórnenda í iðnaði og kappsamari hluta verkamanna.[64] Hið nýja, miðað við árásir á stjórnendur í „menningarbyltingunni“ um 1930, var að þá höfðu skeytin einkum beinst gegn „borgaralegum sérfræðingum“ gamla tímans en nú gegn hinni nýju Sovét-skóluðu embættismannastétt sem yfirleitt hafði flokksskírteini. Thurston skrifar:

Í stöðu sinni sem hetjur framleiðslunnar túlkuðu hinir fyrri Stakhanovítar væntingar verkamanna almennt. Brátt fór að heyrast óbilgjörn gagnrýni á vinnuaðstæður og lífskjör í iðnaði og fékk hún stuðning frá efstu stöðum.[65]

Verkamenn og óbreyttir flokksmenn voru gjarnan afar óhressir með vald og stjórnarhætti þeirra embættsmanna og flokksbrodda sem þeir voru í snertingu við. En flokkstoppar í Moskvu tóku nú undir þessa gagnrýni og nýttu sér hana í baráttu sinni við staðbundnar klíkur og smákónga í viðleitni sinni að bæta starfshætti stjórnkerfisins, smyrja gangverk þess og styrkja miðstjórnarvaldið. Smákóngarnir reyndu eðlilega að verja sig og beina gagnrýninni á þægilegri blóraböggla svo sem ýmsa undirmenn sína í flokknum, menn úr fyrrverandi andstöðuhópum eða menn „gamla tímans.“[66]
          Í júní 1936 varð svo það sem Rittersporn nefnir „skyndileg enduruppgötvun skemmdarverkamanna.“ Í skarpri mótsögn við tiltölulega hversdagslegar skilgreiningar vandamálanna undanfarið hófst þá skyndilega hávært átak í því að „afhjúpa“ fyrrverandi trotskíista. Í framhaldi af því voru í ágúst sett á svið fyrstu Moskvuréttarhöldin yfir Zinovév, Kamenév og 14 öðrum vinstri-andstöðumönnum frá þriðja áratugnum, alveg valdalausum mönnum sem margir höfðu þá setið í fangelsi um hríð. Þetta var nánast viðsnúningur á skilgreiningu „óvinarins.“ Nú tilheyrði hann vinstri-andstöðunni og tók þátt í „blokk“ sem réðist gegn hinni sósíalísku uppbyggingu með skemmdarverkum, hryðjuverkum og morðum á stjórnmálaleiðtogum. Líklegt er að embættismenn stjórnkerfisins, flestir tryggir stalínistar, hafi dregið andann léttar.[67]
         Ástæða þessa viðsnúnings virðist vera sú að Stalín og félagar hafi snemma árs 1936 komist á snoðir um að leynifélag trotskíista og zinovévista sem kallaði sig „blokk“ hafði verið myndað fjórum árum áður, 1932. Frumkvæði að „blokkinni“ innan Sovétríkjanna átti I. Smirnov, fv. ráðherra frá 3. áratugnum. Trotskí var í útlegð og ekkert bendir á áform þessara manna um „hryðjuverk“ þótt vígorð Trotskís um „nýja pólitíska byltingu“ væri sjálfsagt túlkað svo í Moskvu. Blokkin var lítil og verkefnið sem hún setti sér fyrst í stað var upplýsingamiðlun milli manna. Mál Kírovs, sem myrtur var í Leníngrad í árslok 1934 var nú endurupptekið. Zinovév og Kamenév höfðu árið 1935 verið hreinsaðir af að vera viðriðnir þann glæp en nú voru þeir sakfelldir. Líklega var Jagoda, yfirmanni leynilögreglunnar kennt um að hafa ekki uppgötvað, eða ekki sagt frá, þessari starfsemi fyrr. Nýr maður, N.I. Jezhov, var settur til að hafa yfirumsjón í þessu ákveðna máli og skömmu síðar varð hann yfirmaður leynilögreglunnar í stað Jagoda. Jezhov trúði á „árvekni“ gagnvart „stéttaróvinum“, persónurannsóknir og hreinsanir og hafði nú forystu í ákafri leit að samsærum.[68]
         Fleiri þættir voru í hinum snúna kaðli hreinsananna og þær voru ennþá bara í mótun. Einn þáttur var svonefndar „flokkshreinsanir“ sem stóðu án afláts í Kommúnistaflokknum frá 1933 til 1936 og Getty hefur rannsakað sérstaklega. Hann heldur fram að þær hafi að miklu leyti verið annars eðlis en „hreinsanirnar miklu.“ Hefð var fyrir slíkum leiðréttingarherferðum í flokknum. Þessar beindust t.d. ekki sérstaklega að pólitískri andstöðu í flokknum né fyrrverandi andstöðuhópum, alla vega ekki framan af. Af hálfu flokkstjórnar voru lagðar vissar línur um hreinsanirnar og þar voru framapotarar og skriffinnar einkum teknir fyrir. En meirihluti þeirra sem hreinsaðir voru í reynd og reknir voru ekki slíkir heldur þeir sem stimplaðir voru  „pólitískt vanþroskaðir“ eða „óvirkir.“ Þarna kom í ljós að flokksforystan hafði  litlu betri stjórn á flokksmaskínunni en stjórnkerfinu. Staðbundnir flokksforingjar og héraðshöfðingjar vernduðu  sig og vini sína en beindu broddi hreinsananna einkum að óbreyttum flokksmönnum. Auk þess kom í ljós afar mikil óreiða í meðlimaskrám og bókhaldi. Aðgerðin  var stöðvuð og önnur sett í gang í ársbyrjun 1935 sem kallaðist „athugun á flokksskírteinum.“ Skriffinnar í stjórnunarstöðum  voru enn á ný merktir sem helsta skotmark gagnrýninnar og hvatt var til „gagnrýni neðanfrá“ en allt fór á sama veg í framkvæmdinni. Gangur hreinsananna sýndi í fyrsta lagi  að „grundvallareinkenni á starfi flokksins á þessu tímabili var að hann var ófær um að fá hlutina framkvæmda í lægri einingum sínum.“[69] Í öðru lagi olli framkvæmd hreinsananna gremju og úlfúð meðal óbreyttra flokksmanna.[70] Þetta sannfærði a.m.k. suma úr flokksforystunni um að nauðsyn væri á endurnýjun í flokksstarfinu og um mitt ár 1935 hófst leiðréttingarátak, einhvers konar próletarísk siðbótarhreyfing í flokknum sem Getty kennir ýmist við „róttækan popúlisma“ eða „lýðræði.“ Andrej Zhdanov var opinber talsmaður og málflytjandi hennar og boðaði opnara flokksstarf, upplýsingarskyldu við óbreytta flokksmenn og gagnrýni á flokksstarfsmenn „neðan frá.“ Hann fordæmdi þann útbreidda sið í stað- og svæðisbundnum einingum flokksins að foringjar og flokksstarfsmenn tilnefndu í flokksnefndir í stað kosninga í grasrót. En þeim sem þarna voru stimplaðir sem skriffinnar og „stórbokkar“ tókst samt lengi og vel að  hindra að þetta átak í „flokkslýðræði“ hefði einhver teljandi áhrif á flokksstarfið í þeirra einingum.[71]
Þetta flokksátak tengdist bersýnilega viðleitni flokksforystunnar að ná betra taumhaldi á flokksmaskínunni og héraðshöfðingjum en sýnist lengi vel hafa þróast óháð leitinni að „óvinum,“ líka eftir að sú leit komst í hámæli 1936. Minna má á áðurnefnda gagnrýni meðal verkamanna á stjórnendur og embætismenn (m.a. meðal Stakhanovíta) sem flokkstoppar tóku undir og fór vaxandi á sama tíma. Hið reikula ráð flokksforustunnar að þessu leyti gat verið merki um flokkadrætti en gat líka merkt óvissu hjá henni og viðbrögð við þrýstingi frá ólíkum aðilum í samfélaginu.
Næsti kafli hófst með keðjusprengingum sem urðu í Kamerovo-námunum í Síberíu í september 1936, í annað sinn á einu ári. Grunsemdir um skemmdarverk styrktu þá sem trúðu á leitina að „óvinum“ og nú fór sú leit að beinast á æðri stöðvar. Réttarhöld í málinu þróuðust út í uppgjör við þá sem töldust „hófsamir“  í stjórn iðnaðarmála, ekki síst embættismenn í ráðuneyti þungaiðnaðar undir stjórn Ordzhoníkidzes. Vararáðherra hans var Pjatakov, fyrrverandi trotskíisti, og sprengingarnar í Kamerovo voru nú opinberlega tengdar „gagnbyltingarstarfsemi“ hans. Í janúar 1937 voru önnur Moskvu-réttarhöldin haldin. Fyrir dómi stóðu Pjatakov, Radek og nokkrir embættismenn í stjórn iðnaðarmála sem sakaðir voru um skemmdarverk og auk þess um samvinnu við þýska og japanska leyniþjónustu. Þeir stjórnmálamenn sem nú lentu í skotlínunni voru ennþá að mestu tengdir fyrrum vinstriandstöðu í flokknum. Í sambandi við réttarhöldin og í framhaldinu voru stjórnendur og margir sérfræðingar í iðnaði rannsakaðir nánar í tenglum við alls kyns slys og uppákomur í iðnfyrirtækjum. Verkamenn tóku virkan þátt í þessum rannsóknum. En nú voru ásakanirnar á hendur þeim ekki aðeins óstjórn og kæruleysi um aðbúnað verksfólks eins og í fyrri gagnrýni frá verksmiðjugólfinu heldur bættust við alvarlegri  ásakanir um „trotskíísk skemmdarverk“ án þess að viðkomandi þyrftu að eiga neina fortíð í pólitískri andstöðu.[72] Ekki þarf að efast um að „sannanir“ á hendur þessum mönnum voru meira og minna tilbúnar en það þýðir ekki að margir í forystunni hafi ekki trúað á hættuna sem stafaði af „óvinum“ í dularklæðum og margt bendir til að svo hafi verið.[73]
Myndin af óvininum og af rót vandans var enn að mótast og breytast. Á allsherjarfundi miðstjórnar flokksins sem var í febrúar og mars 1937 voru fram lagðar, og tókust nokkuð á, tvær ólíkar leiðir til úrbóta, eltingarleikur Jezhovs við „óvini“ innan sem utan flokksins og leiðréttingarátak Zhdanovs. Eina ræðan sem birtist strax að fundinum loknum var ræða Zhdanovs. Hann taldi lækninguna á meinum flokksins vera opnari gagnrýni og lýðræði innan hans og uppgjör við það að foringjar veldu sér meðstjórnendur. Lausnin nú væri að halda leynilegar kosningar á öllum stigum flokkskerfisins og tilnefna frambjóðendur sem gengju á undan í gagnrýni, til þess að brjóta upp „fjölskylduklíkur“ og skriffinskuvinnubrögð. Í ræðum sínum á fundinum studdi Stalín bæði Jezhov og Zhdanov og hinar ólíku lausnir þeirra. Skilaboð allsherjarfundarins voru mótsagnakennd og ruglandi, bæði fyrir miðstjórnarmenn og almenning. En þau fólu ekki í sér það stórfellda áhlaup á embættismannakerfi flokksins sem var skammt undan.
Umræddar kosningar, sem áttu sér hvorki fordæmi né eftirdæmi í flokknum, fóru fram í apríl. Fram að því var í pressunni mikill áróður fyrir „endurreisn flokksstarfsins“ og „gagnrýni að neðan.“ Skoðun á gögnum úr grunneiningum flokksins sýnir að þar var óvenjuleg virkni óbreyttra flokksmanna og harkaleg gagnrýni á staðbundna flokksbrodda og þar urðu mikil mannaskipti í stjórnum. En á millistigum flokkskerfisins, í héraða- og landshlutanefndum urðu mannaskipti nær engin og „stórbokkarnir“ héldu þar óskertum völdum.[74]

Þáttaskil – hreinsanir í hernum

Þann 11. júní 1937 var tilkynnt í Sovéskum blöðum að Túkhasévskí og aðrir sjö af æðstu herforingjum ríkisins hefðu verið fangelsaðir. Degi síðar voru þeir teknir af lífi. Á næstu vikum og mánuðum hlutu þúsundir annarra herforingja sömu örlög. Það þarf ekki langan lestur í sögu hreinsananna miklu til að sjá að þessi atburður markaði þáttaskil og breyttu umfangi þeirra og að nokkru leyti eðli. Margir höfundar undirstrika þetta.[75] Þá fyrst hófust fangelsanir í stórum stíl, einnig á fólki sem aldrei hafði verið í andstöðu við Stalín.
         Hvað bjó undir? Eitt var það að samband flokks og hers hafði a.m.k. stundum verið stirt. Pólitísk stjórnun – vaktmenn flokksins og kommiserar – var ekki alltaf vel séð af herforingjaráðinu, ekki heldur varnarmálaráðherrann Voroshílov. Í öðru lagi hafði orðrómur frá Evrópu náð eyrum Stalíns (gegnum Austurríki og Tékkóslóvakíu) þess efnis að Túkhasévskí stæði í ráðabruggi með þýskum herstjórum. Sumar heimildir benda til að leyniþjónusta nasista hafi komið á flot fölsuðum skjölum um slík náin rússnesk-þýsk tengsl meðal herforingja (hernaðarsamstarf Rapollosamningsins var reyndar í gildi milli ríkjanna til ársins 1933). Aðrar heimildir benda til að leynisþjónusta Jesjovs hafi komist að slíkri niðurstöðu á eigin spýtur.[76] Það virðist a.m.k. blasa við að Stalín og félagar hans í flokksforystunni hafi nú fortakslaust trúað á það samsæri sem þeir voru efins um áður. Í viðtölum við sovéskan blaðamann á 8. áratugnum viðurkenndi Molotov að mörg mistök hefðu verið gerð í hreinsununum miklu en hann hélt óbilgjarn fast við að af öllum dómsmálunum hefði málið gegn herforingjunum verið á hreinu, þeir hefðu undirbúið valdarán. Stalín sagði svipað árið 1937 í einkasamtölum við Georgi Dimitrov, forseta Komintern.[77] Getty bendir á þann vitnisburð skjalanna eftir að stórhreinsanir hófust að enginn eðlismunur væri á opinberum yfirlýsingum um glæpina og orðræðum flokksforystunnar á lokuðum fundum, leyniútgáfa málsins var nánast eins og sú opinbera. Réttarskjölin sýna einnig að flestir sakborningar, frá Búkharín til Jeshovs, trúðu á samsæri og töldu sig vera saklaus fórnarlömb þess.[78]
         Skipulag Rauða hersins var svæðisbundið og greindist í landshluta og héruð. Náin tengsl voru milli svæðisbundinna herforingja og flokksforingja á sama svæði. „Svik“ meðal herforingjanna varpaði grun á flokksforingjana sem þeir umgengust. Hin umfangsmikla hreinsun herforingjanna varð því um leið upphafið að álíka gagngerri hreinsun meðal héraðsforingjanna í flokknum sem Moskvustjórnin hafði lengi reynt að koma böndum á.[79]

Jezhovshína

Ógnaröldin sem hófst sumarið 1937 er gjarnan kenndi við Jeshov og nefnd á rússnesku Jezhovshína. Hún var sambræðingur úr annars vegar herferð Jesjovs og lögreglunnar í leit að „óvinum“ og hins vegar stríði flokksforustunnar til að laga gang stjórnkerfisins en hluti af því var átak Zdanovs til að ýta undir „gagnrýni að neðan“ og „flokkslýðræði.“ Aðferðirnar við „hreinsunina“ voru fyrst og fremst aðferðir Jesjovs, lögregluaðgerðir, en þær studdust að einhverju leyti við gagnrýni óbreyttra flokksmanna á flokkstoppa og millistjórnendur heima í héraði. Flokksforustan spilaði þannig á félagsleg átök milli óbreyttra flokksmanna og staðbundinnar elítu flokkskerfisins og tók afstöðu með þeim fyrrnefndu. Hún spilaði á svipaðan hátt á átök milli verkamanna og stjórnenda í atvinnulífinu. Erfitt er að meta hvernig Stalín og félagar hugsuðu, hvort t.d. gerðir þeirra réðust af pólitískri afstöðu eða hreinum taktískum valdasjónarmiðum.
Leynilögreglan, sem með réttarbótum 1931-33 hafði verið bannað að fangelsa fólk án heimildar frá saksóknara, fékk nú frjálsar hendur á ný og settir voru á fót skyndidómstólar eins og í borgarastríðinu og samyrkjuherferðinni, þótt slík afgreiðsla hafi sérstaklega gilt um þær „fjöldaaðgerðir“ sem brátt segir frá.[80] Hin réttarfarslega framkvæmd hinna pólitísku hreinsana er betur kunn en margt annað og verður ekki farið út í hana hér. Hún fól í sér m.a. líkamlegar pyndingar í stórum stíl, falsaðar ásakanir og fjöldaaftökur.
Ef til vill hjálpaði mikið umtöluð tortryggni Stalíns, jafnvel sinnisveila, honum til að mikla fyrir sér stærð þess samsæris sem hann vildi uppræta og þar með umfang þeirra aðgerða sem gripið var til. Allt andrúmsloft hreinsasnanna miklu einkenndist vissulega af ofboði og uppnámi. En orsakir þess uppnáms liggja varla svo mjög í skapgerð eins manns heldur fremur í aðstæðum sem fjallað hefur verið um hér að framan. Sjálfur efsti hluti flokksforustunnar virðist hafa staðið sameinaður að aðgerðunum og jafnvel hin fjölmenna miðstjórn samþykkti með formlegum og reglulegum hætti flestar ákvarðanir sem leiddu síðan til slátrunar sem kom hvað harðast niður á henni sjálfri.[81]
Aðeins skal staldrað betur við pólitíska stefnu hreinsananna. Skal þá áréttað að enn er fjallað um hinar pólitísku hreinsanir, þ.e. hreinsanir í flokknum og í tengslum við stjórnkerfið. Niðurstaða Gettys í bók hans frá 1985 var að hinar pólitísku hreinsanir 1937-38 hafi verið pólitískt „róttækar“ í þeirri merkingu að þær hafi einkum beinst gegn stjórnendum en t.d. ekki óbreyttum flokksmönnum eða verkamönnum. 
Staðbundnar rannsóknir hafa síðan staðfest þetta sjónarmið. David Hoffmann hefur rannsakað skjöl deildar Kommúnistaflokksins í Moskvuborg og skoðað framkvæmd hreinsananna í flokksnefndum borgarinnar og, ekki síst í verksmiðjunefndum flokksins. Niðurstaða hans er að hreinsunin hafi beinst nær eingöngu gegn stjórnendum og tæknilegum sérfræðingum og hún „bergmálaði oft stjórnendafjandsamlegan tón stakhanovítanna.“[82] Í sömu átt ganga niðurstöður Robertu Manning sem skoðað hefur gang hreinsananna í landbúnaðarhéraðinu Belyi í Smolensk fylki og m.a. beint sjónum að virkni í grasrót flokksins þar og næsta umhverfi hans. Hún telur að ólga, gremja og ríkar tilfinningar meðal óbreyttra kommúnista hafi gerjast í aðdraganda hreinsananna miklu og haft mikil áhrif á gang þeirra. Þeir höfðu verið kúskaðir af staðbundnum flokksbroddum og margir verið reknir úr flokknum í fyrri flokkshreinsunum, en í hreinsununum sumarið 1937 var dæminu snúið við, fórnarlömbin voru flokksbroddar og stjórnendur flestra þeirra stofnana á svæðinu sem höfðu eitthvert pólitískt og félagslegt vægi. Markhópurinn var nánast „menn með völd.“ Því meiri völd, því meiri áhætta.[83]

„Fjöldaaðgerðirnar“

Snemma í júlí 1937 sendi Stalín út símskeyti fyrir hönd Pólitbýrós (framkvæmdanefndar flokksins) til allra flokksnefnda sjálfsstjórnarlýðvelda og landshluta og sagði eftirfarandi: Fjöldi „fyrrverandi kúlakka og afbrotamanna“ á landsbyggðinni sem afplánað hefur dóma „æsir til alls kyns glæpaverka“ og ber því að fangelsa þá og refsa þeim strax. Þrem vikum síðar sendi leynilögreglan út tilskipun 447 sem útlistaði nánar skeyti Stalíns. Þar var markhópurinn stækkaður, boðað var að skjóta eða fangelsa marga  „fyrrverandi kúlakka, meðlimi andsovéskra flokka, hvítliða, herlögreglu og embættismenn keisarans, stigamenn, heimkomna menn úr útlegð, meðlimi andsovéskra samtaka, presta, félaga sértrúarhópa og síbrotamenn.“ Tilskipunin gaf út kvóta, eða öllu heldur hámörk, fyrir einstaka landshluta. Alls heimilaði hún að um 73 þúsundir yrðu skotnar og 194 þúsundir sendar í vinnubúðir eða útlegð.
         Þetta varð upphafið að ógnaraðgerðum sem í þetta sinn beindust ekki að fólki með völd heldur fólki á jaðri samfélagsins. Aðgerðin nefndist ýmist „fjöldaaðgerðirnar“ eða „kúlakkaaðgerðirnar.“ Hún tók fjórun sinnum lengri tíma en tilskipun 447 gerði ráð fyrir og fórnarlömbin urðu fimmfalt fleiri. Politbýró hafði gefið grænt ljós á sumar þessar hækkanir, aðrar ekki. En þegar yfir lauk höfðu um 387 þúsund verið tekin af lífi og 380 þúsund send í GULAG samkvæmt þessum lögum.[84]

Aðgengilegar heimildir sýna ... að óskipuleg bylgja fangelsana, útlegðardóma og aftaka færðist í aukana vegna krafna frá héraðsyfirvöldum sem bókstaflega bitust um hærri „kvóta“ en settur var í upphafi.[85]

         Stutt er síðan vitneskjan um „fjöldaaðgerðirnar“ kom upp úr skjölunum og rannsóknir á þeim eru enn takmarkaðar. Tengsl þeirra við hinar pólitísku hreinsanir eru ekki endilega augljósar enda virðast þær annars eðlis. Þó hefur ferli þeirra nokkuð verið skoðað nýlega og enn er það sérstaklega Getty sem rýnt hefur í heimildirnar og brugðið á þær ljósi nokkurs skilnings.
         Getty undirstrikar að tilskipun 447 hafi verið kúvending á réttarþróun undanfarinna ára. Frá því 1931-33 hafði verið fordæmdur „herferðarstíll“ og „herferðarréttarfar“ sem beindist gegn samfélagashópum eins og áður hefur komið fram og mikið til var afnuminn réttur leynilögreglunnar til að fangelsa fólk nema með heimild frá ríkissaksóknara og réttarlegri meðferð en nú var aftur komið á skyndidómstólum tengdum leynilögreglunni sem máttu kveða upp dauðadóma, eins og á tímum borgarastríðsins og samyrkjuherferðarinnar. Stalín og aðrir stalínistar í flokksforustunni höfðu á tímabilinu 1931-37 margsinnis fordæmt kúgunaraðgerðir einkum á landsbyggðinni sem beindust að heilum samfélagshópum: „Það virðist sem þessir félagar láti valdboðsaðgerðir á vegum GPU [pólitísku lögreglunnar] og almennu lögreglunnar koma í stað pólitísks starfs meðal fjöldans“ og flokksforystan prédikaði að slíkar aðferðir væru óþarfar og skaðlegar nú á „eðlilegum tímum.“[86]
Staðbundnir flokksbroddar sem þurftu að fást við ólgu og andóf meðal þegna sinna höfðu ríka tilhneigingu til að lemja þá til hlýðni fremur en beita friðsamlegum en seinlegri aðferðum sem flokksforustan vildi nú koma á. Og á miðju ári 1937 er sem þrýstingur þyngist mjög úr þessari átt að beita ofbeldi og lögregluaðgerðum sem stjórntæki. Það var reyndar svo að þótt mjög hafi dregið úr löglausum lögregluaðgerðum, ekki síst í pólitískum málum, gegn „gagnbyltingarsinnum,“ á árunum 1933-1936 þá var slíkum aðferðum áfram beitt gegn almennum brotamönnum svo sem þjófum, brotamönnum gegn vegabréfakerfinu frá 1932, þeim sem ekki stunduðu „nytsamlega vinnu,“ einnig fyrrverandi kúlökkum, sem margir höfðu strokið úr útlegð, og öðrum útskúfuðum. Þessir hópar voru skilgreindir sem „félagslega skaðleg öfl“ eða „hættuleg öfl“ og gagnvart þeim hafði lögreglan áfram miklu frjálsari hendur.[87]
         Getty finnur helstu skýringu á „fjöldaaðgerðunum“ í andrúmslofti í samfélaginu í kjölfar háværrar umræðu um hina nýju Stalín-stjórnarskrá frá 1936. Í henni voru fjandsamlegar stéttir sagðar horfnar og nú höfðu margir nýir hópar fólks kosningarétt svo sem fyrrverandi kúlakkar, prestar, embættismenn keisaratímans o.a. Stjórnarskráin veitti einnig formlegt trúfrelsi en prestar og kristnir  jafnt sem múslimskir trúarhópar litu gjarnan á það sem grænt ljós gagnvart trúarstarfsemi – og skv. manntali 1937 taldi meira en helmingur þegnanna sig trúaðan.
Þótt ótrúlegt megi virðast var verið að undirbúa almennar kosningar í Sovétríkjunum einmitt árið 1937. Í samræmi við nýju stjórnarskrána auglýsti flokksforustan snemmsumars að kosningar yrðu til löggjafarsamkomu ríkisins, Æðsta sovéts, í desember sama ár. Það skyldu vera raunverulegar, leynilegar kosningar og frjálst framboð þar sem tveir eða fleiri kepptu um hvert embætti. Þetta var í beinu framhaldi af hliðstæðum popúlisma innan flokksins sem áður greinir frá. En svæðisbundnir flokksforingjar óttuðust nú að slík framboð og kosningabrölt setti tök þeirra á lýðnum í hættu, ekki síst víða í dreifbýlinu þar sem flokkurinn stóð mjög veikt og menn sáu sífellda pólitíska ógnun allt í kringum sig.[88] Á allsherjarfundi miðstjórnar í febrúar 1937 hafði komið fram mikil og hörð gagnrýni á þetta væntanlega kosningakerfi og pólitískar hættur sem það skapaði á landsbyggðinni og sú gagnrýni kom öll frá svæðisbundnum  flokksforingjum ýmissa landshluta á meðan flokksforustan sat við sinn keip. „Og næstu mánuði gerðu staðbundnir flokksforingjar allt sem í þeirra valdi stóð innan marka flokksagans (og stundum utan þeirra) til að koma í veg fyrir eða breyta kosningunum.“[89] Flokksforustan gaf sig samt ekki. Í júlí auglýsti hún kosningarnar og kynnti þær með miklu brauki og bramli allt fram í október sem sýndi að þetta átti ekki að vera einber skrifræðisrútína. Í efri einingum flokksins voru embættismenn landshluta- og héraðssovéta harkalega gagnrýndir fyrir dugleysi og aumingjaskap í því að flytja málstað flokksins og fyrir að reyna að hindra framgang málsins. En þeir höfðu ástæðu til að hindra kosningar: Margir félagar þeirra í flokkskerfinu höfðu misst embætti sín í flokkskosningunum í maí og nú gætu þeirra störf farið eins. Þeir þóttust hins vegar vita betur en Moskvutoppar hvernig stemmningin væri heima í héraði og þeir mikluðu hætturnar eins og mest þeir máttu. Á allsherjarfundi miðstjórnar Kommúnistaflokksins í október var blaðinu skyndilega snúið við og ákveðið að banna alla samkeppni um sætin í komandi kosningum. Aðeins einn mátti bjóða sig fram í hvert embætti. Viðsnúningurinn var ekki kynntur fyrr en viku fyrir væntanlegar kosningar. Þótt hann væri kynntur sem merki um eininguna meðal þjóðarinnar og tiltrú frambjóðendanna meðal kjósenda var uppákoman augljóslega mjög neyðarleg. Tilraun til kosninga með samkeppni um sætin var aldrei gerð aftur fyrr en með Gorbatsjov.
         Flokksforystan ætlaði að auka lögmæti stjórnvalda og breikka grundvöll valda sinna og einnig að hreinsa valdakerfið og tukta til klíkur „héraðshöfðingjanna“ með aðferð almennra kosninga. Þetta var talsverð áhætta, nefnilega sú að í stað þess að fá betri flokksmenn í stjórnunarstöðurnar kæmust margir andstæðingar flokksins að sem græfi undan stöðu flokksins í stað þess að styrkja hana.

Þrátt fyrir tvíráða afstöðu til lýðræðisins ásamt og merki um eftirlifandi sovétfjandskap hélt Moskvustjórnin fast við ákvæði stjórnarskrárinnar í nokkra mánuði. Ekki fyrr en eftir eins árs viðvaranir frá flokksmönnum í héraði, í vaxandi öngþveiti vegna fangelsananna og vegna þrýstings frá andstæðingum kosninga þorði Stalín ekki annað en hætta við.[90]

Víkur þá að tilskipun um „fjöldaaðgerðirnar.“ Hún var send út meðan stjórnvöld voru enn staðráðin í að halda kosningarnar. Nánar tiltekið:

Nákvæmlega sama dag og kosningalögin voru auglýst samþykkti Politbýró fjöldaaðgerðirnar gegn einmitt þeim öflum sem staðbundnir flokksforingjar  höfðu kvartað undan og nokkrum klukkutímum síðar sendi Stalín símskeyti sitt til svæðisbundinna flokksforingja og fyrirskipaði fjöldaaðgerðirnar. Það er efitt að draga aðra ályktun en þá að gegn því að þvinga staðbundna flokksforingja til að framkvæma kosningarnar hafi Stalín boðið þeim skotleyfi á eða leyfi til að vísa í útlegð hundruðum þúsunda „hættulegra afla.“[91]

Símskeyti Stalíns fyrirskipaði að flokksforingjar í héraði nefndu tölur yfir þá sem skjóta skyldi eða senda í útlegð og það gerðu þeir því þeir vissu vel hverja þeir vildu losna við. Politbýró sendi tölurnar fyrir einstaka landshluta til baka og endurskoðaði helming þeirra til fækkunar og varaði menn alvarlega við að fara fram úr kvóta. En „fjöldaaðgerðirnar“ þróuðust eins og stalínískar „herferðir“ voru vanar að gera. Miðstýring á þeim varð mjög slæleg og fórnarlömbin urðu fimm sinnum fleiri en tilskipun 447 gerði ráð fyrir. Af þeim var langstærsti hópurinn kúlakkar (rúmur helmingur), aðrir stórir hópar voru embættismenn frá keisaratímanum, almennir afbrotamenn og kristnir eða múslimskir prestar.[92]
         Það er öruggt að andrúmsloft þessa árs hafði áhrif á það hver fórnarlömbin urðu. Líklegt er t.d. að nornaveiðarnar á „óvinum þjóðarinnar“ sem skóku samfélagið hafi beint árásunum á „stéttarandstæðinga“ fremur en almenna afbrotamenn. Þeir hópar sem þarna urðu fórnarlömb voru líka þess konar fólk sem flokksforingjar í héraði höfðu reynt að sveigja árásir Moskvuvaldsins að, árásum sem beinst höfðu að þeim sjálfum og „fjölskyldum“ þeirra í flokkskerfinu í flokkshreinsunum 1933-36 eins og áður hefur komið fram. Að öðru leyti má ímynda sér að þetta hafi  verið fólk sem staðbundnir flokksbroddar óttuðust í sambandi við kosningarnar.
Sú mikla beiting ofbeldis sem stjórntækis sem „fjöldaaðgerðirnar“ fólu í sér getur einnig að nokkru skýrst með því að á meðan hreinsanirnar geysuðu meðal elítunnar jókst mjög upplausn og agaleysi í samfélaginu. Úr því mikill hluti fólks með völd reyndist vera „óvinir þjóðarinnar“ sá almenningur ekki ástæðu til að bera sérstaka virðingu fyrir yfirmönnum.[93] Sem svar við agaleysinu var síðan helsta útkoma hreinsananna ný og harðari löggjöf um vinnuaga í verksmiðjum og á samyrkjubúum árið 1939.[94]

„Þjóðernisaðgerðir“

Síðasti þáttur í hreinsununum miklu nefndist „þjóðernisaðgerðir“ á máli leynilögreglunnar. Þetta var afmarkaður þáttur eins og „fjöldaaðgerðirnar“ en átti sér talsverðan aðdraganda. Terry Martin hefur brotið land í rannsóknum á þjóðernapólitík í Sovétríkjunum, m.a. í sambandi við hreinsanirnar miklu.
Pólitísk hefð marxismans frá 19. öld var alþjóðasinnuð og neikvæð gagnvart þjóðernishyggju. En Lenín og bolsévíkaflokkur hans viðurkenndu frá byrjun mörg meginatriði þjóðernishyggjunnar svo sem þá meginreglu að þjóðernamörk væru eðlileg landamæri ríkja. Kröfu hverrar þjóðar um sjálfsákvörðun töldu þeir réttmæta og Lenín hafði háar hugmyndir um þátt þjóðlegrar frelsisbaráttu í byltingarbaráttunni.
         Eftir valdatöku skipulögðu bolsévíkar stjórnkerfi sitt á grundvelli þjóðerna. Allsterk þjóðernishyggja hafði gert vart við sig hjá sumum þjóðum keisaradæmisins þegar fyrir 1917, einkum þeim evrópsku. Aðrir þjóðflokkar og þjóðernishópar voru skemmra komnir í þjóðlegri þróun og þar tók sovéska ríkið á sig það hlutverk að leiða þá inn á braut þjóðernislegrar uppbyggingar. „Þjóðlegt að formi enn sósíalískt að innihaldi“ varð eitt mest notaða vígorð sovéskra stjórnmála.[95] Sjálfsstjórnarlýðveldin höfðu formlega rétt á að ganga úr sambandinu en í raun hafði sambandsstjórnin i Moskvu full tök á að hindra slíkt og gerði það oftar en einu sinni. Sú staðreynd segir þó ekki alla söguna um hina bolsévísku þjóðernapólitík því um  15 fyrstu árin eftir byltingu var Sovétstjórnin sérstaklega jákvæð í því að örva sjálfstjáningu, þjóðernisvitund og menningu þjóðernishópanna með bóka- og blaðaútgáfu á eigin tungum þeirra, skólum o.s.frv. Gert var upp við stórrússneska „aðlögunarstefnu“ keisaratímans og að því marki sem tala mátti um þjóðernislega mismunun þá voru það minni þjóðabrotin sem nutu jákvæðrar mismununar en ekki Rússar. Yuri Slezkine talar um „etnófílíu“ í þessu sambandi: Ríkisvald þetta sem játaðist alþjóðhyggju öreiganna varð fyrst allra stjórnvalda til að lögfesta sambandsríki stjórnunareininga (sjálfsstjórnarlýðvelda og sjálfsstjórnarsvæða) sem byggðust á þjóðerni. Opinber stefna Stalíns í málefnum þjóðernanna fól alltaf í sér yfirlýstan stuðning við þjóðernislega uppbyggingu. Sá stuðningur var í reynd kaflaskiptur. Öflugastur var hann á tíma Fyrstu fimm ára áætlunar:

Umsköpunin mikla“  1928–1932 breyttist í yfirgengilegustu hátíðarhöld þjóðernislegs margbreytileika sem nokkurt ríki hefur nokkurn tíma fjármagnað; „Undanhaldið mikla“ frá miðjum fjórða áratugnum minnkaði  akur „blómstrandi þjóðerna“ en kallaði eftir enn ákafari rækt við þau þjóðerni sem báru ávöxt, og föðurlandsstyrjöldinni miklu fylgdi sú opinbera stefnuyfirlýsing að þjóðerni væri skipað ofar en stétt og stuðningur við þjóðernishyggju væri heilög grundvallarregla í marx-lenínismanum.[96]

Fyrsta tæpa áratuginn eftir byltinguna var  stefna bolsévíka í málum þjóðernanna hluti af pólitískri bjartsýni þeirra og trú á mjög nálæga heimsbyltingu. Í því efni þótti mikilvæg stefnan gagnvart svokölluðum „aðkomuþjóðum" en það hugtak átti við ef meirihluti viðkomandi þjóðar bjó utan landamæranna, ef hún átti sér þannig annað „föðurland“ fyrir utan. Á 3. áratugnum mátu bolsévíkar það svo að þessi þjóðabrot gætu nýst byltingunni og Sovétríkjunum til áhrifa, ef þau fengju betri meðferð en þjóðernissystkin þeirra fyrir utan. Stofnað var t.d. karelskt sjálfstjórnarlýðveldi árið 1923 austan Finnlands og moldavískt sjálfstjórnarlýðveldi 1924.[97] Mjög var örvuð þjóðernisleg sjálfsstyrking í lýðveldunum Hvítarússlandi og Úkraínu með sérstöku tilliti til áhrifa á hina stóru hluta þessara þjóða sem lentu innan Póllands eftir pólsk-rússneka stríðið 1920-21. Í umræðu innan kommúnistaflokksins á 3. áratugnum var talað um þessa stefnu sem "Piedmont-prinsippið" með tilvísun til konungdæmisins Piedmont á Norður-Ítalíu sem upp úr 1860 varð drifkraftur í sameiningu Ítalíu. Stuðningur við þjóðernislega styrkingu var eftir sem áður háður því skilyrði að hún leiddi ekki til neinna sjálfstæðiskrafna sem ógnuðu ríkisheildinni, stórveldinu sjálfu.
Jákvæð mismunun gat samt falið í sér mikla fólksflutninga. Stundum mátu yfirvöld slíka flutninga nauðsynlega til að staðfesta og styrkja sjálfstjórnarsvæði þjóðernishópa sem voru mjög tvístraðir. Þannig var búseta þjóðabrota hreinlega endurskipulögð eftir þjóðernislegum línum og flutningarnir fólu gjarnan í sér tilfærslur og þéttingu á búsetu viðkomandi þjóðernis. Í þessum anda voru t.d. stofnuð  nokkur sjálfstjórnarsvæði fyrir gyðinga í Úkraínu, Krím og austur í Birobidzhan nærri landamærum Kína.[98] Úrlausnir bolsévíka í málefnum þjóðernanna voru þannig einn hlekkur í stórskorinni „þjóðfélagsverkfræði“ þeirra. Flutningar þjóðabrota voru því kunnuglegt fyrirbæri í Sovétríkjunum þegar aftur var gripið til þeirra í stórum stíl á seinni hluta fjórða áratugar og síðar.
Þegar kom fram á 4. áratuginn breyttist afstaða Sovétstjórnarinnar til sumra þjóðernishópa í neikvæða átt. Sú þróun bitnaði einkum á áðurnefndum „aðkomuþjóðum“, þar sem meirihlutinn bjó utan landamæranna, og einkum og sér í lagi voru þjóðir á vesturlandamærum Sovétríkjanna í hættu. Aðdraganda hinnar nýju stefnu má m.a. rekja til samyrkjuherferðarinnar. Skömmu eftir að hún hófst, eða um haustið 1929, höfðu nokkur þúsund Volgu-Þjóðverjar haldið til Moskvu og krafist þess að mega flytja til Kanada. Niðurstaðan varð sú að um helmingur fékk að fara, aðrir voru reknir aftur heim, en málið stuðlaði að því að Volgu-Þjóðverjar urðu verr úti en ella í samyrkjuherferðinni og eftir þetta var tryggð þeirra við Sovétríkin dregin í efa sbr. harkalegt hlutskipti þeirra í seinni heimstyrjöldinni.
Á sama tíma gerði svipuð ólga vart við sig meðal Pólverja, Finna, Letta, Grikkja o.fl. þjóðarbrota á vesturlandamærum Sovétríkjanna þar sem einmitt voru mikil landbúnaðarsvæði. Andstaðan gegn samyrkjuherferðinni varð raunar meiri meðal þjóðernisminnihlutanna en meðal Rússa. Séstaklega voru pólskir bændur virkir og fjölmennir hópar þeirra tóku þátt í mótmælaaðgerðum við Pólsku landamærin og allmargir náðu að flýja yfir þau. Samyrkjuherferðin hafði í skyndingu breytt hinu pólitíska andrúmslofti á Sovésku landsbyggðinni og stjórnvöld vöknuðu upp við að Piedmontprinsippið virkaði ekki lengur. Dæmið hafði snúist við því nú virkaði erlenda „föðulandið“ sem segull á þjóðabrotið fremur en öfugt. Til að forða frekari pólskum flótta og hugsanlegum afskiptum pólskra stjórnvalda af stöðunni urðu vorið 1930 fyrstu fólksflutningarnir sem kenna má við þjóðernishreinsanir þegar um eða yfir 15.000 pólskar fjölskyldur, stimplaðar sem „pólskir kúlakkar“, voru fluttar frá landamærahéruðum í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi, og kom það í viðbót við áður framkvæmda kúlakkaflutninga samkvæmt almennri stefnu samyrkjuherferðarinnar. „Aðkomuþjóðir“ lentu nú undir meira eftirliti en áður. Landamæri Sovétríkjanna voru áður tiltölulega opin og fólk fluttist yfir þau báðar leiðir en nú var landamæravarsla mjög efld og komið upp sérstöku öryggisbelti meðfram öllum landamærum með ákveðnum reglum og ströngu eftirliti.[99]
Pólverjar voru „aðkomuþjóð,“ ekki ýkja fjölmenn í Sovétríkjunum. Annað gilti um stórar Sovétþjóðir eins og Úkraínumenn og Hvítrússa. Þær höfðu nánast í heild verið í Rússneska keisaradæminu byrir byltingu en Pólland náði stórum svæðum þeirra í stríðinu 1920-21. Í Úkraínu hafði Sovétstjórnin fylgt mjög staðfastri „úkraíniseringu“ á 3. áratugnum (fólst einkum í því að ráða Úkraínumenn í helstu áhrifastöður). Með henni átti m.a. að slá vopn úr höndum úkraínskra þjóðernissinna en í raun varð hún til að ýta undir úkraínska þjóðernisstefnu og aðskilnaðarstefnu. Óttinn við úkraínska þjóðernisstefnu tengdist furðu miklum ótta í Moskvu við Pólverja undir stjórn Pilsúdskís hershöfðingja en hann daðraði við þjóðernisöfl í Úkraínu. Óttinn skýrist m.a. með því að alvarlegasta innrás í Rússland eftir byltingu kom frá Pólverjum. Þá náðu herir Pilsúdskís að hertaka Kíev, höfuðborg Úkraínu. Á þriðja áratug og inn á þann fjórða var veruleg hernaðarleg hætta talin stafa af Póllandi: „Gegnum nær allt tímabil Fyrstu fimm ára áætlunar var helsta tilgreinda styrjaldarhætta talin koma frá pólsk-rúmenska bandalaginu studdu af Frakklandi,“ en heræfingar Sovétmanna árið 1936 lögðu til grundvallar þýsk-pólska innrás frá vestri.[100]
Í hinni kornríku Úkraínu urðu afleiðingar samyrkjuherferðarinnar örlagaríkar. Í Moskvu var fylgt þeirri stefnu að innheimta af kornsvæðunum allt það korn sem nauðsynlegt var til að forða hungursneyð í borgunum. Þegar korninnheimtan í Úkraínu gekk illa 1932 var það í Moskvu túlkað sem pólitísk andstaða úkraínskra þjóðerenissinna. Heimildir sýna að Stalín leit hana svo alvarlegum augum að hann taldi yfirvofandi hættu á að Sovétríkin gætu misst Úkraínu til Póllands, bæði vegna ólgunnar í Úkraínu og vegna hættu á einhvers konar íhlutun af hálfu Póllands. Engar málamiðlanir voru gerðar í korninnheimtunni – og sem kunnugt er varð mannfellir vegna hungurs 1932-33 einna verstur í Úkraínu. Þúsundir svonefndra „úkraínskra þjóðernissinna“ voru fangelsaðar, einkum pólskir ríkisborgarar, flóttamenn frá úkraínsku svæðunum innan Póllands, og í framhaldinu voru þorpsbúar heilla þorpa nærri landamærunum fluttir burt, alls um 60.000 manns, ýmist fyrir „kúlakka-skemmdarverk“ eða fyrir að vera úkraínskir þjóðernissinnar. Aðgerðir sem þessar voru auðvitað ekki líklegar til að sefa aðskilnaðarsinna.[101]
Þessar aðgerðir mörkuðu ákveðin þáttaskil í sögu valdbeitingar í Sovétríkjunum. Refsiaðgerðir sem áður grundvölluðust á stéttarlegum forsendum voru eftir þetta oftar gerðar á þjóðernislegum fosendum. Jafnframt þessu var „Piedmont-prinsippið“ endanlega numið úr gildi og litið var á þjóðernatengsl yfir sovésku landamærin sem hættuleg frekar en sem möguleika til kommúnískra áhrifa. Þetta hélst mjög í hendur við þau miklu umskipti sem urðu í sovéskri utanríkisstefnu á árunum 1933-34, í tenglum við valdatöku nasista í Þýskalandi 1933 og ennfremur með griðarsáttmála Þýskalands og Póllands 1934. Í stað sóknaranda og byltingarbjartsýni tók við krampakennd varnarstefna í utanríkismálum og viðnám gegn fasismanum varð fyrsta boðorðið. Í stað „piedmont-prinsipps“ gróf nú um sig sovésk „útlandahræðsla“, þ.e.a.s. ótti við erlend kapítalísk áhrif og mjög bar á þeim ótta á vesturlandamærunum.
Fram yfir 1932 héldu stjórnvöld sig stíft við stefnu sína í málefnum þjóðernanna, ýttu undir þjóðernislega styrkingu, svo sem uppbyggingu þjóðlegra stofnana (bóka- og blaðaútgáfu, skóla...). Á umskiptatímabili gat þjóð samtímis notið bæði jákvæðrar og neikvæðrar mismununar, var kannski flutt nauðungarflutningum en fékk síðan eigið sjálfstjórnarsvæði á nýjum stað með stjórnsýslu á eigin tungumáli, blöðum og skóla. En eftir umskiptin 1933-34 varð líklegra að refsiaðgerðunum fylgdi afnám ýmissa þjóðlegra stofnana, þ.e.a.s. að hömlur  væru settar á þjóðlega styrkingu og tjáningu.[102]
Vaxandi útlandahræðsla eftir 1933-34  bitnaði fyrst og mest á „aðkomuþjóðunum“, s.s. Pólverjum Þjóðverjum og Finnum, sem ræktu tengsl yfir landamærin sem mikilvægan þátt í eigin sjálfskennd. Árið 1935 voru nokkur þúsund fjölskyldur við pólsku landamærin fluttar nauðugar til Austur-Úkraínu. Stærstur partur þessa fólks var af pólsku eða þýsku þjóðerni. Og snemma árs 1936 var stærri hópur Pólverja og Þjóðverja, um 15.000 fjölskyldur, fluttur nauðugur frá landamærahéruðum Úkraínu og nú miklu lengra burt, þ.e.a.s. til Kasakstan. Um svipað leyti voru allt að 30.000 Finnar sendir frá Leníngrad-svæðinu til Mið-Asíu og Síberíu. Eins og um flutning Pólverja frá Úkraínu gilti um Finnana að margar þjóðlegar stofnanir á búsvæðum þeirra voru leystar upp. Aðrar þjóðir sem urðu fyrir barðinu á þjóðernishreinsunum á þessu tímabili voru m.a. Eistar, Lettar og Grikkir.[103]
Nú var ástandið orðið þannig að þjóðir „aðfluttar“ úr vesturátt höfðu fengið á sig stimpil sem ótrúir Sovétborgarar og hömlur voru lagðar á þjóðernislega sjálfstjáningu sumra þjóðabrotanna. Ennþá var þó ekki á neinn hátt hvatt til stórrússneskrar aðlögunar þegna ríkisins og stuðningur við blómgun þjóðernanna var formlega óbreyttur. Í þeim nauðungarflutningum sem hér voru nefndir var ekki nema hluti viðkomandi þjóðar fluttur. Fyrsta þjóðarbrot sem flutt var í heilu lagi voru Kóreumenn. Á miðju ógnarárinu 1937 voru þeir fluttir frá búsvæðum sínum við landamereki Kóreu til Kasakstan og Úsbekistan. Flytja skyldi þangað alla Kóreumenn og eingöngu Kóreumenn. Þeir voru á þennan hátt stimplaðir sem ótrúir Sovétborgarar, mögulegir njósnarar. Alls urðu þetta rúmlega 170 þúsund manns. Ekki var stofnað formlegt kóreskt sjálfstjórnarsvæði en samt missti fólkið ekki borgaraleg réttindi líkt og kúlakkar heldur var komið á fót kóreskum skólum, kóreskri bókaútgáfu, dagblaði og slíku í nýjum heimkynnum. Sannast sagna höfðu verið gerðar samþykktir um flutning hluta Kóreanna frá landamærasvæðunum þegar árið 1926 en stefnan í málum þeirra var reikul og lítið varð úr framkvæmdum fyrr en þetta.
Það blasir algjörlega við að skýring á flutningi Kóreumanna liggur í utanríkis- og öryggispólitískum ráðstöfunum stjórnvalda,  og þyngst munu hafa vegið áhyggjur af landakröfum og útþenslu Japana á hinum þunnskipuðu sovésku búsvæðum við Kyrrahaf þar sem Kóreumenn voru hlutfallslega stór og vaxandi hluti íbúanna, en allt frá 1921 hafði Kórea verið nýlenda Japana. Engar heimildir eru um neina þjóðernishreyfingu meðal sovéskra Kóreumanna og mun skýringin á þessum yfirdrifnu viðbrögðum fremur liggja í því að Sovétstjórnin taldi sig standa harla veikt á þessu svæði, bæði pólitískt og hernaðarlega. Martin vitnar í orðaskipti á æðstu stöðvum lögreglunnar meðan á flutningum Kóreanna stóð og segja þau nokkra sögu um hreinsanir í Sovétríkjunum. Í fyrstu stóð ekki til að flytja allt þjóðarbrotið, en aðstoðaryfirmaður NKVD skrifaði þá Jezhov: „Að skilja nokkur þúsund Kóreumenn eftir í Austurhéruðum fjær þegar meirihlutinn hefur verið fluttur burt er hættulegt af því fjölskyldutengsl Kóreumanna eru mjög sterk. Skert ferðafrelsi fyrir þá sem eftir eru mun óhjákvæmilega hafa áhrif á hugarástand þeirra svo þessir hópar verða frjór jarðvegur fyrir Japani að rækta.“ Með öðrum orðum: Við höfum farið illa með suma Kóreumenn og þurfum ekki að búast við velvild af þeirra hálfu. Þess vegna ráðum við betur við að fjarlægja þá alla en að vinsa einhvern hluta úr – og þetta varð að ráði.[104]

Flutningur Kóreumanna lagði línuna fyrir nauðungarflutninga þjóðernishópa í stórum stíl á komandi árum. Meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð fóru fram harkalegir flutningar á sex þjóðabrotum frá Kákasussvæðinu og Suður-Rússlandi til Kasakstan og í minna mæli til Síberíu. Öfl meðal þeirra áttu að hafa unnið með innrásaröflunum. Þjóðabrotin voru: Krím-Tatarar, Balkarar, Karatsjæjar, Téténar, Ingúsetar, Kalmúkar og Mesket-Tyrkir. Þar við bættust þeir Volga-Þjóðverjar sem ekki höfðu áður verið fluttir. Alls var þetta nær milljón manns.[105]
Víkur þá sögunni að hreinsununum 1937-38 og hlut þjóðabrotanna í þeim. Það kemur upp úr dúrnum að hann var mikill. Sá krappi dans hófst með allmiklum fangelsunum meðal erlendra kommúnista og pólitískra flóttamanna, einkum pólskra, á árinu 1936 (einn þeirra var Abram Rosenblum, frv. eiginmaður Veru Hertz). Þegar svo fjöldafangelsanir hófust í kjölfar herforingjaréttarhaldanna sumarið 1937, þar sem ásakanir um njósnir og erlent samæri gusu upp, varð þetta að þjóðernishreinsunum á fjöldagrundvelli, fyrst meðal Pólverja og skömmu síðar voru upprættir „njósna og skemmdarverkahópar“ meðal annarra helstu „aðfluttu“ þjóðabrotanna (Þjóðverja, Finna, Grikkja, Eista...). Á máli NKVD gengu þessar fangelsanir undir nafninu „þjóðernisaðgerðir“. Nýlegar birtar tölur frá KGB sýna að rúmlega 20% allra fangelsana á árunum 1937 og 1938 flokkuðust undir þessar „þjóðernisaðgerðir“. Og hlutfall þeirra af aftökum þessara tveggja ára var enn hærra, nefnilega 247 þúsund af alls 682 þúsundum eða 36,6%. Það er hroðalega hátt þegar þess er gætt að þessi þjóðabrot lögðu aðeins til á bilinu 1-2% af íbúatölu Sovétríkjanna. Meira að segja lítur út fyrir að hreinsanirnar miklu á árinu 1938 hafi að stærstum hluta snúist um „þjóðernisaðgerðir.“[106]
         Þróun „þjóðernisaðgerðanna“ bendir til þess að hið háværa tal um njósnir og samsæri erlendra afla á árunum 1937-38 hafi ekki eingöngu verið hentugt yfirvarp til að berja niður óþæg öfl heldur hafi það byggst á raunverulegri hræðslu við erlenda íhlutun og undirróður. Þessi „útlandaótti“ varpar einnig ljósi á gang pólitísku hreinsananna og getur skýrt það að það að réttarhöldin yfir hershöfðingjunum mörkuðu slík þáttaskil. Þá hljóp djöfullinn í spilið og pólitísku hreinsanirnar breyttu um umfang og eðli.


Niðurstöður

Opnun skjalasafna gömlu Sovétríkjanna breyttu mjög heimildastöðunni varðandi þetta risaríki. Fram komnar upplýsingar síðustu áratuga hafa staðfest þá almennu skoðun að umfang pólitískrar kúgunar í Sovétríkjunum á 4. áratugnum hafi verið æði mikið í öllum sögulegum samanburði. Fjöldi vistmanna í GULAG-búðum og fjöldi líflátsdóma sýnist liggja fyrir með bærilegri vissu og eru háar. Upplýsingarnar sýnast þó styðja mál þeirra fræðimanna sem nefndu lægri tölurnar í deilum um umfang hreinsana Stalíns, ekki þeirra sem mældu allt í milljónum og tugmilljónum. Hvað líflátsdóma snertir er augljóst að árin 1937-38 voru í algerum sérflokki.

Hver voru fórnarlömbin? Óvissan er þar nokkru meiri. Tölfræðilegar kannanir gefa þó mynd sem skýrist smám saman. Þjóðfélagshópar voru í mjög mismikilli hættu. Elítan var í meiri hættu en almennir borgarar. Sú mynd sem A. Solzhenitsyn o. fl hafa gefið, að húmanískir menntamenn hafi verið sérstök skotmörk, stenst ekki. Sá hluti elítunnar sem var flokksbundinn var í miklu meiri hættu en hinn óflokksbundni. Allra harðast úti urðu menn í hærri embættum innan flokksins sjálfs og hærri embættismenn á sviði efnahagsmála.

Áherslan á skapgerð og duttlunga Stalíns til að skýra stjórnmál 4. áratugarins hefur minnkað. Það er tilhneiging meðal yngri höfunda að tengja hreinsanirnar miklu við samfélagslegar afleiðingar umbyltingarinnar miklu kringum 1930, iðnvæðingaráhlaupið og samyrkjuherferðina og annað því tengt. Þessar stjórnvaldsaðgerðir skópu geysilega spennu í samfélaginu – einfaldlega af því hvað þær voru stórar í sniðum og settu samfélagið á annan endann – og þessi spenna átti sér fáa farvegi í sovésku stjórnmálalífi svo um hana mætti losast. Mikill vöxtur GULAG-kerfisins var mjög tengdur afleiðingum þeirrar umbyltingar, m.a. gegnum sérlög sem tengdist hungursneyðinni 1932-33. Það er niðurstaða þessa höfundar hér að Stalínstjórnin hafi haft fremur veika stöðu á 4. áratugnum og að stjórnkerfi hennar hafi verið mjög vanbúið. Það skorti bæði lögmæti og hefðarhelgun í augum þegnanna. Altént var stjórnin veik miðað við hin tröllauknu verkefni sem hún réðist í. Sérstaklega stóð hún veikum fótum á landsbyggðinni. Eitt helsta viðfangsefni hennar var að binda enda á öngþveitið sem Stalínbyltingin hafði skapað og reyna að tryggja miðstýringu sem virkaði.  Utanríkismál juku á spennu þessara ára. Eftir að hafa vanmetið hættuna af fasismanum breytti Sovétstjórnin um stefnu 1933-34 og vann ákaft að sameiginlegum öryggisaðgerðum Evrópuríkja gegn uppgangi fasismans. Efnahagsáætlunum var breytt í átt til stóraukinnar hervæðingar sem hlaut að koma niður á öðrum þáttum hagkerfisins svo sem neysluiðnaði. Fréttaflutningur var mikill af vopnaskaki við eystri og vestri landamæri ríkisins og af stríðshættunni.

Hvað kom upp á 1937-38? Að því er virðist einhvers konar stjórnarfarsleg kreppa sem setti sovéska stjórnkerfið út af sporinu. Fátt bendir til eiginlegrar pólitískrar andstöðu í efri röðum flokksins eins og margir sagnfræðingar höfðu áður ímyndað sér. Mikil átök urðu hins vegar milli hópa og hagsmuna í stjórnkerfinu. Rittersporn o. fl. segja þau hafa tengst tilraunum til að eyða öngþveiti og ná tökum á ástandinu. Þau snérust m.a. um það að skilgreina orsakir stjórnunarvandamála og skilgreina „óvini“ þá sem við var að fást. Ýmist var rótar vandans leitað í „skemmdarverkum“ utanaðkomani afla eða starfsháttum stjórnkerfisins sjálfs. Opinber áróður var mjög breytilegur að þessu leyti frá einum tíma til annars. Samsærishugsun í floksforustunni jókst mjög frá miðju ári 1936 og í þeim anda voru fyrstu Mosku-réttarhöldin haldin.

Flokkshreinsanir höfðu staðið frá 1933. Samkvæmt Getty voru þær hefðbundnar í flokknum og annars eðlis en hreinsanirnar miklu. Þær beindust að litlu leyti gegn andstöðuhópum, fremur stefndi flokksforustan þeim gegn skriffinnum í stjórnunarstöðum, en þeir að sínu leyti beindu þeim gegn óbreyttum flokksmönnum sem lágu vel við höggi. Gangur hreinsananna sýndi fram á að einnig flokknum gekk illa að fá tilskipanir framkvæmdar í neðri einingum sínum. Óánægja óx meðal óbreyttra flokksmanna og 1935 var sett af stað „lýðræðisátak“ í flokknum sem tengdi sig við þá óánægju. Það átak beindist gegn „héraðshöfðingjum“ í staðbundnum og svæðisbundnum einingum flokksins sem mynduðu „fjölskylduklíkur“ kringum sig og létu illa að stjórn frá Moskvu. Við það skerptist átakalína milli jaðars og miðju. Í tengslum við leynilegar kosningar til embætta í kommúnistaflokknum sem haldnar voru í apríl 1937 jukust einnig enn frekar átökin milli embættismanna hans og óbreyttra félaga. 

Í framhaldi af námuslysum í Síberíu haustið 1936 kom til uppgjörs við „hægfara“ stjórnendur á sviði iðnaðarmála. Í öðrum opnu réttarhöldunum í Moskvu var Pjatakov, vararáðherra og fyrrverandi trotskíisti, sakaður um „trotskíísk skemmdarverk.“ Grófar ásakanir fóru þá einnig að beinast að embættismönnum án fortíðar í pólitískri andstöðu.

Réttarhöld og hreinsanir í hernum í júní 1937 mörkuðu tímamót. Eftir þær hófust fangelsanir í stórum stíl. Stalín og félagar virðast hafa trúað á þýsk-rússnesk tengsl og samsæri meðal herforingjanna hvort sem sovéska leyniþjónustan komst að þeirri niðurstöðu á eigin spýtur eða slíkum kvitt var komið af stað af þýsku leyniþjónustunni. Skipulag Rauða hersins var samtengt skipulagi flokksins og því náin tengsl herforingja við svæðisbundna flokksforingja sem fyrirfram lágu undir vaxandi gagnrýni.

Hinar pólitísku hreinsanir 1937-38 voru sambræðingur úr annars vegar herferð leynilögreglunnar  í leit að „óvinum“ og hins vegar stríði flokksforustunnar við að laga gang stjórnkerfisins m.a. með því að ýta undir „gagnrýni að neðan.“ Þær rannsóknir sem enn hafa verið gerðar benda til að þær hafi verið pólitískt „róttækar“ í þeirri merkingu að þær hafi fyrst og fremst beinst að stjórnendum en t.d. ekki að óbreyttum flokksmönnum eða verkamönnum. Stór hluti embættismannakerfisins og efri hlutar flokksins urðu afar hart úti (Innan sviga er freistandi að bera saman við menningarbyltinguna í Kína. Síðla árs 1966 beindi Maó formaður til flokksmanna og rauðu varðliðanna kjörorðinu „beinið árásinni að höfuðstöðvunum.“ Hann gagnrýndi flokkskerfið fyrir skriffinnsku og „efnahagshyggju,“ hvatti rauðliðana til brjóta niður skrifræðið og setja sjórnmálin í forsæti og styrkja með því lýðræðsilegt alræði öreiganna. Í framhaldinu var, með blöndu af aðgerðum ofanfrá og neðanfrá, sitjandi stjórnkerfi og flokkskerfi nánast alveg vikið til hliðar. Sjá t.d. Ragnar Baldursson, Kína, 261-75).

Orsakir og drifkraftur hreinsananna miklu sýnast sem sagt hafa legið í stjórnunarkreppu hjá elítunni og í því að stjórnkerfið réði ekki við verkefni sín. En þessar pólitíku hreinsanir tóku ekki stærsta tollinn af mannslífum. Það gerðu tveir aðrir þættir hreinsananna sem voru eins konar aukaafleiðingar hinna pólitíku hreinsana og gengu undir nöfnunum „fjöldaaðgerðir“ (eða „kúlakkaaðgerðir“) og hins vegar „þjóðernisaðgerðir.“ Þær áttu það sammerkt að beinast gegn fólki sem hvorki hafði forréttindi né völd.

 „Fjöldaaðgerðirnar“ hófust samkvæmt tilskipun frá Pólitbýró í júlí 1937. Þær voru í „herferðarstíl“ þeirrar tegundar sem gilti á árunum kringum 1930 og beindust að samfélagshópum (fyrrverandi kúlökkum, prestum, trúarhópum, afbrotamönnum...) fremur en einstaklingum eða ákveðnum afbrotum. Réttarfarsþróun undanfarinna ára hafði miðast að því að eyða slíkum herferðastíl og þessi tilskipun var skyndileg kúvending þeirrar viðleitni. Eins og títt var um stalínískar herferðir fóru þessar úr böndunum hvað umfang snerti. Samkvæmt Getty virðast „fjöldaaðgerðirnar“ hafa tengst auknum réttindum til þessara jaðarhópa skv. nýrri stjórnarskrá og almennum kosningum til Æðata sovéts í desember 1937 og ótta stað- og svæðisbundinna embættismanna á landsbyggðinni við að missa tökin á ástandinum heima í héraði. Þessir embættismenn vildu koma í veg fyrir kosningarnar og svo er að sjá að leyfi til þessara kúgunaraðgerða hafi verið málamiðlun til þeirra frá hendi flokksforustunnar.

Fyrsta tæpa áratuginn eftir byltinguna var  stefna bolsévíka í málum þjóðernanna hluti af pólitískri bjartsýni þeirra og trú á mjög nálæga heimsbyltingu. Örvuð var þjóðernisleg sjálfsstyrking en búseta þjóðarbrota oft endurskipulögð sem gat falið í sér mikla fólksflutninga. Aukinna árekstara Moskvuvaldsins við þjóðernishópa gætti í kjölfar samyrkjuherferðarinnar. Utanríkisstefna Stalínstjórnarinnar breyttist 1933-34 frá byltingarbjartsýni til krampakenndrar varnarstefnu og fylgdi henni vaxandi „útlandaótti.“ Þetta nýja viðhorf bitnaði á svokölluðum „aðkomuþjóðum“ innan Sovétríkjanna, þjóðum sem áttu sér annað föðurland utan landamæranna. Sérstaklega voru það þjóðir við vesturlandamæri ríkisins sem oft voru stimplaðar sem  ótrúir Sovétborgarar. Nokkrar þeirra urðu fyrir harkalegum nauðungarflutningum þegar um miðjan áratuginn sem var undanfari meiri þjóðernishreinsana á stríðsárunum. Þegar pólitísku hreinsanirnar höfðu þróast út í fjöldaaðgerðir í kjölfar herforingjaréttarhaldanna sumarið 1937 þar sem ásakanir um njósnir og erlent samsæri gusu upp hófust einnig fjöldafangelsanir eftir þjóðernislegum línum, fyrst meðal pólitískra flóttamanna en svo meðal þjóðernissinna og fleiri sem tilheyrðu „aðkomuþjóðunum.“ Það lítur út fyrir að seinni hluti hreinsananna miklu (á árinu 1938) hafi að stærstum hluta snúist um „þjóðernisaðgerðir.“ Útlandaótti, öryggissjónarmið honum tengd og sú spenna sem orðin var í afstöðunni til sumra þjóðernisminnihlutanna geta því einnig skýrt það að réttarhöldin yfir herforingjunum urðu slíkur hverfipunktur í þróun hreinsananna sem raun bar vitni um.
[1] Grein þessi er unnin í nokkrum lotum, fyrri hluti 2002 en seinni hluti veturinn 2004–2005. Send ritstjórn Sögu sem hafði hana eitt ár en kaus að taka ekki til birtingar.
[2] C. Friedrich og Z. Brzezinski, 1965, Totalitarian Dictatorship and Autocracy.
[3] R. Conquest, Industrial Workers in USSR.
[4] Hannah Arendt, The Origins of Totalitarianism.
[5] Zbigniev Brzesinski, The Permanent Purge, 2. kafli.
[6]A. Solsjenitsyn, GULAG-eyjarnar. Hann skrifar t.d. að 6 milljónir – af alls 12 milljón föngum – hafi setið í einu í GULAG vegna stjórnmálaskoðana sinna, 2. bindi, 280.
[7] R. Conquest, The Great Terror, 430, 437, 430-447.
[8] R. Conquest talar t.d. um að Stalín hafi gert “áætlun um að eyða gömlu bolsévíkunum”, The Great Terror, 151. Sjá einnig t.d. Deutscher, Stalin, 343 og Medvedev skrifar í Let History Judge um „þaulhugsaða eyðingu þess fólks sem vann aðalstarf byltingarinnar“, 192–202.
[9] Nefna má höfundana Robert Tucker, Moshe Lewin og Stephen Cohen.
[10] Sjá umræðu um ný viðhorf í Sovétrannsóknum í The Russian Review nr. 45, 1986 og nr. 46, 1987.
[11] Skrif og útreikninga tveggja rússneskra fræðimanna um þetta efni er mest vitnað í hjá vestrænum fræðimönnum undanfarinn áratug: N. Dugin m.a. í Na boevom postu 27. desember 1989 og V. N. Zemskov m.a. í Sotsiologicheskie issledovaniia, 1991, nr. 6.
[12] Byggt á Getty, Rittersporn og Zemskov, “Victims of the Soviet penal system in the pre-war years”, 1020-21, 1048 og Wheatcroft og Davies, “Population”, 70. Sömu heimildir greina að vistmönnum GULAG-búðanna fækkaði verulega á stríðsárunum en þeim fjölgaði allhratt frá 1947 og flestir urðu þeir árin 1952 og 1953, 1,7 milljónir.
[13] S.G. Wheatcroft, “More Light on the Scale of Repression...”, 356.
[14] Getty, Rittersporn og Zemskov, „Victims...,“ 1031 og 1039. Nefna má að þegar Conquest í  The Great Terror, bls. 708-9, talar um 8 milljónir pólitískra fanga í búðunum árið 1938 er það tuttugu sinnum meira en þessar tölur segja.
[15] T.G. Rittersporn, „The Catastrophe, the Millenium and Popular Mood in the USSR,“ 65.
[16] Getty, Rittersporn og Zemskov , „The Victims...,“ 1021 og  S. G. Wheatcroft og R. W. Davies, “Population,“ 68.
[17] Å. Egge, „Hva vet vi om overdødelighet og terrorofre i Sovietunionen i 1930-årene?“, 59 og S. Fitzpatrick, Everyday Stalinism, 123–124.
[18] Getty, Rittersporn og Zemskov, „Victims...,“ 1023.
[19] J. A. Getty, The Road to Terror. Stalin and the Selfdestruction of the Bolsheviks, 588.
[20] Z. Brzezinski, The Permanent Purge, 102.
[21] Um flokkshreinsanirnar segir John Armstrong: “almennt virðast afleiðingar hreinsananna hafa verið í réttu hlutfalli við mikilvægi viðkomandi stöðu innan flokksins.” Sjá Amstrong, The Politics of Totalitarinaism: The Communist Party of the Soviet Union from 1934 to the Present, 108.
[22] Hún gefur sér að 8% af fækkuninni í hópi almennra símnotenda sé af “eðlilegum” ástæðum og sé því eiginlegt brottfall (fórnarlömb hreinsana) ekki nema 8%.
[23] Úrtak lögfræðinga var mjög lítið, aðeins 10 manns, svo útkoman verður að teljast óörugg.
[24] J. Arch Getty og William Chase, “Patterns of repression among the Soviet elite in the late 1930s: A biographical approach” í Getty og Manning (ritstj.), Stalinist Terror: New Perspectives, 225 - 246
[25] Sjá t.d. R.T. Manning, „The Great Purges in rural district: Belyi Raion revisited“ og  D.L. Hoffmann, „The Great Terror on the local level: Purges in Moscow factories, 1936-1938
[26] R.C. Allen, Farm to Factory, 5
 [27] R. W. Davies, “Industry,” 137-138.
[28] A. Nove, An Economic History of the USSR, 268.
[29] Sovéskar hagtölur sýndu fimmföldun þjóðartekna 1928-40 og telja flestir þær óábyggilegar. M. Harrison ræðir misjafna reikninga nokkurra vestrænna og rússneskra höfunda og áætlar sjálfur að hagvöxtur tímabils tveggja fyrstu 5-ára áætlananna, 1928-1937, hafi verið 60%. Sjá M. Harrison, “National Income,“ 46.
[30] M. Harrison, “National income,” 54.
[31] S. G. Wheatcroft og R. W. Davies, “Population,” 68.
[32] A. Nove, An Economic History of the USSR, 186 og Å. Egge, Fra Alexander II til Boris Jeltsin, 169.
[33] S. G. Wheatcroft, “More light on the scale of repression...,”  355-367.
[34] Egge, Fra Alexander II..., 169 og Davies, “Changing economic systems: an overview,” 22.
[35] S. Fitzpatrick, 1978, Cultural Revolution in Russia, 27. Sjá einnig R. W. Davies, The Industrialization of Soviet Russia 3, 61.
[36] T.H. Rigby, „Stalinism and the Mono-Organizational Society,“ 59-60.
[37] L. Cook, „Party and Workers in the First Five Year Plan,“ 330. Cooc bendir einnig á að þetta stéttarviðhorf breyttist verulega eftir 1932. 
[38] S. Fitzpatrick, 1982, The Russian Revolution 1917-1932, 133–134 og Lewin, "Society, State and Ideology During the First Five-Year Plan," 47.
[39]H. Kuromiya, 1988,  Stalins Industrial Revolution, 213 og Barber og Davies, “Empoyment and industrial labour,” 95-96.
[40] M. Harrison, “National income,” 51-53­.
[41] R.W. Davies, The Industrialization of Soviet Russia 3, 96
[42] H. Kuromiya, Stalins Industrial Revolution, 34-36.
[43] S. Fitzpartick, Cultural Revolution in Russia, 1928-1931, 19-22.
[44] A. Nove, An Economic History of the USSR, L. Viola, Best Sons of the Fatherland. Workers in the Vanguard of Soviet Collectivization.
[45] J.A. Getty, Origins of the Great Purges, 12-25.
[46] R. Thurston, Life and Terror.., 164-172.
[47] G,T, Rittersporn, Stalinist Simplifications and Soviet Comlications, 29-55.
[48] J.A. Getty, Origins of the Great Purges, 29
[49] J.A. Getty, Origins of the Great Purges, 145-149.
[50] R.W. Thurston, Life and Terror..., 4-15.
[51] S. Fitzpatrick, Everyday Stalinsm, 120 og G. T. Rittersporn, Stalinist Simplifications..., 246-49.
[52] Peter H. Solomon, „Local political power and Soviet criminal justice, 1922-41,“ 305-327 og R.W. Thurston, Life and Terror..., 4-15
[53] G. T. Rittersporn, Stalinist Simplifications..., 248, R.W. Thurston, Life and Terror..., 4-15 og G. T. Rittersporn, Stalinist Simplifications..., 239.
[54] A. Nove, An Economic History of the USSR, 228.
[55]R.T. Manning, „The Soviet economic crisis of 1936-1940 and the Great Purges,“ 135.
[56] R.W. Davies, “Industry,” 145 og M. Harrison, “The Second World War,” 241.
[57] R. Manning, „The Soviet economic crisis og 1936-1940 and the Great Purges,“ 136-137.
[58] G.T. Rittersporn, Stalinist Simplifications, kaflar 1–3 og sami, „Soviet politics in the 1930´s: Rehabilitating society,“ 115..
[59] Getty og Naumov, The Road to Terror, 573-76.
[60] G.T. Rittersporn, „The catastrophe, the millenium and popular mood in the USSR,“  65–66.
[61] R.W. Thurston, Life and Terror in Stalins Russia 1934-1941, 3-4.
[62] G.T. Rittersporn, The Catastrophe, the Millenium...,“ 65–66.
[63] G,T, Rittersporn, Stalinist Simplifications..., 46-47 og S. Fitzpatrick, „Workers against Bosses“,  314-15.
[64] L. Siegelbaum, Stakhanovism and the Politics og Productivity in the USSR 1935-1941, G.T. Rittersporn, Stalinist Simplifications..., 34-35 og R.W. Thurston, Life and Terror..., 172-185.
[65] R.W. Thurston, Life and Terror..., 176.
[66] G,T, Rittersporn, Stalinist Simplification..., 2. kafli og J.A. Getty, Origins..., 90-91.
[67] G.T. Rittersporn, Stalinist Simplifications, 2. kafli.
[68] J.A. Getty, The Road to Terror, 1032–1939, 7. kafli og sami, Origins..., 119–28.
[69] J.A. Getty, Origins..., 91
[70] J.A. Getty, Origins..., 2. og 3. kafli
[71] J.A. Getty, Origins..., 3. kafli.
[72] S. Fitzpatarick, Everyday Stalinism, 194-95 og R.W. Thurston, Life and Terror..., 184.
[73] R.W. Thurston, Life and Terror..., 39, 46.
[74] J.A. Getty, Origins..., 6. kafli og R.W. Thurston, Life and Terror..., 43-49.
[75] Sjá Getty, The Road to Terror.., 447 og Thurston, Life and Terror, 59. Thurston vísar m.a. í umsagnir A. Solsjenitsyns og A. Weissbergs í þessa veru.
[76] Um það sjónarmið að nasistar hafi komið falskri sök á Túkasévskí sjá John Erickson, The Soviet High Command, London 1962. Um það sjónarmið að Túkasévskí hafi í raun bruggað vél með þýskum herstjórum og hafi áformað valdarán sjá G.C. Furr, „New light on old stories about marshal Tukhachevskii: Some documents reconsidered“ í Russian History/Histoire Russe, nr. 2-3 1986. Sjá vangaveltur um báða þessa möguleika og fleiri hjá Thurston, Life and Terror..., 50-58.
[77] J.A. Getty, The Road..., 445-46. Getty vitnar í dagbækur Dimitrovs.
[78] J.A. Getty, The Road..., 22, 445.
[79] J.A. Getty, Origins..., 168.
[80] G.T. Rittersporn, „Extra-Judicial Repression and the Courts: Their Relationship in the 1930s,“ 218-20.
[81] J.A. Getty, The Road to Terror..., kafli 10. Sjá afgreiðslu miðstjórnar á máli Búkharíns bls. 412-14.
[82] D.L. Hoffmann, „The Great Terror on the local level: Purges in Moscow factories,“ 164. 
[83]  R.T. Manning, “The Great Purges in a rural district: Belyi Raion revisited“ í Russian History/Histoire Russe, 2-4 1989, 409-433. Flokksgögnin frá Smolensk hafa verið rannsökuð öðrum betur. Þau ná yfir innanflokksstarf á vesturhluta Rússneska lýðveldisins. Árið 1941 féllu þau í hendur Þjóðverjum og komust til Bandaríkjanna í stríðslok.
[84] J.A. Getty, „„Excesses are not permitted“: Mass terror and Stalinist governance in the late 1930s,“ 113, 117.
[85] G.T. Rittersporn, "Extra-Judicial Repression and the Courts: Their Relationship in the 1930s," 219.
[86] Tilvitnun í Politbýró-samþykkt frá maí 1933, sjá Getty, „„Excesses are not permitted“: Mass terror and Stalinist governance in the late 1930s,“ 119
[87] P. M. Hagenloh, „„Socially harmful elements” and the Great Terror,”  295-300 og G. T. Rittersporn, "Extra-Judicial Repression and the Courts: Their Relationship in the 1930s," 213-15.
[88] J.A. Getty, „State and society under Stalin. Konstitutions and elections in the 1930s,“ 18-35.
[89] J.A. Getty, „„Excesses are not permitted“...,“ 126.
[90] J.A. Getty, „State and society under Stalin. Constitutions and elections in the 1930s,“  32.
[91] J.A. Getty, „„Excesses are not permitted“...,“ 126.
[92] Sama heimild, 132.
[93] R. Thurston, „Life and Terror...“ 183 og G.T. Rittersporn, Stalinist Simplifications..., 52.
[94] S. Fitzpartick, „Workers against bosses“,  337-40.
[95] Yuri Slezkine, „The USSR as communal Apartment, or How a Socialist State Promoted Ethnic Particularism,“ 414–15.
[96] Sama heimild, 414.
[97] Pål Kolstø, „Stalins etniske terror: Rasisme eller raison d´etat?“ 18.  
[98] Terry Martin, „The Origins og Soviet Ethnic Cleansing“, 826
[99] Sama heimild,“ 838-39, 848
[100] L. Samuelson, Plans for Stalins War Machine, 71-72, 160.
[101] Terry Martin, „The Origins og Soviet Ethnic Cleansing“, 844-47
[102] Sama heimild, 836-42
[103] Sama heimild, 848-50
[104] Sama heimild, 840 og 850-52
[105] Pål Kolstø, „Stalins etniske terror: Rasisme eller raison d´etat?“ 14-15.
[106] Terry Martin, „The Origins og Soviet Ethnic Cleansing“, 852-56.

No comments:

Post a Comment